149. löggjafarþing — 73. fundur
 1. mars 2019.
Seðlabankinn.

[11:03]
Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Málefni Seðlabanka Íslands hafa verið nokkuð til umræðu að undanförnu og ekki af góðu einu. Í áliti umboðsmanns Alþingis frá því nú í janúar kemur eiginlega fram áfellisdómur yfir starfsemi Seðlabankans og hvernig hann hefur tekið á ákveðnum málum. Virtir lögmenn hafa látið hafa eftir sér að Seðlabankinn hafi farið á svig við lög, að það blasi við í áliti umboðsmanns.

Þá hefur líka komið fram að svo virðist sem seðlabankastjóri hafi óbeðinn haft hönd í bagga við álitsgerð sem bankaráðið er að vinna einmitt um þá háttsemi sem þarna hefur verið höfð uppi og alla vega tveir bankaráðsmenn hafa látið í ljós megna óánægju yfir vinnubrögðunum.

Einnig hefur komið fram að svo kunni að vera að Seðlabanki Íslands hafi skapað sér bótaskyldu með framferði sínu. Því vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra hvaða augum hún líti þá háttsemi sem Seðlabankinn hefur haft uppi og þá ítrekuðu, vil ég segja, vanvirðingu sem seðlabankastjóri hefur bæði sýnt lögum og bankaráðinu sjálfu. Telur hæstv. forsætisráðherra að seðlabankastjóri og hans helstu meðreiðarsveinar eigi að axla ábyrgð á því framferði sem hefur komið fram í þessu máli? Og þá hvernig? Hefur forsætisráðherra gert upp hug sinn varðandi það hvort rétt sé að þessi hópur í heild eða seðlabankastjóri sjálfur láti af störfum vegna þessara mála?



[11:05]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Greinargerðin sem hv. þingmaður vísar í var unnin af bankaráði Seðlabanka Íslands að minni ósk og henni var skilað og hún birt á vef forsætisráðuneytisins á þriðjudaginn. Við erum enn, þ.e. lögfræðingar mínir í forsætisráðuneytinu og ég, að fara yfir efnisatriði greinargerðarinnar. Það kann að vera að nauðsynlegt sé að óska eftir frekari skýringum um ýmis þau atriði sem þar koma fram, þannig að sú vinna stendur yfir. Mjög mikilvægt er að farið verði mjög nákvæmlega yfir alla stjórnsýslu Seðlabankans í þeim málum. Ef við horfum á stóru línurnar er niðurstaða greinargerðarinnar ótvíræð, að mikilvægt sé að Seðlabankinn endurupptaki öll þau mál sem sambærileg eru sem vörðuðu lög um gjaldeyriseftirlit, ekki bara það mál sem kennt hefur verið við Samherja heldur önnur sambærileg mál. Sú niðurstaða er ótvíræð af hálfu bankaráðsins.

Hv. þingmaður nefnir sérstaklega bókun tveggja bankaráðsmanna. Af því tilefni vil ég segja að ég tel það algjörlega ótvírætt þar sem Seðlabanki Íslands heyrir undir forsætisráðuneytið, þó að lög um gjaldeyriseftirlit heyri undir fjármála- og efnahagsráðuneyti og þó að bankaráðið sé kosið af Alþingi er mjög skýrt í lögum um Seðlabanka Íslands að bankaráðið hefur það hlutverk að hafa eftirlit með því að lögum sé fylgt af hálfu bankans og ég lít svo á að heimildir forsætisráðherra til að kalla eftir þeim upplýsingum sem ég óskaði eftir í erindi mínu til bankaráðsins séu algjörlega ótvíræðar. Það hef ég sömuleiðis farið yfir eftir að greinargerðin barst og hef í engu breytt þeirri skoðun minni.



[11:08]
Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra kærlega fyrir þessi svör, en hún svaraði ekki síðari spurningu minni. Ég heyri á hæstv. forsætisráðherra að hún lítur þetta mál alvarlegum augum eins og allir gera vegna þess að auðvitað á Seðlabanki Íslands og athafnir hans að vera hafnar yfir allan vafa á hverjum tíma. Seðlabanki Íslands hlýtur að reyna að búa svo um hnútana og ganga þannig fram að hann njóti óskoraðs trausts, sem hann gerir væntanlega ekki núna eins og málum er komið. Því spyr ég forsætisráðherra aftur: Telur hún að seðlabankastjóri og helstu samstarfsmenn hans eigi að axla ábyrgð vegna þess sem fram er komið í þessu máli? Og nýtur seðlabankastjóri trausts hæstv. forsætisráðherra?

Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að við fáum þetta á hreint vegna þess að ég lít svo á að þessi plögg, sem ég hef bæði séð og þau ítargögn sem forsætisráðherra hefur kallað eftir og birt, (Forseti hringir.) séu með þeim hætti að það verði ekki undan því vikist að eitthvað róttækt verði gert í þessum málum.



[11:09]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég lít þetta mál alvarlegum augum. Ég tel að þarna hafi verið gerð mistök í starfsemi og stjórnsýslu Seðlabankans. Ég tel að greinargerðin sýni það með afgerandi hætti. En mistök í stjórnsýslu stofnana gera það ekki að verkum að almennt traust mitt á Seðlabankanum sé ekki enn fyrir hendi. Það er enn fyrir hendi, almennt traust mitt á Seðlabankanum. Hins vegar er mjög mikilvægt, eins og fram kom í mínu fyrra svari við spurningu hv. þingmanns, að við köfum ofan í þetta mál til fulls. Því hef ég sett af stað skoðun á því hvaða viðbótarupplýsingar og gögn þurfa að liggja fyrir til að við komumst algerlega til botns í því. Það liggur líka fyrir, af því að hv. þingmaður kallar eftir aðgerðum, að bankaráð lýsir þeirri skoðun eða afstöðu að endurupptaka þurfi öll þessi mál.

Síðan vil ég minna hv. þingmann á að yfir stendur heildarendurskoðun á lögum um Seðlabankann. Það liggur fyrir að þar þurfum við líka að taka tillit til þess sem fram kemur í greinargerðinni og tryggja að nægjanlega vel sé búið um (Forseti hringir.) þennan þátt í hlutverki Seðlabankans í lögum til að svona mistök endurtaki sig ekki.