149. löggjafarþing — 67. fundur
 19. feb. 2019.
störf þingsins.

[13:31]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Í dag eru rúmir 38 sólarhringar þar til Bretar ganga úr Evrópusambandinu. Óhætt er að segja að bresk stjórnmál leiki á reiðiskjálfi þessa dagana og ekkert útlit er fyrir að samningar takist um útgönguna og því æ líklegra að Bretar gangi úr Evrópusambandinu án samnings. Deilur eru harðar innan breska Íhaldsflokksins en ekki síður Verkamannaflokksins. Þau tíðindi urðu í gær að sjö þingmenn gengu úr þeim flokki og boða stofnun nýs stjórnmálaflokks og gefa í skyn að fleiri þingmenn, bæði úr Verkamannaflokknum og Íhaldsflokknum, muni fylgja í kjölfarið.

Fyrir okkur sem fylgjumst með úr fjarlægð er rík ástæða til þess að hafa áhyggjur af þessari framvindu allri. Líkur á því að Ísland verði verr sett eftir útgönguna en fyrir aukast dag frá degi. Allt tal um mikil tækifæri fyrir okkur í samskiptum okkar við Breta verður æ hjákátlegra en um leið alvarlegra.

Þann 16. október á síðasta ári lagði ég þrjár spurningar fyrir hæstv. utanríkisráðherra með skriflegri fyrirspurn. Þeim hefur enn ekki verið svarað. Sex sinnum hefur verið óskað eftir fresti til að svara, síðast í gær. Spurningarnar snúast um réttindi Íslendinga í Bretlandi eftir Brexit. Það er ljóst að þau réttindi verða verri fyrir þá sem kjósa að sækja störf og nám eftir Brexit ef marka má stefnumörkun breskra stjórnvalda. Það er ef til vill þess vegna sem hæstv. utanríkisráðherra dregur svör sín. Hann á ef til vill erfitt með að sýna svart á hvítu að réttindi okkar Íslendinga í Bretlandi verða verri en þau eru í dag. Þar dregur úr tækifærunum, réttindi sem við njótum í dag hverfa við Brexit. Stjórnvöld hafa vissulega í samfloti við Norðmenn og Liechtenstein tryggt að nokkru leyti réttindi þeirra sem þegar eru fyrir í Bretlandi en alls ekki hinna. (Forseti hringir.) Hæstv. utanríkisráðherra ætti að sjá sóma sinn í að svara fyrirspurn minni sem er fimm mánaða gömul um þessar mundir.



[13:33]
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Í gær ræddi sóttvarnalæknir í kvöldfréttum Stöðvar 2 um bólusetningar við hlaupabólu. 5% íslenskra barna eru bólusett fyrir hlaupabólu og eitt barn lést á síðasta ári. Hann ræddi hvort taka ætti þessa bólusetningu inn í hina almennu bólusetningu.

Mér fannst umræðan áhugaverð og hvet hæstv. heilbrigðisráðherra til að skoða það. Vissulega fylgir þessu nýr kostnaður en með þessu er ekki aðeins mögulegt að komast hjá miklum veikindum og mögulega dauðsföllum, heldur gæti þetta einnig verið afar hagkvæmt, enda getur maður rétt ímyndað sér allan þann fjölda veikindadaga foreldra vegna hlaupabólu sem öll börn fá.

Hér liggur líka fyrir tillaga til þingsályktunar um skipan starfshóps er leggi til breytingar til að auka hlutfall bólusetninga barna. Fyrsti flutningsmaður hennar er Hildur Sverrisdóttir. Virðist af tillögunni sem allir flokkar styðji hana. Þar er sagt að Alþingi álykti að fela heilbrigðisráðherra að skipa starfshóp sem greini hvaða breytingar sé hægt að gera til að auka hlutfall bólusetninga barna og komi með tillögur þar um.

