149. löggjafarþing — 66. fundur
 18. feb. 2019.
launahækkanir æðstu stjórnenda ríkisfyrirtækja.

[15:12]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Fyrirspurn mín til hæstv. forsætisráðherra snýr að viðbrögðum ríkisstjórnarinnar við launahækkunum æðstu stjórnenda í ríkisfyrirtækjum og áhrifum þeirra á yfirstandandi kjaraviðræður. Í því samhengi vil ég víkja sérstaklega að einni slíkri hækkun, launahækkun bankastjóra Landsbankans upp á 82%, frá 3,25 millj. kr. á mánuði upp í 3,8 millj. kr., í apríl í fyrra.

Til að byrja með vil ég vekja athygli á orðum sem hæstv. félags- og barnamálaráðherra Ásmundur Einar Daðason lét falla á opnum fundi á Hellu í síðustu viku. Hann sagði að laun forstjóra ríkisfyrirtækjanna væru rugl og komin úr öllum takti. Hann sagði einnig að stjórnir bankanna yrðu að sýna samfélagslega ábyrgð.

Hæstv. félagsmálaráðherra sagði síðar á Facebook, með leyfi forseta:

„Þessar eilífu hækkanir forstjóra ríkisfyrirtækja eru óþolandi. Ríkisbankinn fremstur í flokki að hækka laun á sama tíma og aðrir eru varaðir við vegna kjarasamninga. Bankasýsla ríkisins og bankaráð Landsbankans verða að sýna það í verki að þeim sé treystandi til að stýra fyrirtækjum í almannaeign. Ef ekki þá verða stjórnvöld að grípa inn í með lagabreytingum. Í hreinskilni sagt þá fer þolinmæði mín þverrandi gagnvart þessu rugli.“ — Ég get tekið undir það hjá hæstv. ráðherra.

Hæstv. forsætisráðherra sagði við sama tilefni, með leyfi forseta:

„Ef það er þannig að stjórn bankans túlkar hóflega og samkeppnishæfa launastefnu með þessum hætti þá þarf kannski bara að setja það nákvæmlega inn í starfskjarastefnu hvernig fara eigi með kjör æðstu stjórnenda.“

Í fyrirspurn minni vil ég biðja hæstv. forsætisráðherra að skýra þau orð sín og mögulega einnig orð hæstv. félags- og barnamálaráðherra. Að mínu viti er morgunljóst að þessar hækkanir setja þetta samfélag á hliðina. Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra: Hvernig hyggst hann beita sér og sinni ríkisstjórn í því að tryggja að þær ákvarðanir, sem eru greinilega þvert á eigandastefnu ríkissjóðs, hafi ekki áhrif á yfirstandandi kjaraviðræður? Hyggst ríkisstjórnin lækka laun þeirra forstjóra og bankastjóra sem mesta hækkun hafa fengið eða er planið að gera ekki neitt fyrr en þjóðfélagið logar í verkföllum og fara svo í lagasetningu gegn þeim?



[15:14]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Það var ágætt að fá upplestur hennar á ræðu hæstv. félags- og barnamálaráðherra á fundi hans á Hellu. Ég held að hún verði bara að spyrja þann ráðherra sérstaklega um þann fund ef hún vill setja hann á dagskrá Alþingis. Það liggur algjörlega ljóst fyrir hvað ég hef sagt um þessi mál. Þegar Bankasýsla ríkisins var stofnuð á sínum tíma, vegna þess að ríkið var orðið eigandi banka, var lögð á það mikil áhersla af Alþingi að ekki væru bein pólitísk afskipti af þessum ríkisbönkum. Þess vegna var Bankasýslan sett á laggirnar, til að tryggja ákveðna fjarlægð hins pólitíska valds frá bönkunum.

Nú getum við deilt um það hvort okkur finnst það skynsamlegt yfir höfuð að ríkið sé að reka banka og hversu mikil fjarlægð hins pólitíska valds á að vera frá þeim bönkum. Í því felst að launakjör eru ákvörðuð með sérstakri eigenda- og starfskjarastefnu og þar kemur fram eins og hv. þingmaður nefndi — eða kannski var hv. þingmaður að vísa í það sem ég sagði um þessi mál, það kann að vera — að launin skuli vera hófleg og samkeppnishæf. Fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra, Benedikt Jóhannesson, sendi tilmæli árið 2017 til bankaráða þar sem hann ítrekaði þessa starfskjarastefnu og þau tilmæli eru enn í fullu gildi.

