149. löggjafarþing — 30. fundur
 12. nóvember 2018.
um fundarstjórn.

fyrirkomulag óundirbúinna fyrirspurna.

[15:52]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Örstutt um fundarstjórn, um óundirbúnar fyrirspurnir. Núna er svona aukafyrirspurnatími, er á mánudögum yfirleitt, þar sem einn til viðbótar spyr. Það hafa venjulega verið stjórnarflokkarnir sem taka þetta eina aukapláss sem er allt í góðu.

Framsókn hefur spurt þrisvar það sem af er og alltaf spurt ráðherra Vinstri grænna. Vinstri grænir hafa spurt til skiptis tvisvar, einu sinni ráðherra Sjálfstæðisflokksins og einu sinni ráðherra Framsóknar og Sjálfstæðismenn hafa spurt einu sinni eigin ráðherra. Ég velti því fyrir mér hvort þetta sé rétti vettvangurinn í rauninni, að stjórnarþingmenn séu að spyrja eigin ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum, hvort það sé eðlilegt yfir höfuð. Við höfum séð það í atkvæðagreiðslu að ríkisstjórnarsamstarfið skiptir mun meira máli en nokkrir aðrir hagsmunir.

Maður veltir því fyrir sér hvort óundirbúnar fyrirspurnir, þar sem maður á að vera eftir því sem mér skilst í ákveðnu eftirliti með störfum ráðherra, (Forseti hringir.) séu vel nýttar þegar stjórnarþingmenn eru að spyrja ráðherra ríkisstjórnarinnar. Það eru kannski ágætisspurningar að einhverju (Forseti hringir.) leyti en ég velti fyrir mér hvort þetta sé heppilegur vettvangur.



[15:53]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil bara koma upp á móti hv. þingmanni sem tók áðan til máls. Fyrirkomulagið er þannig að tvisvar í viku er óundirbúinn fyrirspurnatími. Stjórnarandstaðan, hver flokkur fyrir sig, fær eina fyrirspurn hver í bæði skiptin, svokallað aukaslott er þá á mánudeginum og þá er möguleiki fyrir þingmenn stjórnarinnar til að koma með fyrirspurnir á ráðherra. Það finnst mér mjög eðlilegt. Mér finnst það jákvætt og ég vil lýsa því yfir að mér finnst þetta gott framtak hjá forseta.



[15:54]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Þakka þér fyrir. Ég vil koma upp til að fara sérstaklega yfir það að mér finnst málfrelsi þingmanna afar gott í pontu Alþingis, hvort sem ég styð ríkisstjórn eða ekki. Það fyrirkomulag að bæta við einni fyrirspurn snerist ekki eingöngu um að stjórnarandstaðan fengi að skipta því á milli sín með reglubundnum hætti heldur er það fyrir okkur þingmenn. Mér finnst þetta mjög mikilvægt. Við veitum ráðherrum okkar aðhald. Mikilvægt er að það gerist í pontu Alþingis, hvort sem það er í formi fyrirspurna, í formi ræðna eða í hvaða formi sem er. Ég held að það sé afar mikilvægt. Við eigum að virða þann rétt okkar allra og ekki draga okkur í dilka hvað þetta varðar.

Ég ætlaði að árétta að við eigum að virða rétt okkar allra til að taka þátt í því einmitt að geta skipst á skoðunum.



[15:55]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég tek alveg undir það. Ég virði málfrelsi þingmanna hvað þetta varðar. Ég bara velti því fyrir mér hvort þetta sé réttur vettvangur. Þegar þetta aukapláss varð til var mikil umræða um að auka einmitt við tímann í störfum þingsins en einhverra hluta vegna varð til lengri tími í óundirbúnar fyrirspurnir. Ég er bara að velta fyrir mér hvort við séum að beina þessu í réttan farveg þar sem við erum með meirihlutastjórn og það er pínu undarlegt þegar stjórnarþingmenn spyrja eigin ráðherra. Á sama tíma virði ég þetta alveg og hef ekkert út á fyrirspurnir stjórnarþingmanna að setja á þann hátt heldur. Ég er bara að velta fyrir mér í samræðunni hvort það sé eðlilegur vettvangur í eftirliti með framkvæmdarvaldinu að blanda þessu á einhvern hátt saman, hvort við ættum almennt að vera frekar með þetta meira í störfum þingsins eða á einhvern annan formlegri hátt en óundirbúnar fyrirspurnir.

Ekki alvarleg ábending. Ég er bara að vekja athygli á þessu og það er áhugavert hvernig fyrirspurnirnar kastast á milli stjórnarflokkanna, það er mjög skemmtilegt að skoða það.



[15:57]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir að taka þetta upp og vera með vangaveltur sem mér finnst eiga fyllilega rétt á sér. Við sinnum að vissu leyti aðhaldshlutverki gagnvart ríkisstjórninni en ég vil líka undirstrika að ég tek heils hugar undir með þeim þingmönnum sem hér ræddu áðan um málfrelsi þingmanna, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu.

Við þurfum að finna því farveg, hvernig það málfrelsi verður best nýtt, bæði hvað varðar aðhaldshlutverk stjórnarandstöðunnar, sem er gríðarlega mikilvægt fyrir alla lýðræðislega framvindu og umræðuna, en ekki síður það að stjórnarþingmenn, ég veit það vel hafandi verið þar, geti líka fundið fjölina sína.

Að því sögðu vil ég eindregið beina því til stjórnarmeirihlutans að hætta að koma með tillögur um að takmarka ræðutíma, t.d. um skýrslur, um fjárlög eða önnur mikilvæg málefni, og koma frekar með tillögur sem ýta undir málfrelsi allra þingmanna, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu.