149. löggjafarþing — 46. fundur
 11. desember 2018.
almannatryggingar, frh. 2. umræðu.
frv. SilG o.fl., 12. mál (barnalífeyrir). — Þskj. 12, nál. m. brtt. 621.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[15:47]

[15:41]
Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er mikið réttlætismál sem 1. flutningsmaður, Silja Dögg Gunnarsdóttir, leggur fram og við Framsóknarmenn flykkjumst að baki henni. Frumvarpinu er ætlað að koma til móts við þann hóp barna sem vegna sérstakra aðstæðna nýtur ekki framfærslu tveggja foreldra. Í greinargerð með frumvarpinu er talað um að á Íslandi séu um 900 börn sem hafa misst foreldri. Þá er tekið fram að einstæðir foreldrar geti sótt um barnalífeyri í stað meðlags ef ekki er hægt að feðra barn vegna sérstakra aðstæðna. Frumvarpinu er ætlað að koma til móts við þennan hóp barna og einstæðra foreldra sem ekki geta sótt sérstök framlög til meðlagsskylds foreldris á grundvelli barnalaga.

Ég vil nota tækifærið og þakka hv. velferðarnefnd fyrir samvinnuna um þetta mál sem hefur skilað því að við höfum öll sem eitt fylgt því úr garði hingað í atkvæðagreiðslu.



[15:42]
Hanna Katrín Friðriksson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Mér finnst mikilvægt að koma hérna upp. Klukkan er farin að halla í fjögur og þetta er fyrsta tækifærið sem ég hef til að vera jákvæð í dag þannig að ég ætlaði að lýsa yfir ánægju minni með þetta mál. Ég þakka hv. þingflokki Framsóknarflokksins fyrir að leggja þetta mál fram og lýsi yfir ánægju minni með einhug í velferðarnefnd og þá vinnu sem þar átti sér stað, sem endaði í ákveðinni útvíkkun á málinu þannig að það nær til enn fleiri en upphaflega.

Ég lýsi yfir ánægju minni með að fá að vera á þessu frumvarpi sem áheyrnarfulltrúi í velferðarnefnd og er samþykk því.



[15:43]
Halldóra Mogensen (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Það er til mikilla bóta að þetta mál fái framgöngu á þinginu. Skert réttindi þeirra sem misst hafa maka sína og foreldri barna sinna miðað við þá sem hafa hreinlega ákveðið að slíta samvistum, hafa verið átakanleg. Auðvitað á ríkið að taka þátt í greiðslu á tilfallandi kostnað við barnauppeldi, alveg eins og þeir foreldrar sem greiða meðlag. Í mörgum tilvikum hefur þessi hópur enga aðstoð, ekkert bakland og engan stuðning nema þann sem ríkið veitir. Hér er mál sem allir þingmenn mega vera stoltir af að hafa léð brautargengi. Þetta er gott mál.



[15:43]
Vilhjálmur Árnason (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að þetta frumvarp sé komið til atkvæðagreiðslu og verði að lögum. Það fjallar um hag og velferð barna og þá vil ég sérstaklega nefna þann hóp barna sem misst hefur foreldri sitt. Það er hópur sem taka þarf vel utan um og huga þarf að svo breytingar og inngrip við þann alvarlega atburð að missa foreldri hafi ekki meiri áhrif en þarf. Það mun fylgja þeim alla tíð. Það er margt sem þarf að laga og þetta er einn liður í því, sem ég fagna að þingið taki fyrir. Við höfum verið að laga eitt og eitt atriði og þurfum að halda áfram á þeirri braut, að huga að þessum hópi barna og tryggja velferðarkerfið og stuðninginn við þau sem best við getum.



[15:44]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er sérstakt fagnaðarefni að þetta mál sé komið til atkvæða. Hér er á ferðinni eitt af miklum réttlætismálum. Við bætum hag tiltölulega lítils og afmarkaðs hóps sem orðið hefur fyrir áföllum í lífinu eða á undir högg að sækja af öðrum ástæðum. Það er mikið fagnaðarefni að þingið skuli sýna samstöðu og er ástæða til að fagna því að hv. velferðarnefnd skuli hafa náð fullri samstöðu í þessu góða máli.



[15:45]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þetta er mikið réttlætismál og ég fagna því mjög að þetta mál sé komið í gegn. Það sýnir líka hvað við getum gert ef við sýnum samstöðu, ef við stöndum saman, þá getum við tekið svona mikil réttlætismál og komið þeim í gegn, eins og t.d. þegar við hættum að skatta bílastyrki og aðra styrki. Það eru nokkur mál sem taka þarf á og þetta sýnir að við erum á réttri leið. Við eigum að einbeita okkur að því að taka slík mál fyrir og koma þeim í gegn.



[15:46]
Þórunn Egilsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að við séum komin á þennan stað og að við getum sýnt þá samstöðu að við ætlum að standa saman að þessu mikla réttlætismáli. Hér tökum við utan um lítinn og afmarkaðan hóp sem á undir högg að sækja, börn sem eru í erfiðri og þungri stöðu. Við getum og eigum að halda utan um þann hóp. Ég vil þakka ykkur, ágæti þingheimur, fyrir að taka svona vel í þetta góða mál.



[15:46]
Guðjón S. Brjánsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég fagna þessu frumvarpi. Það er einfalt og skýrt, þetta er réttlætis- og sanngirnismál. Við erum að vinna í samræmi við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þegar við vinnum að því. Við vinnum gegn mismunun barna og það er auðvitað í anda okkar gömlu, góðu stjórnarskrár, sem við viljum þó fyrir alla muni endurnýja og fá nýja. [Hlátur í þingsal.] Þetta er í anda stjórnarskrár sem hafnar mismunun. Vonandi fær það framgang til loka hér í þinginu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



Brtt. í nál. 621 samþ. með 56 shlj. atkv.

 1. gr., svo breytt, samþ. með 56 shlj. atkv.

 2. gr. samþ. með 55 shlj. atkv.

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frumvarpið gengur til 3. umr.