Það sem ég hef sagt er mjög einfalt: 4 millj. kr. laun eru ekki hófleg í neinum þeim veruleika sem við þekkjum. Þau geta ekki talist hófleg í neinum þeim veruleika sem við búum við og 82% launahækkun á einu ári getur aldrei talist hófleg. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Samkeppnishæf laun — þurfum við þá ekki að spyrja hið pólitíska vald: Hvað eigum við við þegar við tölum um samkeppnishæf laun? Eru það samkeppnishæf laun sé maður bankastjóri í ríkisbanka að vera með helmingi hærri laun en hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem fer með yfirstjórn þessara sömu ríkisbanka? Eru það samkeppnishæf laun? Mér finnst það ekki, ekki samkvæmt mínum skilningi á orðinu samkeppnishæfur og tel ég mig hafa ágætismálskilning. (Forseti hringir.) Það sem ég átti við, af því að hv. þingmaður spyr, er að þá þarf kannski að skrifa þessa starfskjarastefnu út þannig að hún sé hverjum sem er fullkomlega ljós, að við ætlumst til þess að þarna sé þessum tilmælum fylgt eftir í raun. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[15:17]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og finnst ánægjulegt að hún minnist einmitt á það sem fyrrverandi fjármálaráðherra, Benedikt Jóhannesson, gerði, að senda bréf til allra stjórna fyrirtækja í eigu ríkisins og biðja þær að huga að áhrifum á stöðugleika á vinnumarkaði eins og hæstv. ráðherra kom inn á.

Ég vil einmitt minnast sérstaklega á orð sem hann lét falla í þessu bréfi þar sem kemur fram að æskilegt sé að launaákvarðanir séu varkárar og forðast sé að ákvarða miklar launabreytingar á stuttu tímabili en þess í stað sé þess gætt að laun séu hækkuð með reglubundnum hætti til samræmis við almenna launaþróun. Mér finnst það algjörlega ljóst að stjórnir fjölmargra ríkisfyrirtækja hafa gjörsamlega hunsað þessi fyrirmæli. Listinn yfir þá ríkisforstjóra sem hafa hlotið margra tuga prósenta hækkun á laun sín heldur áfram að lengjast og krónutöluhækkun þeirra flestra er hærri en lágmarkslaun á Íslandi.

Ég spyr í fyrsta lagi: Hvað verður um þá stjórnarmenn sem hunsa svona fyrirmæli? Munu þeir sæta einhverjum afleiðingum? Munu þeir fá að sitja áfram, þ.e. verða þeir skipaðir aftur, geta þeir átt von á endurkjöri? Er einhugur í ríkisstjórn með þessa afstöðu að ekki verði afskipti af því hvernig þetta verður eða ekki? (Forseti hringir.) Ég heyri ráðherra tala í kross um þessi mál um þessar mundir.



[15:18]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Þá kem ég að því sem ég kom ekki að í fyrra svari, en hv. þingmaður nefndi líka til hvaða viðbragða ætti að grípa. Ég verð að segja að ég heyri ráðherra ekki tala í kross í því máli. Það liggur fyrir að núverandi hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefur sent Bankasýslu ríkisins og stjórnum þessara fyrirtækja bréf þar sem hann ítrekar að tilmælin frá 2017 séu í fullu gildi — enda eru þau í fullu gildi — og óskar eftir rökstuðningi stjórnanna fyrir ákvörðunum sínum, þ.e. hvernig stjórnirnar geti mögulega rökstutt að þeim tilmælum hafi verið fylgt sem og hinni almennu starfskjarastefnu ríkisins. Stjórnunum og Bankasýslunni er gefinn naumur tímafrestur til svara þannig að væntanlega er von á svari frá þeim fyrir lok þessarar viku.

Það er mjög mikilvægt að hið opinbera taki mjög fast á slíkum málum í sínum ranni. Það höfum við gert. Við höfum þegar lagt niður kjararáð, sem var önnur uppspretta eilífra átaka og deilna. Við erum að færa launafyrirkomulag æðstu embættismanna í gagnsæjan og fyrirsjáanlegri farveg og hið sama hlýtur að eiga að gilda um þau fyrirtæki og þær stofnanir sem ríkið ber ábyrgð á. Þátt fyrir að við gætum að þeim armslengdarsjónarmiðum sem við viljum gæta að, (Forseti hringir.) sérstaklega gagnvart svona starfsemi, hljótum við líka að gera þá kröfu að launastefnan sé (Forseti hringir.) í takt við stefnu stjórnvalda á hverjum tíma.