149. löggjafarþing — 27. fundur
 6. nóvember 2018.
staða þjóðkirkjunnar og tengsl hennar við ríkisvaldið umfram önnur trú- og lífsskoðunarfélög.
beiðni JSV o.fl. um skýrslu, 280. mál. — Þskj. 311.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[14:19]

[14:06]
Jón Steindór Valdimarsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég tel rétt að rifja upp markmið með þessari skýrslubeiðni sem er að draga saman á einn stað upplýsingar sem eru forsenda þess að unnt sé að vanda til undirbúnings að afnámi sérstöðu þjóðkirkjunnar í samanburði við önnur skráð trú- og lífsskoðunarfélög. Markmið beiðenda er ekki að vinna að því að þjóðkirkjan verði lögð niður eða grafa undan sögulegri eða menningarlegri stöðu hennar. Það hryggði mig að heyra ræðu hæstv. fjármálaráðherra á kirkjuþingi. Ég vitna til hans, með leyfi forseta:

„En jafnvel á Alþingi er töluverður hópur þingmanna sem virðist ekki tilbúinn til að viðurkenna að neinu leyti að þjóðkirkjan hafi hlutverk eða eigi erindi við samtímann, ekki heldur að virða þá samninga sem gerðir hafa verið. Þetta gerir það enn brýnna en ella að ríkið og kirkjan nái saman sem fyrst um að þróa áfram samband sitt og sjálfstæði kirkjunnar innan skynsamlegs ramma.“ (Forseti hringir.)

Sem sagt ríkið, framkvæmdarvaldið, og kirkjan eiga að drífa í því að ná samkomulagi áður en Alþingi kemst með puttana í málið. Þetta er ekki þessum ágæta vettvangi, kirkjuþingi, eða þjóðkirkjunni eða hæstv. fjármálaráðherra, til sóma.



[14:08]
Ólafur Ísleifsson (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það segir í greinargerð að markmið þessarar skýrslubeiðni sé að draga saman á einn stað upplýsingar um aðskiljanlega þætti, með leyfi forseta, sem eru forsenda þess að unnt sé að vanda til undirbúnings að afnámi sérstöðu þjóðkirkjunnar í samanburði við önnur skráð trú- og lífsskoðunarfélög.

Þá segir, með leyfi forseta:

„Markmið beiðanda er ekki að vinna að því að þjóðkirkjan verði lögð niður eða að grafa undan sögulegri og menningarlegri stöðu hennar.“

Fyrir þetta verður auðvitað að þakka en ég ætla að leyfa mér að segja það hér að ég tek ekki undir þau markmið sem hér er lýst. Ég get þess vegna ekki stutt þessa skýrslubeiðni. Ég vil út af fyrir sig ekki leggjast gegn flutningsmönnum hennar með því að að greiða atkvæði gegn henni en ég mun sitja hjá.



[14:09]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þessi póstmódernistatillaga er á margan hátt undarleg og virðist fela í sér ákveðna fordóma eða a.m.k. þekkingarleysi á stöðu kirkjunnar og sambandi kirkjunnar og ríkisins, sögu sem nær meira en 1000 ár aftur í tímann. Það væri eðlilegra að skoða hversu mikið kirkjan hefur fallist á að gefa eftir gagnvart ríkinu á undanförnum árum af því sem hún hefur þó átt lögbundinn rétt á, rétt samkvæmt samningum — hún tók að sér að gefa eftir fleiri milljarða króna sem hefur auðvitað sett svip sinn á starf kirkjunnar og gert þá mikilvægu þjónustu sem hún veitir á margan hátt erfiðari. Ég get því ekki stutt þessa tillögu. En það er hefð fyrir því að menn leggist ekki gegn skýrslubeiðnum. Þar sem ég er ekki póstmódernisti þá ætla ég að halda í þá hefð enn um sinn og greiði ekki atkvæði.



[14:10]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það er vinsælt að setja upp aðskilnað ríkis og kirkju þannig að það sé einhver sem sé á móti kirkjunni og kristinni trú og aðrir sem standi upp og verji hana fyrir árásum fólks sem er á móti henni. Það er bara ekki tilfellið. Aðskilnaður ríkis og kirkju snýst um jafnræði borgaranna gagnvart lögum, óháð trúar- og lífsskoðun. Um það snýst það.

