149. löggjafarþing — 49. fundur
 13. desember 2018.
sérstök umræða.

Íslandspóstur.

[13:43]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Málefni Íslandspósts hafa verið allmikið til umræðu núna á undanförnum vikum, ekki síst eftir að í ljós kom að fyrirtækið þurfti neyðarlán frá ríkissjóði, reyndar lán sem hafði þegar verið veitt þá snemma í haust, en leitað var eftir heimild fjárlaganefndar og þings fyrir fáeinum vikum síðan. Það er alveg ljóst að það kom flestum nokkuð í opna skjöldu hversu alvarleg staða fyrirtækisins væri orðin, að fyrirtækið væri í raun komið í greiðsluþrot. Það nyti ekki lengur lánstrausts hjá viðskiptabanka sínum og þyrfti að leita atbeina ríkissjóðs til að í raun greiða út laun, eins og kom fram í umræðunni.

Það er sérstaklega alvarlegt af því hér er fyrirtæki í eigu ríkisins sem sinnir annars vegar þjónustu á sviði einkaréttar í póstþjónustu en er hins vegar í ansi umfangsmikilli samkeppnisstarfsemi um leið. Þess vegna er brýnt að bæði sé góður aðskilnaður á milli einkaréttarstarfsemi fyrirtækisins og síðan samkeppnisstarfseminnar, og eins koma óhjákvæmilega upp ýmis álitaefni þegar ríkissjóður þarf að hlaupa með þessum hætti undir bagga með rekstri félagsins.

Það er eins og þessi alvarlega rekstrarstaða hafi komið öllum í opna skjöldu, þar með talið þeim aðilum sem hefðu hvað gleggst átt að þekkja til. Er þá vísað til þeirra ráðuneyta sem fara með málefni fyrirtækisins, fjármálaráðuneytisins og samgönguráðuneytisins, en ekki síður eftirlitsaðila sem fylgjast með starfseminni. Rekstrarvandinn er rakinn til mikils taprekstrar á alþjónustu innan samkeppni, vert er að hafa það í huga: alþjónustu innan samkeppni, sér í lagi vegna aukins fjölda pakkasendinga frá Kína, sem fyrirtækið segir mikinn taprekstur hafa verið af. Á sama tíma er hins vegar óumdeilt að mikill hagnaður hefur verið af bréfasendingum innan einkaréttar hjá félaginu, hagnaðar sem með samþykki yfirvalda hefur verið nýttur til niðurgreiðslu á tapi af annarri starfsemi fyrirtækisins.

Íslandspóstur er að mínu viti skólabókardæmi um allt það sem miður getur farið í einokun ríkisins á einstökum sviðum atvinnulífsins. Megináhersla fyrirtækisins í rekstri þess á undanförnum árum virðist hafa verið að rökstyðja hækkunarþörf á þjónustu innan einkaréttar. Þegar reikningar félagsins eru skoðaðir eru engin merki að sjá um neina áherslu á aukið aðhald, neina áherslu á hagræðingu í rekstri félagsins, þrátt fyrir að stjórnendum og stjórn félagsins hefði átt að vera það ljóst að í óefni stefndi.

Þvert á móti hefur stöðugildum innan félagsins fjölgað um liðlega 100 frá árinu 2014 að telja, á sama tíma og fullyrða má að verulega hafi hallað undan í rekstrinum. Aðhaldi og ábyrgð pólitískt skipaðrar stjórnar og stjórnenda félagsins á rekstri þess virðist því hafa verið verulega áfátt. Raunar er þetta enn eitt dæmi um hversu óæskilegt er að ríkisfyrirtækjum sé stýrt af pólitískt skipuðum stjórnum. Það er allt of sjaldan sem einhver hæfisskilyrði, hæfni stjórnarmanna ráða för við skipan slíkra stjórna, heldur skiptir þar flokksskírteinið oftar en ekki öllu máli.

Á þessum tíma hefur félagið varið um 3 milljörðum kr. í fjárfestingar, m.a. í ýmsum samkeppnisrekstri, til að freista þess að skjóta stoðum undir reksturinn, en þær fjárfestingar virðast ekki hafa skilað neinum árangri. Þvert á móti liggur hins vegar eftir fyrirtækið slóð kvartana vegna ófullnægjandi aðskilnaðar einkaréttar og samkeppnisrekstrar, ásakanir um undirboð og ógagnsæi í starfseminni og svo mætti áfram telja. Raunar það margar að Samkeppniseftirlitið sá sig á endanum nauðbeygt í upphafi síðasta árs til að knýja fyrirtækið til sérstakrar sáttar um hvernig starfsemi þess yrði háttað eftirleiðis.

Stjórnvöld hafa ekki tekið á undirliggjandi vanda félagsins. Eftirliti með starfsemi þess virðist hafa verið verulega ábótavant og maður fær það á tilfinninguna að boltanum hafi stöðugt verið kastað á milli aðila, þ.e. fjármálaráðuneytisins, samgönguráðuneytisins og Póst- og fjarskiptastofnunar. Á meðan sigldi félagið í þrot.

Þessi vandi ætti ekki að koma neinum á óvart og raunar hafði verið varað ítrekað við því að svona kynni að fara. Það sem ég hef áhyggjur af í þessu samhengi er að hér erum við með í höndunum frumvarp til laga um verulegar breytingar í póstþjónustu þar sem einkaréttur félagsins verður afnuminn án þess að því er virðist að tekið hafi verið með fullnægjandi hætti á gríðarlegum rekstrarvanda fyrirtækisins, aðskilnaði milli þeirrar starfsemi sem nú á að hefja samkeppni á og hinum uppsafnaða rekstrarhalla.

Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. ráðherra þriggja spurninga: Hefur ráðherra látið vinna greiningu á þeim áhrifum sem frumvarp um póstþjónustu mun hafa á rekstur Íslandspósts, verði það að lögum? (Forseti hringir.) Hvernig á að standa straum af því tapi sem verið hefur á alþjónustunni eftir að einkarétturinn fellur brott? (Forseti hringir.) Kemur til greina að komið verði á sérstöku flutningsjöfnunarkerfi fyrir póstdreifingu til að opna betur upp (Forseti hringir.) samkeppnisumhverfið um allt land þegar einkarétturinn verður afnuminn?



[13:49]
Forseti (Þórunn Egilsdóttir):

Forseti vill góðfúslega minna hv. þingmenn á afmarkaðan ræðutíma.



