149. löggjafarþing — 60. fundur
 31. janúar 2019.
Evrópuráðsþingið 2018.
skýrsla ÍÞER, 528. mál. — Þskj. 859.

[15:30]
Frsm. ÍÞER (Rósa Björk Brynjólfsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég flyt Alþingi skýrslu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins fyrir árið 2018 og ætla að byrja á því að ræða hér almennt um Evrópuráðið og Evrópuráðsþingið og fara yfir hlutverk þess. Evrópuráðsþingið er oft kallað varðhundur mannréttinda, enda er hlutverk þess að standa vörð um grundvallarhugsjónir aðildarríkjanna um mannréttindi, lýðræði og réttarríki, auk þess að stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum. Með þetta að markmiði beitir ráðið sér m.a. fyrir gerð og samþykkt bindandi fjölþjóðasáttmála.

Ályktanir og fjölþjóðasáttmálar Evrópuráðsins hafa haft víðtæk áhrif í álfunni allri. Fjölmargir sáttmálar ráðsins á ýmsum sviðum þjóðlífsins eru mikilvægar mælistikur fyrir þjóðir sem eru að koma á lýðræði og réttarríki, en mælistikur Evrópuráðsins gilda einnig fyrir aðrar fjölþjóðastofnanir og alþjóðleg samtök. Þar ber hæst mannréttindasáttmála Evrópu og félagsmálasáttmála Evrópu.

Frá lokum kalda stríðsins hefur Evrópuráðið m.a. gegnt því veigamikla hlutverki að styðja við lýðræðisþróun í nýfrjálsum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, m.a. með tæknilegri aðstoð á sviði laga- og stjórnsýsluuppbyggingar auk kosningaeftirlits. Aðildarríkjum ráðsins hefur fjölgað ört síðan Berlínarmúrinn féll og eru þau nú 47 talsins. Svartfjallaland er nýjasta aðildarríkið en það sleit ríkjasambandi við Serbíu eftir þjóðaratkvæðagreiðslu í maí 2006 og varð aðili að Evrópuráðinu í maí 2007. Þar með mynda ríki Evrópuráðsins eina órofa landfræðilega heild í álfunni, að Hvíta-Rússlandi undanskildu.

Evrópuráðsþingið er vettvangur fulltrúa þjóðþinga 47 aðildarríkja Evrópuráðsins. Á þinginu sitja 324 fulltrúar og jafn margir til vara. Ólíkt ráðherranefnd Evrópuráðsins þar sem hvert ríki hefur eitt atkvæði fer fjöldi fulltrúa á þinginu eftir stærð þjóðar. Á þinginu starfa níu fastanefndir og sex flokkahópar. Þá sitja forseti, 20 varaforsetar, formenn fastanefnda og flokkahópa í framkvæmdastjórn þingsins, sem hefur umsjón með innri málefnum þess. Þingið kemur saman ársfjórðungslega, eina viku í senn, að jafnaði í janúar, apríl, júní og október. Stjórnarnefndin fundar þrisvar á milli þingfunda. Loks kemur sameiginleg nefnd þingsins með ráðherranefnd Evrópuráðsins reglulega saman samhliða fundum Evrópuráðsþingsins í Strassborg.

Evrópuráðsþingið er nokkurs konar hugmyndabanki Evrópuráðsins um stjórnmál, efnahagsmál, félagsmál, mannréttindamál, umhverfis- og orkumál og menningar- og menntamál.

Mikilvægi þingsins felst einkum í því að eiga frumkvæði að aðgerðum og beina tillögum til ráðherranefndarinnar, hafa eftirlit með efndum fjölþjóðlegra skuldbindinga og þrýsta á um skjótar aðgerðir ef misbrestur verður þar á og vera vettvangur fyrir skoðanaskipti og samráð þingmanna aðildarríkjanna og styrkja þannig lýðræðismenningu og efla tengsl þjóðþinga.

