149. löggjafarþing — 57. fundur
 24. janúar 2019.
búvörulög, 1. umræða.
frv. HSK og LínS, 295. mál (afurðastöðvar í kjötiðnaði). — Þskj. 338.

[16:29]
Flm. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér frumvarp til laga sem snýr að breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993, með síðari breytingum (afurðastöðvar í kjötiðnaði). Flutningsmaður með mér er hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir.

Frumvarpið felur í sér breytingu á 1. gr. laganna eins og hér segir:

„Á eftir 71. gr. laganna kemur ný grein, 71. gr. A, svohljóðandi:

Þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga er afurðastöðvum í kjötiðnaði heimilt að sameinast og gera með sér samkomulag um verkaskiptingu og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu kjötvara. Leggja skal upplýsingar um slíka samninga og samstarf fyrir ráðherra til upplýsingar.“

Frumvarpið felur í sér breytingar á þann hátt að þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga er afurðastöðvum í kjötiðnaði heimilt að sameinast og gera með sér samkomulag um verkaskiptingu og hafa með sér annars konar samstarf til að halda niðri kostnaði við geymslu og dreifingu og annað slíkt, eins og áður segir. Það gæti m.a. falist í að samræma flutning sláturgripa og einnig dreifingu afurða og markaðsstarf.

Eins og segir í greinargerð með frumvarpinu er þetta gert í því skyni að undanþiggja afurðastöðvar í kjötiðnaði ákvæðum samkeppnislaga. Þá er allt kjöt undir.

Með frumvarpinu er tilgangurinn að veita innlendum kjötiðnaði tækifæri til að hagræða og til að bregðast við ört vaxandi samkeppni við afurðir frá erlendum mörkuðum. Afurðastöðvar í kjötiðnaði geta mjög takmarkað sameinast þar sem það er í andstöðu við ákvæði samkeppnislaga. Það skilar sér í of háum rekstrarkostnaði, háu verði til neytenda og lágu afurðaverði til bænda.

Frumvarpinu er líka ætlað að bregðast við auknum innflutningi á landbúnaðarafurðum. Nú eru um 20% af heildarneyslu kjöts innflutt. Litlar afurðastöðvar um landið hafa ekki einar og sér burði til að keppa á þessum markaði. Samkeppnin, sem innlend framleiðsla stendur frammi fyrir, er risastór og það er engan veginn í valdi greinarinnar að keppa í verði eða magni. Íslenskur landbúnaður á nú þegar í alþjóðlegri samkeppni á innanlandsmarkaði, sá veruleiki er til staðar.

Vandi sauðfjárbænda hefur mikið verið í umræðunni og var sett af stað nefnd á síðasta ári til að skoða hvaða úrræði væru í sjónmáli til að laga stöðuna. Fyrr í mánuðinum undirrituðu fulltrúar Bændasamtaka Íslands og stjórnvalda samkomulag um endurskoðun á samningi um starfsskilyrði sauðfjárbænda. Í viðræðum sem fóru fram í haust milli aðila var það uppi að fara þyrfti ofan í rekstrarumhverfi afurðastöðva. Í landinu eru níu afurðastöðvar sem hafa leyfi til að sinna sauðfjárslátrun. Þær afurðastöðvar eru í eigu bænda að mestu leyti og því má segja að það sé alltaf hagur bænda að grundvöllur sé til að hagræða í rekstri.

Afurðastöðvum er með þessu gert kleift að vinna saman eða sameinast og vinna að markaðsstarfi eins og áður var sagt. Það ætti að skila sér í lægra verði til neytenda og hærra verði til bænda.

Íslenskar afurðastöðvar og bændur verða að vera undir það búnir að mæta aukinni samkeppni sem innflutningur á kjöti er — sem er staðreynd. Nú er staðan sú að innflutt nautakjöt er orðið rúmlega 20% af nautakjötssölu hér. Svipaða sögu er að segja um innflutning á kjúklingi og svínakjöti. Það þarf því ekkert að taka fram að íslenskt kindakjöt er hluti af þessum kjötmarkaði og þarf að efla varnirnar.

Í skýrslu KPMG, sem er úttekt á afurðastöðvum, er niðurstaðan sú að margt bendi til þess að sláturhús séu of mörg og þeim þurfi að fækka til að auka hagræði í greininni. Þar segir líka að fækkun afurðastöðva geti aukið arðsemi sláturhúsanna sem eftir verða og að þau hefðu svigrúm til sjálfvirknivæðingar. Það gæti verið svar við þeim erfiðleikum sem m.a. hafa verið við að manna sláturhúsinu yfir háannatímann.

Virðulegi forseti. Það er ljóst að styrking afurðastöðva skiptir sauðfjárræktina sérstaklega miklu máli því að þar hefur orðið markaðsbrestur. Undanfarin þrjú ár hefur afkoman í greininni verið á niðurleið og hefur eiginlega náð botni sínum. Það þarf átak til að geta spyrnt sér upp frá honum. Afurðaverð hefur verið í sögulegu lágmarki. Meðalverð til bænda var nú í haust um 387 kr. á kíló en þyrfti líklega að vera um 650–700 kr. til að ná viðunandi rekstrargrundvelli á meðalsauðfjárbúi.

Það er ljóst að staða afurðastöðva hefur verið með þeim hætti að ekki hefur verið hægt að greiða hærra verð til bænda. Það kemur engum til góða, hvorki bændum né neytendum. Útgangspunkturinn er að hagsmunir bænda og neytenda fara saman. Því er það sameiginlegt baráttumál að standa vörð um íslenska matvælaframleiðslu.

Ég hef svo sem ekki fleiri orð um þetta frumvarp. Ég vona að vel verði tekið í það og það fái góða umfjöllun í atvinnuveganefnd þar sem það á heima.



[16:36]
Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Það kemur kannski ekki á óvart að ég hafi töluverðar efasemdir um það mál sem hér er flutt. Þegar verðþróun á vöruflokkum hér í landi er skoðuð eftir því hvort samkeppni ríkir eða ekki sjáum við að verulegur munur er á því, horft 20 ár aftur í tímann, hversu mikið verðlag hefur hækkað; langmest í þeim vöruflokkum þar sem lítil eða engin samkeppni ríkir og langminnst í þeim vöruflokkum þar sem samkeppni er hvað mest.

Þess vegna kemur dálítið á óvart að í greinargerð með þessu máli sé vísað til þess að það sé í þágu neytenda að sameina frekar afurðastöðvar í kjötvinnslu. Það er athyglisvert að frá því að stuðningi við grænmetisrækt var breytt í beingreiðslur í stað tollverndar, og greinin hefur starfað undir óheftri samkeppni erlendis frá að öðru leyti, hefur verð á þeim afurðum hækkað mun minna en verðlag almennt í landinu frá 2004 að telja. Á sama tíma höfum við veitt mjólkuriðnaðinum undanþágur frá reglum samkeppnisréttarins en þar hefur verðlag hækkað talsvert umfram hækkanir á vísitölu neysluverðs.

Þess vegna velti ég fyrir mér í fyrra andsvari mínu: Hvernig fá flutningsmenn þessa máls séð að það sé í þágu neytenda að hér yrði leyfð frekari fákeppni en þegar er raunin í rekstri afurðastöðva? Þá má hafa í huga umkvartanir bænda sjálfra yfir því hversu fáa valkosti þeir hafi varðandi slátrun og hvernig þeir geti unnið úr afurðum sínum og einnig má hafa í huga að samþjöppun í þessari atvinnugrein er þegar mjög mikil. Mér telst t.d. til að það séu einar fimm afurðastöðvar í slátrun á sauðfé. Tvær þeirra eru alla vega í mjög tengdu eignarhaldi þannig að í virkri samkeppni eru þær sennilega ekki nema þrjár til fjórar.



[16:38]
Flm. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir andsvarið sem var ekki óvænt. En ég fullyrði að hagur bænda og neytenda fari saman hvað varðar samkeppni. Það er vegna þess að verð er ekki eina hagsmunamál neytenda heldur líka gæði. Það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir íslenska neytendur að hafa þetta val. Við erum að tala um samkeppni frá erlendu kjöti, af erlendum mörkuðum, sem bæði eykur kolefnisspor og er ekki af þeim gæðum sem íslenska lambakjötið er, sem er bæði vistvænt og hreint. Þar liggja hagsmunir neytenda. Það skiptir gríðarlega miklu máli að neytendum sé boðið upp á íslenskan kjötmarkað.

Það sama er uppi í mjólkuriðnaðinum en samkeppnisákvæði var tekið þar út. Það hefur aukið nýsköpun í mjólkuriðnaði. Við sjáum að íslenskur mjólkurmarkaður hefur eflst, hefur komið meira til móts við neytendur í nýsköpun og fjölda vara og öðru. Við erum að keppa á örmarkaði hér á landi og við erum mjög lítil í því samhengi.



