149. löggjafarþing — 20. fundur
 16. október 2018.
störf þingsins.

[13:31]
Ingibjörg Þórðardóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að ræða samgönguáætlun. Í henni er margt gott og þar eru fjölmörg brýn verkefni sett á dagskrá. Öllum samgöngubótum ber að fagna hvar sem er á landinu.

Þegar gerður er samanburður á milli svæða, nú eða kjördæma, er misræmið hins vegar hrópandi. Austfirðingar eru sannarlega ekki kátir. Framlag til Austurlands, bæði á fyrsta og öðru tímabili, er áberandi lítið. Austfirðingum finnst þeir skildir eftir og brýn verkefni eru sett aftarlega í forgangsröðinni.

Ef við berum áætluð útgjöld til Austurlands saman við Suðurland eru tölurnar sláandi. Á fyrsta tímabili fær suðursvæði 1 rúma 8 milljarða króna og suðursvæði 2 um 11,5 milljarða. Það eru tæpir 20 milljarðar. Á sama tímabili fær austursvæðið innan við 4,4 milljarða. Ef við tökum Hornafjarðarsvæðið út fyrir sviga, enda tilheyrir það svæði Suðurkjördæmis, fær Austurland 1,36 milljarða.

Ef rýnt er í þær framkvæmdir á Austurlandi sem ráðherra setur í forgang kemur verulega á óvart að ekkert virðist vera hlustað á vilja Austfirðinga sjálfra. Á síðasta aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi voru öll sveitarfélög á Austurlandi sammála um þau verkefni sem setja ætti í forgang, það væru göng til Seyðisfjarðar og vegurinn yfir Öxi.

Ég reikna með því að þingmenn þekki hve einangraðir Seyðfirðingar eru oft á vetrum og þekki þá miklu umferð sem fer nú um erfiðan veg yfir Öxi. Hvorugt þessara verkefna sést á fimm ára áætlun hæstv. samgönguráðherra.

Við Austfirðingar höfum stundum fengið að heyra að við séum ósamstiga og að við getum ekki komið okkur saman um hvaða verkefni í fjórðungnum eigi að vera í forgangi. Nú hefur sveitarstjórnarfólk lagt vinnu í að forgangsraða verkefnum. Það er mikilvægt að hlustað sé á það fólk. Ég skora á hæstv. ráðherra og þingheim allan að gera breytingar á samgönguáætlun svo hægt verði að sjá bæði veg yfir Öxi og göng til Seyðisfjarðar á fimm ára áætlun.



[13:34]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Um þessar mundir eru verkalýðsfélögin að leggja fram kröfugerð sína vegna kjarasamninga sem eru lausir í lok þessa árs eða upphafi þess næsta. Krafan um styttri vinnuviku hefur verið þar áberandi, bæði sem beint kjaramál en einnig vegna áhrifanna á hamingju og velferð fjölskyldna almennt. Flokksráð VG samþykkti um síðastliðna helgi ályktun um styttingu vinnuvikunnar ásamt fleiri ályktunum sem snúa að launa- og kjaramálum. Skoðum aðeins betur styttingu vinnuvikunnar.

Undirritaður hefur í mörg ár talað fyrir þessari leið sem mikilvægri samfélagslegri breytingu auk þess ávinnings sem er augljós fyrir almenning. Sú áhersla sem að undanförnu hefur aukist á umhverfisvænni lífshætti, minna vistspor og neyslu auk þess að hvetja til nýtingar frekar en sóunar, er einnig áberandi í þessum hugmyndum.

Veltum fyrir okkur hvort einstaklingur sem hefur minni vinnuskyldu er ekki líklegri til að nota umhverfisvænni aðferðir við að koma sér til og frá vinnu. Skoðum hvort fjölskylda sem hefur meiri tíma saman er ekki líklegri til að hreyfa sig meira, ganga á milli staða, ganga út í búð frekar en keyra, elda frá grunni frekar en kaupa unnar matvörur vegna tímaskorts. Myndum við gefa okkur tíma til að endurvinna í meira mæli, gera við hluti sjálf og jafnvel að læra það? Myndum við gefa okkur til að rækta okkar eigið grænmeti eða gera okkur ferð gangandi eða hjólandi til að kaupa umhverfisvænni vörur? Stytting vinnuvikunnar gæti þarna orðið hvati fyrir grænan hagvöxt. Gefum okkur tíma til að njóta náttúrunnar í meira mæli og öðlast þannig dýpri skilning á gildi hennar og mikilvægi.

