149. löggjafarþing — 75. fundur
 5. mars 2019.
sérstök umræða.

málefni lögreglunnar.

[14:06]
Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir að eiga við mig orðastað enn einu sinni um málefni lögreglunnar. Þetta er líklega í þriðja eða fjórða skiptið sem ég á orðastað við dómsmálaráðherra um málefni lögreglunnar og ekki að ófyrirsynju, vegna þess að þó að margt hafi færst til betri áttar núna undanfarin ár — nefni ég þá sérstaklega stóreflingu á kynferðisbrotadeild lögreglunnar og rannsókn á slíkum brotum, og tölvuafbrotadeild lögreglunnar — er einn þáttur sem situr enn eftir, það er það sem við köllum sýnilega löggæslu.

Árið 2007 voru u.þ.b. 374 lögreglumenn við störf á höfuðborgarsvæðinu en árið 2017 voru þeir 307, plús náttúrlega að orðið hefur mikil íbúafjölgun á þeim tíma. Það voru sem sagt 513 íbúar á hvern lögreglumann árið 2007 en 706 árið 2017, þ.e. 30% fjölgun íbúa á hvern lögreglumann. Það er fyrir utan stórfjölgun ferðamanna til Íslands, sérstaklega hérna inn á höfuðborgarsvæðið þar sem flestir ferðamenn koma við.

Og hvað þýðir það? Það þýðir að vakt sem áður taldi 21 mann telur núna sex. Og það þýðir að þrátt fyrir það sem búið er að gerast í öðrum deildum lögreglunnar, og þá tala ég aftur um kynferðisbrotin og tölvudeildina, og með fullri virðingu fyrir því sem Schengen-samstarfið lagði okkur á herðar suður á Keflavíkurflugvelli, þá vantar okkur enn 80 lögreglumenn hér á höfuðborgarsvæðið. Hvað gera 80 menn á höfuðborgarsvæðinu? Þeir skaffa 16 menn á hverja vakt — 16 manns, þessir 80. Það kostar milljarð. Það er dýrt, en þetta eru þeir lögreglumenn sem eru bæði í þjónustu við borgarana, gæta öryggis þeirra og eru jafnvel í frumkvæðisrannsóknum. Í dag er þetta þannig að menn hafa jafnvel varla afl til þess að sinna útköllum og/eða ábendingum um ölvunarakstur, fíkniefnaakstur, um ökutæki sem hringsóla í kringum skóla í borginni. Menn hafa ekki afl í að sinna slíkum útköllum. Ef maður lendir í árekstri upp á Kringlumýrarbraut, jafnvel þar sem umferð truflast af umferðaróhappinu, þarf maður að bíða í þrjú korter eftir lögreglumanni, ef hann kemur þá á annað borð. Það er óþolandi, hæstv. dómsmálaráðherra.

Það birtist líka í öðru. Það birtist í því að vegna mannfæðar geta menn ekki farið jafn öflugir í útköll og áður var. Í útköll þar sem áður fyrr fóru jafnvel fimm saman, fara nú tveir, og annar þeirra meiðist gjarnan. Meiðsli í lögreglunni, meiðsli í liðinu eru orðin miklu meiri og almennari og algengari en áður var. Það er óþolandi. Til hvers hefur það leitt? Það hefur leitt til þess að orðið hefur flótti úr stéttinni, verulegur flótti úr lögreglumannastéttinni. Menn eru að brenna út. Þeir gera sitt besta. Og á meðan á öllu þessu stendur hlaðast upp óafgreidd lögreglumál á borðum rannsóknarlögreglumanna. Það er óþolandi ástand og við því verður að bregðast.

Þess vegna vildi ég taka þessa umræðu enn og aftur við hæstv. dómsmálaráðherra og brýna hana til þess að sjá til þess að á fjárlögum næsta árs verði myndarleg aukning til sýnilegrar löggæslu, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu, þannig að því ófremdarástandi linni sem hér er núna.

Ég vil nefna eitt dæmi í viðbót. Heimilisofbeldismálum hefur fjölgað mjög mikið undanfarið. Ef slíkt tilvik kemur upp í byrjun vaktar hjá lögreglumönnum eru einn til tveir menn bundnir af því eina máli eiginlega allan vaktartímann, vegna þess að það þarf jú að taka skýrslu, það þarf að forða þolandanum og það þarf að fá ofbeldismanninn í burtu. Það tekur heila vakt. Það rýrir vaktina um einn til tvo menn. Þá eru eftir fjórir á öllu höfuðborgarsvæðinu. Það verður að gera gangskör í þessum málum, hæstv. ráðherra. Það verður að gera hér alvörubót á.



[14:11]
dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að bera upp enn og aftur, svo að ég vitni í hans eigin orð, málefni lögreglunnar við sérstaka umræðu. Það er mér ánægja að fá að ræða málefni lögreglunnar reglulega og þau eiga auðvitað að vera fastur liður á dagskrá, eins og sagt er.

