149. löggjafarþing — 25. fundur
 25. október 2018.
sérstök umræða.

skýrsla milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC).

[11:10]
Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ný skýrsla milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar er hryllingslestur. Stutta útgáfan er sú að eini möguleiki okkar til að takmarka hnattræna hlýnun við 1,5°C meðalaukningu á heimsvísu felst í því að hætta að nota jarðefnaeldsneyti eins hratt og hægt er og breyta íslenskum iðnaði þannig að útblæstri koltvísýrings verði hætt. Töluverð föngun kolefnis getur frestað þessari niðurstöðu tímabundið en eingöngu miklar breytingar á forsendum hagkerfisins munu koma í veg fyrir ástand þar sem í besta falli milljónir deyja, þúsundir tegunda þurrkast út og lífvænleiki jarðarinnar verður verulega skaddaður. Við skulum láta versta tilfellið liggja á milli hluta í bili en vísindin eru skýr á því að þetta er umræða upp á líf og dauða fyrir allt mannkynið. Í þeirri fullyrðingu er ekkert óþarfadrama, þetta er blákaldur veruleikinn.

Þegar þessar niðurstöður skoðast í samhengi við loftslagsáætlun ríkisstjórnarinnar kemur glögglega í ljós að áætlunin mun ekki bjarga neinu. Hún var ekki nógu góð áður en þessi skýrsla kom út, núna er hún hlægileg.

Forseti. Ég ætla að nota næstu mínúturnar í að tala svolítið tæknilega um þetta mál vegna þess að það er nauðsynlegt að allur þingheimur kynni sér vel þessa skýrslu og skilji ítarlega hvað við þurfum að gera til að koma í veg fyrir að allt fari í mjög vont ástand þar sem jörðin verður mögulega ekki byggileg mannkyninu.

Í aðgerðaáætluninni eru engin skýr markmið um hversu mikill samdráttur CO2-losunar eigi að fylgja hverri aðgerð. Flestar aðgerðanna snúast bara um ómarkvissa tilfærslu peninga eða áætlunargerð, eins og það eitt muni bjarga einhverju. Losun Íslands er í dag 4,3 milljónir tonna koltvísýrings árlega. Til að ná markmiðum Parísarsamningsins fyrir 2030 þarf CO2-losun að vera komin í rétt um 3 milljónir tonna á ári. Við höfum 12 ár til að draga úr þessari losun eða línulega um 83.000 tonna árlegan samdrátt í losun.

Það er ekki nóg. Til að vera innan 1,5° markanna, samkvæmt skýrslu IPCC, þarf töluvert meiri samdrátt. IPCC mælir með nettónúlllosun fyrir árið 2055 til að haldast innan þolmarka, þ.e. við getum ekki eytt meira en við eigum. Losun okkar þarf að vera réttum megin við núllið fyrir miðja öld, annars horfum við fram á vistfræðilegt gjaldþrot.

Til að ná því þarf línulegan samdrátt um 119.000 tonn á ári. Hvert ár sem við bíðum með að hefjast handa eykur á vandamálið. Markmiðið er sem sagt 119.000 tonna samdráttur á ári, en áætlun ríkisstjórnarinnar er ekki með neinn tölusettan samdrátt. Það á að verja 1,5 milljörðum kr. í uppbyggingu innviða fyrir rafbíla, það á að gera nýskráningu bifreiða sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti ólöglega fyrir 2030, það á að verja 4 milljörðum í kolefnisbindingu sem frestar niðurstöðunni en breytir henni ekki.

Við getum varla bundið neitt í dag og jafnvel þótt við gætum gert meira af því getum við ekki bundið koltvísýring endalaust. Þetta ásamt öðrum aðgerðum sem snúast aðallega um rannsóknir gerir samtals 6 milljarða kr., kannski 7, yfir fimm ára tímabil sem þýðir rétt rúmur 1 milljarður kr. á ári. Lausn í loftslagsmálum verður ekki keypt fyrir tæplega 0,1%, og reyndar mun minna en það, af árlegum fjárlögum ríkisins.

En það er hægt að ná markmiðinu og til þess þarf töluvert beittari nálgun. Við þurfum að framleiða töluverðan hluta eldsneytisins sem við notum innan lands með efnaferlum sem ganga út á föngun koltvísýrings frá verksmiðjum og virkjunum. Það er hluti af lausninni. Við getum náð að minnka losun um 230.000 tonn fyrir lok 2021 með góðri fjárfestingu strax. Slík fjárfesting skilar sér til baka inn í þjóðarbúið samstundis með minni kostnaði vegna innflutnings olíu. Lögfesting MARPOL-samningsins svo að skip á íslensku hafsvæði hætti að brenna svartolíu og fari sparlega með eldsneyti myndi jafnvel draga úr 30.000–40.000 tonnum til viðbótar og það væri hægt að færa bann á innflutningi á fólksbílum fram, t.d. til 2025, sem myndi mögulega geta sparað 60.000–110.000 tonn í viðbót. Fullkomin rafbílavæðing er ekki algjörlega raunsæ á litlum sjö árum en með því að bæta verulega í almenningssamgöngur og með öðrum leiðum mætti jafnvel spara 50.000 tonn. En allar þessar tillögur, og þetta er það besta sem ég get fundið út, munu skila 430.000 tonnum sem eru um 10% af markmiðinu og líklega minna en það. Samhliða fjórföldun á fjármagni til skógræktar getum við kannski náð aðeins að fresta vandamálinu.

