149. löggjafarþing — 44. fundur
 10. desember 2018.
símenntun og fullorðinsfræðsla.
fsp. GBr, 352. mál. — Þskj. 424.

[16:17]
Fyrirspyrjandi (Guðjón S. Brjánsson) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir að sitja hér fyrir svörum með okkur. Mig langar að beina til hennar spurningu varðandi starfsemi símenntunarmiðstöðva eða fullorðinsfræðslunnar eins og hún er oft nefnd en hún spannar auðvitað miklu meira. Símenntunarmiðstöðvar eru líklega 11 hringinn í kringum landið og misjafnlega er búið að þeim. Forsendur fjárúthlutunar til starfseminnar virðast mjög óljósar. Það er munur á milli þeirra að innri gerð eftir því hvar þær eru í sveit settar, hvort þjónustusvæðið er víðfeðmt — ég nefni Vesturland, Vestfirði og Austurland — eða landfræðilega mjög afmarkað eins og í Vestmannaeyjum og á Suðurnesjum, og það hafa orðið breytingar á samsetningu starfseminnar og breytingar á samsetningu skjólstæðinga á umliðnum árum.

Afþreyingarnámskeið, sem voru svo algeng hér áður fyrr, eru nú horfin en við hafa tekið viðamikil fræðsluverkefni sem gefa ýmisleg réttindi. Ég nefni t.d. að símenntunarmiðstöðvarnar bera hitann og þungann af íslenskukennslu fyrir innflytjendur. Símenntunarmiðstöðvunum er gert mishátt undir höfði, t.d. hvað varðar möguleika til að bjóða fötluðum fræðslu og námskeið. Því það er mikilvægt. Þar virðist hendingin ein ráða. Ein símenntunarmiðstöð fær t.d. þrisvar sinnum hærri upphæð til þessa þáttar en önnur og engin hlutlæg skýring eða rök finnast á málinu.

Herra forseti. Tengslin við atvinnulífið eru mikilvægur þáttur í starfsemi símenntunarmiðstöðva, námskeiðahald og fræðsla, símenntun til starfsmanna fyrirtækja og stofnana. Ég nefni almennt starfsfólk heilbrigðisstofnana og ég nefni, af því að ég þekki dálítið til, Stóriðjuskólann á Grundartanga. Það eru ýmsir þættir sem vekja spurningar. Það eru byggðasjónarmiðin líka. Við erum víða á landsbyggðinni að glíma við lágt menntunarstig og þar kemur fullorðinsfræðslan við sögu og getur skipt sköpum til að byggja brýr yfir í almenna skólakerfið. Ég leyfi mér því að spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða áform eru uppi um stefnumótun í fullorðinsfræðslu og starfsemi símenntunarmiðstöðva og ekki síst á landsbyggðinni? Hvað líður samræmdu reiknilíkani fyrir starfsemina og áformum um að styrkja faglega og rekstrarlega umgjörð hennar?



[16:20]
mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni fyrir að fjalla um símenntun og fullorðinsfræðslu. Þörfin á símenntun og endurmenntun er sífellt að aukast vegna þeirra tæknibreytinga sem eru að eiga sér stað í okkar samfélagi með sjálfvirknivæðingu og öðru slíku. Og svo er það líka þannig að málefni líðandi stundar eru að breytast talsvert mikið, m.a. vegna þeirra breytinga sem eru að eiga sér stað varðandi loftslagsmálin. Samfélög eru að verða sífellt meðvitaðri um það sem er að gerast og þeim sem taka á þessum málum á skilvirkan og uppbyggilegan hátt mun vegna betur er varðar samkeppnishæfni þjóða.

Hv. þingmaður spurði hvaða áform væru uppi um stefnumótun í fullorðinsfræðslu og starfsemi símenntunarstöðva, ekki síst á landsbyggðinni. Þá vil ég nefna að á vegum ráðuneytisins er nú verið að undirbúa frumvarp til laga um nám fullorðinna og undir þá vinnu fellur endurskoðun á lögum um framhaldsfræðslu. Þau lög taka sérstaklega til fullorðinna sem ekki hafa lokið formlegu námi á framhaldsskólastigi og afmarkast við starfsemi sem ekki er skipulögð á grundvelli laga um framhaldsskóla eða háskóla.

