149. löggjafarþing — 55. fundur
 22. janúar 2019.
sérstök umræða.

bráðavandi Landspítala.

[14:52]
Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Fyrir nokkrum misserum kom fram í fréttum að alvarleg staða væri á bráðamóttöku Landspítala en ekki hafa fengist fullnægjandi svör um hvort nú sé hægt að uppfylla ýmis lagaákvæði um réttindi sjúklinga. Því er rétt að eiga samtal við hæstv. heilbrigðisráðherra um stöðuna eins og hún er núna.

Annað atriði hefur ítrekað komið fram, undirmönnun og þá sérstaklega undirmönnun hjúkrunarfræðinga sem og annarra starfsstétta á Landspítala, en skortur á hjúkrunarfræðingum og þá líka sjúkraliðum leiðir af sér að ekki er hægt að hafa allar deildir opnar, með öðrum orðum að nýta öllu rúm sem annars væri hægt að nýta.

Í hlutaúttekt landlæknisembættisins vegna alvarlegrar stöðu á bráðamóttöku Landspítalans kemur fram að bæta þurfi starfsumhverfi starfsfólks. Jafnframt segir starfsfólkið að starfsandinn sé góður. Þetta þykir mér nokkuð merkileg hugsun hjá starfsfólkinu sem segir mér það eitt að það ætli að reyna að halda þetta út. Það ætlar að halda áfram að vinna við þessar aðstæður. Það er nefnilega ekki annað hægt en að velta því upp hvort starfsaðstæður á Landspítala geri það að verkum að ekki fáist þar fólk til starfa.

Mér finnst þetta, eins og ég sagði áðan, nokkuð mikilvægt atriði. Við þekkjum það öll að gera okkar besta en það getur reynst erfitt ef við sjáum ekki fram á að aðstæður batni. Það getur verið erfitt að halda út en það er ljóst að það þarf að bæta kjör þeirra stétta sem starfa á Landspítala, og í heilbrigðiskerfinu öllu ef út í það er farið. Aðeins þá getum við fengið til starfa lyfjafræðinga, sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa, félagsráðgjafa o.s.frv. þar sem Landspítalinn vill gjarnan vinna þvert á stéttir og í góðri samvinnu.

Í úttektinni kemur einnig fram að brýnt sé að auka ábyrgð sveitarfélaga og umdæmissjúkrahúsa sem og að koma á sérhæfðri heimaþjónustu. Því verður áhugavert að fá þessa umræðu á eftir og vonandi koma þessir þættir allir fram. Það er nefnilega að mörgu að hyggja og t.d. hefur fjölgun ferðamanna haft gríðarleg áhrif á starfsemi Landspítala. Það má segja að stjórnendur og starfsfólk, sérstaklega á bráðamóttöku, hafi lengi bent á að öryggi sjúklinga geti verið hætta búin ef ekki er brugðist við.

Samtímis má líka benda á að vandinn er ekki aðeins vandi Landspítala. Hann er stærri en svo en hann verður aðeins leystur í samvinnu við alla aðila, þar með Landspítala og af öllum aðilum sem koma þar að.

Þær spurningar sem ég hef lagt til grundvallar og vil spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra eru að í úttekt embættis landlæknis á alvarlegri stöðu bráðamóttökunnar kemur í ljós að ekki er hægt að uppfylla ýmis lagaákvæði um réttindi sjúklinga. Hvað hyggst ráðherra gera til að bæta réttindi sjúklinga? Þetta þarf að vera í lagi. Hvað sér ráðherra fyrir sér að gera varðandi undirmönnun og þar af leiðandi skort á hjúkrunarrýmum á Landspítala? Hefur ráðherra velt því fyrir sér hvaða áhrif þessi bráðavandi — sem mér skilst að sé ekki beint að batna, fari hægt niður á við eins og einhver sagði — hefur til lengri tíma á sjúklinga og ekki síður á starfsfólk? Því má ekki gleyma. Hvaða lausnir sér ráðherra?



[14:56]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil fyrst þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessari stöðu og jafnframt að þakka hv. velferðarnefnd sem hefur líka tekið málið til umfjöllunar. Mér finnst það vera nákvæmlega þannig sem nefndir þingsins eiga að virka, þ.e. að taka mál sem eru uppi í samfélaginu til umfjöllunar. Nefndin brást mjög fljótt við því þannig að ég er búin að hitta hv. velferðarnefnd og ræða málin, en fannst sjálfsagt að gera það líka hér í þingsal að beiðni hv. þingmanns.

Vegna umræðunnar um alvarlega stöðu bráðamóttökunnar er rétt að vísa sérstaklega til tveggja mikilvægra ábendinga sem komu frá embætti landlæknis í hlutaúttektinni og er beint sérstaklega til heilbrigðisráðuneytisins. Þessar ábendingar komu strax í minnisblaði í desember og svo aftur í hlutaúttektinni og lutu að tvennu, annars vegar því að fjölga hjúkrunarrýmum og hins vegar að tryggja mönnun fagfólks, eins og það er orðað.

Ég vil nota þetta tækifæri til að geta þess, af því að hv. þingmaður nefnir í fyrirspurn sinni hjúkrunarrými á Landspítala, að það er kannski ekki nákvæmt að orða það þannig, því að þau rými sem eru ætluð þeim sem ættu þegar að hafa útskrifast en eru til að leysa eða koma til móts við útskriftarvandann að hluta, eru miklu frekar biðrými en raunveruleg hjúkrunarrými og eru skilgreind sem slík.

Eins og reyndar kemur líka fram í hlutaúttektinni hefur þegar verið mikið unnið að því í heilbrigðisráðuneytinu að fjölga hjúkrunarrýmum og finna leiðir til að tryggja hjúkrunarfræðinga. Á síðasta ári kynnti ég stórátak í uppbyggingu hjúkrunarrýma sem nú er unnið samkvæmt og þær úrbætur sem koma til framkvæmda á næstu mánuðum ættu að gjörbreyta stöðunni á Landspítala. Þar er fyrst að nefna að verið er að taka í notkun nýtt hjúkrunarheimili á Seltjarnarnesi með 40 nýjum hjúkrunarrýmum og ef allt gengur samkvæmt áætlun ætti það að vera komið í fulla notkun í mars/apríl. Um svipað leyti er svo ráðgert að nýtt 60 rýma hjúkrunarheimili í Hafnarfirði verði tekið í notkun. Þar er reyndar bara um eitt viðbótarhjúkrunarrými að ræða, en á haustmánuðum er svo ráðgert að opna 99 rýma hjúkrunarheimili á Sléttuvegi í Reykjavík. Hér munu því bætast við um 140 ný hjúkrunarrými á þessu ári.

