149. löggjafarþing — 57. fundur
 24. janúar 2019.
skerðing bóta TR vegna búsetu erlendis.

[10:44]
Halldóra Mogensen (P):

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna að það hefur aðeins sett mig úr jafnvægi að sjá Klaustursmenn sitja hérna inni í þessum sal eins og ekkert hafi í skorist, en við verðum að halda áfram.

Þann 20. júní 2018 skilaði umboðsmaður Alþingis áliti þar sem hann lýsir því að Tryggingastofnun ríkisins hafi um árabil viðhaldið rangri lagatúlkun á lögum um almannatryggingar og EES-reglugerð um samræmingu almannatryggingakerfa. Reglugerðin heimilar íslenskum stjórnvöldum ekki að skipta framreiknuðum búsetutíma umsækjanda hlutfallslega eftir lengd tryggingatímabils milli Íslands og annars EES-ríkis þegar umsækjandi nýtur ekki bóta frá hinu ríkinu. Þá kemur fram að samkvæmt orðalagi 4. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar skuli reikna öll árin fram að 67 ára aldri til búsetu á Íslandi. Það er í raun mjög skýrt að það er algerlega óheimilt samkvæmt EES-reglugerðinni og samkvæmt íslenskum lögum að framreikna búsetutíma hlutfallslega með þeim hætti sem var gert.

Afleiðingarnar af þessu eru að mikill fjöldi örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega hefur þurft að búa við ólögmætar skerðingar af hálfu ríkisins. Íslenska ríkið hefur ólöglega skert tekjulægsta hópinn á Íslandi um marga milljarða. Ráðuneytið hefur tekið undir túlkun umboðsmanns Alþingis og hefur nú það hlutverk að leiðrétta þetta brot og bæta þeim öryrkjum sem hafa orðið fyrir þessum ólögmætu skerðingum skaðann. Sumir þessa einstaklinga hafa þurft að lifa í fjötrum fátæktar í mörg ár með tekjur sem ná varla upp í matarkostnað, hvað þá húsnæðiskostnað og allt annað sem til þarf til að lifa mannsæmandi lífi.

Á vef TR kemur fram að stefnt sé að því að niðurstaða í málinu liggi fyrir í lok janúar og verður þá breytt framkvæmd kynnt. Í framhaldinu verði farið í að vinna hvert mál fyrir sig. Af þessu má draga þá ályktun að ólögmætum búsetuskerðingum verði hætt um mánaðamótin.

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Getur hann staðfest að breytingin til framtíðar muni koma til framkvæmda í lok mánaðar og verði þá einnig byrjað að greiða samkvæmt nýjum útreikningum? Ef ekki, þá hvenær? Hvenær munu örorkulífeyrisþegar fá endurgreitt það sem skert hefur verið ólöglega undanfarin ár og áratugi?

Þá er uppi skýr krafa frá hagsmunasamtökum örorkulífeyrisþega að greitt verði tíu ár aftur í tímann. Mun ráðherra gera það?



[10:47]
félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Halldóru Mogensen fyrir þessa góðu fyrirspurn. Við áttum einnig gott samtal, félagsmálaráðuneytið og ég sem félags- og barnamálaráðherra við velferðarnefnd í gær þar sem farið var yfir þetta mál. Ég held að það sé eiginlega þrískipt hvernig við þurfum að taka á þessu máli. Í fyrsta lagi eru eldri uppsöfnuð mál, eins og þingmaðurinn kom inn á, í öðru lagi breytt framkvæmd í dag, og í þriðja lagi þurfum við að velta því fyrir okkur hver lagalega staðan er og hvort eðlilegt sé að gera breytingar til framtíðar á því hvernig við högum þessum málum.

