149. löggjafarþing — 24. fundur
 24. október 2018.
störf þingsins.

[13:31]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Mig langar á kvennafrídegi að fara inn á verklagsreglur sem verið er að semja innan Pírataflokksins sem tengjast því að gera vinnustaðinn þannig að öllum finnist þeir velkomnir, að þeir séu ekki óvelkomnir á vinnustaðnum vegna eineltis, áreitis, þar á meðal kynferðislegs áreitis, kynbundinnar áreitni og ofbeldis. Þetta sprettur allt upp úr #metoo, að flokkar fara að semja sér verklagsreglur. Nú veit ég að Vinstri græn komu nýlega, í síðustu viku held ég, fram með sín drög um verklagsreglur, um bann við kynferðislegri áreitni og annarri ólögmætri hegðun.

Við Píratar eru búnir að vera vinna þetta í skjali frá því í janúar. Skjalinu var ég að deila á Pírataspjallinu á Facebook fyrir þá sem hafa áhuga á að kíkja á það. Það er opið. Það geta allir sett inn athugasemdir. Við erum búnir að leita til ýmissa í samfélaginu. Ég fór sjálfur á námskeið hjá Kjartani Bjarna Björgvinssyni dómara sem haldið hefur námskeið í Háskóla Íslands fjórum sinnum. Námskeiðið heitir #metoo og lögin. Það er svo margt sem maður hefur lært um hvað maður þarf að gera ef maður ætlar að skapa umhverfi þangað sem fólki finnst ekki fjandsamlegt að koma á grundvelli kyns eða kynhneigðar. Ef við gerum það ekki erum við ekki að skapa jafnræði á grundvelli stjórnmálanna. Stjórnmálin eiga sér að svo miklu leyti stað í stjórnmálaflokkunum og ég tala nú ekki um að ef maður ætlar að komast til áhrifa þarf að gera það í gegnum flokkana.

Leiðin sem við fórum við að gera verklagsreglurnar — ég gerði þetta í þinginu þegar við vorum að vinna þetta í forsætisnefnd og kallaði m.a. eftir að gerð yrði löggilt þýðing á verklagsreglum Sameinuðu þjóðanna. Svo höfum við tekið það og unnið skjalið áfram og unnið við að heimfæra það upp á íslenskan raunveruleika, heimfæra það upp á stjórnmálaflokkinn en ekki þjóðréttarleg samtök eins og Sameinuðu þjóðirnar eru. Við erum alveg á lokametrunum og getum líklega klárað fyrstu drög sem við munum síðan deila og leyfa fólki að hafa aðgang að, þ.e. kalla sérstaklega eftir umsögnum um nú næsta mánudag. Allir sem hafa áhuga geta farið inn á Pírataspjallið á Facebook, fundið skjalið (Forseti hringir.) og komið með athugasemdir sem við munum að sjálfsögðu taka tillit til.



[13:34]
Hildur Sverrisdóttir (S):

Hæstv. forseti. Góðu konur. Til hamingju með daginn. 24. október 1975 var stórmerkilegur dagur, dagurinn þar sem konur tóku sér frí og streymdu út á götu til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags síns. Ég var ekki fædd þá en ég fæ alltaf gæsahúð af stolti þegar ég sé myndir af þessum atburði, áþreifanlegri samstöðu réttindabaráttunnar.

Mig langar að tala aðeins um réttindabaráttu almennt. Réttindabaráttur eru sjálfsagðar og mjög mikilvægar samfélögum sem vilja vera góð samfélög. En það er ekki þar með sagt að það skipti engu máli hvernig haldið er á réttindabaráttu.

Undanfarið hef ég fylgst með orðræðu núverandi verkalýðsforystu vegna komandi kjarasamninga og orðið hreint út sagt hálfhvumsa við. Þar eru boðaðar byltingar með blótsyrðum sem ekki er hægt að hafa eftir í pontu Alþingis og fólki brigslað um sálarleysi og annarlegar hvatir ef það leyfir sér að viðra önnur sjónarmið en þar eru boðuð. En það verður að mega ræða alla vinkla í samhengi þessa mikilvæga máls. Það verður til að mynda að mega ræða það sem kemur fram í Fréttablaðinu í dag, að launakostnaður skráðra félaga hefur almennt vaxið hraðar en tekjur og rekstrarhagnaður félaganna. Það verður að mega ræða að aðstoðarseðlabankastjóri og fyrrverandi aðalhagfræðingur Alþýðusambands Íslands segir það lögmál að raunlaun geti ekki til lengdar hækkað meira en framleiðniaukning.

