149. löggjafarþing — 49. fundur
 13. desember 2018.
virðisaukaskattur, 2. umræða.
stjfrv., 432. mál (gildisdagsetningar, virðisaukaskattsskylda alþjóðaflugvalla o.fl.). — Þskj. 592, nál. 697.

[12:36]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, þ.e. gildisdagsetningar, virðisaukaskattsskyldu alþjóðaflugvalla o.fl., á þskj. 697. Nefndin fékk á sinn fund fulltrúa fjármála- og efnahagsráðuneytisins og fulltrúa frá ríkisskattstjóra, auk fulltrúa Isavia ohf.

Með frumvarpinu verða lögfest ný ákvæði um leiðréttingu á virðisaukaskatti eftir frumákvörðun, þ.e. eftir upphaflega ákvörðun virðisaukaskatts á hverju uppgjörstímabili. Byggt er á tillögum starfshóps fjármála- og efnahagsráðuneytisins um gildisdagsetningar í virðisaukaskatti er varða m.a. vaxtaákvörðun í þeim tilfellum þegar skuld og inneign myndast við sömu skattbreytingu.

Jafnframt er ætlunin með frumvarpinu að skýra nánar skattskyldu rekstraraðila alþjóðaflugvalla á Íslandi en það er talið nauðsynlegt til að gæta samræmis við það sem gildir í nágrannalöndum. Tekin eru af öll tvímæli um að tiltekin þjónusta við millilandaför og farþega þeirra skuli teljast til veltu sem er undanþegin virðisaukaskatti.

Með frumvarpinu er einnig bætt við heimildum til endurupptöku, endurákvörðunar og enduráætlunar á virðisaukaskatti og leiðrétt heimild til færslu innskatts vegna fólksbifreiða til nota í ferðaþjónustu. Þá eru sett skýrari ákvæði um heimildir erlendra fyrirtækja til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa á vöru og þjónustu hér á landi til endursölu eða endanlegra nota en með því er komið í veg fyrir mögulega samkeppnisröskun gagnvart innlendum aðilum.

Loks eru í frumvarpinu gerðar ýmsar minni háttar breytingar á lögunum eða viðbótum við lögin sem miða að auknum skýrleika og nánari skilgreiningu á tilteknum ákvæðum þeirra, m.a. er varðar afskráningu aðila af virðisaukaskattsskrá og skyldu aðila, sem felldur hefur verið af virðisaukaskattsskrá, til skila á innheimtum skatti í ríkissjóð.

Frumvarpið er seint fram komið, sem meiri hluti efnahags og viðskiptanefndar gerir athugasemdir við, en talið er mikilvægt að það nái fram að ganga fyrir lok árs. Í ljósi þess var ekki mögulegt fyrir efnahags- og viðskiptanefnd að senda frumvarpið til umsagnar til helstu hagsmunaaðila. Þar sem frumvarpið miðar fyrst og fremst að því að auka skýrleika laga um virðisaukaskatt og er ekki íþyngjandi telur meiri hlutinn rétt að greiða leið frumvarpsins. Frumvarpið var kynnt almenningi og hagsmunaaðilum í opinni samráðsgátt ráðuneytanna 19.–25. nóvember sl. Í umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar frá 23. nóvember er mikilli ánægju lýst með ákvæði 4. og 12. gr. frumvarpsins. Þar er annars vegar um að ræða heimild ferðaþjónustuaðila til að færa innskatt vegna torfærubifreiða og hins vegar skýrari ákvæði um endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra fyrirtækja eins og ég vék að áðan. Breytingarnar leiða til jafnari samkeppnisstöðu milli innlendra og erlendra ferðaþjónustuaðila.