[13:49]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Varðandi fyrstu spurningu hv. þingmanns um þá greiningu sem fram hefur farið er mikilvægt að hafa í huga að einn megintilgangur frumvarpsins er einfaldlega afnám einkaréttar ríkisins á bréfum undir 50 grömmum sem ríkið hefur til þessa falið Íslandspósti að sinna. Þar með verður loks opnað fyrir samkeppni hér á landi á þeim hluta póstmarkaðs sem hefur fallið undir einkaréttinn líkt og allar aðrar Evrópuþjóðir hafa valið að fara.

Annar megintilgangur frumvarpsins er síðan að tryggja eftir sem áður svokallaða alþjónustu, eins og stjórnvöld kjósa að skilgreina hana á hverjum tíma. Í grunninn snýst alþjónusta um að tryggja öllum lágmarksþjónustu og tíðni útburðar á pósti á viðráðanlegu verði. Kostnaður Íslandspósts vegna alþjónustu og endurheimt þess kostnaðar er grundvallaratriði í rekstri Íslandspósts. Við undirbúning póstfrumvarpsins fól því ráðuneytið Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að greina það verkefni í nóvember árið 2016 að meta kostnað við alþjónustu í póstflutningum og skilaði stofnunin skýrslu í júní 2017 og var hún lögð til grundvallar við undirbúning frumvarpsins, þ.e. sú greining.

Það má líka vera ljóst að mat á áhrifum frumvarpsins er flókið vegna töluverðrar óvissu um framtíðina og þróunina þar sem bréfum fækkar hratt og jafnvel hraðar en menn höfðu áætlað og talsverð óvissa er að mínu mati um hvernig þróunin verður í pakkasendingum, bæði innan lands og einnig frá útlöndum. Því er þörf á að lögin feli í sér verulegan sveigjanleika og ég tel að svo sé í því frumvarpi sem ég hef lagt fram á þinginu. Stefnt er að því að gera þjónustusamning þannig að hægt sé að meta árlega hvað ríkið er tilbúið að borga til að halda uppi ákveðnu þjónustustigi og þá með hliðsjón af því hver þörfin verður.

Hafa verður í huga að rafræn samskipti og rafræn þjónusta er að taka við af hefðbundnum bréfapósti og talsverð óvissa er, eins og áður er getið, með þróun pakkasendinganna.

Frumvarpið leggur ýmsar línur er snerta póstrekstur almennt, svo ég svari því hvernig á að takast á við tapið, og klárlega í starfsemi Íslandspósts ekki hvað síst. Í því samhengi er vert að hafa í huga að um er að ræða innleiðingu á Evróputilskipun þar sem svigrúm til útfærslu er afmarkað og hefur legið fyrir í mörg ár. Gert er ráð fyrir að tekið verði á tapinu í þjónustusamningi milli ríkis og Íslandspósts. Hann er hugsaður þannig í grófum dráttum að Íslandspóstur áætli alþjónustukostnað fyrir mismunandi þjónustustig fyrir komandi ár. Það fyrsta yrði væntanlega 2020. Ríkið sem samningsaðili færi yfir þá útreikninga og legði til breytingar eftir atvikum. Þannig mun verða til spá um kostnað fyrir næsta ár sem leggur til grundvallar ákvörðun stjórnvalda um að kaupa ákveðið þjónustustig af félaginu á næsta ári. Þetta skapar aukinn fyrirsjáanleika, bæði fyrir útgjöld ríkisins sem og rekstur félagsins. Að ári liðnu verður svo metið hvernig sú spá hefur gengið eftir, bæði með tilliti til aðlögunar og greiðslu til hækkunar eða lækkunar sem og vegna spár um kostnað vegna næsta og svo koll af kolli.

Stjórnvöld geta með þessu fyrirkomulagi ákveðið hvort heldur að tryggja tiltekið lágmarksþjónustustig gegn tilteknu samningsframlagi eða t.d. ákveðið hámarksfjárframlag sem stjórnvöld væru tilbúin að leggja af mörkum á hverjum tíma og aðlaga þjónustustigið að því. Þetta er það samnings- og greiðslufyrirkomulag sem lagt er upp með í ráðuneytinu sem hefur hafið undirbúning á að taka á þessu.

Hvað samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið varðar einna helst er komið til móts við óvissu um útfærslu á alþjónustu gagnvart notendum póstþjónustu á Íslandi annars vegar og samsvarandi óvissu um kostnað íslenska ríkisins við að tryggja valið þjónustustig hins vegar með gerð þessa þjónustusamnings sem minnst hefur á, í það minnsta áður en aðrir valkostir verða færir, svo sem útboð á einum eða fleiri þjónustuþáttum. Útboð á hvers konar þáttum póstþjónustu er ekki talinn raunhæfur valkostur alveg á næstu misserum, eins og fram kemur í frumvarpinu. Einnig er mikilvægt að fá fram viðbrögð markaðsaðila við breyttum aðstæðum á póstmarkaði við afnám einkaréttar. Svo á eftir að koma í ljós á hvaða undirmörkuðum póstmarkaða, svo sem söfnun, flokkun, dreifingu, sé mögulega flötur á heilbrigðri samkeppni.

Eðli máls samkvæmt mun þróun á póstmarkaði og þar með málefni Íslandspósts ohf. vafalaust bera á góma í þinginu á næstu misserum og jafnvel árum. Æskilegast væri að sjálfsögðu að alþjónusta verði uppfyllt á hreinum markaðsforsendum, þau lönd eru til í Evrópu. Verður það keppikefli ráðuneytisins hversu óraunhæft sem það langtímamarkmið kann að virðast í augnablikinu.

Hin hliðin á málinu er sú að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið fer ekki með hlutabréfið í félaginu, skipar ekki stjórn þess, ákveður ekki skipulag eða stefnu félagsins og hefur ekki áhrif eða boðvald um rekstur eða fjárfestingar þess. Þetta eru þættir sem snúa að fjármálaráðuneytinu og er mikilvægt að halda til haga í þessari umræðu.