[16:40]
Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna að þegar tal í tengslum við íslenskan landbúnað berst að því að undanþiggja atvinnugreinina samkeppnislögum sækir að mér verulegur efi. Samkeppnislögin eru nefnilega fyrst og fremst sett til verndar neytendum, til þess að tryggja að við njótum valfrelsis og samkeppni á sem flestum mörkuðum. Þess vegna hljóta að þurfa að liggja að baki mjög ríkar ástæður til að undanþiggja heilu atvinnugreinarnar reglum samkeppnislaga. Á endanum eru samkeppnislögin ekkert svo hamlandi fyrir atvinnulífið almennt.

Heimildir til samstarfs eða frekari samruna umfram reglur samkeppnisréttarins? Ég spyr þá: Mætti ekki allt eins með sömu rökum segja að hér væri langbest að hafa eitt olíufélag eða að þau mættu hafa með sér fullt samstarf? Ég held að flestum þætti það óráð. Eða að við værum hér með eina matvörukeðju eða að núverandi keðjur mættu hafa með sér fullt samráð og samstarf um rekstur fasteigna, innkaup o.s.frv. Það held ég að okkur þætti líka hið mesta óráð.

Hvað með einn banka? Eitt tryggingafélag? Eitt símfyrirtæki? Hvað er það sem gerir landbúnaðinn sérstakan í þessu samhengi? Öll fyrirtæki hér á landi standa í einhvers konar samkeppni við innflutning eða staðkvæmdarvörur af einhverju tagi sem fluttar eru inn, eða þjónustu. Þrátt fyrir það dettur okkur ekki í hug að fara inn í samkeppnisgreinar eins og síma, matvöruverslun, banka, vátryggingastarfsemi og svo mætti áfram telja — hvað þá olíudreifingu og verslun — og undanþiggja þessar greinar samkeppnislögum.



[16:42]
Flm. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, takk aftur, hv. þm. Þorsteinn Víglundsson. Við erum kannski að tala um ólíka hluti þegar við tölum um fjarskiptaþjónustu eða matvælaöryggi. Ef við opnum alveg fyrir innflutning á mjólkurvörum — mig minnir að það hafi komið fram í haust, ég las það í Bændablaðinu, að tíunda stærsta fyrirtækið á samkeppnismarkaði í mjólk veltir nokkrum sinnum því sem íslenska ríkið veltir, við erum að keppa á örmarkaði. Þó að hagrætt sé fyrir okkur sem erum að framleiða íslenska vöru, sem við viljum öll halda í, erum við komin að sársaukamörkum í sauðfjárræktinni. Ég held að við séum ekki að tapa neinu, íslenskir neytendur, vegna þess að við fáum vöru sem er fyllilega samkeppnishæf við erlenda vöru. Það er þar sem við þurfum að fóta okkur.

Þó að við liðkum aðeins fyrir þeirri samkeppni held ég að ekki sé á neinn hallað, alls ekki á neytendur. Ég held að það sé aldrei of oft tekið fram að hagur neytenda og bænda fer alltaf saman, það er mjög mikilvægt að draga það fram. Ég er ekki að tala fyrir því að skorið sé á samkeppni í öðrum vörum, t.d. í olíu sem er öll innflutt. Þar eru fyrirtæki á erlendum markaði að keppa sín á milli og líka í fjarskiptamálum og öðrum greinum.



[16:44]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Við skulum ekkert velkjast í vafa um að þeir sem greiða fyrir undanþágur frá samkeppnislögum á endanum eru neytendur og í þessu tilviki án efa bændur líka. Bændur í samhengi þeirrar sterku stöðu sem afurðastöðvarnar hafa nú þegar á kjötmarkaði hér á landi kvarta mjög hátt undan því að tækifæri þeirra til sölu og markaðssetningar á eigin afurðum séu ákaflega takmörkuð, bændur eigi í raun og veru ekkert val við hverja þeir skipti. Nýverið t.d. þegar afurðastöðvar boðuðu verulega lækkun á verði til bænda og bændur lýstu því yfir að þeir kysu jafnvel að leita tækifæra í eigin vinnslu og markaðssetningu á afurðum hækkaði skyndilega mjög verð til þeirra til að geta tekið skrokkana heim aftur til frekari vinnslu. Það lýsir þeirri fákeppni eða í raun og veru einokunarstöðu sem þegar er til staðar á markaðnum. Hvað varðar að fara í frekari samruna skulum við horfa aðeins á þau fyrirtæki sem eru allsráðandi.

Við erum með Sláturfélag Suðurlands sem veltir liðlega 10 milljörðum á ári, er með eigið fé upp á rúma 5 milljarða og eiginfjárhlutfall upp á 60%. Mér sýnist það endurspegla ágætlega traustan og heilbrigðan rekstur og að ekki þurfi til inngrip eða undanþágur frá samkeppnislögum til að styðja frekar við þann rekstur. Þar hefur líka verið mjög mikil samþjöppun þannig að Sláturfélagið hefur verið að útvíkka starfsemi sína í gegnum árin til fleiri afurðaflokka og er mjög ráðandi t.d. þegar kemur að kjúklingaslátrun og -vinnslu og lambi og öðrum kjötafurðum. Við erum með Kaupfélag Skagfirðinga fyrir norðan sem á jafnframt eignarhlut í tveimur sláturhúsum til viðbótar í Vestur-Húnavatnssýslu og á Suðurlandi þannig að þar sjáum við að þegar er orðin mikil samþjöppun. Við erum með Norðlenska á Eyjafjarðarsvæðinu sem á í samrunaviðræðum við aðra afurðastöð eftir því sem ég best veit. Markaðurinn er þegar orðinn mjög þröngur á því sviði. Við erum með, myndi ég segja, þrjár til fimm ráðandi afurðastöðvar eftir því hvort við teljum tengda aðila saman eða ekki.

Það væru klárlega ekki hagsmunir bænda sem hér væru hafðir í huga því að það væri enn frekar þrengt að möguleikum þeirra til markaðssetningar, hvað þá eigin vinnslu á afurðum, með slíkri lagabreytingu. Við sjáum skýrt í öllum þeim undanþágum sem við höfum veitt frá samkeppnislögum í gegnum tíðina að þær eru alltaf á kostnað neytenda.

Á undanförnum 20 árum hefur fátt ef nokkuð hækkað meira en póstþjónusta og akstur leigubifreiða, svo að dæmi sé tekið. Það eru tveir markaðir þar sem lítil sem engin samkeppni er til staðar. Mjólkurafurðir hafa sömuleiðis hækkað talsvert umfram verðlag þrátt fyrir umræðu um alla þá hagræðingu sem undanþágan á sínum tíma átti að skila til neytenda. Sú hagræðing hefur á engan hátt skilað sér til neytenda. Ég held að við eigum að taka af allan vafa um það. Meira að segja í umhverfi sem á að hluta til við um mjólkuriðnaðinn, en á líka við t.d. um raforkuflutning og dreifingu þar sem við höfum leyft ýmist algjöra einokun eða verulega fákeppni undir svokölluðu regluðu umhverfi, sjáum við að verðhækkanir á þjónustu af þeim flutningi eru talsvert umfram verðlagshækkanir, enda afkoma þar yfirleitt nokkuð góð. Það hefur sýnt sig að ekkert veitir stífara aðhald en frjáls samkeppni, það er enginn harðari húsbóndi í þeim efnum.

Hvaða vörur eru það sem hafa hækkað minnst á þeim 20 árum ef við horfum til samanburðar? Þetta er sundurliðun á vísitölu neysluverðs eins og Hagstofan birtir hana. Það er t.d. fatnaður og skór. Það er símaþjónustuna, innfluttar bifreiðar og varahlutir til bifreiða og svo mætti áfram telja. Þetta eru allt saman vöruflokkar sem lúta engri sérstakri vernd af okkar hálfu þar sem samkeppni er óheft, hvort sem er meðal innflutningsvara eða innflutningsvara við innlenda framleiðslu eða innlenda þjónustu.

Þess vegna er mjög varhugavert að ætla að feta frekar í þá átt. Ég held að það sé hvorki í þágu bænda né neytenda að stíga slík skref. Ég held að við ættum frekar að sameinast í þessum sal um að losa bændur sjálfa undan því oki sem afurðastöðvakerfið er þeim og þann fjötur sem það setur bændum m.a. til eigin vinnslu og markaðssetningar á vörum sínum og við sjáum mýmörg dæmi um. Við sjáum líka óttann sem virðist vera við það, samanber þá tilraun Matís í haust til að móta reglur um vinnslu úr svokölluðum örsláturhúsum sem ekki hefur hlotið mikinn hljómgrunn hjá núverandi stjórnvöldum.

