149. löggjafarþing — 73. fundur
 1. mars 2019.
kolefnisspor innlends og innflutts grænmetis.

[10:40]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ein af aðgerðunum sem munu hafa úrslitaáhrif í baráttunni gegn hlýnun jarðar og súrnun sjávar er breyttar neysluvenjur fólks. Stefna íslenskra stjórnvalda varðandi kolefnisspor matvæla á Íslandi er vægast sagt óljós og ég vil biðja hæstv. landbúnaðarráðherra að upplýsa okkur um hvað sé að gerast í þeim efnum hvað varðar innlenda grænmetisframleiðslu í samanburði við innflutt grænmeti. Svo árangur náist í baráttunni við hlýnun jarðar og súrnun sjávar er dagljóst að til þess þarf vilja almennings til breytinga sem og pólitískan vilja og kjark stjórnvalda.

Í Bændablaðinu frá því í fyrra kemur fram að samkvæmt úttekt sem verkfræðistofa gerði fyrir Samband garðyrkjubænda er kolefnisspor íslensks grænmetis allt niður í 26% af því sem innflutt grænmetis skilur eftir sig. Í afskornum blómum er talan 18%. Að meðaltali er helmingsmunur á losun, íslenskri framleiðslu í hag. Þetta eitt sýnir að mikill umhverfisávinningur væri af aukinni innlendri framleiðslu á grænmeti.

Stefna stjórnvalda miðar við að búið verði að kolefnisjafna Ísland fyrir árið 2040. Það verður ekki gert nema með víðtækum aðgerðum á mörgum sviðum og liður í því ætti að vera að mínu mati að efla innlenda grænmetisframleiðslu til að draga úr mikilli kolefnismengun sem hlýst af innflutningi. Með því fengist einnig gjaldeyrissparnaður, aukið fæðuöryggi, styrking byggða og aukin atvinna.

Er reiknað með aukinni innlendri grænmetisframleiðslu við endurskoðun áætlunar ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum?



[10:42]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Þetta er í rauninni tímamótafyrirspurn, því ber sérstaklega að fagna að Samfylkingin sé farin að tala núna um að efla innlenda framleiðslu. Það er fagnaðarefni þegar það hljóð kemur úr þeirri átt að menn horfi til þess að styðja með öflugri hætti en við höfum hingað til gert við innlendan landbúnað. Hér voru sérstaklega nefnd afskorin blóm og ég minni hv. þingmann á það að að hluta til er sú framleiðsla innan lands vernduð með tollum á erlendan innflutning. Ég fagna því þegar Samfylkingin slær þann tón sem hér um ræðir.

Ég tek undir að það eru miklar breytingar á neysluvenjum að eiga sér stað og við erum núna að vinna í ákveðnum verkum þeim tengdum. Í fyrsta lagi vil ég nefna stefnu um opinber innkaup á matvælum þar sem lagt er út frá áherslum ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum, m.a. að stuðla skuli að því að innkaup í opinberum mötuneytum taki mið af kolefnisfótspori þeirra matvæla sem keypt eru inn. Þetta er í mótun. Við eigum von á því að fá fyrstu hugmyndir starfshópsins núna í apríl þar að lútandi. Við störtuðum þessu verki í fyrrahaust og þarna eru mikil tækifæri.

Sömuleiðis vil ég nefna matvælastefnu sem unnið hefur verið að í mínu ráðuneyti um nokkurt skeið. Áætlanir voru uppi um að sá vinnuhópur skilaði tillögum í lok þessa árs en ákveðið hefur verið að breikka það verkefni og draga fleiri ráðuneyti að því og vinna það verk undir yfirstjórn forsætisráðherra. Á þeim grunni verður miklu heildstæðari stefnumörkun unnin. Við erum því að vinna á mörgum sviðum í þessum efnum. Um það sem snýr að garðyrkjunni sérstaklega vil ég nefna að núna stendur yfir endurskoðun búvörusamninganna. Við höfum þegar lokið vinnu við endurskoðun sauðfjársamnings. Væntanlegt er frumvarp hingað inn vegna þessa. Ég fékk í síðustu viku í hendur álit (Forseti hringir.) samstarfshóps um nautgriparækt og næsta verkefni er endurskoðun samnings um garðyrkju.



[10:44]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég er hrædd um að hæstv. ráðherra hafi eitthvað misskilið stefnu Samfylkingarinnar. Við höfum ekki verið á móti því að styrkja innlenda framleiðslu þótt við höfum gagnrýnt þá aðferð og þær leiðir sem stjórnvöld hafa farið í þeim efnum.

Telur hæstv. ráðherra ekki nauðsynlegt út frá umhverfissjónarmiðum að ýta undir íslenska grænmetisframleiðslu? Hefur hæstv. ráðherra ekki velt fyrir sér hvernig það megi gera, hvort megi setja styrki til kaupa á betri búnaði, sparneytnari lýsingu, styrki til að hækka gróðurhúsin sem fyrir eru svo afköstin verði meiri o.s.frv. og betra öryggi um umgjörð varðandi styrki vegna raforkuflutninga?

Síðan er annað stórt vandamál sem ég held að hæstv. ráðherra ætti að gefa gaum. Íslenskir grænmetisbændur eru að eldast og það er ekki mikil nýliðun. (Forseti hringir.) Hefur hæstv. ráðherra velt fyrir sér hvernig megi byggja kynslóðabrú yfir til yngri bænda?



[10:46]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því ef grænmetisbændur eldast því að það ber vott um að þeir njóti sinnar góðu, hollu framleiðslu. Það er betra að þeir eldist en að þeir sleppi því, þannig er það bara. Ég varð vitni að því á ferð þingflokks Sjálfstæðisflokksins nú í kjördæmaviku þar sem við heimsóttum m.a. allnokkur fyrirtæki á því sviði að þar hafa átt sér stað kynslóðskipti, yngra fólk er að taka við. Ungir grænmetisbændur með miklar hugmyndir og góð áform um að stækka framleiðslu sína og taka stærri sneið, ef við getum sagt svo, af þeim markaði. Ég hef því ekki orðið var við að það séu miklir erfiðleikar í þeim efnum, en sjálfsagt er að líta til þess.

Þegar hér eru nefndir styrkir til grænmetisframleiðenda á Íslandi vil ég fyrst af öllu segja að það er nokkur styrkur. Það er sjálfsagt að ræða möguleika á því með hvaða hætti unnt er að auka hann en við þurfum líka að minna á að við höfum ákveðið regluverk um ríkisstyrki EES. Það er ekki sama hvernig það er gert. Ég fagna öllum hugmyndum í þá veru, hvernig hv. þingmaður sér það geta gerst og hvet hana til að koma þeim áformum eða hugmyndum sínum á framfæri við ráðuneytið. Ég mun fúslega koma þeim á framfæri til samráðshópsins sem stendur (Forseti hringir.) í endurskoðun búvörusamninganna um þessar mundir.