Nýtt frumvarp að póstlögum liggur nú fyrir þinginu, eins og hv. þingmaður kom inn á. Það setur eðlilega ákveðinn ramma um fyrirkomulag póstþjónustu til komandi ára. Útfærsla þess er þess eðlis að það veiti stjórnvöldum töluvert svigrúm til að aðlaga alþjónustuna að þörfum samfélagsins, tækniþróun, eftirspurn sem og greiðsluvilja Alþingis. Frumvarpið breytir þó ekki núverandi ábyrgðarskiptingu milli ráðuneytanna er lýtur að ofangreindu.

Það fellur í skaut þess ráðuneytis sem fer með eignarhald á Íslandspósti á hverjum tíma að bera ábyrgð á því að stjórn félagsins og stjórnendur aðlagi félagið og rekstur þess að fyrirsjáanlega breyttum aðstæðum og áskorunum. (Forseti hringir.) Það hefur komið fram að fjármálaráðuneytið hefur sett af stað margþætta vinnu í tengslum við málefni Íslandspósts er lúta að þessum málum og við bindum því vonir við að sú vegferð leiði til þess að hagkvæmari og skilvirkari rekstur muni hafa sitt að segja til lækkunar á mögulegu ríkisframlagi vegna alþjónustu í framtíðinni í breyttu fyrirkomulagi.



[13:54]
Forseti (Þórunn Egilsdóttir):

Enn minnir forseti góðfúslega á afmarkaðan ræðutíma.



[13:55]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Staða Íslandspósts er grafalvarleg. Það dylst engum, en það ætti heldur ekki að koma neitt á óvart. Staða Íslandspósts hefur nefnilega verið grafalvarleg árum saman. Má jafnvel segja að svo hafi verið í rúman áratug. Hæstv. samgönguráðherra talar um óvissu vegna þróunar á bréfa- og pakkasendingum en þessi svokallaða óvissa hefur verið öllum ljós í a.m.k. áratug og er vel hægt að fara á internetið og sjá umræðu um þetta fyrirtæki. Óvissan er því í raun engin óvissa. Stjórnvöld hafa bara ekkert brugðist við.

Ýmislegt virðist hafa verið gert í tilraunum til að bæta hag þessa opinbera hlutafélags en einnig virðist sem ýmsar aðgerðir stjórnenda hafi frekar aukið vanda þess. Þá hefur einnig undanfarinn áratug hið minnsta verið til skoðunar hjá samkeppnisyfirvöldum hvort hið opinbera hlutafélag, Íslandspóstur ohf., kunni að hafa nýtt eitthvað af því fjármagni sem það fær frá ríkinu inn í rekstur eða eignir sem tilheyra dótturfélögum í samkeppnisrekstri.

Forstjóri Íslandspósts kom fram í fjölmiðlum á dögunum eftir að meiri hluti fjárlaganefndar hafði afgreitt tillögur sínar um lánveitingar til handa þessu félagi, um 1.500 millj. kr. Sagði hann að með neyðarláni ríkissjóðs, sem meiri hluti Alþingis samþykkti við lokaumferð fjárlaga, sé fyrirtækið komið fyrir vind í bili. En, frú forseti, þrátt fyrir þessa miklu fjárheimild, því að varla er fyrirtækið bært til að endurgreiða lánið, segir forstjórinn að blikur séu á lofti strax á næsta ári.

Ég verð að segja, frú forseti, að ég hef mjög miklar áhyggjur af þessari stöðu og meira en það, ég hef líka mjög miklar áhyggjur af andvaraleysi ríkisstjórnarinnar sem á að passa upp á fjármuni okkar allra, sameiginlega fjármuni landsmanna. Ég hef áhyggjur af því að sömu stjórnendum og hafa stýrt þessu fyrirtæki allan þennan tíma, a.m.k. síðasta áratug, sé falið að halda áfram um stýrið. (Forseti hringir.) Ég hef áhyggjur af því að okkur sem eigum að hafa eftirlit með okkar stofnunum, fyrirtækjum okkar, sé gert að samþykkja taumlausar fjárveitingar til fyrirtækis sem áfram er stýrt á sama veg.



[13:57]
Haraldur Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. málshefjanda þessarar umræðu. Ég get tekið undir mjög margt af því sem hann rakti í sinni framsögu um þau vandamál sem þetta fyrirkomulag hefur skapað og þá tortryggni sem athafnir þessa mikilvæga fyrirtækis á markaði hafa skapað. Í meginatriðum horfi ég á þetta þannig að við fylgjum hér nákvæmlega sömu þróun og hefur verið í langan tíma í okkar heimshluta, á Norðurlöndum, þar sem póstmagn hefur minnkað verulega. Það hefur verið ráð okkar hingað til að láta fyrirtækið þróast með þeim hætti sem það hefur gert til að þurfa ekki að grípa inn í, með opinberum fjármunum, vegna þeirrar kvaðar sem hvílir á ríkinu en ekki fyrirtækinu, til að leysa úr því að lágmarkspóstþjónusta sé rekin í þessu landi. Ég held að það sé grundvallaratriði.

Ég ítreka við þessa umræðu hér að við vinnu hv. fjárlaganefndar vegna fjárheimildanna, en ekki fjárútgjalda eins og mátti álykta af orðum síðasta ræðumanns, fórum við rækilega yfir þær aðgerðir sem þar liggja á borðinu og ég vil við þetta tækifæri hrósa stjórnendum og stjórn Íslandspósts fyrir aðgerðirnar sem þeir eru að grípa til. Meginmálið er þetta, virðulegi forseti: Það skiptir máli hvernig þingið fjallar um hið nýja frumvarp til laga um póstþjónustu sem er að koma inn í þingið og hvaða stefnumörkun verður þar lögð. Ég sé fyrir mér í öllum aðalatriðum að við verðum áfram með Íslandspóst sem einhvers konar meginpóstfyrirtæki þessa lands en ýmsa þjónustuþætti póstþjónustunnar megi bjóða út. Ég verð að segja, virðulegur forseti, að ég þarf meiri umræðu til að geta tekið undir með hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra þegar hann segir að það sé ekki mögulegt að fara útboðsleið. Vel má vera að það sé ekki tímabært nákvæmlega á þessu stigi en ég gæti vel séð fyrir mér að við fælum flutningafyrirtæki á hinum almenna markaði, sem gæti boðið í ákveðna hluta póstþjónustunnar, til að tryggja lágmarkspóstdreifingu um allt land.



