149. löggjafarþing — 29. fundur
 8. nóvember 2018.
opinberar framkvæmdir og fjárfestingar.

[10:58]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Opinberar framkvæmdir og opinberar fjárfestingar af ýmsu tagi eru mjög stór þáttur í rekstri ríkisins og rekstri sveitarfélaganna. Komið hefur fram á undanförnum misserum að misvel hefur tekist til með það að fjárfestingar og opinberar framkvæmdir af margvíslegu tagi séu innan þeirra áætlana sem gerðar hafa verið. Þær hafa orðið umfangsmeiri og dýrari en ráð var fyrir gert og tekið lengri tíma að framkvæma.

Í sjálfu sér er ástæðulaust að tína til einstök dæmi, við svo sem þekkjum þau. Það eru ný dæmi sem eru algjörlega úr nútímanum, má segja. Við erum með braggann í Vatnsmýrinni. Við erum með listasafn í Listagilinu á Akureyri. Við erum með Vaðlaheiðargöng sem liggja frá Eyjafirði yfir í Fnjóskadal. Við erum með nýtt sjúkrahótel sem er ekki enn búið að opna, og svona mætti áfram telja.

Ég vil spyrja ráðherrann hvað líði framkvæmd þeirrar þingsályktunartillögu sem þingið samþykkti í vor, í þverpólitískri sátt, og gerir ráð fyrir tvennu, annars vegar að ráðherrann skili þinginu útfærðri stefnumörkun á því sviði, til að bæta hér úr, og hins vegar að stofnaður verði sérstakur samstarfsvettvangur aðila úr kerfinu, ef svo má segja, akademíunni og atvinnulífinu, til að hrinda því af stað. Hvað er að frétta af þeim málum?



[11:00]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það sem er að frétta af málinu er að það er í vinnslu og ég var nú síðast með það í þessari viku á borði mínu og til úrlausnar. Þetta er tvíþætt þingsályktunartillaga. Hún fjallar annars vegar um að hingað beri að koma inn með hugmyndir að úrbótum. Ég verð að segja að ég held að varðandi þann þáttinn þurfum við að leggja mat á það fyrirkomulag sem við erum með í dag. Ég er kannski ekki tilbúinn til að fullyrða nú þegar að það sé mikil brotalöm í því fyrirkomulagi sem við erum með en við tökum stundum með opin augun áhættu eins og t.d. átti við í tilviki Vaðlaheiðarganga. Þar tókum við bara með opin augun, ég reyndar tók ekki þátt í því að styðja það mál, en með opin augun tók þingið þá ákvörðun, þrátt fyrir mikla áhættu og mikla óvissu, að leggja af stað.

Síðan er kannski bara innbyggt eðli stórframkvæmda að það er mikil óvissa oft og tíðum. Þetta þekkja einkaaðilar líka. Hefur einhver einhvern tímann hitt mann sem ákvað að fara í framkvæmdir heima hjá sér sem fóru aðeins fram úr kostnaði? Hefur einhver lent í því? Kannski sjálfur? Ég held að margir kannist við það. Það sama á auðvitað við hjá hinu opinbera. En aðalatriðið er að það sé nægur undirbúningur, að það sé gagnsæi og það séu skýringar á því hvað hafi farið úrskeiðis og menn hafi þannig tækifæri til þess að læra af því sem gerðist og bregðast við.

Mig langar að nefna eitt í þessu sambandi. Þegar slíkir hlutir gerast í því umhverfi sem við erum að reyna að starfa eftir í dag ber okkur að gera ráðstafanir til að bæta upp fyrir annars staðar þannig að við náum t.d. afkomumarkmiðum, skuldauppgreiðslumarkmiðum o.s.frv. Út frá því er gengið í lögum um opinber fjármál. Síðan er það hinn þátturinn sem fjallar um þennan samstarfsvettvang. Það mun skýrast þegar ég kem með viðbrögð við þessari þingsályktunartillögu hvernig við sjáum það fyrir okkur.



[11:03]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég get ekki annað en glaðst yfir því að málið sé a.m.k. á borði ráðherrans þótt ég sé ekki alveg jafn ánægður með að það taki þó þennan tíma og enn sjái ekki fyrir endann á því.

Mig langar þá að spyrja til viðbótar hvort hæstv. fjármálaráðherra geri ráð fyrir því að veita fjármuni sérstaklega til þeirra verkefna. Það er mikilvægt að það séu fjármunir fyrir hendi til að sinna því og það eru smáaurar miðað við ávinninginn.

Ég vildi aðeins koma inn á að mér fannst viss uppgjöf í máli hæstv. ráðherra, að það væri eiginlega óhjákvæmilegt að svona færi og menn könnuðust við það. Sem betur fer eru til aðferðir til að draga úr slíkri áhættu. Menn hafa víða náð mjög góðum árangri einmitt með það markmið að draga úr áhættunni, kortleggja mun betur.

Síðan er það sem er alvarlegast, og ráðherra kom réttilega inn á, (Forseti hringir.) að menn leggja af stað með lokuð augu, tryggja sér visst fjármagn, koma sér á þann stað að klára verður verkefnið, sem verður, og allir vita það, miklu dýrara. Það verðum við að koma í veg fyrir þannig að menn hafi það á hreinu frá upphafi, með opin augun, (Forseti hringir.) að öll verkefni hins opinbera fara 100% fram úr áætlun. (Forseti hringir.) Þá vita menn það bara.



[11:04]
Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Það vill fara svo með sumar ræður eins og opinberar framkvæmdir að þær fara aðeins fram úr áætlun. [Hlátur í þingsal.]



[11:04]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að mönnum beri að undirbúa stærri framkvæmdir og allar framkvæmdir hæfilega þannig að dregið sé eins og hægt er úr óvissu og áhættu sem fylgir framkvæmdunum. Það sem ég bendi á er að ávallt er innbyggð einhver óvissa og áhætta og ytri aðstæður geta breyst.

Við getum tekið mörg dæmi. Tökum Hörpu sem dæmi. Harpa fór af stað sem einkaframkvæmd. Þar voru menn örugglega með góð plön, en það fór allt úrskeiðis. Það þurfti ekki aðkomu hins opinbera á því stigi. Síðan þegar hið opinbera kom að var verkið aftur eitthvað umfangsmeiri en menn sáu fyrir.

Ég held þess vegna að við séum sammála í öllum meginatriðum, ég og hv. þingmaður, og við erum svo sannarlega með risaframkvæmdir á prjónunum, á næstu árum þar sem skiptir öllu að það verði fullnægjandi aðhald og undirbúningur. Má ég nefna hér tvö risamál; Landspítalann annars vegar og Keflavíkurflugvöll hins vegar, þar sem framkvæmdaféð samanlagt fer langt yfir 100 milljarða.