Í umræðum, eins og segir í greinargerð, hefur komið fram að hluti vandans sé ekki síst sá að það farist fyrir hjá foreldrum að láta bólusetja börn sín af andvaraleysi eða öðrum ástæðum frekar en vegna vísvitandi ákvarðana. Tillaga þessi er viðleitni til þess að gerðar verði úrbætur innan heilsugæslukerfisins til að tryggja að sem flestir ljúki öllum nauðsynlegum bólusetningum barna sinna með þeim hætti sem landlæknisembættið ráðleggur svo viðhalda megi hjarðónæmi.

Það væri afskaplega gott að þessi þingsályktunartillaga kæmist á dagskrá og yrði samþykkt af því að ég held að þetta sé afar mikilvægt, ekki bara fyrir okkur öll heldur börnin okkar líka. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[13:36]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Launakjör bankastjóra ríkisbankanna hafa verið mjög til umræðu hér á undanförnum dögum. Það væri óskandi að það væri stærsta vandamálið þegar kemur að innlenda bankakerfinu okkar. Á síðasta ári, þegar rýnt er í sundurliðuð uppgjör bankanna þriggja, greiddu einstaklingar 15 milljarða kr. í þóknanir til bankanna og hafa hækkað talsvert milli ára. Þessu til viðbótar má nefna að við greiðum um 5–6 milljarða kr. á ári í gengismun af erlendri kortaveltu okkar þar sem kortafyrirtækin taka 3–5% álag ofan á skráð gengi Seðlabankans hverju sinni vegna innkaupa okkar sem eiga sér stað erlendis.

Á sama tíma og rætt er hér fjálglega um tækifæri sem fylgja aukinni samkeppni vegna fjártækni höfum við ekki, eða innlenda bankakerfið, tekið þátt í „Single Euro Payments Area“, þ.e. að gjaldtaka, þóknanir, vegna millifærslna milli banka innan Evrópska efnahagssvæðisins sé eins og ef um innlendar millifærslur væri að ræða. Þetta er auðvitað verulegur þrándur í götu erlendrar samkeppni.

Allt ber þetta að sama brunni, herra forseti. Það er engin samkeppni á innlendum fjármálamarkaði. Ábyrgðin á því samkeppnisleysi liggur auðvitað að stórum hluta hjá eiganda stærsta hluta þess, þ.e. ríkinu sjálfu. Það er enginn þrýstingur af hálfu eigandans á að hér sé virk samkeppni á fjármálamarkaði. Fjármálakerfi sem er ekki samkeppnishæft á alþjóðavísu er byrði á því samfélagi sem það starfar í. Þetta fjármálakerfi er ósamkeppnishæft og allt of dýrt. Það er byrði á litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem ekki eiga kost á annarri fjármögnun. Það er byrði á íslenskum heimilum sem þurfa að rísa undir háum þóknanakröfum bankanna og háum fjármagnskostnaði. Það er orðið löngu tímabært að á þessu (Forseti hringir.) sé tekið, svo ekki sé nefnt það sem mestu máli skiptir í þessu sem er auðvitað kostnaðurinn sem af gjaldmiðlinum hlýst og verndin sem gjaldmiðillinn (Forseti hringir.) skapar þessu innlenda fjármálakerfi til þess að starfa án nokkurrar samkeppni.



[13:40]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Fyrir jól var kynntur til leiks viðskiptahraðallinn „Til sjávar og sveita“. Tilgangurinn er að styðja við nýsköpun í landbúnaði og sjávarútvegi, með áherslu á sjálfbærni. Verkefnið er ákaflega gott og mikilvægt fyrir okkur sem samfélag sem byggjum okkar lífskjör að miklu leyti á því að nýta auðlindir til sjós og lands. Nú á tímum sívaxandi sjálfvirknivæðingar í bæði landbúnaði og sjávarútvegi er mikilvægt að leggja grunn að verðmætasköpun framtíðarinnar, að nýsköpun, hugviti og sköpunargleði.

