149. löggjafarþing — 55. fundur
 22. janúar 2019.
fjarheilbrigðisþjónusta.

[13:46]
Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Fjarheilbrigðisþjónusta varðar málaflokk sem við Íslendingar erum sorglega lítið farin að tileinka okkur, hvort heldur er að nýta þá nýsköpun og tækni sem þegar er til staðar eða hvað varðar skipulag heilbrigðisþjónustunnar sjálfrar. Óþarfi er að fjölyrða um þann ávinning sem hlytist af því fyrir landsbyggðarfólk að nýta sér sérhæfða heilbrigðisþjónustu ýmiss konar á þéttbýlissvæðum með aðstoð slíkrar tækni svo ekki sé nefnt hversu jákvætt það væri fyrir dreifðari byggðir að geta með nýtingu slíkrar tækni og nýrri nálgun í heilbrigðisþjónustu laðað til sín heilbrigðisstarfsfólk, sérfræðinga, sem gæti sinnt bæði nær- og fjærumhverfi sínu á þennan hátt.

Ég hef lagt inn beiðni um sérstakar umræður við hæstv. heilbrigðisráðherra um þennan málaflokk, en mig langar að þjófstarta núna og spyrja sérstaklega um fjárfestingu ráðuneytisins á tækjabúnaði til fjarheilbrigðisþjónustu á Suðurlandi og Austurlandi, sem farið var í fyrir tæpu ári. Þá var því fagnað sérstaklega með málþingi á Kirkjubæjarklaustri að bæði Heilbrigðisstofnun Austurlands og Heilbrigðisstofnun Suðurlands hefðu fengið tækjabúnað frá ráðuneytinu til notkunar á átta stöðum innan þessara heilbrigðisumdæma. Búnaðurinn var keyptur fyrir styrktarfé velferðarráðuneytisins. Af hálfu heilbrigðisstofnananna sem um ræðir voru eðlilega miklar væntingar til þeirrar nýju tækni og breyttrar nálgunar.

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Er þessi búnaður kominn í notkun á því tæpa ári sem liðið er? Hvernig hefur reynslan verið? Og hvers konar breytingar, ef einhverjar, hafa verið gerðar á greiðslukerfi í heilbrigðisþjónustunni í tengslum við þá nýjung sem fjarheilbrigðisþjónustan er? Hafa íbúar umræddra heilbrigðisumdæma notið góðs af þeirri fjárfestingu?



[13:48]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni þjófstartið því að sannarlega er hér um að ræða spurningar sem ég þyrfti meira ráðrúm til að afla mér gagna um. Hún spyr um tiltekna fjárfestingu í tiltekinni þjónustu. Ég get þó sagt að við sjáum gríðarlega mikil sóknarfæri í þessu sem alla jafna er kallað fjarheilbrigðisþjónusta. Ég held að það skipti miklu máli fyrir okkur öll að tala um núverandi þjónustu sem er bætt með aukinni og bættri tækni, þ.e. að ekki sé um að ræða í raun og veru nýja þjónustu heldur þjónustu sem verður enn aðgengilegri óháð búsetu. Þá erum við sérstaklega að horfa til þeirra þátta sem lúta að styrkingu heilsugæslunnar og aukinni áherslu á sálfræðiþjónustu og geðheilbrigðisþjónustu í framlínu heilbrigðisþjónustunnar.

Hv. þingmaður spurði sérstaklega um Suðurland og Austurland og nefndi í því sambandi Kirkjubæjarklaustur. Nýlega fékk ég, ég held að það hafi verið fyrir áramót, í október eða nóvember, skýrslu þar sem allir þessir aðilar höfðu saman sest yfir það hver væru helstu sóknarfæri okkar í fjarheilbrigðisþjónustumálum. Niðurstaða þess var að fela Sjúkrahúsinu á Akureyri að vera lykilaðili í því að skipuleggja og byggja upp fjarheilbrigðisþjónustu um landið gjörvallt. Þar horfum við líka til sérstakrar fjármögnunar í gegnum byggðaáætlun. Í byggðaáætlun eru eyrnamerktir peningar til að byggja upp og bæta fjarheilbrigðisþjónustu.

Ég vil bara segja það í þessari umræðu að ég vil gjarnan verða við beiðni um sérstaka umræðu um þessi mál þar sem hægt er að undirbúa betur og skoða töluleg gögn og staðreyndir í þessu máli þannig að það sé meira bit í mínum svörum en er hér í óundirbúnum fyrirspurnatíma. En það er alveg ljóst að þarna eru mjög mikil sóknarfæri og (Forseti hringir.) við erum rétt að byrja að nýta þau færi.



[13:50]
Hanna Katrín Friðriksson (V):

Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Það er svo sem alveg rétt að þetta eru ekki endilega upplýsingar sem ráðherra hefur á reiðum höndum með litlum sem engum fyrirvara en ég get upplýst hana um það að ég held að þau tæki séu ekki komin í notkun. Fyrir því eru ýmsar ástæður. Þetta er kannski ákveðin viðvörunarbjalla fyrir okkur í þeim mikla málaflokki vegna þess að mjög slæmt væri ef við ætluðum að fara leið sem við þekkjum svolítið vel, sem er að ana út í fjárfestingar og kaupa hluti án þess að vera búin að setja nákvæmlega niður fyrir okkur stefnumörkun. Hvernig ætlum við að þjálfa heilbrigðisstarfsmenn í að nýta þetta sem og þá mikilvægu viðbót sem hæstv. ráðherra nefnir? Þarf námið að taka mið af því? Hvernig verður greiðslukerfið? Hver verður hvatinn til að nýta þá þjónustu? Hvað ætlum við raunverulega að fá út úr þeim fjármunum sem við leggjum í kerfið?

Ég fagna því að ráðherra ætlar að mæta með upplýsingar og vel vopnuð í sérstaka umræðu um þau mál. Ég held að þarna liggi ekki eingöngu mikilvægur vaxtarsproti fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu heldur er þetta einfaldlega eitt af þeim tækjum sem við þurfum (Forseti hringir.) að koma í lag og eigum að vera í fararbroddi með.



[13:51]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég fer með þessar upplýsingar með mér í ráðuneytið og við förum yfir þær. Varðandi stefnumótunina, af því að hv. þingmaður talar um hana, vísa ég til þeirrar skýrslu sem ég nefndi áðan. Ég held að það sé full ástæða til að benda hv. þingmanni á skýrsluna, hún liggur væntanlega fyrir á heimasíðu ráðuneytisins.

En af því að hv. þingmaður spyr sérstaklega um hvatann til að nýta þjónustuna, þá gerum við ráð fyrir því samkvæmt drögum að heilbrigðisstefnu að ríkið sem kaupandi þjónustunnar hafi um það hugmyndir hvaða þjónustu við viljum kaupa. Það gildir auðvitað um fjarheilbrigðisþjónustu eins og aðra þjónustu. Og ef við ætlum að standa undir nafni varðandi heilbrigðisþjónustu sem fólk getur nýtt sér, ekki bara óháð efnahag heldur líka óháð búsetu, hljótum við að byggja hvata af því tagi inn í það kerfi.