149. löggjafarþing — 67. fundur
 19. feb. 2019.
fullgilding á uppfærðum fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Tyrklands, síðari umræða.
stjtill., 499. mál. — Þskj. 820, nál. 934.

[15:19]
Frsm. utanrmn. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu á uppfærðum fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Tyrklands.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kristin F. Árnason, Katrínu Einarsdóttur og Davíð Loga Sigurðsson frá utanríkisráðuneyti.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á uppfærðum fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Tyrklands sem undirritaður var á Sauðárkróki 25. júní 2018.

EFTA-ríkin og Tyrkland gerðu fríverslunarsamning árið 1992. Í greinargerð með tillögunni kemur fram að helstu viðbætur og breytingar sem felast í uppfærslu samningsins eru þær að formálsorðum hefur verið breytt að mestu, samningurinn nær nú til þjónustuviðskipta, viðskipta og sjálfbærrar þróunar og lausnar deilumála auk þess sem ákvæði um hugverkaréttindi hafa verið uppfærð. Það eru þættir sem jafnan eru hafðir inni í þeim samningum sem EFTA gerir nú til dags.

Þá kemur fram í greinargerðinni að ákvæðum um mannréttindi, sjálfbæra þróun og umhverfismál sé bætt við fríverslunarsamninginn við Tyrkland. Það sé í samræmi við utanríkisstefnu EFTA-ríkjanna að fullgilda viðskiptasamninga við ríki þrátt fyrir að samningsaðilar séu ósammála í ýmsum öðrum málum, eins og m.a. á sviði mannréttindamála. Framkvæmdin hefur verið hin sama í hinum EFTA-ríkjunum, þ.e. að gagnrýni á stöðu mannréttindamála hefur hingað til ekki komið í veg fyrir að fríverslunarsamningar séu gerðir og fullgiltir. Litið er svo á að almennt verði gagnrýni vegna stöðu mannréttindamála haldið uppi á vettvangi stofnana Sameinuðu þjóðanna fremur en á vettvangi EFTA. Að auki má færa rök fyrir því að frjáls viðskipti milli ríkja geti stuðlað að úrbótum í lýðræðis- og mannréttindamálum. — Þetta fékk töluverða umfjöllun í nefndinni, mikilvægi þess að ítreka hversu mikilvægt það er að standa að úrbótum í mannréttindamálum í Tyrklandi.

Loks kemur fram að útflutningur frá Íslandi til Tyrklands, aðallega sjávarafurðir, vélar, húðir og skinn, nam 2,1 milljarði kr. árið 2017. Innflutningur frá Tyrklandi hefur sveiflast mikið milli ára og farið eftir því hvort Tyrkir hafi smíðað skip fyrir Íslendinga á viðkomandi ári. Andvirði innflutningsins hefur þannig sveiflast frá 2,4 milljörðum kr. árið 2010 í 24,4 milljarða árið 2017. Auk véla og samgöngutækja eru fluttar inn ýmsar vörur frá Tyrklandi, t.d. hráefni og matvæli. Útflutningur á sviði þjónustuviðskipta til Tyrklands nam 434 millj. kr. árið 2017 en innflutningur 698 millj. kr.

Þorgerður K. Gunnarsdóttir skrifar undir nefndarálit þetta með fyrirvara sem lýtur að stöðu mannréttindamála í Tyrklandi og því að heildarendurskoðunar sé þörf með mannréttindi í huga þegar fríverslunarsamningar eru gerðir fyrir Íslands hönd.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt og undir það rita sú sem hér stendur, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Ásgerður, K. Gylfadóttir, Bryndís Haraldsdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Logi Einarsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Smári McCarthy og Þorgerður K. Gunnarsdóttir, sem fyrr sagði, með fyrirvara.