[14:00]
Birgir Þórarinsson (M):

Frú forseti. Við ræðum hér mikilvægt mál. Póstþjónustan í landinu verður að ganga hnökralaust fyrir sig, ég held að við séum öll sammála um það, en vandinn í rekstri þessa fyrirtækis er alvarlegur og það er ekki síst ámælisvert hversu seint málið er kynnt fjárlaganefnd. Það vekur ákveðnar spurningar. Nauðsynlegt hefði verið að fjárlaganefnd hefði kallað eftir greiningarvinnu á rekstrinum frá þar til bærum aðilum eins og Ríkisendurskoðun áður en ákvörðun er tekin um að veita fyrirtækinu þetta lán. Eins og við þekkjum hafa skuldir fyrirtækisins aukist jafnt og þétt frá því að fyrirtækið var gert að opinberu hlutafélagi. Þetta hefur nefnt hér. Óháð úttekt á taprekstrinum hefði átt að fara fram og það hefði einnig átt að skoða ábyrgð stjórnenda fyrirtækisins að mínu mati hvað þetta varðar.

Rekstur þessa fyrirtækis er núna kominn í þrot, eins og við þekkjum, og það er verið að senda reikninginn á skattgreiðendur. Á fyrri stigum hefði átt að grípa til aðgerða. Þessi vandi er ekki til kominn á einni nóttu. Auk þess þarf að fara yfir fjárfestingar fyrirtækisins á undanförnum árum.

Forstjóri fyrirtækisins hefur sagt að bréfum hafi fækkað langt umfram það sem reiknað var með og þar með drógust tekjur saman sem því nam. Tekjurnar áttu m.a. að standa undir kostnaði við póstþjónustu. Þá setur maður spurningarmerki við það hvernig áætlanagerð innan þessa fyrirtækis er háttað þegar það verður svona mikið frávik frá tekjuáætlun. Jafnhliða ákvörðun um afnám einkaréttar er sérstaklega brýnt að svara því hvernig leysa eigi þessa ófjármögnuðu alþjónustubyrði sem fylgir rekstrarleyfi Íslandspósts.

Það verður að segja það, frú forseti, að umgjörðin um þetta mál hefur öll verið í ólestri og engan veginn í samræmi við góða stjórnsýsluhætti.



[14:02]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Íslandspóstur er þjóðhagslega mikilvægt fyrirtæki í eigu allra landsmanna sem stendur nú frammi fyrir gjörbreyttu rekstrarumhverfi og tilheyrandi rekstrarerfiðleikum. Fyrirtækið hefur nú þegar brugðist við með hagræðingu jafnt á landsbyggðinni sem á höfuðborgarsvæðinu. Alþjónustuskylda póstsins gagnvart landinu öllu er mikilvæg en setur fyrirtækið í aðra stöðu en sambærileg fyrirtæki, sem geta fleytt rjómann ofan af þar sem umsvifin eru mest og hafa engar kvaðir um alþjónustuskyldu.

Íslandspóstur á miklar eignir og hefur yfir að ráða miklum mannauð vítt og breitt um landið. Þetta er vel rekið fyrirtæki sem glímir við sama vanda og önnur sambærileg póstþjónustufyrirtæki á Norðurlöndunum sem eru líka í eigu ríkisins og standa frammi fyrir fækkun almennra bréfa, auknum kostnaði við alþjónustu og miklum kostnaði í verslun á netinu, svokölluðum Kínasendingum, sem eru fjárhagslegur baggi á fyrirtækinu.

Í kjölfar lánveitingar ríkisins til Íslandspósts hyggst fyrirtækið grípa til margvíslegra ráðstafana til að tryggja rekstrargrundvöll þess til framtíðar og hefur verið settur á fót aðgerðahópur til þess að fylgja þeirri vinnu eftir með tillögum til ríkisins. Ríkið þarf líka að skilgreina þjónustustigið og byggja á alþjónustuskyldu við alla landsmenn. Í þinginu er til umfjöllunar frumvarp um heildarendurskoðun laga um póstþjónustu og er mikilvægt að vanda þar vel til verka því að póstþjónustan er einnig einn af þeim grundvallarþáttum samfélagsins sem við þurfum að standa vörð um og er á ábyrgð ríkisins. Það er mjög mikilvægt að þjónustan haldi áfram að vera góð og skilvirk úti um allt land.



[14:04]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hér er erfitt mál til umfjöllunar en í umsögn Ríkisendurskoðunar um frumvarp til fjáraukalaga 2018 segir:

„Almennt er óheppilegt að ekki liggi nákvæmlega fyrir hvernig fyrirhugað sé að taka á rekstrarvanda félagsins þannig að tilskilinn árangur náist áður en tekin er ákvörðun um framlög úr ríkissjóði til félagsins. Fyrir þarf að liggja fyrir hvort og þá hver fjárhagsvandinn sé vegna einkaréttarhluta starfseminnar, […] vegna alþjónustukvaða sem lagðar eru á fyrirtækið eða vegna samkeppnisstarfsemi sem það stundar. Þeir möguleikar sem fyrir hendi eru til að takast á við vandann hljóta að ráðast að miklu leyti af niðurstöðu slíkrar greiningar.“

Ríkisendurskoðun fær ekki slíka greiningu. Fjárlaganefnd fær ekki slíka greiningu. Alþingi fær ekki slíka greiningu. Þetta er endurlán. Í frumvarpi til fjáraukalaga er lögð til breyting á 2. tölulið 5. gr. fjárlaga, sem er um endurlán ríkisins. Endurlán ríkisins fjalla um ríkisábyrgðir, það stendur í ríkisábyrgðalögum að ákvæði þeirra laga gildi einnig um endurlán ríkissjóðs eftir því sem við á. Samt fáum við ekki umsögn Ríkisábyrgðasjóðs um það hvernig stendur á þessu láni, hvort það uppfylli öll skilyrði um lög um ríkisábyrgðir. Það vantar greiningu á því af hverju vaxtaupphæðin er eins og hún er því eins og kom fram í máli framsögumanns eru ekki markaðsforsendur fyrir því lengur að fá lán hjá viðskiptabanka félagsins. Þá hljóta vaxtaforsendurnar að breytast en samt er tekið fram að vextirnir á láninu sem Íslandspóstur fær séu einmitt á markaðsforsendum, á þeim kjörum sem það hefur fengið í upphafi ársins. Við erum á þeim stað að það er verið að endurlána núna 1.500 milljónir sem geta ekki verið neitt annað en styrkur, ríkisstyrkur. Það er ekkert fyrirséð að Íslandspóstur nái að endurgreiða þetta lán og, eins og ég hef sagt áður, ef hann nær að endurgreiða lánið þarf hann bara enn frekari ríkisstyrk í kjölfarið út af (Forseti hringir.) þessu undirliggjandi vandamáli sem er ekki lausn á.