Ég er í lífsskoðunarfélagi sem heitir Siðmennt, það er ekki erfitt að fletta því upp að ég var í stjórn þess ágæta félags. Ég myndi berjast mjög hatrammlega gegn þeirri hugmynd að Siðmennt yrði einhvers konar þjóðarlífsskoðun hér, vegna þess að ég trúi því ekki að ríki séu trúuð, hverju svo sem ég kann að trúa á andlega sviðinu. Þessi skýrslubeiðni er það sem nafnið segir, beiðni um skýrslu, söfnun upplýsinga, vissulega að því markmiði að meta þetta verkefni. Verkefnið er ekkert í andstöðu við kristni, ekki einu sinni andstöðu við þjóðkirkjuna sjálfa sem stofnun eða sem trúfélag, heldur þetta samband ríkis og kirkju. (Forseti hringir.) Það er hlutverk ríkisins sem við eigum að huga að hér, ekki trúarsannfæringu okkar.



[14:12]
Birgir Þórarinsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í greinargerð með þessari skýrslubeiðni segir að þjóðkirkjan hafi lagalega sérstöðu. Það er rétt. Þannig vill meiri hluti landsmanna hafa það, sambandið við þjóðkirkjuna. Það sást glöggt í þjóðaratkvæðagreiðslunni fyrir sex árum þar sem skýr meiri hluti kaus að halda eigi ákvæði um þjóðkirkjuna í stjórnarskrá. Ég tel að markmið þessarar skýrslu sé að leggja grundvöll að afnámi lagalegrar sérstöðu þjóðkirkjunnar, sem ég er mótfallinn. Ég get ekki stutt þessa skýrslubeiðni. Og af kurteisisástæðum greiði ég ekki atkvæði.



[14:13]
Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég fagna þessari skýrslubeiðni, enda er ég meðflutningsmaður þar. Ég held að upplýsingagjöf til þingsins sé af hinu góða. Þegar rætt er um aðskilnað ríkis og kirkju eru margir, m.a. kirkjunnar fólk, sem tala um að fullur aðskilnaður hafi þegar átt sér stað, búið sé að aðskilja ríki og kirkju og ekki séu tengsl þar á milli. Það svar kirkjunnar fólks segir mér að við verðum að skoða hver tengslin eru. Er búið að aðskilja? Hverjar hafa greiðslurnar verið? Hver eru hin lögbundnu hlutverk? Hvernig er staðan í dag eftir allan þennan tíma? Spurningar sem eru á skýrslubeiðninni eru þess vegna mjög réttmætar, spurt er út í þá samninga sem nú eru í gildi og hvaða greiðslur hafi átt sér stað. Það er ekki verið að leggja til að aðskilja ríki og kirkju heldur beðið um upplýsingar um stöðuna. Ég held að við hljótum öll að vilja fá (Forseti hringir.) þær upplýsingar upp á borðið.



[14:14]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég er meðal þeirra sem eru á þessari skýrslubeiðni. Það er vegna þess að ég tel að okkur vanti meiri upplýsingar um kirkjunnar mál og um stöðu þjóðkirkjunnar í samfélaginu eins og hún er núna í hlutfalli eða tengslum við stöðu annarra trúfélaga.

Þó svo að einhverjir hér inni virðist vilja túlka það eins og við viljum að gera eitthvað meira með þessari skýrslubeiðni en það sem er samkvæmt orðanna hljóðan í beiðninni, og ætla okkur eitthvað meira þar, er ég fegin því að þeir hv. þingmenn ætli þó alla vega ekki að greiða atkvæði gegn henni og þar með í rauninni gegn því að aðrir þingmenn afli sér upplýsinga innan algerlega skilgreindra marka þess sem svona skýrslubeiðnir fela í sér.

En þetta er ákveðið upphaf að því að fá upplýsingar um málið. (Forseti hringir.) Svo tökum við næsta skref kannski síðar.