Lykilatriði er að slík vinna fari fram á forsendum sjálfbærni. Við þurfum grænan hagvöxt og fátt er hollara en heimafenginn baggi. Að hraðlinum kemur Icelandic Startups í samstarfi við Íslenska sjávarklasann ásamt IKEA, Matarauði Íslands, HB Granda og landbúnaðarklasanum. Þetta er því samvinnuverkefni einkaaðila og ríkisins.

Mér barst til eyrna kynning á verkefninu sem haldin var fyrir austan. Mér skilst að það hafi þurft allnokkurt átak til þess að fá yfir höfuð kynningu á verkefninu á Austurlandi sem er furðu líkast á tímum þegar við tölum um jafnan rétt borgaranna, óháð búsetu. Eins og oft áður var þar aðallega spurt um ferðakostnað, enda miklar vegalengdir. Á daginn kom að þrátt fyrir að ekkert kosti að taka þátt í verkefninu fyrir frumkvöðla er ekkert fjármagn eyrnamerkt ferðakostnaði. Fyrir þá hugmyndaríku frumkvöðla sem búa á Austurlandi þarf að hósta upp a.m.k. hálfri milljón í ferðakostnað í þær átta vikur sem hraðallinn tekur. Það þykir mér vera óþarflega há aðgangshindrun fyrir landshluta sem sárlega þarfnast aukinnar nýsköpunar og aukinna fjárfestinga í nýsköpun.

Nýlega er komið út hjá Byggðastofnun yfirlit yfir hagvöxt áranna 2008–2016, sundurgreint á landshluta. Þar kemur í ljós að Austurland hefur setið eftir í uppgangi síðustu ára. Þar er hagvöxtur neikvæður um 1%, þ.e. eftir að álversuppbyggingunni lauk hefur framleiðslan farið minnkandi í landshlutanum öllum meðan landið allt hefur vaxið um tíu af hundraði. Þar kemur inn mikilvægi verkefna eins og þessara og við getum ekki látið hjá líða að gera enn betur í þessum málum þannig að störf framtíðarinnar verði til úti um allt land.



[13:40]
Ásgerður K. Gylfadóttir (F):

Virðulegi forseti. Síðastliðinn föstudag var mjög áhugaverður kynningarfundur um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna haldinn á Grand Hótel í Reykjavík. Fundurinn var haldinn af Sambandi íslenskra sveitarfélaga í samstarfi við verkefnisstjórn heimsmarkmiðanna. Fundurinn var vel sóttur en honum var einnig streymt í gegnum vef sambandsins þannig að sveitarstjórnarmenn og starfsmenn sveitarfélaga um land allt gátu tekið þátt í vettvanginum.

Hæstv. forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir tók fram í setningarávarpi sínu að Efnahags- og framfarastofnunin OECD hefur gefið út að ekki verði hægt að ná 65% af 169 undirmarkmiðum heimsmarkmiðanna án virkrar aðkomu og þátttöku sveitarfélaganna. Sveitarfélögin eru því lykilaðilar í innleiðingu framkvæmdaáætlunarinnar um heimsmarkmiðin. Sum sveitarfélög eru farin af stað í innleiðingarvinnunni og tel ég líklegt að Kópavogur sé kominn einna lengst í vinnunni. Mjög áhugavert og fræðandi var að fá kynningu frá þeim. Það var mjög ánægjulegt að finna þann áhuga og kraft sem kom fram á fundinum og hve margvísleg og góð verkefni er verið að vinna í sveitarfélögum landsins og í samstarfi sveitarfélaga.

Heimsmarkmiðin eru framkvæmdaáætlun í þágu mannkyns, jarðarinnar og hagsældar. Þau eru verkefni okkar hvers og eins sem einstaklinga og jafnframt samfélaganna sem við búum í.

Ágætu alþingismenn. Ég hvet ykkur til að fara inn á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga, finna ykkur erindin sem voru flutt á fundinum, taka svo þátt í þeirri vinnu sem fram undan er jafnt sem íbúar í samfélagi og kjörnir fulltrúar á Alþingi.



