149. löggjafarþing — 28. fundur
 7. nóvember 2018.
stofnun lýðháskóla Ungmennafélags Íslands á Laugarvatni, fyrri umræða.
þáltill. WÞÞ o.fl., 30. mál. — Þskj. 30.

[16:59]
Flm. (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um stofnun lýðháskóla Ungmennafélags Íslands á Laugarvatni. Málið er að finna á þskj. 30 með málsnúmerið 30. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Þórunn Egilsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir og Silja Dögg Gunnarsdóttir.

Tillögugreinin hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að skipa starfshóp sem skipuleggi stofnun lýðháskóla Ungmennafélags Íslands á Laugarvatni. Ráðherra ákveði skipan starfshópsins en í honum sitji a.m.k. einn fulltrúi frá Ungmennafélagi Íslands og einn frá Bláskógabyggð. Hópurinn taki m.a. mið af yfirstandandi vinnu við lagafrumvarp um lýðháskóla, nýtingu mannvirkja og skólans á Laugarvatni við rekstur sumarbúða Ungmennafélags Íslands, rannsóknum á brotthvarfi nemenda úr framhaldsskólum og reynslu af stofnun og rekstri annarra lýðháskóla hér á landi, einkum á Flateyri og Seyðisfirði. Starfshópurinn skili ráðherra niðurstöðum sínum eigi síðar en 31. maí 2019.“

Í greinargerð málsins kemur fram að málið var lagt fram á 148. löggjafarþingi en ekki var mælt fyrir því þá og er það nú endurflutt lítillega breytt, þ.e. í greinargerð. Tillaga þessi er lögð fram þó svo að á Íslandi sé engin almenn löggjöf enn þá um lýðháskóla.

Með þingsályktunartillögu nr. 41 frá 145. löggjafarþingi um lýðháskóla, sem samþykkt var á Alþingi 2. júní 2016, var mennta- og menningarmálaráðherra falið að hefja vinnu við gerð frumvarps til laga um lýðháskóla á Íslandi að norrænni fyrirmynd. Markmiðið með því var að gera lýðháskóla að viðurkenndum valkosti í menntakerfinu sem njóti lagalegrar umgjarðar og opinbers stuðnings, eins og segir í inngangi greinargerðar með tillögunni. Samkvæmt henni er ráðherra falið að leggja fram frumvarp í síðasta lagi á vorþingi 2017. Sú tímasetning hefur ekki staðist, en vinna við samningu frumvarps til laga um lýðháskóla fer fram í ráðuneytinu um þessar mundir og er á þingmálaskrá ráðherra. Starfshópurinn sem skipuleggi stofnun lýðháskóla á Laugarvatni skal fylgjast með samningu löggjafar um lýðháskóla og taka mið af henni í vinnu sinni.

Virðulegi forseti. Ég ætla að fjalla um lýðháskóla og kosti þeirra inn í menntaflóru okkar og þá sem hafa verið starfræktir hér, LungA á Seyðisfirði og lýðháskólann á Flateyri, og þann fyrirhugaða skóla sem lagður er til hér og möguleikana á að reka áfram ásamt ungmennabúðum, eða sumarbúðum, í samvinnu við Íþróttafélag fatlaðra.

Lýðháskólar eru um margt ólíkir því sem við eigum að venjast, til að mynda í hefðbundnum framhaldsskólum eða háskólum, og hafa meiri sveigjanleika í námskrá og kennsluháttum. Ágætislýsingu eða skilgreiningu er að finna á heimasíðu Áttavitans, sem er upplýsingagátt í umsjón Hins hússins, sem miðar að ungu fólki. Þar er líka að finna hagnýtan fróðleik um lýðháskóla á hinum ýmsu sviðum öðrum sem snertir ungt fólk og þeirri spurningu m.a. svarað hvað lýðháskóli sé. Segir þar, með leyfi forseta:

„Lýðháskólar eru eins konar lífsleikniskólar þar sem nemendur geta valið sér nám úr fjölda ólíkra námsgreina. Í lýðháskólum er ekki lögð áhersla á próf heldur fremur þátttöku og að nemendur læri eitthvað gagnlegt og skemmtilegt. Lýðháskólar eru starfræktir á öllum Norðurlöndunum.“

Það má auðvitað setja spurningarmerki við það að læra eitthvað gagnlegt og skemmtilegt. Ég efast ekkert um að mörgum þyki skemmtilegt í hinum hefðbundnari skólum. En það einkennir slíka skóla, og óþarfi að misskilja það í greiningunni, að áherslan er ekki á próf og prófaundirbúning eins og við þekkjum gjarnan. Ef maður skoðar slíka skóla, hvort heldur þá sem hafa verið starfræktar hér eða á Norðurlöndunum, svokallaðir folkehøjskoler, er einkennandi fyrir þá, hvar sem borið er niður, að nemandinn og áhugasvið hans er alltaf í forgrunni. Lögð er rík áhersla á að elta áhugasvið nemandans. Það eru engin próf. Skólarnir eru fyrir alla og oft og tíðum, til að virkja nemendur, taka þeir þátt í að setja saman eigin dagskrá með stuðningi kennara við þekkingaröflun og upplifun með áherslu á þátttökuna.

Það eru engin sérstök námsskilyrði eða önnur próf eða námsáfangar sem þarf að vera búið að ljúka til að komast að. Þetta eru gjarnan heimavistarskólar þar sem nemendur búa og sækja þá þekkingu sem þeir hafa áhuga á. Slíkir skólar hafa verið starfræktir víða erlendis og eiga sér langa hefð. Við þekkjum kannski flest fyrirmyndina frá Danmörku. Þar var fyrsti skólinn stofnaður 1830 þar sem kjarninn í hugmyndafræðinni var að skólastarfið ætti að vera mótað af nemendum sem kennurum og stjórnendum. Frelsi hefur alla tíð verið til grundvallar; frelsi til að læra, frelsi til að velja, frelsi til að vera, frelsi til að hanna eigin dagskrá.

Eins og ég sagði eru tveir skólar starfræktir hér á landi í dag. Annar þeirra er LungA, skóli sem var stofnaður 2013 og er lýðháskóli á Seyðisfirði rekinn á styrkjum frá opinberum aðilum og einkaaðilum, auk skólagjalda. Þar er lögð rík áhersla á sjálfsskoðun í gegnum listir og skapandi vinnu. Ég hef ekki heyrt annað en að þar fari virkilega gott starf fram. Haustið 2018 hóf Lýðháskólinn á Flateyri starfsemi sína. Þar eru í boði tvær ólíkar námsleiðir sem hvor um sig tekur að hámarki við um 20 nemendum. Byggir önnur námsleiðin á styrkleikum staðarins, þ.e. samfélagi, náttúru og menningu, en hin námsleiðin byggist á hugmyndavinnu og sköpun. Skólinn nýtir vannýtt húsnæði í þorpinu fyrir starfsemina.

Ég hvet alla sem vilja kynna sér frekar lýðháskóla og þá hugmyndafræði sem er að baki að skoða heimasíðu skólans á Flateyri. Það er vönduð síða þar sem er að finna virkilega gagnlegar upplýsingar og vel fram settan fróðleik um ýmislegt sem snýr, ekki bara að starfsemi skólans sjálfs á Flateyri heldur gefur góða innsýn almennt inn í hvernig lýðháskólar eru frábrugðnir hefðbundnari skólum og öðru námsframboði og bjóða upp á ólíka nálgun í þekkingaröflun og kennsluháttum.

Þar segir m.a., með leyfi forseta:

Við Lýðháskólann á Flateyri er nemandinn í miðjunni, fær stuðning frá kennurum, samfélagi nemenda og íbúa þar sem þekking, færni og hæfni nemenda verður til með þátttöku í verkefnum sem tengjast atvinnulífi, samfélagi og menningu. Áhersla er á þjálfun í virkri skapandi hugsun í gegnum verkefni sem krefjast samvinnu og ólíkrar reynslu. Skipulagið og námið byggir á þematengdum verkefnum sem sameina atriði sem tengja námskeiðin og samfélag skólans við líf, samfélag og menningu staðarins.

Með áherslunni á heimavist og það að nemendur sinni námi sínum á staðnum, þar sem þeir búa, verður þetta samfélag skóla öðruvísi og hluti af hugmyndafræðinni.

Virðulegi forseti. Ég tel að stofnun slíkra skóla sé góð fyrir menntunina, nemendurna og samfélagið. Þá getum við spurt okkur hvort þörf sé á þriðja skólanum. Ég tel svo vera. Þess vegna legg ég fram þetta þingmál.

Í gegnum tíðina hefur Ungmennafélag Íslands reglulega viðrað áhuga á því að stofna lýðháskóla. Í nokkur skipti hefur verið farið af stað með verkefnið en það hefur jafnan stöðvast því að ekki er til lagaumgjörð um það skólaform á Íslandi, eins og fram hefur komið. Ungmennafélag Íslands hefur lagt áherslu á að hlutirnir gerist í réttri röð og að lagaumgjörð sé fyrsta skrefið. Þess vegna legg ég til að þetta tvennt sé unnið samhliða.

