149. löggjafarþing — 19. fundur
 15. október 2018.
áfengisauglýsingar.
fsp. ÞKG, 116. mál. — Þskj. 116.

[17:12]
Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Herra forseti. Birtar hafa verið tvær skýrslur, önnur er frá árinu 2010 og var skilað til þáverandi fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, og er um heildarstefnu í áfengismálum, og hin er skýrsla sem nýlega var skilað til menntamálaráðherra og er um áfengisauglýsingar. Það er alveg skýrt í báðum skýrslunum að því er beint til stjórnvalda að endurskoða löggjöfina sem tengist áfengisauglýsingum vegna þess að núverandi fyrirkomulag endurspeglar ekki raunveruleikann, nútímann, fjölmiðlana, samtímamiðlana, allt það sem við stöndum frammi fyrir, og síðan er dregin fram reynsla annarra þjóða.

Í skýrslunni frá árinu 2010 er lagt mjög eindregið til við þáverandi ráðherra að heimila áfengisauglýsingar með verulegum takmörkunum, eins og t.d. Frakkar hafa gert og ég kem inn á síðar.

Fjölmiðlanefnd segir það sama og leggur til að birtingar á slíkum auglýsingum verði heimilaðar innan þess ramma sem alþjóðaskuldbindingar Íslands segja til um. Hún bendir einnig á að þetta bann þjóni vart tilgangi sínum lengur þar sem áfengisauglýsingar birtist Íslendingum í erlendum miðlum, hvort sem er í gegnum erlenda hljóð- og myndmiðla, erlenda vefi, samfélagsmiðla eða erlend blöð og tímarit. Það þekkja allir að standa úti í Eymundsson við hliðina á íslenska Glamour og erlenda Glamour og í því erlenda eru leyfðar áfengisauglýsingar en ekki í því íslenska. Við verðum að fara að horfast í augu við hvernig þetta er.

Munum við auka áfengis- og vímuefnanotkun með slíkum auglýsingum? Ég hef ekki trú á því ef við pössum upp á forvarnir og setjum skýrar reglur.

Í Svíþjóð má auglýsa áfengi með allt að 15% styrkleika ef nánari reglur um innihald og framsetningu auglýsinganna segja til um það. Í Finnlandi eru leyfðar auglýsingar á áfengi með styrkleika upp að 22% með nánari takmörkunum. Í Danmörku eru áfengisauglýsingar heimilaðar en þær eru líka háðar mjög ströngum takmörkunum um efni og framsetningu.

Frakkar voru einna fyrstir til að setja lög sem heimila áfengisauglýsingar árið 1991. Síðan er komin nokkuð mikil reynsla á lögin. Þar má ekki beina auglýsingum að ungu fólki og ekki má auglýsa í sjónvarpi og kvikmyndahúsum. Frakkar hafa reynt að meta áhrif af reglunum og rannsóknir sýna að neysla fólks breyttist ekki við setningu laganna. Hins vegar ímynd breyttist áfengis því að í áfengisauglýsingum eru vörumerki auglýst og ýtt undir samkeppni innan iðnaðarins frekar en að hvatt sé til aukinnar neyslu.

Við vitum að innlendir framleiðendur eru í mjög erfiðri stöðu varðandi það að auglýsa vöru sína. Þeir kvarta iðulega undan því að þeir hafi fáar sem engar leiðir (Forseti hringir.) til að benda á þá frábæru vöru sem íslenska varan er, hvort sem hún er bjór eða annað. (Forseti hringir.) Framleiðendur eru takmörkunum háðir.

Þess vegna vil ég (Forseti hringir.) spyrja hæstv. ráðherra: Er hún reiðubúin til að beita sér fyrir því að gerð verði breyting á löggjöf á því sviði þannig að við nálgumst nútímann aðeins meira en nú er?



[17:16]
dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir þessa ágætu fyrirspurn sem gefur okkur tækifæri til þess að ræða stöðu áfengismála heildstætt og auðvitað stöðu einkarekinna fjölmiðla líka, en fyrirspyrjandi kýs að tengja þessi mál saman, þ.e. tengja stöðu einkarekinna fjölmiðla við áfengisauglýsingar.