Ef við svörum þessum spurningum játandi ætti það að hvetja okkur til að berjast af krafti fyrir styttri vinnuviku og taka þannig undir þessa sjálfsögðu kröfu verkalýðshreyfingarinnar.



[13:36]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Staða launþegahreyfinga í landinu á sér djúpar og sterkar rætur. ASÍ er yfir 100 ára og sagan lýsir ótrúlegum framförum í réttindum fólks og aðbúnaði öllum. Verkalýðshreyfingin hefur lagt grunninn að velferðarsamfélagi okkar í dag og tekist hefur í samvinnu við ríki, sveitarfélög og atvinnurekendur í kjarasamningum að koma okkur í fremstu röð velferðarsamfélaga. Það sem okkur þykja sjálfsögð réttindi í dag á vinnumarkaði hefur náðst með baráttu og samstöðu þess fólks sem ruddi brautina í réttinda- og kjarabaráttu liðinna ára. Við getum nefnt hluti eins og veikindarétt, orlofsrétt, atvinnuleysisbætur, lífeyris- og sjúkrasjóði, félagslegt húsnæði, fæðingarorlof, símenntunarstöðvar, orlofshús og áfram mætti telja. Allt þetta eigum við óeigingjarnri baráttu forfeðra og formæðra okkar að þakka sem ruddu brautina til þeirra sem standa nú í stafni fyrir launþegasamtökin í landinu.

Nú stendur verkalýðshreyfingin frammi fyrir mörgum erfiðum áskorunum í nútímasamfélagi eins og t.d. félagslegum undirboðum, hagnýtingu fólks og mansali, vondum aðbúnaði erlends verkafólks, glímu við starfsmannaleigur og kennitöluflakk. Við skulum standa með verkalýðshreyfingunni í komandi kjarasamningum og horfa til þeirra lægst launuðu á vinnumarkaði, vinna sameiginlega að því að koma húsnæðismálum í lag og byggja áfram undir velferðarkerfið okkar og laga það sem úrskeiðis hefur farið.

Þeir sem staðið hafa í fremstu röð í kjarabaráttu síðustu hálfa öld eru einn af öðrum að hverfa yfir móðuna miklu. Nú er genginn á vit feðra sinna öflugur málsvari verkafólks, verkalýðskempan Pétur Sigurðsson frá Vestfjörðum, fyrrum forseti Alþýðusambands Vestfjarða og fyrsti formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga. Hann sat einnig á Alþingi sem varaþingmaður Alþýðuflokksins. Blessuð sé minning hans. Megi ný verkalýðsforysta taka sér menn eins og hann sér til fyrirmyndar í komandi kjarabaráttu.



[13:38]
Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mannauðsvísitala Alþjóðabankans er sett saman til að hvetja þjóðir heims til að fjárfesta meira í því sem skilar raunverulegum hagvexti í framtíðinni, menntun og heilsu einstaklinga, svo að þeir geti sinnt störfum framtíðarinnar.

Samkvæmt mannauðsvísitölunni er Ísland í neðsta sæti á Norðurlöndunum og það er menntunin sem dregur okkur þangað. Ísland er líka í neðsta sæti meðal Norðurlandanna þegar kemur að fjárframlögum til háskólastigsins. Mannauður Íslands mun því fara á mis við rúmlega fjórðung af mögulegum ævitekjum sínum. Hagvöxtur Íslands framtíðarinnar verður töluvert minni en hann gæti orðið og lífsgæði Íslendinga minni.

Í stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstjórnar segir að fjárframlög til háskólanna eigi að ná meðaltali OECD-ríkjanna árið 2020 og Norðurlandanna árið 2025. Fjármálaáætlun þeirrar sömu hæstv. ríkisstjórnar endurspeglar hins vegar ekki þau orð. Til að ná meðaltali OECD-ríkjanna fyrir árið 2020 þyrfti að auka útgjöld um 3 milljarða til háskólastigsins á næstu tveimur árum.

