149. löggjafarþing — 36. fundur
 22. nóvember 2018.
hækkun til öryrkja.

[10:45]
Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Þau skilaboð sem hafa verið send út í samfélagið upp á síðkastið með nýju fjárlagafrumvarpi hafa líklega ekki farið fram hjá neinum. Þar segir að hækka eigi laun eða afkomu öryrkja um 3,4% og núna með breytingartillögu um 3,6%.

Mig langar að beina fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra sem þess meistara í lögum sem hann er og vísa í 69. gr. almannatryggingalaga þar sem talað er um bætur almannatrygginga. Þar segir í fyrri málslið:

„Bætur almannatrygginga […] skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni.“

Í fyrsta lagi: Hvað þýðir þetta, hæstv. fjármálaráðherra? Þýðir þetta ekki að það er lögbundið samkvæmt 69. gr. að breyta kjörum öryrkja árlega?

Í öðru lagi stendur í síðari málslið:

„Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun …“ — það stendur ekki: má taka mið af eða hugsanlega eða innan gæsalappa, og/eða, eða með kommu, heldur: „Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.“

Nú spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Hvernig eru þessar hækkanir, eða leiðrétting, reiknaðar út? Er verið að fylgja 69. gr. almannatryggingalaga sem kveður skýrt á um það? Það er ekki eins og þessi grein sé innan gæsalappa eða nokkur einasti vafi um það sem kemur þar fram. Mig langar því að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hvað hefur hann um þetta að segja? Og pínulítil spurning: Hvað hækkaði launaþróun í landinu á síðasta ári?



[10:47]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Í fjárlagafrumvarpinu sem var lagt fram í september var gert ráð fyrir því að launa- og verðlagsliðurinn í fjárlagafrumvarpinu yrði 3,4%. Að baki því stóð þá spá um 2,9% verðbólgu og gert var ráð fyrir að á næsta ári myndi kaupmáttur vaxa um 0,5%. Síðan fengum við nýja spá upp á 3,6% verðbólgu og þá kom upp þetta álitamál. Hefur ný spá með hærri verðbólguvæntingum breytt svigrúminu til launabreytinga á næsta ári? Við töldum svarið við því vera neikvætt. Það væri í sjálfu sér ekkert, þrátt fyrir hærri verðbólguspá, sem benti til þess að hægt væri að hækka laun meira á næsta ári í almennum kjarasamningum en áður hafði verið gert ráð fyrir.

Þá grípur inn þetta ákvæði sem hv. þingmaður vísar m.a. til og tryggir ákveðna lágmarkshækkun sem er ávallt a.m.k. verðlagið. Gleymum því þó ekki að það geta komið upp aðstæður í landinu þar sem verðlag hækkar umfram laun. Það gerðist einmitt hér eftir hrunið og þá má segja að þeir sem eru á bótum almannatrygginga hafi ákveðna fallhlíf við slíkar aðstæður, njóti skjóls af þessari reglu. Þeir fengu sem sagt verðbólguhækkunina á bæturnar á meðan laun í landinu voru almennt að lækka.

Það eru til svör úr fjármálaráðuneytinu sem hafa borist skriflega til þingsins oftar en einu sinni um nánari túlkun á þessu tiltekna ákvæði. Þar er verið að vísa til samninga um almennar launahækkanir og þannig hefur greinin verið túlkuð fram til þessa. Ég hlýt að þurfa að vekja athygli á því að fyrir utan þessa 3,6% hækkun sem hér er verið að vísa til er gert ráð fyrir því að við bætist (Forseti hringir.) á næsta ári 2,9 milljarðar samkvæmt fjárlagafrumvarpinu eins og það stendur núna í þinginu. (Forseti hringir.) Þetta samanlagt mun hækka bæturnar um 5,8%, sem sagt langt umfram verðlag.



[10:49]
Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég er nú þekkt fyrir að vera Inga tilfinninga og ég brast næstum því í grát, þetta var svo sorglega lélegt svar. Það var í rauninni farið allt aftur að hruni þegar var þó verið að reyna að fylgja lögunum hvað lýtur að síðari málslið 69. gr. laga þar sem segir að aldrei eigi að hækka bætur minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Staðreyndin er allt önnur í dag, hæstv. fjármálaráðherra.

Í þessari grein segir að taka skuli mið af launaþróun sem mér skilst að sé um 11%. Að blanda saman þessum 2,9 milljörðum sem fara ekki í beina hækkun á kjörum öryrkja er náttúrlega bara — ég veit ekki eiginlega hvaðan hæstv. fjármálaráðherra fær þá hugmynd að gera það. Ég bara skil það ekki. Staðreyndin er einfaldlega sú að það er verið að leiðrétta kjör öryrkja ranglega.

Í lokin, fyrst ég er nú komin hérna í stuð, pínulítil spurning: Veit hæstv. fjármálaráðherra hversu margir tugir þúsunda Íslendinga fá útborguð laun sem eru jafnvel undir 250.000 kr. á mánuði?



[10:51]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé alveg full ástæða til að við ræðum það í þinginu hvernig beri að túlka viðkomandi lagagrein. Það skiptir máli að löggjafarviljinn sé alveg skýr. Það er áralöng venja og hefð á bak við breytingar á réttindum sem byggja á þessari lagagrein. Og þar er horft til þess um hvað var samið í kjarasamningum á viðkomandi ári um almennar hækkanir.

Síðan var spurt hversu margir tækju laun sem eru í kringum 250.000 kr. Nýlega birti Hagstofan mynd sem dró það saman fyrir fullvinnandi á Íslandi. Þar kom fram að um 1% launþega sem eru í fullu starfi eru með 300.000 kr. eða minna, 1%.