Ég vil taka það fram að í þeirri skýrslu sem fyrirspyrjandi og hv. þingmaður vék að og kom út nýverið, í ágúst á þessu ári, skýrslu nefndar sem menntamálaráðherra skipaði, vakti athygli mína að í niðurstöðukafla hennar er, þvert á það sem hv. þingmaður nefndi, lagst gegn því að heimila áfengisauglýsingar. Það vakti undrun mína vegna þess að í skýrslunni sjálfri er fjallað nokkuð ítarlega um áfengisauglýsingar og ekki verður annað séð og er sérstaklega tekið fram þar að meiri hluti nefndarmanna hafi verið þeirrar skoðunar að taka ætti auglýsingabannið til endurskoðunar. Ég veit ekki hverju það sætir að niðurstaða nefndarinnar sem skilað var til ráðherra er önnur en niðurstaða meiri hluta nefndarmanna.

Ég er sammála hv. þingmanni um að það sé fullt tilefni til að endurskoða þetta auglýsingabann. Fyrir því liggja ýmsar ástæður. Það bann sem kemur fram í 20. gr. áfengislaga er nokkuð afdráttarlaust, en er þó þannig að það býður upp á ýmiss konar sniðgöngu ef svo mætti að orði komast. Menn þekkja auglýsingar um léttöl, menn þekkja það þegar menn nefna jafnvel heilu veitingastaðina eftir íslenskum framleiðsluvörum, og þegar áfengisinnflytjendur eða framleiðendur taka að sér að styrkja ýmsa viðburði. Allt eru þetta auglýsingar með óbeinum hætti. Ég tel fara miklu betur á því að menn hafi leyfi til annars konar auglýsinga en með þessum óbeina hætti þannig að það sé gagnsærra um hvað er verið að ræða þegar auglýst er, menn átti sig betur á því þegar verið er að auglýsa áfengi heldur en nú er.

Ég er hins vegar ekki alveg reiðubúin til þess að taka upp þessi mál á þeim forsendum að þetta sé eitthvert sáluhjálparatriði fyrir einkarekna fjölmiðla í samkeppnisstöðu við ríkið. Ég held að fjárhagsvandi og vandi einkarekinna fjölmiðla stafi ekki af því að þeir geti ekki auglýst áfengi. Ég er ekki einu sinni viss um að það muni hjálpa einkareknum fjölmiðlum svo mikið, að sjálfsögðu eitthvað auðvitað, að fá inn auglýsingatekjur af þessari vöru. Vandi einkarekinna fjölmiðla felst miklu frekar í því og fyrst og fremst að mínu mati í þeirri samkeppnisstöðu sem einkareknir fjölmiðlar eru í gagnvart ríkinu. Ég held að það sé mjög brýnt að skoða það. Ég er reyndar ekki sannfærð um að það dugi einhver bútasaumur með ýmsum einangruðum aðgerðum til þess að mæta þeim vanda. Ég held að vandinn liggi fyrst og fremst í aðkomu ríkisins að fjölmiðli, eða fjölmiðlum vegna þess að Ríkisútvarpið rekur fjölmargar rásir. Ég tel brýnt að skoða það miklu frekar.

Ég tek líka undir það hjá hv. þingmanni að það þarf að líta til samkeppnisstöðu íslenskra framleiðenda. En fyrst og fremst held ég að það þurfi að líta á þetta mál, þ.e. áfengisauglýsingar, út frá sjónarmiðum neytenda, vegna þess að neytendur eiga rétt á því og það er til hagræðis fyrir neytendur að þekkja þær vörur sem eru á boðstólum. Ég tel að það sé heppilegt að afnema áfengisauglýsingabannið á þeim grunni.

Ég held hins vegar að það þurfi líka að skoða áfengisauglýsingabannið í ljósi einkaréttar ríkisins. Það kemur alltaf upp aftur og aftur einkaréttur ríkisins í þessum málum, bæði í útvarpsrekstri og áfengissölu. Ég held að það ætti að vera forgangsatriði í þessu að afnema einkasölu ríkisins á áfengi. Með þeim hætti væri hægt að koma til móts við þetta neytendasjónarmið sem ég nefndi án þess að heimila víðtækar áfengisauglýsingar vegna þess að með aðkomu einkaaðila að sölu á áfengi gæfist bæði framleiðendum og söluaðilum tækifæri til þess að nálgast sína viðskiptavini með beinni og markvissari hætti en nú er gert með þeim óbeinu duldu auglýsingum sem við þekkjum í dag.