[15:23]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur fyrir styrka stjórn í nefndinni almennt þar sem mikill agi er á hlutum, en líka skilningur á því að fólk þarf að tjá sig og ræða og fara yfir mál. Ég vil nota tækifærið og nefna, þótt það sé kannski óskylt utanríkismálum, að því verði beint til formanna annarra nefnda að taka m.a. þingmannamál fyrir, ekki bara stjórnarmál. Það fer síðan eftir nefnd og síðan í sal hvort þau verða afgreidd. En það minnsta sem hægt er að gera er að formenn starfi af virðingu gagnvart öðrum nefndarmönnum, eins og hv. formaður núverandi utanríkismálanefndar. Ekki alltaf að þeir séu sammála en þar er unnið vel.

Varðandi þetta mál eyddum við einmitt dágóðum tíma í að fara yfir það, því að segjast verður eins og er að frá því að EFTA-ríkin gerðu á sínum tíma fríverslunarsamning við Tyrkland árið 1992, að mig minnir, er ýmislegt náttúrlega búið að gerast. Og líka varðandi þróun mála í Tyrklandi. Ég vil meina, og það er mín skoðun, að þróun mannréttindamála í Tyrklandi hafi ekki batnað á þeim tíma. Það hefur ekki horft til framfara þegar kemur að opnu, gegnsæju, frjálsu lýðræðisríki, þvert á móti hefur staða mála orðið snúnari fyrir lýðræðisöfl, fyrir dómstóla, fyrir kennara í Tyrklandi, fyrir opinbera starfsmenn sem og ýmsa aðra vegna þeirrar stjórnar sem þar er.

Þess vegna skrifa ég undir álitið með fyrirvara hvað varðar stöðu mannréttindamála en ég er ekki á móti því að samningurinn verði samþykktur. Ég vil draga það fram að ég tel einmitt að leiðin til að koma þjóðum út úr ólýðræðislegum farvegi sé að tala við þær, ekki að einangra þær, frjáls viðskipti séu, verslun, þjónusta og frjáls flutningur. Ég held einmitt að meiri samskipti, frelsið, stuðli að lýðræðislegu frelsi, að mannréttindi verði frekar virt, að þjóðir geti ekki einangrað sig, lokað sig frá umheiminum haldandi það að hið sjáandi auga annars staðar frá komi ekki auga á þau mannréttindabrot sem eru innan landsteina þeirra.

Það er ekki spurning að fríverslunarsamningar, þó að ég telji náttúrlega ekki spurningu að hagfelldara sé fyrir ríki heimsins að vera meira í bandalögum, hvort sem við ræðum um Evrópusambandið eða aðrar þjóðir, þá sýnir það sig að aukin samskipti á sviði verslunar, viðskipta, líka varnarmála, öll slík skref hafa leitt af sér aukin mannréttindi, frelsi o.s.frv.

Við sjáum það líka — svo að ég haldi áfram og reyni að halda þræðinum hér — að síðan við gerðum þennan fríverslunarsamning 1992 við EFTA hafa orðið breytingar. En eins og ég segi, ekki í átt til aukinna mannréttinda, síður en svo. Þá var líka sett klásúla, sem hefur verið viðhaldið, um mannréttindamál. Hverju hefur það skilað? Hefur á fastafundum EFTA — ég spurði að því og fleiri innan nefndarinnar — verið farið yfir samninginn á samningstímanum? Hefur verið minnst á mannréttindamál? Nei, það hefur ekki verið gert. Það virðist vera til þess að friðþægja alla. Það eru bara setningar um mannréttindamál settar inn til að passa upp á það að við viljum stuðla að og hjálpa til við að efla mannréttindi sem mest, hvort sem er í Tyrklandi eða annars staðar. Slíkt er bara sett inn og lítið annað gert með það.

