149. löggjafarþing — 23. fundur
 23. október 2018.
aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum, 1. umræða.
stjfrv., 157. mál (vinnutími starfsmanna sem veita notendastýrða persónulega aðstoð). — Þskj. 157.

[15:04]
félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Í almennu tali hafa þessi lög stundum verið nefnd vinnuverndarlögin og mun ég nýta mér það í máli mínu hér eftir.

Meðan á samstarfsverkefni ríkis, sveitarfélaga og heildarsamtaka fatlaðs fólks um notendastýrða persónulega aðstoð hefur staðið hefur jafnframt verið í gildi ákvæði til bráðabirgða í vinnuverndarlögum. Þar hefur verið kveðið á um að með samkomulagi samtaka aðila vinnumarkaðarins sé heimilt að víkja frá ákvæðum laganna um hvíldartíma og næturvinnutíma þeirra starfsmanna sem veita einstaklingum þjónustu á grundvelli verkefnisins.

Gildistími þessa ákvæðis rann út þegar lögin um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir tóku gild 1. október sl. og er því ekki lengur unnt að semja um frávik frá vinnutímareglum vinnuverndarlaga. Til þess að tryggja markmið laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nái fram að ganga þykir nauðsynlegt að áfram sé í vinnuverndarlögum heimild til að semja um rýmri vinnutíma en ákvæði laganna gera ráð fyrir vegna þeirra starfsmanna sem veita þjónustu á grundvelli laganna.

Ástæðan er sú að samkvæmt lögum er talið nauðsynlegt, í það minnsta að unnt sé í tilteknum tilvikum að skipuleggja þjónustu á þann hátt að ætla megi að vinnutími starfsmanna rúmist ekki innan almennra vinnutímareglna. Er því í frumvarpi þessu lagt til að áfram verði unnt að semja um rýmri tíma til þessara tilteknu starfsmanna, hér eftir sem hingað til. Er mikilvægt að árétta að það hefur verið með þeim hætti.

Virðulegur forseti. Ég vil taka það fram að það er þeim sem hér stendur ekki ljúft að standa hér og mæla fyrir frumvarpi sem heimilar að gerð séu slík frávik frá vinnutímareglum sem litið er á sem lágmarksréttindi á vinnumarkaði. Ég hef boðað hér á Alþingi að við ætlum að taka félagsleg undirboð á vinnumarkaði föstum tökum og er ég því í mjög sérstakri stöðu að mæla fyrir frumvarpi þar sem gert er ráð fyrir að tilteknar tilslakanir verði heimilaðar þegar kemur að lögbundnum hvíldartíma hjá þröngum hópi þátttakenda á vinnumarkaði.

Við vinnslu frumvarpsins var óskað sérstaklega eftir umsögn frá samtökum aðila vinnumarkaðarins sem og frá Vinnueftirliti ríkisins sem fer með framkvæmd vinnuverndarlaga. Það er skemmst frá því að segja að Vinnueftirlit ríkisins, ASÍ, BHM, BSRB, leggjast í raun gegn því að þetta frumvarp verði að lögum þar sem ekki séu til staðar veigamikil rök fyrir því að víkja með þessum hætti frá réttindum.

Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga kemur hins vegar fram að sambandið styðji efni frumvarpsins. Vekur sambandið jafnframt athygli á því að verði ekki gert ráð fyrir sveigjanleika hvað varðar vinnutíma umræddra starfsmanna geti það aukið líkur á að notendastýrð persónuleg aðstoð verði að einhverju leyti að svartri atvinnustarfsemi þar sem framkvæmdin fari á svig við efni þeirra skriflegu samninga sem gerðir eru.

Eftir að hafa farið vel yfir þessi ólíku sjónarmið sem komið hafa fram við vinnslu frumvarpsins hef ég vissan skilning á afstöðu þessara aðila og ekki síst verkalýðshreyfingarinnar. Ég tel hins vegar óhjákvæmilegt að framlengja að svo stöddu heimildina til að semja um rýmri vinnutíma í þessum tilteknu tilvikum svo áfram unnt sé að veita umrædda þjónustu á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir eins og verið hefur á meðan á tilraunaverkefninu hefur staðið.

Að mínu mati er mikilvægt að þessi tími verði nýttur til að greina þjónustuna og finna leiðir til að skipuleggja hana þannig að hún rúmist innan laga og reglna. Þess vegna tel ég þann kost í stöðunni skástan að leggja til að enn um sinn verði miðað við heimild til frávika í ákvæði til bráðabirgða í stað þess að leggja til efnisbreytingar á þeim ákvæðum laganna sem um ræðir. Þannig að um er að ræða framlengingu á bráðabirgðaheimildum.

