149. löggjafarþing — 74. fundur
 4. mars 2019.
vöktun náttúruvár.
fsp. ATG, 546. mál. — Þskj. 915.

[17:22]
Fyrirspyrjandi (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Herra forseti. Í þessari fyrirspurn færum við okkur hæstv. ráðherra utan af sjó og upp á land vegna þess að hér er spurt um náttúruvá sem hefur verið töluvert mikið í umræðunni, stundum hér í þingsal líka. Hún er eins og menn vita af ýmsum toga. Ég ætla að nefna það helsta. Við getum talað um veðurfarsöfgar, bæði ofsaveður og snjóflóð, hækkun á hafsyfirborði, sem er töluverð, sem fer svolítið eftir því hvar við erum stödd á landinu. Það er þiðnun sífrera á Íslandi, sérstaklega í fjöllum þar sem berghlaup og skriður geta komið í kjölfarið. Það er ágangur jökulvatna vegna þess að nú er tímabundið aukið afrennsli frá jöklum. Svo eru það jökulhlaupin margfrægu sem geta verið af orsökum eins og jarðhita, eldgosum, brostnum jökulstíflum og öðru slíku, og svo er það eldvirknin sjálf sem kann að aukast nú þegar fargi léttir af þeim jöklum sem hylja stórar eldstöðvar og svo auðvitað jarðskjálftar. Staðreyndin er sú að síðustu 100, jafnvel 200, árin höfum við sloppið nokkuð vel, einkum með tilliti til erfiðra eldgosa. Þau eru einna válegust af þeim náttúruvám sem ég taldi upp, ef þau eru mjög öflug. Við gætum nefnt Heklugosið 1104, Öræfajökul 1362, Veiðivatnagosið 1480 og svo Skaftárelda 1783.

Eldvirkni af þessari tegund brestur á nokkrum sinnum á hverju árþúsundi og við eigum eftir að upplifa eitthvað slíkt eftir nokkur ár, áratugi eða í síðasta lagi einhverjar aldir. Við sjáum núna stórar megineldstöðvar, fimm af þeim, vera að safna í sig kviku, Grímsvötn, Heklu, Öræfajökul, Bárðarbungu og Kötlu. Þær þrjár síðastnefndu geta verið mjög skeinuhættar og full ástæða er til að fylgjast vandlega með þeim.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig getum við eflt vöktun sem gagnast í andófi gegn náttúruvá, hvaðan fáum við fjármagn og hvar á að vista slíkt fjármagn og slíka sjóði? Þessar áhyggjur mínar eru kannski ekki mjög ígrundaðar og frekar óhlutlægar. Þetta er einhver brjósttilfinning sem ég hef en alla vega liggur að baki ósk um að hafa sem traustastar upplýsingar þegar kemur að náttúruvá. Við skulum kalla þetta vísindalegar áhyggjur.



[17:25]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni kærlega fyrir fyrirspurnina. Veðurstofa Íslands fylgist með ástandi náttúrunnar með því að vakta veður, vatn og jörð. Um er að ræða samþætta náttúruvárvöktun sem er sennilega einstakt á heimsvísu. Stofnunin er með vakt allan sólarhringinn árið um kring og nýtir sér til þess umfangsmikið net mismunandi mælikerfa við vöktun og greiningu á fyrirboðum náttúruvár, svo sem ofsaveðrum, ofanflóðum, vatnsflóðum, jökulhlaupum, jarðskjálftum og eldgosum.

Vöktun og rannsóknastarf Veðurstofunnar á öllum þessum ólíku eðlisþáttum jarðar er ekki síður mikilvægt í ljósi nýrra áskorana vegna loftslagsbreytinga, eins og hv. þingmaður kom aðeins inn á. Veðurstofa Íslands telur að loftslagsbreytingar muni hafa áhrif á margs konar náttúruvá. Veðurstofan hefur markvisst bætt við og aukið vöktun á lykileldstöðvum landsins sem sýnt hafa aukna virkni á undanförnum árum eins og hv. þingmaður nefndi áðan. Má nefna Heklu, Kötlu, Bárðarbungu og Grímsvötn.

Nýlega hefur síðan virkni í Öræfajökli aukist og hafa vöktunarkerfi vegna þessa verið styrkt umtalsvert, m.a. vegna þess að fyrri gos í eldstöðinni hafa valdið verulegum umhverfis- og samfélagslegum áhrifum eins og við þekkjum. Með mikilli aukningu ferðamanna á því svæði hefur tjónnæmnin aukist verulega og hættumatsvinna sýnir að viðbragðstími vegna eldvirkni verði aðeins bættur með betri vöktun. Að mati Veðurstofunnar eru vöktunarkerfin á þessum eldfjöllum viðunandi til að unnt sé að gefa út viðvaranir með nægum fyrirvara að því gefnu að fyrirboðar verði með þeim hætti sem eru þekktir í dag.