116.000 tonna samdráttur er of stórt vandamál til að það verði leyst með núverandi áætlun. Við þurfum að ráðast í innréttingar, forseti, við þurfum að gefa Skúla fógeta ekkert eftir. Við þurfum að ráðast í stefnubreytingu hjá ríkinu sem skilar jafn miklum jákvæðum breytingum fyrir þjóðina (Forseti hringir.) og Innréttingarnar gerðu fyrir okkur á 18. öld, en í stað þess að byggja upp verksmiðjuiðnað til heimabrúks á Íslandi þurfum við að búa til (Forseti hringir.) nýjan útflutningsiðnað í þekkingu á því hvernig önnur lönd geta bjargað mannkyninu frá loftslagsvá.



[11:15]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Virðulegur forseti. Skýrsla milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna, IPCC, um áhrif 1,5°C hlýnunar er afar mikilvæg skýrsla og hefur af mörgum verið kölluð lokaviðvörun vísindasamfélagsins um að róttækra breytinga sé þörf til að komast hjá skelfilegum afleiðingum stjórnlausrar hnattrænnar hlýnunar. Undir það tek ég heils hugar.

Rétt er að geta þess í byrjun að markmið Parísarsamningsins er að halda hlýnun á heimsvísu innan við 2°C miðað við það sem var fyrir iðnbyltingu en reyna jafnframt eftir megni að halda hlýnuninni innan við 1,5°C. Hvers vegna eru þessi mörk valin? Vísindamenn óttast að ef hlýnunin verði meiri en sem þessu nemur geti loftslagsvandinn orðið óviðráðanlegur. Það liggur t.d. fyrir að ef hlýnun verður yfir 2°C aukast líkur verulega á því að óafturkræf bráðnun Grænlandsjökuls hefjist. Áhrifin af því væru hækkun sjávarborðs um sjö metra. Ljóst er að aðeins brot af þeirri hækkun myndi valda gífurlegum búsifjum í strandbyggðum um allan heim.

Skýrsla IPCC er því þörf brýning til Íslands og allra ríkja heims um að loftslagsbreytingar af mannavöldum eru alvörumál og að tími til aðgerða er naumur. Stjórnvöld hér á landi munu taka þessi skilaboð inn í vinnu við nýja útgáfu af aðgerðaáætlun stjórnvalda sem lítur dagsins ljós á næsta ári eftir samráðsferli sem nú stendur yfir. Við tökum skýrsluna því mjög alvarlega.

Það liggur nokkuð ljóst fyrir að almennt eru markmið ríkja heims eins og þeim er lýst í yfirlýsingum ríkja á grunni Parísarsamningsins ekki nógu róttæk og metnaðarfull til að tryggja 2°C markmiðið, hvað þá 1,5°C markmiðið.

Umræða um endurskoðun markmiða á vettvangi samningsins er á dagskrá 2020 og mikilvægt er að ná sem mestri samstöðu meðal ríkja heims um aukinn metnað. Þar megum við ekki og munum ekki láta okkar eftir liggja.

Ísland getur ekki eitt og sér tryggt árangur á heimsvísu frekar en nokkurt annað eitt ríki. En okkar skylda er rík. Við höfum mörg tækifæri til að draga úr losun og auka kolefnisbindingu og getum auk þess náð öðrum markmiðum um leið, svo sem minni heilsuspillandi loftmengun og endurheimt skaddaðra vistkerfa. Að þessu er nú unnið.

Ríkisstjórnin hefur sett fram metnaðarfull markmið í loftslagsmálum. Í fyrsta lagi að fylgja Evrópuríkjum í að ná 40% samdrætti í losun árið 2030 miðað við 1990 og kolefnishlutleysi árið 2040. Í IPCC-skýrslunni er talað um að kolefnishlutleysi þurfi að nást árið 2050. Í skýrslunni er jafnframt bent á að nauðsynlegt sé að skipta jarðefnaeldsneyti út í orkukerfum heimsins fyrir endurnýjanlegar orkuauðlindir en það dugi ekki til og því þurfi stórfellt átak í að minnka magn koltvísýrings í andrúmslofti með því að fanga hann og binda. Aðgerðaáætlun okkar endurspeglar þessar áherslur.

Aðgerðirnar eru 34 talsins. Aðgerðaáætlunin tekur á öllum helstu uppsprettum losunar og möguleikum á kolefnisbindingu og með því að stórauka fjármagn til aðgerða. Það er vel þekkt á alþjóðavettvangi að hér er notuð nær eingöngu endurnýjanleg orka til rafmagnsframleiðslu og húshitunar og við höfum nú tækifæri til að vera í fararbroddi við að nota endurnýjanlega orku til samgangna og síðar í sjávarútvegi. Þannig eru metnaðarfull áform um rafvæðingu bílaflotans, uppbyggingu innviða í þá veru, að auka almenningssamgöngur o.s.frv. Þannig getum við ráðist í þriðju byltinguna í notkun endurnýjanlegrar orku. Til þess þurfum við að vinna saman.

Fá lönd hafa líka stærri tækifæri til að binda kolefni í gróðri og jarðvegi. Þar getum við aftur sýnt mikilvægt fordæmi. Það skiptir máli, ekki síst fyrir kolefnishlutleysið.

Ég vil einnig nefna að íslenskt hugvit og þekking í loftslagsvænni tækni hefur vakið athygli. Þar má nefna niðurdælingu koltvísýrings á Hellisheiði, loftslagsvæna tækni í skipum og fleira. Mikilvægt er að við eflum nýsköpun. Það verður m.a. gert með því að koma loftslagssjóði í gagnið líkt og kveðið er á um í aðgerðaáætluninni.

