149. löggjafarþing — 23. fundur
 23. október 2018.
rafræn birting á álagningu skatta og gjalda, 1. umræða.
stjfrv., 211. mál. — Þskj. 223.

[16:20]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér mæli ég fyrir frumvarpi til laga um rafræna birtingu á álagningu skatta og gjalda. Með frumvarpinu er lagt til að rafræn birting verði meginreglan þegar kemur að birtingu tilkynninga um álagningu skatta og gjalda. Með því er verið að stíga viðbótarskref í þeirri aðlögun sem hefur verið í gangi á undanförnum árum á sviði rafrænnar stjórnsýslu og krafna frá umhverfinu vegna sívaxandi notkunar rafrænna miðla. Af því tilefni má rifja upp það stóra skref sem stigið var 30. maí sl. þegar rafræn birting álagningar tekjuskatts var heimiluð. Réttaráhrif birtingar á rafrænu formi verða þau að þegar tilkynning um álagningu er birt á rafrænu svæði telst birting hafa átt sér stað.

Í frumvarpinu er lagt til að lögum um bifreiðagjald, erfðafjárskatt, tryggingagjald, fjársýsluskatt, olíu- og kílómetragjald, tekjustofna sveitarfélaga, sölu fasteigna og skipa, eftirlit með skipum og loks skipulagslögum verði breytt á þá lund að heimilt verði að senda gjaldendum tilkynningar um álagningu með rafrænum hætti inn á rafræna svæðið island.is. Markmið frumvarpsins er sem fyrr segir að auka hagræði gjaldenda enn frekar en orðið er og stuðla að bættum ríkisrekstri með því að gjaldendur geti nálgast tilkynningar um álagningu sem flestra skatta og gjalda í rafrænni þjónustugátt.

Með því að falla frá því fyrirkomulagi að tilkynna um álagningu skatta og gjalda með bréflegum hætti mun rekstrarkostnaður ríkisins að öðru óbreyttu dragast saman um nálægt 120 millj. kr. á ári. Sú fjárhæð nemur samanlögðum kostnaði ríkisaðila af póstburðargjöldum vegna útsendinga tilkynninga um álagningu skatta og gjalda. Við matið hefur hins vegar ekki verið tekið tillit til hagræðis hins opinbera af skjalavistun og frágangi útsendra tilkynninga sem einnig dregur úr rekstrarkostnaði stofnana, a.m.k. til lengri tíma litið.

Virðulegi forseti. Ég vísa til þess góða árangurs sem við höfum þegar náð á því sviði. Mér finnst rétt að láta þess getið að þau mikilvægu samskipti ríkis og fólksins í landinu, og fyrirtækjanna reyndar, sem eiga sér stað í tengslum við skattamál hafa rutt brautina ef svo mætti segja, fyrst með rafrænu framtölunum sem eru orðin alger meginregla og heyrir til algerra undantekninga að ekki séu notuð í samskiptum við skattyfirvöld.

Rafræna tekjuskattsálagningin sem ég vísaði til tókst vel og ég tel þess vegna að okkur sé ekkert að vanbúnaði að taka viðbótarskref með því sem hér er lagt til. Menn hafa verið að venjast því sömuleiðis á einkamarkaðnum, þ.e. ekki eingöngu í samskiptum við stjórnvöld heldur líka við hina ýmsa lögaðila, fyrirtæki, að viðskiptin eru að færast yfir á rafrænt form. Nærtækt dæmi er fjármálafyrirtækin en auðvelt væri að tiltaka mörg önnur slík dæmi. Stjórnsýslan verður að fylgja með í kjölfarið. Það er einungis einn ávinningur, að tiltaka sparnaðinn, kostnaðinn, en ég vil meina að þjónustan geti sömuleiðis þar fyrir utan orðið miklum mun skilvirkari, öruggari og nútímalegri.

Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.



[16:25]
Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um rafræna birtingu á álagningu skatta og gjalda, frumvarp sem lætur kannski ekki mikið yfir sér en er að mínu mati mjög mikilvægt.

Það segir í greinargerðinni að Ísland sé í kjörstöðu til að hagnýta upplýsingatæknina og það er svo sannarlega rétt þar sem nánast allir Íslendingar hafa gott aðgengi að internetinu, bæði eru fjarskiptamálin góð og þekking manna og reynsla af því að nýta internetið mjög mikil. Þess vegna fagna ég því mjög að við höldum áfram á þessari leið. Tekið er fram í greinargerðinni að með þessu er áætlað að sparist um 120 milljónir á hverju ári bara í bréfútsendingum. Þetta er töluverð upphæð. Mér skilst samkvæmt þessu að ríkið greiði í dag um 500 millj. kr. í póstsendingar á ári hverju, þannig að það er vissulega til mikils að vinna hvað fjármuni varðar.

Ég tek undir með hæstv. ráðherra að þetta snýst ekki bara um að spara fjármuni heldur veitum við miklu betri þjónustu með því að færa hana yfir á internetið og gera hana aðgengilega öllum alltaf þegar þeim hentar í gegnum netið.

Eins og hæstv. ráðherra kom inn á þá voru Íslendingar lengi vel og sérstaklega skatturinn með fyrstu þjóðum til að hagnýta sér internetið almennilega og vera með rafræna stjórnsýslu. Við komum yfirleitt mjög vel út í alþjóðlegum samanburði hvað það varðar. Við misstum þó töluvert úr á ákveðnu árabili. Ef ég hef fundið réttu tölurnar, virðulegur forseti, þá erum við í dag í 19. sæti þegar kemur að svokölluðum, með leyfi forseta, það heitir á ensku EGDI eða E-Government Development Index, sem er einhvers konar þróunarstaðall yfir rafræna stjórnsýslu. Þar höfum við reyndar bætt okkur því að á árinu 2016 vorum við í 27. sæti en erum á þessu ári komin upp í 19. sæti, sem er vissulega jákvætt. Ég held að Danmörk sitji í fyrsta sætinu. Ég vil auðvitað eins og flestir aðrir yfirleitt að Ísland sé í toppsætunum. Því vil ég hvetja hæstv. ráðherra áfram í þessu svo og í öðrum málum þar sem við getum hagnýtt okkur rafræna stjórnsýslu, því að í henni er bæði fólginn mikill sparnaður fyrir ríkið og miklu betri þjónusta sem við veitum fyrirtækjum og einstaklingum.

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir á að þingmálið er íslenska.)



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til efh.- og viðskn.