Á meðal þeirra breytinga sem lagðar eru til í 9. gr. er að heimilt verður að fella niður dráttarvexti sem safnast hafa vegna vanskila á virðisaukaskatti en slíkri heimild hefur ekki verið fyrir að fara í lögum áður. Á fundi nefndarinnar bentu fulltrúar ríkisskattstjóra nefndinni á að hagur væri af því að sömu sjónarmið giltu um það hvenær fella mætti niður dráttarvexti og álag samkvæmt 27. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, ekki síst þar sem hvort tveggja væri á hendi ríkisskattstjóra eftir að breyting á fyrirkomulagi varðandi innheimtu opinberra gjalda tekur gildi um komandi áramót. Af texta 9. gr. frumvarpsins, sem og útskýringum í greinargerð þess, megi hins vegar ætla að skilyrði fyrir niðurfellingu dráttarvaxta eigi að vera strangari en við á um niðurfellingu álags, samanber 6. mgr. 27. gr. virðisaukaskattslaganna.

Meiri hlutinn er sammála því að bagalegt væri að horfa þyrfti til mismunandi þátta varðandi niðurfellingu dráttarvaxta vegna vanskila virðisaukaskatts annars vegar og álags vegna sömu vanskila hins vegar, enda er um sambærileg refsikennd viðurlög að ræða í hvoru tilfelli og innheimta þeirra, sem og ákvörðun um niðurfellingu, á hendi sama aðila. Telur meiri hlutinn því rétt að í framkvæmd verði ríkisskattstjóra heimilt að líta til sömu eða sambærilegra sjónarmiða þegar kemur að ákvörðun um niðurfellingu hvors sem er, dráttarvaxta eða álags, vegna vanskila á virðisaukaskatti.

Herra forseti. Að framansögðu virtu leggur meiri hluti nefndarinnar til að málið verði samþykkt óbreytt en undir nefndarálitið skrifa, auk þess sem hér stendur, Óla Björns Kárasonar, hv. þingmenn Brynjar Níelsson, Þorsteinn Víglundsson, Bryndís Haraldsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Ásgerður K. Gylfadóttir.



[12:42]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég hef engar efnislegar athugasemdir við þetta frumvarp enda er ég, eins og fram kom í máli hv. þingmanns og framsögumanns, Óla Björns Kárasonar, á nefndarálitinu og styð málið. Ég kem hins vegar aðeins upp til að árétta þá aðfinnslu sem finna má í nefndaráliti meiri hluta um hversu seint þetta mál er fram komið. Mér finnst það endurspegla virðingarleysi af hálfu framkvæmdarvalds gagnvart þinginu. Það er ljóst að umrætt mál var í undirbúningi og kynningu innan Stjórnarráðsins sl. sumar, fór í samráðsgátt Stjórnarráðsins að ég hygg í ágúst sl. og framkvæmdarvaldið eða Stjórnarráðið, ráðuneytið í þessu tilviki, er í raun og veru búið að taka sér ansi góðan tíma í að koma málinu til þingsins en ætlar þinginu síðan að ljúka því nánast umræðulaust þannig að nefndinni gafst í raun enginn tími til að fara yfir málið af neinni sérstakri vandvirkni. Þetta þykja mér ekki góð vinnubrögð og þau eru það sem ég hef mestar áhyggjur af. Mér finnst þetta vera að gerast aftur og aftur. Sú viðleitni Stjórnarráðsins, sem er góðra gjalda verð, að auka samráð á fyrri stigum undirbúnings mála má ekki verða til þess að þingið sé svipt tíma sem það þarf til að fara vandlega yfir málin.

Við eigum allt of mörg dæmi um slys sem hafa átt sér stað í lagasetningu hér á landi, m.a. út af knöppum tíma sem þingið hefur haft til vinnslu mála og sú nýbreytni Stjórnarráðsins að taka upp samráðsferli áður en mál ganga síðan til þingsins kann að vera ágæt. Ef hún á að verða með þeirri afleiðingu að þingið verði bara stimpilpúði fyrir framkvæmdarvaldið er það afleit þróun að mínu viti og ég vona að við munum ekki horfa upp á síendurtekin tilvik eins og þessi.