Þess vegna vil ég á árinu 2019 spyrja hvort við ættum ekki að innleiða önnur vinnubrögð, alla vega ræða að innleiða önnur vinnubrögð inn í fríverslunarsamninga, hvort sem það er við Tyrkland, Filippseyjar eða þau ríki sem eru ekki endilega mjög til fyrirmyndar varðandi stjórnarhætti í dag. Hvernig getum við stuðlað að því? Það hefur sýnt sig að við höfum rödd þegar kemur að því að tala fyrir lýðræði, berjast fyrir lýðræði og mannréttindum. Hvað getum við þá gert í þessu? Erum við það ofurseld þeim viðskiptahagsmunum sem hlut eiga að máli að við getum ekkert gert annað?

Ég ætla að vona að svo verði seint, að við látum bara samskipti við aðrar þjóðir litast af því hvaða viðskipti við höfum hverju sinni, þ.e. inn- og útflutningstekjur af samskiptum við þjóðirnar. Af því að það skiptir máli upp á hagsæld, velsæld, og farsæld þjóða að lýðræði sé sem mest. Þess vegna eigum við að nota öll tækifæri og það skilar sér síðan í viðskiptum. Það vita allir sem hafa fylgst með þróun mála á umliðnum árum og áratugum, að opnir markaðir og frelsi stuðlar að aukinni hagsæld einstaklinga, fólks og fyrirtækja. Þess vegna vil ég draga það fram.

Ég óska eftir því að utanríkisráðuneytið eigi þetta samtal við okkur, m.a. í nefndinni, hvernig við getum lagt aukna áherslu á mannréttindi. Við erum að gera það víða með ágætum á sumum stöðum, en mættum vera aktífari eða virkari á öðrum. Við höfum þessa rödd og við eigum að nýta okkur hana. Þess vegna vil ég sjá aðeins aðra nálgun, a.m.k. rædda, það er alla vega fyrsta skrefið þegar kemur að fríverslunarsamningum. Fyrir utan það að ég tel það mikilvægt.

Þetta er gert á forsendum EFTA-ríkjanna. Þar komum við inn með öðrum hætti, en það stendur hugsanlega til að fara í einhvers konar viðskiptasamning við önnur ríki, Bandaríkin Er ekki ástæða til að ræða ýmis mál? Vinur er sá sem til vamms segir. Og það er allt í lagi að ræða þau mál sem snerta mannréttindi, hvort sem það er í Bandaríkjunum eða við aðrar okkar vina- og bandalagsþjóðir í gegnum tíðina. Felst það í því að við ætlum ekki að halda áfram vestrænni samvinnu? Nei, það styrkir samvinnuna, styrkir lýðræðishugsjónina, að við getum talað opinskátt hvert við annað, þjóðir á milli þjóða, ekki síst sem hafa áratugalanga sögu í þá veru að hafa byggt upp frið og farsæld í Evrópu og á norðurhveli jarðar. Það á enginn að vera hræddur við það.

Fyrst við erum að tala um Bandaríkin vil ég undirstrika, af því að ég átti í orðaskiptum við forsætisráðherra hér í gær, að eitt er að hafa samráð við nefndina — og mér fannst hún vilja það þó að hægt sé að gagnrýna utanríkisráðherra fyrir ekki skýra stefnu hvað samráð varðar, svolítið dyntótt eftir því hvaða mál eru uppi á borðum hverju sinni. Það sem mér finnst ekki síður skipta máli, m.a. með áherslu á mannréttindaþáttinn, er að þegar við förum í svona víðtæka samninga sem geta haft áhrif á stöðu þjóðarinnar, bæði viðskiptalega en ekki síður varnarlega, hvernig litið sé á okkur sem þjóð, að við séum talsmenn mannréttinda o.s.frv. Og þá skiptir máli að byggt sé upp samráðsferli og að samningsviðmið séu ekki ákveðin eingöngu innan ráðuneytanna heldur sé reynt að koma með þau inn í þingið og láta þingið allt vinna saman að því undir forystu utanríkismálanefndar. Það er ekki bara út af því að ég hef mikið traust á forystumönnum nefndarinnar, heldur held ég einfaldlega að þingið geti gert ýmislegt þegar að svona hlutum kemur; að móta samningsmarkmið, reyna að finna sameiginlegan þráð sem tengist hagsmunum íslensku þjóðarinnar í fríverslunarsamningum eða annars konar samningum, hvort sem þeir eru viðskiptalegs eðlis, varnarlegs eðlis eða annars konar. Mér finnst mikilvægt og ítreka það að ekki verði bara samráð, stundum eins og punt en stundum aðeins meira.