Þá hef ég þegar óskað eftir tilnefningum frá samtökum aðila vinnumarkaðar, Vinnueftirlitinu, Þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands, um fulltrúa í nefnd sem ég hef ákveðið að skipa í þessu sambandi. Hún mun hafa það hlutverk að fylgjast með hvort réttindi þeirra starfsmanna sem starfa munu við framkvæmd þjónustu á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir séu virt, svo sem hvað varðar vinnutíma, veikindaleyfi, orlof og vinnuaðstæður.

Ég mun enn fremur óska eftir því að þessi nefnd komi með tillögur um breytingar á skipulagi þjónustunnar, þannig að hún rúmist innan ramma vinnuverndarlaganna og eftir atvikum á lögum eða reglugerðum, gerist þess þörf. Af því er varðar réttindi og starfsumhverfi þeirra starfsmanna sem hér um ræðir og til að bæta aðeins við þá hefur okkur Íslendingum oft gefist vel að horfa til nágrannalandanna, Norðurlanda, þegar við erum að horfa til löggjafar, m.a. á þessu sviði eins og öðrum. Það er mjög erfitt að fá upplýsingar um það með hvaða hætti þetta er leyst í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi og það virðist vera í þessum löndum að þar horfi menn í gegnum fingur sér og þar séu vinnuverndarlög einnig brotin. Þannig við Íslendingar þurfum að finna upp hjólið í þessu og það er það sem verður að gerast á næstu árum.

Við megum alls ekki feta þá braut að fólk sem starfar á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, starfi við lakari aðbúnað en aðrir þátttakendur á vinnumarkaði. Ég tel afar mikilvægt að Alþingi taki höndum saman til þess að koma í veg fyrir að svo verði og hef því ákveðið að leggja fram þetta frumvarp, þrátt fyrir andstöðu m.a. verkalýðshreyfingarinnar. Með því vonast ég til að við getum í sameiningu fundið lausn til framtíðar litið þar sem gætt verði sjónarmiða þeirra sem nýta sér umrædda þjónustu sem og þeirra sem veita þjónustuna. Aukin réttur eins má ekki og á ekki að rýra rétt annars til frambúðar.

Að lokum legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar að lokinni þessari umræðu.



[15:10]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. ráðherra fór í ræðu sinni yfir þá tilvistarlegu krísu sem hann og embætti hans, vinnumálaráðherra, skulum við segja, lendir í þegar það er metið svo að framlengja þurfi svona ákvæði. Ég hef aðallega samúð — eða við skulum frekar segja skilning á þessari krísu frekar en ég hafi mikla samúð með henni. En það er nú annað.

Það sem mig langar hins vegar að inna ráðherrann eftir er þetta: Nú er uppi í samfélaginu allhávær krafa um styttingu vinnuvikunnar. Maður veltir fyrir sér með hvaða hætti það muni blandast inn í starf þeirra sem vinna við NPA-þjónustu og samninga, vegna þess að þegar og ef — við skulum bara segja: þegar vinnuvikan styttist, við skulum segja að það gerist jafnvel í næstu kjarasamningum, stígum við enn frekar á tær þeirra sem hafa verið að berjast fyrir þessari vinnuvernd, þ.e. að vinnulotur séu ekki of langar. Mig langar aðeins að heyra það hjá hæstv. ráðherra hvort þessum sjónarmiðum hafi verið velt upp í ráðuneytinu og hvort eitthvað sé verið að vinna með það í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins.



[15:12]
félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, það er ákveðin klemma í þessu máli. Sú þjónusta sem við höfum ákveðið að veita — við erum ekki búin að móta með hvaða hætti við getum leyst það til framtíðar hvernig skipulagi vinnunnar verður háttað. Ég bendi á að í rauninni er þessi heimild ekki að renna út núna. Hún rann út 1. október sl. þannig að það sem af er þessum mánuði hefur engin regla verið í gildi hvað þetta snertir og í raun er þar um ólöglega starfsemi að ræða. Það er því gríðarlega mikilvægt að þetta mál komi inn í þingið. Það er þess vegna sem það kemur hingað í stað þess að láta þetta óátalið. Síðan þurfum við að vinna það hratt og vel. Þess vegna er lagt til að þetta verði bráðabirgðaákvæði en ekki framtíðarúrræði í lögunum og svo þurfum við að skoða með hvaða hætti þetta verður leyst til frambúðar.

