149. löggjafarþing — 48. fundur
 12. desember 2018.
ýmsar aðgerðir í samræmi við forsendur fjárlaga 2019, 2. umræða.
stjfrv., 2. mál (tekjuskattur, persónuafsláttur, barnabætur, vaxtabætur, tryggingagjald). — Þskj. 2, nál. 638 og 653, breytingartillaga 639.

[15:43]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um ýmsar aðgerðir í samræmi við forsendur fjárlaga fyrir árið 2019. Þetta er á þskj. 638.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund fulltrúa frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, ríkisskattstjóra, Samtökum atvinnulífsins, Alþýðusambandi Íslands og Öryrkjabandalagi Íslands, auk þess sem nefndinni bárust umsagnir frá Félagi atvinnurekenda, ríkisskattstjóra, Hagsmunasamtökum heimilanna, Landssambandi eldri borgara, Öryrkjabandalaginu, Samtökum atvinnulífsins, Seðlabanka og Viðskiptaráði Íslands.

Í frumvarpinu er lagt til að breyting á fjárhæðarmörkum efra skattþreps taki mið af breytingum á vísitölu neysluverðs frá upphafi til loka hvers árs en ekki launavísitölu eins og gert er samkvæmt gildandi lögum. Með þessu er ætlunin að samræmi sé á milli uppfærslu persónuafsláttar og skattþreps en persónuafsláttur tekur breytingum miðað við vísitölu neysluverðs samkvæmt gildandi lögum.

Meiri hlutinn telur æskilegt að stuðst sé við samræmda aðferðafræði við breytingu fjárhæðarmarka í tekjuskattskerfinu. Galli breytingartillögu frumvarpsins er hins vegar augljós: Þar sem launavísitalan hækkar nær undantekningarlaust meira en vísitala neysluverðs færast fleiri skattgreiðendur en áður í efra þrep tekjuskattsins vegna þess að fjárhæðarmörk hækka minna samkvæmt neysluverðsvísitölu en launavísitölu. Stöðugt fleiri einstaklingar með millitekjur greiða því tekjuskatt í efra þrepi eftir því sem tíminn líður og að lokum, að öðru óbreyttu, færist nær allt launafólk í efra þrep tekjuskattsins.

Með því að miða breytingu fjárhæðar, hvort heldur persónuafsláttar eða efra þreps tekjuskattsins, við vísitölu neysluverðs en ekki almenna launaþróun, er búið til innbyggt ferli skattahækkana. Hækki persónuafsláttur í takt við verðlag en ekki hækkun launa leiðir það óhjákvæmilega til þess að skattbyrði allra verður þyngri. Þessi innbyggði skattahækkunarferill er þegar til staðar í gildandi lögum. Breytingin sem lögð er til í frumvarpinu við útreikning fjárhæða efra skattþreps felur í raun í sér að komið er fyrir öðru innbyggðu ferli sem leiðir til þyngri skattbyrði, ekki síst á millitekjuhópa.

Hækkun persónuafsláttar um 1% umfram lögbundna hækkun í samræmi við vísitölu neysluverðs er jákvæð og vinnur gegn innbyggðum galla tekjuskattskerfisins.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að lækka tekjuskatt í neðra þrepi til að tryggja farsæla niðurstöðu kjarasamninga. Í fjármálaáætlun 2019–2023, sem samþykkt var á Alþingi í júní sl., kemur fram að unnið sé að heildarendurskoðun á skattkerfinu samhliða endurskoðun bótakerfa. Við endurskoðunina er haft að leiðarljósi að auka sérstaklega ráðstöfunartekjur lágtekjuhópa og þeirra sem eru með lægri millitekjur. Þessi vinna fer fram í samráði við aðila vinnumarkaðarins.

Nefndin hefur verið upplýst um að í fjármála- og efnahagsráðuneytinu sé til athugunar að búa til nýtt viðmið fyrir breytingar á persónuafslætti og fjárhæðarmörkum þrepa samhliða endurskoðun tekjuskattskerfisins sem ekki er lokið. Ekki síst í því ljósi telur meiri hluti rétt að breyting sú sem kveðið er á um í 1. gr. frumvarpsins verði tímabundin og falli úr gildi 31. desember 2019.

Meiri hlutinn undirstrikar mikilvægi þess að við endurskoðun tekjuskattskerfisins sé hugað að því að samræma aðferðafræði um hækkun fjárhæða persónuafsláttar og skattþrepa en um leið að koma í veg fyrir innbyggða sjálfkrafa hækkun á skattbyrði.

Í frumvarpinu eru lagðar til viðbótarhækkanir á tekjuviðmiðum barnabóta umfram forsendur fjármálaáætlunar. Gert er ráð fyrir að árleg tekjumörk einstæðra foreldra hækki úr 2,9 milljónum í 3,6 milljónir eða um 29% á milli ára. Tekjumörk hjá hjónum og sambýlisfólki verða tvöfalt hærri. Jafnframt verða tekjutengdar barnabætur með hverju barni undir 18 ára hækkaðar um 5%.

Í frumvarpinu er hert á tekjuskerðingu barnabóta þegar tilteknu tekjumarki er náð til að tryggja að hækkun barnabóta gangi ekki upp allan tekjuskalann heldur gagnist fyrst og fremst þeim fjölskyldum sem hafa lægri tekjur.

Samkvæmt gildandi lögum er tekjuskerðingarhlutfall barnabóta 4% með einu barni, 6% með tveimur börnum og 8% með þremur börnum eða fleiri þegar tekjurnar fara umfram tekjuskerðingarmörkin. Í frumvarpinu er hins vegar lagt til að tekjuskerðingarhlutföllin hækki þegar tilteknum tekjum er náð, þ.e. 5,5 milljónum hjá einstæðu foreldri og 11 milljónum hjá hjónum og sambýlisfólki, og verði 5,5% með einu barni, 7,5% með tveimur og 9,5% með þremur. Engar breytingar eru lagðar til á skerðingarhlutfalli tekjutengdra barnabóta með börnum yngri en sjö ára sem nú eru 4%, en lagt er til að bótafjárhæðin sjálf hækki á sama hátt og aðrar barnabætur um 5%. Heildarútgjöld ríkisins vegna þessara breytinga eru áætluð 12,1 milljarður á komandi ári sem er hækkun um 1,8 milljarða á milli ára. Þetta er 17,5% hækkun eða um 14% að raungildi.

Skerðingarmörk barnabóta samkvæmt tekjuskattslögum taka mið af þeim fjárhæðum sem þar koma fram, þ.e. án þeirrar þrepaskiptingar sem lögð er til í frumvarpinu. Í umsögn sinni til nefndarinnar benti ríkisskattstjóri á að í samræmi við þá breytingu að skerðingarhlutfallið verði þrepaskipt miðað við tekjur væri nauðsynlegt að skýrt kæmi fram í lagaákvæðinu við hvaða fjárhæðir skyldi miða útreikning á 4% skerðingu viðbótarbarnabóta vegna barna yngri en sjö ára.

Í athugasemdum við 2. gr. frumvarpsins kemur fram að skerðingarhlutfall tekjutengdra barnabóta með börnum yngri en sjö ára verði áfram 4%, óháð tekjum. Nefndin leggur því til að við ákvæðið verði bætt texta þess efnis að skerðingin taki mið af tekjuskattsstofni umfram 7,2 milljónir hjá hjónum og 3,6 milljónir hjá einstæðu foreldri.

Útreikningsreglur vaxtabóta sem tóku gildi í lok árs 2010 áttu að gilda í tvö ár en hafa hins vegar verið framlengdar árlega án breytinga. Enn er unnið að heildarendurskoðun á húsnæðisstuðningi stjórnvalda í samhengi við tekjuskatt, eins og áður gat um, og stuðning við barnafjölskyldur. Í því ljósi er í frumvarpinu lagt til að reglurnar verði framlengdar um eitt ár í viðbót en um leið að nettóeignamörk bótanna hækki um 10% og fjárhæðir hámarksvaxtagjalda og vaxtabóta um 5%. Áætlað er að útgjöld vegna vaxtabóta nemi alls 3,4 milljörðum á komandi ári borið saman við nálægt 3 milljarða á þessu ári. Hækkunin er um 13,3%.