Þegar úttekt embættis landlæknis var gerð biðu um 120 einstaklingar á Landspítala eftir hjúkrunarrými, þar af biðu 53 inni á deildum sem ætlaðar eru fyrir aðra starfsemi, þ.e. inni á bráðarýmum. Það er því ljóst að þessi 140 hjúkrunarrými munu bæði mæta þörfum þeirra einstaklinga sem þar bíða og annarra sem enn eru heima en eru í þörf fyrir dvöl í hjúkrunarrými. Það er mikilvægt líka að mæta þörfum þeirra sem bíða heima, því að þegar allt um þrýtur myndu þeir væntanlega að öðrum kosti enda á Landspítalanum sem er ekki góður kostur fyrir þá sem þurfa hjúkrunarrými, fyrir utan að vera afskaplega dýr valkostur, ef svo má að orði komast.

Til viðbótar þessu er unnið að framgangi frekari hugmynda til að fjölga hjúkrunarrýmum til að þessi fjölgun verði jafnvel enn hraðari. Þar erum við til að mynda að skoða tímabundna notkun gamla Sólvangs, auk þess sem unnið er að áframhaldandi uppbyggingu hjúkrunarrýma samkvæmt framkvæmdaáætluninni sem áður var getið og kynnt var á síðasta ári.

Aðrir þjónustuþættir sem bæta svokallað flæði fólks og sjúklinga um Landspítalann og til Landspítalans skipta líka miklu máli til að öll þjónustukeðjan verði sem liprust og sinni sem best sínu hlutverki. Sjúkrahótel mun opna í apríl og þó að þar séu ekki sjúkrarými mun það bæta mjög möguleikana til að veita enn betri þjónustu þeim sem þurfa á þjónustu Landspítala að halda, t.d. þeim sem koma utan af landi, þeim sem eru sjálfbjarga en þurfa þjónustu spítalans.

Efling heimahjúkrunar er mjög mikilvæg og aukið fé, 130 milljónir, hefur verið veitt til að bæta þar úr. Það er mikilvægt að halda því áfram en skýrsla KPMG frá 2018 sýnir að Ísland ver minna fjármagni í heimahjúkrun en nágrannalöndin. Áhrifin af þessum aðgerðum munu leiða til þess að réttindi sjúklinga verði betur tryggð á bráðamóttöku Landspítala og spítalans í heild.

Það er ljóst að mönnun fagfólks er forsenda þess að hægt sé að veita góða og örugga heilbrigðisþjónustu og embættið hefur sérstaklega bent á þau mál. Í skýrslu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga frá árinu 2017 kom fram að 24% hjúkrunarfræðinga á vinnualdri starfa við annað en hjúkrun. Það er óhætt að taka undir að þessi vandi er mikill og lagast ekki án aðgerða. Ég hef því þegar lagt fram tillögur um aðgerðir fyrir ráðherranefnd um samræmingu mála. Það eru aðgerðir sem kalla á samvinnu milli ráðuneyta og sú vinna er í gangi og eru væntingar bundnar við árangur hennar.

Virðulegi forseti. Ég verð að gera hlé á því að svara spurningum hv. þingmanns en kem væntanlega að þeim í lok umræðunnar.



[15:02]
Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Frú forseti. Landspítali, máttarstólpi okkar í heilbrigðisþjónustunni, er á vörum fólks og í fjölmiðlum oft í viku hverri. Ekki bara vegna þess frábæra starfs sem þar er unnið af hugviti, ekki heldur vegna þeirra úrlausna sem starfsfólk glímir þrotlaust við á hverjum degi í úreltu og þröngu húsnæði, nei, heldur vegna álags og óöryggis og úrræðaleysis sem blasir reglulega við gagnvart sjúklingum sem hafa fengið fulla meðferð og þurfa ekki lengur viðdvöl á þessu hæsta viðbúnaðarstigi í heilbrigðiskerfinu. Spítalinn getur ekki tekið refjalaust við bráðveiku fólki til lækninga og gegnt þannig að fullu öryggi hlutverki sínu sem bráðastofnun, háskólasjúkrahús.

Það var einmitt þetta sem forstjóri spítalans tjáði sig um í fjölmiðlum ekki alls fyrir löngu, að ástandið væri á stundum svo tvísýnt að ekki væri hægt að tryggja öryggi sjúklinga. Embætti landlæknis var tilkynnt um málið sem réðist þegar í úttekt vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem upp var komin, sérstaklega á bráðamóttöku.

Frú forseti. Erfiðleikar í rekstri og starfsemi Landspítalans hljóma ekki sem ný frétt í eyrum landsmanna en birtingarmyndin er kannski önnur nú en oft áður. Það eru ekki fjárhagsleg vandræði sem eru í forgrunni í þetta sinn heldur miklu fremur þrengsli, yfirfullur spítali af sjúklingum sem komast hvergi og síðast en ekki síst tilfinnanlegur skortur á fagfólki til starfa, einkum hjúkrunarfræðingum.

Í öllum þeim þáttum felast miklar áskoranir fyrir framtíðarstarfsemina og stjórnendur gera sér það ljóst. Ljósið í myrkrinu er að vinnuaðstaða mun batna til muna með nýjum spítala á komandi misserum. Hvað varðar útskriftarvandann mun nýtt sjúkrahótel eflaust létta til í meðferðarmálum, eins og hæstv. ráðherra drap á, sömuleiðis opnun nýrra hjúkrunarheimila á höfuðborgarsvæðinu á þessu ári.

Mönnunarvandinn er hins vegar sá þáttur sem er hvað alvarlegastur og sá hnútur verður ekki leystur með gömlum hefðbundnum leiðum. (Forseti hringir.) Það væri því fróðlegt að heyra hvaða úrræði ráðherra sér fyrir sér í því efni.