Hv. þingmaður gerir að sérstöku umræðuefni hina sýnilegu löggæslu. Ég held að ég hafi farið ágætlega yfir það við síðustu sérstöku umræðu við hv. þingmann hvernig hlutirnir hafa þróast í löggæslunni, m.a. með þeim hætti að löggæsla er orðin miklu umfangsmeiri og flóknari en svo að hún snúist aðeins um lögreglumenn á fæti, ef má kalla það svo, hina sýnilegu úti á götum þéttbýlisins og jafnvel dreifbýlis og uppi á hálendi, og ekki hægt að einblína eingöngu á fjölda þeirra. Ég nefndi einmitt þá að glæpir hafa nánast færst frá raunheimum yfir í netheima. Það er einn angi af löggæslu sem við höfum þurft að glíma við og bregðast við með sérhæfingu lögregluliða og einnig með því að fá til liðs við okkur sérfræðinga á ýmsu öðru sviði en beint löggæslusviði. Það er hins vegar alveg rétt hjá hv. þingmanni að sýnileg löggæsla skiptir mjög miklu máli, enda höfum við verið að fjölga sýnilegum lögreglumönnum verulega undanfarin ár.

Mig langar að nefna þetta í tengslum við löggæsluáætlun sem liggur hjá mér á borðum til yfirlestrar og mun ég leggja fram á næstu dögum löggæsluáætlun sem hefur verið í vinnslu í ráðuneytinu um nokkurt skeið. Þar er sérstaklega lögð áhersla á greiningu á mannaflaþörf og við komumst að því, m.a. í samstarfi við lögreglustjóra úti um allt land sem hafa unnið með okkur að þeirri áætlun, að ekki er nóg að skoða þann fjölda lögreglumanna sem hefur verið fram til þessa. Löggæsluþörfin hefur breyst og hugmyndafræði varðandi mönnun lögregluembætta mun í áætluninni byggjast í grunninn á markmiðum er varða í fyrsta lagi neyðarútkallsþjónustu, í öðru lagi afbrotamannavarnir og í þriðja lagi rannsóknir.

Svo að ég veiti þingheimi smá innsýn inn í þá löggæsluáætlun, sem hefur þó ekki verið lögð fram, er í henni lögð áhersla á að 67% af mannafla lögreglunnar sé tilkippilegur vegna neyðarútkallsþjónustu, 10% af mannaflanum vegna afbrotavarna og 23% vegna rannsókna. Þetta á við á hverjum tíma.

Ég vil nefna líka að á undanförnum árum hefur þeim starfsmönnum lögreglunnar fjölgað sem ekki eru lögreglumenntaðir, t.d. sérfræðingum á ýmsum sviðum. Þeir koma ekki fram í tölunni sem hv. þingmaður nefnir, en hann vísar til 712 lögreglumanna á síðasta ári. Ég bendi á að orðið hefur lítils háttar fjölgun þó að segja megi að hún hafi staðið í stað á höfuðborgarsvæðinu, af því að hv. þingmaður vék sérstaklega að því svæði. Fjöldi menntaðra lögreglumanna hefur staðið í stað en hins vegar hefur fjölgað verulega á meðal afleysingamanna. Það á kannski rætur að rekja til breytinga á menntun lögreglumanna og nýliðunar í störfum, sem við erum nú að fara yfir hvernig hefur reynst. Við höfum hins vegar lagt mikla áherslu á að tryggja nýliðun með því t.d. að fjölga plássum í náminu við Háskóla Íslands, sem er diplómanám eins og menn þekkja, og ýmsum öðrum slíkum atriðum.

Þetta horfir allt því til bóta og eins og ég hef margítrekað og ætla að gera enn og aftur hafa fjárframlög til málefnasviðs löggæslunnar aukist verulega. Á þessu ári er hækkun um 1,5 milljarða frá því í fyrra sem rennur til lögreglunnar og ekki síst til fjölgunar sýnilegra löggæslu með vísan til fjölgunar ferðamanna á ýmsum svæðum. Þó fer einnig stór hluti þeirra fjármuna í að efla aðgerðir gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Það er svo sannarlega ekki sýnileg löggæsla en hins vegar afar brýnt að hún verði efld.



[14:17]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hefja hér enn á ný umræðu um stöðu lögreglunnar í landinu enda tel ég þá umræðu þarfa, hvenær sem hún fer fram. Við verðum að tryggja að löggæslan hér sé með viðunandi móti.

Fram kom í máli hæstv. ráðherra að það stæði nú allt til bóta, að lögreglumönnum hefði fjölgað og að löggæsla hefði batnað umtalsvert. En eftir samtöl mín undanfarna daga við þá sem starfa úti á akrinum kemur í ljós að hin almenna löggæsla er í rauninni enn á sama stað og hún var hér fyrir nokkrum árum þegar kvartað var hvað mest undan álagi á hinn almenna lögreglumann og því hversu illa gengi að sinna lögbundnu hlutverki lögreglunnar.

Ríkisstjórnin hefur vissulega farið í ákveðnar aðgerðir þegar kemur að sérverkefnum, að efla kynferðisbrotadeild lögreglunnar, sem var heldur betur búið að kalla eftir í mörg ár. Er það mjög gott. Rannsóknir á þeim málum ættu nú að fara að komast á eitthvert skrið þannig að ekki vari árum saman bið eftir úrlausn í þeim málum.