Veðurstofan hefur lagt fram áætlun um að bæta í þessi vöktunarkerfi, þ.e. jarð-, vatna- og veðursjármælakerfa til framtíðar litið. Markmiðið er að mælakerfin skili inn nægjanlega góðum upplýsingum fyrir náttúruváreftirlitið svo hægt verði að meta stöðuna og fylgja því eftir með útgáfu viðvarana og spáa með ásættanlegum fyrirvara. Áætlunin tekur á þeim gloppum sem nú eru þegar í kerfinu og hefur Veðurstofan gert fjárfestingar- og rekstraráætlun til næstu fimm ára, en í heild nær áætlunin til 15 ára.

Hvað varðar vöktun á óstöðugum fjallshlíðum er slík vöktun til staðar á nokkrum stöðum á landinu. Til dæmis uppgötvaðist nýlega sprunga í berggrunni ofan við Svínafellsjökul í Öræfum. Þar er talið að stórt berghlaup gæti fallið niður á jökulinn og nauðsynlegt er að vakta sprunguna, meta hættu fyrir byggð og ferðamannastaði neðan sporðsins. Í því skyni var sett upp mælakerfi á Svínafellsheiði árið 2018.

Meðal annars vegna nýlegra skriðu- og berghlaupa sem kunna að tengjast loftslagsbreytingum, sem hafa áhrif á sífrera og hörfun jökla, hefur Veðurstofan útbúið minnisblað að minni beiðni og sett fram tillögur sem hafa verið til skoðunar í ráðuneytinu um eflingu skriðuvöktunar og rannsókna á skriðuhættu á Íslandi. Þar er m.a. gert ráð fyrir að beita fjarkönnun til að kortleggja möguleg berghlaupssvæði landsins, sem myndi svo aftur leiða til sértækrar vöktunar þeirra svæða. Í tillögunum er einnig lagt til að efla vöktun á skyndiflóðum.

En sem fyrr hefur veðurvá langmest áhrif á samfélagið. Veðursjá er mælitæki sem veitir hvað besta vitneskju um ástand lofthjúpsins í rauntíma. Veðursjá getur greint um langa vegu stöðu og útbreiðslu veðurkerfa og agna, eins og ösku, sem og gefið mat á framreiknuðum komutíma þeirra. Þétt net veðursjáa er því ein helsta stoð rauntímavöktunar í hinum vestræna heimi og auðveldar til muna eftirlit með þróun og hreyfingu veðurkerfa.

Á Íslandi eru í dag tvær fastar veðursjár en skilvirkt sjónsvið þeirra nær eingöngu til 30–40% landsins. Utan sjónsviðs þessara veðursjáa eru mikilvægar lífæðar samfélagsins eins og flugvellir, þjóðvegir og dreifikerfi raforku, sem og upptakasvæði snjóflóða á Vestfjörðum og Norðurlandi. Hið sama á við um hafsvæðið norður og suður af landinu sem varða skuldbindingar landsins gagnvart leit og björgun. Að mínu mati er mikilvægt að fylla í þessar eyður með uppbyggingu landskerfis veðursjáa til vöktunar á veðri og tel ég æskilegt að það gerist einmitt á næstu árum.



[17:30]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við um vöktun náttúruvár sem er eitt af þeim verkefnum sem eru viðvarandi í okkar samfélagi og mikilvægt er að velta fyrir okkur hvernig við getum bætt þá vöktun stöðugt. Þess vegna langar mig að blanda mér aðeins í umræðuna og spyrja hvort mikill kostnaðarauki fylgi því að bæta þessa vöktun eða hvort þetta sé í rauninni meira spurning um — þá meina ég aukinn rekstrarkostnað — að koma upp ákveðnu grunnmælakerfi. Síðan velti ég fyrir mér hvort við eigum nógu góða loftmyndagrunna, t.d. varðandi vatnafar, til að skrá nákvæmlega þar sem land lyftist eða rís og eflaust er fleira sem mætti tengja slíku.



[17:31]
Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hv. fyrirspyrjanda, Ara Trausta Guðmundssyni, fyrir þessa tímabæru fyrirspurn og get ég tekið undir allt sem hann hefur sagt.