Áhugi er fyrir stofnun lýðháskóla á Laugarvatni með aðkomu menntamálayfirvalda og Bláskógabyggðar. Oft þarf eitthvert frumkvæði héðan til að tengja saman þá aðila sem geta sett af stað slíka skóla.

Ungmennafélag Íslands hefur þegar myndað samstarfsteymi við lýðháskóla í Danmörku sem er tilbúinn að leggja sitt af mörkum í undirbúningi og framkvæmd, enda er rík hefð, eins og ég kom inn á, fyrir lýðháskólum í Danmörku og víðar á Norðurlöndum. Ungmennafélag Íslands hefur jafnframt rekið ungmennabúðir á Laugum í Sælingsdal til fjölda ára. Þar koma skólahópar í 9. bekk í tæplega vikudvöl með kennurum sínum. Það hefur verið eftirsóknarvert að koma í búðirnar en þar er lögð áhersla á félagsfærni, útivist og upplifun án nútímatæknibúnaðar. Öll viðfangsefnin eru unnin í óformlegu námi. Nú hefur Dalabyggð selt þessar eignir að Laugum og óvissa er uppi um hvað við tekur. Rætt hefur verið um að færa búðirnar að Laugarvatni.

Með aðkomu Ungmennafélags Íslands á Laugarvatni myndast tækifæri til að koma að stofnun lýðháskóla og rekstri ungmennabúða og tryggja um leið að ýmis verkefni stöðvist ekki, heldur geti haldið áfram í óbreyttri mynd. Þar má nefna stuttar ferðir, samkomur og fundi íþrótta- og ungmennafélaga og ekki síst sumarbúðir Íþróttasambands fatlaðra, en fram hefur komið eindreginn vilji forsvarsmanna sambandsins til að halda búðunum starfræktum áfram.

Ég vil meina að kostir lýðháskóla séu óumdeildir þegar kemur að fjölbreytni. Þar liggur styrkur þeirra. Unnið er út frá öðrum áherslum og er áhersla á mannrækt, sjálfsrækt og virka þátttöku nemenda. Mér finnst það hafa vantað í menntakerfi okkar. Ég held að full þörf sé á þriðja skólanum og með honum erum við alla vega komin með þrjá skóla í þremur landshlutum. Það held ég að sé mjög jákvætt og muni auka fjölbreytni og valmöguleika í menntakerfinu og mæta þörfum nemenda með það að leiðarljósi að örva þá til þátttöku í verkefnabundnu og lausnamiðuðu námi og ýta undir frumkvæði, gagnrýna hugsun og skapandi starf nemenda.

Niðurstöður nýlegrar rannsóknar um áhrif þess að fara í lýðháskóla sýna marktæk jákvæð áhrif af veru í honum í tengslum við brottfall úr námi. Ungt fólk sem flosnað hefur úr námi eykur líkur sínar á því að fara aftur í nám og ljúka því með því að fara í lýðháskóla. Það kemur oft millibilsástandi í lífi okkar, ég tala nú ekki um á þeim árum þegar við erum að fara í gegnum skóla. Ég held að þetta geti reynst okkur happadrjúgt að því leytinu til.

Þá hefur starfsemi þeirra tveggja skóla sem þó hafa verið starfræktir, LungA í fimm ár og svo nýstofnaður skóli á Flateyri, sýnt að þörf er á slíkum skólum til að auka fjölbreytileika. Með tilkomu slíks skóla á Laugarvatni, með áherslu á íþróttir, værum við komin með þrjá skóla í þremur landshlutum.

Eins og ég sagði í upphafi er frumvarp til laga um lýðskóla til vinnslu í ráðuneytinu og er á þingmálaskrá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra. Ráðgert er að ráðherra leggi málið fyrir Alþingi í marsmánuði og ég á ekki von á öðru en að svo verði. Ég myndi sannarlega óska þess að málið gæti klárast inn í þá vinnu þannig að við gætum unnið þetta samhliða, en það verður að játa að bagalegt er að við skulum ekki enn vera búin að tryggja lagalega umgjörð og um leið með lögum stöðu lýðháskóla eða lýðskóla á Íslandi. Ég sá þegar ég skoðaði þingmálaskrána að búið er að breyta lýðháskólanafninu í lýðskóla. Ég er ekki komin lengra í þeirri hugsun heldur sá það bara á þingmálaskránni, en það hlýtur að hafa verið einhver ástæða fyrir því.

En við þurfum auðvitað með lögum að viðurkenna slíka skóla og starf þeirra og um leið tilheyrandi skilyrði og kröfur um starfsleyfi, gæði náms og eftirlit, sem er nauðsynlegt fyrir starfsemi skólanna til að hljóta opinberan stuðning. Það færi vel á því að samþykkja þessa þingsályktunartillögu og klára samhliða almenna löggjöf um lýðháskóla, eða lýðskóla, eins og boðað er í þingmálaskrá.

Ég vona og geri ráð fyrir að málið hljóti skjóta meðferð og er ekki í vafa um að það fái faglega afgreiðslu í hv. allsherjar- og menntamálanefnd.



[17:14]
Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir þessa framsögu og þingsályktunartillöguna, sem mér finnst að öllu leyti mjög áhugaverð. Ég held að það sé til mikils að vinna að breikka íslenskt skólakerfi. Ég hjó eftir því í skýrslu sem ég var að renna yfir um lýðháskóla að mikilvægi þess að breikka kennsluhætti er almennt viðurkennt. Hér segir, með leyfi forseta:

„Lýðháskólarnir hafa verið taldir til öflugasta og sjálfstæðasta framlags Norðurlandanna á sviði menntunar og fullorðinsfræðslu. Í menntavísindum hins vestræna heims er vísað til norrænna lýðháskóla sem fyrirmyndar sem skólakerfið gjörvallt ætti að horfa til.“

Mér finnst þetta mjög áhugavert. En ég kem kannski fyrst og fremst hér upp til að spyrja hv. þingmann aðeins út í það sem hann nefndi, þ.e. að við erum þó með í dag með tvo sprota, skulum við að segja, lýðháskólasprota, þ.e. LungA fyrir austan og svo nýlega stofnuðu öflugir Vestfirðingar skóla á Flateyri.

Ég hygg að það sé mjög mikilvægt að treysta fjárhagslegan grunn og tilvist þessara skóla. Á sama tíma og mér finnst þingsályktunartillagan mjög áhugaverð þá óttast ég líka að við förum af stað á of mörgum stöðum með sprota án þess að vera búin að tryggja umgjörðina.

Eitt er að tryggja lagalegan grunn skólanna sem ég held að sé mikilvægt og gott til þess að vita að hæstv. menntamálaráðherra muni leggja fram frumvarp þar að lútandi fljótlega, en hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér kostnaðarþátttöku ríkisins þegar kemur að lýðháskólum eða lýðskólum?



[17:16]
Flm. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Þetta er auðvitað mjög mikilvæg spurning, hvernig fjármögnun þessara skóla eigi að vera háttað og hvernig aðkoma okkar hér, ríkisvaldsins, eigi að vera að því.

Hv. þingmaður reyndar afgreiddi svona a-hluta míns svars, sem er auðvitað forsendan fyrir almennum lögum. Við höfum þessa lagalegu umgjörð og getum sett slíkum skólum skilyrði og skapað þær forsendur í raun og veru fyrir því að við styrkjum þá yfir höfuð.

Hv. þingmaður talaði jafnframt um að þetta væru eins konar sprotar, það er bara fimm ára saga á bak við LungA-skólann og styttri á Flateyri. Þetta er eins og gjarnan gerist í okkar samfélagi, frumkvöðlakrafturinn og áhuginn er mikill staðbundið, er hreinlega á undan ríkisvaldinu og löggjafanum þegar kemur að þessum þáttum. Þess vegna lagði ég áherslu á það í minni ræðu að við myndum hraða þessu. Það er búið að taka þrjú ár að klára hina almennu lagaumgjörð.

Ég sé fyrir mér að þetta verði undir sviði mennta- og menningarmálaráðherra eins og menntamál eru, og að við komum að fjármögnun þessara skóla í samvinnu auðvitað við þá aðila sem að þeim standa, sveitarfélögin. Ég ætla ekki út í þá skiptingu. Nú höfum við skipt upp skólakerfinu okkar þannig að framhaldsskólarnir eru á okkar færi og grunnskólarnir á hendi sveitarfélaganna. Ég sé fyrir mér módel þar sem við komum að þessu saman með sveitarfélögunum, alla vega fyrst um sinn.



