149. löggjafarþing — 30. fundur
 12. nóvember 2018.
hjálparhlutir fyrir fatlaða.

[15:28]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Hindranir gagnvart öryrkjum eru alveg ótrúlega margar og sumar virðast vera algjörlega tilgangslausar. Ekki virðist vera hægt að fara eftir lögum. Til dæmis segir í nýlegum dómi Hæstaréttar að ef við lögfestum ekki samning Sameinuðu þjóðanna sé ekki hægt að fara eftir byggingarreglugerðum varðandi aðgengi fatlaðra. Síðan er það líka þannig að rútufyrirtæki virðast ekki eiga að uppfylla það að vera með lyftur nema einhver kæri.

Nýjasta dæmið er svo að Sjúkratryggingar Íslands neita einstaklingum, þeim sem eru mest fatlaðir, fæddir fatlaðir, ungir og þekkja á tæknina og vilja bjarga sér sjálfir, t.d. um að fá „bluetooth“-mús fyrir R-net og um að fá aukahlut á stól sem heitir X-grip spjaldtölvuhaldari. Þetta eru hlutir til að einfalda og auðvelda þeim einstaklingum sem eru mikið fatlaðir að kvitta undir allt sjálfir, t.d. hjá sjúkraþjálfara eða þegar þeir borga vörur og annað. Þetta er svo einfalt og þess vegna er mér óskiljanlegt að það skuli vera svona. Maður myndi skilja ef þetta væri eitthvað nýtt en svo er ekki, sumir fá þetta og aðrir ekki.

Þá spyr ég: Ætti það ekki einfaldlega að vera þannig að þeim einstaklingum sem eru í rafmagnsstólum og eru virkilega fatlaðir en hafa vilja og getu til að bjarga sér sjálfir væru sköffuð slík tæki? Ég get ekki séð að það sé ríkissjóði ofviða að borga tækin vegna þess að það er ekki slíkur ofboðslegur fjöldi sem hefur beðið um þau.

Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hún sé ekki sammála mér um að við sjáum … (Gripið fram í: Félags…) — Nei, heilbrigðisráðherra, þetta eru Sjúkratryggingar. Þar af leiðandi spyr ég hvort ekki sé sjálfsagt (Gripið fram í: Spyrja félagsmálaráðherra.) að sjá til þess að Sjúkratryggingar … (Forseti hringir.)

(Forseti (SJS): Forseti las upp að fyrirspurninni væri beint til félags- og jafnréttismálaráðherra.)

Það átti að vera búið að breyta því í heilbrigðisráðherra.

(Forseti (SJS): Þá held ég að rétt sé að hv. þingmaður fái aftur tækifæri til að lesa spurninguna. Ég bið hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra forláts og undirbý hæstv. heilbrigðisráðherra til að svara. Ef hv. þingmaður vildi endurtaka fyrirspurn sína.)

Alveg sjálfsagt. Það sýnir bara hversu flókið kerfið er [Hlátur í þingsal.] að málið geti varðað heilbrigðisráðherra, félagsmálaráðherra, samgönguráðherra og jafnvel líka nafna minn. Ráðuneytin eru ótrúlega flókin og þess vegna skil ég ekki að ekki skuli vera búið að einfalda þetta.

Ég ætla að endurtaka spurningu mína. Við erum að tala um „bluetooth“-mús fyrir R-net og X-grip spjaldtölvu fyrir rafmagnsstóla. Þetta er fyrir fólk sem er virkilega fatlað, er til að mynda fætt með fötlun. Þetta er ungt fólk sem vill bjarga sér sjálft, vill geta skrifað undir. Það fer út í búð og vill geta skrifað undir sjálft þegar það notar greiðslukort. Það vill sjálft geta kvittað hjá sjúkraþjálfara. Það vill ekki fá aðstoð við alla þá hluti.

Ég segi fyrir mitt leyti: Ef einstaklingar telja sig geta gert þetta og vilja gera það, eiga þá Sjúkratryggingar Íslands að neita? Hitt er að búið er að segja já við suma. Við eigum að hvetja fólk til að bjarga sér sjálft. Ég held að við séum alveg sammála um það. Ég vona a.m.k. að ráðherra sjái til þess að svona hlutir verði sjálfsagðir.