Á þingfundum Evrópuráðsþingsins eru skýrslur nefnda ræddar og ályktað á grundvelli þeirra. Þingið getur beint tilmælum og álitum til ráðherranefndarinnar sem fjallar um þau og bregst við eftir atvikum með beinum aðgerðum. Evrópuráðsþingið á þannig oft frumkvæði að gerð fjölþjóðlegra sáttmála sem eru lagalega bindandi fyrir aðildarríkin. Sem dæmi má nefna að Evrópusáttmálinn um aðgerðir gegn mansali, sem tók gildi árið 2008, á rætur sínar að rekja til ályktana Evrópuráðsþingsins frá árunum 1997 og 2002. Sáttmáli Evrópuráðsins um baráttu gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi, sem einnig er nefndur Istanbúlsamningurinn, er einnig í samræmi við ályktanir Evrópuráðsþingsins.

Evrópuráðsþingið er fjölþjóðastofnun þar sem þingmenn frá öllum ríkjum Evrópu, að Hvíta-Rússlandi undanskildu, starfa saman á jafnréttisgrundvelli. Jafnframt hafa störf Evrópuráðsþingsins bein áhrif á störf þjóðþinganna þar sem fulltrúar á Evrópuráðsþinginu eru þingmenn í heimalöndum sínum, ólíkt því sem á t.d. við um Evrópuþingið. Þingfundir Evrópuráðsþingsins þar sem þingmenn bera saman bækur sínar og skiptast á hugmyndum eru því afar mikilvægt framlag til löggjafarstarfs heima fyrir og hafa þeir hraðað mjög þeirri öru lýðræðisþróun sem hefur orðið í Evrópu eftir lok kalda stríðsins og stutt hana. Þá hefur reynslan sýnt að þjóðir sem hafa skýr markmið í störfum sínum innan þingsins og kappkosta að ná þeim fram geta haft áhrif langt umfram stærð og pólitískt bolmagn. Sú staðreynd varpar skýru ljósi á mikilvægi íslenskrar þátttöku á Evrópuráðsþinginu og þá hagsmuni sem í henni felast.

Ef við förum síðan yfir síðasta ár Evrópuráðsþingsins, árið 2018, og tæpum á stærstu málunum sem þar voru uppi voru tvö stærstu málin innan Evrópuráðsþingsins samskipti þingsins og Evrópuráðsins við Rússa og viðbrögð við spillingarmálum innan þingsins sjálfs. Árið 2014 var landsdeild Rússlands svipt atkvæðisrétti í Evrópuráðsþinginu vegna aðkomu Rússlands að átökunum í Úkraínu og innlimunar Krímskagans. Hið sama gerðist þegar Rússar sendu landsdeild sína árið 2015 og hafa Rússar ekki sent landsdeild á Evrópuráðsþingið síðan. Rússar hafa því ekki tekið þátt í störfum Evrópuráðsþingsins síðustu fjögur árin og þar með ekki átt þátt í kjöri dómara við Mannréttindadómstól Evrópu eða framkvæmdastjóra Evrópuráðsins. Sumarið 2017 tilkynntu Rússar að þeir hygðust halda eftir aðildargreiðslum sínum til stofnana Evrópuráðsins þar til þeim yrðu tryggð full þátttökuréttindi í öllum stofnunum ráðsins, þar á meðal Evrópuráðsþinginu.

Á vettvangi þingsins og innan sérnefndar um hlutverk og verkefni þingsins var tekist hart á um hvort ætti að breyta reglum Evrópuráðsþingsins þannig að þinginu væri ekki fært að svipta landsdeild atkvæðisrétti sínum. Slík reglubreyting hefði mætt kröfum Rússa um að geta skipað nýja landsdeild án þess að eiga á hættu að missa atkvæðisréttinn. Miklar deilur sköpuðust um tillögur þingskapanefndar að breytingum á þingsköpum sem lagðar voru fram í október. Að endingu gaf þingskapanefnd út túlkun á þingsköpum í kjölfar fundar nefndarinnar í desember. Niðurstaða þingskapanefndar var að ákvæði stofnskrár Evrópuráðsins, um rétt aðildarlanda til að koma að kosningum til æðstu embætta við stofnanir Evrópuráðsins, væru æðri ákvæðum þingskapa um sviptingu atkvæðisréttar. Þannig gæti svipting atkvæðisréttar landsdeilda í kjölfar athugasemda við kjörbréf ekki átt við um rétt landsdeilda til að taka þátt í þessum kosningum.

