149. löggjafarþing — 48. fundur
 12. desember 2018.
umboðsmaður barna, 2. umræða.
stjfrv., 156. mál (hlutverk umboðsmanns barna, ráðgjafarhópur barna og barnaþing). — Þskj. 156, nál. m. brtt. 647.

[17:00]
Frsm. velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti velferðarnefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 83/1994, um umboðsmann barna.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund ýmsa gesti eins og getið er um í nefndarálitinu, en mig langar sérstaklega, herra forseti, að nefna þau ungmenni sem komu á fund nefndarinnar, þau Ingu Huld Ármann og Sólrúnu Elínu Freygarðsdóttur frá ráðgjafarhópi umboðsmanns barna, Auði Rán Pálsdóttur og Sigurjónu Hauksdóttur frá ungmennaráði UNICEF og Kolbein Þorsteinsson frá ungmennaráði Barnaheilla. Ég held að ég tali fyrir munn allrar velferðarnefndar þegar ég segi að það var sérstaklega ánægjulegt að hitta þessi ungmenni og fá tækifæri til að skiptast á skoðunum við þau og heyra þeirra sjónarmið á það hvernig stjórnkerfið kæmi að málum barna og með hvaða hætti mætti bæta það. Þetta var því alveg sérstaklega ánægjulegur fundur í hv. velferðarnefnd.

Umsagnir bárust frá Barnaheillum, Landssambandi eldri borgara, samtökunum Þroskahjálp, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Persónuvernd og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Eins og rakið er í greinargerð með frumvarpinu er markmiðið að skýra frekar hlutverk umboðsmanns barna í samræmi við þær áherslur sem lagðar eru á réttindi barna, m.a. í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem lúta að réttindum barna. Í samræmi við þær áherslur er lagt til að lögfest verði ákvæði um barnaþing sem svo hefur verið nefnt þar sem farið verði yfir stöðu og þróun í málefnum barna á helstu sviðum samfélagsins. Hlutverk ráðgjafarhóps umboðsmanns barna er einnig lögfest.

Lögin um umboðsmann barna eru lítið breytt frá því að þau voru sett 1994, en á sama tíma hefur heilmikið breyst í samfélaginu og viðhorf þess til barna og ungmenna breyst verulega, einkum og sér í lagi með lögfestingu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna árið 2013. Með þeim breytingum sem felast í frumvarpinu er lagður grunnur að því að embættið verði öflugri og virkari málsvari barna. Gert er ráð fyrir að kostnaður við fyrirhugaðar breytingar verði um 24 millj. kr. á ári en það er gert ráð fyrir þeirri upphæð í fjárlagafrumvarpinu. (Gripið fram í.) Fjárlögum, já, skulum við segja, (Gripið fram í: Búið.) það er meira að segja búið að samþykkja fjárlög. Það er náttúrlega, herra forseti, svo óvenjulegt hvað gekk vel að klára fjárlög. Þarna ætti náttúrlega að standa „í fjárlögum“.

Við umfjöllun nefndarinnar var bent á breytingar sem gerðar voru í frumvarpinu eftir birtingu þess í samráðsgátt Stjórnarráðsins eftir ábendingar um mikilvægi þess að embætti liti sérstaklega til réttinda fatlaðra barna og var vísun þess efnis bætt við í athugasemd um 1. gr. frumvarpsins. Umsagnaraðilar bentu einnig á þetta og nefndu sérstaklega að taka yrði tillit til hópa barna sem einhverra hluta vegna væru berskjaldaðir eða ættu undir högg að sækja af einhverjum öðrum orsökum. Nefndin tekur undir það. Nefndin tekur einnig undir mikilvægi þess að embættið sinni þjónustu þar sem þörfin er mest og minnir jafnframt á að áherslur af þessu tagi eru í fullu samræmi við ákvæði barnasáttmálans.

Í umsögnum kom almennt fram stuðningur við málið. Það voru margir umsagnaraðilar sem lögðu á það áherslu að embætti umboðsmanns barna væri styrkt. Þá var því sérstaklega fagnað hversu sýnilegur barnasáttmálinn væri í þeim breytingum sem frumvarpið felur í sér, t.d. með því að lögfesta ráðgjafarhópinn, sem ég nefndi áðan, en hann hefur í raun starfað lengi við embættið. Nú er hann festur í sessi með lagabreytingu.

Eitt af þeim nýju verkefnum sem umboðsmanni er falið með frumvarpinu er öflun og miðlun gagna um stöðu barna á Íslandi. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að þetta væri mjög mikilvægt þar sem oft hefur sárlega skort upplýsingar. Jafnframt kom fram að embættið og Hagstofan hefðu í vor undirritað viljayfirlýsingu um að hefja undirbúning þessarar vinnslu.

