149. löggjafarþing — 70. fundur
 26. feb. 2019.
samningar við sérfræðilækna og sjúkraþjálfara.

[14:10]
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Hæstv. forseti Ég beini fyrirspurn minni að hæstv. heilbrigðisráðherra en mig langar að spyrja um stöðu samninga ríkisins við annars vegar sérgreinalækna og hins vegar sjúkraþjálfara. Eins og ráðherra þekkir auðvitað rann samningur á milli ríkisins og sérgreinalækna út 31. desember sl. en mikilvægi þeirra fyrir heilbrigðiskerfið er vonandi öllum ljóst. Árið 2017 voru komur til sérgreinalækna samkvæmt ársskýrslu Sjúkratrygginga Íslands 477.977.

Það liggur í augum uppi að sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir eru ekki í neinum færum til að taka þetta verkefni yfir. Þetta þarf nefnilega allt að vinna saman. Ég þekki að hæstv. heilbrigðisráðherra vill nálgast málið heildstætt og það er mikilvægt því hagsmunir fólksins, hagsmunir hinna sjúkratryggðu, er það sem er undir. Það eru þeirra hagsmunir sem verða að vera í forgangi og þess vegna er blandað rekstrarform heilbrigðiskerfinu afar mikilvægt. Með því fylgir auðvitað nýsköpun og hraðari framþróun ásamt því að ungir læknar sjá vonandi hag sinn í að koma heim í fjölbreytt vinnuumhverfi þar sem þeir eiga tækifæri á að vinna á mismunandi stöðum til frambúðar.

Þetta vinnur allt saman og því langar mig að spyrja hver samningsmarkmið ríkisins séu varðandi samninga við sérgreinalækna og sjúkraþjálfara. Hverju ætlar ríkið sér að ná fram í samningunum? Standa raunverulegar samningaviðræður nú yfir? Ef svo er, hvenær er stefnt að því að skrifa undir samninga? Hæstv. ráðherra gaf út reglugerð 28. desember sl. um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna sem starfa án samnings við Sjúkratryggingar Íslands. Sú reglugerð gildir til 31. mars nk. sem nálgast óðfluga. Sér ráðherra fyrir sér að samningar muni nást fyrir þann tíma?



[14:12]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er rétt sem kemur fram í máli hennar að nú er í gildi endurgreiðslureglugerð gagnvart sérgreinalæknum og það var mér mikið fagnaðarefni að um það náðist sameiginlegur skilningur Sjúkratrygginga Íslands og sérgreinalækna að láta endurgreiðslureglugerðina taka við með þeim hætti að sjúklingar fyndu ekki fyrir breytingunni.

Samkvæmt mínum upplýsingum og heimildum standa viðræður yfir við sérgreinalækna. Þar er í raun og veru verið að byggja á tilteknum meginsjónarmiðum, kannski í fyrsta lagi þeim að heilbrigðisþjónustan sé samþætt og samfelld á öllum þjónustustigum og byggist á heildstæðri stefnu í heilbrigðismálum. Það sem við höfum aðallega verið að skoða í þessu tilliti er mikilvægi þess að jafna aðgang sjúklinga að þjónustu sérfræðilækna.

Nú hefur það verið þannig lengst af að það er allt að því tilviljunum háð hver aðgangur, sérstaklega íbúa á landsbyggðinni, er að tilteknum sérgreinum. Þjónusta sérfræðilækna á heilbrigðisstofnunum utan höfuðborgarsvæðisins getur verið veitt af sérfræðingum sem eru starfandi á heilbrigðisstofnunum en getur líka verið veitt af sérfræðingum sem lúta samningum við SÍ með samningum við sérhæfðu sjúkrahúsin eða í fjarheilbrigðisþjónustu. Ég tek undir það sem hv. þingmaður segir, að mikilvægt er að þetta séu fjölbreytt úrræði, en aðalatriðið er að aðgengi íbúa landsins sé tryggt að þjónustu tiltekinna sérgreina. Ég nefni t.d. augnlækna, barnalækna, geðlækna, fæðingar- og kvensjúkdómalækna o.s.frv. Um er að ræða yfir 30 sérgreinar og fara þarf yfir það heildstætt hvaða greinar það eru sem er mikilvægast að allur almenningur hafi aðgang að og það er hluti af samningsmarkmiðunum.

Ég vík að samningum við sjúkraþjálfara í síðara svari mínu.



[14:14]
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svarið og tek undir að mikilvæg sé að þetta bitni ekki á sjúklingum og að aðgengi sé tryggt. Það eru einmitt fjölbreytt úrræði sem verða ekki tryggð nema lokið verði við samningana. Ég vona því að ég skilji það rétt að hæstv. ráðherra vilji ljúka þeim.

Varðandi sjúkraþjálfarana og það sem ráðherrann kemur kannski aðeins inn á í seinna svari er auðvitað gríðarlega mikilvægt að allar hagræðingar hvað það varðar séu vel ígrundaðar. Endurhæfing sem sjúkraþjálfarar sinna er gífurlega mikilvæg og fjölmargir nýta sér þá þjónustu, 50.000 manns árið 2017 til að mynda, sem eru veglegur fjöldi fólks hér á landi. Ef við gætum þess ekki að samið sé við þá aðila skynsamlega getur það komið niður á kerfinu okkar víða annars staðar.

Hver er nánari staða samninga við sjúkraþjálfara? Ég vona að við séum öll sammála því að ótækt sé að ekki verði samið við þessar stéttir.



[14:15]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég er sammála hv. þingmanni og við erum líka sammála sérgreinalæknum um að það er mikilvægt að ljúka samningum. Samtöl standa yfir og það er sameiginlegt markmið aðila að komast að niðurstöðu í því. Ég er bjartsýn hvað það varðar en það tekur auðvitað tíma. Um er að ræða að staða einstakra sérgreina gæti verið mismunandi. Það gildir ekki eitt fyrir alla og við þurfum að hafa þolinmæði gagnvart því að ljúka því.

Varðandi samninga við sjúkraþjálfara eru samningsmarkmiðin enn þá í samtali milli ráðuneytisins og Sjúkratrygginga Íslands og þar var samningurinn framlengdur. Ég tek undir það sem hv. þingmaður segir, að við höfum í raun og veru ekki enn þá almennilega botnað að hve miklu leyti þjálfun kemur í staðinn fyrir aðra meðferð, m.a. þegar við tölum um lyf sem valdið geta fíkn. Þá höfum við verið að benda á mikilvægi þess að hafa úr fleiri úrræðum að spila þegar um er að ræða langvarandi verki til að mynda. Þar er sjúkraþjálfun sannarlega eitt af því sem þar getur komið inn í. Það er eitt af þeim sjónarmiðum sem verða þar við borðið.