Í aðgerðaáætlun okkar eru settar fram sviðsmyndir um losun í öllum geirum og þessar 34 aðgerðir settar fram til þess að ná þeim sviðsmyndum. Við þurfum hins vegar nákvæmari útreikninga til að sjá hverju hver aðgerð skilar síðan. Um það erum við vissulega meðvituð og það hefur alltaf komið fram. Sú vinna tekur nú við, m.a. miðað við þær sviðsmyndir sem að ofan eru nefndar. Meginsamdrátturinn felst í því að draga úr olíunotkun í vegasamgöngum og síðar sjávarútvegi. Þar eru mestu möguleikarnir okkar og út á það gengur aðgerðaáætlun okkar að auki við það að draga síðan úr magni koltvísýrings í andrúmslofti með bindingu í jarðvegi og gróðri.



[11:21]
Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Of lengi höfum við látið ánetjunarsinna og úrtölumenn ráða ferð í loftslagsmálum. Málflutning þeirra má kenna við strútskýringar því að hann snýst ævinlega um að stinga höfðinu í sandinn. Þetta er undanhald samkvæmt áætlun en óhætt er að segja að barist sé um hvert hús.

Strútskýrandinn segist í fyrsta lagi hafa allan rétt á að draga í efa niðurstöður vísindamanna og að fólk sem mótmælir slíku tali sé haldið pólitískri rétthugsun, sé góða fólkið.

Í öðru lagi, segir strútskýrandinn, er ekkert að hlýna í veröldinni. Snjóaði ekki í gær?

Í þriðja lagi segir strútskýrandinn: Þó að það sé að hlýna í veröldinni er það ekki vegna gróðurhúsaáhrifa af mannavöldum heldur er þetta bara náttúran sjálf, eldgos.

Í fjórða lagi bendir strútskýrandinn á að þó að það sé að hlýna á jörðinni vegna gróðurhúsaáhrifa af mannavöldum séu það góðar fréttir, við getum farið í sólbað, gróðurinn eykst.

Í fimmta lagi segir strútskýrandinn að þó að hlýnunin muni hafa skelfilegar afleiðingar fyrir líf mannanna hér á jörðu sé of seint að bregðast við, of dýrt sé að hætta að nota olíu og nær sé að einbeita sér að því að útrýma hungri meðan beðið er eftir því að finnist annars hnöttur þar sem mannkynið getur tekið sér bólfestu.

Virðulegi forseti. Hlustum ekki á eyðingaröflin, letingjana sem ekkert vilja leggja á sig og engu kosta til en trúa því að endalaust megi ganga á gjafir jarðarinnar án afleiðinga. Við megum engan tíma missa, þetta er mikilvægasta mál mannkyns.



[11:23]
Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegi forseti. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi í morgun að fara í heimsókn á Veðurstofu Íslands ásamt umhverfis- og samgöngunefnd. Við fengum þar góðar útskýringar á því hvað fram undan væri. Þar var t.d. talað um náttúruvá, þá flokka loftslagsbreytinga sem teljast vera náttúruvá.

Þegar við veltum því fyrir okkur sem erum búin að rýna í þá skýrslu sem um er rætt núna get ég vel tengt við það sem fram undan er og hvað við þurfum að gera o.s.frv. Ég ætla aðeins að hlaupa á því hvað stendur mér næst. Þá horfi ég á mig sem litla Íslendinginn í því hvaða hætta er fram undan sem snýr að mér. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við veltum öll fyrir okkur hvaða hætta sé fram undan í þeim loftslagsbreytingum sem fram undan eru. Fyrir það fyrsta er súrnun sjávar grafalvarlegt mál og vísindamenn spá því að hún muni aukast. Hún hefur gríðarleg áhrif á gengd fiskstofna, þróun þeirra o.s.frv. Við sem fiskveiðiþjóð þurfum að velta því verulega fyrir okkur hvað er fram undan í því efni.

Einnig eru það þær ógnanir sem við sjáum fyrir okkur. Úrkoma mun aukast og við eigum á hættu að auknum flóðum og skriðuföllum. Það hefur allt áhrif á líf okkar. Ég ætla að koma að því síðar í ræðu á eftir hvað ég tel að við þurfum að gera.



[11:25]
Hildur Sverrisdóttir (S):

Forseti. Ég þakka mikilvæga umræðu. Loftslagsmálin eru til framtíðar eitt af stærstu málunum, en ekki bara til framtíðar heldur strax í dag. Mig langar því að nota tækifærið, þegar við ræðum hér skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, og ræða ágæta aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum til ársins 2030 sem var kynnt í fyrstu útgáfu núna í haust og er í samráðsgátt þar til nú um mánaðamótin.

Markmiðið með aðgerðaáætlun í loftslagsmálum er, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla að aukinni kolefnisbindingu þannig að Ísland geti staðið við markmið Parísarsamningsins til 2030 og markmið ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutleysi árið 2040.

Þetta er heildstæð áætlun og samanstendur af 34 aðgerðum á mörgum sviðum með tvær megináherslur, í fyrsta lagi orkuskipti í samgöngum, með sérstakri áherslu á rafvæðingu í vegasamgöngum þar sem litið er svo á að okkar stærsta tækifæri til að ná þeim skuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist með Parísarsáttmálanum sé að skipta olíu út fyrir umhverfisvæna orkugjafa.

