149. löggjafarþing — 69. fundur
 21. feb. 2019.
kjaraviðræður.

[10:40]
Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég er hálflömuð eftir að hæstv. fjármálaráðherra þrumaði yfir okkur áðan. Hann talaði um súrefnisflæði til þeirra sem verst eru staddir. Ég veit ekki eiginlega hvaða tregða er á þeirri slöngu en a.m.k. hlýtur það súrefni að vera illa blandað með einhverju andrúmslofti sem láglaunafólk hér kærir sig ekki um að draga að sér.

Hann talar um 80.000 kr. sem eigi að setja til lægstu hópanna í samfélaginu á næstu fjórum árum, um 20.000 kr. á ári. Ég er eiginlega algjörlega orðlaus. Það er ekki eins og við séum að tala um, hæstv. fjármálaráðherra, að krefjast einhvers meira til handa þeim sem berjast í bökkum. Það er verið að tala um lágmarksréttlæti, lágmarkssanngirni, það er eingöngu verið að tala um að fólk geti lifað hérna þokkalega og náð saman endum á milli mánaða.

Við hér erum með á bilinu 1,1–2 millj. kr. á mánuði og það erum við sem ákveðum hvernig þeir sem verst hafa það í samfélaginu koma til með að hafa það áfram. Mér finnst dapurlegt að standa hér og mér finnst dapurlegt að horfa upp á að hér er talað um komandi kulnun í hagkerfinu. Hér á líka hugsanlega að fara að blása til verkfalla úti í samfélaginu. Hvað mun það kosta samfélagið ef við getum ekki komið betur til móts við þá sem þurfa virkilega á því að halda?

Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hvers vegna í veröldinni er endalaust verið að tala um að koma til móts við þá sem lægst eru settir og láta síðan þessa skattalækkun svokallaða ganga líka til þeirra sem hafa akkúrat ekkert með hana að gera?



[10:42]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þegar við horfum til baka, sex til tíu ár, dregst upp sú mynd að okkur sem samfélagi hefur tekist að láta ráðstöfunartekjur þeirra sem eru í neðstu tekjutíundunum vaxa hraðar en ráðstöfunartekjur þeirra sem eru í efstu tekjutíundunum. Þetta birtist okkur m.a. í alþjóðlegum mælingum um að á Íslandi er meiri jöfnuður en annars staðar.

Í þeim tillögum sem ríkisstjórnin er að kynna er ekki bara verið að tala um breytingar á tekjuskatti, sérstaka hækkun persónuafsláttar sem tók gildi um áramótin, heldur líka aukinn félagslegan stuðning, svo sem eins og lengingu fæðingarorlofs sem hefur lengi verið rætt um og vinnumarkaðurinn lagt mikla áherslu á. Við ræðum sömuleiðis um þá styrkingu sem nú er komin í gildi fyrir barnafjölskyldur.

Þetta verður auðvitað að skoða út frá einstaka dæmum. Hægt er að taka dæmi af einstaklingi með tvö börn, annað undir sjö ára, sem eykur ráðstöfunartekjur sínar á ári um tæplega 200.000 kr. vegna tillagna ríkisstjórnarinnar. Við getum eflaust átt langt samtal um það hér hvort það sé eitthvað sem skiptir máli, en ef hv. þingmaður vill fara einhverjar aðrar leiðir verður hann þá að benda á hvaða leiðir það eru. Það er ekki hægt að koma hér upp og halda því fram að við séum ekki að ná árangri og séum ekki með tillögur sem eru sérsniðnar fyrir þá sem eru neðst í tekjustiganum vegna þess að þannig eru tillögurnar.

Síðan eru eflaust margir, og mér heyrist hv. þingmaður skipa sér í þeirra hóp, sem telja að kennarar, sjúkraliðar, fólk sem starfar í kringum miðgildi launa í landinu, eigi ekkert gott skilið. Þetta sama fólk kemur alltaf upp þegar það fólk er í kjarabaráttu (Forseti hringir.) og krefst þess að samið verði um tuga prósenta launahækkanir, en ef þetta fólk á að fá svo lítið sem 0,5% lækkun á skattbyrði kemur þetta sama fólk og segir: Nei, þetta er ekki hópurinn sem ég er að berjast fyrir.



[10:45]
Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Það er eiginlega dapurlegt ef hæstv. fjármálaráðherra skilur ekki hvað ég er að tala um. Ég er eingöngu að tala um þá sem eru hér í lægstu þrepunum, um þá sem eru með undir 300.000 kr. útborgað, sem fá útborgað 220.000–240.000 kr. Ég er ekki að tala um kennara og sjúkraliða. Ég er að tala um þá sem skúra gólfin undir okkur og þá sem eru í lágtekjuþjónustustörfum. Ég er að tala um verkafólk á lúsarlaunum sem nær ekki endum saman og á ekki mat á diskinn fyrir börnin sín eftir 20. hvers mánaðar. Ég er að tala um þann hóp.

Þau lykilhugtök sem hér eru endalaust notuð, kjarajöfnuður og kaupmáttur, eru nákvæmlega lykilhugtök sem mér finnst hæstv. fjármálaráðherra eiga að gera svolítið mikið úr, sérstaklega hugtakinu kaupmáttur. Það skiptir engu máli þótt við hækkum laun hjá einhverjum um 100 milljónir ef það kostar milljarð að lifa. Það er lélegur kaupmáttur. Það er eingöngu verið að tala um sanngirni, að ná endum saman, að allir fái að lifa með reisn í samfélaginu og taka þátt í því góðæri sem við höfum hingað til státað okkur af.



[10:46]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef komið hingað upp nokkrum sinnum í morgun til að útskýra fyrir hv. þingmanni og öðrum að tillögur ríkisstjórnarinnar eru sérsniðnar að þeim hópi sem hv. þingmaður segist vera að tala fyrir. Skattbyrðiléttingin er mest hjá þeim sem eru fullvinnandi með rétt rúmlega 300.000 kr. Þar teygjum við okkur sérstaklega með útfærslu á skattkerfisbreytingunni þannig að við náum að létta undir með því fólki. Það er ekki hægt að halda því fram að það sé eitthvert annað eðliseinkenni á þeim tillögum sem hér eru færðar fram. Auðvitað erum við hv. þingmaður sammála út af fyrir sig um að það verður engin sátt í samfélaginu ef stórir hópar eru skildir eftir. Ég held hins vegar að þingmaðurinn hafi rangt fyrir sér þegar hún heldur því fram að það skipti engu máli að horfa til hinna. Ég vek athygli á því að meira eða minna allir kjarasamningar í landinu eru lausir og það mun skipta máli fyrir kennarana, (Forseti hringir.) fyrir sjúkraliðana, fyrir alla iðnaðarmenn og aðra sem eru útivinnandi allan daginn að berjast fyrir því að ná endum saman hvað ríkið ætlar að gera fyrir það fólk.