Þessi sjónarmið verða að mega heyrast því að þau skipta máli í samhengi hlutanna svo skrefin sem stigin verða næstu mánuði leiði okkur ekki í ógöngur. Það verður því að vera lágmarksvirðing fyrir því í umræðunni að þótt tekist sé á um leiðirnar erum við sammála um markmiðin, að gera eins vel og hægt er fyrir okkur öll. Upphrópanir um illsku og annarlegar hvatir eru bæði vondar og óþarfi og halda ekki á lofti mikilvægi réttindabaráttu.



[13:36]
Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Ingibjörg H. Bjarnason var fyrst kvenna kjörin á þing. Það var árið 1922. Hún sagði, eftir að hún lauk sínu starfi hér, með leyfi forseta:

„Fyrstu konurnar, brautryðjendurnir, verða auðvitað fyrir ýmsu hnjaski, aðeins vegna þess að þær eru konur — en slíkt má ekki setja fyrir sig. Þegar konum fjölgar á Alþingi Íslendinga hverfur það, að ráðist sé á þær sérstaklega af því að þær eru konur.“

Ingibjörg hafði skýra sýn á framtíðina og hún gerði sér grein fyrir því að lykillinn að jafnrétti, jafnrétti kynjanna og jafnrétti í þjóðfélaginu almennt, var menntun. Hún hafnaði því að lögð væri áhersla á að mennta konur til að sinna heimilinu. Hún lagði áherslu á það að konum stæði til boða menntun sem gæfi þeim möguleika á að taka að fullu þátt í vinnumarkaðnum.

Það eru konur eins og Ingibjörg H. Bjarnason, brautryðjendur og eldhugar, sem hafa lagt grunninn að því hversu langt við höfum náð í jafnréttismálum og hafa lagt grunninn að því að framtíð minna dætra og möguleikar þeirra eru meiri og allt aðrir en ömmur þeirra höfðu. Fyrir það ber að þakka og ég hygg að við eigum hér í þessum þingsal að halda oftar og betur á lofti þeim sem ruddu brautina til jafnréttis. Að öðrum ólöstuðum hygg ég að Ingibjörg H. Bjarnason eigi sinn sess og við eigum að minnast þeirra starfa og þeirra hugsjóna sem hún hafði.

Lykillinn að öllu jafnrétti, kynjajafnrétti sem og öðru, er menntun.



[13:38]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Herra forseti. Til hamingju með daginn. Í nefndarstörfum nýlega var stjórnarfrumvarp kynnt fyrir nefndarmönnum. Þar kom fram að frumvarpið var í raun ekki tilbúið og búist var við því að nefndin myndi klára vinnslu málsins.

Ástæðan fyrir því að Alþingi var boðið upp á ófullgert frumvarp var sögð sú að kústurinn væri hátt á lofti að skila frumvörpum inn til þingsins á réttum tíma, þó að það væri áður en þau væru tilbúin. Ég forðast að nefna hvaða frumvarp þetta er, hvaða ráðuneyti þetta er eða nefna annað sem myndi auðkenna hvaðan útskýringin kom því að ég kann að meta heiðarleikann sem nefndin fékk um stöðu frumvarpsins. Nákvæmlega þannig á stjórnsýslan einmitt að virka, fullkominn heiðarleiki embættismanna án þess að detta í vörn fyrir sjálfa sig eða ráðherra.

Ég gæti skammast út í léleg vinnubrögð eða annað á þeim nótum en mig langar frekar að einblína á heiðarleikann í þessu máli. Hann hjálpar nefnilega til að laga það sem vantar upp á og í þessu máli er það svo sem ekkert rosalega mikið. Ef svona heiðarleiki væri algengari held ég að margt færi betur hér á Alþingi. Þess vegna langar mig ekki til að skammast út í þetta mál heldur hrósa. Ég vil fleiri svona mál.

Jafnvel þótt þau séu ekki fullunnin vil ég fá að heyra það. Það er miklu betra en að reynt sé að fela mögulega galla. Það er miklu betra en að þurfa alltaf að laga allt eftir á.