Hins vegar er átak í kolefnisbindingu þar sem skógrækt og landgræðsla gegna lykilhlutverki og markvisst verður dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda með endurheimt votlendis. Í aðgerðaáætluninni eru einnig aðgerðir tengdar úrgangsmálum, landbúnaði, sjávarútvegi, fræðslu o.fl. Það sem skiptir máli í þessu er að þetta er ekki eingöngu verkefni hins opinbera. Allt samfélagið þarf að taka þátt í þessu með okkur, hver og einn einstaklingur, fyrirtæki, stofnun o.s.frv.

Talandi um það langar mig kannski að enda þessa ræðu á örlítið jákvæðum nótum: Í skýrslu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, sem kom út í desember í fyrra, kemur fram að með einföldun megi segja að sjávarútvegurinn hafi fyrir sitt leyti þegar náð markmiði Parísarsamkomulagsins þar sem það miðar við að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 40% árið 2030 en sjávarútvegurinn hafði þegar árið 2016 minnkað sína losun á gróðurhúsalofttegundum um 43% frá árinu 1990.

Þó kemur fram í skýrslunni að það sé ekki talið nóg heldur þurfi að gera betur. Ég tel að það séu jákvæðar vísbendingar um það sem koma skal, að gera betur.



[11:28]
Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Ég vil eins og aðrir þakka fyrir þessa ágætu umræðu. Ísland þarf vissulega að líta í eigin barm og Ísland þarf líka að miðla á heimsvísu því sem við kunnum og gerum hvað best. Áætlun stjórnvalda er ágæt til síns brúks, þar er þó einhvern veginn, finnst mér, verið að reyna að setja fókusinn á hlut sem er vissulega mikilvægur, en er kannski ekki sá sem mestu skiptir í því að gera betur í þessum málum. Fókusinn er settur á einkabílinn hjá ríkisstjórninni, væntanlega til að draga athyglina að einhverju ákveðnu takmarki.

Einkabíllinn mengar eða losar um 3–5% af heildinni. Þar eru settir neikvæðir hvatar af stað, kolefnisgjald og slíkt, í staðinn fyrir að fara í jákvæða hvata. Hvernig væri að verðlauna þá sem eru tilbúnir að leggja dísil- eða bensínbílnum meira en gert er í dag og búa til hvata til þess að menn skipti þessum bílum út?

Hvernig ætlar ríkisstjórnin að nálgast t.d. þá mengun sem kemur af ferðaþjónustunni? Ferðaþjónustan er líklega sú atvinnugrein sem mengar einna mest. Sjávarútvegurinn hefur gert vel, eins og fram hefur komið hefur hann brugðist ágætlega við. En við þurfum líka að spyrja okkur: Hvað getum við gert á Íslandi til að bæta um betur? Getum við framleitt meira af orku á Íslandi? Getum við hugsanlega nýtt betur auðlindir okkar? Getum við minnkað innflutning á áburði og nýtt kalkþörunga til að bera á tún? Getum við nýtt repju í miklu meira magni en við gerum í dag? Þurfum við yfirleitt að framleiða meiri orku? Þurfum við að virkja meira jarðhita og fallvötn til að búa t.d. til vetni eða auka enn þá meira rafnotkun í samgöngum svo eitthvað sé nefnt?

En við eigum líka að láta gott af okkur leiða á heimsvísu. Við eigum að sjálfsögðu að nota orkuna sem er á Íslandi til að framleiða vörur sem seldar eru á heimsvísu meira en gert er. Við eigum líka að miðla þekkingu þegar kemur að landgræðslu. Landgræðsla, t.d. í Afríku eða í þeim löndum sem berjast við mikla eyðimerkurmyndun, skilar gríðarlega miklu ef við beitum okkur. Þess vegna segi ég, hæstv. forseti, að þeim fjármunum sem við ætlum að fara að monta okkur af í UNESCO væri betur varið í að setja t.d. í eyðimerkursamninginn (Forseti hringir.) eða aðrar slíkar ráðstafanir gegn gróðurhúsaloftmengun, í stað þess að vera að monta okkur þarna.



[11:30]
Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Ég vil þakka málshefjanda og hæstv. ráðherra fyrir þeirra framlag hér. Við búum svo vel að eiga góða og ítarlega skýrslu vísindanefndar 2018 um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra hér á landi. Þar segir, með leyfi forseta:

„Hlýnun jarðar er óumdeilanleg og benda margar athuganir til breytinga frá því um miðbik síðustu aldar sem eru fordæmalausar hvort sem litið er til áratuga eða árþúsunda. Lofthjúpurinn og heimshöfin hafa hlýnað, dregið hefur úr magni og útbreiðslu snævar og íss, auk þess sem sjávarborð hefur hækkað og styrkur gróðurhúsalofttegunda aukist.“

Þarna kemur líka fram að sýrustig sjávar hafi hækkað um eins og það heitir 0,1 sýrustig frá iðnbyltingu og ummerki þess á lífríki eru þegar merkjanleg.

Ég tel mikilvægt sem þarna segir um nauðsyn á rannsóknum, viðbúnaði og aðlögun. Af hálfu vísindanefndar hefur verið bent á að umtalsverðar afleiðingar loftslagsbreytinga á Íslandi verði ekki umflúnar. Þetta eykur þörf á vöktun og rannsóknum á ýmsum þáttum náttúrufars. Það er mikið verkefni að ljúka öflun grunnupplýsinga um náttúrufar landsins og efla langtímavöktun á umhverfisþáttum og lífríki hafs og lands.

