149. löggjafarþing — 31. fundur
 14. nóvember 2018.
um fundarstjórn.

svar við fyrirspurn.

[15:03]
Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp enn einu sinni til að leita ásjár forseta út af fyrirspurn sem ég lagði fram til félagsmálaráðherra upphaflega í mars sl. Ýmissa hluta vegna, vegna tafa á svari, varð ég að leggja fram sams konar fyrirspurn aftur núna í byrjun þings sem varðar sölu á fullnustueignum Íbúðalánasjóðs.

Ef ég man rétt, hæstv. forseti leiðréttir mig annars, hefur ekki einu sinni verið beðið um frest á svari við þessari fyrirspurn frá því í september. Ég veit ekki hvað veldur. Ég veit ekki hvort menn ætla sér að kría út annað álit Persónuverndar sem er þeim hagfelldara en það sem kom í vor um að Persónuvernd gerði ekki athugasemd við að nöfn þeirra manna og fyrirtækja verði gerð opinber sem hafa fengið að kaupa fullnustueignir Íbúðalánasjóðs sl. tíu ár fyrir 57 milljarða kr.

Ég veit ekki hvað dregst svona hjá félagsmálaráðherra og bið forseta ásjár, að ríkisstjórnin sem hefur styrkingu Alþingis að leiðarljósi standi við orð sín og svari þessari fyrirspurn.



[15:05]
Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti mun ganga eftir því hvar svar við fyrirspurninni er á vegi statt og eins kanna hvort óskað hefur verið eftir fresti til að svara síðar og upplýsa hv. þingmann um afraksturinn af þeirri viðleitni.



[15:05]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Ég vona að hæstv. forseti fylgi þessu vel eftir því að saga þessa máls er með stökustu ólíkindum, eins og hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson rakti í grein sem birtist á Vísi í gær. Þetta mál hlýtur að slá öll met hvað varðar tafir, ekki bara í tímalengd heldur líka í þeim tilburðum sem hæstv. ráðherra, ekki hvað síst, hefur beitt til þess að tefja málið og þæfa það og reyna að láta það hverfa. Í ljósi þess hvernig á þessu öllu hefur verið haldið virðist manni þeim mun mikilvægara að þessi svör fáist.

Nú hvet ég hæstv. forseta til að beita sér fyrir því að svörin skili sér en ekki eingöngu að spyrja álits og fá það svar frá ráðuneytinu að það óski eftir enn frekari fresti.



[15:06]
Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka forseta fyrir að hafa lýst því yfir að hann muni beita sér fyrir því að reyna að fá einhver svör frá ráðuneytinu varðandi afdrif þessarar fyrirspurnar. Það er vissulega með ólíkindum að ráðherra skuli komast upp með að humma þetta fram af sér, í rauninni síðan í mars á þessu ári, að þingmenn skuli þurfa að endurnýja fyrirspurnina vegna þess að ráðherrann hefur móast við að svara henni.

Ef það er þannig að ráðherrar komist upp með slíkt hljótum við að þurfa að horfa til þess hvort við þurfum að breyta einhverjum lögum og reglum varðandi skyldu þeirra til að svara Alþingi, svara löggjafarsamkomunni. Auk þess skil ég heldur ekki, virðulegur forseti, hvers vegna ráðherrann er að draga lappirnar í þessu. Það væri vitanlega mjög hreinlegt og betra fyrir ráðherra sjálfan að koma fram með svör, nema þetta sé eitthvað sem er vont fyrir Alþingi að vita. Ég trúi varla að í því séu upplýsingar sem er óþægilegt fyrir alþingismenn að vita. Ég trúi ekki að neitt annað búi þarna að baki þannig að ég hvet hæstv. ráðherra til allra góðra verka í því. Taka þarf ráðherrana föstum tökum varðandi þetta.



[15:07]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa talað. Það er algjörlega ólíðandi að hv. þingmenn þurfi að bíða svona óskaplega lengi eftir svörum við spurningum sem skipta máli fyrir þingstörfin á einn eða annan hátt.

Þetta er ekki í eina skiptið sem slíkt hefur gerst, þótt hér séu ansi margir mánuðir undir. Ég fékk t.d. um mitt sumar, nánar tiltekið 18. júlí, eftir að hafa beðið í um fimm mánuði, svar við spurningum til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um vinnslu úr Panama-skjölunum.

Það væri líka ágætt að við skoðuðum hvaða mál það eru sérstaklega sem hæstv. ráðherrar draga að svara. Eru það viðkvæm mál? Við eigum jafn mikinn rétt á því að fá skýr og (Forseti hringir.) greinargóð svör við viðkvæmum málum sem öðrum.



