149. löggjafarþing — 59. fundur
 30. janúar 2019.
hollustuhættir og mengunarvarnir, 1. umræða.
stjfrv., 512. mál (EES-reglur, burðarpokar). — Þskj. 841.

[19:17]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir varðandi notkun burðarpoka á sölustöðum vara. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, vegna innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2015/720 frá 29. apríl 2015 um breytingu á tilskipun 94/62/EB um að draga úr notkun á burðarpokum úr plasti.

Í tilskipuninni er bent á að notkun á burðarpokum úr plasti sé umfangsmikil og hafi í för með sér mikinn úrgang og óskilvirka notkun á auðlindum. Búist sé við að þetta aukist enn frekar verði ekki gripið til aðgerða. Burðarpokar úr plasti sem verða að úrgangi valda umhverfismengun og ógna vistkerfum í vatni um heim allan.

Í tilskipun 2015/720 er kveðið á um að aðildarríki skuli gera ráðstafanir til að ná fram viðvarandi minni notkun á þunnum burðarpokum úr plasti, þ.e. þynnri en 15 míkron, á yfirráðasvæði sínu. Í þeim ráðstöfunum gæti falist að nota landsbundin markmið um minni notkun, að viðhalda eða innleiða efnahagsleg stjórntæki, sem og markaðshindranir að því tilskildu að þær séu hóflegar og án mismununar. Í tilskipuninni er kveðið á um að slíkar ráðstafanir geti verið mismunandi eftir umhverfisáhrifum af endurnýtingu þunnra burðarpoka úr plasti eða af förgun þeirra, eiginleikum þeirra hvað varðar myltingu, endingu þeirra eða sértækri fyrirhugaðri notkun.

Í frumvarpinu er lagt til að eigi síðar en 31. desember 2019 verði árlegt notkunarmagn plastburðarpoka að hámarki 90 pokar á einstakling líkt og tilskipunin kveður á um. Eigi síðar en 31. desember 2025 verði árlegt notkunarmagn að hámarki 40 pokar.

Lagt er til í frumvarpinu að heimilt verði að afhenda burðarpoka, þar með talda plastpoka, án endurgjalds á sölustöðum vara frá og með 1. júlí 2019 og að gjaldið verði sýnilegt á kassakvittun. Hér er gengið lengra en tilskipunin kveður á um í ljósi þess að skyldan gildir um alla burðarpoka, þ.e. ekki eingöngu úr plasti. Samkvæmt tilskipun ESB er aðildarríkjunum einnig heimilt að undanskilja plastpoka sem eru þynnri en 15 míkron og liggja gjarnan frammi í grænmetisdeildum verslana. Í frumvarpinu er hins vegar lagt til að þetta svigrúm verði ekki nýtt og að frumvarpið nái til burðarpoka úr plasti óháð þykkt þeirra. Þetta er gert til þess að takast á við plastmengun og ofneyslu af fullum krafti og sýna gott fordæmi.

Að lokum er lagt til að frá og með 1. janúar 2021 verði óheimilt að afhenda burðarpoka úr plasti á sölustöðum vara. Bannið nær ekki til burðarpoka úr öðrum efnum, t.d. fjölnota poka og lífbrjótanlegra poka sem ekki innihalda plast. Hér er einnig gengið lengra við innleiðingu en krafist er í tilskipuninni. Samkvæmt tilskipuninni er aðildarríkjum heimilt að takmarka markaðssetningu burðarpoka úr plasti að því gefnu að þau gangi ekki lengra en nauðsynlegt er og að takmörkunin feli ekki í sér mismunun. Í ljósi þess er lagt til að bann við afhendingu burðarpoka úr plasti nái einungis til þess þegar burðarpokar úr plasti eru afhentir við sölu á vörum. Verði frumvarpið að lögum geta verslanir eftir sem áður haft burðarpoka úr plasti til sölu í hillum í sölurýmum verslana.

Tekið skal fram að banni við burðarpokum úr plasti er ekki ætlað að vera allsherjarlausn á vandamálum sem tengjast notkun á plasti heldur er um að ræða eina nauðsynlega aðgerð af mörgum. Hér er um mikilvægt skref að ræða. Flest fólk kaupir t.d. reglulega í matinn og ber vörurnar oft og tíðum heim í pokum. Aðgerðin snertir þannig daglegt líf okkar og eykur vitund okkar um plast og notkun þess í daglegu lífi okkar. Með frumvarpinu er fylgt eftir tillögu samráðsvettvangs um aðgerðir í plastmálefnum sem í voru fulltrúar atvinnulífs, sveitarfélaga, umhverfisverndarsamtaka, annarra félagasamtaka, opinberra stofnana, Alþingis, ráðuneyta og fleiri. Hópurinn skilaði ráðherra tillögum að 18 aðgerðum í nóvember sl. Bann við burðarplastpokum var ein þeirra. Önnur tillaga samráðsvettvangsins, aðstoð við neytendur sem mæta með eigin umbúðir undir keypta matvöru, hefur þegar komið til framkvæmda og undirbúningur stendur yfir varðandi tillögu sem felur í sér viðurkenningar fyrir framúrskarandi plastlausar lausnir. Verið er að vinna úr öðrum tillögum í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu en þær fela t.d. í sér vitundarvakningu um ofnotkun á plasti og að úrvinnslugjald verði lagt á allt plast. Þá er einnig gert ráð fyrir að Evrópusambandið samþykki vorið 2019 nýja tilskipun til að takast á við plastmengun en þar er m.a. lagt til að aðildarríkjunum verði skylt að draga úr notkun matarumbúða og drykkjarbolla úr einnota plasti. Tilskipunin verður innleidd hér á landi á grundvelli EES-samningsins.