Það er mjög sérstakt starf að sinna notendastýrðri persónulegri aðstoð. Því er ekki hægt að líkja við neitt annað starf á vinnumarkaði. Við þurfum að horfa til þess hvernig við getum búið um þá starfsmenn sem sinna þessari vinnu. Þar verðum við að sjálfsögðu líka að horfa áherslna sem núna eru varðandi styttingu vinnuvikunnar og aðra þá þætti sem eru til umræðu í tengslum við kjarasamninga. Ég vænti þess og legg áherslu á að nefndin sem taka á við boltanum núna og hafa eftirlit með þessum þáttum hafi jafnframt það hlutverk að leita leiða til að sjá hvernig hægt er að skipuleggja vinnuumgjörð þeirra einstaklinga sem sinna notendastýrðri persónulegri aðstoð þannig að hún rúmist innan laga og reglna. Það á við um styttingu vinnuvikunnar eins og aðra þætti.



[15:14]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Já, þetta er ákveðin klemma sem við erum í þarna. Ráðherra kom inn á að ákvæðin væru sannarlega til bráðabirgða, giltu til ársloka 2020 svo við skulum gera ráð fyrir að ef samið verður um styttingu vinnuvikunnar verði það nú vonandi fyrir þann tíma.

En þá komum við að hinu málinu. Núna er það þannig að sólarhringsrúlla í umönnunarþjónustu kostar á ársgrundvelli 5,2 störf, ef ég man rétt, eitthvað þar um bil. Við styttingu vinnuvikunnar förum við upp í nærri því sjö störf ef við förum eftir ýtrustu vangaveltum um styttingu vinnuvikunnar. Og einhvern veginn þurfum við sem samfélag að mæta því. En einmitt í þeirri þjónustu sem þarna er um að ræða erum við oft og tíðum háð viðverunni. Við erum háð því að einhver sé á staðnum og það getur aldrei verið minni en einn.

Þá langar mig í seinna andsvari að fá að inna hæstv. ráðherra eftir því hvort ráðuneytið hafi eitthvað velt því fyrir sér að það geti þurft að taka upp samninginn við sveitarfélögin varðandi prósentuna, þ.e. 25:75 skiptinguna, þegar og ef við förum yfir í það að þurfa jafnvel fleiri starfsmenn til að sinna á grundvelli styttingar vinnuvikunnar.



[15:16]
félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Rétt eins og þingmaðurinn kemur inn á mun stytting vinnuvikunnar auðsjáanlega krefjast fleiri stöðugilda á hverju ári í öllum störfum þar sem krafist er sólarhringsþjónustu. Það gefur líka augaleið að það kostar meiri fjármuni. Þar sem fjármunir sem ætlaðir eru í þetta koma bæði frá ríki og sveitarfélögum má að sjálfsögðu gera ráð fyrir því að sá aðili sem ber stærri hluta kostnaðarins, í þessu tilfelli sveitarfélagið, geri kröfu á hendur ríkinu um að fá aukið fjármagn til að sinna því verkefni. Það hefur hins vegar ekki komið til tals. En ég vænti þess að þegar menn fara að setjast yfir með hvaða hætti löggjöfin og skipulagið á að vera til frambúðar hvað þann þátt snertir að þau sjónarmið sem snúa að fjármagni og kostnaðarskiptingu muni koma upp af hálfu sveitarfélaganna. En ekki hefur verið tekin nein afstaða til þess vegna þess að málið er einfaldlega ekki komið inn á inn á borð velferðarráðuneytisins enn þá.



[15:18]
Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið snertir efni þessa frumvarps fyrst og fremst þá starfsmenn sem veita munu þjónustu á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, sem og þá einstaklinga sem njóta þjónustunnar.

Við vorum með annað mál þessu nátengt í þinginu sl. vetur sem sneri að þjónustu við fatlað fólk og var nokkuð viðamikið og kallaði á ígrunduð vinnubrögð og hugsun. Hér er þá komið framhaldið, ef svo má segja, þar sem áhersla er á starfsmenn, starfsaðstæður og þá einstaklinga sem njóta.