[15:09]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þekki ekki efnisatriði fyrirspurnarinnar sem er til umræðu en alveg sjálfsagt að taka undir með þingmanninum um að greið samskipti verði að vera milli þings og stjórnkerfis. Hins vegar vil ég nota tækifærið til að vekja máls á því að við erum með ólíkar leiðir til að kalla fram svör frá stjórnkerfinu. Það eru ákveðnar reglur um hvernig menn eigi að bera sig að til að fá t.d. skýrslur. Það þarf atkvæðagreiðslu um það í þinginu hvort skýrslubeiðni eigi að fá að ganga fram. Þegar um er að ræða fyrirspurnir er gefinn ákveðinn frestur. Þá tvo þætti vil ég nefna sérstaklega vegna þess að þegar um frest er að ræða, þegar fyrirspurnir eiga í hlut, er auðvitað út frá því gengið að eitthvert umfang sé í fyrirspurninni sem raunhæft sé að bregðast við innan frestsins. Ella hljótum við að vera farin að tala um fyrirspurn (Forseti hringir.) sem er farin að líkjast skýrslubeiðni. Þarna held ég að við eigum mikið verk eftir óunnið í þinginu, í því samtali að læra um mörkin þarna á milli.



[15:10]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég kem hingað upp til að taka undir það sem fram hefur komið varðandi það að ótækt er hversu mikill dráttur er á svörum við fyrirspurnum, sérstaklega þegar um er að ræða mál sem skipta okkur öll, allan almenning í landinu, miklu máli. Við erum að tala um hvernig kerfið okkar virkar og hvort þar á sé einhvers staðar brotalöm.

Mig langar líka til að vekja aðeins athygli á einu, þ.e. að það virðist vera frekar óskýrt hvort svona fyrirspurnir lifa af þingfrestun eða ekki. Það virðist ekki vera algjört samræmi þar á. Stundum eru svörin að berast að sumri. Stundum þarf að bera fyrirspurnina fram aftur og jafnvel hefur verið ýjað að því að það þurfi að fara fram ný skýrslubeiðni þegar nýtt þing kemur saman. Þetta varðar ekki bara þann þingmann sem hér stendur, sem er tiltölulega nýkomin, (Forseti hringir.) heldur virðast eldri og reyndari þingmenn fá mjög misvísandi upplýsingar hvað þetta varðar. En upplýsinga- og eftirlitshlutverk Alþingis er auðvitað eitt af mikilvægustu hlutverkum þingsins og við verðum að laga þetta.



[15:12]
Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti hefur áður farið yfir þetta en málið er ekki tiltölulega flókið. Ef lögð er fram fyrirspurn á einu tilteknu löggjafarþingi getur svar við þeirri fyrirspurn, hvort sem er munnlegt af hálfu ráðherra, komið svo lengi sem fundir standa eða skriflegt svo lengi sem það þing situr. Eftir að það þing lýkur störfum og nýtt þing tekur við verður skriflegu svari ekki dreift sem þingskjali því að það er ekkert þingmál til að svara. Það er fallið niður og þá þarf að endurflytja fyrirspurnina eða skýrslubeiðnina.

Sama gildir um skýrslubeiðnir, þeim er í sjálfu sér hægt að dreifa þótt nýtt löggjafarþingi hafi hafið störf en sú skýrsla verður þá ekki þingmál í hefðbundnum skilningi. Eigi hún að ræðast á Alþingi er hún þar rædd sem munnleg skýrsla ráðherra þótt prentuð sé.

Þetta er svona vaxið.



[15:13]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar til að taka undir það sem aðrir hafa sagt hérna og kannski bæta aðeins um betur. Þann 21. febrúar síðastliðinn var ég með fyrirspurn til munnlegs svars til dómsmálaráðherra. Þar sem hún var kannski pínulítið yfirgripsmikil hvatti ráðherra mig til að senda fyrirspurnina til skriflegs svars, sem ég gerði í kjölfarið, nákvæmlega eins, efnislega alveg eins, sami texti og svoleiðis. Svar við henni barst ekki á síðasta þingi og hefur enn ekki borist. Þetta er fyrirspurn sem er í rauninni búin að liggja inni síðan í febrúar, þegar allt kemur til alls.

Fyrst við fórum í munnleg svör í fyrirspurnatíma hélt ég að svörin lægju alveg fyrir, það ætti bara eftir að klippa og líma það sem náðist ekki að svara í ræðunni — en samt hefur svar ekki borist.

