149. löggjafarþing — 74. fundur
 4. mars 2019.
svigrúm til launahækkana.
fsp. BLG, 505. mál. — Þskj. 830.

[17:37]
Fyrirspyrjandi (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Í umræðunni undanfarið hefur dálítið verið fjallað um svigrúm til launahækkana og sitt sýnist hverjum um hvað það þýðir og hvað það er. Með hliðsjón af því biðst ég afsökunar á fyrstu þremur spurningunum þar sem er dálítil talnaupptalning sem er kannski ekki alveg viðeigandi í munnlegri fyrirspurn, en hún er þó nauðsynleg í þessu samhengi til að fá heildarmyndina af því sem gæti verið svigrúm til launahækkana. Í þeim spyr ég um heildarupphæð allra launagreiðslna á undanförnum fimm árum, landsframleiðslu á undanförnum fimm árum og hver má búast við að verði heildarupphæð launagreiðslna og landsframleiðslu á yfirstandandi ári.

Svo er það fjórða spurningin sem er í raun aðalspurningin og sem ég vonast til að mesta umræðan verði um: Telur ráðherra eðlilegt að horfa til hlutfalls heildarupphæðar launagreiðslna á móti landsframleiðslu þegar skoða á svigrúm til launahækkana? Hvaða önnur viðmið telur ráðherra að mætti helst styðjast við svo að umræða um svigrúm til launahækkana geti byggst á gögnum?

Í þessum fyrirspurnatíma var t.d. fjallað um fjórðu iðnbyltinguna og gagnatrúna, ef það má orða þannig, sem hæstv. forsætisráðherra nefndi fyrr í dag, en þar kemur sjálfvirknivæðingin inn í sem er ákveðin framleiðniaukning líka. Þá má spyrja hvert slík framleiðniaukning fer eða aðhaldskrafa. Sést hún vel í þessu hlutfalli milli heildarlauna og landsframleiðslu? Hvernig dreifist framleiðniaukningin, hvert fer hún? Fer hún t.d. til neytenda vegna aukinnar samkeppnishæfni eða til þeirra sem fá laun fyrir þau störf sem eru þá eftir eða dreifist framleiðniaukningin á einhvern annan hátt?

Þetta er mjög viðamikil spurning en þetta er upphafspunkturinn í rauninni, að horfa til stóra samhengisins. Sýnir það okkur eitthvað um það svigrúm til launahækkana sem talað er um? Eða þurfum við að skoða nánar þau gögn sem þar liggja undir? Að sjálfsögðu þarf að gera það ef við ætluðum að fjalla um laun einstakra stétta og því um líkt.

Ég hlakka til að eiga orðastað við ráðherra um þetta. Þar sem hún er með Hagstofuna á sínum snærum beini ég spurningunni til hennar en ekki fjármála- og efnahagsráðherra sem ég bjóst upphaflega við að ég myndi eiga samtal við. En þetta er tilraun til að hafa þessa umræðu gagnadrifna.



[17:40]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni þessa fjórskiptu fyrirspurn. Fyrst er spurt um heildarupphæð allra launagreiðslna og heildarupphæð landsframleiðslu á árunum 2014–2018 og hvernig búast megi við að þessar stærðir þróist á þessu ári miðað við forsendur fjárlaga.

Því er til að svara að ef við lítum til ársins 2014, sem er það ár sem hv. þingmaður miðar við sem upphafspunkt í fyrirspurn sinni, voru heildarlaun og tengd gjöld 1.050 milljarðar árið 2014 en á árinu 2018 voru þau orðin um 1.570 milljarðar kr.

Svo að ég fari í spurningu þrjú er á þessu ári reiknað með því að heildarlaun og tengd gjöld nemi um 1.700 milljörðum.

Ef ég fer síðan í landsframleiðsluna er því til að svara að árið 2014 var landsframleiðsla um 2.070 milljarðar en hafði aukist í um 2.800 milljarða árið 2018. Ef við lítum til þessa árs má búast við því að landsframleiðsla nemi um 3.000 milljörðum.

Hv. þingmaður spyr sömuleiðis hvort ráðherra telji eðlilegt að horfa til hlutfalls launa á móti landsframleiðslu þegar skoða eigi svigrúm til launahækkana og hvaða önnur viðmið mætti helst styðjast við, svo sem að umræða um svigrúm til launahækkana geti byggst á gögnum.