Þegar verið er að skrifa og vinna að samningum verðum við að móta sameiginlega samningsmarkmið okkar. Það var reynt á sínum tíma og ég benti á það í því umdeilda máli þegar farið var út í að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Skoðanir voru skiptar í þinginu en sú ríkisstjórn sem var þá, 2009–2013, lagði upp í það ferli að utanríkismálanefnd var dregin mjög inn í málið og allir flokkar sem voru í nefndinni gátu sett fram skoðanir sínar og það var reynt að finna okkar sameiginlegu viðmið, hvernig hagsmunagæslu þjóðarinnar væri best mætt og gætt í slíkum samningaviðræðum. Þannig vil ég að fleiri mál verði unnin, þar með taldir fríverslunarsamningar.

Í þessu máli varðandi uppfærsluna á fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Tyrklands, er ég samþykk því að hann verði fullgiltur, uppfærður, en ég bið þingheim og utanríkismálanefnd ekki síst, að huga að því hvernig við getum komið mannréttindamálum betur á framfæri. Við eigum ekki að nota sömu vinnubrögðin og 1992, hvað þá 1952, þegar kemur að gerð samninga. Reynum að uppfæra okkur í þessum efnum líka. En að öðru leyti var vinnan í nefndinni ljómandi góð og ég styð málið með þessum fyrirvara.



[15:33]
Frsm. utanrmn. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir hrós varðandi stjórnun nefndarinnar. Mig langaði aðeins að velta því upp að staðan er auðvitað ekki góð í Tyrklandi, hún hefur versnað mikið upp á síðkastið en þegar litið er til baka til 1992 þá hefur margt gerst, þegar horft er yfir langan tíma er þróunin auðvitað stundum upp og niður. En með þessu er í fyrsta skipti mannréttindaákvæði í samningnum sem var ekki í fyrri samningi og það leiðir kannski og vonandi til þess að það verði hægt að ræða mannréttindi á þessum vettvangi í auknum mæli. Við það má binda ákveðnar vonir um nýrri tíma. Íslensk stjórnvöld hafa ítrekað komið áhyggjum sínum á framfæri og gagnrýnt framferði tyrkneskra stjórnvalda og þetta er mikilvæg viðbót við þá gagnrýni sem uppi hefur verið á tyrknesk stjórnvöld vegna ýmissa þátta, hvort sem það er fjölmiðlafrelsi, sjálfstæði dómstóla eða aðför að mannréttindafrömuðum. Hér bætist við ákveðið mannréttindaákvæði sem ekki er í fyrri samningi og vonandi stuðlar það að því að hægt sé að ræða mannréttindamál í auknum mæli á þessum vettvangi.

Að auki þá var, eins og hv. þingmaður kom inn á, mikil og góð umræða um þessi mál í nefndinni og ég vonast til að það verði áfram. Á morgun kemur hæstv. ráðherra á fund nefndarinnar til að ræða komandi fundalotu Íslands í mannréttindaráðinu og það verði framhald á þessu samtali hvar við gagnrýnum og finnum að ákveðnum mannréttindamálum í heiminum. Með þessum samningi verður mögulega hægt að ræða mannréttindi á nýjum vettvangi þar sem það er nýtt ákvæði í samningnum.