Þótt fyrstu viðbrögð manns við svona skilaboðum séu forundran vekur svona heiðarleiki með manni traust, traust á að þó að vinnubrögðin séu ámælisverð sé a.m.k. ekki verið að fela neitt.

Það er kannski merkilegt út af fyrir sig að þurfa að þakka fyrir heiðarleika. Mig langaði bara sérstaklega að þakka fyrir þennan heiðarleika. Það er nefnilega erfitt að viðurkenna það sem er viljandi illa gert. Ég vona að ekki þurfi að viðurkenna svona vinnubrögð aftur en ég vonast til þess að ef það þarf verði það gert. Nú hef ég alla vega ástæðu til að vonast eftir slíkum heiðarleika.

Mig langar bara að beina þökkum til þeirra sem kynntu frumvarpið. Takk kærlega fyrir.



[13:40]
Þorgrímur Sigmundsson (M):

Herra forseti. Kæru þingkonur, til hamingju með daginn. Kennitöluflakk er meinsemd í okkar þjóðfélagi. Flestar þjóðir í kringum okkur hafa brugðist við slíkri háttsemi m.a. með því að slá varnagla við því að helstu eigendur og stjórnendur geti í skjóli takmarkaðrar ábyrgðar orðið uppvísir að því að keyra fyrirtæki sín ítrekað í þrot.

Það er meginregla félagaréttar í tilviki einkahlutafélaga og hlutafélaga að enginn félagsmanna beri persónulega ábyrgð á heildarskuldbindingum félagsins. Að baki reglunni búa sanngirnisrök og að einstaklingur á að hafa tækifæri til að hefja atvinnurekstur án þess að bera persónulega ábyrgð á skuldbindingum sem af því leiðir. Undanfarin ár hafa margir yfirfært rekstur í hlutafélagaform sem m.a. má þakka tilkomu einkahlutafélaga, skattalegu hagræði svo og tískustraumum.

Skiptar skoðanir eru uppi um ágæti þessarar þróunar en til að byrja með var talið að hún leiddi til aukinnar verðmætasköpunar. Ég hef þó nokkrar efasemdir um það. Nefna mætti í því sambandi áhyggjur mínar af því að ráðandi eigendur og stjórnendur fyrirtækja misnoti aðstöðu sína, innan félaganna eða haldi áfram þátttöku í atvinnulífinu skömmu eftir gjaldþrot þeirra eins og ekkert hafi í skorist, t.d. með þeirri aðferð að flytja eignir hins gjaldþrota félags yfir í nýtt félag en skilja skuldirnar eftir.

Herra forseti. Þess eru dæmi að sami einstaklingur stofni fjölda, jafnvel tugi fyrirtækja og reki í þrot. Sannarlega geta gjaldþrot fyrirtækja átt sér eðlilegar skýringar og þegar svo ber undir verðskulda stjórnendur og eigendur þeirra að ný tækifæri gefist til rekstrar. Yfirvöld verða að hafa heimildir fyrir því að geta synjað félagi skráningu eða afskráð það, ef viðskiptasaga stjórnenda þess eða helstu eigendur gefa tilefni til slíks.

Eðlilegt væri að við skipti á þrotabúum félaga verði skiptastjóra óheimilt að ráðstafa eignum og réttindum búsins, varanlega til stjórnenda og helstu eigenda eða aðila þeim tengdum við þær aðstæður sem hér að framan greinir.



[13:43]
Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil ræða fyrirmyndir. Í gær var ein af fyrirmyndunum mínum, sterk og hugrökk kona, við það að gefast upp á jafnréttisbaráttunni. Hún vissi samt að það væri tímabundið því að í dag er baráttudagur aftur. Það er kvennaverkfall.

Þessi vinkona mín tók, eins og svo margar aðrar, þátt í „Beauty tips“-byltingunni 2015. Svo tók hún þátt í #höfumhátt árið 2017 og #metoo. Í öllum þessum byltingum hafa konur opnað sig um sín viðkvæmustu mál, staðið berskjaldaðar og sýnt ótrúlegan kjark.

Þetta hafa þær gert aftur og aftur og aftur. En um leið og þær misstíga sig, eins og t.d. að gerast orðljótar í garð þeirra sem verja kvalara þeirra, geta þær lent í hakkavél samfélagsumræðunnar. Um það höfum við séð skýrt dæmi á síðustu dögum. Er nema von að hver baráttukonan á fætur annarri gefist upp á baráttunni?

