149. löggjafarþing — 74. fundur
 4. mars 2019.
framtíð microbit-verkefnisins.
fsp. BLG, 536. mál. — Þskj. 870.

[16:19]
Fyrirspyrjandi (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Microbit er lítil tölva á stærð við kreditkort sem á er lítill skjár, 25 bita LED-skjár, og tveir takkar sem hægt er að ýta á. Hægt er að tengja hana við rafhlöðu og líka við straum og forrita ýmislegt inn á milli. Möguleikar og fjölbreytni tölvunnar er merkileg miðað við hversu lítil hún er og að hverjum hún er miðuð, þ.e. grunnskólanemum.

Fyrir nokkrum árum var microbit-verkefnið innleitt undir stjórn Illuga Gunnarssonar, hæstv. menntamálaráðherra á þeim tíma, og Samtaka iðnaðarins sem fjármagnaði ferlið á einhvern hátt. Þá átti að dreifa þessum litlu tölvum til allra nemenda í 6. og 7. bekk í skólum á Íslandi. Menntamálastofnun tók við verkefninu og dreifingunni og setti upp mjög gott ferli þar sem nokkurn veginn allir skólar, ef ekki allir, sem gátu tekið þátt gerðu það. Þetta var gert í samstarfi við Ríkisútvarpið og búin voru til skemmtileg lítil myndbönd sem heita Kóðinn 1.0. Ævar vísindamaður tók einnig þátt í verkefninu og bjó til þætti um forritunarsögu tölvunnar.

Hins vegar hafa heyrst raddir um að verkefnið hafi tekið einhverjum breytingum. Það getur alveg verið ágætt að breyta til og gera hlutina skilvirkari o.s.frv., en uppi hafa verið áhyggjur af því að jafnvel eigi að hætta við verkefnið. Ég hef að vísu í öðrum fyrirspurnum í hliðarherbergjum fengið fullvissu um að svo sé ekki en það eru alla vega einhverjar breytingar á því hvernig tölvunum er dreift til nemenda og hvernig á að fara í verkefnið héðan í frá. Um það er fyrirspurn mín, þ.e. hvernig verkefnið hefur þróast og hvort allir nemendur fái tölvuna til eignar eins og áður eða hvort það séu bara bekkjarsett.

Verkefnið á mjög mikla samleið með þingsályktun sem við samþykktum á síðasta þingi um stafrænar smiðjur. Þetta tæki virkar mjög vel í stafrænum smiðjum til að búa t.d. til þjarka og því um líkt. Það er því kjörið upphaf innleiðingar fjórðu (Forseti hringir.) iðnbyltingarinnar, menntalega séð, í grunnskólum og til framtíðar. Ég hlakka til að heyra álit menntamálaráðherra á framtíð verkefnisins.



[16:22]
mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir fyrirspurnina. Ég vil nefna að nú í ráðuneytinu erum við að móta menntastefnu til ársins 2030 og ljóst að ein af lykiláskorununum í þeirri mótun er að efla verk-, iðn-, starfs- og tæknigreinar í skólakerfinu. Það liggur fyrir, eins og ég hef nefnt áður í þessum ræðustól, að ef við ætlum að takast á við áskoranir fjórðu iðnbyltingarinnar þurfum við að huga sérstaklega vel að þessum greinum. Eins og fram kom núna á ráðstefnu þar sem við vorum að fjalla um Ísland og þessar áskoranir er hlutfall þeirra sem útskrifast úr þessum greinum sérstaklega lágt á Íslandi. Við vitum jafnframt að nýsköpun, rannsóknir og þróun eru drifnar áfram af þessum greinum. Í mínu ráðuneyti erum við að vinna að aðgerðaáætlun um það hvernig við getum eflt þessar greinar. Við erum svo sannarlega að forgangsraða fjármunum í þessa veru. Eitt nýjasta dæmið um það er ný námsleið til stúdentsprófs í tölvuleikjagerð, en búið er að tryggja fjármagn til að hefja kennslu næsta haust.