Ég vil fyrst taka undir með hv. þingmanni um að það er mjög mikilvægt að við gerum betur. Ég kom lítillega að þessu í umræðu um fyrirspurn í dag um fjórðu iðnbyltinguna. Það er mjög mikilvægt að við skipuleggjum okkur betur sem samfélag þegar við ræðum t.d. laun. Eitt af því sem við höfum verið að vinna að er gagnagrunnurinn tekjusagan.is, sem ég nefndi í upphafi, sem miðast annars vegar við raungögn hvað varðar gögn úr skattskýrslum og hins vegar við ákveðnar, gefnar forsendur, sem miðast þá við gefnar forsendur um upphæðir húsnæðisbóta og barnabóta. Það ætti að gefa nokkuð raunsanna mynd af tekjuþróun þó að við séum með blöndu af gefnum forsendum og raungögnum.

Síðan erum við búin að vera að vinna að því að smíða ákveðinn ramma um launatölfræði. Það er mjög mikilvægt að aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld skipi sameiginlega launatölfræðinefnd sem sammælist um á hvaða gögnum skuli byggt áður en ráðist er í gerð kjarasamninga. Það hefur auðvitað verið vandi að fólk deilir um forsendur. Sú er ekki raunin annars staðar á Norðurlöndum. Þar eru sjálfstæðar launatölfræðinefndir þar sem saman koma aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvalda sem birta hreinlega forsendur hvers árs árlega eða með einhverju vissu árabili. Þær forsendur eru undirstaðan fyrir kjarasamninga. Ég tek undir með hv. þingmanni þegar hann talar um nauðsyn góðra gagna.

Hv. þingmaður velti svo fyrir sér hvaða önnur viðmið væru. Þá vil ég nefna að í skýrslu Gylfa Zoëga um efnahagsaðstæður í aðdraganda kjarasamninga, sem hann skrifaði fyrir forsætisráðuneytið síðasta sumar, er ekki hægt að setja samasemmerki milli þess að bæta lífskjör þjóðar og hækka laun fyrir vinnu. Launin fara eftir verðmæti þjóðarframleiðslunnar, þ.e. framleiðni, viðskiptakjörum, atvinnustigi og erlendri skuldastöðu, eins og hv. þingmaður nefnir. Kjarasamningar hafa síðan áhrif á skiptingu tekna milli hópa launafólks og á milli fjármagnseigenda og launafólks. Þannig getur launahækkun falið í sér tilfærslu á tekjum frá fjármagnseigendum til launafólks en hækkar ekki endilega heildartekjur þjóðarinnar.

Hlutfall launa af landsframleiðslu hefur hækkað úr 50,5% árið 2014 í tæp 56% árið 2018. Við spáum því að hlutfallið hækki í tæp 57% á þessu ári, sem segir okkur að launahlutfallið er óvenjuhátt hér á landi um þessar mundir og hæst á Íslandi af OECD-ríkjum á árinu 2017. Það er mikilvæg staðreynd. En þessar staðreyndir allar saman segja ekki endilega allt um hvert svigrúmið er eða hvað er sanngjarnt, heldur sýna þær bara tenginguna milli launafólks og fjármagnseigenda.

Um önnur viðmið sem mættu koma að gagni vil ég aftur nefna skýrslu Gylfa Zoëga, sem segir að almennt svigrúm til almennra launahækkana, þ.e. kjarasamningsbundinna hækkana og launaskriðs til lengri tíma, sé samtalan af áætlaðri framleiðniaukningu sem ætla mætti að væri að jafnaði 1,5% og verðbólgumarkmiðs Seðlabankans, sem er 2,5% miðað við að viðskiptakjör séu óbreytt.

Þaðan kemur talan 4%, sem haldið hefur verið á lofti núna í kringum umræðu um kjarasamninga. Gylfi bendir hins vegar líka á að lífskjör ákvarðist af ýmsu öðru. Það er sú umræða sem við höfum átt við aðila vinnumarkaðarins um hvað stjórnvöld geti gert. Þá vil ég nefna t.d. húsnæðiskostnað sem hefur vaxið hjá (Forseti hringir.) mörgu launafólki, vaxtastig, og ekki síður tíma sem eytt er í annað en vinnu, frítíma. Ég kem nánar að þessum málum í mínu síðara svari.