Viðfangsefni stjórnmálanna eru oft stór og flókin en þau eru okkar að leysa. Nýlega ræddum við samgönguáætlun. Þar ætlum við að verja 604 milljörðum til að tryggja öryggi á götum úti næstu 15 árin. Með heildarendurskoðun umferðarlaga sagði ráðherra eitt af markmiðunum vera að útrýma banaslysum. Og til stendur að verja 7 milljörðum í aðgerðir í loftslagsmálum næstu fimm árin til að tryggja öruggt umhverfi fyrir komandi kynslóðir. Mikilvæg verkefni mega kosta pening og þau mega vera flókin.

Við skulum nýta kvennaverkfallið til að líta í eigin barm og spyrja okkur hvort hér á þingi hafi verið brugðist nógu vel við þessu síendurtekna ákalli kvenna. Höfum við sem samfélag horfst í augu við meinin og gripið til aðgerða? Ég er hræddur um að svarið sé nei. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Eftir síðustu kosningar erum við of margir, karlarnir á þingi. Til að bæta upp fyrir það getum við tekið okkur þessar konur til fyrirmyndar. Við getum sýnt kjark og breytt samfélaginu.



[13:45]
Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Þessi dagur er merkilegur í sögu kvenna á Íslandi og allra þeirra sem hafa barist fyrir jafnrétti kynjanna. 24. október 1975 er mér minnisstæður. Hann markaði upphaf hjá mörgum konum, upphaf jafnréttis, sjálfstæðis og þess að þora að stíga nauðsynleg skref í átt til þess að hlustað væri betur á rödd kvenna.

Fjörutíu og þrjú ár eru síðan einstakar konur tjáðu í fyrsta sinn skoðanir sínar á eigin stöðu og óskuðu breytinga. Það var stórt skref á þeim tíma fyrir þær sem einstaklinga. Við skulum ekki gleyma því.

Þann 24. október 1985 héldum við konur í Þingeyjarsýslum mikla hátíð allan þann dag og fram á kvöld í félagsheimili Húsavíkur til að minnast 10 ára afmælis kvennafrídagsins. Það var mjög fjölmennt og gríðarlega mikil stemning. Ræður voru haldnar og réttindi kvenna voru krufin. Við tókum yfir Víkurblaðið og það var eingöngu helgað konum. Við fundum áþreifanlega fyrir samhug og systrakærleik og þetta varð reyndar upphaf að fleiru sem teygir sig til samkomu þar í dag.

Barátta fyrir réttindum íslenskra kvenna á sér miklu lengri sögu og við erum þakklát þeim frumkvöðlum sem ruddu veginn fyrir fjöldann sem kom á eftir. Margt hefur áunnist á þessum tíma og sumt svo sjálfsagt að enginn man eða veit að það hafi verið á annan veg. Hins vegar er staðan líka sú að í dag erum við að glíma við ótrúleg viðhorf til kvenna og hvað sé leyfilegt í samskiptum milli kynjanna. Hlutgerving kvenna er víðar og lúmskari en við gerum okkur grein fyrir. Sífellt koma upp mál þar að lútandi og það er algerlega óásættanlegt. Gagnvart þeim viðhorfum hafa konur skorið upp herör um allan heim. Ég tel að það sé afar mikilvægt að í uppeldi barna okkar sé lögð áhersla á jafnrétti, virðingu (Forseti hringir.) og jafnvægi í milli og í samskiptum kynjanna. Til hamingju með daginn öll.



[13:48]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Kona, þú ert móðir jörð sem börn jarðar hafa sogið úr allan sinn lífskraft svo að þú átt ekkert eftir að gefa nema blítt klapp á kinn. — Þannig hefur mér stundum liðið og eflaust mörgum öðrum konum í gegnum tíðina sem hafa verið í hlutverki alltumlykjandi móður, eiginkonu, í umönnunar- og þjónustustörfum, úti á vinnumarkaði, í félagsstörfum, í stjórnmálum og haldið í alla þræði svo að allt geti gengið sem áfallalausast fyrir sig.