Það er svo að þeir flokkar sem eru við völd hafa aldrei haft neina sérstaka ást á frjálsri samkeppni. Þær samkeppnisreglur sem við þó höfum fengið, þær reglur og lagasetningar sem við þó höfum fengið til varnar okkur neytendum, eru meira og minna allar innfluttar í gegnum Evrópska efnahagssvæðið. Það er umhugsunarefni. Fyrir gildistöku samningsins um Evrópska efnahagssvæðið var varla rætt um samkeppnislög, samkeppnisreglur eða mikilvægi frjálsra samninga.

Ég þekki alveg sögur gamalla atvinnurekenda af því hversu þægilegt var að vinna undir til að mynda opinberu verðlagseftirliti þar sem þurfti heimildir til verðhækkana. Það er svo auðvelt að rökstyðja verðhækkanir þegar einungis þarf að sækja heimildina en ekki lúta aga samkeppninnar. Samkeppnin spyr okkur ekki hversu mikið við þurfum að hækka. Samkeppnin skammtar okkur hversu mikið við getum hækkað. Það er ekki vandamál að rökstyðja fyrir opinberri nefnd hækkunarþörfina út frá launahækkunum eða þróun á vísitölu neysluverðs eða einhverjum öðrum þeim þáttum sem hægt er að grípa til hverja stundina og yfirleitt eru slíkar hækkunarbeiðnir samþykktar umhugsunarlítið. Frjáls samkeppni samþykkir slíkan rökstuðning aldrei heldur spyr einfaldlega hver bjóði best. Við það verða allir aðilar að keppa.

Það er miður að við höfum ekki meiri trú á samkeppninni en þetta. Ég vona svo sannarlega að málið nái ekki fram að ganga.



[16:52]
Elvar Eyvindsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Þorsteinn Víglundsson talar um samkeppnina og hag bænda og neytenda. Ég held að við séum sammála um að allra hag viljum við sem bestan. Hv. þingmaður vitnar mjög í mjólkuriðnaðinn í máli sínu en ég má til með að minna hann á hvernig kerfið er uppbyggt. Verðlaginu þar er stjórnað af opinberri nefnd, líklega allt að hálfu leyti eða meira, sem þýðir að sumar vörur eins og smjör eru framleiddar og seldar undir kostnaðarverði. Það þýðir að ekki er um annað að ræða en að ná því annars staðar inn. Þetta gerir stöðu mjólkuriðnaðarins afskaplega veika gagnvart innflutningi. Ég hef hvergi séð að einhverjum detti í hug að flytja inn nýmjólk eða smjör af því að þar er náttúrlega ekki nein framlegðarvon, framlegðarvonin er hinum megin þar sem fyrirtækið hefur frelsi um verðlagningu. Ég held að það sé eitthvað sem hv. þingmaður ætti að hjálpa til við að laga og leysa. Ég get ekki séð að það geti gengið þegar innflutningur og samkeppni er vaxandi.

Ég fór á netið að gamni mínu áðan, einhverja netverslun, og sá að hægt var að kaupa nýmjólkurlítrann á 154 kr. og blávatn í tveggja lítra flösku á 279 kr. Þar er engin afurðastöð og allt frjálst. Þetta er blávatn sem við getum fengið úr öllum krönum selt á 140 kr. lítrann. Lítrinn var sem sagt 14 kr. ódýrari í tveggja lítra flöskunni. Svo var önnur tegund, 1,5 lítrar, á 329 kr., eða 219 kr. lítrinn. (Forseti hringir.) Það er því ekki hægt að sanna að samkeppni í vatninu leiði til lágs vöruverðs.



[16:55]
Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni prýðisgott andsvar. Það er einmitt mjög áhugavert þegar við horfum á mjólkuriðnaðinn af hverju við viðhöfum slíkt fyrirkomulag. Eins og hv. þingmaður benti á gerum við fyrirtæki markaðsráðandi með opinberri verðstýringu. Ég hygg að Mjólkursamsalan sé með vel yfir 95% af markaðshlutdeild, sennilega nokkuð nærri 100% ef út í það er farið. En af hverju gerum við því fyrirtæki þá að selja helstu afurð sína, nýmjólkina, eða hvort sem er nýmjólk eða léttmjólk, með tapi og jafnvel umtalsverðu tapi, á talsvert lægra verði, eins og hv. þingmaður bendir á, en kaupmenn treysta sér til að selja vatn á flöskum á og það í þeirri vöru þar sem samkeppnisstaða þeirra gagnvart innflutningi væri sennilega hvað sterkust? Ég held að við getum öll verið sammála um að innflutningur á ferskvöru á tiltölulega lágu kílóverði, ef hægt er að orða það þannig, er ekkert sérstaklega raunhæfur og væri afar ólíklegt, jafnvel í tiltölulega óheftu samkeppnisumhverfi, að við sæjum verulegan innflutning á ferskmjólk hingað til lands. En á sama tíma ætlum við fyrirtækinu að sækja alla framlegð sína í ostum og feitari vörunni, sem er þó á endanum hvað viðkvæmust fyrir samkeppni. Mér finnst þetta óskynsamlegt fyrirkomulag í grunninn. Ég held að byrja ætti á því að endurskoða það: Er þetta tilgangurinn? Tilgangurinn virðist vera að reyna að hámarka mjólkurframleiðslu á einhvern hátt en það er heldur ekki skynsamlegt til lengdar að framleiða meira en jafnvægisástand á markaði gefur tilefni til. (Forseti hringir.) Í frjálsri verðlagningu er ekki vafaatriði að því yrði talsvert öðruvísi skipt.



[16:57]
Elvar Eyvindsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Já, ég held að tímabært sé að gera þetta. En ég má til með að nefna, og kann að vera að það sé innlegg í umræðuna um afurðastöðvamálið sem ég kem kannski betur að á eftir, að Mjólkursamsölunni og Kaupfélagi Skagfirðinga er gert að selja smærri fyrirtækjum sem vilja líka sprikla á markaðnum hráefni á mjög góðu verði og að ég tel líklega undir því verði sem þau þurfa sjálf að borga. Það er ekkert óeðlilegt við það í ljósi stærðar að smærri fyrirtæki geti keypt þarna á lægra verði. Það er vel og ég sé ekki betur en að þau blómstri þessa dagana og komi með nýjungar og er margt jákvætt að gerast á þeim slóðum.



[16:58]
Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt að Mjólkursamsalan hefur selt örsmáum keppinautum sínum mjólk á hagstæðu verði. Ég hef hins vegar líka hlustað eftir yfirlýsingum forsvarsmanna t.d. Örnu á Ísafirði sem telja sig engu að síður ekki lifa of góðu lífi undir því fyrirkomulagi markaðarins. Mjólkursamsalan hefur þann yfirburðastyrk á markaði að geta knésett hvaða keppinauta sem er og hvenær sem er í raun bara með eigin vöruframboði eða vöruþróun og hefur svo sem margoft gert það. Þegar vöruþróun hefur komið fram hjá sprotum á markaðnum hefur Mjólkursamsalan oftar en ekki komið fram með sambærilega vöru og keyrt keppinautinn í kaf. Ég veit t.d. ekki hversu oft er búið að kaupa Mjólku eða sambærileg fyrirtæki inn í Mjólkursamsöluna. (Forseti hringir.) Svo mætti spyrja hvort ekki sé tímabært eftir alla þessa hagræðingu og samþjöppun að afnema undanþáguna þannig að samkeppnislögin gildi þó alla vega án nokkurs efa um starfsemina hér eftir.



[17:00]
Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er alltaf frískandi að hlusta á hv. þm. Þorstein Víglundsson tala um landbúnaðarmál og verðsamkeppni. Það er hins vegar verulega fyndið að nefna bensínsölu á Íslandi sem dæmi um samkeppni; þar eru fimm olíufélög og það er líklega einn blettur á Íslandi, svona 5 km blettur, þar sem raunveruleg samkeppni er í verði á bensíni og olíu. Annars gætum við nafnarnir fengið okkur bíltúr vítt og breitt um landið og komist að því að verðmismunurinn á milli þessara fyrirtækja er 10 aurar á lítrann nema það sé heimsmeistarakeppni í handbolta eða Eurovision eða eitthvað slíkt þannig að virk samkeppni á þeim markaði er ekki til.

Það má líka nefna að á Íslandi erum við með verslunarfyrirtæki sem er með 60% markaðshlutdeild en slík markaðshlutdeild þekkist hvergi. Mig minnir að í Bretlandi séu þrjár stærstu matvörukeðjurnar með 60% til samans og Bretar svitna yfir því. Þeim finnst það alveg rosalegt. Þetta eitt út af fyrir sig, þ.e. „virk samkeppni“, sem er bara ekkert rosalega víða, skapar ekki grundvöll til lægra vöruverðs, síður en svo. Hv. þingmaður sagði: Það sem hefur hækkað minnst undanfarið eru skór og fatnaður. Það er reyndar með hjálp ríkisins sem hefur aflétt bæði sköttum og vörugjöldum þar af. Ekki er hægt að klappa kaupmanninum á bakið fyrir það.