Í kjölfar fregna af spillingu meðal Evrópuráðsþingmanna árið 2017 var skipuð óháð rannsóknarnefnd um spillingarmál innan þingsins. Rannsóknarnefndin skilaði skýrslu sinni við upphaf aprílfundar þingsins. Í skýrslunni komu fram vitnisburðir um óeðlilega náið samband ýmissa núverandi og fyrrverandi Evrópuráðsþingmanna við stjórnvöld í Aserbaídsjan.

Til þess að bregðast við þeim upplýsingum sem fram koma í skýrslunni hefur Evrópuráðsþingið tekið upp hagsmunaskráningu meðal þingmanna. Þingmönnum ber framvegis að skila hagsmunaskráningu sinni fyrir lok febrúar ár hvert og er hún birt á vefsíðu þingsins. Fylli þingmenn ekki út hagsmunaskráningu, eða gerist þeir uppvísir að því að leyna upplýsingum í skráningunni, eru þeir sviptir réttinum til að sinna trúnaðarstörfum fyrir þingið. Árlega er birtur listi yfir þá þingmenn sem ekki hafa skilað hagsmunaskráningu.

Á síðasta ári var framkvæmd rannsókn á kynferðislegri áreitni í þjóðþingum Evrópu. Rannsóknin fór fram samhliða í Evrópuráðsþinginu og á fundum Alþjóðaþingmannasambandsins. Leitað var eftir þátttöku frá breiðum hópi þingkvenna og starfskvenna þinga. Niðurstöður rannsóknarinnar voru sláandi, eins og sú sem hér stendur og hv. þm. Birgir Þórarinsson fjölluðu um í ræðum sínum í gær, en þær sýndu að 85% þingkvenna höfðu upplifað kynbundið andlegt ofbeldi í störfum sínum. Nánar er fjallað um rannsóknina í frásögn af fundi stjórnarnefndar í nóvember. Ég vil líka hvetja áhugasama til þess að finna skýrsluna á heimasíðu Evrópuráðsþingsins, þar sem nánar er hægt að kynna sér ítarlegri niðurstöður þessarar viðamiklu en merkilegu rannsóknar.

Ég bendi fólki sem hefur áhuga á því að kynna sér nánar ályktanir, tilmæli og álit Evrópuráðsþingsins á síðasta ári á fylgiskjal sem finna má á heimasíðu Alþingis. Þar eru gefin út álit og tilmæli til ráðherranefndar Evrópuráðsins, sem samþykkt voru á þingfundum og stjórnarnefndafundum þingsins á síðasta ári. Þetta eru afar merkilegar ályktanir sem fjalla um mannréttindamál, fordæmingu á slæmri stöðu mannréttindamála í ýmsum löndum og mikið og merkilegt og gott leiðarljós þegar kemur að mannréttindamálum víða um heim eins og hér hefur verið tæpt á.

Virðulegi forseti. Þar með ætla ég að ljúka þessari yfirferð fyrir hönd Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins, sem í sitja Þórhildur Sunna Ævarsdóttir varaformaður og Bergþór Ólason, en varaþingmenn Evrópuráðsþingsins eru Birgir Þórarinsson, Halldóra Mogensen og Ólafur Þór Gunnarsson. Fyrir hönd Íslandsdeildarinnar lýk ég þess þessari tölu minni hér, en hvet áhugasama til að kynna sér nánar hið góða og merkilega starf sem fer fram í Evrópuráðsþinginu.



[15:41]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég er komin hér sem sitjandi fulltrúi í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins og mig langaði að ræða aðeins um þessa merkilegu stofnun, nota þetta tækifæri hér til að tala um Evrópuráðið, Evrópuráðsþingið, mikilvægi þess og sögu og hvað við stöndum á miklum krossgötum núna, vegna þess að ég tel að það eigi fullt erindi inn í þá umræðu sem við eigum hér um ársskýrsluna.