[15:35]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla líka að minna hv. þingmann og formann nefndarinnar á að það voru óskir um að ráðherra myndi gefa sér tíma til að fara líka yfir samningsmarkmiðin vegna Brexit. Ég hef m.a. óskað eftir því af því að það hefur ekki alveg verið skýrt hver samningsmarkmiðin varðandi Brexit eru. Við erum með ákveðnar upplýsingar í nefndinni sem við þurfum að fara betur yfir með ráðherra. Ég vil líka benda hv. formanni nefndarinnar á að það var einnig, af minni hálfu, óskað eftir því að ráðherra færi yfir fundinn með Pompeo sem hann átti um daginn. Það skiptir máli, sér í lagi þegar talað er um viðskiptalega hagsmuni en líka öryggishagsmuni eins og kom fram í máli Pompeos, þá þýðir það eitthvað meira en bara þessi orð. Þetta þýðir auðvitað hugsanleg aukin hernaðarumsvif, m.a. vegna aukinna umsvifa Kínverja og Rússa hér og þetta eru hlutir sem við þurfum að fá að fara yfir með ráðherra, hvað er í pípunum. Það á ekki að koma neinum á óvart.

Síðan segi ég bara guð láti gott á vita ef við ætlum að taka þessi mál fastari tökum með því að færa betur inn mannréttindamálin og nálgast þau formlegar í þessum samningi. Við sem höfum verið að fylgjast með þróun alþjóðamála, eins og ég og hv. þingmaður og fleiri, sjáum að það eru hefðbundin vinnubrögð í gangi varðandi fríverslunarsamninga, varðandi samskipti á milli þjóða. Það sem ég kalla eftir er að við spyrjum: Er ekki kominn tími fyrir okkur að staldra við og nálgast mannréttindamálin með öðrum hætti? Getum við notað viðskiptamálin til að setja enn meiri þrýsting á ríki heims eða sem hvata fyrir ríki til að sinna mannréttindamálum betur og vera eðlilegur þátttakandi í alþjóðasamfélaginu sem frjáls lýðræðisþjóð? Tyrkland getur þetta alveg, hefur alla burði til þess en þróun síðustu ára er því miður dapurleg.



[15:38]
Frsm. utanrmn. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar bara rétt að koma hérna upp til að kynna hv. þingmanni það að orðið verður við báðum óskum hennar á morgun og vonandi verður boðað til fundarins innan skamms. Við ætlum ekki bara að ræða mannréttindalotuna í mannréttindaráðinu sem verður fljótlega heldur einnig að ræða fund utanríkisráðherra við utanríkisráðherra Bandaríkjanna og stöðuna í Brexit. Það er auðvitað í nefndinni sem okkur gefst færi á að ræða nánar um slíkt, en ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa umræðu.



[15:38]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég hendi þessu kefli bara til baka og segi: Takk kærlega fyrir þessi viðbrögð. Ég talaði hér fyrr í dag um kjördæmaviku og hvað það skiptir miklu máli fyrir þingmenn að komast út í kjördæmin, heyra í fólki í mismunandi umhverfi, sjá mál í öðru ljósi og finna mismunandi áherslur og það er þetta sem hv. þingmaður var í rauninni að lýsa, þetta er líka hluti þingmannsstarfsins innan veggja þingsins, í öllum þessum húsum, ef við lítum á stóru myndina, þessi vinna sem á sér stað í nefndum sem skiptir gríðarlega miklu máli upp á það hvernig við höldum utan um málin, fyrir lýðræðisframvindu, málaframvinduna. Þess vegna er svo gríðarlega mikilvægt að stjórn á nefndunum og skipulag sé með þeim hætti, m.a. eins og við erum að upplifa núna í utanríkismálanefnd, að fólk geti komið og tjáð sig mjög opinskátt og komið sínum málum á framfæri. Eðlilega þá er hér þingræði og það er meiri hluti í þinginu og auðvitað finnum við fyrir því. Það sem skiptir máli er að við, stjórnarminnihlutinn — það er kannski ágætt að fara að kalla stjórnarandstöðuna líka stjórnarminnihlutann — getum komið málum okkar á framfæri, að þau séu sett á dagskrá. Það skiptir líka máli.