Fyrrverandi hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði gjarnan um skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskólans gaf út fyrir nokkrum árum að ábatinn af því að Mjólkursamsalan var á sínum tíma undanþegin samkeppnislögum væri 3 milljarðar á ári, þar af færu 2 til neytenda og 1 til bænda.

Mig langar til að heyra álit hv. þingmanns á þessu og hvernig hann (Forseti hringir.) rökstyður það að það sé versluninni í landinu að þakka að vara sem nýbúið er að lækka vörugjöld og tolla af hækki minna en eitthvað annað.



[17:02]
Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni andsvarið og viðurkenni að mér þykir fátt skemmtilegra en að kýta við hv. þingmann um landbúnaðarmál.

Spurt er: Er þetta ekki allt afnámi tolla og vörugjalda að þakka? Vafalítið hefur það haft sín áhrif. Ég nefndi reyndar talsvert fleiri vöruflokka en þessa. Það má líka nefna í því samhengi að á því tímabili sem ég var að tala um, á undanförnum 20 árum, man ég ekki betur en að matarskatturinn svokallaði hafi verið tekinn upp, þ.e. virðisaukaskattur á matvæli lækkaður töluvert. Það hefur haft sitt að segja til að hjálpa mjólk og öðrum matvælum í þessum samanburði. Menn höfðu líka verulegar áhyggjur af því, þegar tollar og vörugjöld voru afnumin af fatnaði, að það myndi ekki skila sér til neytenda, en samkeppnin sá greinilega til þess að það sat ekki eftir hjá kaupmönnum heldur fór út til neytenda.

Hv. þingmaður nefnir bensínsölu og samþjöppun á smásölumarkaði með matvöru. Það er alveg rétt að í okkar litla landi er fákeppni talsvert ráðandi. Þess vegna tel ég einmitt þeim mun mikilvægara að vera hér með öfluga og skilvirka samkeppnislöggjöf og beita henni miskunnarlaust til að halda slíkum fyrirtækjum í skefjum. Við erum alltaf að reyna að dansa línudans á milli hagræðis af stærri einingum sem í litlu landi þýðir óhjákvæmilega um leið að þær eru fáar. Við erum með á flestum stærri mörkuðum þrjá til fimm allsráðandi aðila líkt og í afurðastöðvunum í kjöti. Þess vegna held ég að það sé einmitt þeim mun mikilvægara að samkeppnislöggjöfin gildi sem og leikreglur samkeppninnar.

Það er síðan allt annað mál þegar kemur að landbúnaðinum sérstaklega. Ég er mikill aðdáandi íslenskra landbúnaðarvara. Ég (Forseti hringir.) tala óspart fyrir stuðningi við íslenskan landbúnað. Ég vil bara sjá samkeppni koma á móti þannig að neytendur njóti líka góðs af þeim stuðningi og þeim beinu fjármunum ríkisins sem við erum að beina inn í landbúnaðinn.



[17:05]
Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir þetta andsvar. Það var líka eitt sem mig langaði aðeins að drepa á hér. Fyrir tveimur árum, þ.e. í hittiðfyrra, lækkaði verð til sauðfjárbænda um þriðjung, árið þar á undan um 10%. Ég var búinn að spyrja mjög að því, m.a. í þessum stól hér, hvert þetta hefði farið vegna þess að lambalæri kostaði það sama út úr búð. Það datt reyndar upp úr einum varaþingmanni hér í haust að þessar verðlækkanir til bænda hefðu ratað til afurðastöðva sem væru á horriminni. Þá hlýtur maður að spyrja: Ef þær væru sameinaðar í sterkari einingu myndi aðgerð eins og þessi væntanlega skila sér betur til neytenda og bænda líka, ef rekstrarkostnaður þessara fyrirtækja yrði lægri með meiri hagræðingu og meiri stærðarhagkvæmni. Eða hvað?



[17:06]
Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég er nú af því sauðahúsi að ég trúi því að ef samkeppnin er skilvirk og öflug sé ríkur hvati hjá þessum sömu afurðastöðvum til að leita hagræðis hjá sjálfum sér en ekki bara beita markaðsafli sínu gagnvart bændum og lækka afurðaverð þangað. Samkeppnin hlýtur að einhverju leyti líka að snúast um að geta fengið kjötið keypt. Þar sjáum við að samkeppnin er engin. Bændur hafa ekkert val um það hverjum þeir selja. Samþjöppunin í afurðastöðvunum er þegar orðin það mikil að aka þarf um hundrað kílómetra veg ef á að finna sér annað sláturhús að skipta við en hinn ráðandi aðila á viðkomandi markaðssvæði. Ef samkeppni væri að skila sér til bænda hefði verðlækkunin kannski ekki orðið jafn mikil og raun bar vitni. Ég tók eftir því, eins og hv. þingmaður, að þetta virtist ekki skila sér til neytenda, (Forseti hringir.) en það hefði kannski sett aukinn þrýsting á afurðastöðvarnar sjálfar að finna aðrar og betri leiðir til að hagræða hjá sér.



[17:07]
Flm. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að spyrja hv. þm. Þorstein Víglundsson, því að honum verður tíðrætt um samkeppni: Treystir hv. þingmaður versluninni til að vera með samkeppni? Við erum að tala um níu afurðastöðvar í landinu. Hvað eru mörg ráðandi fyrirtæki í versluninni? Eru keðjurnar ekki bara þrjár? Ég treysti þeim alls ekki til að fara með hagsmuni neytenda hér á landi.

Við erum að tala um íslenska matvöru, sauðfjárræktina, kindakjötið, sem er mjög vistvænt og við erum að tala um að það uppfylli allar kröfur varðandi gæði og líka varðandi kolefnisspor og með flutning og annað. Hvernig getur hv. þingmaður tryggt matvælaöryggi og lýðheilsu ef við sjáum á bak þessari framleiðslu?

Talið barst að samkeppni og hv. þingmaður talaði um flutningsnetið í raforku. Ég held að við séum í þeim veruleika á Íslandi að við þurfum að styrkja sumar vörur opinberlega og að þær fái kannski að njóta fákeppninnar því að ef einhver samkeppni ríkti í flutningskerfi raforku efast ég um að ég myndi hafa rafmagn t.d. vestur á fjörðum, nema þá bara með ljósavélum, því að enginn myndi treysta sér í þá samkeppni.



[17:09]
Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni og flutningsmanni andsvarið. Markaðir eru aldrei fullkomnir. Það er enginn markaður í lagi í okkar fákeppnisumhverfi sem er fullkominn á neinn mælikvarða. Ég get t.d. alveg tekið undir með hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni að samkeppni á eldsneytismarkaði er vafalítið ófullkomin. Ég horfi hins vegar til þess og segi: Ég þarf ekki og á ekki að þurfa að treysta einhverjum einstökum fyrirtækjum eða verslunum í þeirri samkeppni, ég treysti samkeppnisyfirvöldum til að fylgjast með þessum mörkuðum og grípa til aðgerða telji þau að fyrirtæki misbeiti með einhverjum hætti markaðsráðandi stöðu sinni, eins og t.d. á matvörumarkaði, þar sem er alveg rétt að samþjöppun er mjög mikil. Þess vegna hef ég aldrei skilið málflutning, t.d. forsvarsmanna í atvinnulífinu sem hallmæla Samkeppniseftirlitinu í þessum nákvæma tilgangi. Þarna á Samkeppniseftirlitið einmitt að sýna klærnar og vera mjög grimmt í eftirliti sínu, af því að þannig tryggjum við hagsmuni neytenda, að njóta þess í senn að stórfyrirtækin geti skilað okkur hagræði en það hagræði skili sér í lægra verði til neytenda. Það er það sem er kannski kjarni máls í málflutningi mínum.

Hv. þingmaður nefndi flutningsnet í raforku. Ég er ekki að andmæla núverandi kerfi. Ég tel augljóst hagræði í sameiginlegu flutningskerfi. Ég tel okkur hins vegar þurfa að vera miklu grimmari í eftirliti með flutningsfyrirtæki í einokunarstöðu um hvaða verð það rukkar. Ég held að við gætum verið grimmari þar og Orkustofnun t.d. skilvirkari í eftirliti sínu gagnvart verðhækkunaróskum þess sama fyrirtækis.