Frá miðju ári 2014 hefur einstaklingum verið veitt tímabundin heimild til að taka út séreignarlífeyri skattfrjálst til að kaupa íbúðarhúsnæði eða greiða inn á veðlán sem hvílir á viðkomandi húsnæði. Á næsta ári fellur niður almenn heimild íbúðareigenda, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, til að nýta skattfrelsi séreignarsparnaðar með þessum hætti. Einstaklingar sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð njóta þess áfram að geta nýtt séreignarsparnaðinn skattfrjálst. Sá stuðningur er varanlegur og gildir í tíu ár fyrir hvern einstakling að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Á þessu ári er áætlað að heildarstuðningur í formi skattleysis séreignarsparnaðar sé um 5,5 milljarðar, þar af 3,5 milljarðar í formi lægri tekna fyrir ríkissjóð og 2 milljarðar fyrir sveitarfélögin í formi lægra útsvars.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lækkun tryggingagjalds sögð forgangsmál. Í samræmi við það er lagt til í frumvarpinu að almennt tryggingagjald verði lækkað um 0,25% 1. janúar nk. og um sömu tölu, 0,25, frá og með 1. janúar 2020.

Gert er ráð fyrir að lækkun tryggingagjalds leiði til þess að tekjur ríkisins lækki um 4 milljarða á næsta ári og samtals um 8 milljarða árið 2020. Meiri hlutinn styður lækkun tryggingagjalds sem styrkir samkeppnishæfni atvinnulífsins og gefur fyrirtækjum aukið svigrúm í komandi kjarasamningum. Þá ber að fagna því að fyrirsjáanleiki sé aukinn með því að binda strax í lög lækkun gjaldsins árið 2020.

Auk þeirra breytinga sem að framan er getið og varða tímabindingu ákvæðis 1. gr. frumvarpsins annars vegar og aukinn skýrleika við útreikning skerðingar barnabóta samkvæmt ábendingum ríkisskattstjóra hins vegar leggur meiri hlutinn til nokkrar breytingar tæknilegs eðlis og þarfnast ekki útskýringa.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingartillögum sem lagðar eru fram á sérstöku þingskjali, nr. 639.

Undir þetta nefndarálit rita sá er hér stendur og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir, Brynjar Níelsson, Ólafur Þór Gunnarsson og Ásgerður K. Gylfadóttir.



[15:55]
Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti 1. minni hluta sem er fulltrúi Samfylkingarinnar í efnahags- og viðskiptanefnd. Fyrsti minni hluti hefur áður bent á, m.a. í öðrum nefndarálitum, að á árunum fyrir efnahagshrunið jókst ójöfnuður hér á landi mikið og mun meira en annars staðar á Vesturlöndum en minnkaði síðan í hruninu. Um þetta er fjallað í bókinni Ójöfnuður á Íslandi sem kom út haustið 2017 eftir þá Stefán Ólafsson og Arnald Sölva Kristjánsson.

Þar kemur fram að 2/3 hlutar aukins ójafnaðar fyrir hrun skýrist af miklum vexti fjármagnstekna á efri hluta tekjustigans. Stærsti hluti þess þriðjungs sem eftir stendur skýrist af breyttri stefnu stjórnvalda í skatta- og bótamálum. Eftir hrun snerist þetta algjörlega við því þá skýrðist vaxandi jöfnuður að 1/3 hluta af stefnu stjórnvalda í skatta- og bótamálum en að 2/3 hlutum af minnkandi fjármagnstekjum. Nú hefur sú þróun sem varð fyrir efnahagshrunið hafist aftur og aðgerðir ríkisstjórnarinnar ýta undir vaxandi ójöfnuð líkt og aðgerðir hinna tveggja ríkisstjórna sem starfað hafa eftir hrun.

Hlutur tekjuhæstu 5% framteljenda var 17,3% árið 1995 en var orðinn 22,6% árið 2017 samkvæmt gögnum ríkisskattstjóra. Hlutur tekjuhæsta eina prósentsins var 5,2% 1995 en er nú kominn í 9,4%. Á sama tíma fór hlutur hinna 95%, alls þorra almennings, úr 82,7% niður í 77,4%. Þessa tölur sýna mjög vel, herra forseti, að hér er vaxandi ójöfnuður.

Stjórnvöld búa yfir stýritækjum sem geta í senn mildað og magnað ójöfnuðinn í skiptingu tekna og eigna í samfélaginu. Spurningin er aðeins hvort eða hvernig þau beita þeim stýritækjum. Ljóst er að stefna ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er að ekki eigi að beita stýritækjum til að auka jöfnuð á árinu 2019 svo nokkru nemi og 1. minni hluti telur það miklar ýkjur, svo ekki sé meira sagt, hjá talsmönnum stjórnarflokkanna í fjárlaganefnd að leiðarstefið í fjárlögum sé jöfnuður.

Miðstjórn ASÍ hefur bent á að rannsókn hagdeildar ASÍ á skattbyrði sýni að skattbyrði launafólks sl. 20 ár hafi aukist og þeim mun meira eftir því sem tekjurnar eru lægri. Í ljósi stöðunnar á vinnumarkaði er það grafalvarlegt að stjórnvöld skuli ekki sýna því skilning að nauðsynlegt sé að bregðast við ákalli verkalýðshreyfingarinnar um breytingar á húsnæðisstuðningi og að skattkerfið verði nýtt til jöfnunar ásamt því að efla barna- og vaxtabótakerfin.

Hinn 30. nóvember sl. sendi miðstjórn Alþýðusambands Íslands frá sér eftirfarandi áskorun til stjórnvalda, með leyfi forseta:

„Alþýðusamband Íslands skorar á stjórnvöld að hraða allri vinnu er lýtur að kröfum verkalýðshreyfingarinnar í komandi kjaraviðræðum. Ef aðgerða- og skilningsleysið sem hefur einkennt viðbrögð stjórnvalda heldur áfram er ljóst að erfitt mun reynast fyrir aðila vinnumarkaðarins að ganga frá nýjum kjarasamningi. Það er aðeins rétt rúmur mánuður þangað til kjarasamningar renna út. Stjórnvöld hafa ekki lagt neitt handfast fram til lausnar þeim gríðarlega vanda sem blasir við í húsnæðismálum. Þá vantar tillögur í skattamálum sem eru þó lykillinn að kröfum um aukinn jöfnuð.

Það hefur verið ljóst árum saman að gera þarf þjóðarátak í húsnæðismálum. Fjöldi fólks er fastur í viðjum okurleigu, húsnæðisóöryggis, það getur ekki keypt og margir búa við óviðunandi aðstæður. Þessi staða er m.a. til komin vegna aðgerðaleysis stjórnvalda og sveitarstjórna og hefur verkalýðshreyfingin þó í langan tíma bent á vandann. Það er orðið sjálfstætt úrlausnarefni að laga húsnæðismarkaðinn, enda liggur fyrir að þær kjarabætur sem samið hefur verið um síðustu ár hafa brunnið upp á báli húsnæðiskostnaðar. Það þarf róttækar breytingar á kerfinu þannig að hagsmunir launafólks og heimila verði teknir fram yfir hagsmuni fjármagnseigenda. Breyting á skattkerfinu er mikilvægur áfangi á þeirri vegferð að vinda ofan af þeirri stóru skattatilfærslu sem orðið hefur síðustu ár þar sem láglaunahópar hafa verið látnir borga reikninginn fyrir ríkasta hluta þjóðarinnar. Hér þarf breytta forgangsröð. Það er kominn tími til að hagsmunir lág- og millitekjufólks verði hafðir að leiðarljósi með breytingum á skattkerfinu og hækkun á barna- og vaxtabótakerfinu.“

Forseti. Skattstefna stjórnvalda segir til um hvernig þau vilja búa að almenningi og hvernig stjórnvöld vilja sjá samfélagið þróast. Jöfnunarhlutverk skattkerfisins og áhrif þess á eignamyndun og tekjudreifingu eru ekki síður mikilvæg en tekjuöflunarhlutverk þess. Franski hagfræðingurinn Thomas Piketty er sama sinnis og leggur til í metsölubók sinni, sem kom út árið 2014, að komið verði á þrepaskiptum fjármagnsskatti til að auka jöfnuð í heiminum. Hann telur að skattkerfið sé langáhrifamesta tæki samfélagsins til að ná því markmiði að jafna kjör fólks.