Ég vil vekja sérstaklega athygli á því sem kemur fram í þessari ágætu skýrslu um rannsóknir. Það er tíundað mjög ítarlega, en það er kannski ástæða til þess að vekja sérstaklega athygli á því að efnahagsleg og samfélagsleg áhrif (Forseti hringir.) loftslagsbreytinga á hina ýmsu geira íslensks samfélags hafa lítt verið rannsökuð og nauðsynlegt að bæta úr því sem og svo mörgu öðru á þessu sviði.



[11:33]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Það ber að þakka þá mikilvægu umræðu sem hér er. Það er mikill vandi á ferðinni. Hann er orðinn nokkurn veginn óumdeildur og mun hafa mikil áhrif á náttúru og samfélag okkar mannanna hér á jörðinni, líka á Íslandi, ef við reynum ekki að bregðast við. Má þar nefna fjölmörg atriði eins og orkuskipti, endurheimt votlendis, taka upp almenningssamgöngur í ríkara mæli, takast á við plastvandann og beita grænum hvötum, horfa til landbúnaðar um breytingar þar og svo margt fleira.

Við höfum líka gengist undir skuldbindingar sem fela það í sér, sem skiptir máli í þessu samhengi líka, að ef við stöndum okkur ekki munum við jafnvel þurfa að greiða háar fjárhæðir í eins konar sektir fyrir að standa okkur ekki.

Það er því mjög mikilvægt að við tökum þessi mál föstum tökum. Það er auðvitað margt sem hægt er að segja en lítill tími gefst til.

Ég vil þó draga fram eitt atriði sérstaklega, þ.e. orkuskipti varðandi bílaumferð. Þar höfum við einna mestu stjórnina og getum gripið til aðgerða fljótt og vel. Skattlagning umferðar skiptir þar máli. Það skýtur því skökku við að dregið hefur verið úr fyrri áformum um hækkun á kolefnisgjaldi á eldsneyti bifreiða. Ég hlýt að spyrja hvernig það samræmist markmiðunum um að draga úr losun frá umferð að lækka kolefnisgjaldið og hverfa frá þeim áformum sem uppi voru í tíð (Forseti hringir.) fyrrverandi fjármálaráðherra um að hækka það gjald talsvert.



[11:35]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hnattrænar breytingar hafa áhrif á okkur öll. Það er ekki nóg að hugsa út frá því hvaða áhrif loftslagsbreytingar hafa á okkur sem einstaklinga heldur hvaða breytingar þær hafa fyrir allan heiminn og hvernig það hefur síðan áhrif á okkur. Það er erfitt að hugsa þannig en við verðum að gera það.

Varðandi aðgerðaáætlun stjórnvalda langar mig til að benda á augljósa galla þess plaggs eins og það er núna. Við hefðum viljað sjá tölur. Við vitum nefnilega hvert umfang skuldbindinganna er. Það er ekki nóg að vita hverjar aðgerðirnar eru heldur verðum við að vita umfangið sem verið er að reyna að ná utan um með aðgerðunum. Við þurfum að sjá markmiðin og það sem fyrst, þó að það séu ekki nákvæmar tölur um það hverju er náð með markmiðunum heldur hverju hver aðgerð þarf að ná. Þær tölur mega vera nákvæmari seinna.

Við erum að tala í megindráttum um tvenns konar skuldbindingar, annars vegar skuldbindingar varðandi Parísarsamkomulagið þar sem er gert ráð fyrir að við ætlum að halda okkur undir ákveðnu hitastigi. 2°C eða vel undir því er stóra markmiðið en ýtrustu kröfurnar eru 1,5°C. Svo er það Kyoto-bókunin sem er líka skuldbinding sem við höfum undirgengist þar sem við þurfum að draga úr útblæstri miðað við núverandi stöðu, þ.e. útblástursmarkmiðið, um 50% miðað við núverandi stöðu eða 40% miðað við 1990. Við erum sem sagt í verri stöðu núna en við vorum þegar markmiðið var sett.

Þetta er mjög erfitt því að við erum í rauninni að horfa á veru okkar á jörðinni. Langmesti tími jarðsögunnar er án mannsins og jörðin hefur enga þörf fyrir manninn, enda hefur hún enga þörf í rauninni þegar allt kemur til alls. Eftir að við verðum horfin í sögubækur alheimsins mun jörðin halda áfram að vera til, en við viljum hins vegar vera ferðalangar þar væntanlega aðeins lengur. Því miður erum við ekki að sýna það í verki. Það er dálítið merkilegt.



[11:37]
Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu um nýja skýrslu loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna sem er svartari en margan grunaði eða frekar sem margir vildu heyra. Við þurfum í raun að eiga hér nokkuð margar sérstakar umræður um innihald skýrslunnar, svo alvarlegt er það. Hún hefur enda verið kölluð lokaútkall, mesta viðvörun sem vísindasamfélagið hefur gefið út. Sumir segja að viðvaranirnar hafi nú þegar komið fram en viðbrögð alþjóðasamfélagsins látið á sér standa.

Eins og kunnugt er eru meginniðurstöður skýrslunnar þær að verja þarf 2,5% af heimsframleiðslu til aðgerða á sviði loftslagsmála, á hverju ári til ársins 2035, ef við ætlum ekki að afstýra því að meðalhiti á jörðinni hækki um meira en 1,5°C með hörmulegum afleiðingum fyrir lífríkið allt. Út frá þessum niðurstöðum 90 vísindamanna sem unnu skýrsluna þyrftu íslensk stjórnvöld að verja tæpum 64 milljörðum til loftslagsaðgerða sem er fimmtíufalt meira en áætlanir stjórnvalda gera ráð fyrir.

