149. löggjafarþing — 66. fundur
 18. feb. 2019.
aðkoma ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum.

[15:05]
Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Á nýliðnu viðskiptaþingi sagði hæstv. forsætisráðherra að mikilvægast fyrir leiðtoga væri að hlusta og skilja. Hún talaði um að hið eina fyrirsjáanlega í heiminum í dag væri hið ófyrirsjáanlega en samt taldi hún að með myndun þessarar ríkisstjórnar væri pólitískri óvissu í þessu landi eytt. Þótt ég væri til í að ræða betur við forsætisráðherra um þá pólitísku vissu, um gildi stefnu flokka og hvenær eðlilegt og réttlætanlegt er að víkja frá henni í nafni málamiðlana, ætla ég frekar að einbeita mér að þeirri samfélagslegu óvissu sem við búum við vegna íhalds í íslenskum stjórnmálum.

Almenningur bíður nú eftir því að dragi til tíðinda í yfirstandandi kjaraviðræðum. Leiðtogar launafólks hafa sagt skýrt að lausn verði ekki náð nema þessi ríkisstjórn sýni á spilin. Hæstv. ráðherra hefur aftur á móti sagt að aðkoma stjórnvalda hangi á því að það sjái til lands í kjaraviðræðum. Titringur hefur verið látinn magnast á vinnumarkaði í skugga aðgerðaleysis stjórnvalda. Ábyrg ríkisstjórn hefði strax í upphafi lagt fram breytingar á skattkerfinu og húsnæðismálum í stað þess að nota þau nú sem skiptimynt í kjarasamningum.

Verkalýðshreyfingin hefur lagt fram tillögur um fjölþrepaskattkerfi eins og Samfylkingin og Vinstri græn, lengst af, hafa talað fyrir. Það er skynsamleg leið til jöfnunar og til að auka lífsgæði. Tillögur ASÍ gera ráð fyrir fjórum þrepum þar sem 95% launafólks muni standa betur eða í stað við breytingarnar en fjórða þrepið yrði hátekjuskattur.

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvernig henni lítist á tillögur ASÍ en einnig hversu lengi hún ætli að leyfa titringnum að magnast áður en hún sýnir á spilin. Loks spyr ég hvort hæstv. forsætisráðherra finnist mikilvægara, pólitísk vissa innan ríkisstjórnarinnar eða stöðugleiki og réttlæti á vinnumarkaði.



[15:07]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina þótt ég neyðist til þess að leiðrétta margt af því sem kom fram í máli hans. Ég get fullvissað hv. þingmann um að fáar ríkisstjórnir á síðari árum og síðari tímum hafa gripið til jafn mikilla aðgerða og jafn mikils samtals við aðila vinnumarkaðarins. Því getur enginn neitað. Hv. þingmaður getur ekki haldið öðru fram.

Hér hefur þegar verið gripið til ýmissa aðgerða sem ég hef margoft farið yfir með hv. þingmanni, hvort sem þær lúta að stöðu atvinnulausra, breyttu launafyrirkomulagi æðstu embættismanna, aukningu barnabóta eða breytingum á skattkerfi, bæði þeim sem tóku gildi þegar í stað síðustu áramót og þeim sem tóku gildi þegar í stað fyrstu áramótin sem þessi ríkisstjórn sat.

Hv. þingmaður kemur upp og leyfir sér að tala um að ábyrg ríkisstjórn hefði þegar í stað gripið til aðgerða. Við boðuðum aðila vinnumarkaðarins á fund okkar strax í upphafi. Við höfum átt einstaklega gott samtal við þá aðila. En þegar verið er að reyna að ná kjarasamningum til langs tíma skiptir að sjálfsögðu máli — og ég tók eftir því að hv. þingmaður sagði að ýmsir töluðu skýrt og ég hef einmitt talað mjög skýrt í því — að aðilar sjái til lands til þess að stjórnvöld geti komið inn með raunhæfar aðgerðir sem munu í raun og veru greiða fyrir því að ná farsælli lendingu í kjarasamningum og bæta hag launafólks.

Hv. þingmaður spurði mig sérstaklega um skattkerfisbreytingar. Það er ekkert launungarmál að ríkisstjórnin hefur undirbúið tillögur í skattamálum sem miða að því að bæta hag tekjulægsta fólksins í samfélaginu. Það er gríðarstórt hagsmunamál, gríðarstórt lífskjaramál, eins og þær tillögur sem átakshópur í húsnæðismálum hefur unnið, eins og þær tillögur sem verið er að vinna núna hvað varðar félagsleg undirboð, eins og (Forseti hringir.) það sem þegar hefur verið gert fyrir barnafólk í landinu og eins og það sem þegar hefur verið gert fyrir atvinnulausa. Ég hlýt (Forseti hringir.) að vísa tali um aðgerðaleysi norður í land, hv. þingmaður.



[15:09]
Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Hér eru þingmenn ekki ósammála um að á síðustu 10–15 árum hafa skattar á lægstu launin hækkað umfram það sem þeir hafa hækkað á hæstu launin. Jöfnunarkerfi skattkerfisins er með öðrum orðum óljósara og lélegra en það var. Við höfum farið yfir það margoft hér hvernig vaxtabótakerfið er nánast ónýtt, hvernig barnabætur hafa minnkað og nú er þetta einungis fátækrastyrkur eða a.m.k. styrkur við fólk í verulegum vanda.

Það má einu gilda fyrir mig hversu oft hæstv. forsætisráðherra á samtal við hinn og þennan úti í bæ og það er gott og henni til hróss að hún tali mikið við verkalýðshreyfinguna. Hér er ég hins vegar að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvert viðhorf hennar er til þess að útfæra fjölþrepaskattkerfi en ekki fara einhverjar aðrar leiðir.



[15:11]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni síðari spurningu hans. Það er mjög margt sem stjórnvöld geta gert í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins og í samvinnu við Alþingi allt til þess að bæta kjör fólksins í þessu landi. Ég nefndi húsnæðismálin. Ég held að við hv. þingmaður séum sammála um það því að ég hef kynnt mér tillögur flokks hans í húsnæðismálum, að það er mjög mikilvægt að styrkja hin félagslegu húsnæðiskerfi.

Við höfum rætt um félagsleg undirboð sem meinsemd sem ekki eigi að líðast á innlendum vinnumarkaði. Þar erum við hv. þingmaður sammála.

Hvað varðar skattkerfisbreytingar höfum við þegar gripið til vissra ráðstafana til að tryggja að ólíkir tekjuhópar fari ekki með ólíkum hætti út úr skattkerfisbreytingum, þ.e. að samstilla efri og neðri mörkin í skattkerfinu sem ekki voru samstillt því að önnur fylgdu launavísitölu og hin neysluvísitölu, sem þýddi að tekjuhærri hópar komu betur út úr skattkerfisbreytingum en tekjulægri. Því var breytt um síðustu áramót.

Ég vil bara ítreka það að ég hef áður sagt að þær breytingar sem við gerum eiga að verða til þess að auka jöfnuð í kerfinu. Þær mega ekki verða til þess að við þurfum að vanrækja samneysluna vegna skattalækkana. En það er mjög mikilvægt að allar ívilnanir komi sem best út fyrir tekjulægri hópana. Markmiðið á að vera að stuðla að raunverulegri lífskjarabót fyrir þá hópa.