En það breytir ekki því að oft og tíðum eru t.d. á höfuðborgarsvæðinu og víðar um land, eftir því sem ég heyrði, vaktir þannig mannaðar að það er einn fagmenntaður lögreglumaður á vakt og svo fjöldi svokallaðra H-manna, sem eru þá ekki menntaðir lögreglumenn. Þessir einstaklingar eiga að sinna útköllum. Fyrir utan það eru vaktirnar svo undirmannaðar að það eru eingöngu allra brýnustu verkefni sem hægt er að sinna á nauðsynlegum tíma.

Ég held að ef við ætlum að sinna þessu eins og öðru nægilega þurfum við bæði að fjölga verulega (Forseti hringir.) menntuðum lögreglumönnum sem og að auka verulega fjármagn í almenna löggæslu.



[14:19]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Það er mikilvægt að ræða málefni lögreglunnar og áhugaverðir þeir áherslupunktar sem hér hafa verið lagðir til grundvallar sem snúa m.a. að sýnileika í löggæslunni og mönnun lögreglunnar.

Ég held að sýnileiki lögreglu sé mjög mikilvægur, sérstaklega á sumum sviðum. Mig langar einkum að nefna það sem snýr að umferðaröryggi. Ég held að það hafi hreinlega áhrif á hegðun okkar að hafa lögregluna sýnilega í umferðinni.

En svo horfir kannski annað við gagnvart öðrum þáttum löggæslustarfanna varðandi þá ímynd sem sýnileikinn skapar þar. Sem dæmi langar mig að nefna það sem var svolítið í umræðunni hér sumarið 2017 og við ræddum talsvert mikið í samfélaginu, þ.e. sýnileika vopnaðrar lögreglu. Ég held að það sé ekki til þess fallið að borgararnir finni til öryggis heldur geti það jafnvel kallað fram ótta. Það er atriði sem við þurfum að hafa í huga.

Mönnun lögreglunnar skiptir líka miklu máli. Hæstv. dómsmálaráðherra fór ágætlega yfir það hvernig starf lögreglunnar hefur verið að breytast. Í umræðu hér fyrir rétt rúmu ári síðan fjallaði ég um kyn og hvernig það skiptir máli þegar kemur að löggæslumálunum. Það skiptir kannski ekki síst máli þegar kemur að kynferðisbrotamálunum þar sem konur eru yfirleitt þolendur en karlar frekar gerendur. Þess vegna þarf lögreglan að vera meðvituð um það.

En ég held líka að það sé mikilvægt að hafa lögreglumenn sem geta og hafa þekkingu á því að takast á við fjölbreytt samfélag, því að við erum (Forseti hringir.) orðin mjög fjölbreytt samfélag, að lögreglan hafi fjölbreyttan bakgrunn og geti tekist á við fjölbreyttar þarfir okkar sem í landinu búum.



[14:22]
Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Robert Peel, sem stofnaði fyrstu lögreglusveit nútímans, lagði fram níu lögmál fyrir góða löggæslu. Þau ættu allir að kynna sér. Ég vil draga sérstaklega fram í þessari umræðu tvær reglur, þriðju og níundu. Þriðja löggæslulögmál Peels segir, með leyfi forseta:

„Til að afla sér og viðhalda virðingu almennings þarf lögreglan að tryggja vilja og samvinnu almennings til að fylgja lögum.“

Það var gert hér á árum áður með starfi forvarnadeildar lögreglunnar. Hún var lögð af í sparnaðarskyni fyrir rúmlega 10 árum og með henni rofnuðu gríðarlega mikilvæg tengsl milli lögreglumanna og ungmenna. Tækifæri til að upplýsa ungmenni landsins um lögregluna og samfélagið og gagnkvæma virðingu innan þess hvarf við þetta að vissu leyti og einnig tengsl lögreglumanna við nærumhverfið, sama hvort það sneri að uppljóstrun brota eða snemmtækri íhlutun þegar börn stefndu út af sporinu.

Níunda löggæslulögmál Peels segir, með leyfi forseta:

„Skilvirkni lögreglu er mæld í lágri afbrotatíðni og fáum frávikum frá allsherjarreglu en ekki út frá sýnileika löggæslunnar við að takast á við verkefni sín.“

Þegar óskað er eftir því að löggæsla verði sýnilegri er fyrst og fremst verið að óska eftir því að almenningur óttist lögregluna meira. Það er fasísk hugmynd um tilgang löggæslu. Henni hafna Píratar á sama hátt og Róbert Peel sjálfur.

Við þurfum frekar að huga að andlegu heilbrigði löggæslumanna, streituviðbrögðum og kulnun innan þeirra raða. Við þurfum að nota það sem viðmið fyrir hvort nægilegt fjármagn og þar af leiðandi nægileg mönnun sé í lögreglunni. Í dag er ekki svo.

Ef við viljum að löggæsla á Íslandi verði sterk, skilvirk og í samræmi við góðar löggæsluhefðir þarf að tryggja næga mönnun. Við þurfum að tryggja öfluga samvinnu við borgarana og að lögreglan sjálf njóti þeirrar virðingar sem hún á skilið frá stjórnkerfinu.



[14:24]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir að koma málefnum lögreglunnar á dagskrá í þinginu og hæstv. dómsmálaráðherra fyrir að vera til svara. Eins og fram hefur komið gegnir lögreglan lykilhlutverki í öryggis- og viðbragðskerfi samfélagsins. Lögreglan er ein af grunnstoðum ríkisins og því fagna ég áformum um framlagningu og innleiðingu löggæsluáætlunar sem hæstv. ráðherra minntist á í ræðu sinni.