[13:42]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er hollt fyrir alla stjórnmálamenn að setjast öðru hverju niður, sérstaklega ef þeir detta tímabundið út af þingi, til að átta sig á því til hvers þeir starfa í stjórnmálum. Hver eru markmiðin? Hvað á maður ógert? Hvað er það sem maður brennur fyrir að breyta á Íslandi?

Eitt af því sem ég brenn fyrir er það stóra sameiginlega verkefni okkar stjórnmálanna, atvinnulífsins og samfélagsins alls að auka samkeppnishæfni Íslands. Af hverju ættum við að vilja það? Vegna þess að með því styrkjum við hagkerfi Íslands. Við aukum stöðugleika og verðmætasköpun sem leiðir af sér aukin lífsgæði fyrir alla borgara í landinu. Atvinnulífið okkar verður fjölbreyttara. Allt þetta samanlagt leiðir til þess að ungt fólk sem er að velja sér hvar í heiminum það ætlar að búa er líklegra til að velja sér búsetustað á Íslandi. Það viljum við að sjálfsögðu styðja við.

Hvernig í ósköpunum aukum við samkeppnishæfni Íslands? Við gerum það með umbótum í menntakerfinu, með því að tryggja að menntakerfið hlusti á það hvað atvinnulífið vantar, með því að styðja iðnnám og með því að fjölga tækifærum fyrir ungt fólk til að taka sér sæti á skólabekk, m.a. í háskóla, eins og ágætt frumvarp hv. þm. Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur leiðir til. Þetta er mikilvægt. Það er mikilvægt að öll börn í landinu fái jöfn tækifæri til að mennta sig.

Við þurfum að búa nýsköpun og nýsköpunarfyrirtækjum umhverfi á heimsmælikvarða. Við þurfum að standa að uppbyggingu innviða og bæta starfsskilyrði fyrirtækja þannig að ekki verði of flókið fyrir fyrirtækin að velja sér búsetustað á Íslandi. Stöðugleiki er mikilvægur til þess að við getum aukið samkeppnishæfni Íslands og það er akkúrat það sem sú ríkisstjórn sem hér starfar býður upp á. Ég fagna því að fá að taka þátt í þeirri vegferð sem ríkisstjórnin er á.



[13:44]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Hv. þm. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir gerði hlaupabólu og bólusetningu gegn henni að umræðuefni. Mig langar að nota þennan vettvang til að segja að í svari hæstv. heilbrigðisráðherra við skriflegri fyrirspurn minni til munnlegs svars kom fram að þetta mál væri núna til jákvæðrar skoðunar innan ráðuneytisins og að kostnaðargreining á því benti til þess að það yrði mjög hagkvæmt fyrir íslenskt samfélag. Ég held því að við getum vænst þess að eitthvað muni gerast í þessum málum nú á næstunni. Ég held að það sé mjög jákvætt.

Það var annars ekki þetta mál sem varð þess valdandi að ég kveð mér hljóðs hér, heldur langar mig að vekja athygli á þingmáli sem er nr. 14 á dagskránni í dag, sem fjallar um samning Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum. Ég hef áður gert að umræðuefni hér í ræðustóli kjarnorkuvopn og kjarnorkuvopnakapphlaup og mikilvægi þess að kjarnorkuvopn verði bönnuð með alþjóðasáttmálum. Það skiptir máli að við tölum um þessi mál og við vekjum okkur sjálf, almenning og aðra jarðarbúa til meðvitundar um þessi mál.

Ég fagna því sérstaklega að hæstv. forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir hafi tekið þessi mál upp á fundi sínum með Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Nú hafa 25 sitjandi þingmenn undirritað einhvers konar áskorun eða loforð um að veita þessum samningi brautargengi og ég vona svo sannarlega að þessir þingmenn helli sér í umræðuna um þetta gríðarlega mikilvæga þingmál þegar líða fer á daginn.