Í dag á kvennafrídaginn sýna konur samtakamátt og ganga út af vinnustöðum sínum fyrr en ella og láta rödd sína heyrast, mótmæla kynbundnu ofbeldi, kynferðislegu ofbeldi, áreiti á vinnustöðum, kynbundnum launamun, lágum launum umönnunarstétta, mismunun á vinnumarkaði, ófjölskylduvænu vinnuumhverfi og mótmæla líka kúgun og hernaði gegn fátækum konum og fjölskyldum þeirra í stríðshrjáðum heimi.

Konur á Íslandi hafa verið í forystu á síðustu áratugum í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna og hefur sú barátta skilað miklum árangri. En betur má ef duga skal. Karlar og konur þurfa saman að breyta samfélaginu þannig að bæði kynin geti notið sín á jafnréttisgrundvelli.

Breytum ekki konum, breytum samfélaginu.



[13:49]
Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Alþingi er ekki venjulegur vinnustaður. Alþingi er löggjafarþing. Hér eiga kjörnir fulltrúar að endurspegla þverskurð þjóðarinnar. Þrátt fyrir það er ég ánægð með að þinghaldi verði hætt í dag þegar konur um allt land ganga út af vinnustöðum sínum kl. 14.55 til að taka sér kvennafrí til að sýna fram á þá dapurlegu staðreynd að meðalatvinnutekjur kvenna eru 26% lægri en meðalatvinnutekjur karla. Með því að hætta þinghaldi í dag sýnum við fram á að Alþingi Íslendinga starfar ekki án kvenna.

Þrátt fyrir það eru núna árið 2018 einungis 38% íslenskra þingmanna konur og fækkaði um tæp 10% í síðustu kosningum, frá þingkosningunum 2016 þegar flestar konur náðu kjöri í alþingiskosningum nokkru sinni. Það bakslag sem varð í fjölda þingkvenna fyrir ári varð okkur femínistum áfall, en sorgleg áminning um að baráttan fyrir jöfnum rétti kvenna og karla stendur stöðugt yfir.

Að vera þingmaður og þingkona eru forréttindi. Þrátt fyrir það hefur kynjamisrétti, kynferðisleg áreitni og kynbundið ofbeldi fengið að þrífast á vettvangi stjórnmálanna líkt og á öðrum sviðum samfélagsins. Það sýndi #metoo-byltingin okkur.

Samkvæmt niðurstöðum glænýrrar könnunar Evrópuráðsþingsins er kynjamisrétti, kynferðisleg áreitni og kynferðislegt ofbeldi landlægt í evrópskum þjóðþingum gagnvart þingkonum og starfskonum þjóðþinga. 25% þingkvenna í rannsókninni greindu frá því að þær hefðu orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. 47% þingkvenna höfðu sætt hótunum um líflát, nauðgun eða barsmíðar og 68% þeirra kváðust hafa sætt kynferðislegum athugasemdum tengdum útliti sínu og kyni.

Já, þó að þjóðþing séu engir venjulegir vinnustaðir þrífst kvenfyrirlitning og kynbundið ofbeldi í íslenskum stjórnmálum líkt og reynslusögur íslenskra kvenna, sem hafa viljað hasla sér völl á vettvangi stjórnmála, báru með sér í tengslum við #metoo-hreyfinguna sem fór af stað fyrir ári. Samt erum við íslenskar stjórnmálakonur í forréttindastöðu, með góðar tekjur, rödd sem við getum nýtt okkur og óviðjafnanlegan vettvang sem hér er til að hafa áhrif og breyta lögum og reglum samfélagsins. (Forseti hringir.)

Hvað þá með allar þær konur sem eru með brot af tekjum okkar en hafa engan aðgang að valdakerfinu eða nein áhrif, eru alls ekki öruggar á vinnustöðum sínum eða heimilum? (Forseti hringir.) Hvernig er veruleiki þessara kvenna? Eru þær í hópi þeirra sem hampa Íslandi sem jafnréttisparadís hvert sem þær koma? Nei. Þær eru ekki öruggar á heimilum sínum.