[15:04]
Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Það er ágætt og við hæfi að við hefjum nýtt ár á því að ræða um þessa mikilvægu stofnun, Landspítalann. Það er nú hins vegar þannig, eins og kom skýrt fram í máli hæstv. heilbrigðisráðherra, að verið er að undirbúa margt og ýmislegt er í farvatninu sem leysa mun að hluta til þann vanda sem við er að glíma á Landspítalanum.

Ég hef hins vegar ítrekað það hér í hverri ræðunni á fætur annarri þegar kemur að Landspítalanum að mér finnst oft eins og þingmenn festist í þeirri gildru að telja að lausnin felist alltaf í því að setja bara meiri peninga í vandann. Við ættum fremur að fara núna að hugleiða og ræða það í fullkominni alvöru hvort Landspítalinn glími t.d. við stjórnskipulegan vanda, hvort við þurfum að fara ofan í stjórn Landspítalans, hvernig hann er skipulagður og hvort þeir fjármunir sem við setjum í spítalann — við ætlumst til að spítalinn veiti okkur þjónustu sem við viljum að sé fyrir hendi fyrir þá sem þurfa á að halda — nýtist með þeim hætti sem við gerum kröfu til.

Ég hef efasemdir um að svo sé. Ég hygg að við verðum að hafa burði til þess að ræða af fullkominni hreinskilni að þar kann að vera pottur brotinn þegar kemur að stjórnskipulagi Landspítalans. Ég ítreka það sem ég hef líka haldið fram, að það er fráleitt að stærsta fyrirtæki — því að auðvitað er Landspítalinn ekkert annað en fyrirtæki, með 5.300 starfsmenn — (Forseti hringir.) skuli ekki hafa sjálfstæða, faglega stjórn sem er ábyrg gagnvart ráðherra og þingi. Við ættum að taka það upp hér áður en þingi lýkur í vor, frú forseti.



[15:06]
Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég vil byrja á því að geta þess og það er mikilvægt að fram komi að landlæknir hefur sagt, og mig minnir að það komi fram í hluta af úttektinni, að Landspítalinn sé mjög vel rekinn, bara svo það komi skýrt fram. Helstu ástæðurnar fyrir þeim mikla vanda sem nú er uppi eru skortur á mönnun og að fráflæði frá bráðadeild er ekki tryggt. Fram kom á fundi velferðarnefndar um hlutaúttektina að einn helsti orsakavaldur þess mikla bráðavanda sem við erum nú að fást við sé aðgerðaleysi fyrri ríkisstjórna. Staðan í dag hefur í raun verið fyrirséð um langt skeið. Við höfum vitað af öldrun þjóðarinnar í sex áratugi, talað er um 60+ ár, en við erum samt sem áður engan veginn undirbúin undir það. Fyrri ríkisstjórnir hafa meira að segja reynt sitt ýtrasta til að reka heilbrigðiskerfið á lágmarksframlögum. Aukin þörf á heilbrigðisþjónustu í bland við vanfjármögnun um árabil er aðalástæðan fyrir vandanum sem nú blasir við. Lausnirnar felast m.a. í því að opna fleiri hjúkrunarrými og efla heimahjúkrun og heimaþjónustu. Nú ber hæstv. heilbrigðisráðherra að bregðast hratt og skjótt við og mér skilst að hún sé að því.

En hvers vegna var ekki löngu farið af stað í þessar aðgerðir? Hvers vegna erum við aldrei undirbúin? Hvers vegna erum við alltaf að bregðast við? Er það vanhæfni eða pólitísk ákvörðun? Einnig hefur verið varað við mönnunarvanda í mörg ár sem einungis nýlega er farið að viðurkenna, en 24% hjúkrunarfræðinga á vinnualdri vinna ekki við hjúkrun. Vandinn er að miklu leyti ósanngjarn vinnutími og ósanngjörn kjör. Hjúkrunarfræðingar eru nauðsynlegir heilbrigðiskerfinu og án þeirra gengur þetta dæmi ekki upp. Það er mjög skiljanlegt að þeir sæki í önnur störf enda er þessi stétt með 12% lægri laun en sambærilegar stéttir. Það er óásættanleg staða sem okkur ber að leiðrétta.

Mín helsta gagnrýni í þessum málum er hversu skammsýn pólitíkin virðist vera. Það er algjör skortur á langtímahugsun þar sem flokkar og ríkisstjórnir hugsa bara eitt kjörtímabil í einu. Skammtímalausnir eru allsráðandi svo lengi sem hægt er að sýna fram á að verið sé að gera eitthvert smotterí núna til að auka líkur á endurkjöri næst. Það vekur þá von í brjósti að bráðum megi búast við framlagningu nýrrar heilbrigðisstefnu af hálfu heilbrigðisráðherra. Ég vona svo sannarlega að um hana geti myndast þverpólitísk sátt svo við getum unnið af heilum hug að uppbyggingu heilbrigðiskerfisins.

Lögum þennan bráðavanda núna en lögum pólitíkina í leiðinni til að koma í veg fyrir framtíðarslys.



[15:09]
Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli og hæstv. ráðherra fyrir hennar innlegg. Velferðarnefnd hefur fjallað um þetta mál og fylgst með þessum vanda og kallað til sérfróða aðila til að halda nefndinni upplýstri um málið.

Það hafa verið nefndar ýmsar ástæður fyrir þeim bráðavanda sem uppi er núna en hann snýr að því að erfiðlega gengur að leggja sjúklinga inn á legudeildir þar sem þær eru fullar. Bráðamóttökunni tekst vel að sinna sínu hlutverki, það hefur komið fram, og dvalartími þar er innan viðmiðunarmarka en svo hefst vandamálið þegar kemur að því að leggja fólk inn á legudeildir. Þær eru fullar og gengur illa að koma sjúklingum í viðunandi úrræði, þar með talið sjúklingum með öldrunarsjúkdóma.

Ljóst er að bregðast verður við þeim vanda sem snýr að biðlistum eftir hjúkrunarrými. Hæstv. ráðherra nefndi hér ýmis úrræði sem eru á teikniborðinu og því ber að fagna en það er ljóst að nokkuð vantar upp á að hægt sé að mæta eftirspurn.