[13:47]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Hæstv. forseti. Ég veit að hæstv. forseti getur verið mér sammála um að kjördæmavikur eru eitt það skemmtilegasta sem gerist í lífi og starfi þingmanna. Þá gefst okkur tækifæri til að fara víða og það gerðum við, þingmenn Viðreisnar, og finna hvað brennur á fólki vítt og breitt um landið. Auðvitað eru mismunandi viðhorf, umhverfið er mismunandi og aðstæður líka. Þá er náttúrlega hlutverk okkar að reyna að horfast í augu við raunveruleikann á hverjum stað fyrir sig og velta því fyrir okkur hvernig við getum gert betur. Þvert yfir alla flokka vilja allir gera betur og það er líka eitt það góða, sem við megum alveg draga fram, að oftar en ekki er gott samstarf þvert á flokka um hagsmuni allra landsmanna.

Við fórum m.a. á Suðurnesin og vorum lengi í Reykjanesbæ. Við tókum hús á lögreglunni þar sem farið var yfir mjög breytt umhverfi — því er stjórnað með sóma en umhverfið er gjörbreytt þar — og eins var hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Bæði þessi embætti standa frammi fyrir gjörbreyttu umhverfi, og fólkið sem býr þar en ekki síður þeir sem starfa þar. Það er 25% fjölgun á síðustu árum á Suðurnesjunum. Þetta er orðið fjórða stærsta sveitarfélag landsins en því miður hafa stjórnvöld, hver sem þau eru hverju sinni, nú þessi ríkisstjórn, ekki horfst í augu við það breytta umhverfi og það álag sem fylgir ekki síst inn á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Við heyrðum í bæjarstjóranum og fulltrúa bæjaryfirvalda og það var einróma — það eru mismunandi áherslur, mismunandi hagsmunir á milli bæja og sveitarfélaga — stuðningur við að halda betur utan um Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, styðja hana á þann veg að stofnunin geti staðið undir þessari breyttu mynd, 25% fjölgun eins og ég gat um. Ekki er verið að sýna það af hálfu stjórnvalda þegar kemur að stuðningi. (Forseti hringir.) Ég hvet heilbrigðisyfirvöld sérstaklega til þess að skoða aðstæður á Suðurnesjum, í Reykjanesbæ. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[13:49]
Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að verja þessum stutta tíma í störfum þingsins til þess að tala um verkalýðsbaráttuna, til að tala um það grafalvarlega ástand sem við horfumst nú í augu við í samfélaginu í dag. Á fimmtudaginn kemur í ljós til hvaða aðgerða verður gripið. Ég hafði samband við ágætan kunningja, Vilhjálm Birgisson, 1. varaforseta Alþýðusambandsins, núna rétt áður en ég kom upp í störfum þingsins. Ég vísa beint í það sem haft var eftir honum í fjölmiðlum: Staðan var alvarleg þá, en drottinn minn dýri, hún er alvarleg núna, segir Vilhjálmur Birgisson. Hann gekk út af fundi með ríkisstjórninni og aðilum vinnumarkaðarins í Stjórnarráðinu nú í hádeginu. Hvers vegna?

Það er með ólíkindum ef það er virkilega þannig núna … Ég ætla að vísa meira í Vilhjálm. Hann spyr: Hvar eru þingmenn Vinstri grænna, sérstaklega í ljósi þess að krafa verkalýðshreyfingarinnar í komandi kjarasamningum er nákvæmlega sú sama og frumvarp þingmanna Vinstri grænna hljóðaði upp á hér fyrir nokkrum árum síðan? Það er að lágmarkslaun dugi fyrir framfærsluviðmiðum sem velferðarráðuneytið hefur gefið þannig að fólk geti framfleytt sér frá mánuði til mánaðar og haldið mannlegri reisn.

Það er sorglegt að sjá hvernig þingflokkur og ráðherrar Vinstri grænna breiða nú sængina upp fyrir haus í ljósi þess að nú hafa þeir raunverulegt tækifæri, hæstv. forseti, til að standa með íslensku verkafólki.

