149. löggjafarþing — 57. fundur
 24. janúar 2019.
Bankasýsla ríkisins, 2. umræða.
stjfrv., 412. mál (starfstími). — Þskj. 553, nál. 840.

[12:48]
Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Bankasýslu ríkisins, nr. 88/2009, á þskj. 840, og vitna ég til þingskjalsins:

„Ákvæði 9. gr. laga um Bankasýslu ríkisins kveður á um að stofnunin skuli hafa lokið störfum „eigi síðar en fimm árum frá því að hún er sett á fót og verður hún þá lögð niður“. Þar sem tímamörkin sem kveðið er á um í greininni hafa ekki staðist er með þessu frumvarpi lagt til að 9. gr. falli brott og að við lögin bætist bráðabirgðaákvæði þess efnis að stofnunina skuli leggja niður þegar verkefnum hennar er lokið.“

Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir og Ásgerður K. Gylfadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins, en nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir þetta nefndarálit rita sá er hér stendur, Óli Björn Kárason, og hv. þingmenn Þorsteinn Víglundsson, Brynjar Níelsson, Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.



[12:50]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Eins og fram kom í máli hv. þm. Óla Björns Kárasonar er ég á nefndarálitinu og styð því auðvitað framgang málsins. Ég vildi hins vegar vekja athygli á því að við höfum verið að framlengja og vasast með tilvist Bankasýslunnar um allnokkurt skeið. Ég held að það sé löngu orðið tímabært að taka afstöðu til þessarar spurningar: Er þörf á ríkisstofnun til þess að halda utan um hlutabréf þó að í fjármálafyrirtækjum sé?

Kannski er ekkert síður viðeigandi að fara að skoða það alvarlega hvernig framtíðarfyrirkomulag á þessu eigi að vera. Það er alveg ljóst að það virðist ætla að verða talsvert lengra í sölu á hlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum en upphaflega var að stefnt. Þetta átti að vera bráðabirgðaráðstöfun. Það var aldrei hugsunin að ríkið héldi mjög lengi á svona umfangsmiklum hlutum í kerfinu og auðvitað kemur eignarhluturinn í Íslandsbanka til eftir tilurð Bankasýslunnar.

Ég held að þetta sé óþarft fyrirkomulag. Það sé óþarfi að reka heila opinbera stofnun utan um eignarhald á bönkunum eða það hlutverk eitt í raun og veru að halda á hlutabréfum og móta einhvers konar eigandastefnu ríkissjóðs. Ég held að við eigum að taka þetta til endurskoðunar, sérstaklega af því að ég óttast með stefnu núverandi ríkisstjórnar að það verði ekkert gert í sölu fjármálafyrirtækja á þessu kjörtímabili. Það virðist ekki vera nein samstaða um það og forsætisráðherra og fjármálaráðherra eru mjög misvísandi í sínum yfirlýsingum. Það væri því ágætt og ég hvet til þess að það verði farið að huga að framtíðarfyrirkomulagi þessara mála þannig að við stöndum ekki til lengdar að rekstri sjálfstæðrar ríkisstofnunar til að halda á hlutabréfum.



[12:52]
Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Í þessum efnum erum við hv. þm. Þorsteinn Víglundsson sammála. Ég er einn þeirra sem hafa talað fyrir því að ekki sé þörf fyrir að reka sérstaka stofnun sem heitir Bankasýsla ríkisins, það sé hægt að koma hlutunum fyrir með öðrum og kannski skynsamlegri hætti. Það eru þau sjónarmið sem menn verða auðvitað að taka tillit til sem eru armslengdarsjónarmið þegar kemur að meðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

Það vill svo til að hæstv. fjármálaráðherra núverandi, 2014 eða 2015, lagði fram tillögu fyrir þingið um að leggja niður stofnunina. Alþingi hafnaði því og þáverandi efnahags- og viðskiptanefnd var þar á meðal. Að því leyti hefur Alþingi sagt sína skoðun á því og meirihlutaviljinn er þessi, a.m.k. var, það er auðvitað búið að kjósa tvisvar í millitíðinni. En Alþingi hefur lýst þeirri skoðun sinni að það sé rétt þó að það séu deildar skoðanir.

Ég deili skoðunum hv. þingmanns á því að það séu ekki sérstök rök fyrir þessari stofnun en meiri hluti Alþingis, þangað til annað kemur í ljós, hefur ákveðið að þessi stofnun skuli starfa. Meginrökin eru þau sem ég rakti hér áðan, að það séu ákveðin armslengdarsjónarmið sem skuli gilda, og þau eru auðvitað góð og gild.



[12:54]
Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég hygg að við hv. þingmaður séum ágætlega sammála í þessu og ég er alveg sammála því að auðvitað þarf að gæta að armslengdarsjónarmiðinu. Raunar væri að mínu viti mjög heppilegt almennt varðandi eignarhluti ríkissjóðs í atvinnustarfsemi eða slíku að armslengdarsjónarmið væru fyrir hendi og við værum með eitthvert almennt fyrirkomulag, t.d. varðandi val í stjórnir, bæði að það sé skýr eigandastefna ríkisins í þeim fyrirtækjum sem ríkissjóður á hlut í en það séu líka skýrar reglur um það hvernig valið er í stjórnir, tilnefningarnefndir eða eitthvað þess háttar. Ég hygg að þetta sé allt saman hægt að gera innan vébanda viðkomandi ráðuneyta en þurfi ekki endilega að gera í sjálfstæðum stofnunum. En það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að þetta sjónarmið er mjög mikilvægt og að því sé haldið til haga í þessu samhengi.

Hvað varðar vilja Alþingis þá er það alveg rétt að þessu var hafnað á sínum tíma, en það eru tvennar kosningar síðan og töluverðar breytingar orðið hér í þingsal. Í ljósi þess að þetta viðamikla eignarhald hefur dregist á langinn þá tel ég ekkert óeðlilegt að það sé tekið til endurskoðunar hvort sömu sjónarmið eigi við enn þá og fyrir fjórum árum.