Sá verðmiði er sláandi hár en það er ekki það eina sem er sláandi við skýrsluna. Opinbert markmið Parísarsamkomulagsins er að halda hlýnun jarðar undir 2°C en áhersla er lögð á að ríkisstjórnum aðildarríkja að samkomulaginu beri að stefna að halda hlýnun undir 1,5°C. Til þess þarf að ná skýrum árangri í því að hitastig á jörðinni hækki ekki meira en um 1,5°C fyrir árið 2030. Annars er baráttan fyrir lífvænlegri framtíð jarðarinnar töpuð.

Virðulegi forseti. Það þarf að bregðast við loftslagsbreytingum af fullri hörku. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það þarf róttækar, félagslegar, pólitískar, efnahagslegar og menningarlegar breytingar. Þeirra er þörf. Rótin að þessari sláandi niðurstöðu í skýrslunni sem við ræðum núna og loftslagsbreytingum er kapítalískt heimsskipulag. Við þurfum að horfast í augu við það. Kapítalisminn í sinni allra verstu mynd hefur haft þau áhrif að neysla okkar hefur haft eyðileggjandi áhrif á náttúruna okkar, jörðina og loftslagið. Við þurfum að ráðast í róttækar breytingar á lífsháttum okkar og skipulagi samfélagsins núna út frá þeirri meginhugsun að vernda náttúru og koma í veg fyrir meira tjón.

Það er ekki nóg, þó að vel sé, að koma fram með mjög fína aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem er nauðsynlegt skref en ekki endastöð. Við þurfum að gera svo miklu meira en að vera á tánum. (Forseti hringir.) Skýrsluhöfundar segja að til að halda hlýnun innan við 1,5°C þurfi hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa (Forseti hringir.) að vera komið úr 20% í 70% og heimurinn að vera orðinn kolefnishlutlaus fyrir miðbik aldarinnar. (Forseti hringir.) Þetta eru risastór markmið en við höfum enga aðra möguleika en að fylgja þeim. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

(Forseti (JÞÓ): Forseti minnir þingmenn á að halda ræðutíma.)



[11:40]
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir umræðuna. Þó að við séum e.t.v. lítil þjóð í stóra samhenginu getum við haft mikil áhrif bæði til góðs og ills. Við Íslendingar erum á margan hátt forréttindaþjóð. Við eigum mikið magn af auðlindum, grænum, sjálfbærum auðlindum, en við erum líka neysluþjóð og gerum miklar kröfur um lífskjör sem í raun má segja að einkennist af orkusóun, orkusóun sem felst m.a. í því að fullnýta ekki þær auðlindir sem við nýtum nú þegar, orkusóun sem felst í því sem við kaupum og hendum án þess að fullnýta. Sú skýrsla sem við ræðum hér í dag er í einu orði sagt hrikaleg, ekki af því að hún sé svo illa skrifuð heldur af því að skilaboðin í henni eru hrikaleg, bara einfaldlega hræðileg.

Skýrslan er unnin í framhaldi af Parísarsamkomulaginu sem undirritað var fyrir tveimur árum og sameinuðust þar flestar þjóðir heims um það markmið að stöðva aukninguna á útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Því miður er ljóst samkvæmt þessari skýrslu að það er heldur ólíklegt að þau markmið náist. Þá er staðreyndin einnig sú að ef við ætlum okkur að ná þessum markmiðum dugar ekki að draga úr útblæstri eða hætta honum alveg heldur verðum við jafnframt að binda koltvísýring í miklu magni og, eins og hér hefur komið fram, breyta lífsháttum okkar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Herra forseti. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem við eigum þessa umræðu. Við vitum hvað þarf að gera en til þess þarf samstillt átak, og ekki bara okkar Íslendinga heldur heimsins alls. Við Íslendingar getum hins vegar og eigum að ganga á undan með góðu fordæmi. Við þurfum að hefja aðgerðir strax. Morgundagurinn er að ná okkur. Við getum bætt nýtingu svo um munar. Við getum (Forseti hringir.) minnkað neyslu. Við getum aukið bindingu.

Herra forseti. Við getum og við verðum að gera betur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[11:42]
Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér fer fram. Þó að vissulega sé ástæða til að hafa áhyggjur og taka ábendingarnar alvarlega er ýmislegt sem er að vinnast ágætlega á hinu góða landi okkar. Það hefur verið nefnt í umræðunni að sjávarútvegurinn hafi þegar náð árangri sem uppfyllir markmiðin sem snúa að heildarlosun. Við framleiðum umhverfisvænasta ál í heimi á Grundartanga, í Reyðarfirði og úti í Straumsvík. Við erum að ná býsna góðum árangri, og eigum að gera miklu betur, í uppgræðslu lands og skógrækt, þannig að það er ekki tómt svartnætti sem blasir við okkur.

Ég er jafnframt þeirrar skoðunar að við verðum að horfa á hvernig þetta snýr að okkur í hnattrænu samhengi. Víða eru stór verksmiðjusamfélög keyrð áfram á kolum og útblástur er ótæpilegur hjá slíkum þjóðum. Á sama tíma erum við með megináhersluna á umferð í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar, af þeim 34 atriðum sem þar eru tilgreind snúa 11 að umferð.