Það er sama hvaða reikningstrix og PR-brellur eru dregnar upp úr hatti hæstv. ríkisstjórnar, það er bara ekkert verið að gera. Það blasir nefnilega við í frumvarpi til fjárlaga 2019 að ríkisstjórnin hyggst ekki einu sinni ná eigin markmiðum sem sett eru fram í fjármálaáætlun sömu hæstv. ríkisstjórnar, sem þó voru ekki sérstaklega háleit.

Í frumvarpi til fjárlaga 2019 er raunhækkun á rekstrarframlögum háskólanna 152,6 millj. kr. Það er hálft prósent. Það er hin raunverulega upphæð að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum. Fjármagn á hvern nemanda mun ekki aukast samkvæmt fjárlagafrumvarpinu, ekki nema með fækkun nemenda á háskólastigi.

Er það virkilega markmið hæstv. ríkisstjórnar að fækka nemendum á háskólastigi á Íslandi?



[13:40]
Jóhann Friðrik Friðriksson (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp í ræðustól Alþingis til að vekja athygli á grafalvarlegri stöðu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Íbúar hafa búið við falskt öryggi um langt skeið og er nú mál að linni. Heimilislæknakerfið á Suðurnesjum er einfaldlega ekki til og sérfræðiþjónusta takmörkuð. Í mati embættis landlæknis á gæðum og öryggi HSS, sem kom út 2017, er dregin upp dökk mynd af starfseminni.

Í henni segir, með leyfi forseta:

„Mönnun lækna og hjúkrunarfræðinga er ónóg og má lítið út af bera til að öryggi sé hugsanlega ógnað vegna ófullnægjandi mönnunar. Heilsugæslan er augljóslega undirmönnuð af fagfólki, sérstaklega er ástandið slæmt í geðteymi og meðferðarteymi barna.“

Þetta var staðan 2017. Nú er ég hræddur um að hún sé enn verri. Starfsfólk er örþreytt og verulegur kostnaður fellur til vegna veikinda. Reyndir hjúkrunarfræðingar segja upp störfum, enda er vinnuumhverfið og álagið þeim ofviða.

Samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni hefur íbúum á starfssvæði hennar fjölgað um 60% frá 2005 og um 18% bara á síðustu tveimur árum. Þess má geta að hér er ótalin gríðarleg fjölgun ferðamanna en HSS þjónustar einnig alþjóðaflugvöllinn.

Maður skyldi ætla að óhjákvæmilega væri verið að auka í þegar kemur að fjárveitingum til HSS en svo er ekki. Samkvæmt því fjárlagafrumvarpi sem Alþingi hefur nú til meðferðar er raunaukning fjárveitingar til HSS minnst og heildarfjárveiting á hvern íbúa einnig lægst. Ég er furðu lostinn yfir þeirri staðreynd.

Ég hvet heilbrigðisráðherra og þingheim allan til þess að gyrða sig í brók og tryggja viðunandi heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum í eitt skipti fyrir öll.



[13:43]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Í dag verða lagðar fram á Alþingi breytingar á lögum um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði. Flutningsmenn frumvarpsins eru átta konur úr öllum flokkum sem sitja á þingi.

Frumvarpið fjallar um hvort og hvenær sjúklingar eiga að fá upplýsingar sem kunna að koma fram í erfðarannsóknum sem gerðar eru í vísindaskyni og varðað geta heilsu þeirra, læknisfræðimeðferð eða lífslíkur. Þar getur verið um að ræða lífshættulegt ástand eða mikla sjúkdómsáhættu sem hægt er að bregðast við.

Í lögum um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði er ekki tekið á því hvernig meðhöndla skuli slíkar upplýsingar. Brýnt er að bæta úr því og þess vegna leggjum við fram þetta frumvarp. Lagabreytingin felur í sér að ábyrgðarmaður rannsóknar eigi þegar í stað að tilkynna það til embættis landlæknis ef greining finnst á alvarlegum sjúkdómi eða niðurstöður fást sem sýna yfirgnæfandi líkur á að um alvarlegan sjúkdóm sé að ræða sem hægt er að bregðast við.