Ég segi, af því að á hinum endanum eru líka bændur í þessu samhengi, að ég held að það séu ekki þeirra hagsmunir að samþjöppunin verði þarna of mikil. Jafnvel þó að því sé gjarnan lýst á tyllidögum að bændur eigi afurðastöðvarnar (Forseti hringir.) sýnist mér jafnvægið þar á milli vera að afurðastöðvarnar fitni frekar en bændurnir.



[17:11]
Flm. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir svörin. Ég held að við náum ekki saman í þessum málum en það er gott að skiptast á skoðunum. Samkeppniseftirlitið hefur haft sitt um þetta að segja en ég veit ekki hver ávinningurinn hefur endilega verið af því. Hann hefur hvorki skilað sér til bænda né neytenda í þessum málum.

Við erum að tala sérstaklega um íslenska lambakjötið, sauðfjárræktina. Annað er náttúrlega hvað varðar samkeppni á öðrum vörum. Við erum ekki að fjalla um það og erum örugglega sammála að mörgu leyti í þeim efnum. En ég held að við séum að tryggja matvælaöryggið og lýðheilsu því að samkeppni lambakjötsins okkar snýr að innfluttri vöru. Við erum alltaf að fá fleiri ábendingar og varnaðarorð um að það sé vara sem er ekki af sömu gæðum og hér og ógni bæði lýðheilsu okkar og búfjárstofninum hér á landi. Allar leiðir sem við getum farið að því að tryggja matvælaöryggi okkar og lýðheilsu held ég að séu mikilvægar.

Hvað varðar verslunina treysti ég henni ekki endilega til að hún eða innflutningsaðilar tryggi innflutning á bestu gæðum af því að þeir eru kannski að hugsa um verðið og eðlilega eru þeir að hugsa um sinn hag af því að þeir eru á samkeppnismarkaði.

Ég hef svo sem ekki neina spurningu en hv. þm. Þorsteinn Víglundsson svaraði ekki hvernig hann ætlar að tryggja matvælaöryggið og lýðheilsu og (Forseti hringir.) hvaða skoðun hann hefur á þeim vinkli.



[17:14]
Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Það er einmitt mjög áhugaverður vinkill í þessu. Í fyrsta lagi má nefna þá staðreynd, eins og kom fram í nýlegri frétt, að afurðastöðvarnar sjálfar flytja inn liðlega 40% af því kjöti sem flutt er inn árlega. Þær stýra þá væntanlega sjálfar því talsvert hvaða gæði eru á þeirri vöru, en mér finnst alltaf dálítið kómískt að sömu aðilar séu síðan að segja að þetta sé okkur stórkostlega skaðlegt og ætti náttúrlega helst að banna þennan innflutning með öllu. Mér finnst ótrúverðugt að hagsmunaaðilar sem hafa þann málflutning uppi að innflutt kjöt sé okkur hættulegt standi um leið að þeim sama innflutningi. Mér þykir mjög alvarlegt ef þeir flytja inn gegn betri vitund baneitraða vöru, eins og má stundum ætla af málflutningi þeirra. Og ef við ætluðum að stýra hér viðskiptahöftum eða innflutningshöftum út frá lýðheilsusjónarmiðum almennt myndum við náttúrlega um hæl banna allan innflutning á áfengi, tóbaki eða sykri, svo dæmi sé tekið. (Gripið fram í: Jess.) Nú erum við að tala saman.

Það er alltaf spurningin: Ætlum við að ná fram lýðheilsumarkmiðum með fræðslu eða boðum og bönnum? Við höfum upplifað það í gegnum áratugina að bönn virka ekki endilega neitt sérstaklega vel í þessu samhengi, en fræðsla gerir það. Okkur hefur tekist að draga stórlega úr reykingum með verðlagningu og fræðslu. Við getum líka nálgast áfengi með svipuðum hætti með fræðslu og gerum það vissulega í verðlagningunni. Það mætti alveg skoða að gera slíkt hið sama þegar kemur að skaðlegri vöru, t.d. mjög sykraðri vöru. Mér finnst að við eigum hikstalaust að skoða það alvarlega hvort alvarleiki þess út frá lýðheilsusjónarmiðum sé á pari við t.d. áfengi og tóbak. Ég myndi klárlega ekki (Forseti hringir.) setja kjötið þar en ég hygg hins vegar að með föstum stuðningi við bændur til áframhaldandi framleiðslu og vöruþróunar eigi innlent og hreint kjöt að eiga hér mjög góðan og sterkan markað af því að við viljum holla, góða og heilnæma vöru. Mér finnst ekkert betra sjálfum en gott, íslenskt lambakjöt á (Forseti hringir.) grillið.



[17:16]
Elvar Eyvindsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir framlagningu frumvarpsins sem ég tel mjög tímabært og gott að fái meðferð og dýpri umræðu í nefnd. Ég held að það sé tímabært í ljósi aðstæðna á markaðnum.

Ég get vel tekið undir að best væri að þurfa ekki að gera þetta en aðstæðurnar eru þannig. Í ljósi umræðunnar áðan verður maður eiginlega að segja eins og er að það er raunverulega frjáls samkeppni í afurðamálum kjötgeirans. Hún virðist skila því að möguleikar afurðastöðvanna til að bregðast við samkeppninni eru ekki miklir. Afurðastöðvarnar virðast vera á brauðfótum. Litlir möguleikar hafa verið til hagnaðar með þeirri aðferð og þær eru það veikburða að þær eiga margar jafnvel ekki langt eftir.

Áðan var talað um að bændur hljóti að hagnast á því að afurðastöðvar haldi áfram að vera í samkeppni. En jafnframt er talað um, og það viðurkenna allir greinilega, sem er vel, að mikil fákeppni ríki á markaðnum. Maður hefur fylgst með því áratugum saman að risastórir aðilar í smásölu, t.d. á móti bændum, sem eru mjög margir of litlir og veikburða, leika sér eins og köttur að mús að afurðastöðvunum. Það er samið við eina í dag um mikið magn og á morgun er sá samningur úti og önnur afurðastöð komin inn vegna þess að hún bauð lægra verð. Þannig hefur sá markaður verið.

Ég sé ekki að það geti gengið. Allt tal um að bændur græði eða að afurðastöðvar séu að þjösnast á bændum er vafasamt. En ég get vel tekið undir og held að við eigum alveg hiklaust að hjálpa til með að liðka fyrir þeim bændum sem vilja vinna afurðir heima og jafnvel reka sín litlu sláturhús. Það held ég að geti líka virkað mjög vel með í kerfinu.

Eins og fram kom hjá flutningsmanni getur ekki verið neitt óeðlilegt við það, þar sem við stöndum frammi fyrir mikilli samkeppni í dag frá innflutningi og hann fer jafnvel vaxandi, að við stöndum saman á móti, tökum höndum saman til að geta brugðist við því. Annars held ég að þetta mál molni allt niður.

Nákvæmlega hvernig á að gera það? Það er verkefni þingsins að ræða sig niður á það. Það er greinilegt af umræðunni að hægt er að finna flöt. Það er góður vilji til þess að landbúnaðurinn gangi upp og þess vegna hlýtur að vera hægt að finna flöt á því.

Ég nefndi í umræðunni áðan að mögulega mætti taka kerfi mjólkuriðnaðarins sem dæmi líka, þ.e. þar er söfnun og frumúrvinnsla á einni hendi vegna þess að það hefur sýnt sig að mjög dýrt er að margir séu að safna mjólk. Það sama á við í kjötinu. Það er dýrt að margir séu í þeim bransa. En það getur vel verið að gera eigi stórum fyrirtækjum skylt að selja minni fyrirtækjum á lágmarksverði til frekari úrvinnslu þannig að hægt sé að ýta undir samkeppni og vöruþróun og halda lífi í minni fyrirtækjum, eins og er að gerast í mjólkinni. Ég held að það sé hið besta mál.

Ég styð eindregið að frumvarpið nái fram að ganga. Ég vona að því verði vel tekið og þróað til góðs vegar.



[17:21]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Hér ræðum við frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, með síðari breytingum, sem snýr að afurðastöðvum í kjötiðnaði. Með þessu frumvarpi er lögð til breyting á búvörulögum í því skyni að undanþiggja afurðastöðvar í kjötiðnaði ákvæðum samkeppnislaga.

Ég ætla að hnykkja aðeins á og vitna beint í greinargerðina með þessu frumvarpi. Hefst þá tilvitnun, með leyfi forseta:

„Tilgangurinn er að veita innlendum kjötiðnaði tækifæri til að hagræða og til að bregðast við ört vaxandi samkeppni að utan. Í alþjóðlegum samanburði eru innlendar afurðastöðvar í kjötiðnaði örsmáar og því ekki samkeppnishæfar við afurðastöðvar á erlendum mörkuðum sem eru mun stærri og hagkvæmari rekstrareiningar. Innlendur kjötiðnaður er engu síður í vaxandi samkeppni við afurðir frá erlendum mörkuðum. Afurðastöðvar í kjötiðnaði geta mjög takmarkað sameinast þar sem það er í andstöðu við ákvæði samkeppnislaga. Það skilar sér í of háum rekstrarkostnaði, háu verði til neytenda og lágu afurðaverði til bænda.

