149. löggjafarþing — 22. fundur
 18. október 2018.
fátækt.

[10:53]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Í gær var baráttudagur gegn fátækt, baráttudagur til útrýmingar á fátækt. Hver var umræðan á Alþingi á þeim degi? Engin. Eina umræðan sem fór fram var undir störfum þingsins þegar ég tók til máls og fór með ljóð Steins Steinarrs um brauðið og grautinn.

Enn er þessi barátta, enn eru börn útilokuð frá mötuneytum grunnskóla.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Er stefna ríkisstjórnarinnar í málefnum fátæktar þöggun? Hún neitar að sjá fátækt, hún neitar að hlusta á fátækt, hún neitar að tala um fátækt á baráttudegi gegn fátækt.

Það er verið að tala um vopnaskak NATO hér en á sama tíma er króna á móti krónu skerðing notuð sem fjárhagslegt vopn á öryrkja til að lemja inn í þá starfsgetumat, sem þeir hafa ekkert með að gera og vilja ekki. Hvernig getur það samrýmst stefnu Vinstri grænna ásamt þeim flokkum sem eru með þeim í ríkisstjórn sem lofuðu allir, þeir lofuðu því statt og stöðugt, að afnema krónu á móti krónu skerðingu? Það eru komin tvö ár síðan eldri borgarar fengu krónu á móti krónu skerðingu. Hvenær ætlar ríkisstjórnin að standa við loforðið? Í fyrsta lagi 1. janúar 2020.

Ef þau geta ætla þau að troða starfsgetumati ofan í kokið á öryrkjum, starfsgetumati sem þeir hafa ekki fengið að koma neitt að og eiga bara að kyngja. Athugið það að margir, flestir sem fá krónu á móti krónu skerðingu, munu aldrei fara í starfsgetumat. Þetta starfsgetumat kemur þeim ekkert við.

Þess vegna spyr ég forsætisráðherra: Ætlar hún að sjá til þess að afnema krónu á móti krónu skerðingu?



[10:56]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Það er auðvitað ekki boðlegt að tala hér um að ríkisstjórnin neiti að tala um fátækt, hlusti ekki á umræðu um fátækt, beinlínis þaggi niður umræðu um fátækt. Þetta er ekki boðlegur málflutningur, herra forseti. Þetta er eitt af stóru málunum sem við ræðum oft í þessum sal, ekki bara þingmenn stjórnarflokkanna heldur þingmenn allra flokka. Þingmenn allra flokka hafa látið sig þessi mál varða og ég hlýt að benda hv. þingmanni á það að það á ekki að tala niður þá umræðu sem hér fer fram um fátækt, um félagslegt réttlæti og jöfnuð þar sem ég hef ekki orðið vör við annað en að þingmenn allra flokka hafi látið til sín taka.

Hvað er ríkisstjórnin að leggja til, eins og ég nefndi áðan í fyrra svari, í tengslum við fjárlagafrumvarpið núna? Til að mynda skattbreytingar sem gagnast best hinum tekjulægri, hækkun persónuafsláttar umfram neysluvísitölu, hækkun barnabóta sem mun skipta mestu máli fyrir tekjulágar barnafjölskyldur, því að hv. þingmaður nefnir börn. Ég er sammála hv. þingmanni. Sá fjöldi barna í þessu samfélagi sem býr við fátækt er ólíðandi og þess vegna skiptir máli hvað við erum að gera en hv. þingmaður á ekki að koma hér og láta eins og aðrir neiti að tala um fátækt. Það er ekki svo.