OECD, Efnahags- og framfarastofnunin, birti í desember 2014 skýrslu þar sem vitnað er til rannsókna sem sýna að aukinn ójöfnuður dregur úr hagvexti. Þær rannsóknir og fleiri virtar rannsóknir sýna að meiri jöfnuður leiðir til sanngjarnari samfélaga og styrkir hagkerfi og hagsæld.

Ójöfnuður, hvort sem litið er til tekna eða eigna, er að aukast hér á landi. Ef stjórnvöld vilja jafna leikinn til að auka samfélagslegt traust þarf að beita bæði skatt- og bótakerfinu.

Helsta niðurstaða skýrslu frá norrænu ráðherranefndinni, sem kom út í apríl sl., er að vaxandi ójöfnuð á Norðurlöndum megi skýra með því að bætur hafi ekki hækkað í takt við laun undanfarin ár. Ef stjórnvöld vilja vinna að auknum jöfnuði ættu þau að taka á þessu og sjá til þess að velferðarþjónusta verði gjaldfrjáls eða í boði fyrir mjög vægt gjald.

Skattkerfisbreytingar sem stuðluðu að auknum jöfnuði hér á landi væru fleiri skattþrep, hærri persónuafsláttur, þrepaskiptur fjármagnstekjuskattur og stóreignaskattur á umtalsverðar eignir umfram íbúðarhúsnæði fólks ásamt auknu vægi barnabóta og húsnæðisbóta. Ef ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ætlar að draga úr ójöfnuði og hafa jöfnuð sem leiðarstef í ákvörðunum sínum verður að leggja áherslu á jöfnunarhlutverk skattkerfisins, lyfta því þaki sem sett hefur verið á barnabætur í fimm ára fjármálaáætlun ríkisins og auka húsnæðisbætur til mikilla muna. En þetta er ekki gert, herra forseti.

Breytingar síðustu ára hér á landi á barna- og húsnæðisbótum, virðisaukaskatti og tekjuskatti ásamt afnámi auðlegðarskatts hafa allar haft neikvæð áhrif á jöfnuð. Niðurstöður alþjóðlegra rannsókna sem sýna neikvæð áhrif ójöfnuðar á samfélög ásamt íslenskum og erlendum greiningum sem sýna skýr áhrif tekjujöfnunaraðgerða ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, ættu að vera stjórnarmeirihlutanum næg rök fyrir því að hverfa frá stefnu ójöfnuðar síðastliðinna ára og til að forðast að róa aftur á mið vaxandi misskiptingar.

Löngu tímabært er að endurskoða skattalöggjöfina og þar verður að líta bæði til tekjuöflunarhlutverksins og tekjujöfnunarhlutverksins. Einstökum greinum hefur margoft verið breytt frá gildistöku laganna um tekjuskatt, nr. 90/2003. Sem dæmi má nefna að með frumvarpinu um ýmsar aðgerðir í samræmi við forsendur fjárlaga fyrir árið 2019, sem við ræðum hér, er bráðabirgðaákvæði númer 58 bætt við lögin.

Fyrsta gr. frumvarpsins er um fjárhæðarmörk milli neðra og efra þreps tekjuskattsstofns og að þau breytist í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs. Það er jákvætt að sama viðmið sé þegar persónuafslætti og fjárhæðarmörkum þrepa er breytt en skynsamlegra hefði verið að breytingin fylgdi launavísitölu í stað neysluvísitölu og það sama gilti um barna- og vaxtabætur.

Það er sannarlega jákvætt að barnabætur eigi ekki að skerðast við upphæð sem er langt undir lágmarkslaunum. 1. minni hluti vill þó minna á að einungis eru nokkrir mánuðir síðan að ríkisstjórnarflokkarnir felldu tillögu frá Samfylkingunni um einmitt slíkt. Á hinn bóginn aukast skerðingar hjá millitekjuhópum við breytingarnar. Barnabótakerfið hefur markvisst verið veikt undanfarin ár og þúsundir barnafjölskyldna hafa dottið út úr kerfinu. Ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn leggur nú til að á árinu 2019 fái fólk undir miðgildislaunum engar barnabætur. Þær byrji að skerðast á neðsta tekjufjórðungi. Skerðingarhlutföllin hafa verið allt of grimm og verða nú enn grimmari verði frumvarpið að lögum. Fyrirmynd ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur virðist vera tillögur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um fátækrastyrk til barnafjölskyldna í stað þess að líta til hinna norrænu ríkjanna um barnabætur til að jafna stöðu barnafólks við hina sem ekki eru með börn á framfæri. Barnabætur hafa á liðnum árum rýrnað mikið að raunvirði. Eftir hækkunina nú eru útgjöld til barnabóta svipuð á raunvirði og á árinu 2013.

Í heild hefur húsnæðisstuðningur í gegnum vaxtabótakerfið rýrnað að raungildi um ríflega 70% frá árinu 2013 og heimilum sem fengu vaxtabætur fækkað um tæplega 19.000 milli áranna 2013 og 2017. Þá hafa bótafjárhæðir verið óbreyttar frá árinu 2010 en gert er ráð fyrir 5% hækkun þeirra samkvæmt frumvarpinu og til samanburðar má nefna að verðlag hefur frá árinu 2010 hækkað um 25% og launavísitala um ríflega 76%. Þetta gerir það að verkum að kerfið styður við sífellt færri heimili. Tekjulágt barnafólk sem á lítið eigið fé í húsnæði sínu fær nú lítinn sem engan stuðning í gegnum vaxtabótakerfið. Ríkisstjórnin segir ástæðu þess að vaxtabótakerfinu hefur verið haldið óbreyttu í nær áratug sé að fyrirhugaðar séu breytingar á kerfinu. Þessi rök eru aum og halda ekki vatni. Á meðan beðið er eftir endurskoðun vex vandi fólks á húsnæðismarkaði ár frá ári. Fleiri og fleiri fá engar vaxtabætur. Stærri hluti tekna fólks fer í vaxtagreiðslur og étur upp launahækkanir og því ástandi vill hæstv. ríkisstjórn og þeir þingmenn sem hana styðja viðhalda á árinu 2019.

Með breytingu á persónuafslættinum fá allir skattgreiðendur um 500 kr. á mánuði aukalega í ráðstöfunartekjur. Aðgerðin kostar ríkissjóð 2,2 milljarða kr. Til samanburðar lækka veiðigjöld um rúma 4 milljarða á milli ára sem stórútgerðin í landinu nýtur að stærstum hluta. Forgangsröðun ríkisstjórnarinnar er skýr hvað þetta varðar.

Boðaðar eru breytingar á skattkerfinu sem kynntar verða í lok þessa árs. Aðeins eru nokkrir dagar eftir af þessu ári og þingfundi sem eftir eru má telja á fingrum annarrar handar. Ef breyta á skattkerfinu fyrir árið 2019 þarf að samþykkja þá lagabreytingu og aukafjárlög í kjölfarið. 1. minni hluti telur vinnubrögð, seinagang og úrræðaleysi ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans ámælisverðan.

Að lokum þetta, forseti. 1. minni hluti styður lækkun tryggingagjalds og tekur undir með meiri hlutanum að sú aðgerð styrki samkeppnishæfni atvinnulífsins og gefi fyrirtækjum aukið svigrúm í komandi kjarasamningum.

Herra forseti. Þetta er nefndarálit frá þeirri sem hér stendur sem er fulltrúi Samfylkingarinnar í efnahags- og viðskiptanefnd. Það má augljóst vera af því áliti að Samfylkingin styður ekki þetta frumvarp og gagnrýnir ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur harðlega og stjórnarmeirihlutann fyrir að grípa ekki til þeirra tækja sem ríkið hefur yfir að ráða í skattkerfinu og bótakerfinu til að auka jöfnuð hér á landi. Ójöfnuður fer vaxandi, það sýna allar tölur. Við erum að róa nákvæmlega sömu mið og gert var hér fyrir hrun. Brennt barn ætti að forðast eldinn og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ætti að vita betur nema það sé hreinlega stefnan að breikka bilið á milli þeirra sem eru sárafátækir og þeirra sem eiga stærsta hlutann af Íslandi.



[16:10]
Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Við fjöllum um frumvarp til laga um ýmsar aðgerðir í samræmi við forsendur fjárlaga fyrir árið 2019. Ég ætla að byrja á að koma aðeins inn á séreignarsparnaðarúrræðið.

