149. löggjafarþing — 38. fundur
 26. nóvember 2018.
fasteignaliður í vísitölu.

[15:08]
Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Í skýrslu nefndar um framtíð íslenskrar peningastefnu tekur starfshópur sem gerði skýrsluna þá grundvallarafstöðu, eins og komist var að orði, að húsnæðisverð eigi ekki heima í verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands og það eigi ekki að beita stýrivöxtum gegn fasteignaverði. Þessi afstaða stýrihópsins er ítarlega rökstudd í skýrslunni, m.a. með vísan til þess að á síðustu árum hafi fasteignaliður vísitölunnar hækkað um 15–20%, en á sama tíma hafi mælst 3–5% verðhjöðnun á innfluttum vörum. Þá segir að það sé mikið efamál að svo mikil hækkun á einum vöruflokki, eins og það er orðað, þ.e. húsnæði, sem raun ber vitni, geti talist raunveruleg verðbólga. Af þessum ástæðum og reyndar fleiri sem eru ítarlega raktar í þessari skýrslu, sem við höfðum nú tækifæri til að ræða ítarlega fyrir nokkru, gerir starfshópurinn það að sinni tillögu, sem er númeruð einhvers staðar sem ég finn ekki hérna, hún er einhvers staðar á bilinu 4–6 í þessum margþættu tillögum, að húsnæðisliðurinn verði ekki reiknaður með þegar mörkuð er og framkvæmd stefna Seðlabankans í peningamálum.

Hefur hæstv. ráðherra mótað sér afstöðu til þessarar tillögu? Og telur ráðherra að liður sem geti ekki talist raunveruleg verðbólga eigi erindi inn í mælingu á vísitölu sem er beitt (Forseti hringir.) á lán vegna fasteignakaupa?



[15:11]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það er reyndar áhugavert, það rann upp fyrir mér þegar ég hlýddi á hv. þingmann, að þetta tiltekna atriði kom ekki mikið til umræðu í þeim umræðum sem við áttum á dögunum um skýrsluna um framtíð íslenskrar peningastefnu. Það er því gott að við höfum tækifæri til að ræða þessa tillögu hér.

Nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að rétt sé að taka fasteignaliðinn út úr vísitölunni, og það má segja að gagnrýni nefndarinnar á þetta byggi á tvíþættum rökum, ef ég kann þetta rétt, annars vegar þau almennu sjónarmið að húsnæði sé langtímafjárfesting sem eigi ekki heima í reglubundnum mælingum á neysluvísitölu sem mæla skammtímaneyslu í samfélaginu, en hins vegar gerir nefndin líka allmiklar athugasemdir við það hvernig útreikningum liðarins er háttað og telur að það sé gert með öðrum hætti hér á landi en annars staðar þar sem húsnæðisliðurinn er inni í neysluvísitölu. Svíþjóð er nefnt sem samanburðardæmi í skýrslu nefndarinnar.

Það sem ég hef gert, eins og kom fram að ég tel í máli mínu hér í umræðum á dögunum, er að ég hef sett af stað starfshóp sem er að vinna úr öllum tillögum nefndarinnar. Annars vegar er verkefnið að semja nýtt lagafrumvarp um Seðlabanka Íslands og taka þar inn þær tillögur sem beinlínis lúta að því. Þessi liður heyrir ekki undir sérstaklega þá vinnu, en er hins vegar sömuleiðis í farvegi hjá þessum starfshópi. Ég vænti þess að niðurstöður hans muni liggja fyrir í febrúar. Þá munum við vera komin með nokkuð heildstæða sýn um hvað verði gert í þessum efnum.

Hv. þingmaður spyr um mína afstöðu. Ég ætla bara að vera heiðarleg með það að ég hef óskað eftir því að fá mótrökin við þessu, því að ég tel rétt að við tökum þá ígrunduðu afstöðu til þess, en mér fannst rök nefndarinnar mikilvæg. Ég tel að þau kalli á það að við gefum þessu ígrundaða skoðun.



[15:13]
Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og nota þetta tækifæri til að hvetja hæstv. ráðherra til dáða í þessu efni. Ég vil leyfa mér að lýsa þeirri sannfæringu minni að húsnæðisliðurinna eigi alls ekki heima í vísitölunni og fyrir alla muni á hún ekki heima þar þegar þessi starfshópur hefur rökstutt að þetta sé ekki eiginleg verðbólga heldur til marks um einhvers konar hliðrun á verði.

Ég þakka ráðherra fyrir að víkja að því starfi sem í gangi er varðandi endurskoðun á lögum um Seðlabankann. Í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar er boðað frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands. Þar er svo sem ekki verið að sóa pappírnum því að aðeins er sagt að þar séu ýmsar breytingar.

Ég leyfi mér að spyrja hæstv. ráðherra hvaða markmið hafi verið sett í þá vinnu og hverjar þær breytingar séu helstar sem vænta megi í því frumvarpi.



[15:14]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Í þessari vinnu er horft til þess að fylgja niðurstöðum nefndarinnar, m.a. um sameiningu Fjármálaeftirlits og Seðlabanka að hluta eða heild. Við horfum á það sem verkefni að þetta verði sameining, heildarsameining þessara tveggja stofnana, og það þýðir breytt stjórnskipulag á Seðlabankanum. Það þýðir fjölgun aðstoðarseðlabankastjóra til að hafa eftirlit með ólíkum þáttum því að fjármálaeftirlit og fjármálastöðugleiki verða ríkari þættir í starfi Seðlabankans en áður.

Hvað varðar síðan það sem hv. þingmaður nefndi hér í sinni fyrri fyrirspurn þá tel ég rétt að við fáum tækifæri til að ræða það í þinginu, af því að Seðlabankinn hefur haldið fram öðrum sjónarmiðum þegar kemur að húsnæðislið neysluvísitölunnar og telur að þetta sé svo ríkur þáttur í almennri eyðslu landsmanna að rétt sé að mæla hann með einhverjum hætti. En nefndin, eins og ég sagði áðan, kemst að allt annarri niðurstöðu. Starfshópurinn sem fer með þetta verkefni, endurskoðun laga um Seðlabankann, fer enn fremur með önnur verkefni, endurskoðun (Forseti hringir.) á samningi Seðlabankans og ríkisins um verðbólgumarkmið Seðlabankans og annað slíkt. Þannig að ég vænti þess að við fáum tækifæri til að (Forseti hringir.) ræða þetta hér á þingi eftir áramót.