Barnaþing er annað nýtt verkefni, eins og ég nefndi áðan, þar sem verður farið yfir stöðu og þróun í málefnum barna á helstu sviðum. Þar er gert ráð fyrir virkri þátttöku barna í skipulagningu og framkvæmd. Þar gefst mikilvægt tækifæri til samræðu barna og valdhafa á hverjum tíma. Nefndin beinir því sérstaklega til yfirstjórnar Alþingis að taka tillit til tímasetningar barnaþingsins við skipulagningu starfsáætlunar þannig að þingmönnum gefist kostur á að sækja þingið.

Við umfjöllun nefndarinnar var jafnframt bent á hversu mikilvægt það væri að Alþingi hefði reglulegt samráð við börn. Fulltrúar ungmennanna komu einmitt sérstaklega inn á þetta, einkum þegar um er að ræða málefni sem snerta þau sérstaklega. Þá var einnig talað um að vefsíður þingsins væru ekki alltaf sérlega aðgengilegar fyrir börn og jafnvel velt upp þeirri hugmynd hvort ekki mætti huga að því að bjóða kannski upp á sérstakar barna- eða ungmennavænar útgáfur af vefsíðunni þannig að börn ættu auðveldara með að átta sig á þeim málum sem til umfjöllunar væru, þá kannski einkum og sér í lagi þeim málefnum sem fjalla um börn sérstaklega.

Nefndin leggur til breytingu á 5. gr. frumvarpsins svo að í 5. gr. laga um umboðsmann barna verði vísað til e-liðar 3. mgr. 3. gr. Þá er einnig lögð til breyting á orðalagi 2. efnismálsgreinar 6. gr. þannig að við skýrslu um stöðu barna sé skýrar áréttað að höfð skuli hliðsjón af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingu sem orðast eins og stendur í nefndarálitinu.

Hv. þm. Ásmundur Friðriksson og Guðmundur Ingi Kristinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Halldóra Mogensen var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álitið í samræmi við heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis. Hanna Katrín Friðriksson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk álitinu. Undir álitið rita því Halldóra Mogensen, formaður nefndarinnar, Andrés Ingi Jónsson, framsögumaður, Ólafur Þór Gunnarsson, Guðjón S. Brjánsson, Vilhjálmur Árnason, Alex B. Stefánsson og Una María Óskarsdóttir.



[17:09]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar til að þakka velferðarnefnd fyrir vel unnin störf í þessu máli, enda er það mjög merkilegt og mikilvægt að fjalla um þetta mál. Það gleður mig að það skuli vera komið svona langt.

Mig langar að fara yfir nokkur atriði sem huga mætti að í framkvæmd þessa máls og jafnvel í framtíðinni. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir virkri þátttöku barna í skipulagningu þingsins og framkvæmd þess, eins og segir í nefndarálitinu. Þar gefst mikilvægt tækifæri fyrir samræðu milli barna og valdhafa. Þar var vísað til þess að tímasetningarnar yrðu þannig að þingmenn gætu tekið þátt.

Nú er einnig mál til umræðu í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem varðar ávarp á þingfundum. Ég lagði það til í andsvörum þegar málið var flutt að barnaþingið ætti að fá tækifæri til að nota þingsalinn. Það væri jafnvel sniðugt að barnaþing fengi að ávarpa þingið í, kannski að loknu barnaþingi, svona í lokin eða eitthvað svoleiðis, og kynna helstu niðurstöður o.s.frv., þá í tengslum við það frumvarp sem er í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Það væri alla vega möguleiki á meiri samræðum og stærra umfangi. Kannski myndi það ekki hefjast þar en það er nokkuð sem við getum haft í huga til framtíðar, þ.e. hvernig barnaþingi verður háttað, að gera það dálítið meira alvöru, eins og maður segir. Ég hef haft áhyggjur af því að margt í tengslum við þessi ungmennaráð sé gert meira upp á punt, til sýnis, þar sem ungmenni tjá sig, en oft er ekki hlustað á þau. En það hefur sýnt sig varðandi mörg ungmennaráð að þau eru gríðarlega öflug þegar hlustað er vel á þau og farið eftir tillögum þeirra.

Í tengslum við það kom ég með þá hugmynd á síðasta kjörtímabili, þar sem ég var talsmaður barna fyrir hönd þingflokks Pírata, hvort ekki væri hægt að koma upp ungmennaráði Alþingis sem gæti unnið mun meira, bæði með skrifstofunni og nefndasviði og jafnvel líka þingmönnum, í því að gera ýmsa hluti aðgengilegri, eins og talað er um hérna. Vefsíður og skjöl Alþingis eru ekki alltaf nógu aðgengileg. Þetta væri ákveðin rýniaðkoma fyrir ungmenni að störfum þingsins og myndi jafnvel tengjast Alþingi unga fólksins, Skólaþingi, sem er hér í gangi reglulega.