Eins og fram kemur í nefndaráliti verður sú heimild að greiða inn á veðlán sem hvílir á húsnæði og við kaup á íbúðarhúsnæði felld niður á næsta ári og þar með það skattfrelsi sem heimilt hefur verið að nota hvað varðar séreignarsparnað með þessum hætti. Ég hef áður komið inn á þetta mál í tengslum við fjárlagaumræðuna. Ég held að rétt sé að fara aðeins nánar út í að hér er og hefur verið um mjög mikilvægt úrræði að ræða sem ríkisstjórnin hefur núna ákveðið að fella niður, þvert á ráðleggingar starfshóps sem skipaður var um þessi mál um mitt ár 2017.

Eins og við þekkjum er það árangursrík leið til eignamyndunar að greiða niður skuldir fyrir þá sem það geta. Stjórnvöld eiga á hverjum tíma að leitast við að skapa aðstæður sem hvetja íbúðareigendur til að greiða niður skuldir eins og kostur er. Með því að greiða inn á íbúðalán með viðbótarlífeyrissparnaði nýtur viðkomandi skattafsláttar og mótframlags launagreiðanda, auk þess sem innborgunin lækkar heildarvaxtagreiðslur og verðbætur. Hér er því um mikilvægt úrræði að ræða sem felur í sér skattfrjálsa ráðstöfun séreignarsparnaðar til íbúðarkaupa og inn á höfuðstól húsnæðislána.

Samkvæmt upplýsingum frá lífeyrissjóðum hefur þetta úrræði verið töluvert notað og hafa rúmlega 6.500 einstaklingar sótt um úrræði vegna kaupa á fyrstu íbúð, en í október síðastliðnum var greitt inn á lán hjá tæplega 3.000 einstaklingum og í sama mánuði bárust rúmlega 400 umsóknir. Þetta er samkvæmt nýjustu upplýsingum frá ríkisskattstjóra þannig að hér er úrræði sem er greinilega töluvert mikið notað.

Hvað íbúðarkaup varðar hafa þeir sem hafa nýtt sér þetta úrræði getað fengið séreignina útborgaða skattfrjálst upp í kaup á íbúð, eins og fram kemur. Inn á höfuðstól húsnæðislána hefur verið heimilt að greiða allt að 4% framlag launþega og 2% framlag launagreiðanda, að hámarki 500.000 kr. á ári fyrir einstakling en 750.000 kr. á ári fyrir hjón eða aðra sem uppfylla skilyrði til samsköttunar. Við þekkjum það öll að verð á fasteignum hér á landi hefur hækkað verulega á undanförnum árum og framboð íbúða annar engan veginn eftirspurninni. Flestir undirliggjandi þættir vísa til þess að fasteignaverð, sem núna er í hæstu hæðum, lækki ekki í bráð svo neinu nemur. Þrátt fyrir það hefur ríkisstjórnin ákveðið að falla frá þessari mikilvægu heimild til að nýta séreignarsparnaðinn til íbúðarkaupa og niðurgreiðslu lána. Sú heimild fellur niður um mitt næsta ár, eins og ég hef nefnt og komið hefur fram.

Ég tel að hér sé um mjög óskynsamlega ráðstöfun að ræða af hálfu ríkisstjórnarinnar og mun það auk þess draga úr uppsöfnun séreignarsparnaðar í stað þess að auka heimildir hvað þetta sparnaðarform varðar. Eins og ég sagði áðan skipaði forsætisráðherra starfshóp í júní 2017 til að fara yfir hlutverk lífeyrissjóða í uppbyggingu atvinnulífs. Sá hópur lagði einmitt áherslu á að auka svigrúm til séreignar- og húsnæðissparnaðar. Starfshópurinn skilaði vandaðri skýrslu í byrjun þessa árs. Hann leggur til, að því gefnu að lágmarksiðgjald í lífeyrissjóð verði hækkað úr 12% af launum í 15,5%, að stjórnvöld skoði í samráði við hagsmunaaðila að lögum verði breytt þannig að einstaklingar fái auknar heimildir til að ráðstafa viðbótarlífeyrissparnaði til húsnæðissparnaðar og jafnframt að sjóðfélagar geti ráðstafað 3,5% af 15,5% lágmarksiðgjaldi í séreign eða til húsnæðissparnaðar að eigin vali. Eins að tryggður verði sveigjanleiki sjóðfélaga til að nýta séreignarsparnaðinn til að greiða inn á húsnæðislán og/eða við íbúðarkaup. Með útreikningum hefur verið sýnt fram á að einstaklingar sem leggja til 15,5% af launum í lífeyrissjóð alla starfsævina munu safna upp tiltölulega góðum eftirlaunaréttindum. Með viðbótarlífeyrissparnaði geta eftirlaun jafnvel orðið meiri en atvinnutekjur. Starfshópurinn leggur því til að stjórnvöld skoði það að auka heimildir til séreignarsparnaðar og nýta launatengdan lífeyrissparnað til húsnæðissparnaðar.

Hér gengur sem sagt ríkisstjórnin þvert á ráðleggingar starfshópsins. Ekki verður því annað séð en að ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að fella úr gildi þetta almenna úrræði um úttekt iðgjalda séreignarsparnaðar til kaupa á íbúð eða að greiða niður í húsnæðislán gangi þvert á þessar tillögur. Það eru mikil vonbrigði, herra forseti.

Miðflokkurinn flutti breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið þess efnis að þetta heimildarákvæði til nýtingar séreignarsparnaðarins yrði áfram við lýði, það yrði sem sagt framlengt þegar það rennur út um mitt næsta ár. En því miður var sú tillaga felld hér í atkvæðagreiðslu af stjórnarflokkunum.

Herra forseti. Næst vil ég aðeins víkja að húsnæðismálunum og vaxtabótunum. Ekki verður séð að ríkið taki á húsnæðisvandanum með raunhæfum lausnum. Sá húsnæðisstuðningur sem ríkisstjórnin leggur upp með styður að mestu leyti við eftirspurnarhlið íbúðamarkaðarins. Reynsla síðustu ára ber augljóslega með sér að sú aðferð nær ekki tilætluðum árangri. Stuðningur við eftirspurnarhliðina hækkar verð og ýtir undir sveiflur. Auka þarf húsnæðisframboðið og það mun síðan leiða til lækkunar á húsnæðisverði.

Gríðarlegar hækkanir á húsnæðisverði á síðustu árum eru fyrst og fremst komnar til vegna skorts á húsnæði. Við þekkjum það að lítið framboð þýðir einfaldlega hærra verð og íbúðum mun ekki fjölga þó að ríkisstjórnin setji meiri peninga í vaxtabætur. Ráðast þarf gegn rótum vandans, sem er skortur á íbúðarhúsnæði á markaði. Og nóg framboð þýðir lægra verð. Brýnt er að ráðast í aðgerðir til að lækka byggingarkostnað. Lækkun byggingarkostnaðar skapar aukinn hvata til að byggja. Þannig eykst framboðið og verðið tekur að lækka. En það verður að segjast eins og er að skipulagsferlið í þessum málum er allt of svifaseint og tefur fyrir framkvæmdum. Einfalda þarf regluverkið í byggingariðnaði. Það er allt of flókið og gerðar eru allt of ríkar kröfur í þessum efnum, auk þess sem stofnanaumhverfið í þessum málaflokki er að mínum dómi óskilvirkt.

Samræma þarf reglur um lóðaúthlutanir og ríkisvaldið þarf að styðja sveitarfélögin í því að drífa þetta ferli áfram, stytta byggingartímann, hugsanlega fara í aðrar byggingaraðferðir, eins og einingahús, hvort heldur úr timbri eða steinsteypu, þannig að uppsetningin verði hröð og einföld. Í frumvarpinu kemur fram að hækka eigi vaxtabætur milli ára um 13% og að 3,4 milljarðar verði settir í þennan málaflokk. Engu að síður er hér um sögulega lága upphæð að ræða og hefur hin mikla hækkun á húsnæðisverði undanfarin ár einfaldlega étið upp þessar vaxtabætur. Einn helsti skerðingarþáttur vaxtabóta er, eins og við þekkjum, hækkun á verðmæti eignar. Þarna hafa líka aðrir þættir áhrif, eins og hækkun launa og fjármagnstekjur.