[14:06]
Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér alvarlega stöðu Íslandspósts. Það er ekki að furða þótt manni finnist þetta einkennilegt allt saman, hvernig þessu hefur verið stýrt upp á síðkastið, þegar maður hugsar til þess að frá árinu 2014 hefur verið mikil bjartsýni í gangi. Síðan þá hefur verið aukið við stöðugildi hjá Íslandspósti um rúmlega 90. Kostnaðurinn við það er um 1,4 milljarðar kr. Fyrir viku var opnað glæsilegt, nýtt 650 m² pósthús á Selfossi, metnaðurinn mikill, 300 milljónir þar. 700 milljónir hafa farið í stækkun á flutningsmiðstöð fyrirtækisins á Stórhöfða á sama tíma og talað er um að hugsanlega horfi fyrirtækið fram á samdrátt.

Auðvitað verðum við að taka utan um fyrirtækið og sjá til þess að pósturinn okkar verði tryggur. Við eigum öll rétt á því að fá okkar sendingar en við verðum líka að skoða hvað hægt er að gera til hagræðingar. Mér dauðbrá þegar forstjóri stofnunarinnar kom fram og sagði að í raun væri bara rétt verið að koma fyrirtækinu fyrir vind, að því yrði vandi á höndum, eins og hann gaf í skyn, strax á árinu 2019.

Þá finnst mér að við verðum sýna gott fordæmi og vita hvað við erum að gera, og að það verði þá einhverjar verulegar hagræðingar hjá Íslandspósti. Það er algjörlega síðasta sort að taka 1,5 milljarða af almannafé og hafa næstum því á tilfinningunni að við séum að henda því út um gluggann vegna þess að það skili ekki tilætluðum árangri. Mér finnst vinnan ekki vera nógu öflug hvað varðar ábyrgðina sem við þurfum að taka á almannafé akkúrat núna. Ég skora á stjórnvöld að horfa fram fyrir tærnar á sér og taka ábyrgð á þessum 1,5 milljörðum og vita a.m.k. að þeim verði vel varið.



[14:08]
Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Ég ætla ekki að tala um póst heldur um rekstur á opinberu hlutafélagi sem komið er í þrot í rekstri sínum, og það flestum að óvörum. Tilgangurinn með innleiðingu laga um opinber hlutafélög árið 2006 var að bæta aðgengi almennings og annarra að upplýsingum um hlutafélög sem hið opinbera á að fullu. Þeirri breytingu fylgdi m.a. að stjórnsýslulög, lög um upplýsingaskyldu og lög um réttindi opinberra starfsmanna hættu að gilda um viðkomandi stofnun félaga.

Þeir sem fögnuðu þeirri breytingu sögðu hana auka sveigjanleika í rekstri viðkomandi stofnana. Þeir sem voru á móti sögðu hins vegar að annars vegar gæti þessi breyting bitnað á réttindum starfsmanna og hins vegar minnkað gegnsæi í rekstri.

Nú stöndum við frammi fyrir því að ræða stöðu Íslandspósts sem hefur vissulega notið sveigjanleika í rekstri og þá fyrst og fremst með miklum fjárfestingum, misvel heppnuðum, í ýmiss konar samkeppnisrekstri. Ég held að við getum öll verið sammála um að sveigjanleikinn er ekki mikill.

Þá komum við að því hver ber ábyrgðina á því. Það er eitt félag, eitt ráðuneyti, einn aðili sem fer með þetta eina atkvæði fyrir hönd almennings í þessu opinbera félagi. Það er fjármálaráðuneytið. Stjórn Íslandspósts er pólitískt skipuð og hefur verið það frá upphafi. Þar hefur m.a. setið aðstoðarmaður fjármálaráðherra, þess sem fer með þetta atkvæði. Það virðist ekki hafa skilað sínu í gagnsæinu.

Það er ekki nema von að maður spyrji: Höfum við gengið götuna til góðs? Ég ætla ekki að varpa allri ábyrgðinni yfir á fjármálaráðherra þó að hún sé töluverð í þessu tilfelli, heldur langar mig að benda á annað sem tekið var sérstaklega fyrir og tilgreint við þessa breytingu. Þegar um er að ræða opinber hlutafélög mega fulltrúar eigenda mæta á aðalfundi og bera fram skriflegar tillögur, í þessu tilfelli alþingismenn. Ég held að það sé nokkuð ljóst við þessa umræðu að ef við ætlum að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig, að opinber hlutafélög sem fjármálaráðherra er gæslumaður að og við berum ábyrgð á séu rekin á þennan hátt í myrkrinu þar til eina úrræðið verður svo skyndilausn að sækja fé í vasa almennings, til skattgreiðenda, að við sem gæslumenn hér þurfum einfaldlega að standa okkur betur.



[14:11]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni, málshefjanda, fyrir þessa umræðu um Íslandspóst, um stöðuna og horfur í póstdreifingu. Ég vil þakka hæstv. ráðherra jafnframt fyrir hans innlegg. Íslandspóstur hefur verið mikið í umræðunni og á vettvangi þingsins í tengslum við fjárlagaumræðuna og veitingu lánsheimilda. Það er mikilvægt að taka þetta sjónarhorn sem hv. málshefjandi leggur hér til umræðunnar, að svara til framtíðar litið hver áhrifin af frumvarpinu, sem er til umræðu í hv. umhverfis- og samgöngunefnd um afnám einkaréttar, verða á reksturinn og hvernig eigi að standa straum af kostnaði við alþjónustu. Ef frumvarpið verður að lögum verður það 2020.

Íslandspóstur sinnir lögboðinni alþjónustuskyldu íslenska ríkisins á sviði póstþjónustu. Skyldur félagsins felast m.a. í því að tryggja öllum landsmönnum á jafnræðisgrundvelli aðgang að alþjónustu sem uppfyllir ákveðnar gæðakröfur á viðráðanlegu verði. Þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar við skoðum reksturinn. Þá fékk hv. fjárlaganefnd svar frá stjórn Íslandspósts um fyrirhugaðar aðgerðir og þar kemur glöggt fram að tekjur af einkarétti hafa í minnkandi mæli staðið undir alþjónustu. Það má glöggt sjá af gögnum. Fyrirtækið hefur reynt að búa til og byggja upp til framtíðar dreifikerfi til þess að sinna alþjónustunni.