Evrópuráðið fagnar 70 ára afmæli í ár. Það var sett á fót í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar. Eins og ég hef alltaf skilið þetta voru tveir skólar alþjóðafræðinga sem veltu fyrir sér hvernig ætti að koma í veg fyrir að seinni heimsstyrjöldin myndi nokkru sinni endurtaka sig, að enn ein styrjöldin myndi brjótast út í Evrópu og þjóðirnar missa milljónir manna í slíkum styrjöldum. Einn skólinn gekk út á að það þyrfti efnahagslegt samband þessara þjóða, sérstaklega Frakklands og Þýskalands, og það þyrfti að gera það efnahagslega óhagkvæmt fyrir þjóðir að fara í stríð hver við aðra innan Evrópu. Úr því varð Kola- og stálbandalagið, sem síðar varð Evrópusambandið. Það hefur gengið svona líka ljómandi vel, alla vega er Evrópusambandið ekki mikið í stríði innbyrðis. Svo var annar skóli, hann kom kannski frekar frá Bretum á meðan Benelux-löndin töluðu skýrar fyrir Evrópusambandinu, um að það yrði einhvers konar samkunda eða diplómatískur klúbbur þar sem þjóðir Evrópu gætu rætt saman, komist að sameiginlegri niðurstöðu, samið alþjóðasamþykktir og sáttmála og unnið saman á fjölþjóðlegum vettvangi. Úr því varð Evrópuráðið. Þetta er grunnskilningur minn á því hvernig Evrópuráðið varð til.

Þetta er afskaplega merkileg stofnun. Hún samanstendur af 47 ríkjum þótt hún hafi ekki byrjað með svo mörg. Hún hefur þrjú grunngildi, mannréttindi, lýðræði og réttarríki, gríðarlega mikilvæg gildi. Þær þjóðir sem að þessari stofnun standa hafa það yfirlýsta markmið að vinna að þessum gildum og styrkja hver aðra í því. Meðal þess er Evrópuráðsþingið þar sem 324 fulltrúar frá þessum 47 löndum koma saman til að ræða ýmis mál og sérstaklega að flytja skýrslur og tilmæli til sinna meðlimaríkja og hafa eftirlit með mannréttindavernd, réttarríkisvernd og lýðræðisvernd innan sinna aðildarríkja. Þetta er mjög sterkur vettvangur vegna þess, eins og hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir, formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins, kom inn á rétt áðan, að þarna sitja þjóðkjörnir fulltrúar og hafa þar af leiðandi bæði þinghelgi og umboð sinnar þjóðar til þess að vera fulltrúar hennar á þessu þingi. Úr þessu skapast oft mjög líflegar umræður og líka mjög oft mikilvægar breytingar.

Dæmi um það er skýrsla frá svissneskum þingmanni, sem heitir Dick Marty, um fangaflug í Evrópu. Það eru kannski margir búnir að gleyma þeirri skýrslu, en ég er alla vega ekki búin að gleyma henni. Það kom í ljós vegna þeirrar skýrslu að 200 flugvélar sem tengdar voru við bandarísku alríkisþjónustuna millilentu hér á landi á ákveðnu tímabili og flugu svo til leynifangelsa Bandaríkjanna úti um allt þar sem fólk var pyndað. Mér þykja líkur á því að einhver hljóti að hafa tekið þátt í þessu hérna heima, varla hafi það farið fram hjá öllum lifandi mönnum á Íslandi að þetta væri í gangi, en það hafa ekki fengist fullnægjandi svör við því hvort sú hafi verið raunin. Mér finnst ekki að það hafi verið rannsakað á fullnægjandi hátt. En þetta var skýrsla sem kom frá Evrópuráðsþinginu og hafði víðtæk áhrif um alla Evrópu, hún varð til þess að miklu betra eftirlit var haft með því hverjir fengju að koma hérna og millilenda og í öðrum löndum og breytti landslaginu á ákveðinn hátt í fangaflugi alla vega í svartnættisfangelsi Bandaríkjanna. Það er bara eitt dæmi um eina skýrslu sem hefur skipt töluverðu máli sem hefur komið frá þessu þingi, þó að slíkar skýrslur séu ófáar.