[17:18]
Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta svar. Það er mikilvægt í umræðunni um þessa ágætu þingsályktunartillögu og svo að sjálfsögðu þegar kemur að lagafrumvarpinu síðar á þessu þingi að ræða þetta til hlítar og tryggja fjárhagslegan ramma þessara skóla. Hv. þingmaður nefndi einmitt sveitarfélögin og ríkið en mér finnst líka allt í lagi að horfa til einkaaðila og frumkvöðla sem hafa komið að stofnun svona skóla.

Ég vil líka nefna það hér, og kannski ágætt að fá viðbrögð hv. þingmanns við því, hvort það komi til greina að þessir skólar kenni á ensku eins og ég veit að LungA hefur í einhverjum tilfellum gert og höfði þar af leiðandi til erlendra nemenda. Ég velti því fyrir mér hvort það geti hreinlega verið (Forseti hringir.) „útflutningsgrein“ að vera með lýðháskóla og erlendir nemendur myndu sækja í þá og vera tilbúnir að borga fyrir það að koma í lýðháskóla(Forseti hringir.) hér á Íslandi.



[17:20]
Flm. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur spurninguna. Já, þetta eru atriði sem við eigum að velta fyrir okkur, hvort við eigum að kenna á öðru tungumáli. Ég held að við verðum alltaf að virða hugmyndafræðina, þessa upprunalegu hugmyndafræði lýðháskóla sem er frelsi og að hann sé fyrir alla. Ég sæi það sem mikinn kost ef erlendir stúdentar myndu sækja hingað, alveg eins og við höfum í gegnum tíðina sótt mikið til Norðurlandanna og sérstaklega Danmerkur í slíka skóla þegar við vitum ekki í hvor fótinn við eigum að stíga varðandi framhaldið, jafnvel eftir menntaskóla. Það hefur reynst mjög vel þannig að ég styð það. Það er bara í anda hugmyndafræðinnar og anda þeirrar menntaskýrslu sem kom út 2012 þar sem bent var á að það væri ákveðið gat í okkar menntakerfi þegar kemur að þeim áherslum sem við finnum í lýðháskólum.



[17:21]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er hið áhugaverðasta mál sem hv. þm. Willum Þór Þórsson mælti fyrir, stofnun lýðháskóla Ungmennafélags Íslands á Laugarvatni. Ég er sammála hv. þingmanni, ég held að þetta form, lýðskólaformið, sé mjög gott inn í menntaflóru okkar. Ég mun skoða málið með mjög opnum huga í allsherjar- og menntamálanefnd, en held að það sé líka mjög mikilvægt að skoða þetta í heildarsamhengi við boðað frumvarp frá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra.

Mig langar að geta skoðað þetta mál vel og gaumgæfilega í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og þess vegna ætla ég að spyrja út í það sem fjallað er um í greinargerðinni. Þar segir að þetta sé leið til að tryggja að ýmis verkefni stöðvist ekki heldur geti haldið áfram í óbreyttri mynd. Þar er m.a. fjallað um sumarbúðir Íþróttasambands fatlaðra og að fram hafi komið eindreginn vilji hjá forsvarsmönnum sambandsins til að halda búðunum starfræktum áfram.

Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins nánar út í þetta. Hvernig sér hann fyrir sér þetta starf og hvernig það verði hluti af lýðháskólanum? Það er í rauninni ekkert meira fjallað um þetta hérna. Hefur þetta verið útfært eða hugsað eitthvað meira? Mér finnst áhugavert að skoða þetta áfram (Forseti hringir.) en vantar aðeins meiri upplýsingar til að geta tekið með mér inn í nefndarstarfið.



[17:24]
Flm. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur þessa glöggu spurningu, hún er mjög góð. Það er gjarnan þannig, eins og í þessu tilviki, að maður reynir að tengja saman marga þætti til að láta þá ganga upp. Ég sé bara þegar þessi spurning kemur að það hefði mátt fara betur yfir þennan þátt í greinargerðinni. Það kemur til af því að þetta snýr ekki beinlínis að lýðháskóla sem slíkum eða þeirri starfsemi sem þar fer fram heldur því að nýta þau mannvirki sem eru til staðar og áhugi er fyrir. Við getum rifjað upp að Íþróttaháskólinn var þarna á sínum tíma og þegar hann flutti til Reykjavíkur vantaði starfsemi til að nýta mannvirkin. Fjöldi nemenda sem var á staðnum fór burt og það er alltaf högg fyrir minni samfélög. Svo voru sumarbúðirnar í Sælingsdal að leggjast af og þetta snýr meira að því að nýta mannvirkin. Það er auðvitað alveg stórkostleg aðstaða á Laugarvatni fyrir svona sumarbúðir og þá er hægt að nýta mannvirkin meðan skólinn er jafnvel ekki starfandi.

Ég sé það bara þegar hv. þingmaður spyr að það hefði þurft fara ítarlegar yfir þetta í greinargerð því að með þessari tillögu er verið að tengja saman nokkra ólíka þætti.



[17:26]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þetta svar. Já, auðvitað er mjög sniðugt að nýta þau mannvirki sem til eru en ég held að þetta geti alveg gefið færi á því að skoða hvort hér megi útfæra hluti enn frekar. Ég tel að frekar en hitt skorti námstækifæri þegar kemur að fötluðu fólki á Íslandi sem og því að fatlað og ófatlað fólk stundi saman fjölbreytt nám. Ég held að það sé hægt að taka þessa hugmynd enn lengra. Ef við komumst á annað borð að þeirri niðurstöðu að það sé sniðugt að koma þessum lýðháskóla á er þar einhver þráður sem við eigum að skoða enn frekar. Ég held að það sé hægt að fá miklu meira út úr því en einungis einhverja nýtingu á mannvirkjum.



[17:27]
Flm. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni vangaveltur í seinna andsvari. Við erum komin áleiðis með að hanna námskrána í anda lýðháskóla. Mér finnst þetta frábær hugmynd og auðvitað er ekkert útilokað. Það er gjarnan þannig þegar maður fer af stað með svona hugmynd eftir samtal við aðila eins og Ungmennafélag Íslands að hún getur þróast í allar áttir. Það yrði þá bara í anda hugmyndafræði lýðháskólanna að tengja þetta frekar saman. Ég held það og ég hlakka til að skoða málið í hv. allsherjar- og menntamálanefnd út frá þessum þáttum og eins að fá umsagnir frá þessum aðilum.

Það er gjarnan þannig að maður fer af stað með eitthvert mál og svo bara líður tíminn. Þetta gerist oft svolítið hægt en eins og ég sagði er núna búið að leggja málið fram en ég hef ekki mælt (Forseti hringir.) fyrir því áður.



[17:29]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er einn af flutningsmönnum þessarar tillögu og styð hana því heils hugar, en mér finnst mikilvægt að ræða aðeins við hv. framsögumann um nemendahópinn sem er líklegur til að sækja skóla af þessu tagi og kannski einnig þá lýðháskóla sem fyrir eru í landinu.

Það kom fram við umfjöllun allsherjar- og menntamálanefndar á 145. þingi þegar fjallað var um tillögu að löggjöf um starfsemi lýðháskólanna að nám í lýðháskóla gæti eflt almenna lífsleikni ungmenna, skapað nemendum tækifæri til að finna sínar sterku hliðar og bætt náms- og starfsfærni nemenda á ýmsan hátt. Mig langar að spyrja hv. framsögumann hvort við eigum einhverjar greiningar eða kannanir á því hvaða nemendahópur væri líklegur til að sækja svona skóla hér á landi.

Það er þekkt að um 100 íslenskir nemendur stunda nám í lýðháskólum á Norðurlöndum á hverju skólaári og því má velta fyrir sér hvort æskilegt sé eða líklegt að sá nemendahópur myndi leita í skóla innan lands eða hvort við séum að horfa á annan nemendahóp og þá jafnvel hvort æskilegt væri að fá nemendur annars staðar frá Norðurlöndunum til að sækja hingað, ekki síður en að okkar nemendur fari annað.



[17:31]
Flm. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur, meðflutningsmanni mínum á málinu, þessa spurningu. Jú, það er mikilvægt að velta þessu fyrir sér. Ég held að svarið hafi kannski komið fram í máli hv. þingmanns, það að nemendur héðan hafa verið duglegir að sækja skóla erlendis. Íþróttalýðháskólar í Danmörku hafa sérstaklega verið mjög vinsælir. Ungmennafélag Íslands hefur mikinn áhuga á því að starfrækja slíkan skóla hér, einmitt vegna þess að það er mikill áhugi á því hér að sækja slíka skóla erlendis og þeir eru vinsælir. Það eru um 45 lýðháskólar í Danmörku og margir sem leggja áherslu á íþróttir, útivist og lýðheilsutengt nám. Þær upplýsingar sem ég hef, þá frá Ungmennafélagi Íslands, benda til að óþarfi sé að hræðast að eftirspurn verði ekki eftir náminu.