Embætti landlæknis skal þá upplýsa viðkomandi einstakling og veita honum ráðgjöf um möguleg meðferðarúrræði. Einstaklingur getur svo hvenær sem er ákveðið að hann vilji ekki fá slíkar upplýsingar og tilkynna þá ósk sína til embættis landlæknis.

Með þessu frumvarpi er sem sagt leitast við að tryggja rétt þeirra sem vilja fá að vita og einnig hinna sem ekki vilja vita. Nefna má sem dæmi um nauðsyn frumvarpsins að Íslensk erfðagreining á dulkóðuð gögn um ríflega 1.000 Íslendinga sem hafa sjúkdómsvaldandi stökkbreytingu BRCA2-erfðavísis. Stökkbreytingin hefur í för með sér mikla áhættu á arfgengu brjóstakrabbameini og krabbameini í eggjastokkum, en 86% líkur eru á að konur sem greinast með hana fái illvígt krabbamein. Hlutfallið er ívið lægra hjá körlum. Ýmsar ráðstafanir má gera til að minnka líkur á að þau fái krabbamein ef þeim er gert viðvart í tæka tíð.

Reynsla af vefgáttinni arfgerd.is hefur sýnt að sú aðferð dugar ekki til að ná til allra sem gera þarf viðvart og þess vegna er lagabreytingin nauðsynleg.



[13:45]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Það var algjörlega sláandi að fylgjast með þeim Sigurbjörgu og Þóru Björgu í þættinum Lof mér að lifa í ríkissjónvarpinu. Kafað var ofan í sögurnar og atburðina á bak við myndina Lof mér að falla og þar blasir við vandi fíkilsins svart á hvítu. Frá því að kvikmyndin Lof mér að falla var frumsýnd fyrir tæpum þremur vikum og fram að því að við sáum heimildarmyndina Lof mér að lifa hafa verið 54 útköll vegna ofneyslu. Við erum svo sem með ágætt kerfi sem byggist á því að við treystum stofnunum á borð við Vog til að sinna þeim sem þurfa að komast í meðferð við fíknivanda. Gott og vel, en það er ekki nóg. Af hverju er ekki gert betur og ráðist á þá biðlista sem allt að því blöstu við okkur í beinni útsendingu? Það er þyngra en tárum tekur að fylgjast með manneskjum sem vilja fá hjálp og vilja hætta að neyta eiturlyfja rekast á veggi í kerfinu aftur og aftur og aftur. Þeim er vísað fram og til baka á nýja staði.

Það vantar alla eftirfylgni. Afvötnun er eitt skref. Það að lifa lífinu eftir afvötnunina er allt annað. Þegar manneskjur eru langt leiddar í sjúkdómum eru flestar þeirra peningalausar, heimilislausar, vinirnir lifa í nákvæmlega sama heimi, baklandið er brotið og fjölskyldan búin að gefast upp á þeim áður en þær ná bata. Það vantar því mikið upp á stoðir sem taka við einstaklingum sem eru brotnir og þurfa hjálp við að lifa lífinu eftir þá rússíbanareið sem fíknin getur verið.

Kerfið þarf því að fara að viðurkenna fíkn sem skelfilegan sjúkdóm, grafalvarlegan sjúkdóm, og koma fram við hann sem slíkan. Þess vegna segi ég að við verðum að gera betur. Þetta er ekki stjórnar- eða stjórnarandstöðumál heldur samfélagsmál. Við eigum að styðja stjórnvöld hverju sinni í því að gera betur því að við þurfum að taka utan um vandann, við þurfum að ráðast (Forseti hringir.) að rótum hans og hætta að plástra kerfi sem veldur augljóslega ekki verkefninu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[13:48]
Hildur Sverrisdóttir (S):

Herra forseti. Í gær las ég frétt um að þrír fræðimenn hefðu fengið ritrýndar og birtar fræðigreinar sem voru frá upphafi til enda algjör þvæla. Ein þeirra fékk meira að segja verðlaun. Þrátt fyrir að mér finnist þetta mjög fyndið er það grafalvarlegt. Þetta er alvarlegt vegna þess að það er svo lýsandi fyrir stöðuna sem við búum við. Magnið af misgóðum upplýsingum er nánast óþrjótandi og allt of lítið um að þær séu sannreyndar, enda fer traustið þverrandi. Falsfréttir eru staðreynd og vantraust gagnvart upplýsingum er mikið. Algrím býr til bergmálshella. Hlustun á milli hópa minnkar.