Varðandi vefsíður og skjöl Alþingis, sem eru ekki nógu aðgengileg, þá erum við með þingsályktun sem samþykkt var árið 2015, um tölvutækt snið laga og annarra þingskjala. Ef við færum að vinna samkvæmt þeirri þingsályktun og færum að skila lögunum og þeim skjölum sem við vinnum með á tölvutæku formi er mjög auðvelt að bæta útlit og gera það aðgengilegra fyrir fleiri, t.d. með orðskýringum, stærra letri, myndskýringum og fleira. Sem sagt að hafa sama texta í knappara formi, í nákvæmara formi, með orðskýringum og ýmsu svoleiðis sem hægt væri að nota til að auðga þann texta sem kemur frá Alþingi. Hann er oft dálítið þurr, verður að segjast. Pínu.

En alla vega gæfi sú þingsályktun, sem Alþingi hefur þegar samþykkt, okkur tækifæri til þess að gera nákvæmlega það sem beðið er um í þessu nefndaráliti.

Ég hlakka til þess að sjá fyrsta barnaþingið og ég vonast til þess að sjá það í þessum þingsal. Ég hlakka til þess að við förum loksins að fara eftir þeirri þingsályktun sem Alþingi hefur þegar samþykkt.



[17:14]
Frsm. velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir ræðuna. Ég gleymdi reyndar í ræðu minni áðan að þakka hv. velferðarnefnd fyrir vinnuna við þetta mál og geri það þá hér, þó að það sé ekki kannski eðli andsvara. Það er full ástæða til að þakka það.

Ég vil hins vegar taka undir þessa hugmynd hv. þingmanns um að við ættum að skoða þann möguleika að setja upp ungmennaráð Alþingis líkt og umboðsmaður barna og fleiri aðilar eru með. Það gæti verið skemmtileg hugmynd. Það er sjálfsagt hægt að þróa eitthvað slíkt í tengslum við skólaþingið sem þegar er rekið. Nú ætla ég ekki að segja að ég hafi orðið fyrir einhverri mikilli upplifun við að hitta þau börn og ungmenni sem komu á fund velferðarnefndar en engu að síður opnar það dálítið augu manns fyrir því að börn og ungmenni sjá sannarlega hlutina ekki alveg sömu augum og við sem eldri erum. Og jafnvel þó að maður hafi sjálfur notið þeirrar gæfu að fá að ala upp börn er það ekki það sama og að þiggja ráð frá börnum. Ég held þess vegna að þetta geti verið ljómandi góð hugmynd.

Ég er hins vegar ekki alveg til í svona á fyrstu stigum að kaupa hugmyndina um að flytja endilega barnaþingið hingað vegna þess að það yrði kannski aðeins stærri viðburður en myndi rúmast í þessum þingsal. Ég vonast til þess a.m.k. að það verði fjöldaþátttaka á slíkri samkomu þannig að þar verði bæði börn og fullorðnir að tala saman.



[17:16]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átti kannski ekki endilega við að barnaþingið yrði haldið nákvæmlega í þingsalnum heldur að það yrði gefinn aðgangur að þingsalnum til að vera kannski með einstaka viðburði eða eitthvað því um líkt.

Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir undirtektirnar með ungmennaráðið. Mér finnst mjög augljóst að þetta sé hugmynd sem ætti tvímælalaust að gefa tækifæri. Kannski heppnast það ekki strax. Alþingi er dálítið öðruvísi í sniðum en sveitarfélög eru og umboðsmaður barna. Það gæti líklega ekki verið nákvæmlega eins formað. En þannig vinnur maður bara nú til dags. Maður vinnur með ítrunum, prófar eitt fyrirkomulag, sér hvaða hnökrar eru á því og sníðir af þeim og vinnur bara að því að gera það betra í kjölfarið. Við náum hins vegar aldrei fullkomnun til að byrja með, sérstaklega ef við höfum aldrei prófað það áður.



[17:18]
Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við fjöllum um frumvarp sem lýtur að því að styrkja stöðu barna í íslensku samfélagi og stuðla þannig að áframhaldandi innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna.

