149. löggjafarþing — 31. fundur
 14. nóvember 2018.
lækkun krónunnar.

[15:19]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Þriðjudagurinn 13. var vondur dagur. Ekki nóg með að ríkisstjórnarflokkarnir hafi fundið hin breiðu bök öryrkja og aldraðra heldur hrundi blessaða krónan okkar aftur.

En hvað þýðir það þegar krónan fellur? Það þýðir að krónan verður minna virði, rýrari. Í kjólinn fyrir jólin, virðist vera markmið krónunnar, en 15% gengisfelling eins og nú hefur átt sér stað þýðir líka að allar innfluttar vörur hækka í verði um 15%. Um 1/3 af beinum útgjöldum okkar er vegna innfluttra vara og 15% gengisfelling þýðir 4–6% verðbólgu, sem síðan hækkar verðtryggð lán heimilanna.

Nú hefur fjármálaráðherra ítrekað svarað svona vangaveltum þannig að það sé bara ágætt að krónan geti lækkað í verði, krónan sé svo sniðugt hagstjórnartæki.

Gott og vel, gengisfelling getur verið ágæt fyrir stórútgerðina og erlenda ferðamenn en hún er ekki góð fyrir almenning því að hún rýrir pening venjulegra fjölskyldna og færir þá til útgerðarinnar og rútufyrirtækja.

Gengisfelling getur líka verið ágæt fyrir þá sem eiga mikla fjármuni og skulda lítið. Það að fá hækkun vaxta, sem eru bara verð á peningum, og hækkun á verðtryggðum eignum getur hreint út sagt verið happdrættisvinningur fyrir eignafólk í landinu.

Því vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra, sérstaklega í ljósi þess: Hvernig ætlar hann að hækka einungis laun og bætur til öryrkja og aldraðra um rúm 3 prósentustig, eins og fjárlagafrumvarp hans gerir ráð fyrir, á sama tíma og væntanleg verðbólga vegna gengisfellingarinnar hefur nú þegar étið þau 3 prósentustig hans upp með bestu lyst?



[15:21]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér var farið algjörlega samhengislaust út og suður og margar fullyrðingar flugu sem standast ekki skoðun.

Í fyrsta lagi: Í fjárlagafrumvarpinu stóð til að hækka launa- og verðbótaþáttinn upp um 3,4%. Eftir meðferð málsins í fjárlaganefnd hækkar sú tala upp í 3,6%, m.a. vegna þess að verðbólguspáin versnar. Við erum að hækka bætur öryrkja meira, hækka um 3,6% en ekki um 3,4. Þetta er einhver reginmisskilningur hjá hv. þingmanni.

Í öðru lagi: Hvar eru löndin sem hafa notið viðlíka kaupmáttar og Íslendingar hafa séð á undanförnum árum? Ár eftir ár, kaupmáttarvöxtur ofan á kaupmáttarvöxt. Bæði kaupmáttur bóta og launa hefur vaxið á hverju einasta ári, ár eftir ár, undanfarin ár, svo mjög að þingmaðurinn verður í vandræðum með að finna annað land sem annað eins á við. Og það hefur gerst á meðan við höfum haft íslensku krónuna, sem hefur bjargað störfum í landinu, jók í hruninu samkeppnishæfni útflutningsgreinanna, lagði grunninn að stórsókn ferðaþjónustunnar og við stöndum í dag með sterkara hagkerfi en við höfum nokkurn tímann áður séð. Aldrei áður hefur hagkerfið staðið jafn sterkum fótum og á við í dag.

Þingmaðurinn virðist ofan á allt þetta vera fastur í einhverri forneskju um gengismál, að hér hafi gengið verið fellt. Gengið hefur ekki verið fellt, það er frjálst gengi, gengisskráningin er frjáls, ræðst af eftirspurn og framboði. Það er rétt að Ísland var orðið dýrast Evrópuríkja. Hér var verðlag orðið hærra en í Sviss, Noregi og Bandaríkjunum. Það var ekki við öðru að búast en að eitthvað gæfi eftir. Við það vex samkeppnishæfni útflutningsgreinanna sem verða þá í sterkari stöðu til þess að skapa fleiri verðmætaskapandi störf og (Forseti hringir.) halda atvinnustiginu háu — miklu, miklu hærra en í draumalandi þingmannsins, evrulandinu.



[15:23]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Tölum aðeins um öryrkja. Það er fullkomlega óskiljanlegt að ríkisstjórnarflokkarnir skuli taka pólitíska ákvörðun um að öryrkjar af öllum hópum skuli nú taka á sig niðurskurð frá því sem hafði verið boðað. Í fjárlagafrumvarpi þessa ráðherra, sem er einungis tveggja mánaða gamalt, var beinlínis gert ráð fyrir 4 milljarða kr. raunaukningu til öryrkja á næsta ári sem var ekki mikið fyrir og hefði einungis dugað fyrir einum þriðja af því sem kostar að afnema krónu á móti krónu.

Með einu pennastriki í gær verða þessir 4 milljarðar að 2,9 milljörðum. Þetta stendur svart á hvítu í plöggum ráðherrans. Annað er fullkominn útúrsnúningur og blekkingaleikur ráðherrans í anda Yes, Prime Minister-þáttanna.

Herra forseti. Það er fáheyrt að leggja til svona lækkun til öryrkja á milli umræðna um fjárlög og taki einhvern tíma að ljúka við kerfisbreytingar er lítið mál að láta þær gilda afturvirkt. (Forseti hringir.) Er það oft gert, síðast þegar laun þingmanna voru hækkuð.



[15:25]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er ágætt að þingmaðurinn er að átta sig. Hann er að bakka niður í það að minni hækkun verði en áður var áætlað. Það leiðir jú af því að við höfum eyrnamerkt ákveðna fjárhæð, ekki bara á árinu 2019 heldur á öllum gildistíma fjármálaáætlunarinnar, til þess að styrkja bótakerfi öryrkja.

Það er verkefni sem staðið hefur yfir allt frá því að Pétur Blöndal leiddi þá vinnu fram á árið 2016. Hún stóð yfir á síðasta ári og hún stendur enn yfir. Við erum komin mjög langt með að ljúka þeim réttindabótum með kerfisbreytingum sem munu fylgja.

Fjármögnun þessara breytinga er að fullu tryggð á næsta ári frá og með þeim tíma sem líklegt er að breytingin geti tekið gildi. Við þetta hækka bótagreiðslur út úr almannatryggingum til þeirra sem búa við örorku eða fötlun um 5 milljarða. Það eru 5 milljarðar sem fara til að styrkja lífsgæði og réttindastöðu þessa fólks.