Við í þessum sal getum gert okkar til að spyrna við þeirri þróun með því að fara sjálf vel með staðreyndir. Héðan af þinginu er haldið á lofti miklu af staðhæfingum sem rata í fjölmiðla og gárast þaðan út í samfélagið sem staðreyndir. Fólk á að geta treyst þeim þótt það hafi auðvitað á þeim mismunandi skoðanir.

Forseti. Tilgangurinn hér og nú er ekki að nefna dæmi eða benda á einhverja sérstaklega, enda kæmi okkur eflaust seint saman um hvað væri hvað í því. Tilgangurinn er einfaldlega að fá að nefna að við erum almennt nógu ósammála til að rökræða mjög mikið og mjög hátt. Við getum alveg unnið vinnuna okkar og skipst á skoðunum án þess að bjaga staðreyndir. Hversu mikið sem það kann að helga meðalið, hversu mikið sem við trúum á málstaðinn mun það smátt og smátt sverfa enn frekar að trúverðugleika nauðsynlegs samtals í samfélaginu.



[13:50]
Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Herra forseti. Um hvað ætla ég að tala hér í dag? Af hverju ekki að tala um þá sem senda okkur þingmönnum bréf, skeyti, tölvupósta, SMS og áhyggjur sínar? Þannig er að sem þingmaður fær maður orðsendingar frá fólki úti í samfélaginu og við erum svo heppin að það er talsvert um að fólk er að benda á ýmislegt sem betur má fara.

Það má greina á þessum póstum að það er enn afskaplega mikil reiði í samfélaginu eftir bankahrunið og aðstæður fjölda fólks eru enn afar bágbornar, bæði þess vegna og einnig almennt. Við megum ekki gleyma því að nær 10.000 heimili fóru í gegnum nauðungarsöluferli á árunum eftir hrun, fyrir utan þá fjölmörgu sem þurftu að yfirgefa heimili sín eftir samninga við lánastofnanir. Þau sár eru mörg hver ógróin.

Þessar orðsendingar bera það margar hverjar með sér að fólk upplifir sig í reiðileysi í kerfinu, fær hvergi svör, úrlausnir eða hjálp. Einn sendandi hefur í næstum sex ár sent okkur öllum þingmönnum, starfsmönnum í stjórnsýslunni og dómstólunum pósta vikulega, neyðarkall um hjálp. Það er mikilvægt að hlusta á fólk og ef unnt er hitta þessa aðila og heyra milliliðalaust um áhyggjur þeirra, vandamál og baráttu.

Herra forseti. Það er eins augljóst og ég stend hér að það á eftir að gera upp afleiðingar bankahrunsins á þann hátt að fórnarlömbum þess verði gerð fullkomin skil á aðgerðaleysi stjórnvalda í garð þeirra sem gleymdust þegar verið var að endurreisa fjármálakerfið, því að fjármálakerfið var endurreist en ekki þau fjölmörgu heimili og fjölskyldur sem urðu undir þungavinnuvélum lánastofnana á þessum tíma.

Það er ekki í boði að stinga hausnum í sandinn.



[13:52]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Fyrir viku síðan veitti Alþingi sjávarútvegsráðherra bráðabirgðaleyfi til þess að veita starfsleyfi til fiskeldis fram hjá öllum venjulegum ferlum. Í þeirri umræðu kom fram að í raun og veru væri verið að veita sjávarútvegsráðherra sambærilega heimild og umhverfisráðherra hefði. Þá fór ég að klóra mér aðeins í hausnum og fór að skoða heimild umhverfisráðherra, hvaðan hún kæmi.

Ég sé ekki betur en að sú heimild hafi komið inn með breytingartillögu frá umhverfis- og samgöngunefnd í maí á sl. ári án þess að nokkur útskýring væri á þeirri breytingartillögu, á því heimildarákvæði. Ekkert er fjallað um það í nefndarálitinu og ekkert í framsöguræðunni. Það er enginn rammi utan um þessa heimild ráðherra, vald hans til að fara með þessa undanþáguheimild frá t.d. Árósasamningnum.