Eins og hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir kom inn á áðan er eitt af stærstu málunum í Evrópuráðsþinginu akkúrat núna fjarvera Rússa. Þeir hafa ekki sent sendinefnd á þingið síðan 2015. Nú er það líka svo að þeir neita að borga sín lögbundnu aðildargjöld til Evrópuráðsþingsins þannig að niðurskurður vofir yfir og það gæti orðið allt að 15% niðurskurður hjá Evrópuráðinu öllu. Það gæti mögulega haft alvarleg áhrif á það sem margir kjósa að kalla flaggskip Evrópuráðsins, sem er Mannréttindadómstóll Evrópu. Margir vilja að sjálfsögðu halda hlífiskildi yfir Mannréttindadómstólnum en þá spyr maður sig hvar við eigum að skera niður. Í Evrópuráðinu er líka Evrópunefnd um varnir gegn pyndingum og vanvirðandi eða ómannlegri meðferð eða refsingu. Sú nefnd gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki. Ættum við að skera niður þar?

Mér hefur þótt það koma mjög óskýrt fram hjá framkvæmdarvaldinu og framkvæmdarvaldshliðinni í Evrópuráðinu hér heima og annars staðar og öllum þeim sem ég hef talað við sem vettlingi geta valdið gagnvart fjármagni Evrópuráðsins hvort ríkisstjórnir þeirra ríkja sem fara með fjárveitingavaldið séu reiðubúnar að hlaupa undir bagga með þessari stofnun og tryggja að niðurstaðan verði ekki að við þurfum að skera niður það mikilvæga starf sem við vinnum að í Evrópuráðinu. Mér hefur ekki þótt það koma skýrt fram og mér þykir það miður. Ég hvet hæstv. utanríkisráðherra okkar til að íhuga það alvarlega hvort hann vilji leiða hóp þeirra ríkja sem munu styrkja Evrópuráðið á þann hátt að ekki þurfi að skera niður starfsemi sína vegna þess að Rússar neiti að borga sín lögbundnu meðlimagjöld.

Á þessum örfáu mínútum sem ég á eftir, herra forseti, vil ég rétt drepa á það að síðasta sumar var ég kjörin formaður laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins. Mér er mjög annt um þetta hlutverk sem mér var falið og þykir mjög vænt um að mér hafi verið treyst til að sinna því. Og það er afskaplega ánægjulegt að fá að sinna þessu hlutverki vegna þess að í því kynnist maður ótrúlega mörgum öngum þess mikilvæga starfs sem fer fram á sviði Evrópuráðsþingsins. Mjög mörg félagasamtök eru að berjast fyrir réttlátari heimi í sínum heimalöndum og jafnvel í allri Evrópu. Stundum fær maður líka að taka þátt í alþjóðlegum ráðstefnum og öðrum viðburðum fyrir hönd nefndarinnar. Fékk ég m.a. að vera með innkomu á hliðarviðburði á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þar sem ýmis ríki, 37 ríki, eru að reyna að koma sér upp regluverki til að koma í veg fyrir verslun á vörum sem einungis er hægt að nota til pyndinga. Þar er um ýmis hræðileg tól að ræða. Þarna ætla ríki heims að reyna að koma sér saman um regluverk sem kemur í veg fyrir að tól sem einungis er hægt að nota til pyndinga, eða sem líklegt er að verði notuð til pyndinga, gangi ekki kaupum og sölum og séu ekki seld til þeirra ríkja sem líklega eru að misnota sér þennan búnað, og koma líka á allsherjarbanni við sumum þessara vara. Það var afskaplega áhugavert. Þar var hæstv. utanríkisráðherra með tilkynningu líka um að til stæði að bæta regluverkið á Íslandi til þess að við myndum leggja okkar af mörkum til að búnaður sem þessi gengi ekki kaupum og sölum.

Sem formaður nefndarinnar var ég líka kjörin framsögumaður vegna skýrslu um pólitíska fanga í Aserbaídsjan. Nú hefur nefndin skoðað inngang að skýrslunni minni, eða yfirlit yfir það hvernig sú skýrsla mun líta út, og hefur samþykkt að ég fái heimild til að fara til Aserbaídsjan til að hitta þar fanga, sem taldir eru pólitískir fangar, til að taka út stöðuna. Mjög þungar ásakanir hafa verið uppi gagnvart stjórnvöldum í Aserbaídsjan, að þau fangelsi fólk sem er með einhvers konar andóf gegn stjórn sem sumir draga í efa að sé lýðræðisleg stjórn yfir höfuð.