Hv. þingmaður fór svo að ræða þann hóp sem hann situr í, eftir því sem ég best þekki, um málefni örorkulífeyrisþega þar sem sitja fulltrúar þingflokka, fulltrúar Öryrkjabandalagsins og Þroskahjálpar, fulltrúar ráðuneytis og fulltrúar aðila vinnumarkaðarins. Þar skiptir að sjálfsögðu máli að við sem hér erum skiljum þá stöðu að það eru ekki allir örorkulífeyrisþegar sem eiga þess nokkur færi að geta sótt sér tekjur á hinum almenna vinnumarkaði. Það kerfi sem við byggjum upp má ekki verða til þess að ýta fólki út á vinnumarkað sem ekki getur unnið vegna veikinda, örorku eða fötlunar. Það kerfi sem við byggjum upp má ekki verða til þess að við skerðum einstaklinga sem hugsanlega fá ekki vinnu (Forseti hringir.) þótt þeir geti hugsanlega sótt sér einhverja vinnu, þeir fá ekki vinnu. Að sjálfsögðu skiptir máli að það kerfi sem við byggjum upp stuðli að samfélagslegri þátttöku fólks í öllum þjóðfélagshópum og tryggi framfærslu, en það á ekki að snúast að mínu viti um að troða neinu ofan í kokið á neinum.



[10:58]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Þetta voru rýr svör hjá hæstv. forsætisráðherra. Hver var umræðan hjá ríkisstjórninni í gær, á degi fátæktar? Hver var hún? Engin. Og hvar er umræðan um krónu á móti krónu? Það er rangt að tala um að samráðshópur um endurskoðun almannatrygginga hafi eitthvað með starfsgetumatið að gera. Starfsgetumatið er alveg sérútgáfa. Það voru sérfræðingar sem komu að því. Öryrkjar fengu ekki að koma nálægt því. Hvar er þá allt tal um að tala ekki um okkur án okkar? Það var ekki virt. Svo eru menn alveg steinhissa á að Öryrkjabandalagið neiti að kyngja þessu. Auðvitað neitar það; það er ólíðandi að nota fjárhagslega svipu, krónu á móti krónu, til að þvinga fólk í eitthvað sem það vill ekki.

Ég spyr: Ætlar ríkisstjórnin að sjá til þess, strax 1. desember, að hætt verði við krónu á móti krónu skerðingu þannig að fólk á lægstu bótum og launum geti haldið smájól en þurfi ekki að fara í biðraðir eftir mat?



[10:59]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ef hv. þingmanni fundust svörin rýr get ég sagt það að þau voru í ætt við spurningu hv. þingmanns. Ég fór hér yfir það starf sem stendur yfir í þessum samráðshópi og mér er kunnugt um afstöðu Öryrkjabandalagsins í þessum málum.

Þau hafa gert mjög vel grein fyrir henni. Ég átti fund með þeim síðast í gær, hv. þingmanni til upplýsingar, þar sem við fórum yfir nákvæmlega þessi sjónarmið sem snúast um hvernig við getum aukið samfélagslega þátttöku örorkulífeyrisþega, hvernig við getum búið til mannvænlegt kerfi sem gerir það að verkum að þeir sem geta sótt sér tekjur á almennum vinnumarkaði fái til þess tækifæri. Það er sjálfstætt vandamál því að það eru ekki endilega mörg störf í boði.

Eitt af því sem forsvarsmenn Öryrkjabandalagsins hafa bent á er að hér er mun lægra hlutfall fatlaðs fólks á vinnumarkaði en annars staðar í Evrópu. Af hverju er það? Hljótum við ekki að spyrja okkur að því af hverju vinnumarkaður okkar, bæði sá opinberi og sá almenni, hefur þróast með þeim hætti að mun lægra hlutfall fatlaðs fólks er á vinnumarkaði hér en annars staðar?

Viljum við breyta því? Já, ég vil gjarnan sjá kerfi sem stuðlar að því. Þar með á ekki að svipta fólk framfærslu sinni. Það snýst ekki um það. Og einmitt þess vegna er þessi starfshópur starfandi til þess að fá fram þau sjónarmið sem forsvarsmenn Öryrkjabandalagsins hafa gert mjög skýra grein fyrir, bæði við mig og vafalaust félagsmálaráðherra sem fer fyrir þessum hópi.