Þetta er því dálítið viðamikið vandamál.



[15:14]
Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Í tilefni af orðum hæstv. fjármálaráðherra langar mig að geta þess að svo háttar til um þessa fyrirspurn að svar við henni var sent þinginu rétt fyrir þingbyrjun með þeim orðum að þinginu væri sett sjálfdæmi um það hvort svarinu skyldi dreift eður ei. Auðvitað endursendi þingið þetta til ráðherrans vegna þess að það er ekki þingsins að ritskoða svör ráðherra eða ákveða hvort þau eigi að birtast í heild eða öðruvísi.

Það sem ég vil draga fram með því er að svarið við fyrirspurninni liggur fyrir. Það er tilbúið uppi í ráðuneyti. Það eina sem þarf að gera er að senda það aftur til Alþingis og birta það.

Þess vegna skil ég enn síður að þetta svar, sem hefur legið fyrir síðan í byrjun september eða fyrr, skuli ekki hafa verið sent á þeim dögum sem síðan eru liðnir. Það er líka þess vegna sem ég bið hæstv. forseta að (Forseti hringir.) taka á málinu af mikilli festu, af því að þetta er óþolandi framkoma.



[15:15]
Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Mig langar nefnilega aðeins að hnykkja á þessu atriði sem hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson kom inn á áðan. Svarið liggur fyrir og hefur legið fyrir um langan tíma. Síðan til að gera langa sögu mjög stutta: Þetta var ekki flókin spurning. Svarið er komið. Þetta hefur ekkert með að gera hvort spurningin hefði frekar átt að vera skýrslubeiðni o.s.frv.



[15:16]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka forseta kærlega fyrir kennslustundina. Unglingnum þykir vænt um þegar reynsluboltinn kennir þingsköp og hvernig hlutirnir ganga fyrir sig á þinginu. Það er þó eitt sem vekur undrun og það er þetta með skýrslur. Þegar um er að ræða skýrslubeiðni sem t.d. Ríkisendurskoðun er falið að vinna þá hættir Ríkisendurskoðun ekki störfum eða stöðvar framkvæmd á milli þinga heldur heldur áfram. Ég veit að við erum að fá inn skýrslur sem beðið var um á síðasta löggjafarþingi.

Ég veit að sá þingmaður sem hafði frumkvæði að þeirri skýrslubeiðni fékk mjög misvísandi skilaboð um það hvort þyrfti að fara aftur og biðja um þá skýrslu eða ekki, þó að vinnan við þá skýrslu hjá Ríkisendurskoðun væri langt komin. Það virðist því vera sem skilaboð sem koma frá skrifstofu forseta séu mjög misvísandi hvað þetta varðar.



[15:17]
Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti kannast nú ekki við það en hitt er rétt að það er kannski ekki alltaf öllum ljóst hvernig reiðir af skýrslubeiðnum þegar nýtt löggjafarþing hefur hafið störf. Í einu tilviki a.m.k. ef ekki tveimur frá síðasta þingi hafa ráðherrar upplýst að þó svo að ekki næðist að dreifa skýrslunni á meðan það þing sæti yrði þeirri vinnu engu að síður lokið og skýrslan kláruð og þá liggur fyrir yfirlýsing um það.

Í tilviki skýrslna sem Ríkisendurskoðun vinnur geta þær átt sér annan uppruna en þann að vera þingmál. Þær geta farið sem beiðni í gegnum forsætisnefnd til Ríkisendurskoðunar og að sjálfsögðu hafa þá skil á milli löggjafarþinga engin áhrif á vinnu Ríkisendurskoðunar. Almennt þekki ég engin fordæmi þess að Ríkisendurskoðun ljúki ekki þeim skýrslum sem hún á annað borð tekur til við að vinna.



[15:18]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil biðjast velvirðingar. Það er búið að vera mikið að gera í þinginu undanfarið og þessi fyrirspurn um úrskurði sýslumanns í umgengnismálum — svar barst í síðustu viku. Það tók rétt tæpa níu mánuði að berast en það barst alla vega. Ég biðst afsökunar á að hafa sagt að það hefði ekki borist. Níu mánuðir eru samt mjög umhugsunarverður tími fyrir svar við fyrirspurn.



[15:18]
Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Það er ein meðganga. En forseti vísar til þess sem hann áður sagði um það sem var upphaf þessarar umræðu. Hann mun kanna afdrif þessarar fyrirspurnar og gera grein fyrir niðurstöðunni af þeirri könnun í upphafi þingfundar í fyrramálið.