En stóra myndin í utanríkismálum er auðvitað mikilvæg og það er fagnaðarefni að fá hæstv. ráðherra Guðlaug Þór Þórðarson til okkar, gott að fá hann á fund nefndarinnar til að fara yfir þessi risastóru hagsmunamál sem við blasa í utanríkismálum þjóðarinnar hvort sem þau tengjast Brexit, hugsanlega nýjum viðskipta- og öryggissamningi við Bandaríkin eða mannréttindamálum ekki síst. Þessu vil ég sérstaklega fagna og hlakka til að mæta á fund nefndarinnar í fyrramálið.



[15:40]
Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég ræddi Tyrkland og mannréttindamál þegar mælt var fyrir þessu fríverslunarmáli í þingsal og ætla að nota tækifærið til að ræða aftur mannréttindi í Tyrklandi og lýðræðið þar sem er á fallanda fæti. Mig grunar að mörgu leyti að ástandið sé alvarlegra en við heyrum gjarnan um. Ég vísa til þess að fram fara miklar fangelsanir þeirra sem gagnrýna stjórnvöld. Það er vegið að frelsi fjölmiðla. Það eru hreinsanir í stjórnkerfinu, dómskerfinu, menntakerfinu og víðtækar aðgerðir líka gegn stjórnarandstöðunni. Allt þetta er merki um aðgerðir sem eru fullkomlega ólíðandi. Svo er alveg sérstaklega rétt að minna á aðförina gegn Kúrdum sem heitir einfaldlega á venjulegu máli mjög alvarleg kúgun. Sumir nota enn alvarlegri eða stærri orð um þetta en ég ætla ekki að gera það hér.

Það má líka nefna innrásina í Sýrland þar sem Tyrkland hefur beinlínis ráðist inn í nágrannaríki.

Okkur verður tíðrætt um gildi og gagnsemi fríverslunarsamninga og margt er sagt um hvaða áhrif þessir samningar kunni að hafa, annars vegar á valdhafana og hins vegar á almenning og þá jafnvel stjórnarandstöðu, hvernig okkur beri að umgangast það, hvort við tökum, eins og hér kom fram áðan, viðskiptahagsmunina fram yfir allt annað eða hvernig við vegum þetta allt saman. Það er vissulega vikið að nauðsyn mannréttinda í umræddum fríverslunarsamningi og þá vaknar spurningin um hver styrkur EFTA-landanna í gagnrýni á mannréttindamál í Tyrklandi er yfir höfuð. Nú má segja að í EFTA séu smáríki á alþjóðavísu og alveg spurning hversu alvarlega tyrknesk stjórnvöld taka gagnrýni ef hún kemur þaðan.

Þá kviknar önnur spurning. Mannréttindanefnd á að vera starfandi á vegum EFTA en eftir því sem við höfum heyrt er hún lítt eða ekki virk. Spurningin er hvort þá sé ekki kominn tími til að virkja hana.

Ég ætla ekki að fjölyrða um endurnýjun þessa fríverslunarsamnings eða um hvernig vega beri annars vegar fríverslunarsamning við eitthvert ríki og hins vegar ástandið innan lands. Þetta er vissulega erfitt en ég tek undir orð hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um að við verðum að vanda okkur mjög við það, hvort sem það er innan utanríkismálanefndar þar sem ég sit eða við samráð milli utanríkisráðherra eða stjórnvalda og nefndar. Við eigum að vanda okkur mjög mikið til að þessi afstaða okkar sé rétt og skýr hverju sinni.

Ég vil nota tækifærið hér til að hvetja ríkisstjórnina, sérstaklega utanríkisráðherra, til að ræða nú hvort og með hvaða hætti Ísland geti komið skýrum skilaboðum um skort á mannréttindum til Tyrklands við þær aðstæður sem eru þar til orðnar. Ég vil líka nota tækifærið og hvetja okkar fulltrúa í þingmannanefnd EFTA og í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna til að gera sitt besta af þessu sama tilefni.

