149. löggjafarþing — 70. fundur
 26. feb. 2019.
staðan á vinnumarkaði.

[13:56]
Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. félags- og barnamálaráðherra um stöðuna á vinnumarkaði og ábyrgð stjórnvalda gagnvart henni. Ég veit að hæstv. félags- og barnamálaráðherra er mér sammála um nauðsyn þess að tryggja jöfn kjör og réttlæti gagnvart öllum þjóðfélagshópum þegar kemur að lífskjörum þeirra. Mig langar að vitna í orð ráðherrans í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í október sl., með leyfi forseta:

„Nú hafa margir á tilfinningunni að í gangi sé launaskrið hjá efstu lögum samfélagsins og að skilja eigi eftir bæði millistéttina og lægri tekjuhópa. Já, það er þyngra en tárum taki að til séu börn í þessu landi sem geta ekki stundað tómstundir, geti ekki haldið fermingarveislur og fleira sökum lágra tekna foreldra sinna. Þegar slíkar sviðsmyndir finnast enn er verk að vinna.“

Í þeim kjaraviðræðum sem staðið hafa yfir síðustu mánuðina hefur hæsta ákallið verið um að hækka lágmarkslaun, minnka bilið á milli hærri og lægri tekjuhópa og tryggja öllum sem hér búa viðunandi kjör. Þetta snýst reyndar um mun meira en tómstundir og fermingarveislur, þetta snýst um að hér á landi þurfi enginn að búa við fátækt og skort.

Ég spyr því: Finnst hæstv. ráðherra að ríkisstjórnin hafi lagt nóg af mörkum til að liðka fyrir kjaraviðræðum til að tryggja aukinn jöfnuð efri stétta og lægri tekjuhópa og að hér búi enginn við fátækt og skort?

Þá er ljóst af breyttum titli ráðherra að hæstv. félags- og barnamálaráðherra ber sérstaklega að halda á lofti í málefnum barna og styð ég hann í þeirri áherslubreytingu. En liður í því að tryggja aukna velferð barna hlýtur að vera að tryggja einnig velferð foreldra.

Mig langar því að spyrja ráðherra hvaða áhrif hann telji það hafa á framtíðartækifæri og vellíðan barna þegar foreldrar verja verðmætum tíma sínum, tíma frá börnum sínum, í oft heilsuspillandi láglaunastrit og ná ekki einu sinni endum saman, að geta ekki einu sinni séð almennilega fyrir fjölskyldu sinni. Hvaða áhrif hefur þetta ástand á þennan mikilvæga málaflokk hæstv. ráðherra?



[13:58]
félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Halldóru Mogensen fyrir þessa fyrirspurn. Skoðun mín frá því að Alþingi var sett á haustdögum hefur ekkert breyst. Það er gríðarlega mikilvægt að við náum að stuðla að sem mestum jöfnuði í íslensku samfélagi. Það er gríðarlega mikilvægt að við náum að bæta kjör þeirra hópa sem búa við lægstar tekjur og það er líka gríðarlega mikilvægt að þeir sem eru í efstu lögunum taki á sig auknar byrðar og séu tilbúnir til þess. Skoðun mín á því hefur ekkert breyst.

Þess vegna fagna ég mjög að bæði fjármálaráðherra og forsætisráðherra hafa tekið undir að mikilvægt sé að grípa til aðgerða gagnvart hækkunum launa bankastjóra ríkisbankanna og við bíðum eftir upplýsingum frá Bankasýslunni varðandi það. Ég hef sagt það og stend við það hér að tillögur eða áherslur stéttarfélaganna um að bæta kjör tekjulægstu hópanna eru gríðarlega mikilvægar. En það er líka mikilvægt að geta gert það þannig að hagkerfið haldi áfram á því skriði sem það er vegna þess að við viljum ekki fá verðbólguskot eða óðaverðbólgu.