[17:46]
Fyrirspyrjandi (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Kannski tóku færri þátt í umræðunni af því að þetta er síðasta mál á dagskrá en ég held að þetta sé nokkuð sem við ættum tvímælalaust að horfa meira til. Mér finnst þessar niðurstöður mjög áhugaverðar um hvernig hlutfall launa af vergri landsframleiðslu hefur hækkað síðan 2014. Í stærra samhenginu, alla vega á þessum árum, bendir það til þess, eins og hæstv. forsætisráðherra segir, að skiptingin sé frekar í áttina að launafólki hvað þetta varðar frekar en annað.

Þetta er einmitt mjög flókið þar sem er komið inn á húsnæðisþörf og vaxtastig, sem hefur að vísu verið mjög lágt sögulega séð á Íslandi á undanförnum árum. Það er mjög jákvætt, en á sama tíma hefur húsnæðisverð rokið upp sem aldrei fyrr. Það hefur tvímælalaust mismikil áhrif á ólíka tekjuhópa sem bendir til þess að maður þurfi að horfa nánar á það hvernig dreifingin skiptist á milli tekjuhópa. Við tölum alltaf um meðaltal og hvernig meðaltalið hækkar og hversu fallegt það er, en þegar maður horfir á þessi tvö gildi launa sem oftast er vísað í, miðgildi launa og meðaltal launa, sést að þar á er rosalega mikill munur. Það gefur vísbendingu um ákveðna misskiptingu sem aftur segir okkur að flatar krónutöluhækkanir, t.d. á húsnæði og leigu, hafa meiri áhrif á þá sem eru á lægri launum.

Ég fagna a.m.k. upphafinu að því að fá inn í umræðuna tölur um það hvert svigrúmið er. Það hvernig svigrúmið er er kannski frekar það sem við ættum að spyrja um í framtíðinni.



[17:48]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir og tek undir lokaorð hans, hvernig svigrúmið er, af því að það er auðvitað margt sem hefur áhrif á lífskjör og ráðstöfunartekjur annað en eingöngu launin. Ég nefndi húsnæðismálin. Það er ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin hefur lagt mikla áherslu á að við höldum áfram uppbyggingu á félagslegu húsnæði því að við sjáum fylgni milli þess að hinir tekjulægri greiði háa leigu þannig að hærra hlutfall af ráðstöfunartekjum þeirra fer í húsnæði og ekki aðeins hærra hlutfall heldur jafnvel fleiri krónur af því að um er að ræða leigumarkað sem enn þarf verulega á því að halda að hann verði byggður upp með félagslegum hætti.

Ég vil nefna annað dæmi sem m.a. er fjallað um í nýrri skýrslu um lífskjör barna á árunum 2004–2016, fæðingarorlof. Þegar við berum þær niðurstöður saman við þá mynd sem birtist í tekjusögugrunninum sjáum við, þó að það sé erfitt að tala út frá meðaltölum, að við þurfum sérstaklega að horfa til ungs fólks, það hefur fremur setið eftir en þeir sem eldri eru. Einstæðir foreldrar eru þeir sem sérstaklega þurfa á stuðningi að halda og þá eigum við að horfa til þess hvað við getum gert t.d. þegar kemur að niðurgreiðslu tómstunda, skólamáltíðum og lengingu fæðingarorlofs, eins og höfundur þessarar skýrslu vísar til og við höfum auðvitað líka lýst þeirri ætlan okkar að lengja fæðingarorlof. Það er risastórt mál til að brúa umönnunarbil sem er dýrt en hefur líka mikil áhrif á lífskjör ungra barnafjölskyldna, sem upplifa ekki bara fjárhagslegan kostnað heldur líka mikla streitu við að finna rými fyrir börnin sín.

Það er því margt sem stjórnvöld geta gert til að bæta lífskjör. Vaxtastig er lágt í sögulegu samhengi eins og hv. þingmaður nefndi og það er mjög mikilvægt að þær ákvarðanir sem við tökum hér verði ekki til þess að hækka vexti til lengri tíma, því að það er auðvitað líka risastórt lífskjaramál. (Forseti hringir.)

Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða fyrirspurn, þetta er einmitt eitt af því sem við þurfum að gera meira af, að greina (Forseti hringir.) hvernig við getum bætt lífskjör almennings og séð til þess að það gerist með réttlátum hætti.