Fram undan eru lausnir eins og hjúkrunarheimili á Seltjarnarnesi og fleiri rými eru í farvatninu. Það hefur borist ákall frá sveitarfélögum eins og Hafnarfirði og Akranesi um að ríkið tryggi fjármagn til að reka hjúkrunarrými sem þegar eru til staðar en eru núna nýtt undir aðra þjónustu fyrir aldraða. Þetta eru rými sem eru tilbúin og þau eru til staðar og starfsfólkið er til staðar líka, en það vantar aðkomu ríkisins. Þetta er lausn sem myndi liðka fyrir því að leysa þennan skammtímavanda.

Framsóknarflokkurinn hefur talað fyrir því að lögð yrði fram heilbrigðisstefna sem nú hillir undir, heilbrigðisstefna sem yrði forsenda fyrir betri fjármálaáætlun sem héldi. Með góðri heilbrigðisstefnu er hægt að kortleggja framtíðarverkefni heilbrigðiskerfisins og verður þá komið í veg fyrir þann vanda sem nú er uppi á Landspítalanum.



[15:11]
Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Í hlutaúttekt embættis landlæknis vegna þess vanda sem bráðamóttakan er í kennir ýmissa grasa. Það er rétt að taka fram að þar kemur fram að spítalanum tekst vel að sinna bráðahlutverki sínu en ástæður í skýrslunni eru eftirtaldar tilteknar: Annars vegar að einstaklingar sem lokið hafa meðferð á spítalanum geti ekki útskrifast og hins vegar skortur á starfsfólki innan spítalans.

Í gær ræddum við hér í þingsal stjórnmálaástandið vítt og breitt. Samflokksmaður heilbrigðisráðherra, hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, sagði við það tækifæri, með leyfi forseta:

„Ég hef setið nokkuð lengi í fjárlaganefnd … Ég man satt að segja ekki eftir því að jafn fáar stofnanir hafi kvartað yfir því að fjárframlög til stofnana séu ekki sæmileg og að meira að segja þurfti að kalla Landspítalann sérstaklega inn vegna þess að hann óskaði ekki eftir því að fá að koma og sendi ekki inn umsögn.“

Í þessum orðum stjórnarþingmannsins liggur að það er ekki fjárhagsvanda Landspítalans um að kenna að þessi staða er uppi nú. Peningana virðist skorta annars staðar. Ég tek heils hugar undir það sem hv. þm. Óli Björn Kárason nefndi áðan, að rétt væri að skoða hvort nýting fjármuna gæti verið betri en raun ber vitni.

Mig langar til að gera sérstaklega að umtalsefni skort á hjúkrunarrýmum og bera saman við þá staðreynd að við samþykkt fjárlaga fyrir nokkrum vikum var skorið þar hraustlega niður við mikil mótmæli þeirra sem starfa við þessi mál og töldu sig hafa vilyrði um annað. Síðan er mönnunarvandinn sem hefur aukist á síðustu árum, ekki síst meðal hjúkrunarfræðinga. Við í Viðreisn lögðum fram tillögu ásamt góðum hópi samþingsmanna sl. vor sem fól í sér að ráðherra fjármála yrði falið að leiða viðræður við aðila vinnumarkaðarins og Samband íslenskra sveitarfélaga um sérstakt átak, þjóðarsátt, til að bæta kjör kvennastétta. (Forseti hringir.) Þetta var útþynnt í meðförum meiri hlutans á þann veg að hvorki varð fugl né fiskur, svo það sé nú bara hreint út sagt. (Forseti hringir.) En núna þegar við stöndum frammi fyrir því að þessi mönnunarvandi á Landspítalanum er orðinn dauðans (Forseti hringir.) alvara er kannski rétt að hæstv. ráðherra og samráðherrar hennar (Forseti hringir.) í ríkisstjórn Íslands brjóti odd af oflæti sínu og (Forseti hringir.) skoði góð mál þegar þau koma fram af hálfu minni hlutans og viðurkenni að þetta er grunnur vandans. Og það er til lausn á honum.

(Forseti (ÞórE): Forseti vill minna þingmenn á að virða ræðutíma.)



[15:14]
Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda, Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, fyrir að vekja athygli á þessu brýna máli. Einnig þakka ég hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að vera hér með okkur í dag og ræða þessi mál.

Það er náttúrlega stuttur tími til þess að fjalla um þann mikla vanda sem blasir við okkur og hefur gert lengi. Þetta er uppsafnaður vandi, að sjálfsögðu, og hæstv. heilbrigðisráðherra hefur ekki haft langan tíma til að berjast. Þó verður maður að þakka það sem gott er, t.d. þau hjúkrunarrými sem við erum að fara að taka í notkun.

En mig langar til að spyrja sérstaklega út í þau 40 hjúkrunarrými sem mér skildist að taka hefði átt í notkun á Seltjarnarnesi núna um síðustu áramót. Enn standa út af um 270 hjúkrunarrými, þrátt fyrir þau 200 hjúkrunarrými sem við munum fá núna. Við horfum enn upp á vandann á Landspítalanum en fyrir rúmu ári síðan, í kosningabaráttunni, voru um 100 eldri borgarar fastir þar inni og komust ekki út vegna þess að heimahjúkrun var ekki í boði fyrir þessa einstaklinga. Nú eru þeir orðnir 130 talsins.

Mig langar af þessu tilefni til að minna á grein sem ég las í Morgunblaðinu í morgun sem var dálítið sláandi og ég hrökk við. Þar segir eldri maður sögu sína. Hann hefur búið í Hafnarfirði með konu sinni sem er komin með heilabilun. Nú er búið að flytja hana í hvíldarinnlögn í 470 km fjarlægð frá honum, til Húsavíkur. Hvað sér hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir sér í því að bæta t.d. heimahjúkrun, sem er svo aðkallandi, og að við tökum betur utan um fólkið okkar sem er með heilabilun og varðandi það að gera hjónum betur kleift að vera saman? Ég kem að öðru í seinni ræðu.



[15:16]
Ólafur Ísleifsson (U):

Frú forseti. Ég vil hefja mál mitt á að þakka hv. málshefjanda, hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, og ráðherra fyrir þessa mjög svo mikilvægu umræðu. Það eru náttúrlega aðallega aldraðir sem bera hallann af þessu ástandi, a.m.k. ekki síst, og þetta er ekki boðleg meðferð á því fólki sem hefur lagt grunninn að því velferðarþjóðfélagi sem við búum í. Hröð fjölgun aldraðra hefur legið fyrir um árabil. Síðustu ríkisstjórnir hafa með algjöru andvaraleysi skotið sér undan því að bregðast við þeirri fjölgun sem nú er orðin staðreynd og er fyrirsjáanleg næstu ár og áratugi.