Ég legg til að við hættum svona tali (Forseti hringir.) og upprætum þann helsjúka valdakúltúr sem ójafnrétti kynjanna er. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[13:52]
Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég man eftir því á kvennafrídaginn 24. október 1975, þegar við mamma mín tókum strætó úr Breiðholtinu niður í bæ, til að taka þátt í byltingunni. Mamma, kennari til margra ára, útskýrði fyrir mér að með þessari samstöðu væru konur að leggja brautina fyrir okkur sem yngri værum. Það er rétt. Ég hef alla mína ævi notið stuðnings af baráttu mömmu minnar og hennar kynslóðar. Síðar meir kom til stuðningur af baráttu minnar kynslóðar. Núna eru það allar flottu fyrirmyndirnar úr hópi þeirra sem yngri eru. Þetta er alveg eins og það á að vera.

Mjög margt hefur áunnist í jafnréttislandinu Íslandi. Íslensk þjóð stendur þrátt fyrir allt framarlega í málefnum sem varða jafnrétti kynjanna og litið er á aðgerðir okkar og árangur sem fordæmisgefandi. Það eru fjölmörg dæmi um að við höfum reynst góð fyrirmynd og hvatt aðra til góðra verka.

Það er líka margt óunnið. Mörg mál eru óleyst eins og hér hefur komið fram, enn margir slagir sem við eigum eftir að taka og enn fleiri sem við eigum eftir að vinna. Síðast en ekki síst þurfum við að vanda okkur og huga vel að því að þeim árangri sem náðst hefur hér á landi sé náð til frambúðar.

Við berum ábyrgðina á því að halda áfram, að byggja á vinnu, fórnum og sigrum þeirra sem hófu þessa baráttu, sem sættu sig ekki við stöðuna, sem létu ekki segja sér að hún væri náttúrulögmál, sem trúðu því alltaf að hægt væri að breyta og þannig yrði samfélagið okkar betra fyrir alla.

Dætur mínar þekkja söguna af bæjarferð minni og mömmu, ömmu þeirra, fyrir 43 árum. Þær eiga svo sínar minningar frá þessum degi undanfarinn einn og hálfan áratug eða svo. Vonandi halda þær hefðinni áfram. Og vonandi verður dagskrá þessa mikla baráttudags í framtíðinni fyrst og fremst helguð gleði, þakklæti og stolti yfir því sem áunnist hefur. Vonandi verða skuggar ofbeldis, mismununar og þöggunar horfnir að fullu. Á því berum við líka ábyrgð. —Til hamingju með daginn.



[13:54]
María Hjálmarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég er svo lánsöm að eiga tvö börn og það stelpu og strák sem eru tvíburar. Þegar dóttir mín var fjögurra ára byrjaði hún að kvarta yfir bókum sem við lásum á kvöldin. Þar heyrðust setningar á borð við: Af hverju eru það bara strákar sem renna sér hratt og klifra hátt? Af hverju eru stelpur aldrei sterkastar og af hverju fær Píla í Hvolpasveitinni aldrei að vinna verkefnin? Þessar spurningar komu beint frá hjartanu.

Sonur minn tók ekki eftir þessum hlutum í fyrstu en þökk sé systur hans fór hann að spá í það sama og var alveg hneykslaður. Í einlægni sinni og sakleysi sjá börnin nefnilega oft hluti í kringum sig sem við fullorðna fólkið höfum lært að leiða hjá okkur en auðvitað megum við ekki loka augunum fyrir raunveruleikanum í kringum okkur. Þó að staða kvenréttinda sé góð á Íslandi erum við hvergi nærri því að ná jafnrétti og jöfnum kjörum. Má það m.a. sjá á ósanngjarnri stöðu kvennastétta. Staðreyndin er enn sú að kvennastörf eru minna metin enn þann dag í dag. Konur vinna auk þess 70% ólaunaðra starfa og eru líklegri til að vera lengur heima en karlar í fæðingarorlofi, sem skýrist að miklu leyti af gjá milli fæðingarorlofs og leikskóla. Þó að það verkefni sé á könnu sveitarfélaganna tel ég mikilvægt að ríkið stígi með enn meiri þunga og veiti aukið fjármagn til að hægt sé að leysa málið og bæta þannig kjör kvenna og þjóðarinnar allrar.

Í lagi dagsins segir, með leyfi forseta:

„Og seinna börnin segja: Sko mömmu. Hún hreinsaði til. Já, seinna börnin segja: Þetta er einmitt sú veröld sem ég vil.“

Virðulegi þingheimur. Munum að það er í okkar höndum, valdið til að breyta þessu. Ég þori og get og vil.