Stjórn og stjórnendur Íslandspósts vinna nú að gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2019 og þar er farið yfir tekjuöflunarmöguleika og einstaka rekstrarliði í því skyni að treysta tekjugrunn félagsins og draga úr kostnaði, þ.e. farið í almennar hagræðingar- og aðhaldsaðgerðir. Ég get tekið undir með hv. málshefjanda að þær hefðu mátt hefjast fyrr. En ég minni síðan á að lánsheimildin umrædda er skilyrt því að ráðherrar upplýsi um framvindu þessarar rekstrarhagræðingar. Þá fáum við nánari greiningu á því áður en veitt er lán.



[14:13]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Þetta er mjög þörf umræða sem er hér í dag um þetta opinbera hlutafélag okkar, Íslandspóst. Mig langar í seinni ræðu minni aðeins að fjalla um samkeppnisreksturinn, samkeppnisþátt þessa fyrirtækis. Árum saman, a.m.k. síðasta áratug og jafnvel síðustu tvo áratugi, hefur verið kvartað mjög undan rekstri Íslandspósts á dótturfélögum sínum sem eru í samkeppnisrekstri. Á dögunum kom í ljós að tekin hafði verið ákvörðun um það hjá stjórnendum Íslandspósts að sameina Íslandspóst dótturfélagi sínu ePósti, sem er einmitt póstfyrirtæki í bullandi samkeppni. Þar að auki hafði Íslandspóstur lánað ePósti, þ.e. þessu fyrirtæki í samkeppnisrekstri, fjármuni út úr sínu fyrirtæki, Íslandspósti, sem nær svo í peninga hjá okkur hinum vegna erfiðrar rekstrarstöðu. Lánið til dótturfélagsins reyndist ekki bera vexti eins og eðlilegt þykir. Þá veltir maður fyrir sér: Á hvaða stað erum við þarna í samkeppnisrekstrinum? Formaður Félags atvinnurekenda talaði um að með þessu væri Íslandspóstur klárlega að brjóta sátt sem gerð var við Samkeppniseftirlitið fyrir nokkru síðan, einmitt vegna reksturs opinbera hlutafélagsins á dótturfélögum sínum.

Ég hef miklar áhyggjur af því, frú forseti, að ríkið hafi nú tekið ákvörðun um þessa 1.500 millj. kr. innspýtingu vegna þess að ég óttast að Eftirlitsstofnun EFTA muni koma og hreinlega flengja okkur fyrir þessa framkvæmd. (Forseti hringir.) Íslandspóstur hefur árum saman verið í bullandi samkeppnisrekstri (Forseti hringir.) og slík fjárveiting er með öllu óheimil.



[14:16]
Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir að hefja þessa umræðu því að við heyrum á þessum ræðum að það er gríðarlega mikilvægt að ræða um Íslandspóst og framtíð póstflutninga í landinu.

Mig langar að byrja á að segja að mér fannst hreint út sagt ömurlegt að þurfa að afgreiða neyðarlán til Íslandspósts um daginn. Ég gerði það engu að síður vegna þess að fjárlaganefnd hafði sett stífa skilmála gagnvart því, ákveðin skilyrði sem pósturinn þarf að uppfylla. Einnig vegna þess að ég heyrði engan hér í þingsal koma með einhverjar betri hugmyndir um hvernig bregðast ætti við því ástandi sem uppi var.

Í mínum huga var ekki leiðin að segja nei við þessu láni og láta Íslandspóst fara í gjaldþrot. Mér heyrist allir í þessum sal vera sammála um að það sé mikilvægt að halda uppi póstþjónustu í landinu. Ég ætla reyndar að segja það fyrir mitt leyti að mér finnst alveg hundleiðinlegt að fá póst og myndi vilja fá miklu sjaldnar ef því væri að skipta og held að það mætti alveg skoða ákveðna hagræðingu þegar kemur að slíku.

En hvað fyrirtækið Íslandspóst varðar þá er um flutningsfyrirtæki að ræða og það er alveg fullt af flutningsfyrirtækjum úti á markaðnum sem sinna ýmiss konar þess háttar þjónustu.

Auk þess sjáum við fram á þá miklu breytingu sem felst í rafrænni þjónustu og rafrænni póstþjónustu þannig að sá markaður er að breytast mjög mikið. Það eru auðvitað helstu rökin sem stjórnendur Íslandspósts hafa fært fyrir þeirri stöðu sem upp er komin, sem er ekki alveg ný og stjórnvöldum hefur svo sem verið ljós í ákveðinn tíma þó að ekki hafi verið brugðist við fyrr en núna.

Ég verð að segja fyrir mitt leyti að ég held að það sé mikilvægt að við ræðum frumvarp um framtíð póstþjónustunnar sem liggur fyrir þinginu. Ég hefði sjálf gjarnan viljað sjá að við seldum fyrirtækið Íslandspóst og byðum út þá þjónustu sem við teljum að sé þess eðlis að það þurfi að greiða eitthvert ríkisfé með og leyfa fyrirtækjum á markaði að taka þátt í slíku útboði, því að þetta er mikilvæg þjónusta. Ég get engan veginn séð rök fyrir því að reksturinn þurfi endilega að vera á herðum ríkisins til lengri tíma litið.



[14:18]
Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Þar sem tími jólakortanna er runninn upp má segja að þessi umræða sé vel við hæfi. Íslandspóstur er í vanda en sá vandi skýrist að miklu leyti af minnkandi póstmagni og miklum kostnaði við að dreifa sendingum sem koma frá Kína. Kostnaðurinn við þá flutninga er mikill en tekjurnar litlar. Íslandspóstur er í eigu ríkisins og hefur ákveðnar skyldur. Til að uppfylla skyldur virðist einungis tvennt vera í stöðunni, að hækka greiðslur til Íslandspósts eða skerða þjónustuna. Skerðing á þjónustu mun hafa meiri áhrif á landsbyggðina og hinar dreifðari byggðir en þéttbýlissvæðin. Mig langar til að velta því upp hvernig við sjáum þessa hluti fyrir okkur. Eru til einhverjar lausnir sem við gætum nýtt til að koma til móts við Íslandspóst? Ég geri mér ekki grein fyrir því hvað mikið myndi sparast á því að færa póstkassa að lóðamörkum eins og Danir gerðu eða taka með lögum böggla út úr alþjónustuskyldu eins og Finnar gerðu. Það breytir því ekki að umræðuna verðum við að taka. Við verðum að komast að skynsamlegri niðurstöðu sem okkur hugnast. Er það t.d. lausn að bera út sjaldnar en bjóða upp á að fólk geti sótt böggla eða bréf í pósthús? Það er spurning.