Ég vil nota þetta tækifæri, frú forseti, og vekja athygli á frumvarpi sem ég hef lagt fram um breytingar á lögum um málefni aldraðra til að tryggja að fé Framkvæmdasjóðs aldraðra verði varið til byggingar húsnæðis fyrir aldraða og til að mæta kostnaði við nauðsynlegar breytingar og endurbætur á því húsnæði eins og kveðið er á um í lögunum. Sjóðnum hefur ekki verið bætt upp það fé sem runnið hefur til rekstrar en ekki nýbyggingar og viðhalds á undanförnum árum. Það fé sem hér um ræðir skiptir mörgum milljörðum. Verði frumvarpið að lögum myndi fé sjóðsins á hverju ári til að byggja heimili fyrir aldraða aukast um 67% frá því sem nú er, þ.e. úr 1,4 milljörðum kr. í um 2,3 milljarða. Þetta jafngildir árlega um 30 hjúkrunarrýmum. Þjóðin eldist hratt og hér þurfa að koma til raunhæf úrræði.



[15:18]
Þorsteinn Sæmundsson (M):

Frú forseti. Það er rétt sem fram hefur komið í ræðum nokkurra þingmanna að þessi vandi er í sjálfu sér búinn að vera nokkuð ljós lengi. Það breytir ekki því að ríkisstjórnin sem nú situr skellti skollaeyrum við þeim tillögum sem Miðflokkurinn lagði fram í fjárlagaumræðunni sem hefðu getað orðið til að laga þetta vandamál að hluta, með því að setja meiri peninga í heimaþjónustu fyrir þá sem fá ekki inni á hjúkrunarheimilum og er þess vegna ekki hægt að útskrifa af því að þeir hafa ekki heimilisaðstoð. 250 milljónir lagði flokkurinn til en það var fellt. Nokkrum dögum síðar fór heilbrigðisráðherra ofan í einhvern jólasekk hjá sér og náði í 100 milljónir, ef ég man rétt, til að setja í þetta málefni. En það hefði kannski verið sæmra að fara bara að tillögunni sem Miðflokkurinn lagði fram á sínum tíma.

Ég vil líka leggja áherslu á það að ég er sammála hv. þm. Óla Birni Kárasyni um að það þarf að gera úttekt á því hvernig fjármunir sem fara til Landspítalans nýtast. McKinsey-skýrslan sem hér var lögð fram fyrir nokkrum árum og var sett beint ofan í skúffu og hefur enga umræðu hlotið gaf til kynna að það fjármagn sem væri sett til spítalans nýttist ekki, þ.e. að afkastageta hans ykist ekki og ekki framleiðnin.

Það hlýtur líka að liggja einhver orsök á bak við það, önnur en laun, hvers vegna hjúkrunarfræðingar fást ekki til starfa, eins og sagt er að sé, að þeir fáist ekki til starfa á Landspítalanum, vegna þess að ekki virðist vera skortur á hjúkrunarfræðingum víða annars staðar. Landspítalinn borgar sæmileg laun, ekkert verri en aðrir, þannig að það hlýtur að liggja einhver vandi þarna sem þarf að komast til botns í til að hægt sé að vinna bug á þessu vandamáli.



[15:20]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér skýrslu um stöðuna á Landspítalanum. Það er sérstaklega gleðilegt að málshefjandi í því máli er hv. þm. Anna Kolbrún Árnadóttir, en hún og hennar flokkur hafa einmitt staðið hingað til fremst í stafni þeirra sem hafa viljað tefja uppbyggingu á Landspítalalóðinni og það er gott að nú skuli vera komin sinnaskipti hjá þessum ágæta þingflokki, þ.e. að hafa áttað sig á því að staðan er raunverulega slæm á Landspítalanum, að það þarf að grípa til raunverulega aðgerða og að tafir í því máli munu ekki hjálpa okkur neitt.

Það er meira en bara fráflæðisvandi á Landspítalanum, það er líka aðflæðisvandi, þ.e. þangað leita í rauninni miklu fleiri en ættu að leita Landspítalans sem fyrsta viðkomustaðar. Hæstv. heilbrigðisráðherra er þegar búin að leggja ýmislegt af mörkum í því að breyta þessari stöðu. Heilsugæslan hefur verið efld. Nám í heimilislækningum hefur verið stóreflt á Íslandi frá því að heilbrigðisráðherra tók við og þannig mætti lengi telja. Heilbrigðisstefnan sem verður lögð fyrir þingið vonandi á næstu dögum mun síðan hjálpa okkur við að rata betur fram á veginn.

Við skulum átta okkur á því ef við ætluðum til að mynda að halda okkur við núverandi módel í sambandi við uppbyggingu hjúkrunarrýma á Íslandi, þar sem staðan er sú í dag að helmingur þeirra sem eru 85 ára og eldri á víst hjúkrunarrými á stofnunum víðs vegar um landið, myndum við eftir 30 ár vera komin upp í 8.000 hjúkrunarrými. Langar einhvern í þá stöðu og þann rekstrarbagga sem því myndi fylgja, 100 milljarða á ári? Nei, við verðum að finna nýjar leiðir og við verðum þess vegna að leggja áherslu á að halda áfram að sinna fólki þar sem það helst vill vera, heima hjá sér.



[15:23]
Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Forseti. Landspítalinn gegnir í senn því hlutverki að vera háskólasjúkrahús, öflugasta sjúkrahús landsins og líka að vera umdæmissjúkrahús fyrir Reykjavík og nágrenni, eins konar héraðssjúkrahús. Það er hlutskipti sem ekki kann góðri lukku að stýra. Vegna bráðahlutverk spítalans þarf iðulega að fresta áformuðum aðgerðum. Nefnt er í skýrslu landlæknis að í fyrra hafi t.d. þurft að fresta 50 liðskiptaaðgerðum og samtals 109 bæklunaraðgerðum á 12 mánaða tímabili. Það bitnar ekki á öðrum en sjúklingum. Það er því áleitin spurning hvort ekki þurfi, samhliða útskriftarvanda að skilgreina betur hlutverk spítalans, hverjir eigi þar að innritast, hvort skynsamlegt sé að spítali á hæsta og dýrasta viðbúnaðarstigi eigi að taka við og skuli taka við öllum þeim sjúklingum sem til hans leita til meðferðar, og hvort önnur stig heilbrigðisþjónustunnar eigi ekki að koma til liðs í auknum mæli. Ég tek undir með hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni að þessu leyti.