Í þessari greinargerð er sagt að til að tryggja eðlilega lagasetningu NPA, eða notendastýrðrar persónulegar aðstoðar, sé mikilvægt að koma því inn að áfram verði fjallað um heimild til að setja rýmri vinnutíma en ákvæði laganna gera ráð fyrir, vegna þeirra starfsmanna sem veita umrædda þjónustu.

Það gefur augaleið að í einhverjum tilvikum verður vinnutími starfsmanna rýmri en hefðbundinn, eða með öðrum orðum: áfram verður hægt að semja um frávik frá ákvæðum laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum hvað varðar vinnutíma þeirra starfsmanna sem veita munu þjónustu á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, eins og verið hefur meðan á tilraunaverkefninu hefur staðið.

Ég nefni þetta atriði sérstaklega af því að það er það sem við verðum að ná niðurstöðu um. Eins og fram kom í ræðu hæstv. ráðherra hefur Vinnueftirlit ríkisins lagst gegn því að framlengja þessi frávik frá lágmarksreglum um vinnutíma þar sem ekki lengur sé um bráðabirgðaverkefni að ræða. Undir það sjónarmið taka svo ASÍ og BSRB og Bandalag háskólamanna lýsir yfir andstöðu sinni við áframhaldandi undanþágu frá hvíldartímaákvæðum vinnuverndarlaganna.

Ég vona svo sannarlega að við náum niðurstöðu í þessu mikilvæga máli, sérstaklega nú á þessum tíma, þannig að við getum innleitt fullnægjandi notendastýrða persónulega aðstoð, NPA, fyrir alla aðila og þennan hluta sem snýr að henni.

Í lokin vil ég aðeins minnast á það sem kom fram í máli hæstv. ráðherra þar sem hann talaði um að hann ætlaði að skipa nefnd. Ég vona svo sannarlega að sú nefnd vinni hratt og vel því að við höfum undanfarið heyrt um ýmsa annmarka á því, sérstaklega hjá sveitarfélögum, varðandi hvernig koma eigi þessu mikilvæga máli áfram. Við þurfum því öll að vanda okkur og sjá til þess að málið fái farsælan endi.



[15:21]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, þ.e. þann þátt sem snýr sérstaklega að svokallaðri NPA-þjónustu.

Hv. þingmönnum er náttúrlega kunnugt um þá umræðu sem fór fram í tengslum við setningu laganna hér síðastliðið vor, þ.e. laganna um stuðning við fólk með langvarandi stuðningsþarfir, og þingmönnum hv. velferðarnefndar er vafalítið kunnugt um þá umræðu sem fór fram þar inni um hvernig taka ætti á þessum þætti.

Sjónarmið verkalýðshreyfingarinnar í þessu máli hafa legið fyrir. Hún lýsti því strax við gerð frumvarpsins að hún hefðu áhyggjur af þessum þætti, og skyldi engan undra. Vinnutímalöggjöfin og vinnuverndarlöggjöfin eru afrakstur áratugabaráttu verkalýðshreyfingarinnar. Þess vegna er ekki skrýtið að menn stígi þau skref ekki af léttúð sem gætu verið einhvers konar undanþágur eða breytingar til hins verra á þeim lögum. Því skil ég vel þá klemmu sem uppi er um að þurfa að stíga skref til þess að framlengja undanþáguna.

Þess vegna velti ég því fyrir mér, herra forseti, hvort ekki sé dálítið ríflegt að ætla að veita undanþáguna til rúmlega tveggja ára í þessu skrefi. Hvort ekki væri bragur á því að horfast í augu við þá staðreynd að við munum ekki ná að lenda einhverju samkomulagi, hvorki við verkalýðshreyfinguna né sveitarfélögin, akkúrat um það með hvaða hætti við ætlum að gera þetta til framtíðar á þeim tíma sem við höfum í raun ekki til að klára málið, því að undanþágan er í raun runnin út, en setja í staðinn á okkur ákveðna tímapressu, t.d. með því að hafa undanþáguna frekar til eins árs en tveggja.

Ég er viss um að það eru fleiri þingmenn með hálfgert óbragð í munni af því að þurfa með svona, fyrirgefðu orðbragðið, forseti, skítamixi að gera það mögulegt að halda mörgum hverjum þessum NPA-samningum áfram. Það er náttúrlega ekki nógu gott.

Ég held að við hv. þingmenn séum sammála um að NPA hafi verið gríðarlega mikil réttarbót fyrir fólk með fötlun. Ég trúi því alla vega að við höfum ekki áhuga á að stíga einhver skref til baka þar. En á sama hátt höfum við heldur ekki áhuga á að stíga skref til baka í vinnuverndarlöggjöfinni. Alveg klárlega ekki.