Ég held að blanda af nemendum héðan sem hefðu þá tækifæri til að velja á milli ólíkra skóla með ólíkar áherslur hér sem og erlendis þannig að góð blanda væri í báðar áttir væri æskileg. Ég hræðist það ekki að ekki verði eftirspurn í þessa skóla miðað við áhugann sem hefur verið fyrir slíku skólaformi hingað til. Það má líka velta fyrir sér, af því að við erum stutt á veg komin með þessa tvo skóla sem eru þegar starfræktir, hvort við verðum með of marga skóla. Ég held ekki. Það eru mjög ólíkar áherslur hjá öllum þessum skólum. Ég held að það sé full þörf á (Forseti hringir.) einum íþróttatengdum lýðháskóla.



[17:33]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni svarið. Ég er sammála því að það er mjög mikilvægt að hafa fjölbreytni í lýðháskólastarfinu ef við fáum þrjá ólíka skóla en ég held líka að það skipti máli að það séu fleiri en einn, einfaldlega til að tryggja ákveðin gæði og fagmennsku í starfinu hér á landi. Við vorum lengi vel með einn starfandi lýðháskóla og ég held að það hafi verið mikill veikleiki á þeim tíma að það var bara einn skóli í landinu.

Í LungA-skólanum á Seyðisfirði hefur hátt hlutfall nemanda komið erlendis frá og ég held að það sé gott. Ég held að það sé gott að blanda í þessum skólum.

Mig langaði að beina annarri spurningu til hv. þm. Willums Þórs Þórssonar og hún varðar hugtakanotkunina á lýðháskóla eða lýðskóla. (Forseti hringir.) Í mínum huga er lýðháskóli orð sem á sér langa sögu í íslensku máli og (Forseti hringir.) sem a.m.k. ég hef lengi þekkt. Hefur hv. þingmaður skoðun á þessu?



[17:34]
Flm. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Ég var bara að reka augun í þessa breytingu á þingmálaskránni og af því að ég er með hana hérna fæ ég að lesa lýsinguna upp, með leyfi forseta:

„Í ljósi þess að heitið „háskóli“ er lögverndað fyrir þær stofnanir sem hafa hlotið viðurkenningu mennta- og menningarmálaráðherra samkvæmt 3. gr. laga nr. 63/2006, um háskóla, er lagt til að notað verði heitið „lýðskóli“. Frumvarpið fjallar um lagalega stöðu lýðskóla í íslensku skólakerfi, viðurkenningu og ábyrgð á starfsemi þeirra.“

Lengra er ég ekki kominn í að kynna mér þessa breytingu, en í umfjöllun um málið kemur þetta vafalítið allt í ljós.



[17:36]
Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér fjöllum við um stofnun lýðháskóla Ungmennafélags Íslands á Laugarvatni sem felur í sér að fela mennta- og menningarmálaráðherra að skipa starfshóp sem skipuleggi þar stofnun lýðháskóla Ungmennafélags Íslands. Hópurinn tæki m.a. mið af yfirstandandi vinnu við lagafrumvarp um lýðháskóla, nýtingu mannvirkja og skólans á Laugarvatni við rekstur sumarbúða Ungmennafélags Íslands, rannsóknum á brotthvarfi nemenda úr framhaldsskólum og reynslu af stofnun og rekstri annarra lýðháskóla hér á landi, einkum á Flateyri og Seyðisfirði.

Á Norðurlöndunum eru lýðháskólar mikilvægur hluti af menntakerfinu og eiga sér langa sögu. Íslendingar hafa margir farið út í skóla í gegnum áratugina og gera enn. Rannsóknir um starfsemi og árangur í lýðháskóla sýna ótvíræðan árangur þeirra, bæði fyrir einstaklinga og samfélög. Þeir eru lífsleikniskólar þar sem nemendur geta valið sér nám úr fjölda ólíkra námsgreina sem eru oft tengdar samfélaginu með nánum hætti.

Í lýðháskólum eru ekki próf heldur áherslan lögð á þátttöku í skapandi greinum, tengda listum, samfélagi og atvinnulífinu. Það eru mörg gild rök fyrir því að starfsemi lýðháskóla vanti inn í íslenskt menntakerfi. Þessar stofnanir hafa verið við lýði í meira en 100 ár á Norðurlöndunum og rannsóknir hafa sýnt fram á arðsemi bæði í fjárhagslegum, félagslegum og menningarlegum skilningi. Því er mikill ávinningur að styðja við uppbyggingu þessara skóla í íslensku menntakerfi. Lýðháskólar á Íslandi geta orðið öflugt svar við sumum af þessum áskorunum sem íslenskt menntakerfi stendur frammi fyrir en verða einnig mikilvægar stofnanir í staðbundnu samhengi og á landsvísu. Hér á landi eru þeir að stíga sín fyrstu skref eins og kemur fram í greinargerð þingsályktunartillögunnar.

LungA, skóli sem stofnaður var árið 2013, er lýðháskóli sem er starfræktur á Seyðisfirði og rekinn á styrkjum frá opinberum aðilum og einkaaðilum auk skólagjalda. Þar er lögð áhersla á sjálfsskoðun í gegnum listir og skapandi vinnu. Mikið og gott starf hefur farið þar fram.

Haustið 2018, núna í haust, hóf Lýðháskólinn á Flateyri starfsemi sína. Þar eru í boði tvær ólíkar námsleiðir sem hvor um sig taka við að hámarki 20 nemendum og ég held að þar séu núna 38 eða 39 nemendur.

Önnur námsleiðin byggir á styrkleikum staðarins, þ.e. samfélagi, náttúru og menningu, en hin námsleiðin byggir á hugmyndavinnu og sköpun. Skólinn nýtir vannýtt húsnæði í þorpinu fyrir starfsemi sína. Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi í haust að vera við skólasetningu Lýðháskólans á Flateyri og upplifði ég ákveðinn vendipunkt í samfélaginu sem átt hefur undir högg að sækja undanfarinn áratug. Það var líkt og þorpið sem svaf væri að rumska af værum blundi.

Virðulegi forseti. Ekki eru til lög um lýðháskóla hér á landi en gert er ráð fyrir að frumvarp þess efnis, sem á að snúast um lög um lýðskóla, komi frá menntamálaráðuneytinu í mars. Eins og hér hefur komið fram er lagt til að breyta nafninu úr lýðháskóla í lýðskóla sem ég ætla svo sem ekki að leggja mat á hér. Frumvarpið á að fjalla um lagalega stöðu lýðskóla í íslensku skólakerfi, viðurkenningu og ábyrgð á starfsemi þeirra. Er það vel því að ég held að þessi viðbót í flóru menntastofnana hér á landi sé svar við ýmsum þáttum sem við erum að fjalla um. Á morgun verður t.d. sérstök umræða um vandamál ungra drengja og ég held að þetta sé liður sem gæti bætt líðan þeirra og margra annarra.

Ég fór og skoðaði nemendurna, sem eru frá 20 ára og ég held til rúmlega sextugs, í Lýðháskólanum á Flateyri. Breiddin er mikil, bæði í menntun og færni eins og gengur, og má nefna að þarna eru bæði langskólagengnir og háskólamenntaðir nemendur. Ég held að háskólamenntaðir séu tveir. Svo eru þeir sem aldrei hafa farið í framhaldsskóla og nokkrir sem hafa flosnað þaðan upp og hafa átt erfitt með að fóta sig. Breiddin er mikil og styrkurinn þvert yfir er heilmikill.

Virðulegi forseti. Með aðkomu UMFÍ á Laugarvatni myndast tækifæri til að koma að stofnun lýðháskóla og rekstri ungmennabúða og tryggja um leið að ýmis verkefni stöðvist ekki heldur geti haldið áfram í óbreyttri mynd. Þar má t.d. nefna stuttar ferðir, samkomur og fundi íþrótta- og ungmennafélaga og ekki síst sumarbúðir Íþróttasambands fatlaðra. Eins og fram kom hjá hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur má kannski útfæra þennan þátt nokkuð betur og skoða. Hv. þingmaður kom inn á áhugaverða punkta sem ég held að megi skoða betur í þessu efni sem fer þá inn í nefndarstarfið.

Ég held að þetta sé gott mál sem við megum vera stolt af að flytja hér og ég vona að það nái sem bestum framgangi.



[17:42]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um stofnun lýðháskóla Ungmennafélags Íslands á Laugarvatni. Ég vil í upphafi máls míns þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir framsöguna og raunar þeim þingmönnum öðrum sem hafa tekið þátt í umræðunni þeirra viðbrögð. Það er gaman að heyra hvað þau eru jákvæð því að ég tel að í grunninn sé hér býsna gott mál á ferðinni. Ég held að það að fara þessa svokölluðu lýðháskólaleið sé ágætisleið til að bregðast við því ákalli sem hefur svolítið verið í samfélaginu um fjölbreyttari námsleiðir, um leiðir fyrir nemendur sem kannski hafa ekki fundið kröftum sínum viðspyrnu í því sem við skulum kalla almenna menntakerfið, leið til að styrkja sig og bæta.