Þar að auki lagði Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins fram tillögu, sem hún dró svo reyndar til baka, um að haldin yrði sérstök umræða á þinginu sem var haldið í janúar um þessa skýrslu, sem hv. þingmenn Birgir Þórarinsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir hafa komið inn á, skýrslu Alþjóðaþingmannasambandsins um þá áreitni sem konur í stjórnmálum verða fyrir. Þess í stað verður farin sú leið að við ætlum að skrifa skýrslu, og ég er framsögumaður hennar, um kynferðislega áreitni í þjóðþingum, um „sexisma“ í þjóðþingum, eins og það er kallað, og leggja til að við uppfærum siðareglur okkar í Evrópuráðsþinginu til að taka á þessum vanda og fjalla um hvernig megi bregðast við því ofbeldi sem konur verða fyrir í stjórnmálum í störfum sínum. Ég hlakka til að takast á við það verkefni. Vonandi verður sú skýrsla á dagskrá í apríl á þingi (Forseti hringir.) Evrópuráðsþingsins. Ég vona að ég hafi betri fréttir að færa að heiman þá en nú.



[15:52]
Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og vil einnig nota tækifærið og þakka formanni Íslandsdeildarinnar, hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur, fyrir afar góða og greinargóða skýrslu og mjög fræðandi um starfsemi Evrópuráðsins. Ég vil einnig óska hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur til hamingju með formennskuna í laga- og mannréttindanefndinni. Ég hef haft tækifæri sem varamaður Íslands í Evrópuráðinu til að fylgjast aðeins með hennar störfum þar og eru þau til mikils sóma. Hún er vel að því komin og afar ánægjulegt að fylgjast með hennar störfum við Evrópuráðið, og sömuleiðis formanni Íslandsdeildarinnar.

Mig langar að fá aðeins meiri umræðu um þann niðurskurð sem fram undan er í Evrópuráðinu vegna þess að Rússar hafa ekki staðið við sín framlög til ráðsins. Nú hef ég heyrt af því að svo geti farið að allt að 200 manns við ráðið verði sagt upp störfum sem hlýtur að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir þá viðamiklu og mikilvægu starfsemi sem þar fer fram. Því miður hefur ekki tekist að ná ásættanlegri niðurstöðu við Rússa um fjárframlag þeirra. Það væri gott ef hv. þingmaður gæti farið aðeins nánar út í þetta, hvað hún sér fyrir sér og hvaða áhrif þetta geti haft á það mikilvæga starf sem fer fram innan Evrópuráðsins.



[15:54]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir athyglisverða spurningu og fyrir falleg orð í minn garð. Ég kann að meta þau.

Áhrifin sem niðurskurðurinn gæti haft eru kannski sérstaklega hættuleg gagnvart Evrópuráðsþinginu sjálfu, mér þykir líklegt að þar verði niðurskurðarhnífurinn ansi stór. Ástæðan fyrir því að mér finnst það mjög varhugavert er að það er í þinginu sem framkvæmdarvaldinu mætir hvað sterkasta andstaðan, eftirlitið og aðhaldið. Þar eru þjóðkjörnir þingmenn með friðhelgi í sínum störfum og sjálfstæði sem þarf til þess að geta farið til vinaþjóða sinna, tekið út ástandið þegar kemur að lýðræði, mannréttindum eða réttarríkinu og sagt: Heyrðu, vinur minn, þetta er bara alls ekki nógu gott, og geta sagt það án undanbragða, þurfa ekki að standa í stofnanadiplómasíu eða slíku. Niðurskurður mynda veikja þessa gríðarsterku eftirlitsstofnun.

Ég hef áhyggjur af því að þetta sé eitthvað sem mörgum ríkisstjórnum þessara ríkja mislíki ekkert allt of mikið. Ég hef áhyggjur af því að það sé ástæða þess að við heyrum ekki sterkari raddir frá leiðtogum þessara ríkja um að þeir muni bara bjarga þessum 33 milljónum evra sem vantar upp á. Í stóra samhenginu eru þetta smáaurar fyrir þjóðir eins og Þýskaland og Frakkland, það mætti finna þessa peninga í klinkbuddunni þeirra, þannig að það er eitthvað meira á bak við þetta. Það er ekki þannig að þeim finnist fjárhæðin of há til þess að geta hlaupið undir bagga. (Forseti hringir.) Ég óttast að það sé einhver pólitísk afstaða á bak við það að ekki sé gengið í að tryggja að það verði enginn niðurskurður út af þessu.