Nú er fyrirliggjandi að gerðir verða kjarasamningar á vinnumarkaði, kröfugerð verkalýðsfélaganna er komin fram. Þá er ekki sérlega gott að hefja þá vegferð á einhverri tveggja ára undanþágu eða rúmlega það, áður en farið er af stað.

Ég minni á samhengi við styttingu vinnuvikunnar sem ég nefndi hérna áðan. Það þarf líka að skoða. Það er ekki einfalt mál.

Hæstv. ráðherra kom inn á það sem rétt er, að í störfum sem krefjast beinlínis einhverrar viðveru muni það hafa kostnaðarauka í för með sér að stytta vinnuvikuna. Það er líklega rétt hjá hæstv. ráðherra í mjög mörgum tilfellum, en það er aftur líka samtal sem eiga má við verkalýðshreyfinguna.

Við höfum verið nokkuð föst í átta tíma vinnulotum þar sem við erum með það sem við köllum rúllandi vaktir. Á undanförnum árum hafa fleiri og fleiri stofnanir þreifað fyrir sér með vinnulotur sem eru frá fjórum og upp í sex tíma, eða milli fjögurra og átta tíma, margar hverjar með ágætisárangri. Kannski er það eitthvað sem ræða þarf í þessu samhengi og þarf kannski að ræða í samhenginu við styttingu vinnuvikunnar og hvort það sé heppilegasta formið að vera með vinnuloturnar sem eitthvert hlutfall af 40 eða af 36.

Ég segi fyrir mig: Ég mun hlusta á röksemdir verkalýðshreyfingarinnar. Ég geri ráð fyrir að hv. velferðarnefnd muni kalla verkalýðshreyfinguna fyrir nefndina og náttúrlega líka aðra aðila vinnumarkaðarins, að maður tali ekki um samtök fatlaðs fólks sjálfs Ég mun hlusta ítarlega og vel eftir þeim sjónarmiðum sem þar koma fram og síðan mun nefndin vonandi geta komist að samkomulagi um hvaða lendingu við fáum í þessu máli.

En ég ítreka það sem ég sagði áðan: Það er ekki hægt að gera ekki neitt.



[15:28]
Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingar á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Þetta mál hefur verið í velferðarnefnd í nokkurn tíma og við höfum rætt það nokkuð oft. Þetta er auðvitað afar sérstakt mál. Ég tek bara undir það sem hér hefur komið fram, bæði hjá hæstv. ráðherra og hjá síðasta ræðumanni, að það eru auðvitað ekki auðveld spor að ganga inn í vinnulöggjöfina og vinnuverndina eins og þetta gerir sannarlega eftir áralanga baráttu verkalýðshreyfingarinnar fyrir mannsæmandi vinnutíma.

Ég var að rifja það upp í huganum að fyrir nefndina á fyrri stigum þessa máls komu starfsmenn sem sinntu svona störfum, tveir a.m.k., og þeir gátu þess að þessi sérstaki vinnutími sem er auðvitað svolítið öðruvísi en margur annar, hentaði námsmönnum og fólki sem er við nám. Þetta eru mikið sofandi vaktir eins og kallað er. Fólk er til staðar allan sólarhringinn og mikil viðvera. Það er ekkert hægt að fara í burtu þegar gætt er að einstaklingi sem býr við slíka fötlun. Það kom einnig fram á fundi í velferðarnefnd hjá einum einstaklingi sem sinnti þessu starfi að honum fyndist best að fá að vera tvo sólarhringa í einu að störfum, vera með samfellu í heimilishaldi og viðveru með viðkomandi aðila, sagðist hafa fundið besta taktinn í því. Það er því auðvitað mjög misjafnt hvernig þetta er. Við erum að tala um mjög sérstaka vinnu, hún er öðruvísi en allt annað. Þegar við tölum um að stytta vinnuvikuna í 35 klukkustundir og út úr því komi aukin framleiðni þá á það auðvitað ekki við um vinnu eins og þessa af því að hún snýst fyrst og fremst um langa viðveru og að gæta að heilsu og heill þess sem unnið er með.

Verkalýðshreyfingin hefur sett sig upp á móti þessu og ég skil mjög vel þau sjónarmið, eins og fyrri ræðumaður kom rækilega inn á áðan. En við megum ekki vera í þannig kassa í öllum málum að það sé allt óumbreytanlegt sem er búið að ákveða. Samfélagið er að breytast. Fyrir áratugum þegar var verið að semja vinnulöggjöfina þá var svona þjónusta kannski ekki til.