Ég get verið sammála hv. þm. Willum Þór Þórssyni í því að það er mikilvægt að með þessu máli fylgi löggjöf sem hefur aðeins borið á góma í máli margra hv. þingmanna. Ég held raunar að við eigum að halda okkur við lýðháskólaheitið og ég sé ekki að það að þessi tegund af námsleið heiti lýðháskóli, sem er gamalt og gott orð í íslensku máli, skyggi á nokkurn hátt á hefðbundna háskóla enda er lýðháskóli ekki hefðbundinn háskóli. Hann er ekki háskóli nema þá í mesta lagi deild í háskóla lífsins og ekki bönnum við fólki að tala um háskóla lífsins. Fólki er það algjörlega heimilt. Ég myndi vilja vita, og það væri gaman að hv. nefnd tæki það til umfjöllunar og aflaði sér kannski upplýsinga um það, hvernig og þá á hvaða hátt lýðháskólar hjálpa nemendum sínum til að komast inn í hefðbundið nám eða sem sagt hvort þeir sem útskrifast úr lýðháskóla eiga í framhaldinu auðveldara með að fóta sig í hefðbundna menntakerfinu.

Ég held því ekki fram að það sé í sjálfu sér eitthvert markmið með lýðháskólanum, alls ekki, en ég held að það sé engu að síður mikilvægt að vita þetta og að það sé gagnlegt fyrir okkur sem samfélag að vita þetta, ekki hvað síst í því tilliti að átta okkur á því hvaða ávinningi þetta skilar samfélaginu á endanum. Það hlýtur að vera markmiðið í aðra röndina og í hina að skila ávinningi þeim einstaklingum sem þarna eiga í hlut.

Ég tel líka mikilvægt að hv. allsherjar- og menntamálanefnd skoði til að mynda aðkomu Lánasjóðs íslenskra námsmanna að skólum eins og þessum, hvort það væri flötur á því að nám í lýðháskólum væri lánshæft eins og annað nám og þá jafnvel að kalla til fulltrúa lánasjóðsins til að ræða það, sömuleiðis þætti eins og aldurstakmörk ef einhver eru o.fl. Því má velta fyrir sér hvort það sé þörf fyrir marga lýðháskóla eða margar lýðháskóladeildir á Íslandi. Ég held að hvort sem við höfum þetta allt undir hatti eins lýðháskóla eða ekki sé mikilvægt að það séu nokkrar deildir, að þær séu á mismunandi stöðum og séu með mismunandi námsleiðir.

Ég hef verið svo lánsamur í haust að fá tækifæri til að kynna mér báðar þær lýðháskóladeildir sem eru starfandi nú þegar, þ.e. á Flateyri og Seyðisfirði, og er ekkert nema jákvætt um þær að segja. Ég tek undir með hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur sem kom inn á það áðan hvernig Flateyri hefði að vissu leyti lifnað við þegar skólinn var settur og menn upplifðu að þetta verkefni væri að raungerast.

Þá er það okkar verkefni hér inni að tryggja að í framhaldinu sjáum við sem stjórnvald, þ.e. Alþingi, löggjafarsamkundan, til þess að þessi tegund náms fái stað í löggjöf og stuðning þaðan, en ekki síður að hún fái í framhaldinu stuðning frá fjárveitingavaldinu sem liggur hjá Alþingi. Ég hlakka til að sjá þetta mál síðar í vetur við síðari umr.



[17:49]
Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með tillögu um að ráðherra skipi starfshóp sem ætlað er að skipuleggja stofnun lýðháskóla Ungmennafélags Íslands sem hafa muni aðsetur á Laugarvatni. Þessu framtaki fagna ég ákaflega. Kveðið er á um að í starfshópnum sitji fulltrúi frá sveitarfélaginu, þ.e. Bláskógabyggð, og einnig frá Ungmennafélagi Íslands sem mun tryggja aðkomu heimamanna að verkefninu og einnig rekstraraðila skólans.

Forsenda til þess að verkefnið fái eðlilegan framgang er einnig, eins og kemur fram í greinargerð, að vinnu við frumvarp til laga um lýðskóla ljúki sem allra fyrst svo þessu nýja skólaformi hér á landi verði mörkuð viðeigandi umgjörð í skólakerfi okkar, væntanlega að norrænni fyrirmynd. Það skyldi maður ætla. Þá ber einnig að fagna þessari tillögu að því leytinu til að þarna mun finnast æskileg og betri nýting mannvirkja á staðnum, á Laugarvatni, og líka er þetta verkefni til þess ætlað að efla Laugarvatn enn frekar og að nýju sem skólasetur eins og staðurinn hefur verið um langt skeið. Auðvitað er þetta líka eitt skref í því að byggja upp fjölbreytta starfsemi í dreifðum byggðum landsins. Þetta verkefni hefur að mínu mati margar góðar hliðar.

Aðeins að brotthvarfi nemenda úr framhaldsskólunum. Brotthvarfsvandinn hefur lengi verið mikill í framhaldsskólakerfinu hér og brýnt að taka á honum og finna á honum lausnir. Eitt af því er auðvitað að bjóða unga fólkinu okkar upp á fleiri leiðir og rekstur lýðháskóla er klárlega eitt skref í þá átt. Þetta leiðir einnig hugann að því hvernig umgjörðin verður almennt í slíkum skóla, í íslenskum lýðháskóla, hvernig lagasetning verður. Ég nefni t.d. hver markhópur svona skóla væri helst með tilliti til þess að raunveruleiki íslenskra ungmenna er um margt ólíkur því sem er á hinum Norðurlöndunum. Þau hafa verið ívið lengur að taka ákvörðun um framtíð sína en jafnaldrar þeirra á öðrum Norðurlöndum. Ég horfi til þess að þarna er verið að taka upp glænýja og nýstárlega kennsluhætti hérlendis með þessari stofnun og því ber að fagna.

Eins og kemur fram í greinargerð og hefur komið fram í máli hv. þingmanna fyrr í þessari umræðu hafa svona tilraunir verið í gangi á Seyðisfirði í fimm ár og nú nýverið á Flateyri. Þetta byggir allt undir öfluga starfsemi úti á landi og ég fagna því sérstaklega. Lýðháskóli hefur marga góða kosti. Þar gefst nemendum færi á að hugsa mál sitt í rólegheitunum, ef svo mætti segja, í meiri ró en í hefðbundnum skólum. Þarna skapast líka meiri nánd við nemendahópana, milli kennara og nemenda og býður upp á ákveðnar samræður þar. Ég fagna því sérstaklega. Það er ein lausn á því að koma í veg fyrir stórt vandamál sem við horfum upp á hérlendis, brottfallsvandann og þann vanda sem við erum einmitt að fara að ræða á morgun, vanda ungra manna. Þeir virðast ekki vita almennilega í hvora löppina þeir eiga að stíga, margir hverjir, hvert eigi að stefna, hvert þeir eigi að fara og finna sér hlutverk. Ég fagna þessari tillögu ákaflega.



[17:53]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Mig langaði aðeins að koma inn á málið um stofnun lýðháskóla Ungmennafélags Íslands á Laugarvatni. Það hefur margt komið fram, ýmsar vangaveltur um skóla af þeim toga, nafngiftina o.s.frv. Það má eflaust lengi deila um þetta og ástæða er til þess að ljúka þeirri vegferð sem samþykkt var á þingi þegar Björt framtíð og þáverandi hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir lögðu fram mál um að sett yrði lagaumgjörð utan um slíka skóla.

Mér þykir þetta afskaplega gott skólaform. Ég hef nokkrum sinnum komið í skólann LungA á Seyðisfirði þar sem farið hefur verið í magnað framtak og mikið hugsjónastarf verið unnið í gegnum tíðina. En vegna þess að við erum ekki búin að búa til lagaumgjörð um skólastarfið þarft sífellt að eiga samskipti við löggjafarvaldið, reyna að ná í styrki og annað slíkt, í staðinn fyrir að við ákveðum hvernig við ætlum hafa skólastarfið.

Eins og hefur komið fram í umræðunni er þetta mikilvægt, fjölbreytnin í skólaflórunni er mikilvæg. Fram kemur í skýrslu mennta- og menningarmálaráðuneytisins frá 2012 sem heitir Allir stundi nám og vinnu við sitt hæfi, með leyfi forseta:

„Auka þarf fjölbreytni kennsluaðferða og nútímavæða framsetningu námsefnis í grunn- og framhaldsskóla til að mæta ólíkum þörfum og væntingum nemenda og glæða og viðhalda áhuga þeirra. Mikilvægt er að örva nemendur í verkefnabundnu og lausnamiðuðu námi og ýta undir frumkvæði, gagnrýna hugsun og skapandi starf nemenda. Nýta þarf nýja miðla sem nemendur nota utan skóla til að glæða áhuga þeirra á náminu og auka fjölþætt verkefnaskil t.d. á formi margmiðlunar.“

Auðvitað á þetta orðið við um ýmsa framhaldsskóla dagsins í dag og segja má að lýðháskólinn sem hefur verið starfræktur, LungA, hafi kannski meira verið einhvers staðar á milli framhaldsskóla og háskóla og þess vegna ekki verið gerð almennileg tilraun til að ná utan um hann.