Virðulegi forseti. Það er nú eiginlega kominn tími til að nudda glýjuna úr augunum og koma með raunverulegar aðgerðir til stuðnings við það sem koma skal, því að það er ekki eins og að það sem við erum að horfast í augu við núna sé alveg spánnýtt. Það er búið að eiga sér aðdraganda. Við höfum vitað það í marga mánuði. Það eina sem verið er að kalla eftir er lágmarksréttlæti. Það eina sem þessi ríkisstjórn er beðin um er: Hættið að skattleggja fátækt. Því að það er nákvæmlega það sem hér er verið að gera og virðist enga bragarbót eiga að gera á í þeim efnum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[13:52]
Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég geri enn að umtalsefni málefni innflytjenda, flóttafólks, farenda, nýrra Íslendinga eða hvaða nafn við viljum gefa þeim stóra hópi fólks sem til Íslands leitar eftir búsetu um lengri eða skemmri tíma. Langflestir flytja hingað af fúsum og frjálsum vilja, margir úr mjög erfiðum aðstæðum. Það eru um 250 milljónir manna á faraldsfæti í heiminum, einstaklingar sem eru að leita sér að tryggu viðurværi og öruggari framtíð fyrir sig og börn sín. Hvati þessa getur verið af ýmsum toga, efnahagslegur, veðurfarslegur eða að óöld ríki í nærsamfélögunum. Mörg Vesturlanda geta ekki þvegið hendur sínar af þeirri ábyrgð sem þau bera af slæmu ástandi víða í heimalöndum farandfólks og því ber okkur að sýna skilning og umburðarlyndi og leggjast á árarnar með uppbyggilegum hætti.

Gerum við það? Nei, við sláum úr og í og raddir sem ala á tortryggni og ótta gera sig gildandi. Eigum við markvissa stefnu um það hvernig við tökum á móti aðkomufólki sem vill setjast hér að? Nei, það er allt í skötulíki, hvort sem um er að ræða börn, nemendur eða vinnandi fólk.

Hér búa nú yfir 44.000 einstaklingar með erlent ríkisfang frá um 170 þjóðlöndum. Fjögurra ára framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda er útrunnin. Fjármunir í áætlunina liggja að mestu ónotaðir í skúffu ráðherra. Fjölmenningarsetur býr við viðvarandi fjársvelti og megnar ekki, þrátt fyrir góðan ásetning, þekkingu og reynslu, að sinna verkefnum sínum eins og þarf. Og nú er það nýjasta nýtt, þingsályktunartillaga um að stofna þjónustuver fyrir innflytjendur hér á suðvesturhorninu. Engin stefna.

Herra forseti. Er ekki mál til komið að þingið taki á sig rögg, setji sér langtímamarkmið, vinni að umgjörð og stefnu í innflytjendamálum? Það viljum við í Samfylkingunni.



[13:54]
Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er tekið sérstaklega á vinnumarkaðnum og mikilvægi þess að sátt ríki á vinnumarkaði. Þar eru listuð markmið ríkisstjórnarinnar er lúta að t.d. keðjuábyrgð, kynbundnum launamun, félagslegu undirboði og ýmsu fleira. Vilji meiri hlutans er nefnilega alveg skýr í þessum efnum. Margt hefur nú þegar verið gert, til að mynda hækkun barnabóta til þeirra sem lægst hafa launin og annað er í farvatninu. Ríkisstjórnin sem situr í umboði Alþingis hefur sagt skýrt að svigrúm til skattalækkana verði nýtt til handa þeim sem lægst hafa launin.

Virðulegur forseti. Nú stendur yfir alvarleg deila á vinnumarkaði. Það eru tveir aðilar sem deila, annars vegar verkalýðshreyfingin og hins vegar atvinnulífið. Ríkisvaldið er ekki við samningaborðið þrátt fyrir yfirlýstan samstarfsvilja.