Frá árinu 2010 hafa vaxtabætur lækkað um rúma 8 milljarða kr. og þeim fjölskyldum sem eiga rétt á þessum bótum hefur fækkað um rúm 30.000. Það er sem sagt búið að taka vaxtabæturnar af miklum fjölda fólks og því er ekki um raunverulegt peningasjóðsstreymi að ræða í boðaðri hækkun bótanna. Bótagreiðslur til húsnæðiseigenda hafa því hríðlækkað á sama tíma og skattar á húseigendur hafa hækkað umtalsvert.

Það sem skiptir höfuðmáli í þessu eru skerðingarmörkin, hvenær vaxtabæturnar byrja að skerðast. Skerðingar- og niðurfellingarmörk vaxtabótanna hafa engan veginn fylgt verðlagi. Auk þess hafa hámarksgreiðslur vaxtabóta nánast haldist þær sömu síðan 2011. Árið 2009 fengu 69% einhleypra fasteignaeigenda vaxtabætur, en árið 2017 var sú tala komin niður í 28%, sem sagt úr 69% niður í 28% á sex árum. Því verður að breyta skerðingar- og niðurfellingarmörkum vaxtabóta.

Ekki er að sjá að það eigi að gera svo neinu nemur í þessu frumvarpi. Reiknireglur vaxtabótanna haldast svo til óbreyttar áfram. Viðmiðunarstærðir vaxtagjalda og hámarksvaxtabóta hækka um 5% og nettóeigna um 10% frá yfirstandandi ári. Ef reglunum verður ekki breytt er þessi boðaða hækkun á vaxtabótunum tilgangslaus, það er bara þannig. Kerfið þjónar ekki tilgangi sínum í dag og það er einfaldlega slæm ráðstöfun að bæta peningum í slíkt kerfi. Vaxtabótakerfið eins og það er í dag gerir ekki ráð fyrir hærra húsnæðisverði og hærri vaxtagjöldum. Slíkt kerfi er í raun og veru gagnslaust, einkum og sér í lagi í þeim aðstæðum sem núna eru á húsnæðismarkaðnum og hafa verið á undanförnum árum. Það sýnir kannski hversu meingallað þetta kerfi er að í frumvarpi til laga um fjárauka fyrir 2018 er endurmat vaxtabóta 1 milljarður kr., þ.e. 1 milljarður kr. gekk ekki út á þessu ári í vaxtabætur. Það er einfaldlega vegna þess að kerfið er með þeim hætti að skerðingar hafa þau áhrif að færri og færri fá þessar bætur. Það kristallast mjög vel í fjáraukalögunum. Gleymum því ekki í þessari umræðu að Ísland er með mestu hækkun húsnæðisverðs í heiminum, 70% á síðastliðnum fimm árum hér á höfuðborgarsvæðinu. Í því sambandi er rétt að hafa í huga að Íbúðalánasjóður hefur bent á að vaxtabætur nái vart því hlutverki að stuðla að húsnæðisöryggi landsmanna miðað við núverandi aðstæður. Það er því ljóst að útgjöld ríkisins í þennan málaflokk með þessum hætti eru ekki ávísun á árangur.

Færa má rök fyrir því að árangurinn gæti jafnvel versnað á meðan framboðið á húsnæði eykst ekki. Hækkun á vaxtabótum gæti þannig leitt til hækkana á húsnæðisverði. Miðflokkurinn er þeirrar skoðunar og telur brýnt að ráðist verði í allsherjarendurskoðun á vaxtabótakerfinu. Það sýnir glögglega sú neikvæða þróun sem átt hefur sér stað í þessu kerfi á undanförnum árum og ég hef rakið hér.

Vaxtabótakerfið hefur auk þess tilhneigingu til að hækka vaxtastigið þar sem í því felst niðurgreiðsla á fjármagnskostnaði. Auk þess er það þekkt að bæturnar skapa hvata til skuldsetningar. Því þarf að skoða vandlega hvort ekki sé árangursríkara að falla frá þessu kerfi í núverandi mynd og lækka í stað þess skattbyrði með öðrum hætti.

Núverandi kerfi styður við eftirspurnarhliðina, eins og ég nefndi, og er til þess fallið að hækka fasteignaverðið og vaxtabætur, og þær ráðstafanir sem stjórnvöld leggja til fjölga ekki íbúðum á markaði. Ég hef rakið það hér og við sjáum það glögglega. Því er mjög nauðsynlegt að styðja markvisst við framboðshliðina. Bæði sænskar og bandarískar rannsóknir hafa sýnt að með því að styðja við framboðshliðina, þ.e. hafa hvata til að fjölga húsbyggingum, myndi húsnæðisverðið lækka, íbúðaeigendum fjölga og skuldir íbúðareigenda lækka.

Yrði sú leið farin hér á landi, sem Miðflokkurinn telur fulla ástæðu til að skoða, yrði núverandi vaxtabótakerfi lagt niður. En það er til mikils að vinna að skoða nýja leið þegar kemur að húsnæðisstuðningi þar sem núverandi kerfi leysir engan veginn þann stóra húsnæðisvanda sem er á Íslandi. Ríkisstjórnin verður að sýna frumkvæði og djörfung í húsnæðismálunum og koma með nýjar lausnir. Þetta er eitt stærsta úrlausnarefnið sem við stöndum frammi fyrir, en því miður hefur ríkisstjórnin verið verklítil í þessum málaflokki hvað þetta varðar. Hún kemur ekki fram með neinar hugmyndir eða lausnir, viðheldur einungis vaxtabótakerfi sem viðheldur síðan vandanum.

Herra forseti. Ég vil að lokum koma aðeins inn á tryggingagjaldið. Skattheimta á íslensk fyrirtæki er há í alþjóðlegum samanburði og ein sú hæsta á Norðurlöndum, á eftir Noregi. Skattar á fyrirtæki voru hækkaðir eftir efnahagshrunið 2008 í þeirri viðleitni að loka fjárlagagatinu, en skattbreytingar hafa hins vegar fest í sessi síðan. Mikil tregða hefur verið hjá ríkisvaldinu að lækka tryggingagjaldið. Þetta er einn stærsti tekjustofn ríkissjóðs, en samkvæmt fjárlagafrumvarpinu á það að skila um 14,4% af skatttekjum ríkissjóðs á næsta ári. Miðflokkurinn lýsir vonbrigðum sínum með að í fjárlagafrumvarpinu skuli ekki vera gert ráð fyrir meiri lækkun tryggingagjaldsins en raun ber vitni. Þetta háa tryggingagjald kemur verst niður á fyrirtæki þar sem laun og launatengd gjöld eru stór hluti kostnaðar og við þekkjum það að hátt tryggingagjald veikir samkeppnishæfni þessara mikilvægu fyrirtækja. Bætt samkeppnishæfni Íslands er mjög mikilvæg núna þegar hægir hratt á efnahagslífinu.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er sérstaklega lögð áhersla á lækkun tryggingagjaldsins en hún er hins vegar ekki nægileg að mati Miðflokksins og Samtök iðnaðarins hafa auk þess ályktað í þá veru. Það er afar mikilvægt að rekstrargrunnur fyrirtækjanna verði styrktur í aðdraganda þessara kjaraviðræðna sem fram undan eru og verða örugglega erfiðar. Þess vegna hefði meiri lækkun tryggingagjaldsins verið skynsamleg að mati okkar í Miðflokknum. Eigi lækkunin að þjóna þeim tilgangi að stuðla að jafnvægi á vinnumarkaði og að launahækkanir á næsta ári leiði síður til verðbólgu hefði átt að lækka gjaldið meira. Því hærri sem tryggingagjaldsprósentan er er hver starfsmaður dýrari fyrir fyrirtækin þannig að þá getur viðkomandi fyrirtæki ekki staðið undir miklum launahækkunum. Svo dregur gjaldið úr getu fyrirtækja til að fjárfesta og búa til störf. Vaxtarmöguleikar fyrirtækja eru því hindraðir, eins og við þekkjum, með háu tryggingagjaldi.

Miðflokkurinn flutti breytingartillögu við frumvarp til fjárlaga um að tryggingagjaldið myndi lækka um 0,5% á næsta ári í stað 0,25% en því miður fór það svo að sú tillaga var felld. Það er mjög skynsamlegt, eins og ég sagði áður, að styrkja rekstrargrundvöll fyrirtækjanna í aðdraganda þess sem fram undan er. Það eru vonbrigði að ríkisstjórnin skuli ekki hafa lækkað þetta gjald meira.