Þeir aðilar sem hafa komið að lýðháskólum hér á landi, bæði á Flateyri og fyrir austan, hafa ásamt ráðuneytinu lagst í að smíða utan um þá lagaumgjörð, sem ég hef aðeins gluggað í. Í rauninni ætti ráðherra ekkert að vera að vanbúnaði að klára það mál þannig að við getum tekið utan um stofnun lýðháskóla á Laugarvatni innan lagaramma, þannig fer það líka á fjárlög.

Ég nefndi áðan að þótt styrkur sé í því að hafa fjölbreytni í skólastarfi og gerð af skólum þá er skapandi skólastarf í mjög mörgum framhaldsskólum. Ég kem úr einum slíkum, Menntaskólanum á Tröllaskaga, og þreytist seint á að segja frá honum. Þar er um að ræða þriggja ára nám þar sem ekki er mikið um stórkostleg próf og annað slíkt, skólastarfið gríðarlega fjölbreytt og mikið um skapandi vinnu og tækifæri þar inni. Þeim nemendum sem hafa lokið námi í þeim skóla og svo háskólanámi hefur gengið ágætlega þrátt fyrir þriggja ára nám, en skólinn var stofnaður þannig. Þrátt fyrir að nemendur skólans hafi ekki þurft að þreyta ægilega löng próf í öllum fögum hefur þeim gengið ágætlega í því sem þeir hafa tekið sér fyrir hendur, þeir sem hafa lokið námi þaðan og síðan lokið háskólanámi.

Það er mikilvægt að muna að formin eru misjöfn. Lýðháskólar hafa haft svipaða umgjörð, mikil tengsl við atvinnulífið og gjarnan þau sveitarfélög sem þeir eru í. Það má segja að við höfum tekið fyrirkomulagið í Danmörku okkur til fyrirmyndar, þaðan þekkjum við formið best og heyrðum fyrst af því, en lagamálin hafa staðið í vegi fyrir okkur.

Ég þarf ekkert að hafa óskaplega mörg orð um þetta en mér er mikið í mun að fjölbreytni nái fram að ganga í skólastarfi. Þetta er, eins og hv. síðasti ræðumaður sagði áðan, tækifæri fyrir marga sem kannski hafa ekki fundið sig annars staðar, fyrir fólk á ólíkum aldri. Þeir nemendur sem ég hef talað við, t.d. sem hafa sótt nám í LungA á Seyðisfirði, segja bara: Það bjargaði lífi mínu að fá þetta tækifæri, að vera ekki atvinnulaus og loka mig á bak við tölvu eða gera eitthvað annað miður gott. Þetta var leið sem ég fann og hefur reynst mér vel.

Fólk upplifir samfélag þarna, því að það sér um sig. Þetta er heimili, bara stærra heimili en það kemur gjarnan frá.

Þetta nær yfir óskaplega margt þannig að ég styð hugmyndina eindregið og vona svo sannarlega að hún ýti við hæstv. ráðherra svo að hann taki málið fyrir. Ég vona líka að allsherjar- og menntamálanefnd, sem fær málið til sín, kalli eftir því að fá að vita stöðuna á lagaumhverfinu og hvort megi eigi von á því, það er ekki á þingmálaskrá núna, næsta haust svo að menn þurfi ekki að fara bónleiðir til fjárlaganefndar á hverju ári, bæði í tilviki Flateyrarskóla og LungA. Ég sé í tillögunni að talað er um að gera hlutina í réttri röð og að lagaumhverfi verði til.

Ég fagna því að við erum með framsýn og tökum það í fangið að reyna að stofna fleiri lýðháskóla. Framtakið á Flateyri í haust er augljóslega komið til að vera og hefur nú þegar skilað miklu, bæði fyrir sveitarfélög og þá sem hafa sótt um og eru nemendur þar núna. Maður sér fregnir af því fólki sem líkar dvölin ákaflega vel. Ég held að þetta sé eitthvað sem við eigum frekar að gera meira af en minna.



[18:01]
Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla eins og fleiri þingmenn sem hafa tekið til máls um þetta ágæta mál að fagna því og tala um mikilvægi þess fjölbreytileika sem ég held að við þurfum að hafa í okkar menntastefnu og því framboði sem við höfum á mismunandi kostum til menntunar. Ég held að það sé líka mikilvægt að hugsa til framtíðar í þessum efnum. Við heyrum mjög gjarnan að við séum í dag að mennta börnin okkar til starfa sem við kannski vitum ekki hver eru. Ég held að flestum beri saman um það í dag að við þurfum fyrst og fremst að auka færni fólks en ekki utanbókarlærdóm eða eitthvað slíkt eins og menntakerfi okkar fyrr á tíð gekk oft út á. Þá er kannski lykillinn þegar við tölum um fjórðu iðnbyltinguna og allt það sem kann að vera að breytast á næstu árum að huga að því að það er kannski fyrst og fremst færni í samskiptum sem mun skipta okkur máli í framtíðinni.

Ég var á fínum morgunfundi hjá Samtökum iðnaðarins í dag þar sem rætt var um atvinnustefnuna og augljóslega er ekki hægt að ræða atvinnustefnu Íslendinga öðruvísi en að koma inn á menntamál því að þetta eru nátengd atriði. Þar var einmitt horft til þess að óæskilega stórt hlutfall Íslendinga hefur ekki farið í meira en grunnnám eða grunnskóla. Þess vegna tek ég undir það sem komið hefur fram hjá fleirum að lýðháskólar geti einmitt verið tækifæri fyrir fólk sem ekki hefur fundið sig innan hins formlega menntakerfis en ég held reyndar líka að þeir séu tækifæri fyrir miklu fleiri.

Hæstv. forsætisráðherra lét þau orð falla á þessum fundi í morgun þegar var verið að ræða þessi mál, um fjórðu iðnbyltinguna og framtíð starfa, að samkvæmt einhverri norskri rannsókn væri búið að finna það út að einu störfin sem myndu örugglega verða til í framtíðinni væru hárgreiðsla og jógakennsla. Ég veit ekki hvort það sé alveg rétt en ég held alla vega að þetta snúist fyrst og fremst um samskipti.

Hv. þm. Willum Þór Þórsson, fyrsti flutningsmaður þessarar þingsályktunartillögu, ræddi það að fyrirhugað frumvarp sem við höfum kannski beðið eftir í svolítinn tíma varðandi lýðháskóla ber nafnið lýðskóli. Ég velti því fyrir mér hvort þá sé verið að opna þetta skólastig eða þessa hugmyndafræði upp á að hún flæði kannski aðeins á milli skólastiga. Kannski er hugmyndin á bak við lýðskóla ekki að hann sé á ákveðnu stigi þannig að við þurfum kannski að taka okkur aðeins út úr þeirri umræðu.

Þá langar mig að nefna að það er líka til samþykkt þingsályktunartillaga frá Vestnorræna ráðinu um eftirskóla, eins og það er orðað. Þá er verið að vísa í danska fyrirmynd þar sem er um að ræða einhvers konar lýðframhaldsskóla, okkur er alltaf tamt að setja þessa skóla inn í skólastig. Þingsályktunartillagan gekk sem sagt út á það að fela menntamálaráðuneytinu að kanna möguleika fyrir slíku og það hefur verið mikill áhugi hjá félögum okkar í Færeyjum og Grænlandi að byggja upp slíka skóla, sérstaklega hafa Grænlendingarnir haft áhuga á þessu. Mér skilst að mörg grænlensk ungmenni leiti sérstaklega til Danmerkur í þessa eftirskóla sem eru þar vinsælir eins og lýðháskólarnir hafa verið. Það svar sem okkur í Vestnorræna ráðinu barst frá menntamálaráðuneytinu var svolítið á þá leið að það væri frekar verið að reyna að einfalda skólakerfið hér á landi heldur en hitt þannig að þeim hugnaðist þessi hugmynd ekki sérstaklega vel.

Mig langar að nefna þetta hér því að ég hefði mikinn áhuga á því að það kæmi til tals í hv. allsherjar- og menntamálanefnd þegar við ræðum um lýðskóla hvort hægt sé að horfa til þessarar þingsályktunartillögu um eftirskóla. Það kemur kannski líka inn á annan þátt sem ég fór inn á í andsvörum við frummælanda varðandi tungumálin og möguleika eins og ég orðaði það á einhvers konar útflutningi á menntun þegar við horfum til samstarfs við aðrar þjóðir. Kannski er ástæða til þess að á einhverjum brautum eða sviðum eða í einhverjum námskeiðum innan slíkra skóla sé boðið upp á kennslu á erlendu tungumáli til að opna möguleikana og fleiri geti sótt skólann.