Hugtakið fullorðinsfræðsla nær yfir mun stærri hóp. Þessi víðari nálgun er ein meginástæða þess að ákveðið var að hefja vinnu við ný heildarlög um nám fullorðinna og um leið einfalda regluverkið og breyta hugtakarammanum þannig að lögin nái yfir stærra mengi en ella. Þannig getum við enn betur styrkt stoðirnar undir það að allir búi yfir nægilegri grunnfærni til að lifa og starfa og mæta áskorunum dagsins í dag. Ég legg mikla áherslu á það að heyra rödd hagsmunaaðila í þessum málaflokki. Þess vegna skipaði ég 20 manna samráðshóp um nám fullorðinna í byrjun þessa árs og gildir skipunin til fjögurra ára.

Til að fá sem mesta breidd í samráðshópinn var óskað eftir tilnefningum hagsmunaaðila um land allt og voru 40 fulltrúar tilnefndir aðal- og varamenn. Hlutverk samráðshópsins er að vera faglegur vettvangur fyrir nám fullorðinna þar sem hægt er að taka yfir einstök mál, skiptast á skoðunum, veita upplýsingar, skýra mismunandi sjónarmið og finna ýmsum úrlausnarefnum farveg. Fyrsta verkefni hópsins var að rýna lögin um framhaldsfræðslu og koma með tillögur sem nýtast í vinnu við endurskoðun laga um nám fullorðinna.

Virðulegur forseti. Hvað líður samræmdu reiknilíkani fyrir starfsemina og áformum um að styrkja faglega og rekstrarlega umgjörð hennar er um það að segja að símenntunarstöðvar um land allt afla sér fjár til fjölbreytilegrar starfsemi eftir ýmsum leiðum. Framlög til þeirra af fjárlagaliðum ráðuneytisins eru fyrst og fremst í gegnum fræðslusjóð sem úthlutar fé samkvæmt úthlutunarreglum og skilmálum sem stjórn sjóðsins gerir tillögu um og ráðherra staðfestir. Segja má að um ákveðið reiknilíkan sé að ræða. Hins vegar eru símenntunarmiðstöðvar með samning við ráðuneytið um grunnstarfsemi samkvæmt ákvæðum laga um framhaldsfræðslu og eftir atvikum um þjónustu við háskólanema og renna þeir út í árslok 2018. Ákveðið hefur verið að gera viðauka við þá samninga sem framlengir gildistíma þeirra út næsta ár.

Virðulegur forseti. Ég stefni á að færa bein framlög ráðuneytisins til símenntunarstöðva, samkvæmt samningum, yfir í styrkjafyrirkomulag, samanber 42. gr. laga um opinber fjármál og reglugerðar nr. 642/2018 um styrkveitingar ráðherra. Þar er kveðið á um meginreglur við veitingu styrkja og skyldu til að auglýsa lausa styrki til einkaaðila sem sjá um grunnþjónustu og samfélagsleg verkefni eins og símenntunarmiðstöðvar gera að hluta til.

Virðulegur forseti. Samhliða vinnu við breytingu á fyrirkomulagi á styrkjafyrirkomulagi til símenntunarstöðva, samkvæmt lögum um opinber fjármál, vinnur ráðuneytið að þróun deililíkans eða reiknilíkans þar sem m.a. verði settar reglur um hvernig framlög eða styrkir verða auglýst, hvaða skilyrði verða sett og hvaða kröfur verða gerðar til umsækjenda.

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að setja þessi mál á dagskrá þingsins. Þau skipta máli er varðar framvindu málaflokksins og við viljum efla grunnfærni sem flestra á íslenskum vinnumarkaði svo að hægt sé að efla hann.



[16:25]
Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kem bara hér upp til þess að ræða þetta mál og taka undir mikilvægi þess. Það skiptir miklu að góð aðstaða sé til símenntunar og þátttöku í námi um allt land. Ég vil líka þakka hæstv. ráðherra fyrir skýr og greinargóð svör, ég veit að hún hefur mikinn áhuga á að vinna að þessum málefnum.