Takmörkun á valdi ráðherra er í rauninni á okkar borði hvað lagasetningu varðar. Við setjum framkvæmdarvaldinu lög, ákveðnar og skýrar reglur um það hvar þeirra mörk liggi, hvar þeirra valdheimildir liggi. Þegar svona tillögur koma frá Alþingi en ekki frá frumvarpinu um breytingar á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir verður maður að spyrja af hverju svona breytingartillaga geti komið fram án útskýringa þegar við hér erum persónulega ábyrg gagnvart framkvæmdarvaldinu og eftirliti með því. Það starfar í okkar umboði og undir okkar eftirliti. Þegar við setjum framkvæmdarvaldinu ekki ramma um þessar mjög svo opnu heimildir verðum við að spyrja okkur mjög stórra spurninga. Við verðum að kalla eftir umfjöllun sérfróðra aðila um þetta mál.



[13:54]
María Hjálmarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Mig langar aðeins að vitna í Kim Larsen, með leyfi forseta:

„Jeg kan ikke forstå, hvad en regering skal gøre godt for, hvis det ikke er for at hjælpe de svage. De stærke skal sgu nok klare sig.“

Eða svo ég þýði það yfir á íslensku:

„Ég skil ekki til hvers ríkisstjórn er ef ekki til að hjálpa þeim sem minna mega sín. Þau sterku munu bjarga sér.“

Foreldrar eru framkvæmdastjórar barna sinna. Þeir eiga að passa upp á að þeim vegni vel, að þau fái þá aðstoð sem þau þurfa. En hvað ef örðugleikar koma upp? Við sem foreldrar eigum að vernda börnin okkar og gera allt sem við getum til að þeim vegni vel. Hvað ef foreldrarnir hafa ekki kost á að tryggja velferð barna sinna? Hvert er þá öryggisnetið?

Ég vil ekki búa í samfélagi þar sem einungis börn þeirra vel lesnu og ákveðnu fá nauðsynlega þjónustu. Það á ekki að bitna á börnum ef foreldrarnir eru ekki í stakk búnir til að berjast fyrir réttindum þeirra. Það á ekki að vera falið hver réttindi okkar eru og það á ekki að vera þannig að við þurfum að lesa í gegnum lagabálka til að berjast við kerfið.

Kerfið á að þjónusta börn, upplýsa um vellíðan þeirra og tryggja þarf jafnan rétt og aðgengi að lífsgæðum sem í boði eru án tillits til efnahags, fötlunar, móðurmáls, fjölskyldugerðar eða félagslegrar stöðu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[13:55]
Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Þann 10. október sl. ályktaði stjórn Öryrkjabandalagsins um starfsgetumat. Það væri gaman að vita hversu mörg okkar í þessum sal hafa kynnt sér þá ályktun. Það er í stuttu máli þetta sem hún felur í sér: Öryrkjabandalag Íslands er alfarið á móti starfsgetumati í því formi sem það er í í dag. Hvers vegna? Vegna þess að það byggist í raun ekki á neinu öðru en að skapa óöryggi, ótta og vanlíðan hjá öryrkjum almennt.

Hvað á það t.d. að þýða að bjóða fólki upp á að fara í starfsgetumat — hver segir hvað það er, 25% starfsgeta, 50% starfsgeta? Farðu út að vinna, þú ferð á hálfar bætur, við ætlum að reyna að koma því þannig fyrir að þú fáir hálfar bætur því að eins og staðan er í dag er bara styrkur upp á 30.000–40.000 kr. ef fólk er metið til 50% starfsgetu.

En hvar fær maður þá vinnu, hæstv. forseti? Hvar skyldi vinnuna vera að hafa? Það er eiginlega hvergi. Hjá Vinnumálastofnun eru nú yfir 400 umsóknir öryrkja sem óska eftir því að komast út á vinnumarkað í hlutastarf. En það er bara ekki í boði.