Þá kem ég inn á annan þátt sem ég nefndi í andsvörum. Ég hygg að allir þeir hv. þingmenn sem hafa tekið til máls undir þessum lið hafi dásamað þá hugmyndafræði sem er að baki lýðháskóla. Ég held að við séum öll sammála um að þetta sé býsna skynsamlegt og við viljum gjarnan að ungt fólk finni sér einhvern farveg. En í grunninn snýst þetta auðvitað alltaf um kostnað og hver kostnaðarþátttaka ríkisins á að vera þegar við ræðum hugmyndir um slíka skóla. Þess vegna held ég að það sé óhjákvæmilegt að velta því upp þegar þessi þingsályktunartillaga er tekin til umfjöllunar í nefndinni.

Ég hygg að það sé líka mjög mikilvægt að fyrirhugað frumvarp um lýðskóla komi fram og þar sé tekið á því með öruggum hætti hvernig ríkisvaldið ætli að koma að kostnaði þessara skóla. Allir hafa dásamað og talað um tækifærin sem í þessu felast og ég er algerlega sammála því. Ég held að það séu gríðarlega mikil tækifæri í fjölbreyttum menntastofnunum hér á landi og lýðskólarnir falla svo sannarlega þar undir. Ég tel líka rétt að ríkið taki þátt í menntuninni en það er auðvitað eðlilegt í þeim efnum að það sé einhver rammi. Á sama tíma og við opnum fyrir nýja skóla með nýja hugmyndafræði þurfum við að spyrja hvort við séum þá að taka frá öðrum skólum eða hvernig þessu eigi að vera háttað. Það hefur mátt sjá ofboðslega spennandi einstaklingsframtak á sviði lýðháskóla bæði fyrir austan og vestan. Þar hafa kraftmiklir einstaklingar fengið stuðning frá sveitarfélögum og fyrirtækjum við uppbygginguna, sem er gott, en ég held að við getum ekki horft til þess að þetta séu aðilar með einhvers konar sprotastarfsemi, sem þetta vissulega er og hefur verið, öðruvísi en að þeir fái eitthvert fast land undir fótum og það liggi svolítið ljóst fyrir með hvaða hætti ríkið ætlar að taka þátt í þessum kostnaði. Við getum ekki ætlast til þess að svona kraftmiklir aðilar sem hafa þessar hugmyndir þurfi að koma hér á hverju ári með einhver bænabréf til fjárlaganefndar. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þessi umræða verði tekin jafnhliða og við reynum að komast að einhverri sátt í kringum það hvernig því ætti að vera háttað.

Þá vil ég líka nefna það sem ég hef reyndar líka velt fyrir mér í tengslum við þá lýðháskóla sem þegar eru starfandi fyrir utan þennan sem hér um ræðir á Laugarvatni hvort þetta sé ekki líka byggðamál. Það er náttúrlega hægt að segja sem svo að byggðamál eru alltumlykjandi og menntamál eru auðvitað stór hluti af þeim. Þegar um er að ræða kannski mjög brothættar byggðir og brothætt sveitarfélög, nú vísa ég bara til þess almennt, ekki endilega til þeirrar skilgreiningar sem Byggðastofnun hefur sett upp í kringum það, þá efast ég ekki um að mikilvægi þess að svona stofnun taki til starfa, ég nefni Flateyri í þessu tilfelli eða á Laugarvatni eins og um er rætt í þessari þingsályktunartillögu, það skiptir þessi byggðarlög miklu máli. Því held ég að það megi alveg eins horfa til þess þegar við ræðum byggðaáætlun og það fjármagn sem við setjum í byggðamál hvort þessar stofnanir eða þessir sprotar eigi með einhverjum hætti heima þar undir.

Það skal engan undra að ég fagna mjög þegar kraftmiklir einstaklingar, fyrirtæki eða stofnanir eða félagasamtök hafa áhuga á því að koma að rekstri jafn mikilvægra stofnana og menntastofnanir eru en ég vil ítreka hversu mikilvægt það er að ríkið hafi utan um það einhvern ramma og hann sé sanngjarn þegar kemur að fjárveitingum. Ég leyfi mér í þessari ræðu að nefna t.d. þá stöðu sem Kvikmyndaskólinn er í þar sem einstaklingar hafa byggt upp mjög öflugt nám á mjög afmörkuðu sviði en eru í ákveðnum rekstrarvanda. Það vantar algjörlega stefnu hjá ráðuneytinu í slíkum málum.

Eins og ég sagði áðan í andsvörum þá fagna ég þessari þingsályktunartillögu og mér finnst margt mjög spennandi í þessu. Ég vil bara ítreka að við höfum skýra stefnu í þessum málum þannig að þeir sem koma að slíkum rekstri og slíkri hugmyndafræði viti svolítið að hverju þeir ganga þegar kemur að fjármögnun.



[18:11]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil fagna því að komin sé fram þingsályktunartillaga um stofnun lýðháskóla Ungmennafélags Íslands á Laugarvatni. Ég er svo heppin að fá að vera einn af flutningsmönnum tillögunnar með hv. þm. Willum Þór Þórssyni sem hefur dregið vagninn í þeirri vinnu. Tillagan snýst um að fela mennta- og menningarmálaráðherra að skipa starfshóp sem skipuleggi stofnun lýðháskóla Ungmennafélags Íslands á Laugarvatni. Ráðherra ákveði skipan starfshópsins, en í honum sitja a.m.k. einn fulltrúi frá Ungmennafélagi Íslands og einn frá Bláskógabyggð. Hópurinn taki m.a. mið af yfirstandandi vinnu við lagafrumvarp um lýðháskóla, nýtingu lýðháskóla, nýtingu mannvirkja og skólans á Laugarvatni við rekstur sumarbúða Ungmennafélags Íslands, rannsóknum á brotthvarfi nemenda úr framhaldsskólum og reynslu af stofnun og rekstri annarra lýðháskóla hér á landi, einkum á Flateyri og Seyðisfirði. Starfshópurinn skili ráðherra niðurstöðum sínum eigi síðar en 31. maí árið 2019.

Þetta er viðamikið verkefni en mikilvægt og dýrmætt og er tillagan lögð fram þótt staðan sé raunar sú að engin lög eru um lýðháskóla hér á landi. Mjög mikilvægt er að um það verði skýr rammi og skýr bókstafur og hefur mennta- menningarmálaráðherra það á sinni könnu að vinna að gerð frumvarps til laga um lýðháskóla á Íslandi og þá að norrænni fyrirmynd.

Flest þekkjum við fyrirkomulagi slíkra skóla á Norðurlöndunum og höfum við horft til þeirra við vinnuna í málinu. Verði tillagan um að setja lagaramma utan um slíkt skólaform samþykkt er markmiðið að gera lýðháskóla að viðurkenndum valkosti í menntakerfinu sem njóti lagalegrar umgjarðar og opinbers stuðnings, eins og segir í inngangi greinargerðarinnar með tillögunni. Samkvæmt henni er ráðherra falið að leggja fram frumvarp í síðasta lagi á vorþingi 2017. Sú tímasetning hefur ekki staðist en vinna við samningu frumvarpsins til laga um lýðháskóla fer fram í ráðuneytinu um þessar mundir.

Starfshópurinn sem skipuleggi stofnun lýðháskóla á Laugarvatni skal fylgjast með samningu löggjafar um lýðháskóla og taka mið af henni í vinnu sinni. Mikilvægt er að öll sú vinna falli saman.

Við höfum einhverja reynslu af rekstri lýðháskóla hér á landi og langar mig til að nefna skólann LungA sem var stofnaður á Seyðisfirði 2013 og er starfræktur þar. Það hefur verið gríðarlega gaman að fá að fylgjast með því hvernig til hefur tekist. Skólinn hefur verið rekinn á styrkjum frá opinberum aðilum og einkaaðilum, auk þess sem nemendur greiða skólagjöld. Í skólanum er lögð áhersla á sjálfsskoðun í gegnum listir og skapandi vinnu.

Óhætt er að fullyrða að þar hefur farið fram mikið og gott starf. Sú starfsemi hefur litað samfélagið, nemendurnir koma þangað inn og setja mark sitt á samfélagið, sem er jákvætt því að það eykur mannlífsflóruna á stöðunum þar sem skólarnir eru. Ég reikna með að slíkt hafi líka gerst á Flateyri þar sem lýðháskóli hóf störf haustið 2018. Námið þar er sett fram á aðeins annan máta en í LungA, þó ekki svo ólíkan. Í boði eru tvær ólíkar námsleiðir sem hvor um sig taka að hámarki 20 nemendur. Önnur námsleiðin byggist á styrkleikum staðarins, þ.e. samfélagi, náttúru og menningu, en hin námsleiðin byggist á hugmyndavinnu og sköpun. Skólinn nýtir vannýtt húsnæði í þorpinu fyrir starfsemi sína.