Í mörgum tilfellum eru tilkynningar um póstsendingar sendar rafrænt og í mörgum tilfellum gæti verið mögulegt að koma slíku við. Stjórnvöld verða að hafa stefnu fyrir Ísland allt í þessum málum. Íbúar á ystu nesjum, á afskekktustu stöðum okkar fallega lands, ættu að fá sömu þjónustu og þeir sem búa á þéttbýlissvæðinu. Þetta flokkast sem grunnþjónusta í landinu og okkur stjórnmálamönnunum ber skylda til að veita Íslendingum þá þjónustu.



[14:20]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það er mikilvægt að sýna ábyrgð í þessu máli. Mér fannst reyndar ekki allir gera það eins og kom í ljós í atkvæðagreiðslum um heimild Íslandspósts til að draga á lán til ríkisins í umræðunni um fjárlögin. Hugmynd málshefjanda um flutningsjöfnunarkerfi í póstþjónustu er áhugaverð og ég tel að hana þyrfti að skoða rækilega.

Póstþjónusta er einn af grundvallarþáttum samfélagsins og það er mjög mikilvægt að hún sé skilvirk um land allt. Það er áhugavert að segja frá því að Póstmannafélagið verður 100 ára á næsta ári og það er ágætisgrein í Morgunblaðinu í dag eftir formann þess.

Alþjónustan er á ábyrgð ríkisins og við höfum falið Íslandspósti að framkvæma skylduna. Þetta vandamál, hversu hratt bréfpóstur hefur dregist saman, er ekki séríslenskt fyrirbæri. Sambærileg vandamál hafa verið á Norðurlöndunum og af þeim eigum við að reyna að læra hvað hefur virkað og hvað hefur ekki virkað til að tryggja alþjónustu.

Ég bendi á að fyrir hinar dreifðu byggðir þar sem langt er í þjónustuaðila er reglubundin póstþjónusta lykilatriði. Hér hugsa ég t.d. um trillusjómanninn eða bóndann sem þarfnast varahluta í bilaðan mótor og mikið liggur við. Því geld ég varhuga við því að draga frekar úr þjónustu hvað þetta varðar. Íslandspóstur er fyrirtæki í eigu okkar allra og því verður að verja verðmætin sem felast í því fyrirtæki, ekki bara leyfa því að fara á höfuðið eins og virtist að sumir þingmenn væru að fara með við afgreiðslu fjárlaga.

Ísland er stórt og Íslendingar fáir í hinu stóra samhengi. Mannfjöldi á ferkílómetra er hér margfalt minni en í öllum þeim löndum sem við berum okkur saman við. Hugsanlega gæti farið svo að einhverjir einkaaðilar sæju sér hag í því að fara í samkeppni við Íslandspóst á höfuðborgarsvæðinu með 50 g bréfin en ég sé ekki fyrir mér að það yrði mikið utan þess. Þetta verður að skoða vandlega og fjárlaganefnd, eins og kemur fram í nefndaráliti um fjárlögin, hyggst fylgjast vandlega með og hefur farið fram á áður en lánið verður nýtt að hún verði upplýst um framgang fjárhagslegrar endurskipulagningar og útfærslu á framtíðarrekstrarfyrirkomulagi. Með því sýnum við ábyrgð gagnvart þessu mikilvæga fyrirtæki, Íslandspósti.



[14:23]
Snæbjörn Brynjarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er reyndar ekki svo brjálæðislega mikil þjónusta við okkur á höfuðborgarsvæðinu. Ég veit að pósthúsið hérna í 101 mun loka brátt, þannig að fleiri geta kvartað undan því, en við getum svo sem hjólað og sótt okkur póstinn einhvers staðar annars staðar. (Gripið fram í.)

Mig langar svolítið að velta fyrir mér stjórnum sem stjórnmálamenn skipa eða eru skipaðar af stjórnmálamönnum. Oft fara þær út í óskynsamlegar fjárfestingar og mér dettur í hug að hér sé dæmi um slíkt. Þetta er kannski ekki eins gróft og þegar OR fór á sínum tíma út í einhvers konar rækju- eða humarrækt eða skelfiskrækt eða hvað það nú var.

Engu að síður spyr maður: Hvað er í gangi þegar verið er að veita dótturfyrirtækjum lán án vaxta? Stenst það lög? Svo má líka spyrja: Af hverju er stöðugildum fjölgað um 90 á sama tíma og samdráttur er í póstþjónustu? Það er eitthvað sem maður getur spurt sig að. Það geta vel verið einhverjir pólitískir hagsmunir þar í húfi.

Ég ber samt auðvitað mikla virðingu fyrir þessari grunnþjónustu. Það er mikilvægt að við hlúum að henni og pössum upp á hana. Við verðum samt að spyrja okkur: Hvar ætlum við að setja mörkin? Hvar ætlum við að segja að hér verði samkeppnislögmálin að gilda? Við þurfum líka að velta fyrir okkur hvar peningunum sé best varið. Fyrir mitt leyti væri ég til í að sjá pósthús alls staðar, mér finnst þetta fallegar og skemmtilegar byggingar, sérstaklega þegar þau eru í gömlum húsum. Við ættum endilega að passa upp á þær byggingar.

Við sem neytendur ættum kannski líka að spyrja: Ef við erum að fara að fjármagna lán eins og við höfum gert núna, 1,5 milljarða, erum við að fá ódýrari þjónustu fyrir vikið? Erum við að fá þjónustu sem er nær okkur? Í mínu tilviki verð ég að segja: Nei, skattpeningar mínir fara ekki í að fjármagna þjónustu sem er nær mér og ódýrari í augnablikinu.