[13:56]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Mannréttindabarátta nútímans er ekki síst kvennabarátta. Margt hefur áunnist en margt er óunnið. Við megum aldrei sofna á verðinum og við megum aldrei sætta okkur við kynbundinn launamun, kynbundinn tröppugang í atvinnulífinu og kynbundið ofbeldi.

Við megum aldrei sætta okkur við málamiðlanir þegar kemur að grundvallarmannréttindum. Við þurfum að samþætta kynjasjónarmið inn í alla ákvarðanatöku hins opinbera en einnig hjá einkaaðilum. 90% þeirra sem eiga peninga og stjórna peningum á Íslandi eru karlar. 75% þeirra sem eru í stjórnum íslenskra fyrirtækja eru karlar og 80% framkvæmdastjóra landsins eru karlar. Þessu þarf að breyta. Við megum hins vegar aldrei ætlast til þess að þessi mál leysist af sjálfu sér eða þau leysist einfaldlega með tímanum.

Herra forseti. Það er ekki nóg að Vigdís varð forseti. Við þurfum stöðugar aðgerðir. Við þurfum kynjakvóta, jafnlaunavottun, öfluga umræðu og lagabreytingar og við þurfum peninga í málin og í málaflokkana. Við þurfum að endurmeta frá grunni mat samfélagsins á störfum kvenna þegar kemur að launum, hvort sem það er innan kennarastéttarinnar, velferðarkerfisins eða einfaldlega hjá lágtekjuhópum kvenna.

Við þurfum stórátak gegn ofbeldi. Eitt af forgangsmálum Samfylkingarinnar á þinginu núna er einmitt að tryggja að þolendur í heimilis- og kynferðisofbeldismálum fái gjafsókn frá ríkinu. Við þurfum stöðugar forvarnir og fræðslu, við þurfum að bæta fæðingarorlofið, ekki síst hjá þeim konum sem eru í námi eða utan atvinnu og við þurfum að stytta vinnuvikuna.

Herra forseti. Ljúkum þessari baráttu með algjörum sigri og fullu jafnrétti í orði sem og á borði.



[13:59]
Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ávana- og fíknivandinn hefur tekið á sig ýmsar myndir en þó aldrei eins skelfilegar og nú. Árið 2015 létust 15 einstaklingar af völdum fíknisjúkdóma en það sem af er þessu ári eru þeir orðnir tæplega 40.

Það er sárara en tárum taki þegar maður hugsar til þess að árið 2018 deyja fleiri af völdum fíknisjúkdóma á aldursbilinu 18–40 ára en úr öllum öðrum sjúkdómum á Íslandi samanlagt það ár. Það eru 600 fíklar sem biðja um hjálp og eru á biðlista á Vogi. Það er dauðans alvara að koma ekki til móts við þetta fólk.

Það er á ákveðnum tímapunkti sem fíkillinn stígur út fyrir rammann og fær tilfinningu fyrir því að hann vilji hjálp og vilji komast í meðferð. En þá er hann látinn bíða. Hann er sjúklingur, hann er veikur og þessi vilji hans á þessum tímapunkti fjarar út. Hann getur verið dáinn, loksins þegar röðin kemur að honum.

Það kostar okkur 200 millj. kr., virðulegi forseti, að eyða biðlistum á Vogi. Í stað þess að taka sex einstaklinga inn daglega getum við tekið átta. Við erum að tala um 200 millj. kr.

Það er allt í lagi að skipta upp ráðuneytum, það kostar bara 70 milljónir. Það er allt í lagi að setja 500 milljónir í bókaútgefendur af því að við viljum verja íslenska tungu og ekki mæli ég því í mót. En hvernig væri að fara að setja fólkið okkar í fyrsta sæti? Hvernig væri að fara að forgangsraða fjármunum í þágu fólksins í landinu og í þágu þeirra sem eiga um sárt að binda?

Ég segi bara: Það biður enginn um að lenda í þeirri gildru að þurfa að glíma við fíknisjúkdóm en að hið opinbera skuli vera búið að kasta af sér allri ábyrgð og skuli loka svona gjörsamlega augunum fyrir því hversu alvarlegt ástandið er er sárara en tárum taki. (Forseti hringir.)

Ég segi: Kæru konur, kæru landsmenn og við öll, til hamingju með daginn í dag.