Fræðslumiðstöðvar um allt land eru að þjónusta atvinnulífið og koma inn á starfstengd námskeið og geta þau verið fjölbreytt í ólíkum landshlutum. Þær hafa líka komið inn á símenntunaráætlun fyrirtækja og sveitarfélaga sem skipta gríðarlega miklu máli. Þess vegna er það mjög mikilvægt að tryggja undirstöður símenntunar um allt land.



[16:26]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að koma þessu máli á dagskrá. Símenntunarmiðstöðvar um allt land skipta gríðarlega miklu máli. Þær hafa hjálpað til við að hækka menntunarstig og auka lífsgæði íbúa. Þær halda utan um prófatöku. Fólk þarf ekki að fara um langan veg til að fara í próf og annað slíkt þannig að klárlega er mjög jákvætt að þær skuli vera til staðar. Ef ég kann söguna rétt þá voru þær settar af stað úti á landi, það var markaðsbrestur og ríkið komi inn í það að reka þær.

Ég velti fyrir mér: Átti að styrkja símenntunarstöðvar hér á höfuðborgarsvæðinu eins og úti um land? Upphaflega var hugsunin önnur. Mig rekur minni til að hugsunin hafi verið önnur í upphafi. Engu að síður er þetta gríðarlega mikilvægt, hækkar menntunarstig. Þær hafa komið að því að framkvæma raunfærnimat sem hefur verið mjög mikilvægt til að auka framboð á fagfólki. Þetta er mikilvægt mál og ég treysti því að ráðherrann fylgi því eftir líkt og hún hefur tjáð sig um hérna.



[16:27]
Una María Óskarsdóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni Brjánssyni fyrirspurnina og þakka enn fremur hæstv. ráðherra svörin. Já, starfsemi símenntunarmiðstöðva er sannarlega mikilvægur grunnur til að viðhalda menntun á landsbyggðinni. Það skiptir sköpum að hringinn í kringum landið geti almenningur sótt sér menntun hvar svo sem fólk er statt á menntabrautinni. Það er einnig mjög brýnt að fólk þurfi ekki að fara um langan veg og við vitum öll að mennt er máttur og grunnur að margvíslegri velferð.

Sérstaklega finnst mér þetta starf mikilvægt fyrir, eins og kom fram áðan, innflytjendur varðandi íslenskunám, fyrir fatlaða og aðra hópa sem e.t.v. eiga erfitt með að fara um langan veg. Hér minntist ráðherrann áðan á að hann væri með í undirbúningi lög um fullorðinsfræðslu. Ég vil fagna því og vil hvetja hann til þess að láta vinna úttekt á starfsemi símenntunarmiðstöðva og styrkja þar með faglega og rekstrarlega umgjörð starfseminnar. Eftir því sem ég best veit þá var slík úttekt síðast gerð 2002.



[16:29]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni Brjánssyni fyrir að vekja máls á þessu þarfa máli. Símenntunarstöðvar eru mjög mikilvægar víða um land og tækifærin eru ekkert síður mikilvæg hér á höfuðborgarsvæðinu. En kannski enn frekar úti á landi þar sem minna er um þessarar grjóthörðu, skulum við segja, menntastofnanir eins og háskóla, þó að háskólasetur séu vissulega á nokkrum stöðum.

Í félagslegu samhengi skiptir þetta miklu máli, límið verður meira í samfélaginu á þeim stöðum þar sem slíkar stöðvar eru og þess vegna er þetta mikilvægt. Ég hef sjálfur verið svo lánsamur að fá tækifæri í nokkur skipti til að kenna á símenntunarstöðvum og þekki því af eigin raun hvað það getur verið skemmtilegt og ekki síst þakklátt að fá að taka þátt í starfsemi þessara stöðva. Það er því afar mikilvægt að við hlúum vel að þeim og búum þannig um hnútana að þær geti áfram fengið að þroskast og dafna.