Herra forseti. Að lokum verð ég að segja að Miðflokkurinn sér sér ekki fært að styðja þetta frumvarp.



[16:30]
Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Hér erum við að ræða eitt mikilvægasta plaggið sem er til umfjöllunar á hverju þing, þ.e. tekjuhlið fjárlaganna. Nú er nýbúið að samþykkja fjárlög, önnur fjárlög núverandi ríkisstjórnar, en þau fyrstu voru sem kunnugt afgreidd á miklum hlaupum og ríkisstjórnin skýldi sér að hluta til á bak við það og sagði að hv. þingmenn skyldu bara bíða og sjá hvort ekki kæmi á daginn meiri sókn.

Að mati Samfylkingarinnar hefði þurft að ráðast í miklu meiri fjárfestingar í bæði heilbrigðis- og menntakerfinu og samgöngumálum, sem er reyndar hugmynd að bæta úr með einhverjum veggjaldahugmyndum sem eru enn óræddar. En við þurfum fyrst og fremst að spýta meira í og leggja meira fé í skólana okkar, í menntun, í nýsköpun, í vísindi, í alla þá þætti sem eru nauðsynlegir til að bregðast við þeirri gríðarlega breyttu framtíð sem við munum þurfa að horfast í augu við á næstu árum. Ekkert af því er gert. Vinstri græn klóra sig reyndar út úr vandanum með því að segja með óljósum hætti að þau trúi ekki á stórar kerfisbreytingar til langs tíma nema um þær séu mjög víðtæk sátt.

Hvað felst svo í þeirri sátt, herra forseti? Jú, að sætta sig við skattstefnu Sjálfstæðisflokksins. Í hugmyndum manna um samneysluna, um skattkerfið, birtist í rauninni með skýrustum hætti skoðun flokka á samfélaginu og viðhorf til jöfnuðar eða ójöfnuðar. Hægri menn tala gjarnan um að skattar eigi að vera í lágmarki, þeir séu neyðarbrauð sem sé fyrst og fremst hugsað til að afla lágmarkstekna til að standa undir nauðsynlegustu þjónustunni. Á meðan tölum við félagshyggjufólk um að skattar þurfi að gera hvort tveggja. Þeir þurfa auðvitað að standa undir slíkri þjónustu en skattkerfið er líka öflugt tæki, og kannski það skilvirkasta, til að dreifa auðnum á réttlátan hátt á milli fólks. Þar þarf í sjálfu sér ekki að fara lengra en til franska hagfræðingsins Thomasar Pikettys, sem hæstv. forsætisráðherra hefur ítrekað vitnað í og lýst aðdáun á. Hann talar einmitt um þetta, að það þurfi núna á okkar tímum að grípa til róttækra aðgerða til að hindra að auðurinn safnist sífellt á færri hendur.

Ég er meira að segja hræddur um það núna þegar við horfumst í augu við nýja tækni, stafræna byltingu, þar sem mannshöndin verður ekki aðeins ónauðsynleg í mjög mörgum tilvikum heldur mannshugurinn líka og fleiri og fleiri framleiðslustörf verða í rauninni leyst af hólmi án aðkomu okkar mannanna. Auðvitað skapast ný störf og önnur færast til en við þurfum að glíma við þá staðreynd að svona verður þetta í mörgum fyrirtækjum. Við þurfum á einhvern hátt að fara að hugsa skattkerfið okkar þannig að þeir sem eiga framleiðslutækið, þeir sem eiga fjármagnið, verði ekki enn hraðar enn ofsaríkari en hingað til og almenningur sitji eftir. Svo ekki sé talað um ríkisvaldið sem þarf á því að halda að hafa tekjur sem það getur notað til að tryggja velferðarkerfi, heilbrigðiskerfi, fólk, öryrkja sem jafnvel fæðist inn í þennan heim án nokkurra möguleika á að sjá sér farborða nokkurn tímann á ævinni en eiga samt sem áður hluta af öllum sameiginlegum auðlindum mannsins og eiga þess vegna rétt á að fá að lifa með reisn. Þá tala ég ekki síst um aldraða sem hafa lagt á sig ómælda vinnu við að byggja upp og koma því samfélagi sem við lifum í í það horf sem það er, ekki síst á Íslandi, landi sem var í rauninni eitt fátækasta land Evrópu fyrir nokkrum áratugum en er nú orðið auðugt. Þetta fólk á líka skilið að það geti lifað sín síðustu æviár á viðburðarríkan hátt eftir atvikum en fyrst og fremst þannig að það þurfi ekki að kvíða hverjum degi.

Herra forseti. Á Íslandi er ástandið því miður þannig að jafnvel fólk á meðaltekjum, svo ekki sé talað um fólk á lágum tekjum, gerir ekki mikið meira en rétt að ná endum saman frá mánuði til mánaðar. Ef eitthvað hendir, ef eitthvað gerist, ef bíllinn bilar, ef heimilistæki bilar, ef úlpa týnist eða gleraugu brotna er fjölskyldan komin í vandræði. Það vindur síðan upp á sig vegna þess að taka þarf lán á háum vöxtum, margfalt hærri vöxtum en erlendis, sem leiðir kannski hugann að því að við ættum ekki að vera að setja alltaf ný og ný fjárlög við þær aðstæður að búa við íslenska krónu sem nýtist þeim auðugustu best en setur almenningi í landinu í stórkostleg vandræði með reglulegu millibili.

Talandi um það þá lifum við á tímum þar sem lítill hluti Íslendinga, nokkur prósent Íslendinga, eiga stóran hluta af öllum auðnum og geta leikið sér með þá fjármuni, fært þá út úr krónuhagkerfi yfir í aðra mynt og til baka eftir því hvernig vindar blása og sífellt hagnast á uppsveiflum og niðursveiflum krónunnar á meðan almenningur er fastur. Almenningur er einmitt að upplifa það núna, almenningur sem ekki hefur notið fordæmalítils hagvaxtarskeiðs sem staðið hefur í mörg ár. Nú þegar við erum á leiðinni niður brekkuna herðast ólarnar hjá því fólki, vextir hækka, gengið sígur, matvaran hækkar í verði, íbúðalánið rýkur upp og sú eign sem birtist í tölum sem meðaltekjufólk í landinu á er í raun þegar öllu er á botninn hvolft ekki handfastir peningar heldur peningar sem hafa orðið til vegna þess að íbúðaverð hefur hækkað svo. Það verður mjög fróðlegt að sjá á næstu árum hvernig þetta hlutfall breytist, þegar skuldahlutfall húsnæðisins hækkar með lánunum.

Oddný G. Harðardóttir, hv. þm. Samfylkingarinnar, hefur lagt fram mjög vandað nefndarálit þannig að ég ætla ekki að dvelja lengi við einstaka þætti. Þó hlýt ég að nefna að öll félagshyggjuöfl, allir félagshyggjuflokkar með reisn, væru að berjast fyrir gjörbreyttu skattkerfi. Ríkisstjórn félagshyggjuflokka hefði strax sett í stjórnarsáttmála einhvers konar áform um slíka breytingu, um sókn til félagslegs stöðugleika og jöfnuðar til að bregðast við þeim blikum sem eru á lofti á vinnumarkaðnum.

Það þýðir ekkert fyrir ríkisstjórnina að koma núna þegar fer að vetra og segja: Við munum bregðast við og við munum skoða kröfur ykkar eða við munum skipa hóp um húsnæðismál. Það er einfaldlega farið að verða of seint, fyrir utan það að metnaðarfullt félagshyggjufólk notar ekki slík mál sem skiptimynt í kjarasamningum, jafnvel til þess að þrýsta niður eðlilegum launakröfum verkafólks.

Samfylkingin hefur lengi talað fyrir því að hér eigi að vera þrepaskiptur skattur þar sem þeir sem verst hafa kjörin borga lægstu skattana en við sem erum með feikilega há laun leggjum hlutfallslega meira af mörkum. Staðreyndin er hins vegar sú að frá 1994 hafa skattar á lægstu laun hækkað á meðan skattar á hæstu launin hafa lækkað. Það er óviðunandi. Það má hugsanlega vera að ekki sé hægt að breyta því í einu vetfangi en ég sé ekki í stefnu ríkisstjórnarinnar, undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur og Vinstri grænna, nein merki einu sinni um að verið sé að skipta um kúrs, að verið sé að stefna frá samfélagi aukins ójöfnuðar og að réttlátara samfélagi, þvert á móti.