[14:01]
Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. 24. október 1975 var dagur sem markaði nýtt upphaf. Í minni minningu er hann kannski helst minnisstæður fyrir það að níu barna móðir úr Kópavoginum tók sér ferð niður á Lækjartorg til að standa með kynsystrum sínum þar af því að hún trúði að það væri eitthvað mikið að gerast, eitthvað nýtt í gangi, réttindabaráttan væri loksins komin á skrið.

Síðan hefur okkur miðað takk bærilega. Við höfum gengið í gegnum erfiða umræðu oft á tíðum, um það hvernig konur hafa verið kúgaðar og beittar misrétti, orðið fyrir bæði kynbundnu ofbeldi og hótunum, kynferðislegu ofbeldi o.s.frv. Við höfum tekið á því m.a. hér á þinginu með því að hafa sérstaka rakarastofuráðstefnu þar sem við reyndum að fara ofan í málin og brjóta þau til mergjar og íhuga það saman hvernig við gætum komist áleiðis í þessari sömu baráttu.

En í miðri þessari umræðu um hversu langt okkur hefur skilað á þessari leið get ég ekki neitað því að undanfarnar vikur hefur mér hnykkt við vegna þess að tvær hugrakkar konur sögðu frá ofbeldi á sínum vinnustað, annars vegar persónulegu og hins vegar ofbeldi sem viðgengst í stofnanamenningunni þar sem önnur vann. Báðar þessar konur voru látnar gjalda fyrir þetta með því að missa vinnuna. Ofbeldismennirnir? Jú, annar fékk gullið handtak og fór með starfslokasamning í burtu. En konurnar tvær sitja enn eftir með það að vera án vinnu.

Það sem er dapurlegast í þessu máli er að bæði fyrirtækin sem um ræðir eru opinber fyrirtæki (Forseti hringir.), ef við getum orðað það þannig. Það hlýtur að vera áminning til okkar hér, sem höfum kannski smááhrif á það hvernig opinber fyrirtæki eru rekin, (Forseti hringir.)að við tökum mál þessara kvenna upp þannig að þær fái réttlæti.



[14:04]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Nú þegar 43 ár eru liðin frá fyrsta kvennafrídeginum lítum við yfir farinn veg og sjáum að margt hefur áunnist. Leikskólar eru almennir og fæðingarorlof er við lýði. Páll Pétursson, fyrrverandi ráðherra, barðist fyrir því ásamt fleira góðu fólki að breyta fæðingarorlofi. Árið 2000 var því réttur feðra og mæðra jafnaður og þar með réttur barna.

Þessi áfangi var og er ákaflega mikilvægur en nauðsynlegt er að gera betur.

Í landinu ríkja jafnréttislög og krafan um jöfn laun þykir sjálfsögð. Segja má að lagarammi utan um jafnréttismál sé nokkuð góður og umgjörðin töluvert traust. En það er ekki nóg að Alþingi setji lög. Sveitarfélög, einstaklingar og fyrirtæki verða að leggja sitt af mörkum.

Jafnréttismálin hafa alltaf verið okkur Framsóknarmönnum hugleikin og höfum við átt þátt í mörgum framfarasporum sem stigin hafa verið. Jafnréttisáætlanir flokksins leggja áherslu á jafna þátttöku karla og kvenna í starfi flokksins og innan flokksins er öflug kvennahreyfing sem hefur verið ötul við að hvetja konur til að stíga fram og láta til sín taka.

Rannveig Þorsteinsdóttir var kosin á þing fyrir Framsóknarflokkinn árið 1949, fyrst kvenna. Baráttumál hennar voru öðru fremur réttarstaða kvenna, skattamál og húsnæðismál. Hún var óþreytandi við að hvetja konur til starfa í félags- og þjóðmálum. Sem einstaklingur þótti hún kappsöm og skelegg og sannarlega var hún langt á undan sinni samtíð.

Hæstv. forseti. Yfirskrift dagsins er: Breytum ekki konum, breytum samfélaginu. Þökkum fyrir einstaklinga eins og Rannveigu, Bríeti, Ingibjörgu og Gústu á Refsstað og alla sem rutt hafa brautina. Þrátt fyrir allt er launamunur kynjanna staðreynd, staðreynd sem við megum ekki sætta okkur við því að öll hljótum við að bera þá ósk í brjósti að synir okkar og dætur standi jafnfætis.