Það er ekki nóg að búa til kerfi og ýta til hliðar kerfi sem Öryrkjabandalagið segir að það sé mun sáttara við, það sé öruggara og betra og tryggara, sérstaklega ef tekið yrði utan um það kerfi sem við búum við í dag og það tryggt betur, yrði fært nær þörfum öryrkja og gert skilvirkara og án allra þessara skerðinga.

Það sem við höfum haft á borði hjá okkur núna er t.d. króna á móti krónu skerðing og það virðist vera þverpólitísk samstaða um að afnema hana. Auðvitað bíður maður spenntur eftir að sjá hvað úr því verður þegar upp er staðið.

Ég segi alltaf að bjartsýni og bros bjargi deginum og það er þess vegna sem ég stend hér. Ég hef trú á því að í þessum sal sé samansafn af góðu fólki sem vill sannarlega taka saman höndum og rétta okkar minnstu bræðrum og systrum hjálparhönd til að gera þeim lífið bærilegra í okkar fallega landi.



[13:58]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Um helgina var tekin fyrsta skóflustunga, reyndar voru þær nokkrar, að nýjum meðferðarkjarna Landspítalans. Þetta eru mikilvæg tímamót og fagnaðarefni að þessum áfanga hafi verið náð. En það er um leið áminning fyrir okkur um að við erum að fara hér af stað í eina stærstu opinberu framkvæmd seinni tíma með kostnaðaráætlun upp á um 55–60 milljarða kr. Vert er að hafa í huga að að meðaltali fara opinberar framkvæmdir um 70% fram úr kostnaðaráætlun. Verði það raunin í þessu mikilvæga verkefni mun meðferðarkjarninn ekki kosta 60 milljarða heldur 100 milljarða, eða 40 milljörðum meira en við gerum ráð fyrir hér í dag.

Ég ætla að vona að eftirlit með þeirri framkvæmd verði betra en raunin hefur verið í opinberum framkvæmdum til þessa. Ég vona líka að framkvæmdin verði betri og okkur öllum til heilla þannig að við þurfum ekki að standa í þeim sporum, að verklokum eftir um sex ár, að þessi hafi orðið raunin enn eina ferðina. Það er vert að hafa þetta í huga í þeirri umræðu sem er einmitt þessa dagana, mikilvægri umræðu, um kostnaðaraðhald í opinberum framkvæmdum. Dæmin eru endalaus.

Sporin hræða í þessum efnum. Við erum þessa dagana að ljúka við byggingu nýs sjúkrahótels á þessum sama reit með kostnaðaráætlun upp á 2 milljarða. Verkið er þegar komið 18 mánuði fram yfir áætluð verklok og engar upplýsingar fást um hvaða kostnaðarauka það hefur haft í för með sér. Þetta er ekki trúverðugt þegar við leggjum af stað í margfalt dýrari framkvæmd við sjúkrahúskjarnann sjálfan. Það er mikilvægt að fá við því fullnægjandi svör hver er endanlegur kostnaður sjúkrahótelsins, en ég vona svo sannarlega að framkvæmdin við meðferðarkjarnann sjálfan gangi betur, bæði tímalega séð en ekki síður hvað kostnaðinn varðar.



[14:00]
Þorgrímur Sigmundsson (M):

Herra forseti. Ég kem hér upp í fyrsta skipti. Það eru sannarlega mörg mál sem brenna á mér, mál sem skipta miklu. Ég geri mér samt grein fyrir því að á þessum stutta tíma kemst ég ekki yfir nema fáein atriði. Ég verð þó að nefna dæmi.

Þessa dagana er verið að halda áfram með uppbyggingu á Landspítala við Hringbraut sem ég hygg að séu einhver þau alvarlegustu mistök sem gerð hafa verið um langa hríð. Ég tel að við sem þjóð séum ekki búin að bíta úr nálinni með það klúður. Það er með ólíkindum að hægt sé að nefna hér flokka sem seldu þetta fyrir ráðherrastóla.