Samfylkingin hefur líka talað fyrir því að við eigum að nota tilfærslukerfi eins og barnabætur og vaxtabætur sem eru mjög áhrifarík og skilvirk leið til að aðstoða þá sem eru í mestum vanda. Þó að það sé ágætt hjá ríkisstjórninni að breyta barnabótum þannig að þær skerðist ekki undir lágmarkslaunum er það ekki nóg vegna þess að skerðingarhlutfallið færist til og það er allt of mikið sem leggst á millitekjufólk. Svo má benda á að tillögurnar sem birtast í þessu plaggi um barnabæturnar eru tillögur sem voru felldar hjá Samfylkingunni fyrir ekki svo löngu síðan.

Það jákvæða er að verið er að lækka tryggingagjald. Tryggingagjaldið er of hátt og leggst oft með óréttmætum hætti á lítil og meðalstór fyrirtæki, oft á fyrirtæki í nýsköpunar- og hugvitsgeiranum sem við þurfum svo mikið á að halda að örvist, þar sem veltan er meira og minna laun og miklu hærri en í stærri framleiðslugreinum. Þannig að við styðjum það. Jafnvel þó að skrefið sé ekki stórt er það skiljanlegt vegna þess að það er mjög dýrt að hreyfa við því kerfi.

Við getum líka fagnað því að persónuafslátturinn hækki. Við gleðjumst yfir því að þrátt fyrir allt hafi verið horfið frá því að lækka neðra þrepið sem hefði gefið mér þrisvar sinnum meira en fólki á lágmarkslaunum, það er þó betra að gera með því að hækka persónuafsláttinn. En sú hækkun er ekki meiri en það, herra forseti, að hún nemur 500 kr. á mánuði. Nú getur hver velt því fyrir sér hvað fæst fyrir 500 kr. á Íslandi í dag þar sem verð á matvælum og nauðsynjavörum er miklu hærra en ella vegna þess að ríkisstjórnin neitar að horfast í augu við það að við þurfum að skoða möguleika á öðrum og stöðugri gjaldmiðli sem myndi færa okkur lægra vöruverð og lægri vexti.

Talandi um vexti þá tala Alþýðusambandið, verkalýðshreyfingin, vinnumarkaðurinn allur og atvinnurekendur um að forsenda fyrir því að hér náist sátt á vinnumarkaði í vetur sé átak og stórsókn í húsnæðismálum. Ég held hins vegar að við verðum að fara að hverfa frá því að vera alltaf í átökum, vera alltaf í vertíðargír og reyna frekar að byggja upp stöðugan íbúðamarkað til framtíðar sem er blandaður, sem er blanda af íbúðum í einkaeign og leigu með tryggum skilmálum fyrir leigjendur. Það er langtímaverkefni en ríkisstjórnin er að bregðast við því núna með því að setja á fót starfshóp. Samfylkingin lagði fram þingsályktunartillögu í húsnæðismálum í átta liðum fyrir einum og hálfum mánuði síðan og hæstv. félagsmálaráðherra lét ekki einu sinni sjá sig við umræðuna, ekki þegar mælt var fyrir málinu. Hvað var hann að gera? Jú, hann var á fundi með öðrum ráðherrum að ræða það að nú þyrfti að fara að leysa húsnæðismálin. Þremur vikum seinna var tilkynnt að búið værir að skipa starfshóp.

Þetta eru allt tillögur sem við vitum að geta tekið breytingum inn í þingsal, enda var hugmyndin á bak við þær ekkert annað en að leggja gott til málanna, því að við vitum að það þarf að leysa þetta. Svo að ég nefni fjórar helst er það í fyrsta lagi startlán að norskri fyrirmynd til að gera ungu fólki sem á ekki efnamikla foreldra möguleika á að eignast sína fyrstu eign, vegna þess að staðan er í dag þannig að það er fullt af ungu fólki sem borgar jafnvel meiri leigu en það þyrfti að borga ef það ætti húsnæði.

Aðrir vilja leigja og við sjáum að hreyfanleiki fólks er meiri, fólk getur í rauninni unnið hvar sem er í heiminum. Þetta er allt annað en þegar við vorum ung. Þess vegna eigum við að bæta inn meira fé til stofnframlaga þar sem við byggjum undir leigufélög sem reka sig án þess að vera hagnaðardrifin. Ég held að það sé mjög brýnt.

Í þriðja lagi held ég að nauðsynlegt sé að setja eitthvert skikk á það hvaða ábyrgð sveitarfélög bera þegar kemur að félagslegu húsnæði, sem er húsnæði fyrir þá allra veikustu í samfélaginu. Nú er það undir hælinn lagt. Það er Reykjavík og Akureyri sem standa sig langbest og síðan er Kópavogur sæmilegur og Hafnarfjörður og kannski einhverjir fleiri, önnur sveitarfélög vanrækja þetta algerlega. Við viljum einfaldlega að það verði þannig að tiltekið hlutfall íbúða í öllum sveitarfélögum sé í eigu sveitarfélaga í félagslegum rekstri.

Í fjórða lagi er það byggingarreglugerðin. Mig langar að dvelja aðeins við hana því að hv. þm. Birgir Þórarinsson var þar. Það er alveg rétt að einfalda þarf byggingarreglugerðina. Það er þó ekki sama hvernig við gerum það. Við megum ekki endalaust gera það með því að skera niður gæði. Við gætum komið til móts við þau sjónarmið sem hann talaði fyrir, t.d. raðsmíði sem yki framleiðni með því að samræma við það sem er á hinum Norðurlöndunum. Ég er ekki viss um að margir átti sig á því að menn krefjast hærri inngangshurða á Íslandi en t.d. í Svíþjóð, hærri lofthæðar á Íslandi en annars staðar. Þetta hljómar sakleysislega en ef þú ætlar að panta partý í eina blokk á Íslandi þarftu að borga miklu meira vegna þess að það þarf að sérsmíða fyrir okkar markað. Af hverju getum við ekki verið með þetta svipað og annars staðar? Um leið og auka þarf byggingarhraða þá búum við við eitraðan kokteil á Íslandi þegar kemur að byggingarmálum. Framleiðni er lægri, töluvert lægri en t.d. í Noregi, á sama tíma og fjármagnskostnaður er mikið meiri. Þetta er ávísun á hærri byggingarkostnað en þyrfti að vera og svo leggst það ofan á að sá sem kaupir þessa tilbúnu íbúð þarf líka að kaupa hana á hærri vöxtum en nágrannar okkar annars staðar á Norðurlöndunum.

Ég á ekki mikið eftir þannig að ég held að réttast sé að enda á því sem ég hef þrisvar drepið á í ræðunni, þótt það sé ekki til umræðu hér verður samt alltaf að vera að tala um þetta: Það er ólíðandi að við getum ekki farið að taka umræðu um gengismál. Ég hjó eftir því að Ragnar Ingólfsson, formaður VR, talaði um þetta. Hann sagði að vissulega yrði það ekki til umræðu í kjarasamningunum í vetur en verkalýðshreyfingin yrði að fara að ræða þau mál. Við verðum öll að fara að gera það vegna þess að þetta er stórt lífskjaramál. Þetta er ekki síst lífskjaramál fyrir þá sem minnstu tekjurnar hafa í landinu. Ég veit í rauninni ekki hvaða sérhagsmuni er verið að verja með því að neita þessu sífellt vegna þess að þetta myndi örugglega gera hæstv. fjármálaráðherra töluvert auðveldara fyrir að leggja fram áætlanir um stöðugan rekstur á Íslandi til lengri framtíðar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[16:50]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Það er áhugavert að skoða tekjuáform ríkisstjórnarinnar í samhengi við yfirlýsingar stjórnarinnar sjálfrar um helstu áherslur sínar. Sú mynd sem hefur verið teiknuð upp fyrir okkur og við höfum reyndar varað við að sé mjög varasöm út frá hagstjórnarlegu sjónarmiði er að hér sé ríkisstjórn sem ætli í senn að lækka skatta en stórauka útgjöld. Vissulega höfum við séð mjög fast í hendi útgjaldagleði ríkisstjórnarinnar, þó að við getum deilt um forgangsröðun þeirra útgjalda, en ríkisstjórnin er búin að auka útgjöld ríkissjóðs um 100 milljarða kr. á rúmu ári í starfi með fjárlögum sínum fyrir árið 2018 og þau fjárlög sem nýafgreidd eru fyrir 2019. Þessi útgjaldagleði ein og sér hefur ekki einu sinni dugað af því að ríkisstjórnin hefur bætt við því til viðbótar einum 30 milljörðum hið minnsta í tvennum fjáraukalögum, fjáraukalögum fyrir árið 2017 og svo aftur fjárauka fyrir árið 2018. Þetta eru 130 milljarðar sem búið er að spýta í í ríkisútgjöldunum á ekki lengri tíma, en þá kemur að því sem ég kalla leiktjaldastjórnmál eða ásýndarstjórnmál, þau sem þessi ríkisstjórn stundar, það að telja okkur trú um að ofan í þetta sé hún að lækka skatta en það kemur nefnilega á daginn þegar maður fer að skoða tekjuáform ríkisstjórnarinnar að hún er akkúrat að gera hið gagnstæða. Hún er að hækka skatta. Það staðfesti hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson kannski hvað best þegar hann kom upp í umræðu um bandorm ríkisstjórnarinnar, sem var til atkvæðagreiðslu áðan, þegar hann lýsti sérstakri ánægju sinni yfir þeirri skattstefnu sem verið væri að móta í þessu ágæta plaggi stjórnarinnar.