Ég hef samþykkt að vera með á þessu nefndaráliti með töluverðum efasemdum, með tunguna út í kinn eins og sagt er, en taldi samt rétt að vera þar með ásamt öllum öðrum. Ég vil þá líka nota tækifærið, eins og hér hefur verið gert, til að þakka formanni fyrir að hafa haldið styrkri hendi utan um þessa vinnu. Það eru fleiri slíkir samningar í farvatninu, t.d. varðandi Filippseyjar, og við eigum sjálfsagt eftir að endurtaka þessa umræðu oft og tíðum við önnur tækifæri.



[15:45]
Álfheiður Eymarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég er sammála því sem hefur komið fram um að frjáls viðskipti á milli ríkja geti verið lykill að góðum samskiptum, skilningi milli ólíkra þjóða og jafnvel friði í heiminum. Nú tók ég ekki þátt í störfum nefndarinnar við umræðu og umfjöllun um málið en af því að þetta er endurnýjun á samningi frá árinu 1992, þegar ástandið í Tyrklandi var allt annað en það er í dag, tel ég enga þörf á því að vera að endurnýja þennan samning.

Tyrkland er ekki lengur flokkað sem lýðræðisríki á meðal fræðimanna í stjórnmálafræði heldur einræðisríki. Erdogan hefur verið að breyta stjórnarskránni, hefur aukið völd sín en minnkað ábyrgð. Löggjafanum er ekki lengur leyft að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu, hann lagði niður embætti forsætisráðherra en gegnir nú báðum stöðum sem forseti. Hann hefur fangelsað blaðamenn, fræðimenn, stjórnmálamenn, andófsmenn og internetbloggara ásamt fleirum. Hann hefur verið svo iðinn við að fangelsa saklausa borgara að stærsti iðnaður Tyrklands í dag er bygging nýrra fangelsa vítt og breitt um landið, bara til að koma öllu þessu fólki fyrir.

Hann ofsækir Kúrda. Hann beitir saklausa borgara ofbeldi; 22 friðsamir mótmælendur voru drepnir árið 2013. Hann er bendlaðir við spillingu og fjármálamisferli. Hann lokar reglulega aðgangi að internetinu fyrir Tyrki. Hann lokar aðgangi að Wikipediu, YouTube, Facebook, Twitter og fleiri vefsvæðum.

Það er ekki hægt að semja við einræðisherra. Þessar klásúlur til málamynda um mannréttindi í samningnum eru til skammar. Mér finnst það lögleysa að vera með klásúlur inni í samningum sem er bara gefið að ekki standi til að fara eftir.

Ég ætla að lesa upp úr nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Þá kemur fram í greinargerðinni að ákvæðum um mannréttindi, sjálfbæra þróun og umhverfismál sé bætt við fríverslunarsamninginn við Tyrkland.“ — Og þetta á sem sagt að vera þessi mikla bót. „Það sé í samræmi við utanríkisstefnu EFTA-ríkjanna að fullgilda viðskiptasamninga við ríki þrátt fyrir að samningsaðilar séu ósammála í ýmsum öðrum málum, eins og m.a. á sviði mannréttindamála. Framkvæmdin hefur verið hin sama í hinum EFTA-ríkjunum, þ.e. að gagnrýni á stöðu mannréttindamála hefur hingað til ekki komið í veg fyrir að fríverslunarsamningar séu gerðir og fullgiltir. Litið er svo á að almennt verði gagnrýni vegna stöðu mannréttindamála haldið uppi á vettvangi stofnana Sameinuðu þjóðanna fremur en á vettvangi EFTA.“

Hér stendur það svart á hvítu og í samningnum sjálfum og í gögnum frá EFTA að það sé ekkert að marka þessi nýju ákvæði, sem eiga að vera til mikilla bóta, og það eigi ekki að fara eftir þeim. Til hvers þá að hafa þau í samningnum? Ég veit ekki hvort það á að vera eitthvert PR-atriði fyrir almenning í þessum löndum sem verður neyddur til að taka þátt í fríverslunarsamningum við einræðisherra.