Skilgreining á öryggis- og þjónustustigi er mikilvæg til að átta sig á eðli og umfangi lögreglustarfsins og öll áform um gagnsæi á kostnaðarliðum eru af hinu góða en verkefnin eru fjölbreytt og miskostnaðarsöm.

Einn kostnaðarliður er rekstur bíla, en ég veit til þess að unnið er að endurskipulagningu í bílamálum. Það er afar mikilvægt og í raun stóra málið að því er mér er sagt. Finni menn leiðir til að ná kostnaði niður getur svigrúm til sýnilegrar löggæslu aukist verulega.

Allt kunnáttufólk á sviði löggæslu sem ég hef rætt við leggur áherslu á mikilvægi sýnilegrar öryggisgæslu. Auðvelt er að benda á átak á norðvestursvæði sem fólst í aukinni umferðargæslu og sýnileika. Það skilaði sér í 26% fækkun umferðarslysa. Sýnileikinn þarf ekki eingöngu að vera á stofnvegum heldur líka inni í hverfum, í þéttbýli, á ferðamannastöðum, á hálendinu og í miðbæ Reykjavíkur. Það er mikilvægt að lögreglumaðurinn þekki hverfið sitt, fólkið sitt og svæðið sem hann sinnir. Til að þetta gangi eftir vantar aukið fjármagn og fleira fólk. Því fagna ég öllum áformum um fjölgun lögreglumanna.

Hæstv. forseti. Fyrirkomulagi lögreglunáms hefur verið breytt og enn er eitthvað í að við sjáum hvernig það kemur út. En nú eru kynjahlutföll í fyrsta skipti jöfn í skólanum og spennandi verður að sjá hvort og þá hverju það breytir. En um allt land erum við svo heppin að hafa gott fólk sem er að gera sitt besta og kannski má segja að fólk sé að vinna kraftaverk oft og tíðum undir afar miklu álagi.



[14:26]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Það er nauðsynlegt að ræða lögregluna og aðbúnað að henni og hlutverk hennar í samfélaginu. Umræðan er þörf og ber að þakka hv. málshefjanda fyrir að taka hana upp.

Hér er talað um sýnilega löggæslu. Vissulega er hún mikilvæg en sýnu mikilvægara er þó að við höfum raunverulega löggæslu, þ.e. löggæslu sem er skilvirk og um leið vönduð. Auðvitað má skipta því í einhverja hluta, til að mynda sýnileg í þeim skilningi að á vegum úti verði menn varir við lögreglu stöku sinnum þannig að þeir freistist ekki til að keyra of hratt o.s.frv. En aðalatriðið er, ekki síst vegna þess að eðli glæpa hefur breyst svo mikið, að við þurfum að hafa lögreglu sem getur tekist á við nýja tegund glæpa og gætt þannig öryggis borgaranna. Þess vegna er sá þáttur sem lýtur að forvörnum og rannsóknum afar mikilvægur.

Lögreglan hefur auðvitað alls konar tól og tæki. Eitt af því sem er mjög mikilvægt í því samhengi og við ætlum að ræða síðar í dag er Schengen-samstarfið. Ég hjó eftir því að hv. málshefjandi ræddi um Schengen-samstarfið sem bagga. Ég held að það sé algerlega fjarri öllu lagi. Þvert á móti held ég að Schengen-samstarfið færi lögreglunni, og þar með Íslendingum öllum, tól og tæki til að takast á við alls konar vandamál sem hún hefði engin færi á að takast á við ein og sér.



[14:29]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir þessa umræðu. Ég var lögreglumaður um tvítugt í nokkur ár og það að mæta í ræðustól Alþingis er mun auðveldara en nokkurn tímann að mæta í dagvinnu sem lögreglumaður. Í dagvinnu sem lögreglumaður hefur maður ekki hugmynd um hvað bíður manns. Þetta var hættulegt starf og illa borgað miðað við þá áhættu sem menn voru í.

Hér áður fyrr var alltaf verið að tala um að lögreglan væri illa mönnuð og hún er illa mönnuð í dag. Það þarf að bæta við. Við erum með mun meiri vandamál núna en þegar ég var á sínum tíma í lögreglunni. Við erum með ölvunarakstur, eiturlyfjaakstur og ölvunar- og eiturlyfjaakstur. Þegar maður keyrir núna á milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur eða í Hafnarfirði er eitt sem maður tekur alltaf eftir, lögreglubíll sést ekki orðið. Það er undantekning að maður sjái lögreglubíl, það er undantekning að maður sjái hraðamælingar. Maður sér aftur á móti gífurlegan hraðakstur þegar það er hægt, þegar götur eru ekki stíflaðar.

Það þarf að stórfjölga í lögreglunni. Það er talað um 1 milljarð. Sá milljarður væri fljótur að borga sig í færri slysum. Ég held að eitt það besta sem við gætum gert væri að manna lögregluna þannig að hún geti sinnt starfi sínu fullkomlega. Ég held að það skili sér margfalt til baka, bara í fækkun umferðarslysa værum við búin að ná þeim kostnaði margföldum til baka.