Eins og þingmaðurinn vitnaði til í máli sínu er Tryggingastofnun að fara yfir þetta mál og hefur verið í góðum samskiptum við okkur. Fulltrúar hennar hafa m.a. mætt á fundi velferðarnefndar og eru búnir að vera í góðum samskiptum við félagsmálaráðuneytið þar sem verið er að vinna að tímalínu, hvernig þessum málum verður háttað til framtíðar. Niðurstaða er ekki komin enda eru ekki enn komin lok janúar. Í framhaldi af því þegar niðurstaða liggur fyrir í þessu efni, og ég get upplýst að í því sambandi er hugsað um fjögur ár, þurfa að eiga sér stað fundir með félagsmálaráðuneytinu og Tryggingastofnun, annars vegar með fjármálaráðuneyti og hins vegar fjárlaganefnd, til þess að vinna áætlanir um hvernig hægt er að bregðast við til framtíðar.

Þetta mál, þ.e. framkvæmd Tryggingastofnunar, sem er mjög gamalt, hefur á öllum stigum verið staðfest af úrskurðarnefndum. Eftir álit umboðsmanns hefur verið ákveðin vinna í gangi. Henni er ekki lokið. Þegar henni verður lokið mun Tryggingastofnun gera grein fyrir því hvernig áætlunum um báða þessa þætti verður háttað, en það liggur ekki fyrir á þessari stundu, því miður.



[10:49]
Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég þakka svörin en af þeim get ég ekki séð hvenær eigi að byrja að greiða samkvæmt nýjum útreikningum, sem þýðir að væntanlega eigi að halda áfram að brjóta á þeim hópi þangað til — hvað? Hverjar er forsendurnar? Hvað er verið að gera með þessa tímalínu og af hverju tekur þetta þennan tíma? Ég skil vel að það taki tíma þegar kemur að endurgreiðslunum en ég skil ekki af hverju er ekki hægt að fara að greiða fólki löglega, samkvæmt lögum, og það strax.

Hvað veldur því að ekki er hægt að fara í þær aðgerðir að breyta því til framtíðar strax?

Ráðherrann talar um fjögur ár. Komið hefur í ljós að þar er verið að bera fyrir sig fyrningu, að þetta sé fyrnt og þess vegna sé ekki farið tíu ár aftur í tímann eins og hagsmunasamtök fara fram á. Er ráðherra skylt á einhvern hátt að bera fyrir sig fyrningu eða er þetta bara ákvörðun? Er það pólitísk ákvörðun eða skylda? Hvers vegna er þetta ákveðið?

Hvers vegna er aðeins verið að greiða fjögur ár en ekki tíu? (Forseti hringir.) Öryrkjabandalagið hefur tekið eftir þessu síðan 2009. Þá var byrjað að taka mjög hart á því og skerða fólk alveg svakalega. Hver er réttlætingin fyrir því að greiða ekki tíu ár aftur í tímann?



[10:50]
félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Eins og ég sagði áðan verður Tryggingastofnun að fara yfir þau mál og öll framkvæmd er á hendi Tryggingastofnunar. Það er ekkert launungarmál að félagsmálaráðuneytið hefur verið í mjög góðu sambandi við Tryggingastofnun um útfærslu. Unnið er að breytingum hvað þetta snertir. Tryggingastofnun sjálf hefur bent á að fyrir lok þessa mánaðar muni liggja fyrir tímalína í því efni.

Ég vil benda á í því samhengi, bæði varðandi breytta framkvæmd og leiðréttingar, að í fyrsta lagi er mikilvægt að fara vel yfir málið til þess að hafa það algerlega rétt núna hvernig brugðist verður við. Í öðru lagi er mikilvægt að fram fari samtal milli félagsmálaráðuneytisins við fjárveitingavaldið og fjármálaráðuneytið um það hvernig brugðist skuli við þessu, bæði til framtíðar og hvað varðar þá þætti sem á að leiðrétta afturvirkt.

Ég náði ekki að svara seinni spurningunni en ég þykist vita að ég eigi eftir að fá eina fyrirspurn enn um málið í óundirbúnum fyrirspurnum og mun svara henni þá.