Þróun síðustu missera sýnir að innflutningur er að aukast umtalsvert og flutningsmenn þessa frumvarps telja að innlendir aðilar standi þar höllum fæti. Flutningsmenn telja nauðsynlegt að leggja til að afurðastöðvum verði heimilað að bregðast við samkeppninni neytendum og bændum til hagsbóta með því að auka hagræði í rekstrinum. Samkeppnin er við erlenda framleiðendur sem eru margfalt stærri en þeir sem hér er að finna. Með frumvarpinu er því lagt til að afurðastöðvar í kjötiðnaði verði undanþegnar ákvæðum samkeppnislaga en fyrir því eru fordæmi þar sem mjólkuriðnaður er samkvæmt búvörulögum undanþeginn ákvæðum samkeppnislaga. Enn fremur er lagt til að slíkir samningar um sameiningu, samkomulag um verkaskiptingu og samstarf verði lagðir fyrir ráðherra landbúnaðarmála til upplýsingar.“

Ég vil byrja á því að þakka 1. flutningsmanni, hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur, kærlega fyrir góða yfirferð á þessu máli og fagna því að það sé hér fram komið.

Það er ljóst að íslenskur landbúnaður stendur á tímamótum. Áskoranir sem framleiðendur í kjötiðnaði, þ.e. bændur og afurðastöðvar, horfa fram á í dag eru margþættar. Mig langar til að fara yfir það og tína til flestar þær áskoranir sem þessar greinar og framleiðendur standa frammi fyrir.

Þar má nefna að núverandi tollasamningur við Evrópusambandið tók gildi 1. maí. Hann mun auka verulega samkeppni á innlendum markaði í náinni framtíð. Þá eru 97,4% af tollskránni í heild orðin algjörlega tollfrjáls ef flutt er inn frá ESB. Tæpur þriðjungur þess er stendur eftir er á lækkuðum tollum. Það sem eftir er ber toll, þó aðeins ef flutt er inn umfram kvóta sem eru tollfrjálsir samkvæmt ákvæðum samningsins.

Þarna finnst mér oft gæta töluverðs misskilnings.

Rétt er að halda því til haga að árið 2007 var samið við ESB um almenna 40% lækkun á tollum á kjöti. Sá samningur er nú hluti af þeim nýja.

Eins og alkunna er féll dómur EFTA-dómstólsins þann 14. nóvember sl. þar sem úrskurðað var að frystiskylda á innfluttu kjöti væri brot á EES-samningnum. Það kallar á mikla óvissu fyrir bændur og starfsumhverfi afurðastöðva í kjötiðnaði. Eitt er þó víst að ef ekkert verður aðhafst mun dómurinn hafa veruleg áhrif á innlenda kjötframleiðslu.

Endurskoðunarfyrirtækið Deloitte hefur metið tekjutap innlends landbúnaðar á bilinu 1,4–1,8 milljarða á ári, komi til þessa. Það er ljóst að markaðsbrestur er í útflutningi á kindakjöti og sér því miður ekki fyrir endann á því ástandi. Hér er um að ræða marga utanaðkomandi áhrifaþætti sem innlend framleiðsla hefur ekki verið í færum til að hafa áhrif á. Nefna má viðskiptastríð Evrópuríkjanna við Rússland vegna Úkraínudeilunnar, Brexit, gengisbreytingar og lokun markaða í Noregi.

Þá hefur afkomubrestur bænda vegna þessa í stuttu máli verið sá að raunverð til bænda hefur lækkað um 38% frá árinu 2015. Það er ekki víst að aðrar starfsstéttir í landinu myndu sætta sig við slíkt. Velvilji neytenda í garð innlendrar framleiðslu er ótvíræður en upprunamerkingar eru ónógar og ekki fylgt eftir af stjórnvöldum, einkum í veitingarekstri og þjónustu. Innlendir neytendur fá því ekki alltaf upplýsingar um hvaðan maturinn kemur jafnvel þó að þeir vilji það. Alltaf er borið við fjárskorti.

Þó vil ég nefna að ýmis fyrirtæki hafa virkilega lagt sig fram um að bæta þar um betur. Er hægt að tína til nokkur þeirra á norðausturhorninu, t.d. Fjallalamb, ef ég man rétt, og eflaust fleiri fyrirtæki sem fóru í það að upprunamerkja. Það er ákveðin trygging í því. Þá veit fólk hvaðan það fær matvælin, hver framleiðir o.s.frv. Það er líka hvatning fyrir hvern framleiðanda og hvern bónda að fylgja sinni vöru eftir og vita af þessum rekjanleika.

Að sama skapi er oft ekki nægilega skýrt tekin fram á markaði sú sérstaða sem innlend kjötframleiðsla býr svo sannarlega yfir, t.d. í krafti lítillar sýklalyfjanotkunar, lítillar varnarefnanotkunar, strangra velferðarreglna og strangra reglna um réttindi starfsfólks. Þetta er að mörgu leyti einstakt og við eigum að vera stolt af því. Aðbúnaðarkröfur gagnvart skepnum og kröfur til allra framleiðsluferla eru miklar hér og eiga að vera það. Ég hef hvergi heyrt bændur kveinka sér undan því eða ekki vilja fara að þeim reglum. Þetta er í góðu lagi hjá okkur og styður okkur í því að vera stolt af afurðum okkar. Við getum hvar sem er borið þær fram þar sem við vitum að þar er um heilnæma afurð að ræða.

Þá eru afurðastöðvarnar örlítil fyrirtæki miðað við sambærileg fyrirtæki í samkeppnislöndum, meira að segja ef við berum okkur saman við nágrannalönd okkar, Norðurlöndin. Það skekkir óneitanlega myndina að við erum í rauninni með örsmáar afurðastöðvar sem ekki eru í færum að keppa við stærri markaði. Það er ekki raunhæft að ætla þeim það.

Þá er önnur áskorun að víða um heim er sérstaða markaðar með kjöt viðurkennd svo markaðurinn er ekki látinn lúta samkeppnislögum að fullu, svo sem í Noregi. En einnig er að finna undanþáguheimildir í ESB, Nýja-Sjálandi og Bandaríkjunum svo eitthvað sé nefnt.

Þetta held ég að hver maður sjái sem fer að skoða þessi mál.

Þá er það svo að fyrirtækin eru mörg burðarás í atvinnulífi í sínu byggðarlagi. Bændur sem rækta búfénað til kjötframleiðslu geta ekki starfað án þeirra og þau ekki án bænda. Byggðaleg þýðing er því veruleg og ef annar þátturinn hverfur gerir hinn það í kjölfarið. Víða í hinum dreifðu byggðum og á ákveðnum svæðum um landið eru sauðfjárbúin t.d. hryggjarstykkið í byggðunum og halda uppi tengingu byggða. Atvinnulífið byggir á því.

Það má ekki vanmeta þann þátt í búskapnum líka um allt land. Sauðkindin tengir okkur sannarlega saman um allt land. Kóróna sköpunarverksins hefur ekki lítið hlutverk.

Við getum líka séð að t.d. í einu svínabúi í Eyjafirði hafa um 80–90 manns atvinnu við slátrun og vinnslu. Þetta er því fljótt að telja. Afleidd störf í landbúnaði eru um 11.000 Þetta skiptir okkur gríðarlega miklu máli á svo margan hátt. Öll viljum við hafa öflugt atvinnulíf um allt land og þetta er sannarlega þáttur í því.

En rekstur síðustu ára hefur verið þungur og fjárfesting og þróunargeta er lítil við núverandi aðstæður eins og sjá má í úttekt KPMG. Matvælaöryggi innlendu framleiðslunnar er gott og því má ekki tapa.

Þá kem ég að aftur að því að íslenskir bændur hafa náð öfundsverðum árangri í baráttu við kampýlóbakter í alifuglaafurðum, sem er til fyrirmyndar í Evrópu. Hvergi fer eins mikil skimun fram og hér og hvergi eru sömu skilyrði og hér þegar kemur að markaðssetningu afurða þar sem kampýlóbakter hefur greinst.

Hér er um alveg gríðarlega stórt lýðheilsumál að ræða og við megum ekki glopra niður þeirri stöðu sem við höfum í þeim efnum. Við verðum að hlusta á okkar færustu fræðimenn í þessum efnum sem vara okkur eindregið við því að raska jafnvæginu og glata þeirri stöðu sem við höfum náð, sem er svo mikilvæg og okkur svo dýrmæt. Við þurfum að hugsa um komandi kynslóðir og framtíðina. Okkur ber svo sannarlega skylda til þess.