Þetta held ég að sé mjög jákvæð innspýting fyrir samfélagið á staðnum og jákvætt að fá að sjá það gerast. Við tölum oft um skólamálin sem afmarkaðan þátt en auðvitað tengist þetta allt saman. Eins og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir kom inn á tengist það bæði byggðamálum og atvinnumálum. Slíkri starfsemi fylgja störf, það þarf ákveðið utanumhald og nokkur störf fylgja því. Það er okkur dýrmætt þegar við tölum um atvinnumálin úti um landið. Svo eru það byggðamálin. Við aukum fjölbreytni starfa, við stækkum atvinnusvæðið og svo opnum við kannski líka augu ungmenna fyrir því að til eru staðir sem þau hefðu ekki heimsótt ef skólarnir væru ekki þar. Það hefur jafnvel orðið til þess að fólk hefur sest að á stöðunum. Þetta hefur opnað leiðir fyrir fólk og hugmyndir hafa kviknað varðandi eitthvað sem fólk vissi hreinlega ekki að væri til. Það er svo merkilegt að veröld okkar flestra er í rauninni óskaplega lítil og því er þetta mjög jákvætt.

Það kemur líka fram að UMFÍ leggi áherslu á að hlutirnir gerist í réttri röð og að lagaumgjörðin sé fyrsta skrefið, eins og ég vék að áðan. Áhugi hefur verið á stofnun lýðháskóla á Laugarvatni með aðkomu menntamálayfirvalda og Bláskógabyggðar. UMFÍ hefur nú þegar myndað samstarfsteymi við lýðháskóla í Danmörku sem er tilbúinn til að leggja sitt af mörkum í undirbúningi og framkvæmd, enda er rík hefð fyrir lýðháskólum í Danmörku og víðar á Norðurlöndum og ekki óeðlilegt að við horfum til fyrirmynda þangað og vinnum út frá því sem menn hafa góða reynslu af þar.

UMFÍ hefur rekið ungmennabúðir á Laugum í Sælingsdal til fjölda ára. Við foreldrar þeirra mörgu barna sem hafa farið þangað þekkjum að góð reynsla er af því starfi. Þar dvelja skólahópar, börn í 9. bekk, í tæplega viku með kennurum og eru um leið tekin út úr venjubundnu umhverfi sínu. Mjög eftirsótt hefur verið að komast á þennan stað og er ánægjulegt að hitta börnin eftir tæplega vikudvöl. Lögð hefur verið áhersla á félagsfærni, útivist og upplifun án nútímatæknibúnaðar, sem er töluverð áskorun fyrir nútímabörn og hefðu mörg okkar fullorðnu jafnvel gott af því að reyna það. Þarna eru öll verkefni unnin í óformlegu námi, rétt eins og í lýðháskólum.

Það sem ég vil helst leggja áherslu á í máli mínu, um leið og ég fagna framkomu málsins, er fjölbreytileiki í skólum. Við þurfum að hafa ákveðinn sveigjanleika. Við vitum alltaf að það er ákveðinn hópur sem hefur ekki fundið fjölina sína en er stútfullur af hæfileikum. Einstaklingarnir hafa kannski einhvern ákveðinn ramma, ákveðið tímabil og þá opnast tækifæri.

Mig langar að nefna Húsmæðraskólann á Hallormsstað, ég get eiginlega ekki orða bundist. Þar hefur verið rekið gríðarlega merkilegt og gott starf og þangað inn hefur komið fólk á ýmsum aldri. Ég held að mér sé óhætt að segja að færustu kokkar landsins hafa átt viðkomu þar, þannig að það hefur sannarlega ekki spillt fyrir þeim. Það liggja víða þræðir.

Helstu kostir lýðháskólanna eru að þar unnið út frá öðrum áherslum og markmiðum en viðgengst í hefðbundnum bók- og verknámsskólum. Mikil áhersla er lögð á mannrækt, sjálfsrækt og virka þátttöku nemenda. Þetta held ég að sé gríðarlega mikilvægt af því að það er að vaxa upp allt of stór hópur fólks sem aldrei hefur tekið þátt í neinu félagsstarfi, ekki verið í neinni sjálfboðavinnu, sem þekkir ekki þetta félagsform. Ég held að það geti verið gríðarlega gott að fá að koma á svona stað, upplifa ákveðið samfélag, vera þátttakandi í því að reka heimili, hugsa um sig sjálfur og taka tillit til annarra í öðru umhverfi en því sem fólk er vant dagsdaglega. Kannski væri ágætt fyrir okkur öll að fá að prófa það.

Eins og kemur fram í greinargerðinni er lýðháskóli góð millilending fyrir nemendur sem vita ekki í hvaða átt þeir vilja stefna og fyrir ungt fólk sem hefur flosnað upp úr námi. Við þekkjum mjög vel að það hefur hjálpað mörgum, eins og hefur margkomið fram í dag, en svo getur vel verið að það henti einhverjum að koma við í slíkum skóla sem verður þá varða á leiðinni eitthvert annað, sama hvernig aðstæður eru. Þær þurfa ekkert endilega að vera þannig að fólk sé í einhverjum vandræðum.

Ég held að tillagan sé mjög góð og vil þakka 1. flutningsmanni fyrir að leggja málið fram. Ég held að það sé gott skref til að auka flóruna í skólakerfinu hjá okkur. Eins og fram kemur um áhrif þess að fara í lýðháskóla hefur vera í lýðháskóla marktæk jákvæð áhrif í tengslum við brottfall úr námi. Það er alvarleg staða sem við stöndum frammi fyrir og þó að við næðum við ekki nema því markmiði væri það mjög dýrmætt.



[18:22]
Flm. (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég fann mig tilknúinn í ljósi jákvæðrar umræðu um málið að koma upp og þakka fyrir gagnlegar ábendingar um málið frá hv. þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni, bæði í andsvörum við framsöguræðu og svo um málið. Hv. þingmenn komu inn á fjölmörg atriði sem skipta máli um eðli lýðháskóla og marga fleiri punkta sem væri mjög freistandi að draga saman.

Það er kannski efni í aðra ræðu en hv. þm. Karl Gauti Hjaltason nefndi hér að tími væri til kominn að efla Laugarvatn að nýju sem skólasetur. Ég get tekið undir með hv. þingmanni. Hann nefndi jafnframt að þessi viðbót við íslenska menntakerfið væri ein varða á þeirri leið að koma í veg fyrir brotthvarf. Raunveruleikinn er sá að íslenskir unglingar eru kannski lengur að taka ákvörðun og eru oft á milli vita með ákvörðun um hvað við erum að gera á þessari leið. Þetta nefndu margir aðrir hv. þingmenn.

Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir kom hér inn á einkaframtakið. Ég get tekið undir með hv. þingmanni, hvort sem það eru félagasamtök eins og Ungmennafélag Íslands eða einstaklingar sem hafa frumkvæðiskraftinn og setja svona starfsemi af stað eigum við að virkja það og ýta undir það. Það dregur jafnframt fram það sem kom vel fram í máli allra hv. þingmanna hér, mikilvægi þess að klára almenna lagaumgjörð um lýðháskóla á Íslandi. Alþingi samþykkti árið 2015 þingsályktunartillögu þáverandi hv. þm. Brynhildar Pétursdóttur þar sem markmiðið var að hér yrði rekstrargrundvöllur tryggður að norrænni fyrirmynd. Það var kjarninn í tillögunni og síðan eru liðin þrjú ár og fólkið þarna úti með allan sinn kraft getur ekki beðið eftir okkur endalaust. Ef þingsályktunartillagan fer svo langt að við samþykkjum hana, sem ég vona, og setjum af stað starfshóp um að stofna lýðháskóla á Laugarvatni þrýstir það á að klára almennu lagaumgjörðina sem er afar mikilvægt.

Hv. þingmenn komu vel inn á eðli og hugmyndafræði lýðháskóla. Í greinargerð með máli Brynhildar Pétursdóttur, þáverandi hv. þingmanns, sem var samþykkt af Alþingi, var komið inn á skýrslu menntamálaráðuneytis frá árinu 2012, Allir stundi nám og vinnu við sitt hæfi, þar sem talað er um að auka þurfi fjölbreytni kennsluaðferða, nútímavæða framsetningu námsefnis, mæta ólíkum þörfum nemenda, glæða áhuga og virkja nemendur á sínum forsendum, glæða frumkvæði og efla gagnrýna hugsun og skapandi starf, nýta nýja miðla og notast við margmiðlunarformið í framsetningu verkefna. Þar er hvergi minnst á lýðháskóla en engu að síður er hér verið að lýsa í raun og veru kjarnanum í hugmyndafræði lýðháskólanna. Ég vildi bara ljúka ræðu minni með því draga þetta fram og þakka öllum hv. þingmönnum fyrir góðar og gagnlegar ábendingar.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til allsh.- og menntmn.