149. löggjafarþing — 60. fundur
 31. janúar 2019.
uppbygging fjármálakerfisins.

[10:46]
Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Að undanförnu hefur verið talað mikið um ýmiss konar fyrirhugaðar hugmyndir um breytingar á uppbyggingu fjármálakerfisins og fleira í þeim dúr og ýmsar spurningar vakna sem mér finnst mikilvægt að við fáum svarað. Mig langar til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra fjögurra spurninga sem eru allar þess eðlis að það geta bara verið tveir möguleikar í stöðunni. Ég vona að hann geti hjálpað mér að skilja þessa hluti.

Fyrsta spurningin er: Hvort eru stjórnir bankanna, sem eru í ríkiseigu, svo sjálfstæðar í störfum sínum að ómögulegt hefði verið fyrir fjármálaráðherra eða einhvern annan í keðjunni að geta með nokkru móti haft áhrif á söluna á Borgun á sínum tíma, eða eru stjórnir bankanna svo ósjálfstæðar að þeir geta ekki verið í samkeppnisrekstri hver við annan?

Önnur: Hvort er tækifæriskostnaðurinn af því að vera með 420 milljarða ríkiseign í bönkunum svo gríðarlegur að losa verði um þá eign til að koma í veg fyrir efnahagslegt slys, eða er nauðsynlegt að setja um 500 milljarða í fjárfestingarsjóð til að koma í veg fyrir efnahagslegt slys?

Þriðja: Hvort er bankaregluverk á Íslandi orðið svo gott að engin ástæða er til að óttast annað bankahrun, eða er það svo hættulegt að ríkið eigi eignir í bönkunum að eðlilegt sé að hæstv. fjármálaráðherra losi um þá eignarstöðu áður en annað hrun á sér stað?

Fjórða: Hvort eru ríkisskuldir orðnar svo lágar að mögulegt sé að fara í fjárfestingar á innviðum á borð við vegakerfið sem hafa setið á hakanum árum saman, eða er staða ríkissjóðs svo slæm að eingöngu er hægt að sinna nauðsynlegum gatnaframkvæmdum með því einu að taka upp nýtt og umdeilt gjaldtökukerfi í formi veggjalda?

Það væri gott að fá einhvers konar innlegg við þessum spurningum.



[10:48]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Stjórnir ríkisbankanna eru sjálfstæðar í störfum sínum að lögum, þá er ég að meina að hlutafélagalögum, en líka samkvæmt því sérstaka fyrirkomulagi sem við höfum komið upp. Nú heldur þingmaðurinn áfram með eins konar dylgjur í tengslum við Borgunarmálið, líkt og gert var í umræðu um skýrslu fjármálaráðherra um hvítbók um framtíð fjármálakerfisins. Ég held að kominn sé tími til þess að þingmaðurinn geri grein fyrir því hvernig fjármálaráðherra á að hafa haft afskipti í Borgunarmálinu vegna þess að hann hefur dylgjað um að fjármálaráðherrann hafi verið með afskipti í því máli.

Hér er spurt hvort mikill tækifæriskostnaður felist í því að binda þetta mikið eigið fé í bönkunum. Ég held að það sé alveg óumdeilt og það er ekki í neinum beinum tengslum í mínum huga við hugmyndir um þjóðarsjóð, sem er hugsaður til langs tíma. Þetta er alls ekki þannig að við getum annaðhvort byggt upp þjóðarsjóð eða átt bankana. Þetta er ekki þannig í mínum huga og ekki í raunveruleikanum, heldur er þjóðarsjóðshugmyndin algerlega ótengd því hvort nauðsynlegt sé að ríkið bindi mikið eigið fé í fjármálafyrirtækjum í landinu.

Ríkisskuldir hafa lækkað mjög verulega og um leið hefur geta okkar vaxið til að auka innviðafjárfestingu, enda stendur í dag yfir átak til að fjármagna betur vegakerfið. Við settum af stað strax í fyrra fyrstu skrefin til að auka fjárfestingu í vegakerfinu á Íslandi, í samgöngum. Við erum sömuleiðis að styrkja félagslega innviði verulega. Rammasett útgjöld í fjárlögum hafa frá árinu 2015 vaxið frá rúmlega 4% að raungildi upp í tæp 10% á hverju ári. Það er vegna þess að staða ríkissjóðs hefur lagast þetta mikið, þannig að við erum í betri færum til að fjárfesta. (Forseti hringir.) Ég kem að öðru í síðara andsvari.



[10:50]
Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég þakka miklu betri svör en ég átti von á, að vísu bara við tveimur af fjórum spurningum. Mér heyrist að bankarnir geti alveg verið í samkeppnisrekstri vegna þess að stjórnir þeirra séu sjálfstæðar. Það er mjög gott að heyra það. Það ætti alla vega ekki að vera ástæða til að losa um þær eignir mjög hratt eða hraðar en góðu hófi gegnir. Það er líka mjög gott að heyra að ríkissjóður stendur það vel að veggjöld séu kannski ekki nauðsynleg, að hægt sé að byggja upp með öðrum hætti. Þetta eru afskaplega jákvæðar fréttir fyrir mig.

Ég hlakka til að heyra seinni tvö svörin. Áhyggjur mínar hafa hreinlega snúið að því að mikið hefur verið gert til að reyna að sannfæra fólk í landinu um að það hafi það of gott til að kvarta, en á sama tíma að staða ríkissjóðs, staða kerfisins, sé svo slæm að ekki megi gera neitt jákvætt. Margt jákvætt hefur gerst og ég dreg ekki úr því. En við verðum að fara að gera okkur grein fyrir því hvort við erum ríkt land eða fátækt, hvort við höfum efni á því að gera hlutina vel eða ekki.



[10:51]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Í hvítbókinni er fjallað um samkeppni í fjármálaþjónustu á Íslandi og þar eru færð rök fyrir því að fjölbreyttara eignarhald gæti verið til þess fallið að auka samkeppnina á íslenskum fjármálamarkaði. Færð eru fram fyrir því rök sem ég sé að hv. þingmaður hefur efasemdir um og telur að sjálfstæðar stjórnir í ríkisbönkum séu góð leið til að tryggja mikla samkeppni milli banka. Þar held ég að við séum og verðum áfram ósammála.

Það var spurt hvort mikil hætta væri á bankahruni. Ég tel ekki að hætta sé á bankahruni eins og sakir standa en menn verða að gæta að sér ef þeir ætla að spá langt inn í framtíðina. Ég tel í sjálfu sér að við höfum öll tæki og tól til að gæta eða byggja upp varúð gagnvart slíku tjóni án beinnar eignaraðildar. Það er í mínum huga aðalatriðið.

Varðandi þær hugmyndir sem hafa verið á floti að undanförnu (Forseti hringir.) um frekari innviðafjárfestingu og sérstaklega í vegakerfinu er sú spurning fyrst og fremst um það hvort við viljum flýta framkvæmdum eða ekki.