Það sem ég hef mestar áhyggjur af í þessu sambandi er að ef þessi sveigjanleiki verður ekki leyfður þá muni kostnaður við NPA-samninga aukast mjög verulega, sem verður þá til þess að samningum mun fækka. Þá mun þeim einstaklingum sem eiga möguleika á því að fá NPA-samning fækka vegna þess að kostnaðurinn við þá eykst svo mikið, kannski bara vegna þess að við erum ekki tilbúin til þess að sveigja vinnulöggjöfina að þessu leyti. Ég held að hún sé okkur öllum mikilvæg og við öll sem hér erum viljum standa vörð um hana og stöndum heils hugar með verkalýðshreyfingunni í því, en við megum ekki fara inn í svona kassa og loka okkur þar og getum ekki hreyft okkur út úr. Við verðum að geta séð í gegnum fingur okkur með einhver algjör undantekningartilfelli og verðum að geta gert breytingar.

Ég mun styðja það að fresturinn í þessum lögum verði til 31. desember 2020 og tek undir með fyrri ræðumanni um að nýta þann tíma vel þannig að við tryggjum þetta til framtíðar, þeim sem þurfa á þjónustunni að halda til heilla. Það er mikilvægt að það fáist fólk til þessara starfa, að fólk sækist eftir því að vilja sinna þeim sem er ekkert endilega víst að falli öllum. Það er mikilvægt að t.d. námsfólk, sem sér tækifæri þarna til að vinna með námi, verði áfram sá vinnukraftur sem við getum reitt okkur á í þessu vegna þess að það hefur ekki verið auðvelt að fá fólk í þessi störf. Ég þekki það. Með fleiri samningum þarf að gera þetta auðveldara.



[15:33]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp um breytingu á lögum um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum. Það er í sambandi við NPA. Þetta mál er mjög vandmeðfarið vegna þess að þetta er eiginlega vinnustaður sem ekki er hægt að lýsa, hann getur verið svo mismunandi. Það geta verið svo ótrúlegar aðstæður sem koma upp í þessu samhengi og þess vegna verðum við að sjá til þess að hlutirnir séu í lagi. Það sem ég óttast mest að við gleymum í þessu samhengi varðar t.d. aðgengi að hópferðabílum og öðru, eins og ég ræddi við hæstv. samgönguráðherra í morgun. Það er mál auðvitað sem skiptir líka máli fyrir vinnuaðstöðu umræddra einstaklinga. Á meðan hlutirnir eru í algeru lamasessi, á meðan við sjáum ekki til þess að sjálfsögð mannréttindi séu virt gagnvart fötluðu fólki og við ætlumst til þess að þeir sem verst eru staddir í þessu máli fái aðstoðarmenn — við hljótum að gera kröfu um að aðbúnaður og möguleikar aðstoðarmanna séu þannig að þeir þurfi ekki að leggja á sig gífurlega vinnu umfram það sem hægt er að krefjast af þeim. Það má ekki vera þannig að þeir geti ekki sinnt vinnu sinni vegna þess að hið opinbera sér ekki til þess að farið sé að lögum.

Ég heyrði nýlega að nýjustu rútur og hópferðabílar séu ekki með þann búnað sem þessar bifreiðar eiga að hafa samkvæmt lögum. Það virðist vera undir fötluðum og hreyfihömluðum einstaklingi komið að sjá til þess að svo sé, þá með kæru, í stað þess að þeir sjái til þess sem það eiga að gera, eins og Umferðarstofa og aðrir, að bifreiðarnar séu fullbúnar. Ég tek undir með hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni, þetta er vinnustaður sem maður veit eiginlega ekki hvernig á að skilgreina.

Ráðherra kom inn á þessi mál áðan. Ég verð bara að segja að það fór léttur kuldahrollur niður hrygginn á mér þegar hæstv. ráðherra talaði um nefnd, vegna þess að þegar nefndir eru nefndar kemur upp í hugann orðatiltækið: Engar efndir, bara nefndir. Það verður bara að segjast eins og er að maður hefur alltaf á tilfinningunni að ef eitthvað er sett í nefnd eigi að svæfa það til að komast fram hjá hlutunum og því að taka tillit til þeirra sem á þjónustunni þurfa að halda.