[17:21]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Hér kemur hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir ítrekað upp og hvetur okkur til að vera nútímaleg og horfast í augu við staðreyndir. Staðreyndin er sú að hér erum við að reyna að sinna öflugum forvörnum. Staðreyndin er sú að við erum að berjast við aukna neyslu ungmenna á áfengi og vímuefnum. Staðreyndin er sú að aukið aðgengi og aukinn sýnileiki hvetur til meiri neyslu. Það er staðreynd og það segja okkur sérfræðingar á sviði forvarna og aðgerða gegn vímuefnum, að aukið aðgengi og aukinn sýnileiki auki neyslu. Það er beint samband þar á milli.

Ég vona að við tökum mark á orðum þeirra sem vinna með ungmenni og börn og þeim sem vinna að forvörnum, hvort sem það er umboðsmaður barna, Heimili og skóli, landlæknir eða aðrir.

Svo hlýtur að vera hægt að reka hér einkarekna fjölmiðla án þess að auglýsa brennivín.



[17:22]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Hér erum við að ræða áfengisauglýsingar. Ég vil nálgast verkefnið svipað og hv. þm. Þórunn Egilsdóttir gerði áðan, út frá lýðheilsusjónarmiðum. Áfengi er ekki eins og hver önnur neysluvara eða markaðsvara og tugir skýrslna frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni taka undir þann málflutning, auk þess sem það er afstaða flestra ef ekki allra fagfélaga í heilbrigðisþjónustu á Íslandi til málsins.

Ég hvet því ráðherra til að stíga varlega til jarðar í því. Uppgjöf annarra eða eftirgjöf vegna meintra þarfa markaðarins á ekki að verða okkur afsökun til þess að elta uppi vitleysur annarra.



[17:23]
Hildur Sverrisdóttir (S):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir umræðuna. Ég tel að aðstöðumunurinn í málinu sé áhugaverður. Ég held að aðstöðumunur fyrir einkarekna fjölmiðla sé ekki svo ýkja mikill. Ég tek undir það með hæstv. dómsmálaráðherra að það sem standi einkareknum fjölmiðlum fyrir þrifum sé hversu fyrirferðarmikið RÚV er á auglýsingamarkaði. Ég held að það þurfi að ræða í því samhengi.

Hins vegar er mjög verðugt að ræða hvernig við nálgumst þá sjálfsögðu kröfu að hægt sé að auglýsa löglega vöru. Mig langar að minna á að á þessu þingi og síðasta og þarsíðasta voru gerðar breytingar á svokölluðum áfengislögunum þar sem mikil vinna var lögð í að búa þannig um hnúta að áfengisauglýsingar beindust ekki að börnum og að forvarnaígildi þeirra væri alltaf haft í huga.



[17:24]
Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka fyrir umræðuna sem ég held að sé mjög tímabær. Ég þakka bæði fyrirspyrjanda, hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, og hæstv. ráðherra fyrir svörin.

Mér þykir áhugavert að velta því upp að þótt við séum með bann við því að auglýsa löglega vöru, eins og áfengi er, þá held ég að alveg ljóst sé miðað við þær sögur og fréttir og kvartanir sem hafa borist að töluvert er um áfengisauglýsingar með einhverjum hætti, þrátt fyrir það ágæta bann.

Ég var aðeins að gúgla og sá t.d. umræðu um Egils Gull mótið, golfmót, og ekki þarf annað en að horfa á vinsæla þætti, hvort sem það er á netinu, í sjónvarpi, á snapchat eða öðrum samskiptamiðlum, áfengi kemur oft fyrir. Þá má velta fyrir sér: Stenst slíkt bann þær kröfur sem við gerum í nútímasamfélagi með öllum þeim samskiptamiðlum sem við höfum?



[17:26]
Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að lýsa yfir ánægju minni með svör ráðherra þótt ég geri mér fyllilega grein fyrir því að það eru ýmsar vangaveltur sem hún þarf að setja upp þegar hún setur mál sitt fram. Það er líka ljóst á þeim stjórnarþingmönnum frá Vinstri grænum og Framsóknarflokknum sem tóku þátt að þeir eru alfarið á móti öllum breytingum þegar kemur að því, sem kemur reyndar ekki á óvart.