Við eigum að hafa kjark til að beita okkur á vettvangi EFTA og hafna þessum fríverslunarsamningi. Ísland á að stunda sjálfstæða utanríkisstefnu. Ég man aðeins eftir tveimur skiptum þar sem Ísland hefur stundað sjálfstæða utanríkisstefnu. Í fyrra skiptið var það þegar við viðurkenndum sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna og í seinna skiptið þegar við viðurkenndum Palestínu. Annars fylgjum við bara eins og rollur þessu alþjóðasamstarfi sem við erum í, hvort sem það er EFTA eða Sameinuðu þjóðirnar.

Ég veit að ESB ætlar ekki að hleypa Tyrklandi í Evrópusambandið vegna ástandsins sem þar ríkir. Þetta er ekki lýðræðisríki, þetta er einræðisríki. Þess vegna fær það ekki inngöngu í Evrópusambandið. Af hverju ætlum við þá að fara að gera fríverslunarsamning við þetta ríki, við þennan einræðisherra?



[15:51]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég ber virðingu fyrir skoðunum flokkssystur minnar, Álfheiðar Eymarsdóttur, hvað þetta varðar. Bara svona til að árétta það þá hafa Píratar ekki mótað sér stefnu í þessum málaflokki en við höfum verið að ræða þetta. Eigum við að gera fríverslunarsamninga við ríki sem klárlega brjóta mannréttindi, eins og hv. þingmaður fór mjög ítarlega yfir? Eigum við að gera fríverslunarsamninga? Það er eitt að sýna frumkvæði, að fara af stað með að gera fríverslunarsamninga. En eigum við að rifta fríverslunarsamningum sem eru til staðar við slík ríki? Það er annað. Þessi umræða á sér enn stað meðal Pírata og við tökum vel upplýstar ákvarðanir.

Þegar ég horfi til fríverslunarsamninga eða einhvers konar efnahagsþvingana eða þess að slíta viðskiptasambandi eða beita efnahagsþvingunum til að koma í veg fyrir að önnur ríki geti stundað viðskipti við eitthvert ríki vegna mögulegra brota sem alþjóðasamfélagið vill taka á þá er slíkt yfirleitt gert gagnvart veikari ríkjum. Það er tekið á veiku ríkjunum en ekki þeim stóru, alveg óháð brotunum.

Þá skiptir líka máli hvaða árangri það skilar. Hvaða áhrif hefur það, annars vegar á stjórnvöld, til þess að þau hegði sér betur, og hins vegar á fólkið í landinu? Það sem við sáum í tíu ára efnahagsstríði gegn Írak á sínum tíma, undir Saddam Hussein, var að það styrkti stjórn hans. Það gerði lífsviðurværi fólksins í landinu gríðarlega slæmt. Þannig að við verðum að horfa til þess.

Ég veit um eitt dæmi um að það hafi dugað að nota einhvers konar efnahagsþvinganir eða viðskipti sem vogarafl í afstöðu stjórnvalda til breytinga á stjórnarfari. Það er Suður-Afríka. Það virkaði þar. Ég veit ekki um fleiri staði. Ég myndi sjálfur ekki taka afstöðu til þess að gera fríverslunarsamning, slíta viðskiptasambandi eða fara í efnahagsþvinganir gagnvart ríki nema ég vissi hver raunveruleg áhrif þess væru. Hefur það þau áhrif að ástand mannréttindamála í landinu verður betra eða verður það jafnvel verra? Fyrr en ég veit það mun ég ekki taka afstöðu til þess.

En eins og ég segi: Þetta er enn þá umræða sem er í gangi hjá Pírötum. Við tökum ákvarðanir í ljósi upplýsinga og gagna. Þess vegna er ekki komin nein formleg stefna enn í þessum málaflokki. En hún mun koma — eins og fleiri stefnur.