Hvað sjáum við í raun og veru — því að mikið hefur verið talað um meintar skattalækkanir ríkisstjórnarinnar. Talað var um að ráðast ætti í lækkun á tekjusköttum einstaklinga, en á sama tíma ákveður ríkisstjórnin að taka það snilldarráð að hætta að hækka viðmiðunarfjárhæðir skattkerfisins miðað við laun og hækka þær miðað við verðlag. Þetta þýðir innbyggða og stöðuga skattahækkun í tekjuskattskerfið okkar inn í eilífðina. Það er kannski mjög þægilegt að þurfa bara að taka þessa umræðu einu sinni en þá er ágætt — ég verð að lýsa sérstakri ánægju með hv. efnahags- og viðskiptanefnd að stíga þar inn í og setja sólarlagsákvæði á þá vitleysu. Það er auðvitað mjög varasamt til lengri tíma litið að ætla að leyfa þessum viðmiðunarfjárhæðum þrepanna að rýrna svo á móti kaupmætti að í sé varanleg skattahækkun frá ári til árs.

Það er búið að hækka fjármagnstekjuskattinn. Barna- og vaxtabætur hafa rýrnað þrátt fyrir þau áform ríkisstjórnarinnar að hækka þær. Þá er vert að minnast þess fyrir ári þegar meiri hlutinn felldi allar tillögur bæði Viðreisnar og Samfylkingarinnar í þá veru að reyna að viðhalda bótafjárhæðum barna- og vaxtabóta miðað við þær launahækkanir og þá kaupmáttaraukningu sem orðið hafði. Tekin var sérstök yfirferð yfir öll krónugjöld ríkissjóðs fyrir afgreiðslu þessara fjárlaga þar sem m.a. var tekin allt að tíu ára uppfærsla á ýmis gjöld sem höfðu staðið óhreyfð og voru þá færð upp í takt við verðlagsþróun síðastliðinna 5–10 ára í mörgum tilvikum. Ágætt er að hafa í huga að það að skrá einkahlutafélag kostar núna liðlega 130.000 kr., ef ég man þá tölu rétt, og það er af hlutfalli lágmarksinnborgaðs hlutafjár upp á 500.000 kr. býsna hátt hlutfall. Það er það langhæsta sem fyrirfinnst í nágrannalöndum okkar þegar að þessum þætti kemur.

Þessar skattahækkanir ríkisstjórnarinnar einar og sér duga ekki til heldur er boðað að nú skuli lögð á myndarleg veggjöld til að fjármagna nauðsynlegar framkvæmdir og nauðsynlegt viðhald í vegakerfinu af því að þessi gríðarlega útgjaldaaukning dugir ekki til til að sinna í raun og veru grunnverkefnum ríkisins.

Í því felst ekkert annað en veruleg skattahækkun. Alveg sama hvaða viðhorf við kunnum að hafa til mikilvægis þessara framkvæmda er þetta skattahækkun á almenning, skattahækkun á íbúa landsins, skattahækkun sér í lagi á íbúa suðvesturhornsins og gangi þessi áform eftir auðvitað veruleg skattahækkun t.d. á það fólk sem sækir vinnu um þær stofnbrautir til og frá höfuðborgarsvæðinu sem á að taka veggjöld upp á.

Allt tal um skattalækkanir ríkisstjórnarinnar er blekking en vissulega má segja að ríkisstjórnin hafi ákveðið að lækka verulega álögur á útgerðina og má kannski í því samhengi færa rök fyrir því að ríkisstjórnin sé að færa skattbyrði af atvinnulífinu og yfir á einstaklinga. Síðan getum við deilt um hversu góð sú forgangsröðun er hjá ríkisstjórninni.

Það gefur augaleið að í þessari miklu útgjaldagleði verður eitthvað undan að láta og þrátt fyrir yfirlýsingar um hið gagnstæða sjáum við að ríkisstjórnin leitar nú allra leiða til að auka álögur á einstaklinga til að fjármagna þau útgjöld sem fram undan eru. Ég held að við séum rétt að byrja að sjá þennan tekjuöflunarvanda ríkisstjórnarinnar. Þegar við sjáum um leið að ýmis merki eru á lofti um að tekið sé að hægja á í hagkerfinu dregst m.a. saman í einkaneyslu sem er stofninn að helsta tekjustreymi ríkissjóðs. Ég gæti trúað að ríkisstjórnin muni lenda í talsverðum vanda þegar kemur inn á árið 2019, að tekjur standi undir þeim útgjöldum sem búið er að heita.

Ágætt er að hafa í huga líka að það birtist svo vel í fjárlögum og þá tekjuöflunaraðgerðum ríkisstjórnarinnar hversu þröngt hún hugsar, hversu litlar lausnir hún hefur í raun og veru fyrir almenning í landinu fram að færa. Hún sér tækifæri í að auka útgjöld ríkissjóðs vissulega víða, en hún sér engin tækifæri þar sem við höfum stærstu tækifærin varðandi það að auka kaupmátt íbúa landsins. Það er einmitt þegar kemur að vaxtastigi og matvælaverði. Það er svo ótrúlegt að horfa upp á ríkisstjórn sem telur sig vera að vinna í þágu almennings skella skollaeyrum við þeirri einföldu staðreynd að matvælaverð hér er með því hæsta sem þekkist á Vesturlöndum og vaxtastig að jafnaði 5 prósentustigum hærra en í nágrannalöndum okkar og bara með því að ná jafnstöðu við t.d. nágranna okkar á Norðurlöndunum hvað þetta varðar mætti spara fjögurra manna fjölskyldu 150.000–200.000 kr. í útgjöldum á mánuði.

Mér reiknast til að fyrir meðaltekjufjölskyldu samsvari þetta 20–30% af laununum. Það munar um minna og þetta er auðvitað það sem komandi kjarasamningar ættu kannski einna helst að snúast um. Ég get tekið undir með hv. ræðumanni Loga Einarssyni að ég vona að verkalýðshreyfingin beiti sínu afli til að þrýsta á ríkisstjórnina. Hérna liggja raunverulegir hagsmunir almennings, raunverulegir hagsmunir þjóðarinnar. Ef okkur tækist að skila almenningi þessum kaupmáttarauka án þess að í því fælist neinn kostnaðarauki fyrir atvinnulífið værum við svo sannarlega að skila góðu dagsverki. En það er víst til of mikils mælst að ætlast til þess að ríkisstjórnin vinni að slíkum umbótum.

Það kemur alltaf betur og betur í ljós að núverandi ríkisstjórn er varðhundur óbreytts ástands. Ríkisstjórnin hefur ekkert hugmyndaflug til neinna raunverulegra kerfisbreytinga, en útgjaldagleði hennar er mikil og það sem kemur betur og betur í ljós er að hugmyndaauðgi hennar til skattahækkana er það sömuleiðis.