Það sem ég hef áhyggjur af í þeim málum er að við séum að setja áhersluna þar sem mjög lítið er að sækja. Ef við gefum okkur að talan sé rétt og að vegaumferð skili 3–5% af útblæstri á landinu leggjum við algerlega ofuráherslu á það miðað við þann árangur sem hægt er að ná á því sviði. Það er hlutur sem ég held að við verðum að hafa í huga þegar við tökum umræðuna áfram, að við setjum orkuna og áherslurnar þar sem árangur getur náðst.



[11:44]
Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu hér og kannski ekki síst málshefjanda, hv. þm. Smára McCarthy, fyrir að vera svolítið lausnamiðaður í umræðu sinni. Það er það sem við þurfum.

Við ræðum hér lokaviðvörun vísindasamfélagsins eins og hæstv. ráðherra kom réttilega inn á og útlitið er vissulega svart. Verkefni okkar snýst fyrst og fremst um að tryggja áframhaldandi lífsgæði þrátt fyrir þær breytingar sem við þurfum að gera á mannlegri hegðun. Ég tel að svarið við því sé samhentar aðgerðir stjórnvalda og vísindamanna en líka atvinnulífsins og almennings.

Við þurfum að tryggja samfélagslega ábyrgt markaðshagkerfi. Við þurfum að tryggja að hlýnun jarðar verði ekki meiri en 1,5°C, en við þurfum líka að huga að því að aðlagast þeim breytingum sem óhjákvæmilega verða. Við þurfum t.d. að huga að innviðum okkar, samfélagsmannvirkjum, fráveitum og ýmsu öðru, eins og komið var inn á, sem tengist náttúruvá.

En það skyldi ekki vera að mitt í öllum hörmungunum sé tækifæri? Þekkingariðnaðurinn á Íslandi, nýsköpun okkar sem tengist umhverfismálum, er kannski tækifæri fyrir þjóðina. Ég held að við höfum ýmislegt fram að færa þegar kemur að loftslags- og umhverfismálum. Við getum hreinlega horft á þetta sem útflutningsvöru og við höfum margt fram að færa þegar kemur að þróunaraðstoð er lýtur að loftslagsmálum, hvort sem er varðandi bindingu eða aðrar tæknilegar útfærslur. Við getum einfaldlega orðið miðstöð þekkingar og nýsköpunar í loftslagsmálum og norðurslóðamálum.

Ég held að það sé líka mikilvægt að horfa til þess að margar þeirra aðgerða sem við þurfum að fara í skila víðtækum árangri, ekki bara í loftslagsmálum. Mig langar þá sérstaklega að nefna almenningssamgöngur sem geta vissulega skilað árangri í loftslagsmálum en líka svo mörgu öðru; bættu samfélagi, bættu umferðaröryggi og bættri lýðheilsu.

Tækifærin eru víða mitt í hörmungunum en ég legg áherslu á að við eigum vissulega að ræða umhverfismálin miklu oftar í þessum sal.



[11:47]
Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa góðu umræðu og þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir að hefja máls á þessu mikilvæga umræðuefni. Margir góðir punktar hafa komið fram í dag í þessari umræðu sem vert er að hugsa um og það er alveg ljóst að þingheimur er sammála um það hversu mikilvægt málefnið er.

Þingheimur er að mörgu leyti sammála um það líka hvað þarf að gera. Þetta snýst bara um aðferðafræði. Hvað getum við gert til þess að draga úr losun? Við eigum alltaf að hugsa sem einstaklingar líka. Við eigum að hugsa um hvernig við drögum úr kolefnisfótspori okkar, umhverfisfótspori o.s.frv., ekki bara að segja að ríkið þurfi að gera þetta og gera hitt. Það þurfa allir að leggjast á árarnar í því að reyna að draga úr losun og reyna að koma í veg fyrir þá vá sem stendur fyrir dyrum.

Hvað getum við gert? Það er búið að koma hér fram. Það sem ég vil leggja aðeins áherslu á og undirstrika enn frekar eru þau miklu tækifæri sem við höfum varðandi skógrækt og endurheimt votlendis og ekki má gleyma landgræðslunni. Þar getum við bætt gríðarlega í, að græða upp land, en við þurfum bara aukið fjármagn til þess. Það eru mjög margar hendur og mjög mikil þekking fyrir hendi úti um allt land til þess að græða upp land. Það er mun auðveldara að planta skógi eftir að menn hafa grætt upp landið. Þá getum við margfaldað þann árangur í að kolefnisjafna það sem við erum að gera.



[11:49]
Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka málshefjanda, hv. þm. Smára McCarthy, fyrir þessa þörfu og góðu umræðu. Það er svolítið merkilegt sem ég ætla að byrja á því að segja en ég óska ríkisstjórninni til hamingju með þann augljósa og góða vilja sem hún sýnir í störfum sínum hvað varðar loftslagsmálin og varnir í þeim málum.

Betur má þó ef duga skal. Litlir þættir verða í samhenginu risastórir. Tökum skemmtiferðaskipin sem dæmi. Þeim fjölgar, þau verða 140 á næsta ári að því er talið er. Eitt skip er talið menga á einum sólarhring á við 10.000 bíla. Þessi 140 skip menga þá á við 1,4 milljónir bifreiða.

Nú er alltaf verið að tala um hve mikið bílarnir menga en við vitum að það er búféð okkar og nautgripirnir sem talin eru bera ábyrgð á 14% af allri gróðurhúsamengun á jörðinni. Ég er ekki að segja það, og mér líst engan veginn á það, að þróunin verði slík að við þurfum öll að fara að borða grænmeti eða verða vegan til að reyna að laga það, en það er samt sem áður gott fyrir þá sem vilja gera það. Ef það er framtíðin munum við ekki skorast undan því hér á hv. Alþingi, er það nokkuð? Það er bara allt í lagi að við göngum á undan með góðu fordæmi eins og við erum að gera hér eftir sem hingað til.