Ríkisstjórnin hefur lagt til fjölmargar aðgerðir, ekki bara í skattamálum, heldur líka 40 aðgerðir í húsnæðismálum sem ræddar hafa verið milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðar undanfarið um frekari útfærslur sem munu m.a. hafa mjög mikil áhrif á stöðu þeirra sem eru á leigumarkaði og þeirra sem búa við lægstar tekjur. Við höfum líka verið með aðgerðir sem snúa að félagslegum undirboðum og voru aðgerðir í tíu liðum nýlega kynntar fyrir velferðarnefnd. Við höfum sagt að það séu fleiri mál sem ríkisstjórnin sé tilbúin að skoða, m.a. varðandi vexti og verðtryggingu og stuðning við fyrstu kaupendur og tekjulága um kaup á fyrstu fasteign.

Ég ætla að koma betur inn á það í seinna andsvari mínu hvaða áhrif það hefur á börn en ríkisstjórnin er búin að kynna fjölþættar aðgerðir. Hún er tilbúin með fleiri aðgerðir og að koma á auknu samtali, en til þess að það gerist verða stéttarfélög og atvinnurekendur að ná saman sín á milli.



[14:00]
Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Í síðari ræðu minni vil ég beina tveimur spurningum til ráðherra sem ætti að vera einfalt að svara og ég bið ráðherra að geyma það að útskýra hvaða áhrif þetta hefur á börn og svara þeim spurningum sem ég spyr núna. Fyrst varðandi ummæli hans í Kastljósi þann 14. febrúar sl. þar sem hann sagði í umræðu um launahækkun forstjóra fyrirtækja í almenningseign að sjálfsagt væri að stjórnvöld gripu inn í. Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hvað með ákvörðun kjararáðs um launahækkun til þingmanna, ráðherra og æðstu embættismanna? Finnst hæstv. ráðherra ástæða til að grípa inn í þar? Ef ekki, hver er munurinn?

Að lokum vil ég spyrja ráðherra út í ummæli hans á þingi ASÍ í október sl. þar sem hann sagði að ef ekki næðist samstaða um að stíga skref sem kæmi böndum á efstu lög samfélagsins styrkti hann verkalýðshreyfinguna í því að setja hátekjuskatt á hæstu tekjur íslensks samfélags. Styður hæstv. ráðherra enn kröfu verkalýðsfélaganna um hátekjuskatt og ef svo er, hvað stendur í vegi fyrir álagningu hans?



[14:01]
félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég kom inn á það í mínu fyrra svari að við ættum að grípa inn í gagnvart hækkun efstu launa í opinbera geiranum. Það er það sem ríkisstjórnin hefur þegar boðað og bæði forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa gert það. Ég sagði jafnframt að þau laun sem heyra undir kjararáð eru í frosti, hækkanir þar eru í frosti og hafa verið. Eitt af því sem menn eru tilbúnir til þess að ræða er með hvaða hætti sé hægt að koma böndum á það þannig að þau kjör fylgi almennri launaþróun. Þess vegna var kjararáð tekið úr sambandi á sínum tíma.

Varðandi það að setja á hátekjuskatt þá hef ég alltaf verið talsmaður þess að skattkerfið sé með þeim hætti að þeir sem hafi hærri tekjur beri þyngri byrðar. Þess vegna var fjölgað um eitt þrep en hins vegar hefur ríkisstjórnin þegar boðað, eins og ég sagði, að tekið verði á hækkunum efstu launa í opinbera geiranum. Það er núna í vinnslu innan ríkisstjórnarinnar hvernig það verður gert og þar með er ríkisstjórnin (Forseti hringir.) að leggja sitt af mörkum, vil ég segja, til að koma böndum á efstu tekjurnar. Það er gríðarlega mikilvægt að það verði gert, að það takist (Forseti hringir.) og að við getum betur tekið á því að ekki séu tvær þjóðir í þessu landi vegna þess að það á ekki að vera þannig.