Virðulegur forseti. Það gengur ekki að Alþingi, okkur hér 63 þjóðkjörnum fulltrúum sem eigum eingöngu að fylgja lögum og okkar sannfæringu, sé hótað. Það er hroki.



[13:55]
Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Undanfarna daga hefur verið rætt mjög um kjör bankastjóra Landsbankans. Það vill svo til að nú í morgun birtist frétt á mbl.is þar sem bankaráð Landsbankans segir að laun bankastjóra bankans séu að mati þess í samræmi við eigendastefnu ríkisins þar sem fram kemur að starfskjarastefna bankans skuli vera samkeppnishæf en hófleg og ekki leiðandi. Bankaráðið telur sem sagt að þær 4 milljónir sem bankastjórinn hefur í laun séu hófleg laun.

Við þessa yfirlýsingu bankaráðsins vaknar ein spurning mín til þess: Hvar er línan þar sem óhófið byrjar? Ég held að það væri mjög fróðlegt fyrir alla ef bankaráð Landsbanka Íslands myndi birta upplýsingar um hvað er óhóflegt að mati þess.

Það hefur komið fram að á árunum 2009–2017 voru laun bankastjóra Landsbankans lægri en annarra viðskiptabanka vegna þess að bankinn var í eigu ríkisins. Það hefur líka komið fram að þegar Íslandsbanki fór í hendur ríkisins lækkuðu laun þess bankastjóra sem þar starfaði ekki, heldur voru þau viðmiðun til að hægt væri að hækka laun bankastjóra Landsbankans. Nú tek ég skýrt fram að ég er ekki að tala um persónur og leikendur, ég er bara að tala um embættið eða starfið, og mér þykir satt að segja furðulegt að þarna erum við að tala um fyrirtæki sem er að 98% í eigu ríkisins. Það er kannski hugmynd fyrir þá sem skipa þetta bankaráð að koma málum þannig fyrir að þjóðin geti sagt álit sitt á störfum þess á sirka fjögurra ára fresti og kosið bankaráðið beinni kosningu. Eins og er núna hafa kjörnir fulltrúar í þessu landi engan aðgang og ekkert aðgengi og enga aðkomu að neinum þeim ráðstöfunum eða ákvörðunum sem teknar eru í þessum banka (Forseti hringir.) sem ríkið eða þjóðin á þó 98,3% í. Það er umhugsunarefni.



[13:58]
Álfheiður Eymarsdóttir (P):

Herra forseti. Nú hefur neyðarástand ríkt í húsnæðismálum um nokkurra ára skeið. Það sem hefur verið gert af hinu opinbera er of lítið og of seint. Markaðurinn hefur heldur ekki leyst vandann enda: Hver ákvað að markaðurinn ætti alfarið að sjá um og leysa húsnæðismálin? Líklega sama mannvitsbrekkan og ákvað að landbúnaður og sjávarútvegur yrði undanþeginn öllum markaðslögmálum.

Við vitum af börnum, eldri borgurum, öryrkjum og innflytjendum í iðnaðarhúsnæði, bílskúrum, geymslum og hanabjálkum. Okkur er alveg frjálst að hafa þær stjórnmálaskoðanir að hver sé sinnar gæfu smiður. Ég er þeirra á meðal. En frumskylda ríkisins er að hjálpa þeim sem ekki geta hjálpað sér sjálfir. Þar á meðal eru einmitt börn og öryrkjar. Húsnæði er ekki lúxus heldur grunnþörf líkt og matur og vatn.

Húsnæðisskorti hér heima má því líkja við brauðraðirnar í Sovét forðum. Ef þetta er ekki leyst fljótt og vel er bara tímaspursmál hvenær hjólhýsahverfin og pappakassaborgirnar farið að rísa. Eftir Vestmannaeyjagosið árið 1973 voru flutt inn rúmlega 500 einingahús og byggð á um 20 stöðum á landinu. Við þekkjum öll viðlagasjóðshúsin og meiri hluti þeirra er enn í notkun 45 árum seinna, fín hús. Því legg ég til að hafist verði handa, nú þegar, við byggingu hagkvæmra einingahúsa í anda Viðlagasjóðs forðum til að leysa þennan vanda því þetta er til háborinnar skammar.