[14:31]
Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. málshefjanda, Þorsteini Sæmundssyni, fyrir að hefja máls á málefnum lögreglunnar og tel að umræða um hana verði seint of mikil. Hér er rætt um sýnilega löggæslu sem er löggæsla sem er til þess fallin að auka öryggistilfinningu borgaranna og hefur að auki víðtæk fyrirbyggjandi áhrif.

Lögreglan hefur lengi kallað eftir auknum mannskap og þrátt fyrir að í tíð núverandi hæstv. ráðherra hafi ástandið batnað verður að taka mið af því að fjöldi lögreglumanna hefur um langt árabil, þar til nú, verið á niðurleið í bæði fjölda en ekki síður ef miðað er við aukin verkefni lögreglu, íbúafjölgun og ekki síst fjölda ferðamanna.

Ég vil í upphafi máls míns nefna sérstaklega varhugaverða stöðu lögreglunnar utan þéttbýlis þar sem lögreglumenn þurfa oft og tíðum að vera einir, fara einir í útköll og vita ekkert hvað bíður þeirra. Ég tel að þar þurfi að gera betur.

Lögreglan þarf að vera nægilega mönnuð til að sinna frumkvæðisvinnu, en á því hefur verið skortur á umliðnum árum vegna þess að lögreglan hefur verið svo hlaðin verkefnum að mestallur tími hins almenna lögreglumanns fer í að sinna útköllum.

Þá vil ég að ræða um forvarnastarf lögreglu sem ég tel að þurfi að leggja miklu meiri áherslu á. Sá þáttur í starfi lögreglunnar hefur því miður verið vanræktur á síðustu árum og jafnvel lengur. Það er mikilvægt að lögreglan hafi mannskap til að vera í tengslum við nærumhverfið, ungmenni í hverfum og bæjum, þeir viti hvar skórinn kreppir og hvaða hættur steðja að. Mikilvægt er að geta gripið inn í nógu snemma, t.d. þegar unglingarnir eru að feta sín fyrstu skref í neyslu ólöglegra vímuefna, og skipta sköpum góð tengsl lögreglu á þeim tíma. Þá er ekki að verra að lögreglan hafi áður aflað sér jákvæðs viðhorfs meðal barna og ungmenna á viðkomandi svæði.

Herra forseti. Við verðum að leggjast á eitt með hæstv. ráðherra að efla lögregluna og búa henni viðunandi starfsskilyrði.



[14:33]
Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Góð og öflug löggæsla er mikilvæg í hverju samfélagi til að skapa öryggi. Um leið og við íbúar upplifum öryggisleysi hefur það mjög mikil áhrif á allt líf okkar.

Nú liggur fyrir að frá 2013 hefur verið sett aukið fé til löggæslu og löggæslan hefur batnað. Það er ekki svo að stjórnmálamenn ákveði almennt hvernig lögreglan ver þeim fjármunum heldur meta embættin sjálf hvað sé nauðsynlegt á hverjum tíma og hvar áherslurnar liggi. Við erum auðvitað á góðri vegferð með þau mál.

Menn hafa talað um að fjöldi lögreglumanna sé minni en taka verður með í reikninginn að löggæsla er með öðrum hætti en áður, tæknin hefur breyst o.s.frv.

Hvað varðar sýnilega löggæslu þá er hún, a.m.k. hvað mig varðar, mjög sýnileg. Ég er stöðvaður mjög reglulega og látinn blása þrátt fyrir afar vandaðan akstur Ég hef því verulegar efasemdir um að aðalatriðið sé að lögreglan sé sýnileg heldur frekar að hún sé vel tækjum búin og lögreglumenn hafi góða menntun og þekkingu á því sem þarf að gera í starfinu.



[14:35]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Álag á lögregluna hefur vaxið undanfarin ár og um það er lítið deilt. Með fjölgun ferðamanna og afskiptum lögreglunnar af ferðamönnum vegna dauðsfalla, slysa og umferðarlagabrota og öllum þeim tíma sem í slík mál fer er hætta á að öryggi íbúanna sitji á hakanum hjá lögreglumönnunum vegna þess að þeim hefur ekki fjölgað í takt við fjölda mála.

Víðáttumikil þjónustusvæði sem fáir sinna eru einnig áhyggjuefni. Álagið hefur auk þess vaxið á þeim svæðum þar sem íbúum hefur fjölgað mikið á stuttum tíma. Það þarf að fjölga lögreglumönnum en það er ekki nóg. Það þarf að styrkja allt stoðkerfið í kringum lögregluna, fjölga fólki sem tekur við málum frá lögreglumönnunum og kemur þeim í gegnum kerfið svo færri þurfa að bíða lengi eftir lausn eða afplánun.

Lögreglan hefur unnið með félagsþjónustu sveitarfélaga að heimilisofbeldismálum og málefnum barna og sett þau í forgang. Það er vel, en svo að enn betri árangur náist á því sviði er mikilvægt að um allt land séu starfandi teymi sem vinna markvisst saman við það að verja börn gegn hvers konar ofbeldi eða vanrækslu, teymi skipuð fólki frá lögreglu, heilsugæslu og barnaverndarnefndum þar sem allir tala saman og ákveða aðgerðir.