[14:25]
Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu verðum við að vernda póstþjónustuna okkar, það er ekki spurning. Það er alltaf verið að tala um einhverjar bréfasendingar frá Kína en við fáum mjög fá bréf frá Kína. Hins vegar fáum marga pakka þaðan. En jú, við stefnum öll að því að draga úr bréfanotkun. Það er yfirlýst stefna okkar að reyna að koma því flestu á rafrænt form.

Það breytir ekki þeirri staðreynd að sú staða sem upp er komin hjá Íslandspósti í dag er ekki ný, hún var fyrirséð. Það dapra í stöðunni er að því skuli slengt fram hér og nú og að ekki hafi verið búið að gera það með meiri fyrirvara. Þannig að ég segi: Öllu eftirliti er afskaplega áfátt og líka eftirfylgni okkar með því hvernig hin raunverulega staða er hjá Íslandspósti og hvað við getum gert til hagræðingar. Við erum að setja 1.500 milljónir inn í þetta fyrirtæki sem er með 60% veltu á samkeppnismarkaði. Ég tek undir það með hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur að það gæti verið að við værum að skapa okkur skaðabótaskyldu með því að stíga svona harkalega inn á samkeppnismarkað, þó svo að pósturinn sé opinbert hlutafélag að 40% leyti sem er svo með 60% á samkeppnismarkaði.

Mér finnst við eigum að vanda okkur pínulítið betur og ekki fara svona rosalega fljótt í þetta, sérstaklega í ljósi þess að forstjóri Íslandspósts hefur sagt að við værum í rauninni rétt aðeins að redda þessu fyrir horn. Horfum pínulítið lengra. Við sjáum a.m.k. ekki fram á að fá þessar 1.500 milljónir nokkurn tímann til baka. Látum þeim vera vel varið.



[14:27]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir mjög góða umræðu um þetta mikilvæga mál um leið og ég fagna að sjálfsögðu því að hér sé í vændum afnám á einkarétti á póstþjónustu. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við komum hér á samkeppni eins og á sem flestum sviðum samfélagsins. Samkeppni leiðir að mínu viti alltaf til einhvers góðs, leiðir til hagkvæmari þjónustu, gjarnan betri þjónustu, og þau rök sem notuð hafa verið fyrir einkaréttinum hér líkt og víða annars staðar eru löngu úr sér gengin.

Um leið og ég fagna því einlæglega er auðvitað líka mjög mikilvægt að tryggja að hér verði búið svo um hnútana að það verði raunveruleg samkeppni og helst um allt land. Þess vegna velti ég upp þeirri spurningu hvort þyrfti að koma á einhvers konar flutningsjöfnun til að tryggja að það sé raunverulega hægt að bjóða í þjónustu um allt land, ekki aðeins á höfuðborgarsvæðinu og mögulega Eyjafjarðarsvæðinu sem eru þau svæði sem liggur í augum uppi að yrði samkeppni á. Við viljum auðvitað tryggja að þetta sé sem víðast.

Það er líka ástæða til að skoða vandlega hvort skýringar félagsins sjálfs á ástæðum taprekstrarins eigi við rök að styðjast. Það hefur verið gagnrýnt af hálfu keppinauta að félagið standi í skipulögðum undirboðum, m.a. endurteknar kvartanir til samkeppnisyfirvalda, og þess vegna er gríðarlega mikilvægt að kanna hvar rót vandans liggur í raun, hver sé ástæða þessarar erfiðu stöðu fyrirtækisins. Þess vegna hefur þingflokkur Viðreisnar ákveðið að fara fram á það í þinginu að gerð verði sérstök óháð úttekt á rekstri Íslandspósts þar sem farið verði vandlega yfir rót þessa rekstrarvanda. Hvernig hefur aðskilnaði milli samkeppnisrekstrar og einkaréttar verið háttað hjá fyrirtækinu? Er það á hreinu að einkarétturinn hafi ekki verið að niðurgreiða samkeppnisrekstur? Hvar liggur ábyrgðin? Hefur eftirliti verið sinnt nægjanlega vel? Ég held að það sé mjög mikilvægt að við fáum skýr (Forseti hringir.) og greinargóð svör við þessum spurningum.



[14:29]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu sem hefur, eðli málsins samkvæmt, verið meira um núverandi rekstur og stöðu en endilega það sem hún átti að snúast um, þ.e. hvernig nýtt frumvarp geti hugsanlega tekist á við vanda póstsins. Ég vil líka leggja áherslu á hversu mikilvæga þjónustu Íslandspóstur veitir hringinn í kringum landið, það er mikilvæg grunnþjónusta fyrir alla.

Póst- og fjarskiptastofnun, sjálfstæð stofnun sem hefur eftirlit með þessu fyrirtæki, mat það svo að á árinu 2017 hafi verðlagning á bréfum innan einkaréttar vegið upp meintan taprekstur Íslandspósts af alþjónustunni. Það ár var nokkurn veginn í jafnvægi. En árið 2018 hefur greinilega farið mun verr af stað og staðan versnað núna undir lok ársins, m.a. vegna enn frekari fækkunar bréfa og Kínapakkanna.

Félagið hefur séð batamerki eftir að innheimta umsýslugjalds félagsins jókst og tollmeðferð á sendingum frá Kína var aukin.

Það er rétt að geta þess að í nýju frumvarpi er gert ráð fyrir að félagið geti innheimt gjald vegna erlendra pakkasendinga sem taki mið af kostnaði við þjónustuna að viðbættum hóflegum hagnaði. Þannig gera stjórnvöld ráð fyrir að ekki þurfi, ef hjá því verður komist, að niðurgreiða með ríkisframlagi erlenda póstverslun í samkeppni við innlenda verslun. Ég held að það sé mjög mikilvægt.

Varðandi síðustu setninguna, um flutningsjöfnun, þá leggjum við til í frumvarpinu að dreifingin sé með sama gjaldið alls staðar á Íslandi, það sé eitt póstdreifingarkerfi. Við sitjum öll við sama borð. Það breytir því ekki að það er heildsöludreifing á mismunandi svæðum, innan einhverra ákveðinna landsvæða og það er mögulegt að einhverjir aðrir sjái sér hag í því. Á það er einmitt verið að opna í þessu frumvarpi. Vonandi sjáum við hag fyrirtækisins batna. En ég ítreka mikilvægi þess að þessi grunnþjónusta sé í boði hringinn í kringum landið, alls staðar fyrir alla landsmenn. Hún er ákaflega mikilvæg.