149. löggjafarþing — 74. fundur
 4. mars 2019.
bætt kjör kvennastétta.
fsp. ÞorstV, 519. mál. — Þskj. 849.

[16:49]
Fyrirspyrjandi (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Herra forseti. Við Íslendingar erum mjög stoltir af því að vera í fararbroddi þegar kemur að jafnrétti kynjanna en þrátt fyrir að margt sé með miklum ágætum í þessum málaflokki standa alltaf eftir þau ónot, getum við sagt, að þegar kemur að þeim atriðum sem að vinnumarkaðnum snúa stöndum við nágrönnum okkar, t.d. á Norðurlöndunum, talsvert að baki. Bæði erum við með kynskiptari vinnumarkað en nágrannar okkar, konur hér fá síður framgang í starfi eða til ábyrgðar en á hinum Norðurlöndunum og talsvert lægra hlutfall kvenna gegnir hér stjórnunarstöðum en þar þekkist. Og síðan er auðvitað vandi hvað varðar stöðu fjölmennra kvennastétta með hátt menntastig sem erfitt er að sjá að fái menntun sína metna til launa.

Í þessu samhengi er mjög áhugavert að skoða t.d. grunnskólakennara þar sem meðallaun samkvæmt síðustu tölum Hagstofunnar, sem eru fyrir árið 2017, eru um 550.000 kr. á mánuði á sama tíma og meðalheildarlaun á vinnumarkaðnum í heild eru um 700.000 kr. Þegar horft er á aðrar vel menntaðar stéttir, hafa verður í huga að hér er hópur starfsmanna með fimm ára háskólamenntun að baki, er þessi stétt með augljóslega umtalsvert lakari kjör ef miðað er við meðallaun í landinu en líka umtalsvert lakari kjör en aðrir háskólamenntaðir starfsmenn, hvort sem er á almennum vinnumarkaði eða hinum opinbera.

Þingflokkur Viðreisnar lagði fram þingsályktunartillögu ásamt fleirum fyrir tæpu ári þar sem hvatt var til þess að farið yrði í átak til að rétta af kjör kvennastétta og efnt til sérstakra samningaviðræðna við aðila vinnumarkaðarins um hvernig mætti lyfta þessum hópum sérstaklega á grundvelli greiningar sem unnin yrði sameiginlega. Það urðu okkur töluverð vonbrigði að sú tillaga var vötnuð verulega út af hálfu þingmeirihlutans. En eftir stóð þó, getum við sagt, hænuskref í rétta átt þar sem Alþingi ályktaði að fela fjármála- og efnahagsráðherra að efna til viðræðna við aðila vinnumarkaðarins og fulltrúa sveitarfélaganna um leiðir til að tryggja jafnræði við launasetningu ólíkra starfsstétta og einnig að ráðist yrði í greiningu á launakjörum ólíkra starfsstétta, m.a. til þess að draga fram kynbundinn launamun og horfa sérstaklega til reynslu sveitarfélaga af starfsmati.

Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig standa þessar viðræður við aðila vinnumarkaðarins og fulltrúa sveitarfélaganna sem Alþingi fól ráðherra að hefja? Og hver varð niðurstaða greiningar á launakjörum ólíkra starfsstétta sem þar var samþykkt að ráðast í ?



[16:53]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Eins og fyrirspyrjanda er kunnugt um er nú unnið að því að innleiða jafnlaunastaðal hjá fyrirtækjum, stofnunum og sveitarfélögum. Ég vonast til þess að til lengri tíma takist að ná þeim markmiðum sem með innleiðingunni er stefnt að. Þannig verði verkefnið sem í þessu felst til framfara fyrir vinnumarkaðinn í landinu. Þessari innleiðingu er ætlað að koma á og viðhalda launajafnrétti á vinnustöðum. Jafnlaunastaðallinn tekur aftur á móti ekki á launamun á milli vinnustaða og markaða en það er viðfangsefni þingsályktunartillögunnar og þessarar fyrirspurnar.

Það er hægt að segja á þessum tímapunkti að á vettvangi kjaramálaráðs, sem er samráðsvettvangur ríkis, sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar, liggja fyrir lokadrög að sameiginlegri launastefnu aðilanna. Þessi stefna verður vonandi kynnt fljótlega. Markmið sameiginlegrar launastefnu er að tryggja jafnræði í launasetningu opinberra starfsmanna, efla gagnsæi um laun, önnur kjör og launaþróun og tryggja samkeppnishæfni hins opinbera á vinnumarkaði. Í stefnunni er einnig fjallað um að ríki og sveitarfélög muni saman vinna að betri launatölfræði og samræmdri nýtingu upplýsinga um laun og launaþróun. Aðilarnir sammælast einnig um það, þ.e. opinberir vinnuveitendur, að vinna saman að greiningu á launamun og samræmingu kjara milli markaða.

Opinberir vinnuveitendur munu vinna að þessu á næstunni og munu auðvitað í framhaldinu og í réttu samhengi eiga í samtali við stéttarfélög og heildarsamtök opinberra starfsmanna.