Í umræðum um plast er rétt að undirstrika að plast er efni sem endist afar lengi og er því hentugt til ýmissa nota. Einmitt sá eiginleiki þess gerir það hins vegar einstaklega óhentugt sem einnota efni. Plast er í stórum stíl einnota, einungis notað einu sinni. Þetta eru hlutir sem fylgja okkur ef til vill nokkur andartök en geta enst í tugi og hundruð ára sem úrgangur. Plast hverfur ekki eða eyðist heldur brotnar niður í smærri og smærri hluta og verður að endingu að svokölluðu örplasti. Til að framleiða plast þarf olíu og plastið sjálft er síðan skaðlegt fyrir lífríkið. Með því að banna plastpoka tökumst við á við það verkefni og það mikla magn plastpoka sem er í umhverfinu og það er mikilvægt. En bannið hefur hins vegar víðtækari áhrif. Það snertir sem fyrr segir daglegt líf okkar og virkjar okkur með beinum hætti við að hugsa um lausnir án plasts.

Burðarplastpokar hafa þegar verið bannaðir í fjölda ríkja, svo sem á Ítalíu, í Frakklandi, Indlandi, Kenýa, Makedóníu, Kína, Bangladess, Máritaníu, Úganda og Madagaskar. Á Nýja-Sjálandi hefur bann verið samþykkt sem tekur gildi í sumar og burðarplastpokar hafa verið bannaðir í fjölda borga í Bandaríkjunum og tveimur fylkjum, Hawaí og Kaliforníu. Við erum því að feta í fótspor metnaðarfullra ríkja þegar kemur að þessum málum. Víðtækur stuðningur er fyrir banni hér á landi en samkvæmt könnun MMR, sem birt var í október, kváðust nærri tveir af hverjum þremur Íslendingur hlynntir banni á einnota plastpokum í verslunum. Tæp 41% kváðust mjög hlynnt slíku banni.

Virðulegi forseti. Ég hef hér rakið meginefni þessa frumvarps og þá stærri mynd sem það er hluti af. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.



[19:24]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns fagna þessu frumvarpi sem hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra leggur hér fram. Ég tel að á ferð sé afar mikilvægt mál hvað það varðar að við séum að senda skýr skilaboð, ekki bara út í íslenskt samfélag heldur út í alheimssamfélagið. Við ákveðum að ganga lengra en Evróputilskipanirnar segja til um og það finnst mér afar mikilvægt. Íslendingar eiga að mínu viti að vera þjóð sem tekur umhverfislegt hlutverk sitt alvarlega, tekur það alvarlega að ganga á undan með góðu fordæmi, eins og við gerum til að mynda í sambandi við orkugjafa. Ég held því að frumvarpið sé gríðarlega mikilvægt og fagna því sérstaklega. Ég tel að þingið eigi að reyna að klára þetta mál fljótt og vel, en vildi fyrst og síðast nota þetta tækifæri til að fagna þessu máli og hrósa hæstv. ráðherra fyrir framgönguna.



[19:26]
Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp eingöngu til að fagna þessu góða frumvarpi, enda er það í anda þingsályktunartillögu sem ég hef í tvígang lagt fram á þinginu þar sem kveðið var á um þess háttar bann. Í þeirri þingsályktunartillögu er reyndar líka að finna ákvæði um plastagnir, örplast. Það er einmitt tekið á þeim í þeirri aðgerðaáætlun sem hæstv. ráðherra vék að hér áðan þar sem gert er ráð fyrir 18 aðgerðum sem lúta allar að því að draga úr plastnotkun. Þær tillögur eiga að verða tilbúnar þann 1. september á þessu ári.

Þetta er umdeilt. Maður sér það þegar maður skoðar umsagnir sem bárust um þessa aðgerðaáætlun sem samráðsvettvangur, svokallaður, vann. Þar átti ég raunar sæti fyrir hönd stjórnarandstöðunnar. Ýmsir hafa viðrað efasemdir um að þetta sé rétta leiðin til að sporna við plastnotkun, þ.e. að banna plastpoka, og hafa bent á að plastpokar geti verið þénugir á marga lund. Hægt sé að nota þá margsinnis undir úrgang og jafnvel hægt að nota þá aftur og aftur í búðum. Það hefur verið bent á og oft nefnt til vitnis dönsk rannsókn þar sem tilgreint er að þegar allt komi til alls sé vistsporið meira af ýmsum öðrum umbúðum en plasti, ýmsum öðrum umbúðum sem við teljum alla jafna vera umhverfisvænni.