Lögreglan þarf einnig að fá tíma og mannafla til að vinna forvarnastarf. Lögreglan vinnur oft með fólki sem er á vondum stað í lífinu og það hefði mátt forða því frá því ástandi ef það hefði fengið viðeigandi aðstoð áður en mál þess lentu í höndum lögreglu.

Til að sinna góðum og öflugum forvörnum þyrfti að bæta sálfræðingum og félagsráðgjöfum við starfslið á lögreglustöðvunum eins og víða þekkist erlendis, sérfræðingum sem geta unnið með fólki sem er á slæmum stað í lífinu en einnig til að afla gagna og greina frávik sem mætti bregðast við. (Forseti hringir.) Það er til mikils að vinna af því að með öflugu forvarnastarfi löggæslu á netinu, þverfaglegri teymisvinnu og snemmtækri íhlutun er hægt að forða skaða sem fólk veldur eða verður fyrir á lífsleiðinni.



[14:38]
Fjölnir Sæmundsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir nauðsynlega umræðu og ráðherra fyrir svör hennar. Umfang löggæslu er eitt af þeim málum sem eru mér hugleikin, enda er ég einn af þeim mönnum sem eru úti á akrinum eins og hv. þm. Helga Vala Helgadóttir nefndi. Ég er sem sagt starfandi lögreglumaður.

Ég vil alls ekki gera lítið úr þeirri fjölgun sem hefur verið undanfarið í lögreglunni en hún er ekki næg. Reyndar bætti hv. Þorsteinn Sæmundsson dálítið í tölu lögreglumanna og talaði um 712. Ég held að mínar tölur séu bara 645. Ég held að ráðherrann sé með það sama í sínu svari. Á höfuðborgarsvæðinu eru 272 lögreglumenn. Þá tökum við alla rannsóknarlögreglumenn með.

Það sem ég vil vekja athygli á er að Vinnueftirlit ríkisins hefur bent á aukin slys á lögreglumönnum. Vinnueftirlitið benti tvisvar á það með stuttu millibili og lýsti sérstökum áhyggjum sínum af þeirri stöðu sem þeir sögðu helgast af gegndarlausum niðurskurði og manneklu lögreglu undanfarin ár.

Samkvæmt mínum tölum hefur ferðamönnum á Íslandi fjölgað um u.þ.b. 200% á undanförnum árum. Nefnt var áðan að víða eru lögreglumenn einir í bíl. Það á t.d. við í Vík og á Klaustri. Ég hringdi í lögreglustöðina á Hvolsvelli áðan og fékk það staðfest. Nú eru lögreglumenn þar að keyra einir í bíl og eins og hefur verið nefnt áður hafa alvarlegustu slysin orðið þarna undanfarið.

Lögreglan treystir stundum á sjálfboðaliða í störfum sínum til að loka vettvangi. Það er ekki langt síðan það kviknaði í í Skeifunni og lögreglan þurfti að kalla til hjálparsveitirnar til að hjálpa sér að loka vettvangi vegna þess að ekki voru nógu margir lögreglumenn. Þetta gengur auðvitað ekki.

Nefnt var að það (Forseti hringir.) vantaði inn í forvarnadeildirnar og er miður að þær hafi verið lagðar niður.



[14:40]
Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Lögreglumenn og -konur á Íslandi eru of fá til að takast á við þau verkefni sem ríkið felur lögreglunni. Álagið er of mikið og er skýringuna að miklu leyti að finna í fjárlögum. Lögreglan fær ekki fjármagn sem þarf til að halda úti löggæslu. Til að embættin geti sinnt löggæslu þarf einfaldlega að úthluta þeim fjármagni til þess, og ekki bara í einhver sérverkefni, eins og hefur verið hátturinn hjá hæstv. dómsmálaráðherra undanfarin ár, heldur þarf að auka almennt fjármagn til lögreglu.

Svo gætum við t.d. hætt að eyða púðri í að eltast við neytendur fíkniefna. Þá er ég ekki einu sinni að tala um lögleiðingu fíkniefna heldur aðeins að refsa ekki þeim sem eru með neysluskammta á sér. Slíkt myndi leiða af sér mannúðlegri nálgun þar sem einstaklingar sem eiga við fíknivanda að stríða myndu fá viðeigandi heilbrigðisaðstoð í stað refsingar. Sú nálgun myndi einnig losa um verkefnastöðu lögreglumanna til annarra verka.

Gera þarf skýrari grein fyrir skipulagi löggæslu á landinu öllu. Ríkislögreglustjóri gegnir eftirlitshlutverki gagnvart öðrum embættum ásamt því að sinna löggæslu í formi sérsveitar og fjarskiptamiðstöðvar. Eftirlit með þessum sviðum er á sömu hendi og framkvæmdirnar. Slíkt býður heim hættunni á spillingu. Auðvitað ætti slíkt eftirlit að vera algjörlega sjálfstætt og með burði til að sinna starfinu af kostgæfni.