Hæstv. forseti. Til að kjötframleiðsla geti tekist á við áskoranir sem blasa við þarf að koma nýr rammi um starfsemina. Annars er hætta á að næstu misseri dofni lífsandinn hjá fyrirtækjum, a.m.k. þeim sem ekki hafa fleiri stoðir að byggja á. Samkeppnin er raunverulega ekki lengur á milli innlendu fyrirtækjanna heldur við erlenda framleiðendur sem eru margfalt stærri, búa við allt aðrar framleiðsluaðstæður, önnur framleiðslutæki og í sumum tilfellum allt önnur starfsskilyrði. Íslenskur slátur- og kjötiðnaður verður að fá að þróast til aukinnar hagræðingar til að eiga möguleika á að standast harða harðnandi samkeppni á markaði. Við viljum örugglega öll að íslenskir neytendur geti notið heilnæmra afurða og þá helst frá eigin landi.

Ef ekki á að stofna þessari starfsemi í hættu þarf að koma til ný hugsun. Fyrirtækin þurfa að fá auknar heimildir til samstarfs í því skyni að lækka kostnað og minnka vistspor. Um leið er eðlilegt að gera auknar kröfur til þeirra á móti.

Nái þetta frumvarp fram að ganga og heimilað með lögum að fá undanþágur frá samkeppnislögum til að hagræða í sláturhúsum með yfirtökum, samruna, verkaskiptingu og samstarfi er lýtur að lækkun kostnaðar, bættri nýtingu, minna umhverfisfótspori og aukinni verðmætasköpun er ekki verið að tala um sams konar reglur og mjólkuriðnaðurinn hefur, enda er ekki verið að tala um opinbera verðstýringu í heildsölu. Undanþágan frá því að gripur er sóttur til bónda þar til kjötskrokkur er orðinn til — lögð er áhersla á að í því ferli verði leitað allra leiða til sparnaðar og hagræðingar. Full samkeppni verður áfram í heild- og smásölu með kjöt.

Frumvarp þetta myndi hafa þær afleiðingar að fyrirtækin gætu unnið saman að verkefnum eins og flutningi á sláturgripum, vinnslu, sölu og markaðssetningu hliðarafurða, vörudreifingu, þróunarverkefnum og öðru sem hefur skilgreindan ávinning í för með sér. KPMG-skýrslan dregur fram mikinn mun í sláturkostnaði og þar með hagræðingarmöguleika. Bara lækkun sláturkostnaðar úr hámarki í miðgildi má ætla sem 700 millj. kr. hagræðingu.

Samhliða því verður að tryggja að lítil þjónustu- og handverkssláturhús og kjötvinnslur geti starfað með sambærilegum hætti og áður, samanber hvernig gætt er að litlum mjólkurvinnslum í búvörulögum í dag. Forsendan er alltaf að samstarf leiði til hagræðingar. Sú hagræðing á að skila sér í sterkari fyrirtækjum sem geta betur staðist aukna samkeppni og sinnt betur þörfum neytenda. En það er ekki nóg. Tryggja verður að það hagræði sem næst skili sér líka til bænda og neytenda.

Hæstv. forseti. Hér er verk að vinna og ég vona svo sannarlega að þetta frumvarp nái fram að ganga og fái góða umfjöllun í þinginu. Ég hef orðið þess áskynja að hér gætir töluverðs velvilja í garð þess. Ég fagna því og þeim stuðningi sem menn hafa lýst yfir við þetta frumvarp. Matvælaframleiðslan og landbúnaðurinn eru okkur alveg gríðarlega mikilvæg í því stóra og víðfeðma landi sem við eigum. Öll tækifærin sem við höfum til matvælaframleiðslu hljóta að verða okkur sífellt dýrmætari í ljósi aðstæðna í veröldinni. Við þurfum ekki að líta lengra aftur en til síðasta sumars þegar uppskerubrestur varð á hinum Norðurlöndunum.

Nú þurfum við að nýta tækifærin. Við þurfum að hafa skýra ramma, halda vel utan um landbúnaðinn og efla það fólk sem enn er til í að stunda hann. Hér á landi búum við svo vel að við eigum fjölmarga vel menntaða, víðsýna og góða bændur sem eru í færum til að halda áfram að framleiða góð matvæli handa okkur og afkomendum okkar.

Það hlýtur alltaf að vera hlutverk stjórnvalda að standa með íslenskum landbúnaði og veita honum afl til að standast aukna samkeppni.

Mig langar til að nota tækifærið hér og minnast á mál sem þingflokkur Framsóknarflokksins er með í þinginu. Það er um opinber vistvæn innkaup sem lýtur að því að ríkið, sem er einn stærsti matvælakaupandinn og sá sem gefur flestum á borð á degi hverjum, líti til kolefnisspors þeirra matvæla sem framleidd eru. Það hlýtur að leiða að einu. Þá hlýtur sá matur að vera framleiddur sem næst neytandanum.

Ég vona innilega að þetta frumvarp fái góðan framgang hér í meðferð þingsins.



[17:37]
Þorsteinn Sæmundsson (M):

Virðulegur forseti. Þetta mál stendur hjarta okkar Miðflokksmanna mjög nærri og við erum hlynntir því. En það eru ýmis atriði sem snerta frumvarpið sem mér finnst nauðsynlegt að komi fram, þar á meðal s' það hversu óburðugar afurðastöðvarnar eru núna er væntanlega vegna þess að sú skerðing á kjörum bænda sem orðið hefur á síðustu 30 mánuðum eða svo hefur ekki skilað sér til neytenda. Hún hefur sem sagt horfið til afurðastöðvanna.

Ég verð líka að segja að ef svona aðgerð verður framkvæmd kallar hún á mjög virkt eftirlit með sameinuðum afurðastöðvum. Ég vil í því tilfelli líka láta þess getið að núna í haust lagði ég fram fyrirspurn til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um birgðastöðu í sauðfjárafurðum tvö næstliðin ár, þ.e. í fyrra og árið þar áður, þegar verð til bænda var skert um 29% ef ég man rétt.

Upplýsingar sem ég hafði innan úr geiranum voru þær að meint kjötfjall, sem var undirstaða þess að afurðastöðvarnar lækkuðu verð svo skarpt til bænda, hafi samanstaðið að mestu af innmat, slögum, sviðum og slíkum afurðum. Þetta er ekki hægt að fá fram vegna þess að skráning birgða hjá afurðastöðvunum er alls ekki skýr. Það kom fram í svari landbúnaðarráðherra í haust til þess er hér stendur. Það var t.d. ekki hægt að skipta upp birgðum í ákveðnum skrokkhlutum eða hvar þessi meinti birgðavandi lá, eins og maður segir. Aðgerðir sem voru gerðar í framhaldi af þessari skörpu lækkun til bænda urðu til þess að ásetning fjár var minni, framleiðsla dróst saman. Nýjustu fréttir í blöðunum um daginn benda til þess að þeir sem vilja borða kótelettur og hrygg í allt sumar verði að hamstra það núna vegna þess að birgðastaða í sauðfé segir okkur að á sumarmánuðum verði skortur á hryggjum í landinu, vegna þess að búið að skera of skarpt niður og vegna þess, að áliti þess sem hér stendur, að markaðssetningin á þeim skrokkhlutum sem eru seinni í sölu en t.d. sykur er ekki upp á marga fiska, því miður.

Það helgast hugsanlega af því að afurðastöðvarnar eru vanbúnar. Þær eru ekki fjársterkar, nema síður sé. Kannski vantar þær slagkraft til að geta stundað markaðssetningu.

Það er líka annað sem ég vil láta getið út frá hagsmunum neytenda og það er að samþjöppun eins og þessi hlýtur að gera þær kröfur að upprunamerking verði miklu betri en nú er. Það er einu sinni svo, með undantekningu í litlum framleiðanda, eins og Fjallalambi, sem er farinn að upprunamerkja hluta af sinni framleiðslu, að fyrir þá sem t.d. aðhyllast að kaupa, eigum við að segja fé af Ströndum, er ekki nokkur vegur að komast að því í verslunum hvaðan lambakjötið er sem þeir kaupa. Eftir minni eru 28 gæðaflokkar í lambakjöti, eftir holdfyllingu, fituinnihaldi o.s.frv. En kóteletturnar úti í búð og lærissneiðarnar eru allar eins. Við kaupum þær á sama verði, alveg sama í hvaða flokki viðkomandi gripur hefur lent í sláturhúsi. Neytendur borga sama verð, sama hvað.

