149. löggjafarþing — 49. fundur
 13. desember 2018.
umboðsmaður Alþingis, frh. 2. umræðu.
frv. SJS o.fl., 235. mál (OPCAT-eftirlit). — Þskj. 250, nál. 655.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[11:43]

[11:39]
Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum atkvæði um afar mikilvægt mál, þ.e. að fela umboðsmanni Alþingis að hafa eftirlit með þeim stöðum þar sem frelsissviptir einstaklingar dvelja. Um er að ræða fangelsi á vegum ríkisins en einnig ýmiss konar stofnanir, bæði á vegum ríkisins sem og á vegum einkaaðila. Með þessu felum við umboðsmanni samkvæmt lögum um umboðsmann að annast þetta eftirlit. Taldi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd afar viðeigandi að fela því embætti þetta eftirlit, enda er það með öllu óháð embætti. Með þessu fullgildum við bókun við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og ómannlegri meðferð.



[11:40]
Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Píratar fagna þessu frumvarpi sérstaklega. Grunnstefna okkar snýst í meginatriðum um að vernda og efla borgararéttindi og lýðræðisumbætur. Þetta eru þau borgararéttindi sem hvað mikilvægast er að vernda, þ.e. að fólk sé ekki pyndað, að það megi ekki búast við því að vera pyndað eða beitt ómannúðlegri meðferð.

Nú er verið að fela umboðsmanni Alþingis — svo fólk heima fyrir skilji hvað það er þá er það undirstofnun Alþingis sem á að hafa eftirlit með stjórnvöldum, og líka í þessu tilfelli að hafa eftirlit með því ef einkaaðilar hýsa aðila sem hafa verið frelsissviptir. Og að þessi aðili hafi í okkar umboði eftirlit með því að ekki sé farið með fólk á ómannúðlegan hátt eða verið sé að pynda fólk sem hefur verið frelsissvipt. Við fögnum þessu máli sérstaklega.



[11:41]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég, líkt og aðrir hér, fagna því mjög að við séum að greiða atkvæði um þetta frumvarp og vona að sem flestir gjaldi því jáyrði sitt. Þetta er nefnilega risastórt mál þó að það sé kannski falið í skammstöfun. OPCAT segir ekki mikið, en þetta byggir hvorki meira né minna en á samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Með þessu máli felum við umboðsmanni Alþingis að heimsækja reglulega stofnanir sem frelsissvipta einstaklinga, í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að grimmileg eða vanvirðandi meðferð viðgangist. Þetta er því gríðarlega mikilvægt mál. Ég ætla að leyfa mér að segja að ég er mjög stoltur yfir því að fá að greiða atkvæði um þetta mál hér og fá að taka þátt í vinnunni um það í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Ég vil sérstaklega þakka fyrir þá eindrægni og góðu vinnu sem þar fór fram um þetta mál.



[11:42]
Jón Steindór Valdimarsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta er merkur áfangi sem við erum að ná. Við samþykkjum hér eftirlit með því að þess sé gætt að aðbúnaður og meðferð öll gagnvart þeim sem minnst mega sín í samfélagi okkar sé mannúðleg og eðlileg, gagnvart þeim sem af einhverjum ástæðum eru sviptir frelsi sínu með beitingu opinbers valds. Það er annar þáttur í þessu frumvarpi sem ég held að sé líka mjög mikilvægt að við höfum í huga, þ.e. vernd þeirra sem kjósa að upplýsa umboðsmann um eitthvað sem miður hefur farið í samfélaginu. Gildir það ekki bara um þessi mál heldur almennt, sem er gríðarlega mikilvægt fyrir umboðsmann Alþingis, Alþingi sjálft og okkur öll, að menn geti öruggir leitað til umboðsmanns með erindi sín.



[11:43]
Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti sem 1. flutningsmaður málsins þakkar hlý orð í garð þess og þakkar hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fyrir vinnu við málið.



 1. gr. samþ. með 58 shlj. atkv.

 2.–8. gr. samþ. með 58 shlj. atkv.

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frumvarpið gengur til 3. umr.