Ég segi bara: „Go“, áfram við. Ég trúi því að þetta sé eitt af þeim málum sem við getum öll verið sammála um að við eigum að berjast fyrir með kjafti og klóm, öll sem eitt.



[11:51]
Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Í máli hæstv. umhverfisráðherra kom fram hinn eiginlegi vandi. Hann vísaði m.a. í niðurdælingu á Hellisheiði sem er áætlað að geti skilað um 50–100 tonna niðurdælingu á ári við hliðina á Hellisheiðarvirkjun sem dælir út 200 tonnum á dag af koltvísýringi.

Við verðum að horfa á þetta raunsætt. Um leið og ég þakka fyrir góða umræðu legg ég áherslu á að markmiðið er að draga saman um 116.000–119.000 tonn á ári. Það er það eina sem mun hjálpa okkur. Við þurfum að ganga lengra. Það er vel þekkt að ríki sem einsetja sér að leysa gríðarlega stór vandamál og snúa tilvist ríkisins að því verkefni að leysa þau hafa ekki bara náð að leysa þau oftar en ekki heldur hafa þau oft náð að fanga mjög stórar jákvæðar hliðarverkanir í leiðinni.

Ef ríkisstjórnin myndi ekki líta á loftslagsbreytingar sem óþægilegt vesen sem þyrfti að redda, heldur tækifæri fyrir íslensku þjóðina til að skapa sér leiðandi stöðu í heiminum, gæti hagkerfið okkar notið góðs af. Þess vegna kalla ég eftir nýjum innréttingum, nýrri iðnbyltingu í þágu umhverfisins. Til þess þarf meira en milljarð á ári og það þarf meira en óljós markmið.

Ég beini því eftirfarandi til hæstv. umhverfisráðherra: Ríkisstjórnin þarf að tryggja 119.000 tonna samdrátt í losun á hverju einasta ári næstu 12 árin, að þessu ári meðtöldu. Ríkisstjórnin þarf að tryggja minnst tíföldun á fjármagni eigi þetta markmið að nást. Ríkisstjórnin þarf að setja upp einhvers konar vefsíðu sem sýnir hversu langt við erum komin í að ná markmiðum Parísarsáttmálans, rökstutt með tilvísunum í gögn.

Íslensk orku-, tækni- og nýsköpunarfyrirtæki þurfa að einsetja sér að ná þessu markmiði, ekki bara fyrir árið 2030, heldur nægilega langt á undan þeim tíma til að trúverðugleiki Íslands stóraukist á þessu sviði og að við getum ekki bara dregið úr útblæstri Íslands heldur grætt á því að hjálpa öllum heiminum. Ef við getum þetta ekki er illa farið fyrir öllum hinum löndunum.

Alþingi þarf að greiða götu þessara áætlana án þess að festast í skotgröfum hugmyndafræði. Ef við getum það ekki, (Forseti hringir.) verður lítið eftir af hugmyndafræði til þess að karpa um.

Forseti. (Forseti hringir.) Örlagastundir koma til þess að gefa fólki tækifæri til að sýna hvað í því býr. Ég vona að í okkur búi dugur til þess að leysa þetta vandamál. (Forseti hringir.) Framtíð mannkynsins er í veði. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[11:54]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka einlæglega undir með hv. þingmanni hvað hér er undir og fagna áhuga og stuðningi þingheims og sérstaklega málshefjanda við þetta mál. Það er gríðarlega mikilvægt að ræða þetta hér og það miklu oftar en við gerum.

Við höfum lengi verið aftarlega á merinni í loftslagsmálum en ég vil meina að nú sé að verða viðsnúningur. Við þurfum að hjálpast að við þetta allt saman. Hér hefur m.a. verið rætt um tölur og ég er sammála því að við þurfum að ná betur utan um það hverju hver aðgerð er að skila, það hef ég sagt áður.

En talandi um tölur þá verð ég að leiðrétta þetta með vegasamgöngurnar. Þær eru 32% af beinum skuldbindingum Íslands. Einn mikilvægasti þátturinn í að draga úr skuldbindingunum er olíunotkunin þannig að við verðum að takast á við það.

Hér hefur mörg hvatningin komið fram og mörgum þeirra eru þegar gerð skil í aðgerðaáætlun eða jafnvel í utanríkisstefnu landsins. Það er eitt sem ég vil nefna hér sem við eigum eftir að koma í framkvæmd og það er að útbúa aðlögunaráætlun fyrir loftslagsbreytingar á Íslandi. Það er verkefni sem mun hefjast á næstunni hjá ráðuneytinu.

Herra forseti. Við skulum ekki gleyma því heldur að aðgerðir eru hafnar og verkefnið fram undan er að klára að hrinda í framkvæmd aðgerðaáætluninni sem var kynnt í september. Við verðum líka að vera meðvituð um það að í ljósi þessa risavaxna verkefnis þurfum við að meta á hvaða sviðum við getum verið róttækari og gert enn betur og taka tillit til slíks við endurskoðun áætlana okkar.

Ég er mjög ánægður með að ný aðgerðaáætlun markar straumhvörf hvað varðar fjármagn og afl til loftslagsmála. Það eitt og sér tel ég vera stórtíðindi í umhverfisvernd á Íslandi. Ég fer ríkari heim af þessum fundi en þegar ég kom til hans og fyrir það vil ég þakka þingheimi kærlega.