[15:56]
Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni mjög athyglisvert svar. Maður spyr sig einmitt: Gætu hugsanlega verið einhverjar pólitískar ástæður að baki því að aðildarríkin sjái sér ekki fært að auka framlög til að mæta þessum niðurskurði sem er til kominn vegna þess að eitt aðildarríkjanna, Rússland, greiðir ekki sín lögbundnu framlög og hefur ekki greitt?

Við sjáum t.d. eins og hv. þingmaður nefndi áðan mjög mikilvægt mál sem er eftirlit með pólitískum föngum í Aserbaídsjan. Þetta er alveg klassískt mál sem er hægt að tengja við þessa umræðu og það sem hv. þingmaður kom inn á, að hugsanlega eru þarna ríki sem vilja í raun og veru ekki hafa mikið af þessu að segja, að það komi eftirlitsnefndir og að fylgst sé með málum eins og þessum.

Þetta er afar athyglisvert svar frá hv. þingmanni og ég hvet hana til að koma þessu á framfæri með blaðagrein eða einhverju þvílíku, vegna þess að þetta er mjög athyglisvert. En auðvitað vonum við að það náist einhver niðurstaða við Rússland. Ég tel það mjög óheppilegt ef Rússland fer úr ráðinu vegna þess að það bitnar fyrst og fremst á almenningi í Rússlandi. Við þekkjum það að þar viðgangast mannréttindabrot og ef menn hafa ekki pólitískar skoðanir sem eru þóknanlegar stjórnvöldum þar getur það valdið almenningi vandræðum. Þessu þarf auðvitað að fylgjast náið með og það er einn af hornsteinum Evrópuráðsins að fylgjast með mannréttindum í löndum aðildarríkjanna. Ég vona svo sannarlega að það takist að ná lendingu hvað Rússland varðar. (Forseti hringir.) En ég þakka hv. þingmanni fyrir gott svar.



[15:58]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þessa góðu hvatningu og get vel hugsað mér að skrifa blaðagrein eða gera myndband eða annað til að vekja athygli á þeirri alvarlegu stöðu sem þessi mikilvægi vörður mannréttinda er í akkúrat núna vegna þess niðurskurðar sem vofir yfir.

Ég vil líka bæta því við og benda á að ef við ætlum okkur að standa vörð um Mannréttindadómstól Evrópu, sem er alls ekkert gefið að verði niðurstaðan í þessum niðurskurði, og halda hlífiskildi yfir Mannréttindadómstólnum, verður að skera niður annars staðar. Og eins og ég benti á í ræðu minni áðan er vandi að velja úr hvað það ætti að vera. Er það Evrópunefnd um varnir gegn pyndingum og annarri vanvirðandi eða ómannúðlegri meðferð? Sú nefnd hefur oft komið með gagnrýni á íslensk stjórnvöld án þess að við því hafi verið brugðist, eins og t.d. gagnvart lögræðislögum okkar sem eru og verða í umræðunni núna fljótlega. Ættum við að skera niður þar? Ekki vil ég sjá það.

Mér þykir mjög mikilvægt að ef Ísland tekur sig alvarlega sem lýðræðisríki, sem ríki sem stendur vörð um mannréttindi, réttarríki og lýðræði, stöndum við við bakið á Evrópuráðinu og tökum frumkvæði að því að tryggja að ekki þurfi að skera niður í helstu stofnunum sem þar starfa og sinna mikilvægu hlutverki fyrir mannréttindavernd, bæði á Íslandi og í öllum heiminum.

Ég tek undir með hv. þingmanni, það væri ekki æskilegt að Rússland drægi sig út úr þessu samstarfi vegna þess að þá missa ekki einungis allir þeir sem í Rússlandi búa aðgang sinn að Mannréttindadómstólnum, heldur hættir þá líka samtalið við Rússland á þessum mikilvæga vettvangi um hvernig við getum komist að friðsamlegum lausnum. (Forseti hringir.) Það er nokkuð sem ég hef verulegar áhyggjur af, að samtalið hætti, vegna þess að þá stefnir venjulega í óefni.