Þetta er ekki það sem við viljum sjá. Við viljum sjá að neytendur hafi val. Við viljum sjá að þeir hafi val um að kaupa af ákveðnum svæðum, ef þeim hugnast það, að kaupa kjöt af ákveðinni gerð, ef þeim hugnast það. Ég vil nefna dæmi. Af mjög ónákvæmri könnun sem undirritaður hefur gert í verslunum í Reykjavík eða á höfuðborgarsvæðinu að dæma virðist vera gríðarlega erfitt að fá keypt t.d. stór lambalæri. Þau eru flestöll mjög rýr, lítil og létt sem þýðir að beinaprósentan er hærri fyrir vikið. Sá sem kaupir er að kaupa meira beinhlutfall en kjöthlutfall, ef hann ekki fær það sem hann leitar að.

Það eru ýmis svona gæðamál sem verða líka að fylgja ef slíku máli eins og hér um ræðir yrði veittur framgangur.

Það er hins vegar athyglisvert þegar menn tala um samkeppnisbrest sem ætti að verða út af þessu. Það vill nú þannig til að smásölumarkaðurinn á Íslandi, sérstaklega í matvöru, er samansúrraður, bæði í eignarhaldi og markaðshlutdeild. Við erum með eitt fyrirtæki upp á 60%. Við erum með þrjú sem eru samtals með líklega 88% en þau eru öllsömul í eigu sömu aðila að meiri hluta til eða ráðandi hluta til í eigu sömu lífeyrissjóðanna. Virk samkeppni er ekki þarna. Frekar er hægt að tala um að það sé þegjandi verðsamráð, eins og það er kallað. Það sjáum við m.a. í verðkönnunum sem gerðar eru. Í þeim verslunum sem eru í hvað mestri „samkeppni“ munar allt að sömu krónunni á þeim vörum sem eru líklegar til að lenda í úrtaki í verðlagskönnunum.

Hvað þurfti til, bæði til að breyta vöruframboði, t.d. í lambakjöti, og breyta verði á ýmsum vörutegundum? Hvað þurfti til? Jú, það þurfti að flytja inn kaupmann. Ég hef reyndar lengi verið talsmaður þess að við flytjum inn kaupmenn. Reynslan af þessum eina stóra sem við fluttum inn í fyrra, eða nam hér land í fyrra, er því miður vonbrigði að mörgu leyti. Vöruframboðið þar er ónógt. Í raun og veru ættum við neytendur að óska þess að hingað rötuðu alvörukeðjur eins og Lidl í Þýskalandi eða einhverjar slíkar, Føtex og Salling-grúppan í Danmörku. Við ættum að fá hingað alvöruverslunarkeðjur sem eru með alvörusamkeppni og myndu veita alvörusamkeppni inn á þennan markað. Það skiptir ekki máli hvort um er að ræða landbúnaðarvörur eða einhverjar aðrar vörur, við myndum virkilega finna fyrir þessu í buddunni ef slík samkeppni yrði virk.

Hitt er svo annað mál, eins og hér hefur aðeins komið fram, að þessi undanþága mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum sem innifelur þá líka opinbera verðstýringu og það vita menn sem hafa t.d. talað mjög um að — ég er ekki hérna til þess að bögga Mjólkursamsöluna, afsakið, forseti, en ljóst er að samkvæmt skýrslum sem gefnar hafa verið út hefur verið verulegur hagur af því, bæði fyrir neytendur og bændur, að hafa hér eitt stórt afurðafyrirtæki. Ég held að enginn hafi orðað þetta einfaldar, skýrar og skarpar en fyrrverandi hv. þm. Ögmundur Jónasson, sem sagði að einfaldlega væri þetta þannig að þessi gjörð, þegar mjólkuriðnaðurinn var undanþeginn þessum lögum, hafi skilað 3 milljarða ábata á hverju ári, þar sem bændur fengu 1 og neytendur fengu 2. Þetta er kannski það módel sem við erum að horfa á að gæti orðið ef þetta frumvarp yrði að lögum.

Það er akkillesarhæll, tel ég, fyrir alla framleiðslu okkar núna hvað við erum léleg að upprunamerkja. Ég er alveg sannfærður um að við gætum líka náð betri árangri á erlendum mörkuðum ef við værum með alvöruupprunamerkingu. Að vísu tel ég persónulega að það eigi að verðlauna þá menn sem geta ekki selt íslenskt lambakjöt sem gæðavöru. Ég held að það þurfi alveg sérstaka hæfileika til að geta ekki selt þessa vöru við góðu verði. En það er reyndar kannski prívatskoðun.

Svo margt hefur maður heyrt og reynt í gegnum tíðina. Þeir sem sækja Ísland heim og neyta lambakjöts og kaupa það erlendis ljúka allir upp einum rómi um að þetta kjöt sé einstaklega bragðgott og af miklum gæðum. Þess vegna er ótrúlegt að við seljum það á útsölu meginpartinn af árinu, á kostnað bænda, að meiri hluta til. Ég held að það væri mjög fróðlegt fyrir okkur neytendur að fá bara mynd af lambalæri í Mogganum eða í einhverju blaði, A-4 á heilsíðu, sem er nú reyndar stærri en A-4, þar sem lambalærinu yrði skipt eftir því hvað hver fær í sinn hlut. Hvað fær ríkið í virðisaukaskatt? Hvað fær verslunin í alvöru? Hvað fær afurðastöðin og hvað fær bóndinn? Ég held að þetta gæti verið mjög upplýsandi fyrir okkur neytendur, þ.e. um verðmyndun á þessari vöru. Við erum í raun og veru algjörlega í myrkri um það hvernig verðlagningin er og hvernig verðmyndunin er.

Við sjáum það, ég man ekki hvað bóndinn fær á kíló núna fyrir lambakjöt. Ég man ekki hvort það er … (Gripið fram í: 387 kr.) 387 kr. Kílóið af lambafilet kostar sirka 5.200 kr., reyndar besti bitinn, beinlaus. En ég held að það væri líka fróðlegt, og ég skil reyndar ekki í Bændasamtökunum að gera það ekki, að taka bara einn skrokk og skipta honum svona sirka, hægt væri að skipta honum á fjóra vegu. Alltaf fær bóndinn þessar 387 kr. En hvað verður úr? Hvert er fullnaðarverðið á einum lambsskrokk þegar búið er annaðhvort að úrbeina hann eða gera úr honum kótelettur, lærissneiðar eða hangikjöt eða hvað sem er?

Ég held að við þurfum að fanga þennan virðisauka. Líka vegna þess að við erum að hugsa um að þessi virðisauki skili sér áfram til neytenda, virðisauki sem yrði þá til hjá sterkari afurðastöð. Það er það sem við erum að hugsa um. Og að sjálfsögðu þarf hann að skila sér til bænda.

Þess vegna segi ég að það er dálítið önugt núna að hugsa til þess að kollsteypurmar sem við erum að taka, samanber samdráttinn eftir þessa skörpu verðlækkun til bænda í hittiðfyrra, eru að búa til kjötskort í sumar, tveimur árum seinna. Menn verða að átta sig á því að menn framleiða ekki lambakjöt á einni viku. Það tekur dálítið lengri tíma. Til þess að bregðast við verða menn að gera alvöruspálíkön, horfa tvö ár fram í tímann, um hvernig vænta má að markaðurinn hagi sér. Það er kannski þetta sem hefur skort. Þetta bitnar alveg klárlega núna bæði á afurðastöðvum og bændum og mun gera það, t.d. á þessu ári, alveg örugglega. Það er því ýmislegt sem fylgir frumvarpinu sem menn þurfa að horfa dálítið skarpt á ef menn ætla að ná fram þeim góðu markmiðum sem eru í frumvarpinu.

Auðvitað eiga neytendur og framleiðendur að vera vinir, félagar og samherjar og eru það í langflestum tilfellum. Það hefur stundum tekist vel til og stundum ekki eins. Þeir sem tala mest um að það vanti samkeppni í landbúnaði hafa oft talað um tollalækkun á grænmeti sem góðan hlut sem hafi skilað sér vel. Jú, það gerði það vissulega, en hann einfaldaði líka mörgum lífið vegna þess að nú er það í grunninn þannig að bændur framleiða gúrkur, tómata og papriku og eru, eins og maður segir, bara á einhverri einni hillu, en framþróun og þróun í vöruframboði er ekki mikil. Það er vegna þess að þessir sömu bændur eru ofurseldir þeim einokunarmatvörukeðjum sem eru hérna.

Þetta eru allt saman hlutir sem við þurfum að taka til athugunar. Auðvitað þurfum við að hugsa til þess að framleiða miklu meira af matvælum. Ég nefni eitt dæmi: Hvað halda menn að sé mikil kolefnislosun sem fylgir því að flytja kíló af gulrótum frá Tenerife til Íslands? Við eigum að framleiða þá vöru hér heima sem allra mest. Að sjálfsögðu. Með íslensku heilnæmu vatni.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til atvinnuvn.