[14:00]
Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Herra forseti. Í september síðastliðnum fór fram umræða í þingsal um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í tannréttingum þeirra sem fæðast með klofinn góm eða vör og var þá fyrirspurn beint til hæstv. heilbrigðisráðherra. Í svörum hans kom fram að álitamál væri hvernig túlka ætti reglugerð. Hæstv. ráðherra ítrekaði að fara ætti í vinnu innan ráðuneytisins til að skýra stöðu þeirra barna sem um ræðir, með öðrum orðum koma í veg fyrir að börnin og foreldrar þeirra yrðu sett í svona ójafna stöðu.

Til að gera langa sögu stutta sendu foreldrar umsókn um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga nú í febrúar þar sem búið var að breyta orðalagi reglugerðarinnar. Umsókninni var synjað á þeim grundvelli að ekki væri unnt að meta hversu alvarlegur talvandi barnsins yrði. Því sama var haldið fram áður og þess vegna má draga þá ályktun að ekkert hafi breyst. Er verið að afgreiða umsóknir á grundvelli óbreyttrar reglugerðar þrátt fyrir skýrara orðalag? Er verið að hunsa góðan vilja hæstv. ráðherra? Hvað er um að vera?



[14:01]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Á fundi umhverfis- og samgöngunefndar í morgun var beðið um að fundir nefndarinnar yrðu lengri og fundum yrði fjölgað. Ég lagði fram bókun um þá beiðni sem hljómar að hluta til svona, með leyfi forseta:

Lenging fundartíma og fjölgun funda hefur gríðarlega mismikil áhrif á nefndarmenn og önnur þingstörf þeirra. Þörfin fyrir lengingu nefndafunda og fjölgun funda fellur að mínu mati algerlega á skipulagsleysi nefndastarfa af hálfu fyrri stjórnar nefndarinnar og skipulagsleysi þess hvernig stjórnarmeirihlutinn afgreiddi samgönguáætlun. Samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar tók nefnilega nær allan tíma nefndarinnar á liðnu haustþingi og meira að segja hluta af störfum núverandi vorþings. Það varð niðurstaðan að leggja þarf fram nýja samgönguáætlun í haust. Það er svo sem skiljanlegt að nefndin taki sér góðan tíma í jafn mikilvæga áætlun, alla jafna, en sú áætlun sem við enduðum með hefði alls ekki átt að taka svona mikinn tíma.

Að lengja og fjölga fundum hefur mismikil áhrif á nefndarmenn. Ég hef t.d. mætti á 65 nefndarfundi það sem af er þessu þingi, en formaður nefndarinnar hefur mætt á 25. Þingmenn þurfa að sinna fjölmörgum störfum og skipulagning vinnunnar miðast við nefndastörfin og þingfundi. Allur undirbúningur fer fram utan þess tíma sem nefndafundir eru og mjög oft utan þess tíma sem þingfundir eru, þar sem fylgja þarf málum eftir á þingfundi.

Þess má geta að ansi langur tími fór í að ræða forsendur þess að það þyrfti að lengja fundi og fjölga þeim. Hluti rökstuðningsins fyrir því var sá að ríkisstjórnarmál sem lægju fyrir nefndinni væru svo mörg eða að það væru svo mörg mál á þingmálaskrá. Það var því mjög kaldhæðnislegt að næsta mál á dagskrá var þingmannamál formannsins. Ég hef ekkert á móti afgreiðslu þingmannamála en ekki er á sama tíma hægt að biðja um meiri tíma til að afgreiða ríkisstjórnarmál og horfa svo upp á formann eyða tíma í sitt eigið mál.