149. löggjafarþing — 69. fundur
 21. feb. 2019.
skattbreytingatillögur í tengslum við kjarasamninga.

[11:01]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Það þarf ekki að hafa mörg orð um þá grafalvarlegu stöðu sem uppi er í kjaraviðræðum nú um stundir og stefnir í að viðræðum verði slitið milli aðila í dag. Það er dálítið sorglegt að horfa upp á viðbrögð og útspil ríkisstjórnarinnar í þessum málum.

Til þessa ríkisstjórnarsamstarfs var ekki stofnað um stórtæk verkefni. Það höfum við fengið að sjá. En einhverra hluta vegna ákvað ríkisstjórnin að setja sig í bílstjórasætið þegar kæmi að kjaraviðræðum og hefur farið mikinn í yfirlýsingum sínum um að engin ríkisstjórn hafi fundað oftar með aðilum vinnumarkaðarins til þess að leysa deilur í kjaramálum, að engin ríkisstjórn hafi lagt meira á borðið en þessi ríkisstjórn þegar kemur að lausn kjaramála, og svo mætti áfram telja.

Hér er búið að funda og funda með aðilum vinnumarkaðarins og svo kemur að deginum stóra þegar ríkisstjórnin spilar út sínu útspili. Það reynist algjört púðurskot.

Nú ætla ég í sjálfu sér ekki að gera lítið úr þeim skattahugmyndum sem þarna eru færðar fram. Þær eru um margt áhugaverðar. En það má líka alveg halda því til haga að þar eru mörg tækifæri til að gera betur til að ná til þeirra hópa sem helst er við að etja í þessum kjaradeilum, þ.e. tekjulægstu hópanna, og í því hvernig leysa eigi þann hnút sem kjaramálin eru komin í.

Það er hins vegar ábyrgðarhluti af hálfu ríkisstjórnarinnar að haga sér með þessum hætti í jafn viðkvæmum málum og kjaradeilur eru. Það er ekki hlutverk ríkisstjórnar að leysa kjaradeilur. Það mætti því spyrja hæstv. fjármálaráðherra, sem glottir hér við: Hvað ætlar hann að gera til að leysa þann hnút sem ríkisstjórnin hefur skapað í kjaradeilunum?



[11:03]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég veit eiginlega ekki hvað maður á að segja þegar fyrrverandi framkvæmdastjóri SA kemur hér upp og kvartar undan því að ríkisstjórnin hafi allt of mikið verið að hlusta á vinnumarkaðinn, [Hlátur í þingsal.] hafi haldið allt of marga fundi og það sé alvarlegt mál að reyna að kynna sér stöðuna, að menn hlusti eftir því sem skiptir máli í heild sinni.

En hverju skilaði þetta samtal? Við hækkuðum atvinnuleysisbætur í fyrra. Við hlustuðum eftir áherslum vinnumarkaðarins við útfærslu okkar, skattkerfisbreytingar sem tóku gildi um áramótin með sérstakri hækkun barnabóta og viðbótarhækkun persónuafsláttar. Við settum af stað vinnu við að greina skortinn á húsnæðismarkaðnum og fórum fram í góðu samstarfi við vinnumarkaðinn. Við fórum fram með tillögur til úrlausnar á þeim vanda og þeim hefur verið tekið fagnandi. Nú er starfshópurinn um fyrstu kaup að fara að skila o.s.frv. Það skiptir máli.

Við höfum hins vegar ekki verið í kjaraviðræðum og það er eins og hv. þingmaður haldi að við teljum okkur hafa verið í kjaraviðræðum. Við höfum aldrei sagst vera í kjaraviðræðum. Við höfum verið með allan markaðinn fyrir framan okkur, ekki bara þá sem eru núna hjá ríkissáttasemjara. Við höfum verið að hvetja til þess að þjóðhagsráð yrði virkjað til þess að það væri flæði upplýsinga milli stjórnvalda, vinnumarkaðar og seðlabanka um þjóðhagslegar stærðir og þá undirliggjandi spennu sem brýst stundum út með látum. Ég tel að það skipti máli.

Hins vegar er sannleikskorn í því að ríkisstjórnin á ekki að gefa í skyn að hún ætli að leysa málið. Það gerði hún heldur aldrei. Það hefur hún aldrei gert. Ríkisstjórnin hefur sagt að það væri forsenda fyrir aðkomu hennar að lausn einstakra mála, t.d. í húsnæðismálum, að menn væru komnir að niðurstöðu í kjaraviðræðunum. Kallað er eftir útfærslu á skattatillögum sem við höfum áður sagt að við ætluðum að hrinda í framkvæmd og birtast í fjármálaáætlun. Það er sjálfsagt að greina frá því, enda er fjármálaáætlun handan við hornið, sú næsta sem gildir fyrir næstu fimm ár.



[11:05]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Það kemur mér ekki á óvart að hæstv. ráðherra hafi ekki vitað hvað hann ætti að segja. Það virðist einmitt vera að á öllum þessum fundum hafi ríkisstjórnin ekkert hlustað sérstaklega vel, því að þegar horft er á viðbrögðin við skattatillögunum sem hér er spilað út þarf engan snilling til að sjá að þetta er ekki það sem óskað var eftir af hálfu verkalýðshreyfingarinnar til lausnar á kjaradeilunni. Með góðum vilja hefði vel verið hægt að útfæra þessar tillögur með þeim hætti að þær hefðu spilað betur inn í lausn kjaradeilnanna, en vandamálið virðist vera að ríkisstjórnin hafi á öllum þessum fundum ekkert verið að hlusta á það sem var verið að segja við hana. Á sama tíma voru undirbyggðar væntingar um eitthvert stórkostleg útspil sem myndi leysa hnútinn en reyndist þegar á hólminn var komið litlu breyta.

Mér þykir sorglega illa á þessum málum haldið af hálfu ríkisstjórnarinnar, ég verð að segja eins og er, en ég vona svo sannarlega að ríkisstjórnin sé opin fyrir þeirri hugsun að mögulega megi taka það svigrúm sem hér á að nýta til skattalækkana, sem ég fagna, og útfæra tillögurnar sem ríkisstjórnin hefur lagt fram með öðrum hætti (Forseti hringir.) þannig að þær spili betur inn í kjaraviðræðurnar en raun ber vitni.



[11:06]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta er aðeins að breytast í þessa klassísku umræðu þar sem menn vilja að kjaraviðræður fari að hluta til fram í þingsal og jafnan er það svo að menn fella dóma um ríkisstjórnina og frammistöðu hennar og hvort hún hafi verið að hlusta eða ekki að hlusta.

Hv. þingmaður hefur komist að því að ríkisstjórnin hafi ekki verið að hlusta. En getur verið að þeir sem sátu hinum megin við borðið hafi ekki verið að hlusta, að væntingar þeirra hafi verið úr öllum takti miðað við það sem sagt var, þær upplýsingar sem hafa verið birtar? Hvað á maður annað að segja þegar menn hafa haft væntingar um að ríkið myndi lækka skatta um 20.000 kr. á 325.000 kr. laun en ríkið hefur ekki 20.000 kr. í tekjuskatt? Hvað á maður annað að segja en að menn skilji ekki hvernig kerfin virka og misskilji það hvað ríkið getur boðið þeim sem eru þar staddir í launastiganum? Og hversu merkilegt er það í raun (Forseti hringir.) þegar það eru sveitarfélögin sem taka um 80% af staðgreiðslusköttum þessa fólks að þau skuli vera handan línunnar sem áhorfendur að öllu þessu?