Mig langar að þakka nefndinni fyrir góða yfirferð á frumvarpinu. Ég tók til máls við 1. umr., bara lítillega, af því að ég er einn af talsmönnum barna á þingi og verð að segja að það er með skemmtilegri hlutverkum sem maður fær hér sem þingmaður að gegna því starfi. Það er svo áhugavert að sjá hvað þetta unga fólk hefur mikið fram að færa og talar um það að við þurfum í auknum mæli að fara að setja upp barnagleraugun, eins og þau hafa orðað það. Við höfum sambærilegar hugmyndir þegar við tölum um kynjajafnrétti og setjum upp kynjagleraugun. Ég held að margir þingmenn hafi tileinkað sér það í auknum mæli.

Það er líka áhugavert að horfa alltaf á öll mál svolítið út frá augum barnanna. Ég tek undir með hv. þingmanni sem sagði áðan að það er eitt að ala upp barn og annað að þiggja ráð frá börnum. Mér finnst gaman að koma inn í þessa umræðu núna vegna þess að rétt áðan voru Samtök íslenskra framhaldsskólanema að heimsækja okkur í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Ég veit að þau ungmenni hafa heimsótt flesta þingflokka, ef ekki alla, aðeins að fara yfir það starf sem þau eru að vinna. Þau voru m.a. að segja að þau væru alltaf til staðar og til reiðu til að veita okkur ráð, til að taka þátt í því sem við erum að gera hér. Ég spurði einmitt hvort þau kæmu stundum að því að gefa umsagnir um frumvörp. Jú, það tíðkaðist, en kannski allt of sjaldan, kannski einmitt vegna þess að við gleymum hér á þinginu að vísa mikilvægum málum sem fjalla um börn til hagsmunasamtaka eins og þessara. Ég held að það megi gjarnan vekja okkur aðeins til umhugsunar um það. Við megum festa það betur í huga þegar við fjöllum um slík mál.

Þess vegna fannst mér gott að sjá það að nefndin hefði fengið á sinn fund ráðgjafarhóp umboðsmanns barna og ungmennaráð Barnaheilla sem ég tel mjög mikilvægt.

Ég verð líka að segja að mér finnst mjög fallegt að Landssamband eldri borgara hafi líka veitt umsögn um málið. Mér finnst fara mjög vel á því að við séum að tala um annars vegar yngsta hópinn okkar og svo elsta hópinn okkar og hve allir virðast vera sammála um mikilvægi þessa.

Mig langaði aðeins að koma inn á hugmyndina um barnaþing. Ein stúlka sem ég hitti áðan, þegar við vorum að ganga hér um þinghúsið og við vorum að spyrja hvort þau hefðu komið í þinghúsið, sagði: Já, ég kom einmitt hingað í opið hús, mér finnst ótrúlega gaman að fá að koma inn í þingsalinn. Við vorum að útskýra það að yfirleitt þegar við tökum á móti gestum og ef ekki er þingfundur í gangi eru jú opnar hurðir og maður getur sýnt börnunum hérna inn í salinn. En hingað má enginn stíga inn, alla jafna. Mér finnst það hafa tekist svo vel til hjá okkur 1. desember þegar við opnuðum húsið og ég vil gjarnan hvetja til þess að við gerum það oftar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Þess vegna finnst mér mjög góð hugmynd þegar kemur að umræðu, hvort sem það eru barnaþing eða einhverjir fulltrúar frá barnaþingi kæmu hingað að ávarpa okkur eða uppfræða okkur um það sem átt hafi sér stað á barnaþingi eða eitthvað þess háttar, að þá færi mjög vel á því að gera það hér í þessum sal.

Við erum ekki síður að fjalla um lýðræðið og ég veit að margir skólar standa sig mjög vel í því þegar kemur að lýðræðisfræðslu. En samt sjáum við dvínandi kosningaþátttöku, sem er mjög sorglegt því að þegar maður ræðir við börn og ungmenni hafa þau yfirleitt mjög miklar skoðanir á flestum hlutum.

Ég held að þetta sé ein af þeim aðgerðum sem við gætum beitt til að auka lýðræðisþátttöku ungs fólks og mig langar að hvetja til þess að það sé skoðað sérstaklega.

Ég tek líka heils hugar undir það sem sagt er í nefndarálitinu þar sem nefndin beinir því til yfirstjórnar Alþingis að taka tillit til tímasetningar barnaþings við skipulagningu starfsáætlunar svo sem flestum alþingismönnum verði gert kleift að sækja þingið. Ég held að það sé mjög mikilvægur punktur.

Annars þakka ég velferðarnefnd fyrir þessa vinnu. Mér finnst þetta gott mál og ánægjulegt að sjá það þegar við erum með svona góð mál og breiða samstöðu. Ég held að allir skrifi undir nefndarálitið, fulltrúar frá öllum flokkum, og það er vel þegar við getum verið með slík mál. Vonandi sjáum við enn fleiri slík mál á næstu dögum og næstu misserum.