Ég deili að vissu leyti sjónarmiðum ráðherra um Ríkisútvarpið, það er stærsti þátturinn varðandi auglýsingamarkaðinn hjá fjölmiðlum. Ég deili líka því sjónarmiði að neytendur hafi ríkra hagsmuna að gæta þegar kemur að auglýsingum og ekki eingöngu íslenskir framleiðendur heldur einnig íslenskir neytendur.

Ég vil minna á að 1. mars 1989 var bjórinn leyfður. Síðan 1991 hefur fyrirtækið Rannsóknir & greining verið með reglubundnar mælingar á áfengis- og vímuefnaneyslu íslenskra ungmenna. Við erum komin frá því að vera með mestu neysluna árið 1991 í þá minnstu núna. Það segir okkur að forvarnir skila sér þrátt fyrir að við aukum framboð á markaði, eins og gerðist með tilkomu bjórsins árið 1989.

Það sem ég hvet til er að við horfumst í augu við ástandið á áfengisauglýsingamarkaði. Það er einfaldlega ekki nútímalegt og uppfyllir ekki þær kröfur sem við getum gert til ramma utan um slíka starfsemi. Verum raunsæ og horfumst í augu við það. Við getum farið aðrar leiðir eins og þá að heimila auglýsingarnar með verulegum takmörkunum, sem hefur gefist vel hjá öðrum þjóðum. Við eigum að líta til þess.

Ég hvet ráðherra til að beita sér í málinu. Ég get huggað hæstv. ráðherra með því að að sjálfsögðu mun koma hingað frumvarp innan tíðar sem felur í sér afnám ríkiseinokunar á áfengissölu á Íslandi.



[17:28]
dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil taka sérstaklega fram, vegna þess að ég orðaði það þannig að einhvers konar sniðganga væri í tengslum við auglýsingabannið, að það er þó með þeim hætti að 20. gr. áfengislaga heimilar tiltekna tegund af auglýsingum á áfengi, m.a. notkun firmanafns í tilteknum tilvikum sem og styrki og annað auk þess sem auglýsa má léttöl. Það er því ekki mikið um að menn brjóti ákvæði áfengislaga um bann við áfengisauglýsingum, þótt auðvitað komi þau mál upp af og til og þá er reynt að taka á því.

Einn hv. þingmaður nefndi áðan að forvarnirnar skiptu máli og samhengi væri milli auglýsinga og neyslu. Ég get í sjálfu sér alveg tekið undir það. Ég held að ósanngjarnt sé að halda því fram að auglýsingar hafi engin áhrif vegna þess að menn myndu ekki auglýsa nema af því að þeir trúa því að auglýsingar hafi áhrif. Ég þekki hins vegar ekki hvort það hafi þau áhrif að fá nýja neytendur að borðinu eða breyti aðeins neyslumynstri þeirra sem þegar neyta. Það kunna að vera til margar og misvísandi rannsóknir á því og ástæðulaust að hengja sig í þær.

Við þekkjum reykingar á svokölluðum vatnsgufum. Þetta er einhvers konar veip sem ég kann ekki að lýsa og hefur aldrei verið auglýst en er orðið viðtekin venja á meðal ungs fólks á Íslandi í dag. Ég held að ástæða sé til að hafa áhyggjur af því. Þetta gerðist án þess að nokkur hafi auglýst þau tæki og tól sérstaklega.

Ég vil líka nefna að gott er að hafa í huga að auglýsingar erlendis, í Evrópu, eru mjög takmarkaðar. Þær eru bundnar mjög ströngum skilyrðum og ég tel sjálfsagt að skoða hvort þar séu einhver viðmið sem við gætum tekið upp. Fyrst og fremst hef ég þó áhuga á því að einkasala ríkisins á áfengi verði afnumin þannig að (Forseti hringir.) einkaaðilar geti tekið söluna og þar með markaðssetningu á áfengi í eigin hendur, sem þeir myndu væntanlega gera á miklu beinni hátt en með auglýsingum í dagblöðum eða sjónvarpi.