Forseti. Það er ekki öfundsvert starf að vera í lögreglunni í dag. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið er gríðarleg óánægja innan lögreglunnar, sérstaklega hvað varðar stöðu almennrar löggæslu. Enginn hvati er til að haldast í starfi sem almennur lögreglumaður. Laun lögreglumanns hækka ef hann verður varðstjóri og dagvinna rannsóknardeildanna heillar einnig marga. Það gerir það að verkum að nýliðar í lögreglunni hverfa eins fljótt og hægt er til annarra starfa innan lögreglunnar, sem hefur orsakað mannfæð og reynsluleysi hjá fremstu víglínu lögreglunnar. Þessu verður að breyta.

Ég gæti haldið lengi áfram enda ærið tilefni til, en látum þetta duga í bili. Vonandi mun ríkisstjórnin sjá að sér við gerð næstu fjármálaáætlunar og laga þessa vankanta.



[14:42]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni, fyrir sérstaka umræðu um málefni lögreglunnar, aðallega um sýnilega löggæslu en líka margt annað. Ég vil jafnframt þakka hæstv. dómsmálaráðherra Sigríði Á. Andersen fyrir innlegg hennar og taka undir með hæstv. ráðherra og málshefjanda. Það er mikilvægt sem þau draga fram, að við ættum alltaf að hafa í huga þegar við erum að velta fyrir okkur skipulagi og fjárframlögum til löggæslu það lykilhlutverk sem hún gegnir sem ein af grunnstoðum ríkisins í öryggismálum og sem viðbragðskerfi samfélagsins. Kannski er það þess vegna sem við höfum á undanförnum árum séð miklar breytingar á skipulagi lögreglunnar með fækkun og sameiningu og mikilvægt að við skilgreinum á sama tíma eðli og umfang starfans. Mælingar á öryggis- og þjónustustigi eru okkur nauðsynlegar þegar við tjáum okkur um það hvort fjárveitingar eru nægjanlegar eður ei, alltént þannig að við tryggjum sem hagkvæmasta nýtingu fjármuna. Þess vegna var mjög mikilvægt að fá innlegg frá hv. þm. Fjölni Sæmundssyni beint af vettvangi, ef svo má segja. Það er þó staðreynd að við höfum aukið framlög hér allt frá árinu 2013, eins og hv. þm. Brynjar Níelsson benti á. Á sl. fjórum árum höfum við aukið framlög verulega, um 5,3 milljarða kr., sem er 56% hækkun, á sama tíma og neysluverðsvísitala hefur hækkað um 10% og launavísitala um 32%.

Það er því um þó nokkra raunhækkun að ræða, 4,3 milljarða umfram neysluverðsvísitölu og 2,3 milljarða umfram hækkun launavísitölu. Þó er alveg rétt (Forseti hringir.) að bæði með aukinni tækni og öflugri upplýsingakerfum og svo harðari heimi er sýnileg löggæsla, frumkvæðislöggæsla og ýmislegt af því sem fram hefur komið í umræðunni mjög mikilvægt.



[14:44]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Mig langar til að vekja athygli á því að í bráðabirgðatölum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sem eru bráðabirgðatölur fyrir árið 2018, kemur fram að það hefur orðið umtalsverð fjölgun kynferðisbrotamála sem eru til meðferðar hjá lögreglunni. Voru þau 386 á síðasta ári, 300 árið þar á undan og 277 árið 2016. Í þessum málaflokki er því æ meira undir. Nauðgunarmálum hefur fjölgað úr 124 árið 2016 upp í 187 á síðasta ári.

Þetta eru skuggalegar tölur og það er mjög brýnt að lögreglan geti sinnt sínum þætti málsins, þ.e. rannsókninni, með öflugum hætti. Ég veit að meira fé og mannafli hefur verið lagt í það en það þarf að gera enn betur til að ná málsmeðferðarhraðanum. Það gildir þá um allt kerfið, ekki bara lögregluna, til að hægt sé að hraða málsmeðferðinni. Það er ekki síður mikilvægt að efla skilning og vitneskju allra aðila í réttarvörslukerfinu um þessi alvarlegu brot.

Ég leyfi mér að minna á þingsályktunartillögu sem undirritaður hefur lagt fram sem beinist að því að leggja fé inn í réttarvörslukerfið til þess að fræða og geta þá undirbúið lögregluna (Forseti hringir.) betur undir rannsóknir og forvarnastarf sem lýtur að kynjafræðum, kynfrelsi og sjálfsákvörðunarrétti og þýðingu samþykkis í kynferðislegum samskiptum því að það er mjög nauðsynlegt að lögreglan, eins og aðrir, skilji og þekki þessi atriði mjög vel.



[14:47]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Frá 2007 hefur lögregluembættum fækkað úr 26 í 15. Það voru lögreglustöðvar í Hafnarfirði, Kópavogi og víða úti um land sem er búið að leggja niður. Því er nú verr og miður. Það er ekki ásættanlegt að fækka lögreglumönnum eins og hefur verið gert. Það hefur stórfækkað í lögreglu undanfarin ár. Það sem er kannski alvarlegast í því er að enn þann dag í dag sé uppi sú staða að einn lögreglumaður geti farið og verði að fara í útkall. Ég tala af reynslu, það er alveg fáránlegt, það er stórhættulegt og það er verið að leika sér að eldinum eða að lífi og limum viðkomandi lögreglumanns. Ef þetta var slæmt áður fyrr er það enn þá hættulegra í dag. Við eigum að sjá til þess og hæstv. ráðherra á að sjá til þess að svoleiðis eigi sér ekki stað, sjá til þess að það séu að lágmarki tveir á bíl og í útköllum.