Hvað varðar greiningarvinnuna hefur hún staðið yfir. Hún hefur staðið yfir í lengri tíma vegna þess að í tengslum við breytingar á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna haustið 2016 var skrifað undir yfirlýsingu þess efnis að í framhaldinu yrði farið í það verkefni að meta launamun milli hins opinbera og almenna markaðarins. Sú vinna er í gangi með þátttöku heildarsamtaka opinberra starfsmanna. Niðurstöðu þeirrar greiningarvinnu er að vænta á næstu mánuðum en eins og ljóst má vera er það flókið viðfangsefni sem menn hafa ráðist hér í. Ef vel tekst til getur niðurstaða þeirrar vinnu orðið innlegg í umræðu um launakjör ólíkra starfsstétta.

Það verður að segjast eins og er að þrátt fyrir að maður vilji leyfa sér að vera bjartsýnn á að það fáist niðurstaða í greiningarvinnunni sem allir aðilar eru sammála um að byggja á er það ekki reynsla undanfarinna ára, eða áratuga ætti ég kannski frekar að segja, að auðvelt sé að fá aðila á opinbera markaðnum annars vegar og almenna hins vegar til að líta mál af þessum toga sömu augum. Þar inn í spila fjölmargir þættir. Framan af voru lífeyrisréttindin sérstök hindrun í vegi þess að hægt væri að bera saman kjörin. Það var þess vegna ekki tilviljun að ákveðnu skrefi var náð í lok árs 2016, en það var einmitt þá sem við gerðum breytingar á lífeyriskerfunum með þeim hætti að hægt var að taka þann þátt til hliðar og segja: Nú höfum við náð að jafna réttindin hvað lífeyrismálin varðar og getum þá beint sjónum okkar frekar að hinu. Það sem verður áfram inni í umræðunni, sé ég fyrir mér, eru ýmis réttindatengd atriði, t.d. lög sem gilda um opinbera starfsmenn. Við getum tekið sem dæmi áminningarferli og aðra slíka þætti. Hvernig ætla menn að meta það til virðis þegar verið er að bera saman kjör á almenna markaðnum og hinum opinbera? En hafandi sagt þetta bind ég vonir við að við fáum góða niðurstöðu.

Ég hef hér lýst tveimur dæmum um (Forseti hringir.) samstarfsverkefni aðila vinnumarkaðarins sem snúa að þessari fyrirspurn og það hefur verið ágætt samstarf sömuleiðis um launatölfræðina. Við vitum að vönduð launatölfræði er forsenda þess að hægt sé að ráðast í greiningu á kjörum ólíkra starfsstétta og kynbundnum launamun.



[16:58]
Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Mig langar aðeins til að lesa úr umsögn Kvenréttindafélags Íslands um þingsályktunartillögu Viðreisnar um þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta. Umsögnin nær svo vel utan um stöðuna. Þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Ein af helstu ástæðum langvarandi kynbundins kjaramismunar er sú staðreynd að fólk sem starfar innan starfsgreina þar sem konur eru í meiri hluta fær að jafnaði lægri laun en fólk sem starfar innan starfsgreina þar sem karlar eru í meiri hluta. Við búum því miður enn í samfélagi þar sem kvennastörf eru minna metin en karlastörf, þar sem framlag kvenna til samfélagsins er enn talið minna virði en framlag karla.“

Forseti. Ég hef áhuga á að heyra álit hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra á því hvers vegna samfélagið meti störf kvenna minna en störf karla og hvort ráðherra telji eðlilegt að löggjafinn stígi inn í til að leiðrétta þetta misrétti, hvort ráðherra telji þetta yfir höfuð vera misrétti eða hvort þetta sé mögulega bara eðlileg niðurstaða (Forseti hringir.) hins frjálsa markaðar.



[16:59]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það eru áhugaverðar tölur sem sjást í lífskjaraviðmiðum OECD, eða „Better Life Index“ eins og það útleggst. Þar er fjallað um þessa stöðu milli vinnutíma, magns vinnutíma, launa og frítíma. Það er mjög áhugavert að skoða t.d. að karlmenn, samkvæmt tölum frá Íslandi, vinna mun meira en kvenmenn. En einhverra hluta vegna eru kvenmenn samt með minni frítíma en karlmenn, þrátt fyrir að vinna minna. Það er einfaldlega af því að tekið er tillit til annarra ákveðinna starfa sem eru ógreidd störf.

Ekki er nóg með að konur vinni minna af launuðum störfum, þær vinna líka meira af ólaunuðum störfum og fá fyrir vikið minni frítíma en karlmenn. Það er önnur skekkja þarna sem væri vert að taka tillit til í þessu samhengi.