Í skýrslunni er einmitt tæpt á því að með því að veita heilbrigðisþjónustu á réttu þjónustustigi megi hugsanlega spara stórfé, allt að 20% fjármuna. Ef það er raunin á sér stað umtalsverð sóun í heilbrigðiskerfi okkar.

Margt jákvætt kemur fram í skýrslunni, hún er ekki svört en rauði þráðurinn er sá að það blasir við að smyrja þarf ýmsa liði í kerfinu svo þeir virki miklu betur. Bent er á að efla þurfi til muna göngudeildarþjónustu svo að forðast megi innlagnir. Þá er nefnt að samstarf við heilsugæsluna hafi aukist og að það hafi skilað sér í marktækum árangri og dregið úr álagi á bráðamóttöku.

Ég spyr því ráðherra hvort ekki eigi enn að efla og styrkja heilsugæsluna og náttúrlega heimaþjónustuna í raun, til að takast á við aukin verkefni hvað þetta varðar. Síðan er það hlutverk spítalanna á suðvesturhorninu. Það er spurning hvort sjúkrahúsin þurfi ekki að fá sitt skilgreinda hlutverk, að þau séu sérhæfð (Forseti hringir.) og samkeyrðu jafnvel að einhverju leyti stjórnunarlega með Landspítala.

Frú forseti. Opnun nýrra hjúkrunarheimila er skammgóður vermir ef við breytum ekki samskiptum í kerfinu og hættum að einblína á stofnanavæðingu sem stóru lausnina. Innan fárra missera er hætta (Forseti hringir.) á því að við verðum í nákvæmlega sömu sporum ef ekkert verður að gert, eða er ekki (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra sammála mér í því?

(Forseti (ÞórE): Enn minnir forseta hv. þingmenn á að virða ræðutíma.)



[15:25]
Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur fyrir þessa umræðu. Eins vil ég þakka svör ráðherra við fyrirspurnum hennar. Ég er sannfærður um að hæstv. heilbrigðisráðherra er að gera sitt besta, nákvæmlega eins og starfsfólk á Landspítalanum og í heilbrigðiskerfinu öllu. Við verðum að muna þrátt fyrir allt þegar þessi umræða fer fram að við rekum hér eitt besta heilbrigðiskerfi í heimi. Við skulum ekki gleyma því þó að margt megi betur fara. Við erum sammála um það.

Ég er á svolítið svipuðum nótum og þeir félagar mínir sem hér hafa talað, að það er ekki endilega víst að aukið fjármagn leysi allan þann vanda sem við er að etja, hvorki á Landspítalanum né öðrum sjúkrahúsum. Á þessu ári eru lagðir 240 milljarðar í heilbrigðisþjónustuna. Þar af fara 70 milljarðar í Landspítalann. Árið 2013 voru það 40 milljarðar. Það er því gríðarlegt stökk, en mér finnst að umræðan þróist lítið þrátt fyrir að við leggjum gríðarlega miklar fjárhæðir inn í reksturinn á hverju ári. Ég held að við verðum, eins og hér hefur komið mjög glögglega fram og ég hef haldið fram í velferðarnefnd þingsins í samráði við forystumenn Landspítalans, að leita þurfi nýrra leiða, sérstaklega í öldrunarmálunum, eins og fram kom hjá hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni rétt áðan.

Ég held að þrátt fyrir þörf á hjúkrunarrýmum í augnablikinu megum við ekki láta það byrgja okkur sýn þegar litið er til framtíðar. Það eru svo margar leiðir, heilsuefling, heimahjúkrun og fjöldamargar aðrar leiðir, sem við þurfum að nýta. Danir hættu að horfa í steinsteypu til að leysa heilbrigðisvandamál. Þeir fóru heilsueflingarleiðina. Ég held að það sé það sem við Íslendingar eigum að gera. Þess vegna tek ég undir með félögum mínum sem ræddu það áðan, að við þurfum að athuga hvort fjármagninu sé vel varið og eins hvort við séum ekki (Forseti hringir.) komin á þá skoðun að fara nýjar leiðir.



[15:28]
Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Frú forseti. Ég biðst velvirðingar fyrir fram að ég mun tala svolítið hratt vegna þess að mér liggur svo mikið á hjarta, það er margt sem mig langar að segja. Ástandinu á Landspítalanum er lýst sem bráðavanda. Helsta ástæðan fyrir þeim vanda er skortur á hjúkrunarfræðingum. Það er mönnunarvandi. Ekki fást hjúkrunarfræðingar til að manna lausar stöður. Ástæðan er aðallega kjör stéttarinnar. Launin í dag eru yfir sársaukaþröskuldinum fyrir marga hjúkrunarfræðinga. Hér er um að ræða mikilvæga stétt sem er að miklum meiri hluta skipuð konum. Þetta er kvennastétt og það er því í samræmi við áherslur ríkisstjórnarinnar að leiðrétta laun hennar. Í stjórnarsáttmálanum segir m.a., með leyfi forseta:

„Markviss skref verða tekin til að útrýma kynbundnum launamun.“

Eðlilegt skref í því að útrýma kynbundnum launamun hlýtur að vera að leiðrétta laun kvennastétta. Það er mikil eftirspurn í samfélaginu eftir hjúkrunarfræðingum en við sjáum núna að þær eru í miklum mæli að hverfa til annarra starfa þar sem vinnuálagið er minna og launin betri.

Við verðum að gera heilbrigðiskerfið að eftirsóknarverðum vinnustað fyrir fólk með viðeigandi menntun. Það er auðvitað á ábyrgð stjórnvalda að tryggja mönnun á Landspítalanum og það er líka á ábyrgð stjórnvalda að tryggja starfsmönnum sanngjörn og réttlát laun.