Það er að mörgu að hyggja í því sambandi. Eitt er það að þessi danska rannsókn gerir ráð fyrir því að plastið fari í endurvinnsluferli en hér á landi eru plastpokar urðaðir, sem er alls ekki umhverfisvænt að gera. Og svo er annað í þessu líka, sem ég tel ekki síður vera mikilsvert, og það er að þetta plastpokabann er ákveðið inngrip í daglegt líf fólks. Slíkt inngrip í daglegt líf fólks hefur margfeldisáhrif á það hvernig fólk hugsar um plast og um umhverfismál í víðum skilningi og getur orðið til þess að fólk taki jafnvel allt sitt líf til endurskoðunar út frá umhverfissjónarmiðum.

Ég held líka að þessar efasemdarraddir miði gjarnan við fólk sem notar kannski sama plastpokann aftur og notar þá plastpokann skynsamlega og svo fólk sem kannski fær sér alltaf nýjan og nýjan taupoka. En raunin er sú að fólk sem notar taupoka eða pappírspoka er kannski meðvitaðra um þessi mál og notar frekar sama pokann aftur og aftur. Fólk sem notar þessa plastpoka sem hafa verið til sölu í búðum notar nýja og nýja plastpoka.

Plast er að mörgu leyti dæmigerð afurð 20. aldarinnar. Þetta er mestanpart olía og þetta er mjög snjöll uppfinning að mörgu leyti — eiginlega bara algjör snilld. Plastið er svo þénugt og það er svo gott að nota það. En að hinu leytinu til er það algjör viðbjóður eins og svo margt sem 20. öld færði okkur. Snilld og viðbjóður í senn. Við erum dálítið að súpa seyðið af margri 20. aldar snilldinni þessi árin í lífsháttum okkar. Við þurfum að taka til endurskoðunar svo ótal margt sem við gátum gengið að sem gefnu á 20. öldinni.

Ég styð þetta frumvarp. Þess var náttúrlega ekki að vænta að þingið hlustaði á mig þegar ég var að leggja fram tillögur um þessi efni. Við neyðumst til að taka þetta upp vegna þess að Evrópusambandið færir okkur þessa reglugerð. Þetta kemur eins og margt gott frá Evrópusambandinu og er niðurstaða af þeim ágæta samráðsvettvangi sem það samband er.

Þetta er ásamt öðru vonandi til marks um að við séum hætt að hegða okkur í umhverfismálum og öðrum málum eftir boðorðinu: Alltaf gera ekki neitt; að við höfum tekið upp nýja siði. Ég bíð spenntur eftir næstu aðgerðum hjá hæstv. umhverfisráðherra samkvæmt þessari 18 liða aðgerðaáætlun sem hann hyggst starfa eftir og hvet hæstv. ráðherra til dáða í þessum efnum.



[19:34]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka þeim sem til máls hafa tekið fyrir góða umræðu og gott innlegg inn í umræðuna um plastmengun sem hefur kannski skotið sér svolítið upp á himininn í alþjóðlegri umræðu. Þegar við lítum til þess sem er að gerast erlendis og á alþjóðavettvangi er einmitt verið að ræða þessi mál í mjög víðu samhengi, hvernig við í sameiningu, þjóðir heims, getum tekist á við þær áskoranir sem vissulega felast í plastmengun, ekki síst í hafinu.

Ég vil líka fá að þakka hv. þm. Guðmundi Andra Thorssyni fyrir þátttöku hans í samráðshópnum sem kom með tillögur til mín og auðvitað fyrir þær tillögur sem hv. þingmaður hefur lagt fram hér á Alþingi. Það skiptir virkilega máli að þessar raddir heyrist hér, bæði frá stjórn og stjórnarandstöðu og hvar sem fólk er í pólitík.

En hér var nefnt að stundum sé það þannig í umhverfismálunum að það er ekki fyrr en við neyðumst til að taka eitthvað upp í gegnum Evróputilskipanir sem við gerum það og það hefur oft verið þannig. Það sem er hins vegar áhugavert, og ég er stoltur af varðandi þetta mál, er að í þessu lagafrumvarpi erum við að ganga lengra en tilskipunin gerir ráð fyrir, m.a. hvað varðar bannið en líka hvað það varðar að við leggjum til með frumvarpinu að fyrir burðarpoka verði alltaf rukkað, alveg sama hvernig þeir eru. Við látum þetta líka ná til þeirra poka sem eru þynnri, þ.e. allra þynnstu pokanna, sem ekki er skylda að gera samkvæmt tilskipuninni.

Ég enda þetta á því að þakka kærlega fyrir umræðuna og ekki síst hvatninguna frá hv. þingmönnum. Eigum við ekki bara að segja að við séum komin í gírinn?



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til um.- og samgn.