Ég vil beina sjónum mínum að eldgosavánni, sérstaklega Öræfajökli sem er á Suðurlandi, og leggja inn í þessa umræðu mikilvægi þess sem ég tel vera að efla almannavarnakerfið, styðja vel við það og efla, sérstaklega á Suðurlandi, og mikilvægi þess að unnið sé vandað og ítarlegt hættumat með aðkomu færustu vísindamanna og síðan verði gerðar vandaðar viðbragðsáætlanir í kjölfarið. Það hefur sýnt sig að Öræfajökull er mjög hættulegt eldfjall og er gosið árið 1362 dæmi um það. Ég vil líka benda á, því að ég hef engan tíma, að efling lögreglu er auðvitað mjög mikilvæg. Fyrsta viðbragð skiptir öllu máli. Þetta á líka við um aðra viðbragðsaðila.



[17:32]
Fyrirspyrjandi (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svar hans. Minnst var á Veðurstofu Íslands. Þar hefur verið unnið frábært starf. Á því leikur enginn vafi og samvinna við erlenda aðila hefur aukist og skiptir verulega miklu máli í því samstarfi.

Hins vegar hafa komið fram frómar óskir frá bæði Veðurstofu Íslands og vísindasamfélaginu, t.d. jarðvísindamönnum hjá Háskóla Íslands, um aukin framlög í þennan málaflokk. Það þarf að bæta í fastnetið, þetta fjölþætta fastnet sem hæstv. ráðherra minntist á, og þá er stóra spurningin: Hvaðan kemur það fé og hversu háar eru þær upphæðir? Hvar á að vista þær? Þetta er núna vistað að hluta til í Ofanflóðasjóði, t.d. eldfjallarannsóknir, sem er kannski ekki eðlilegt. Það þarf að búa þannig um hnútana að hér sé um miðlæga þjónustu að ræða og þetta sé á einni hendi, að náttúruvá og rannsóknir séu á einni hendi, þeim stýrt alla vega þannig, og að þær séu fjármagnaðar þannig að ekki séu margir sjóðir sem um það fjalla.

Ég tek síðan undir það að efla þarf almannavarnir. Það hefur sýnt sig að þar er eitt og annað sem þarf að skoða mjög vandlega. Það er spurning hvort ekki þurfi að færa stjórnun þeirra mála frá ríkislögreglustjóra til forsætisráðuneytisins. Ég hef rætt það héðan úr pontu. Og svona í blálokin vil ég líka nefna að efla þarf flóðavarnir á landi vegna þess sem ég hef nefnt, ágangur jökulvatna og jökulhlaup og eldgos og annað slíkt, að þær 70 milljónir sem nú eru settar í flóðavarnir duga hvergi til.

Ég þakka enn og aftur fyrir umræðuna og vona að hún skili einhverju inn í aðgerðir í þessum málum.



[17:35]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Virðulegi forseti. Hér var spurt hvort um væri að ræða nægjanlega vöktun á þessum þáttum. Því er til að svara að það getur verið eitthvað mismunandi eftir því hvaða þættir eru þar undir. Ég vil nefna það sem kom fram í máli mínu áðan varðandi eldfjöllin, að það er a.m.k. mat Veðurstofunnar að vöktunarkerfin á þeim eldfjöllum séu viðunandi til að hægt sé að gefa út viðvaranir, sem er gríðarlega mikilvægt fyrir öryggi fólks, ekki síst þar sem enn fleiri ferðamenn eru á mörgum af þeim svæðum.

Varðandi loftmyndir af svæðunum kom fram mjög áhugaverð athugasemd sem ég tel vert að skoða, sérstaklega í tengslum við þá þætti sem snúa að náttúruvánni og væri spennandi að kafa betur ofan í það.

Þar sem við vitum klárlega að við þurfum að auka í vil ég nefna sérstaklega veðursjárnar sem ég kom aðeins inn á áðan. Þar er kostnaður sem hefur verið greiddur í hið minnsta að hluta til af alþjóðasamfélaginu því að þetta nýtist mun fleirum en okkur og er nokkuð sem þarf að skoða núna og ég er reyndar með það til skoðunar í ráðuneytinu.

Síðan vil ég almennt nefna að lokum að ég tel að hamfarasjóður gæti tekið við hlutverki Ofanflóðasjóðs og Bjargráðasjóðs, eða hluta af honum, sem myndi ná bæði til rannsóknarhlutans, hvort sem það eru snjóflóð, skriðuföll, vatnsföll, sjávarföll o.s.frv., og síðan til uppbyggingar forvarna. Það er núna til skoðunar að keyra það mál áfram sem hefur verið nokkuð lengi í umræðunni og undirbúningi.

Ég þakka enn og aftur fyrir þessa góðu umræðu