Ég verð að nefna nýlega framkomna samgönguáætlun, en í henni er fyrirbærið borgarlína tekið fram yfir nauðsynlegar vegabætur úti á landi. Það er nefnilega, herra forseti, að víða úti á landi þarf fólk að sætta sig við að keyra ónýta vegi. Ég nefni Brekknaheiði í því sambandi, brúna yfir Skjálfandafljót, Suðurfjarðaveg og að sjálfsögðu er hægt að nefna ótal fleiri. Það sem mér gremst þó mest er pólitískt kjarkleysi kjörinna fulltrúa þegar kemur að landsbyggðinni. Það er endalaus bútasaumur sem ýmist er kallaður brothættar byggðir, efnahagslega köld svæði eða fleira þess háttar. Þetta er vissulega viðleitni til að hjálpa þessum svæðum en það breytir ekki því að nálgunin er að mínu mati röng. Við eigum að gera þeim fyrirtækjum og fólki sem kýs að búa á landsbyggðinni kleift að vera þar. Við þurfum ekki einu sinni að finna upp hjólið.

Ég nefni sérstaklega Nordic Powerhouse-verkefnið í Bretlandi. Við þurfum að beita sérstökum skattaívilnunum við nýframkvæmdir á landsbyggðinni. Ég nefni þá leið sem Norðmenn fara með mismunandi sköttum eftir búsetu. Ég kalla eftir pólitískum kjarki til að fara leiðir til að koma til móts við landsbyggðina. Væri það ekki sjálfsagt mál að lækka skatta þeirra sem búa úti á landi? Eru þeir að fá það sama í þjónustu og aðrir þrátt fyrir að í mörgum tilfellum leggi þeir a.m.k. jafn mikið til þess? Það er nefnilega svo að í mörgum tilfellum kostar það fólk á landsbyggðinni gríðarlegt fé að nýta sér þá þjónustu sem allir eiga að hafa jafnan aðgang að. (Forseti hringir.)

Hvað er t.d. að því að hafa lægri skatta á nýframkvæmdum á efnahagslega köldum svæðum og hvetja þannig til uppbyggingar?



[14:03]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Tjáningarfrelsið er undirstaða lýðræðisins. Mig langar að fagna því að á samráðsgátt Stjórnarráðsins séu fram komin svokölluð IMMI-frumvörp sem síðar verða lögð fram á Alþingi. Af því tilefni vil ég minnast þess að frumvörpin eru afsprengi vinnu sem fór af stað við ályktun Alþingis árið 2010, en 1. flutningsmaður tillögunnar var þáverandi hv. þm. Birgitta Jónsdóttir.

Ég mun fjalla um frumvörpin efnislega þegar þau koma hingað inn en ég vil reyna að endurvekja neista sem kviknaði eftir efnahagshrunið 2008. Þótt hrunið hafi falið í sér gríðarlegt tjón fyrir samfélagið allt bjó það samt til ákveðinn drifkraft. Fyrir hrun var ríkjandi sú hugmynd að allt væri svo fínt að við þyrftum ekkert að leggja á okkur til að vera best í einhverju, en eftir hrun snerist það við og samfélagið áttaði sig á því að til þess að standa undir orðstír þarf að eiga hann skilið.

Þrátt fyrir myrkrið urðu nokkrir draumar til úr öskunni og úr varð m.a. metnaður til að við yrðum fremst í tjáningar- og upplýsingafrelsi og til fyrirmyndar, best. Heimurinn var fullfljótur að fagna og hefur Ísland síðan þá notið þess orðstírs að vera fremst í vernd uppljóstrara og tjáningar- og upplýsingafrelsis. Því miður hefur sá orðstír verið fullkomlega óverðskuldaður og staðan í dag er reyndar frekar pínleg þegar við sem hugsum mikið um málaflokkinn höfum heyrt lofræðurnar frá útlendingum sem ekki vita betur. Við höfum í rauninni fengið að njóta ágóðans af þeim orðstír án þess að lyfta litla fingri til að verðskulda hann. Smátt og smátt áttar fólk erlendis sig á því.

Þess vegna er gríðarlegt fagnaðarefni að frumvörpin séu á leiðinni inn í þingið. Við getum enn þá raungert drauminn um að Ísland verði ekki bara nógu gott heldur best í málefnum tjáningar- og upplýsingafrelsis og ekki bara notið orðstírsins eins og við höfum gert síðan 2010 heldur einnig verðskuldað hann.

Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir sýndan metnað.