[16:30]
Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir hv. þingmenn þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu. Ég tek undir mikilvægi símenntunar og fullorðinsfræðslu um land allt. Þá vildi ég minna sérstaklega á þau svæði sem eru flokkuð undir brothættar byggðir, eins og Skaftárhrepp. Þar hafa þau verið að reyna að koma svona stöð á og tryggja starfsemina undir regnhlífinni þekkingarsetur.

Það eru misjöfn nöfn á þessu en þau miða öll að því sama, að reyna að hækka menntunarstig á svæðinu til þess að styrkja byggð og tryggja búsetu á þeim stöðum sem eru lengra frá stjórnsýslunni og öðrum menntastofnunum. Ég tel mikilvægt að hljóð og mynd fari saman hjá stjórnvöldum þannig að eitt ráðuneyti setji ekki af stað verkefnið Brothættar byggðir í gegnum Byggðastofnun og því sé síðan ekki fylgt eftir í öðrum ráðuneytum.



[16:31]
Fyrirspyrjandi (Guðjón S. Brjánsson) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka ágætar upplýsingar frá hæstv. ráðherra. Það er enginn vafi á því að við erum sammála um mikilvægi símenntunarmiðstöðvanna og að sú starfsemi sé í föstum skorðum og sé öflug um allt land. Símenntunarmiðstöðvarnar eru náttúrlega reknar á grunni samfélagslegra markmiða og standa sveitarfélögin, ríkisstofnanir, stéttarfélög eða jafnvel atvinnulífið að þessari starfsemi, fulltrúar nærsamfélagsins. Mér heyrist að þau áform sem uppi eru verði síst til þess að festa í sessi og auka festuna í starfsemi símenntunarmiðstöðva í landinu.

Ég hef upplýsingar um það að stjórnendum hafi borist til eyrna fyrir nokkru upplýsingar um að ráðuneytið sé að undirbúa útboð á samningsskyldum verkefnum símenntunarmiðstöðva og án þess að þær hafi verið hafðar með í ráðum og þar með hafi þeim ekki gefist færi á að ígrunda málið nánar eða bregðast við.

Ég spyr ráðherra: Er það rétt að verið sé að undirbúa útboð á mikilvægum þáttum í símenntun og fullorðinsfræðslu? Og hvaða áhrif mun það hafa á starfsemina að mati ráðherra? Hvernig sér ráðherra fyrir sér í framkvæmd útboð á þessari þjónustu einmitt í tengslum við það sem hv. þm. Vilhjálmur Árnason nefndi, að við þurfum að styrkja þessa þjónustu í brothættum og viðkvæmum byggðum?



[16:33]
mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu, hún er mjög brýn og gagnleg, m.a. vegna þess að brotthvarf af framhaldsskólastiginu er hærra á Íslandi en til að mynda á Norðurlöndunum og víðast hvar annars staðar. Þess vegna er þörfin á endurmenntun eða símenntunarmiðstöðvunum brýnni á Íslandi en ella. Að vísu höfum við verið að ná talsverðum árangri á síðustu árum, við erum að minnka brotthvarfið. Hv. þingmenn hafa nefnt raunfærnimatið. Við erum að taka það þarna inn sem skiptir miklu máli og allt gengur þetta auðvitað út á það að efla fólkið okkar á vinnumarkaðnum og hlúa að því að það nái sér í þekkingu sem skiptir máli og styrkir það.

Hv. þingmaður spurði út í útboðið. Útboðið er náttúrlega í samvinnu eða samræmi við lög um opinber fjármál, 42. gr. Við munum að sjálfsögðu vera í samvinnu við símenntunarmiðstöðvarnar og ef bæta þarf samvinnu eða auka upplýsingagjöf tekur ráðherrann sem hér stendur það til sín. Við munum bæta úr því og mun ég spyrjast fyrir um það í mínu ráðuneyti. Það sem er hins vegar brýnast er að símenntunarmiðstöðvar, og sú endurmenntun sem á sér stað þar, bjóði upp á öflugt nám til þess fallið að auka hæfni á íslenskum vinnumarkaði. Við þurfum líka að hafa það hugfast að það er brýnni þörf á þessari þjónustu á Íslandi vegna þess hvernig brotthvarf hefur verið að þróast hér á landi.