149. löggjafarþing — 73. fundur
 1. mars 2019.
ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 214/2018 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn, fyrri umræða.
stjtill., 586. mál (fjármálaþjónusta). — Þskj. 986.

[11:17]
utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 214/2018, sem mælir fyrir um að tilskipanir Evrópuþingsins og ráðsins 2016/97 og 2018/411 verði felldar inn í EES-samninginn. Þar sem lagastoð var ekki fyrir hendi fyrir tilskipun 2016/97 var ákvörðun tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Tilskipun 2016/97 gildir um vátryggingamiðlara, vátryggingafélög, umboðsmenn á vegum þeirra og aðila sem selja vátryggingu sem aukaafurð. Markmið tilskipunarinnar er að vernda hagsmuni þeirra sem fá þjónustu vegna kaupa eða væntanlegra kaupa á vátryggingum. Í tilskipuninni eru gerðar auknar kröfur um upplýsingaskyldu til vátryggingartaka, um hæfi þeirra sem selja vátryggingar og um hvað teljist góðir og gildir viðskiptahættir. Þá eru nánari reglur um gagnkvæma viðurkenningu, eftirlit stjórnvalda og viðurlög. Tilskipun 2018/411 felur einungis í sér breytingu á gildistöku dagsetningar fyrrnefndrar tilskipunar 2016/97, þ.e. frá 23. febrúar 2018 til 1. október 2018.

Virðulegi forseti. Innleiðing tilskipunar 2016/97 hér á landi kallar á breytingar á lögum um vátryggingar. Fyrirhugað er að fjármálaráðherra muni á yfirstandandi löggjafarþingi leggja fram lagafrumvarp til innleiðingar á tilskipuninni. Með frumvarpinu verður annars vegar lögð til heildarlöggjöf um dreifingu vátrygginga sem kemur í stað laga nr. 32/2005, um miðlun vátrygginga, og hins vegar verða lagðar til breytingar á lögum nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.