Þessi bráðavandi er hnútur, en eins og ég sé málið er vandinn tvíþættur. Annars vegar snýr hann að langtímavandamáli. Það er auðvelt að hafa ákveðna samúð með hæstv. heilbrigðisráðherra vegna þess að hún tók við erfiðu búi, m.a. vegna þess að mönnunarmál hafa ekki verið tækluð af festu til langs tíma, innan menntakerfisins o.s.frv. Hins vegar er til ákveðin skammtímalausn og eftir gott samtal við stjórnendur Landspítala í gær fékk ég það staðfest frá þeim að eins og þeir líta á málið snýr vandinn aðallega að launum hjúkrunarfræðinga og að hægt væri að höggva á þann gordíonshnút.

Ég ætla að (Forseti hringir.) freista þess að fara aðeins fram yfir tímann. Það þarf sem sagt að hækka laun hjúkrunarfræðinga. Þegar verið er að ræða laun t.d. ríkisforstjóra (Forseti hringir.) er oft talað um að við þurfum að vera í (Forseti hringir.) samkeppni við erlenda vinnumarkaði sem réttlæti hin háu laun (Forseti hringir.) forstjóranna. Nú veit ég ekki hvort mikil eftirspurn er eftir íslenskum ríkisforstjórum á öðrum vettvangi, í útlöndum, látum það liggja á milli hluta, en ég veit að það er mikil eftirspurn eftir (Forseti hringir.) hjúkrunarfræðingum, það er skortur á þeim. Ég veit að ríkisstjórnin vill ekki senda þau skilaboð til samfélagsins að það sé mikilvægara að manna forstjórastöður en stöður hjúkrunarfræðinga á spítalanum.

(Forseti (ÞórE): Enn minnir forseti á að ræðutími er afmarkaður.)



[15:31]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér málefni Landspítalans og úttekt landlæknis. Ég þakka hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur fyrir umræðuna og eins vil ég þakka hæstv. ráðherra Svandísi Svavarsdóttur fyrir að fara yfir stöðuna með okkur. Ég vil jafnframt þakka þá úttekt sem er grundvöllur umræðunnar og eins og komið hefur fram brást landlæknisembættið við ábendingum um alvarlega stöðu á bráðamóttöku spítalans. Fyrst vil ég segja að það er ánægjulegt að sjá kerfið okkar, eftirlitið, ábendingarnar og viðbrögðin virka og brýnt að heyra af þeirri vinnu, beint frá hæstv. ráðherra, sem fram fer til að ráða bót á þessum málum.

Mér finnst jafnframt mikilvægt að draga fram í umræðunni, og ég get vitnað til orða hv. þm. Guðjóns S. Brjánssonar, að þessi skýrsla er ekki svört. Þrátt fyrir allt og öll þau vandasömu verkefni sem við eigum við á þessu sviði erum við með gott heilbrigðiskerfi. Það er í raun og veru það sem maður tekur með sér úr þessari skýrslu. Það er engin töf á því að þeir sem eru veikastir fái þjónustu. Meðaldvalartími þeirra sem útskrifast hefur ekki lengst og er talinn innan viðmiða samkvæmt alþjóðlegu flokkunarkerfi.

Vandinn sem við ræðum hér og hefur komið fram liggur fremur í þjónustu við sjúklinga sem bíða eftir innlögn og hæstv. ráðherra fór ágætlega yfir þau úrræði sem eru í vinnslu í ráðuneytinu. En á sama tíma og við ræðum þennan vanda gerum við miklar kröfur og eigum að gera það um skipulag og nýtingu fjármuna, sem eru verulegir í samhengi ríkisfjármála. Það er mikilvægt til framtíðar litið, virðulegi forseti, bæði fyrir þing og þjóð, (Forseti hringir.) að við styðjumst við skilgreinda mælikvarða um nýtingu fjár.



[15:33]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að fagna þessari umræðu. Hún er gríðarlega mikilvæg. Við þurfum að horfa til þess hvernig við leysum þennan vanda og hvernig stendur á því að við stöndum enn frammi fyrir honum í ljósi alls þess fjármagns sem veitt hefur verið til heilbrigðiskerfisins okkar á undanförnum árum. Það hefur svo sannarlega verið í forgangi hjá ríkisstjórnum sem hér hafa verið við völd öll undanfarin ár og útgjaldaaukningin er umtalsverð. Vandinn er sá að við höfum enga mælikvarða um afköst heilbrigðiskerfisins eða árangur af þeirri fjáraukningu sem þangað hefur streymt þegar málið kemur til umfjöllunar fjárlaganefndar. Þar vantar sárlega upp á.

Það er augljóst að víða er mikil sóun í þessu kerfi. Við byggjum tillögur okkar til úrlausna of oft á pólitískum kreddum, t.d. þegar kemur að því að ákvarða hvar hentugast sé að vinna tiltekin verkefni á sviði heilbrigðismála. Þar hefur mikil andstaða verið við hvers kyns einkarekstur óháð því hvort hagkvæmara reynist að leysa þau verkefni af hendi þar eða ekki. Við getum ekki nálgast lausnina með þessum hætti. Við verðum að vera miklu praktískari í nálgun okkar og leita ýtrustu hagkvæmni og sérhæfingar á hverju sviði fyrir sig. Við erum t.d. enn að senda sjúklinga utan í umtalsvert dýrari liðskiptaaðgerðir en hægt væri að sinna af hálfu einkarekinna aðila hér á landi. Þetta er vísvitandi sóun á almannafé.

Á sama tíma er alveg ljóst að mönnunarvanda heilbrigðiskerfisins leysum við ekki við núverandi launastig. Þar þarf líka vilja til að leysa verkefnið. Núverandi þingmeirihluti þynnti hér út þingsályktunartillögu sem þingmenn Viðreisnar fluttu á síðasta vorþingi um átak til að lyfta kjörum kvennastétta og þá sérstaklega heilbrigðisstétta. Það er alveg ljóst að þegar byrjunarlaun hjúkrunarfræðinga eru um 350.000 kr. á mánuði á sama tíma og lægsta tekjutíund hér á landi hefur liðlega 400.000 kr. í mánaðarlaun er (Forseti hringir.) þetta ekki mjög aðlaðandi fag að leita starfsframa í. Það skýrir kannski fyrst og síðast þann mönnunarvanda sem þar er við að etja.