[15:32]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns að málaflokkurinn er flókinn, en sem betur fer er það líka þannig að málefni fatlaðs fólks varða samfélagið allt og þess vegna alla málaflokka og öll ráðuneyti.

En mig langar sérstaklega til að svara þessari fyrirspurn hv. þingmanns með því að nefna að mjög fljótlega eftir að ég tók við embætti heilbrigðisráðherra setti ég í gang vinnu undir forystu hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur og með aðkomu Öryrkjabandalagsins, Þroskahjálpar og fleiri aðila til að fara ofan í kjölinn á hjálpartækjamálunum öllum. Sá málaflokkur hefur beðið og hefur verið settur til hliðar, þ.e. hann hefur ekki beinlínis verið á dagskrá um langt árabil. Þar er ekki síst mikilvægt að horfa einmitt til þessara tæknibreytinga sem við sjáum í dag og hvernig við þurfum í raun og veru að uppfæra til nútímans samspilið við Sjúkratryggingar Íslands, greiðsluþátttöku o.s.frv.

Nefndin hefur ekki lokið störfum en þetta er, samkvæmt því sem hv. þingmaður var að hvísla að mér bara rétt í þessu, eitt af því sem nefndin er að fjalla um, þ.e. þessi tæknilegu úrlausnarefni sem hv. þingmaður nefnir. Nefndinni er falið að skoða lagaumhverfið, að skoða reglugerðarumhverfið en ekki síður að fara yfir framkvæmdina á þessu lagaumhverfi, reglugerðarumhverfi, sem við erum með núna. Ég vænti mikils af þessu verkefni og er sammála hv. þingmanni um að það sem á að vera grunntónninn í þessu öllu saman er mikilvægi þess að fólk hafi fullt aðgengi að samfélaginu þannig að það geti tekið þátt í því, ekki bara sjálfs sín vegna heldur líka samfélagsins vegna, það þarf á kröftum allra að halda.



[15:34]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þetta svar. Við hljótum nefnilega að vera sammála um, miðað við alla umræðuna um starfsgetumat og vinnuöryggi, að þetta sé ein af grunnstoðum þess að margir einstaklingar sem eru þetta illa staddir líkamlega geti sótt vinnu. Ég tel að þetta þurfi bara að liggja fyrir sem fyrst vegna þess að þetta er eitt af því sem á auðvitað að ganga frá á undan, að hjálpartæki og annað sé fullkomlega aðgengilegt, áður en við förum að gera kröfu um að einstaklingar geti farið að vinna.

Ég veit að sumir einstaklingar sem eru í þessari aðstöðu geta unnið. Þeir eru mjög færir einstaklingar á mörgum sviðum og við eigum að sjá til þess að þeir fái þessi tæki til að bjarga sér og jafnvel vinna eins og þeir vilja.



[15:35]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Við erum sammála um þetta, ég og hv. þingmaður. Þetta snýst ekki einungis um þátttöku á vinnumarkaði heldur þátttöku í samfélaginu öllu, því að taka þátt í menningu, félagsstarfi o.s.frv.

Hv. þingmaður vék í fyrri spurningu sinni að byggingarreglugerð og mig langar að geta þess sérstaklega að þegar ég var umhverfisráðherra á árunum 2009–2013 lagði ég mikla áherslu á samstarf við Öryrkjabandalagið um aðgengiskaflann í byggingarreglugerðinni. Raunar er það svo að nokkrum sinnum hefur verið að þeim kafla sótt og nokkrum sinnum hefur það verið gert í samstarfi við Öryrkjabandalagið og Þroskahjálp að hrinda slíkri aðför til baka. Það þarf virkilega að standa í lappirnar gagnvart því að aðgengismálin séu í forgangi, ekki bara á heimilum þeirra sem þurfa á betra aðgengi að halda heldur í öllu opinberu rými, í opinberum byggingum o.s.frv. (Forseti hringir.) Það er stórkostlega mikilvægt réttlætismál. Ég verð áfram í liði með hv. þingmanni og Öryrkjabandalaginu í því að standa þann vörð.