Í þessu tilfelli verðum við að vanda okkur. Við verðum að skoða þetta mál gaumgæfilega þegar það fer fyrir nefnd. Ég vona heitt og innilega að við getum gengið frá því þannig að allir gangi sáttir frá borði og sérstaklega þeir sem þurfa að nota þetta og líka aðstoðarfólkið, vegna þess að það verður líka að vera ánægt. Ég sé fram á að það gæti orðið svolítið erfitt að fá fólk í þessa vinnu ef vinnuumhverfið er þannig að það eru endalausar hindranir í veginum. Þá eru mjög litlar líkur á að þetta virki eins og við ætlumst til.



[15:37]
Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Hér ræðum við frumvarp þar sem við erum, eins og búið er að nefna hérna, í dálítið erfiðri stöðu. Víkja á frá réttindum starfsmanna, sem er mjög vont, en áhrifin á notendur NPA eru mögulega enn verri af því að þeir voru í verri stöðu til að byrja með.

Ég tek undir með hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni um að það þurfi að flýta þessu. Ég velti fyrir mér, og það er nokkuð sem við munum líklega skoða í velferðarnefnd, hvort gildistíminn eigi að vera í eitt ár en frekar tvö bara til að flýta fyrir, því að þetta er vond staða sem við viljum ekki að sé uppi. Nú er NPA búið að vera til reynslu síðan 2012 eða 2013 alla vega, það er búið að vera til reynslu í nokkur ár. Af hverju er ekki búið að finna lausn á þessu máli? Ég skil ekki alveg af hverju alltaf er verið að grípa til aðgerða á síðustu stundu. Við erum búin að hafa rúman tíma og ættum að hafa séð fyrir að þetta yrði vandamál. Við ættum að vera búin að finna lausn á þessu máli. En þar sem ekki er búið að gera það þarf að flýta þessu. Við verðum að gera það.

Við eigum eftir að fá gesti fyrir nefndina og eigum eftir að skoða þetta vel í nefndinni. Mögulega gæti niðurstaðan orðið sú að það þurfi að flýta þessu mun meira en að miða við tvö ár.



[15:40]
Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegur forseti. Hér er um að ræða athyglisvert mál og snúið mál og þessi vandi hefur, eins og fram hefur komið í máli fyrri hv. ræðumanna, legið fyrir um hríð.

Hér togast á annars vegar þarfir notenda þjónustunnar og hins vegar réttindi starfsfólks og verkefnið er þá að samhæfa þetta tvennt þannig að hvort tveggja sé haft í heiðri og það er mjög mikilvægt að hvort tveggja sé haft í huga. Það er mikilvægt að hafa í huga að hér er um að ræða starfsumhverfi og starf sem hefðbundnir verkferlar nái kannski ekki alveg yfir að öllu leyti. Þetta er starf sem er ólíkt öðrum störfum. Þetta er ekki afmarkaður tiltekinn vinnustaður eins og við kannski flest eigum að venjast heldur fylgir vinnustaðurinn þeim sem þjónustunnar nýtur og vinnustaðurinn er þar af leiðandi úti um allt. Það gildir svipað um vinnutímann. Það er erfitt að negla hann niður vegna þess að sumt af því fólki sem hefur þessi störf með höndum vill kannski vinna yfir tiltekinn tíma og eiga svo frí og þessar afdráttarlausu reglur um hvíldartíma eigi ekki alltaf við heldur má hugsa sér að þetta sé samkomulagsatriði þess sem þjónustunnar nýtur og þess sem innir hana af hendi.

Það verður að leggja áherslu á að þetta starf er ólíkt öðrum störfum en það er engu að síður mjög mikilvægt að tryggja réttindi þeirra sem þjónustunnar njóta og þeirra sem hana inna af hendi. Það er líka mjög mikilvægt að það sé á hreinu hver á að borga.



[15:43]
félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég vildi koma hér upp eftir þessa umræðu til að fara yfir þau atriði sem komið var inn á, en byrja á að segja að mér finnst þessi umræða mjög góð, hún er þörf og hún er brýn. Hjá öllum ræðumönnum hefur í raun komið fram sannleikskorn og hvernig þessum málum er háttað.