[17:01]
Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Oddnýjar Harðardóttur um skort á hjúkrunarfræðingum á síðasta ári kemur fram að næstum 300 hjúkrunarfræðinga vanti til að manna fjármögnuð stöðugildi á heilbrigðisstofnunum. Starfshlutfall þeirra og sjúkraliða er líka allt of lítið. Við munum öll líka hvernig háttað er samtali ríkisins við ljósmæður sem þurfa nú að standa í málaferlum til að fá greitt fyrir þá vinnu sem þær inntu af hendi þegar þær áttu að heita í verkfalli. Nú eru samningar þessara fjölmennu kvennastétta að losna hjá BSRB og BHM. Ýmis dæmi er um að (Forseti hringir.) þegar kemur að því að semja við fjölmennar kvennastéttir blasir kannski ekki beinlínis við vilji stjórnvalda til að bæta kjör þeirra.



[17:02]
Fyrirspyrjandi (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra svarið. Ég verð þó eiginlega að viðurkenna að mér fannst þetta vera löng útgáfu af „við erum ekkert að gera í málinu“. Stjórnvöld eiga vissulega í kjaraviðræðum og eru að móta kjarastefnu út frá því eins og eðlilegt er og gert er í aðdraganda allra kjaraviðræðna. Og vissulega er verið að vinna launagreiningu vegna samkomulagsins um lífeyrismálin, en það nær ekki utan um það sem hér er verið að tala um. Hér er verið að tala um sértæka greiningu á stöðu kvennastétta, bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði, ekkert endilega bara á milli þessara tveggja markaða, og í öðru lagi, sem var auðvitað kjarninn í hinni upprunalegu þingsályktunartillögu, að utan um þennan vanda verður ekki náð öðruvísi en að einhvers konar samkomulag náist milli aðilanna um að breyta þessu. Við þekkjum alveg höfrungahlaupið sem verður á vinnumarkaði í hvert skipti sem reynt er að lyfta einstökum hópum. Liggja þarf fyrir samþykki þeirra sem ekki eiga að njóta hækkana til að hægt sé að lyfta þessum kvennastéttum sérstaklega.

Það er dálítið sérstakt og er eiginlega svo skýrt dæmi um þetta verðmætamat okkar á vinnumarkaði. Við byggjum samfélag á þekkingu en borgum kennurum lökustu launin. Við borgum þeim kennurum sem meðhöndla yngstu og viðkvæmustu einstaklingana minnst og svo fer það hækkandi upp á háskólastigið. Ég fullyrði að það sé talsvert erfiðara að standa í kennslu á leikskólastigi eða grunnskólastigi og hafi talsvert viðkvæmari eða meiri áhrif, getum við sagt, mótunaráhrif á börnin og einstaklingana. En þetta er hið undirliggjandi verðmætamat samfélagsins. Við vanmetum umönnunarstörf og menntunarstörf verulega og það bitnar auðvitað á þessum fjölmennu kvennastéttum.

Ég vil minna hæstv. ráðherra á að á föstudaginn er alþjóðlegur baráttudagur kvenna og ég vona svo sannarlega að ríkisstjórnin (Forseti hringir.) taki sér tak í þessu máli og sýni meiri metnað og að ótti minn reynist innstæðulaus um að einmitt þær breytingar sem gerðar voru á þessu máli síðasta vor hafi verið markvisst til að drepa því á dreif.



[17:05]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að segja að ég held að menn ættu ekki að nálgast þetta risavaxna verkefni sem sett er á dagskrá þannig að það sé einhvers konar aumingjaskapur hjá ríkisstjórninni að vera ekki bara búin að leysa það. Við erum að tala um þróun í samfélagi sem hefur gerst á heilli öld og menn stíga hér upp í ræðustól og segja: Bíddu, af hverju leysa menn þetta ekki bara í tengslum við kjarasamninga í eitt skiptið og þá er þetta frá svona eins og hver önnur óværa? Hlutirnir gerast auðvitað ekki þannig.

Það er hins vegar rétt að breiða samstöðu þarf milli allra sem koma að málinu til að svona hlutir geti hnikast til. Þetta er líka spurning um að skoða fjölbreyttar leiðir. Ég held að við þurfum aðeins að opna kjarasamningaumhverfið til þess t.d. að þeir sem skara fram úr geti notið góðs af því.

Hér var minnst á kennarastéttina heilt yfir. Það má alveg spyrja hvað hafi valdið því að þær stéttir hafi setið eftir í launakjörum í svona langan tíma. Þar koma sveitarfélögin líka að málum eftir að þau tóku við grunnskólastiginu. Ég get tekið undir með hv. þingmanni þegar kemur að mikilvægi þess að þar sé eðlileg umbun fyrir mikilvæg störf, vegna þess að það hefur sýnt sig að þær þjóðir sem greiða hæst laun fyrir kennarastarfið skila á sama tíma betri árangri í menntamálunum heilt yfir. Reyndar er það þannig að í þeim löndum sem þykja skara fram úr í samanburði þjóða á menntasviðinu komast færri að en vilja í kennarastörf. Það er sem sagt eftirsótt að verða kennari og er vel greitt fyrir það og (Forseti hringir.) þar njóta kennarar líka viðeigandi, skulum við segja, virðingar í samfélaginu.

En of stuttur tími er til að kryfja öll þau risastóru álitamál sem hér voru sett á dagskrá. Hvers vegna hefur þetta gerst á þessum langa tíma? Ég hef ekki svar við því hér á örfáum sekúndum.