Microbit-verkefnið, eða öllu heldur áhersla á forritun, er í dag fellt inn í stærri verkefni sem mennta- og menningarmálaráðuneytið vinnur að með Samtökum iðnaðarins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, RÚV og öðrum hagsmunaaðilum. Má þar m.a. nefna Verksmiðjuna, sem er nýsköpunarkeppni ungs fólks á aldrinum 13–16 ára, og Nýsköpunarkeppni grunnskóla, sem er fyrir nemendur 11–13 ára. Í báðum þessum nýsköpunarkeppnum er forritun einn þáttur sem unnið er með. Microbit-verkefnið hefur þróast frá því að snúast um að koma microbit-smátölvum til nemenda í 6. og 7. bekk í það að vera hluti af forritunarkennslu í grunnskólum og hluti af nýsköpun og forritun á verkefnum sem mennta- og menningarmálaráðuneytið vinnur að í samvinnu við hagsmunaaðila.

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr út í það hvort allir nemendur í 6. og 7. bekk fái sína eigin tölvu eins og þegar verkefnið hófst. Því er til að svara að sú breyting var gerð að í stað þess að allir nemendur í 6. og 7. bekk fengju sínar eigin tölvur fá skólarnir þar til gerð bekkjarsett sem nýtast til forritunarkennslu, en eftir slíkum bekkjarsettum hafa skólarnir einmitt kallað. Með þessu er verið að styrkja umgjörð verkefnisins í skólunum og festa það enn frekar í sessi. Skólunum er í sjálfsvald sett að lána nemendum tækin heim ef eftir því er óskað. Samstarfsaðilar um microbit-verkefnið munu áfram keyra vefsvæðið Kóðinn 1.0, sem er öflug upplýsingaveita með myndböndum, forritunarverkefnum og áskorunum fyrir krakkana. Skólarnir nýta sér það eins og þeim hentar. Auk þess eru verkefnin opin til notkunar fyrir alla sem hafa áhuga.

Einnig er spurt að því hver sé framtíð verkefnisins. Microbit er verkfæri sem hægt er að nýta á marga vegu og það er mín ósk og vilji til þess hjá öllum samstarfsaðilum að nýta það sem mest og best í mismunandi verkefnum. Þess ber þó að geta að það eru til önnur verkfæri, svo sem aðrar tegundir smátölva og forritunarkerfi sem er hægt að nýta í forritun og forritunarkennslu. En það er ljóst að microbit-verkefnið hefur náð mikilli útbreiðslu og það er almenn ánægja með það. Ég vil fyrir mitt leyti halda áfram að stuðla að því að auka veg þess og það er auðvitað mjög ánægjulegt, virðulegi forseti, að það hefur vakið marga til meðvitundar og umhugsunar um forritun og margir skólar hafa stóraukið forritunarkennslu í kjölfarið. Það er jákvæð þróun sem vert er að byggja ofan á og þess vegna var ákveðið að láta alla skóla fá smátölvur að þessu sinni og leyfa þeim síðan að vinna þetta áfram á eigin forsendum í kennslu. Það vill svo til að sending á microbit-tölvunum mun berast til landsins í þessari viku og í framhaldinu munu skólarnir geta óskað eftir tölvunum til notkunar.

Virðulegur forseti. Ég fagna þessu frumkvæði hjá þáverandi menntamálaráðherra, Illuga Gunnarssyni, fyrir að hafa vakið máls á þessu og innleitt með þessum hætti. Í mínum huga er svo brýnt að börn og ungmenni hafi aðgengi að mismunandi námsgögnum til að efla sig. Lykilatriði í þessu, og það tekur ákveðinn tíma, er að kennarar hafi gott aðgengi að forritunum og geti tileinkað sér þau.



[16:27]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu sem hefur eiginlega snúist yfir í umræðu um umgjörð forritunar- og nýsköpunarkennslu í grunnskólum og hvatningu til skóla til þess að sinna henni, sem er mjög mikilvægt.

Mig langar að varpa þeirri spurningu inn í umræðuna hvernig þjálfun kennara er háttað og hvernig bein hvatning til kennara fer fram til þess að nýta sér smátölvur. Ég hef verið þeirrar skoðunar að það hafi oft verið stærsti þröskuldurinn í forritun að það skorti á þekkingu kennara á þessu sviði.

