149. löggjafarþing — 49. fundur
 13. desember 2018.
umboðsmaður barna, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 156. mál (hlutverk umboðsmanns barna, ráðgjafarhópur barna og barnaþing). — Þskj. 156, nál. m. brtt. 647.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[11:31]

[11:28]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum hér atkvæði um embætti umboðsmanns barna, breytingu á þeim lögum sem hafa lítið breyst síðan 1994. Hér er verið að styrkja embættið umtalsvert, það er verið að bæta við verkefnum, m.a. barnaþingi og fleiri þáttum. Það er afar ánægjulegt að hv. velferðarnefnd náði fullri samstöðu um þetta mál og það er einkar gleðilegt að við skulum greiða atkvæði um það hér í dag.



[11:29]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. velferðarnefnd fyrir vinnu hennar að þessu máli sem ég tel mikið framfaramál, máli sem ætlað er að styrkja embætti umboðsmanns barna og hlutverk umboðsmannsins við að halda betur utan um gögn um börn, sem hefur verið mikilvægt að bæta, og sömuleiðis að styrkja rödd barna með sérstöku barnaþingi. Mér þótti vænt um að heyra þær umræður sem áttu sér stað í þingsal um þetta mál þar sem ég heyrði frá öllum þeim þingmönnum sem töluðu, mikla ánægju með þessa tillögu og mikinn áhuga á að fá að taka þátt í stefnumótun ásamt börnum. Ég held að þetta sé alveg gríðarlega mikilvægt lýðræðismál og fagna þeirri góðu samstöðu sem myndast hefur um málið í þinginu.



[11:29]
Una María Óskarsdóttir (M) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Framlagðar breytingar á lögum um umboðsmann barna eru til mikilla bóta. Í 2. gr. laganna kemur fram að umboðsmaður barna skuli hafa embættispróf í lögfræði. Það vekur furðu mína að þegar frumvarpið var smíðað í upphafi skyldi ekki hafa verið farið fram á að umboðsmaður barna hefði uppeldismenntun. Það er skoðun mín að svo eigi að vera, en ég mun styðja frumvarpið.



[11:30]
Guðjón S. Brjánsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Með lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, barnasáttmálans, árið 2013 hafa íslensk stjórnvöld skuldbundið sig til að framfylgja ákvæðum sáttmálans í lögum, stjórnvaldsfyrirmælum og framkvæmd á öllum þeim sviðum sem hann nær til. Þarna kemur embætti umboðsmanns barna við sögu. Með frumvarpinu er lagt til að umboðsmanni barna verði falin aukin verkefni og skyldur jafnframt áréttaðar sem miða að því að styrkja enn frekar stöðu barna í íslensku samfélagi og stuðla þannig að áframhaldandi innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.



[11:31]
Halldóra Mogensen (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég ætla að koma hingað upp til að þakka fyrir þetta flotta mál. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir það og þakka fyrir vinnuna í velferðarnefnd. Það er ótrúlega gaman þegar svona mál koma inn í nefndina og við fáum að vinna þau í þeirri sátt sem myndaðist í nefndinni.



 1. gr. samþ. með 58 shlj. atkv.

 1.–4. gr. samþ. með 58 shlj. atkv.

Brtt. í nál. 647,1–2 samþ. með 57 shlj. atkv.

 5.–6. gr., svo breyttar, samþ. með 58 shlj. atkv.

 7.–8. gr. samþ. með 58 shlj. atkv.

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frumvarpið gengur til 3. umr.