Ég byrja á því sem hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson kom inn á áðan um samkomulagsatriði, að samkomulag gæti tekist á milli þess sem veitir þjónustuna og þess sem þiggur þjónustuna. Jafnvel þó að þessir tveir einstaklingar næðu samkomulagi sem báðir væru ánægðir með og hugsanlega á þeim nótum sem hv. þm. Ásmundur Friðriksson kom inn á áðan og nefndi þar ágætisdæmi um einstakling sem var að sinna slíkri þjónustu og vildi helst sinna henni í tvo sólarhringa, þá er ólöglegt að gera slíkt samkomulag. Jafnvel þó að við öll hér inni værum sammála því að slíkt væri mannsæmandi, bæði fyrir þann sem veitir þjónustuna og hugsanlega betra líka fyrir þann sem þiggur þjónustuna, þá er það einfaldlega ólöglegt. Og það er einnig svo að nágrannalöndin virðast hafa verið að þvælast með þetta líka. Ég hef spurt að því í mínu ráðuneyti og á fundum með verkalýðshreyfingunni hvernig þetta sé á Norðurlöndunum. Það koma engin svör. Eitt af því sem er mjög auðvelt að gera í ráðuneytum er að kalla eftir minnisblöðum, en það er bara ekki hægt að fá upplýsingar um hvernig þessu er háttað á Norðurlöndunum vegna þess að þar held ég að menn sjái bara í gegnum fingur sér við því hvernig þetta er gert.

Það er því gríðarlega mikilvægt, svo ég komi aðeins inn á það sem hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson minntist á í máli sínu og sneri að því að við ætluðum að skipa nefnd, að fram fari samtal vegna þess að við viljum ekki festa einhverjar breytingar í vinnuverndarlöggjöf nema samtal hafi farið fram við alla aðila sem þurfa að koma að því og bendi á að þetta hlýtur að taka enda vegna þess að þetta er bráðabirgðaákvæði. Það er ekki verið að leggja til að þetta sé fest í lög varanlega, slík undanþága, þannig að það getur aldrei komið annað til en að lending komi í þetta.

Af því að hér var talað um í hversu langan tíma undanþágan ætti að vera þá upplýsi ég að þegar var verið að vinna þetta mál upphaflega í ráðuneytinu voru hugmyndir um að hafa hana í þrjú ár. Mér fannst það of langur tími og þess vegna lagði ég til styttingu á því niður í tvö ár. En það er velferðarnefndar að skoða málið í framhaldinu. Og þeirri niðurstöðu sem kemur frá nefndinni mun sá sem hér stendur una og reyna að þrýsta á að unnið verði að málinu á þeim hraða sem niðurstaða verður um.

Hins vegar vil ég ítreka að mér fannst mjög mikilvægt að koma með málið hingað og óska eftir þessari framlengingu vegna þess að það á að vera þannig að við eigum að bera virðingu fyrir vinnuverndarlöggjöfinni og við eigum ekki að víkja frá henni og við eigum heldur ekki að loka augunum fyrir einhverjum atriðum þegar svo er. Þess vegna eigum við að festa það jafnvel þó að það sé í skamman tíma og framlengja þá heimild sem er til staðar.

Ég er mjög ánægður með að bæði verkalýðshreyfingin og Vinnueftirlit ríkisins skyldu gera athugasemdir við þetta vegna þess að það væri mjög óeðlilegt ef þeir hefðu ekki gert það, af því að Vinnueftirliti ríkisins ber að gera athugasemdir við þetta. Ég tek undir með öllum sem hafa tekið til máls, og sem hefur verið rauði þráðurinn hjá þeim, að þetta sé vandmeðfarið mál. Það er enginn vinnustaður sem hægt er að líkja við það að veita notendastýrða persónulega aðstoð. Það er enginn einn. Þetta er mjög sérstök vinna vegna þess að vinnan er lífið sjálft. Vinnan er að sinna einstaklingnum í öllu sínu lífi hvar sem er.

Nú segi ég: Ef við erum að veita slíka þjónustu og hafa þarf vaktaskipti fjórum til fimm sinnum á sólarhring þá er það líka óþægilegt fyrir einstaklinginn sem fær fá þjónustuna. Þetta er því vandmeðfarið mál og það er gríðarlega mikilvægt að þetta samtal fari fram. Ég legg það í hendur velferðarnefndar að meta hversu langan tíma þetta bráðabirgðaákvæði á að gilda. En ég undirstrika það jafnframt að lokum að ég treysti nefndinni mjög vel til þess að fara vel yfir þetta og hvet hana til að kalla eftir því hvernig þessu er háttað á Norðurlöndunum líkt og ráðherra hefur gert. Ég þakka fyrir umræðuna.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til velfn.