[14:16]
Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég held að við hljótum að geta verið jákvæð gagnvart því að afla upplýsinga. Þau atriði sem hér er spurt um eru að stórum hluta tilefni sem getur fallið undir skýrslubeiðni. Þess vegna hefði kannski verið einfaldara fyrir hv. flutningsmann að koma með fyrirspurn til skriflegs svars. Það er hins vegar nauðsynlegt að hafa í huga að skýrslubeiðni er fyrst og fremst til þess hugsuð að afla upplýsinga. Ef menn eru að leggja til vinnu með tiltekin markmið, af því að þeir ætla sér að koma á einhverjum lagabreytingum t.d., er kannski eðlilegra að koma með málið í formi þingsályktunartillögu sem fær þá efnislega umfjöllun í þinginu. Skýrslubeiðni fær það sem slík ekki.

Þess vegna hefði verið betra, held ég, fyrst það er markmið tillöguflytjenda, að vanda til undirbúnings að afnámi sérstöðu þjóðkirkjunnar — það segir í textanum, það er markmiðið í þessu, að koma með þingsályktunartillögu. Svo verð ég að segja að mér finnst mjög sérkennilegt að þingið sé að biðja ráðherra um (Forseti hringir.) skýrslu sem felur m.a. í sér, eins og greinir í 6. lið, hvaða aðila ráðherra þætti mikilvægt að fá til samráðs verði tekin ákvörðun um að afnema sérstöðu þjóðkirkjunnar.

Eins og ég segi: Ég styð það að þeirra upplýsinga verði aflað sem hér er talað um, um stöðu þjóðkirkjunnar, samninga við ríkið, fjárframlög og annað þess háttar, en ég verð að segja að mér finnst tillöguflytjandi hafa valið vitlausa leið til þess að koma þessu máli á dagskrá (Forseti hringir.) og mun þess vegna ekki styðja tillöguna hér á eftir.



[14:18]
Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti verður að biðja hv. þingmenn að gæta að tímamörkum. (BÁ: Ég er lengi að öllu þessa dagana, á þessum hækjum.) [Hlátur í þingsal.] Forseti var þolinmóður, m.a. af þeim sökum.



[14:18]
Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég er meðal flutningsmanna. Það er alveg rétt sem hv. þm. Birgir Ármannsson segir, það er kannski eitthvað um formið hérna, en það var líka pælt í því og hluti af upplýsingaöflun fyrir skýrslubeiðnina var fyrirspurn mín um kirkjujarðasamkomulagið sem við fengum svar við mjög nýlega. Þar var sagt og það væri ekki einu sinni vitað hvaða jarðir væri þar undir, merkilegt nokk, sem rennir enn frekari stoðum undir að við þurfum á upplýsingum um þau mál að halda.

Þetta er það sem við tókum úr skýrslubeiðninni og fluttum sem fyrirspurn. Þannig að hv. þm. Birgir Ármannsson getur reynt að skýla sér á bak við eitthvert form en þegar allt kemur til alls þurfum við þessar upplýsingar.



Beiðni leyfð til dómsmálaráðherra  með 26 shlj. atkv. og sögðu

  já:  AFE,  AIJ,  ATG,  ÁÓÁ,  ÁslS,  BjG,  BLG,  GBr,  HKF,  HVH,  HHG,  JSV,  KJak,  KÓP,  MT,  OH,  ÓGunn,  ÓBK,  SMc,  SJS,  SÞÁ,  TBE,  WÞÞ,  ÞKG,  ÞorstV,  ÞSÆ.
19 þm. (AKÁ,  ÁsF,  BÁ,  BirgÞ,  BHar,  BN,  GIK,  HSK,  KGH,  KÞJ,  LRM,  LínS,  NTF,  ÓÍ,  SDG,  SPJ,  VilÁ,  ÞorS,  ÞórE) greiddu ekki atkv.
18 þm. (ÁsgG,  ÁsmD,  BergÓ,  BjarnB,  GÞÞ,  GBS,  HallM,  IngS,  JónG,  JÞÓ,  LA,  LE,  PállM,  RBB,  SÁA,  SIJ,  SSv,  ÞórdG) fjarstaddir.