Eins langar mig að vita hvernig árangurinn af verkefninu hafi verið metinn eða hvað sé helst hugsað til þess að meta árangurinn. Ég efast ekki um að þetta verkefni er mjög mikilvægt, ekki síst fyrir miðstigin og efstu stigin í grunnskólanum. Svona kennsla er afskaplega mikilvæg þegar búið er að byggja ákveðinn grunn í læsi og stærðfræði.



[16:29]
Fyrirspyrjandi (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að koma inn á upphaf microbit-verkefnisins, hvernig það var innleitt í skólana. Ákveðnir skólar tóku leiðtogahlutverk í því efni og byrjuðu með microbit. Þeir unnu þar ákveðið frumkvöðlastarf og kynntu það síðan í öðrum skólum sem sóttu þá um að fá að taka þátt í microbit-verkefninu. Þá fóru kennarar frá þessum upphafsskólum og víðar til þeirra með nýju tölvurnar og unnu að því að innleiða verkefnið.

Það væri áhugavert að heyra hvernig gengið hefur að dreifa þessari þekkingu, hver aðstoð kennaranna er. Nú er ansi mikið safn upplýsinga í kóðanum og væri mjög slæmt ef það væri vannýtt til framtíðar. Það væri mjög gaman að sjá aðra ítrun á það kennsluefni, gera það betra og viðameira, auka þátttöku nemenda þar o.s.frv.

Ég vil spyrja aftur um aðgengi að tölvunum. Eins og hæstv. menntamálaráðherra sagði er skólum það í sjálfsvald sett að lána út tölvurnar. Mikill hluti af þessu, af nýsköpun, er nefnilega að geta dundað sér við að nota nýtt tæki. Ég velti fyrir mér hvort hægt væri að nálgast tækið á einhvern hátt, t.d. með því að kaupa tæki ef bara er verið að gefa út bekkjarsett. Mér reiknast til að stykkið kosti um 2.000–3.000-kall eða eitthvað svoleiðis þannig að það væri alla vega auðveldlega hægt að bjóða upp á það á einhvern hátt að hver og einn fengi eigið eintak. Það myndi jafnvel hjálpa þeim sem eldri eru og vilja prófa að fara í stafræna smiðju og búa sér til eigin þjark með lítilli, ódýrri tölvu sem er gríðarlega fjölhæf, eins og hér er um að ræða.



[16:31]
mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Microbit-verkefnið er mjög áhugavert og við getum nú þegar dæmt ákveðinn árangur af því, t.d. út frá hinni samfélagslegu umræðu um forritun. Við þekkjum það sem hér erum inni að börn og ungt fólk eru heilmikið í leikjum og öðru slíku og það er áhugaverður þáttur hvernig leikir eru mótaðir, hvernig þetta er gert. Það er svo ríkur þáttur í öllu því sem við erum að gera þegar við förum í sjálfvirknivæðinguna. Mér finnst því mjög brýnt að í íslensku menntakerfi sé lagður góður grunnur að því hvernig tæknin virkar og er forritun klárlega stór þáttur í því.

Eins og með öll góð verkefni, jafnvel þó að verkefnið sé mjög gott og góð hugsun að baki og verkefnið mjög þarft, við erum öll sammála um það, er það venjulega innleiðingin og eftirfylgnin sem skipta mestu máli. Hvað kennarana varðar erum við að vinna enn frekar í því að þeir hafi tækin og tólin til að geta tileinkað sér verkefnið.

Svo vil ég líka að við höldum áfram að huga að innleiðingunni og eftirfylgninni. Eins og fram kemur í máli hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar skiptir aðgengi líka miklu máli og að börnin geti verið með tækið hjá sér til að prófa sig áfram og vinna með forritun. Ég held að það sé annar þáttur sem við þurfum að huga að er varðar innleiðingu og eftirfylgni, þ.e. tíminn sem börnin hafa tækið hjá sér og hverju það skilar.

Ég tel að þetta sé eitt af þeim skólabókardæmum þar sem er komið fram með góða hugmynd, við framfylgjum henni og svo heldur þingheimur áfram að spyrjast fyrir um það og við tryggjum að innleiðingin og eftirfylgnin með verkefninu verði góð. Ég held að við ættum að taka þetta (Forseti hringir.) mál aftur á dagskrá og sinna því með þeim hætti sem við höfum verið að gera. (BLG: Heyr, heyr.)