Síðan eru það kjör lögreglumanna. Þau eru ekki góð og hafa aldrei verið góð, ekki miðað við þá áhættu sem þeir taka, alls ekki miðað við það að þeir leggja undir líf og limi við að gæta öryggis okkar. Hitt er líka að við verðum að sjá til þess að sýnileg löggæsla verður sýnileg aftur. Hún er ekki sýnileg lengur.



[14:49]
Þorsteinn Sæmundsson (M):

Forseti. Ég þakka þessa umræðu og þakka innlegg hæstv. dómsmálaráðherra. Það er ekki svo að embættin hafi fengið peninga sem þau geta spilað úr sjálf vegna þess að þeir peningar hafa verið eyrnamerktir í ákveðin verkefni, og það er góðu heilli gert, kynferðisbrot o.s.frv. Þrátt fyrir að fjárheimildir hafi farið fram úr launavísitölu er það vegna þess að menn hafa verið að fara í ákveðin verkefni, landamæri, kynferðisafbrot, eins og ég sagði áðan, o.s.frv., ekki til þess að bæta í sýnilega löggæslu. Það segir sig sjálft að þegar þrír menn eru á næturvakt í hverfum á höfuðborgarsvæðinu sem telja 60.000 er það ekki nóg. Ég vildi óska þess að ég yrði fyrir áreiti af sýnilegri löggæslu í Reykjavík eins og kom fram áðan. Ég myndi fagna því mjög ef ég yrði látinn blása eða önnur afskipti væru höfð af mér reglulega.

Ég vil hins vegar benda á að í öllum brotum er aukning milli 2017 og viðmiðunaráranna þar á undan, alveg sama hvort við erum að tala um auðgunarbrot, brot gegn friðhelgi einkalífs, eignaspjöll, fíkniefnabrot, kynferðisbrot, nytjastuld, ofbeldisbrot, alls staðar er aukning. Þarna erum við að tala um brot sem hugsanlega er hægt að koma í veg fyrir, bæði með forvörnum og með sýnilegri löggæslu. Þess vegna brýni ég hæstv. ráðherra enn til þess að koma fram með í næstu fjárlögum umtalsverða aukningu á fjárheimildum til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, til að unnt verði að bæta í sýnilega löggæslu. Meðan það er svo, eins og ég segi, að forgangsraða þarf útköllum lögreglu í mál eftir alvarleika erum við ekki á góðum stað. Með virðingu fyrir fólki sem er ráðið til að vera á tölvum og til að vera í rannsóknarvinnu sendir maður ekki það fólk í útköll, hæstv. ráðherra, það er bara svoleiðis. Þess vegna vantar okkur lögreglumenn til að stækka vaktirnar, til að stækka stabbann sem getur farið í útköll (Forseti hringir.) og til að sýnileg löggæsla sé efld. Þeir einu sem óttast sýnilega löggæslu eru þeir sem hafa óhreint mjöl í pokahorninu.



[14:52]
dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem hefur snúist aðallega um sýnilega löggæslu. Þegar kemur að því að mæla árangur eða sýnilega löggæslu, hvort hún er til staðar eða ekki, held ég að t.d. sé ágætt að líta á brotin sem eru skráð hjá lögreglunni. Umferðarlagabrotum á höfuðborgarsvæðinu, svo að ég taki sem dæmi, fjölgaði milli áranna 2017 og 2018 um 18%. Ekki hafa verið fleiri skráningar umferðarlagabrota hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2009.

Þetta er kannski til marks um það hversu sýnileg löggæslan er vegna þess að umferðarlagabrot eru ekki skráð hjá lögreglu nema lögreglan verði vitni að þeim. Þetta er kannski ágætur mælikvarði á sýnileikann og bendir til þess að sýnileikinn hafi aukist við umferðareftirlit á þessum árum. Innbrotum fækkaði hins vegar miðað við meðaltal áranna 2009–2018. Öll innbrot eru tilkynnt lögreglu, geri ég ráð fyrir, eða langflest. Mögulega má þakka þessa fækkun auknum sýnileika lögreglu. Þjófnaðarbrotum fækkaði líka. Ég geri líka ráð fyrir að þjófnaðarbrot sé tilkynnt til lögreglu. Þeim fækkaði um 11% á milli áranna 2017 og 2018. Fækkunin var um 5% miðað við meðaltalið 2009–2016.

Stærstur hluti skráðra fíkniefnabrota er vegna frumkvæðisvinnu lögreglu. Skráðum fíkniefnabrotum fjölgaði umtalsvert á milli áranna 2017 og 2018, um 21%, vegna frumkvæðisvinnu lögreglu. Þarna mætti velta því fyrir sér hvort sýnileikinn hafi ekki líka áhrif. Ég tek hins vegar undir áhyggjur manna hvað varðar lögreglumenn á landsbyggðinni og almenna mönnun. (Forseti hringir.) Ég árétta það sem ég hef sagt, þetta horfir allt til bóta og það er ekki hægt að halda neinu öðru fram en að löggæslan hafi verið efld hér svo um munar frá árinu 2014 og sérstaklega síðustu tvö árin. Þar með talinn er sýnileiki lögreglunnar.