[15:36]
Inga Sæland (Flf):

Frú forseti. Mig langar að nefna það sem kom fram í fréttum í gærkvöldi að læknar virðast vera gjörsamlega útkeyrðir, stór hluti af þeim hópi. Það kemur fram að það jafnvel örlar á því eða er farið að bera á kulnun í starfi og ég veit ekki hvað og hvað. Staðan virðist vera grafalvarleg. Þeir skila allt að tvöföldu vinnuálagi á viku, tvöfaldri fullri vinnuviku, allt að 80 stunda vinnuviku. Þetta er náttúrlega hrikalegt ástand. Ég veit að það eru ærin verkefni og yfirþyrmandi og mikil sem hæstv. heilbrigðisráðherra glímir við en ég efast ekki um að hún á eftir að tukta þetta almennilega til. Ég hef fulla trú á því. Við verðum bara að treysta því, við stólum á það. Í sambandi við það að 24% hjúkrunarfræðinga skuli ekki vera að vinna í faginu er stór áskorun hvernig hægt er að fá þá til að snúa aftur í fagstéttina sína og fara að vinna á spítölunum. Þetta eru gríðarlega stór verkefni, en ég held að ekkert sé ómögulegt í þeim efnum og ég trúi því og treysti að hæstv. heilbrigðisráðherra, þó að ég viti að hún hafi sannarlega mörg járn í eldinum, eigi eftir að takast þetta farsællega.

Mig langaði að ítreka spurningu mína um hvers vegna ekki sé búið að opna þessi 40 rými á Seltjarnarnesi, hjúkrunarrými fyrir aldraða, og hvað líði þessum 270 hjúkrunarrýmum sem talið er að skorti enn til viðbótar við þau 200 sem þó er verið að berjast við að taka í notkun.



[15:38]
Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Frú forseti. Ég þakka allar ábendingar sem mér og okkur hafa borist í dag. Það er greinilega margt í bígerð hjá hæstv. heilbrigðisráðherra. En þegar ég talaði um að það vantaði hjúkrunarrými var ég að vitna til orða forstjóra Landspítalans sem sagði að skortur á hjúkrunarfræðingum leiddi til þess að skortur væri á hjúkrunarrýmum og þess vegna væri ekki hægt að hafa allar deildir opnar, ég skildi hann þannig. Mér þykir mjög ánægjulegt að sjúkrahótelið eigi að opna núna í apríl og vissulega mun það bæta stöðuna eitthvað. Það er rétt sem hér kom fram, það eru ekki nýjar fréttir með yfirfullan spítala. Það er samt sem áður mikilvægt að við tökum umræðuna af og til til að vekja okkur öll.

Fram kom að jafnvel þyrfti að fara betur með það fé sem færi til Landspítala. Mig langar að koma inn á það að við þurfum alla vega að vita hvað er gert með það fjármagn sem fer þangað.

Í lokin langar mig að spyrja: Eru viðræður við önnur sjúkrahús? Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé einhver hugsun um að fara að beina fólki frá Landspítala og nýta þau sjúkrahús sem við höfðum áður. Ég spyr vegna þess að nú á að auka göngudeildarþjónustu. Það þykir mér svolítið sérstakt vegna þess að við höfðum fyrirkomulag við sérgreinalækna sem virkaði alveg ágætlega. Mig langar að vita hvað er í farvegi með það.

Að lokum vil ég þakka innilega fyrir umræðuna í dag og mér heyrist ákveðinn samhljómur vera á milli allra þeirra hv. þingmanna sem tóku til máls.



[15:40]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir góða umræðu og efnislega. Hún er sannarlega gagnleg og það skiptir mjög miklu máli fyrir okkur sem stöndum í stafni íslenskrar heilbrigðisþjónustu að þingið sé samstiga í því að bæta þjónustuna. Ég tek undir að þetta er ekki nýtt verkefni og það er að sumu leyti uppsafnað til mjög langs tíma. Ég er mjög meðvituð um þann vanda sem lýst er í skýrslunni og áhrifin af honum, en hv. þingmaður spurði um áhrifin á starfsfólk og sjúklinga. Allar þær aðgerðir sem ég hef talið hér upp eru til þess að bæta þar úr og eru til marks um að ég tek þessi verkefni alvarlega. Það er líka mikilvægt að halda því til haga að það er á ábyrgð Landspítala að tryggja gæði þjónustunnar og öryggi sjúklinga ásamt því að skapa vinnuumhverfi sem laðar að starfsfólk. Landspítali axlar þá ábyrgð, því að það er afar mikilvægt að það sé skýrt, og kemur líka fram í nýrri heilbrigðisstefnu, hver ber hvaða ábyrgð og hvert er verkefni ráðuneytisins og einstakra stofnana.

Mig langaði í lok þessarar umræðu, því að ég mun ekki geta svarað öllum spurningunum sem hér komu fram, að segja að í heilbrigðisstefnu sem væntanlega verður mælt fyrir hér á næstu dögum — mögulega í næstu viku og er það á undan áætlun, sem betur fer því að ég tel mikilvægt að hv. velferðarnefnd hafi góðan tíma — erum við til að mynda að tala um fjármögnun kerfisins. Þar erum við að tala um fjármögnun kerfisins óháð rekstraraðila, hvort sem það eru einkaaðilar eða opinberir aðilar. Við erum að tala um gæðavísa sem er auðvitað mjög mikilvægt að séu fyrir hendi hjá öllum sem sinna heilbrigðisþjónustu. En þær aðgerðir sem ég hef nefnt hér eru að efla göngudeildarþjónustu, efla heilsugæsluna, samstarf við Kragasjúkrahúsin sem hv. þingmaður og fleiri spurðu um, efla uppbyggingu hjúkrunarrýma, auka sveigjanleika í þjónustu við aldraða, sem er líka mjög mikilvægt og margir hafa nefnt hér, og ekki síst að taka mönnunarvandann alvarlega með raunhæfum tillögum.

Virðulegur forseti. Ég vil í lokin þakka hv. þingmanni aftur fyrir að vekja máls á þessu. Ég held að það hvernig mér líður akkúrat núna í öndunarfærunum sé til marks um að ég hef miklu (Forseti hringir.) meira að segja en kem því ekki að hér í lokin. En ég vænti þess að við hv. þingmaður munum ræða þetta betur.