149. löggjafarþing — 77. fundur
 7. mars 2019.
leiðrétting lífeyris vegna búsetuskerðinga.

[10:40]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Umboðsmaður Alþingis sagði um búsetuskerðingarnar að það vantaði viðhlítandi lagaheimildir og niðurstaða nefndarinnar var á þá leið að þetta væri ekki í samræmi við lög. Þarna var verið að brjóta lög á öryrkjum vegna búsetuskerðingar og nú hefur Tryggingastofnun og ráðuneytið tekið undir að það sé svo rosalega flókið að reikna þetta út.

En Tryggingastofnun skal kanna hjá erlendum stofnunum hvernig staða og greiðslur eiga sér stað. Það er skylda hennar. Hún á ekki að geta borgað út 18.000, 80.000, undir 200.000 til um 1.000 einstaklinga samkvæmt lögum fyrr en búið er að kanna þetta mál.

En þegar á að fara að endurgreiða þetta er það svo flókið. Ef einstaklingur brýtur lög gagnvart banka, ríkinu, getur hann þá sagt: Heyrðu, ég ætla ekki að borga næstu 18 mánuði eða svo af því að það er svo flókið fyrir mig að reikna þetta út? Er það hægt? Nei.

Ég spyr ráðherra þá: Hvers vegna í ósköpunum er hægt að setja þetta upp gagnvart veiku fólki? Þetta eru veikustu einstaklingarnir, þetta er fólk sem ekkert hefur brotið af sér en komið er fram við það eins og glæpamenn fyrir það eitt að veikjast eða slasast. Það hlýtur að vera lágmarkskrafa að ráðherra komi hér upp og svari hvers vegna í ósköpunum þið borgið þetta ekki strax.



[10:42]
félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og segja það í upphafi að Tryggingastofnun hefur sett fram ákveðna áætlun um það með hvaða hætti farið verður í þessar leiðréttingar aftur í tímann. Gert er ráð fyrir því að hafa þurfi samband við systurstofnanir Tryggingastofnunar í þeim löndum þar sem einstaklingarnir sem þetta varðar hafa búið. Ég geri ráð fyrir því að Tryggingastofnun reyni að vinna það eins hratt og örugglega og kostur er.

Síðan er spurningin af hverju endurgreiðslan hefur ekki farið fram nú þegar. Það hafa farið fram samtöl á milli félagsmálaráðuneytisins annars vegar og fjármálaráðuneytisins hins vegar og eins milli félagsmálaráðuneytis og fjárlaganefndar Alþingis. Félagsmálaráðuneytið hefur fengið erindi þess efnis, bæði frá fjárlaganefnd og fjármálaráðuneytinu, að mikilvægt sé, varðandi allar breytingar á framkvæmd fjárlaga sem valda útgjaldaaukningu, að fyrir liggi að það rúmist innan ramma ráðuneytisins eða ramma Tryggingastofnunar á yfirstandandi fjárlagaári.

Við höfum unnið þetta mjög þétt með Tryggingastofnun og reyndar líka upplýst velferðarnefnd Alþingis, þar sem hv. þingmaður á sæti, með reglulegum hætti um þessi mál. Nú er verið að reyna að fá mynd á það hvaða upphæðir eru þarna sem þarf til leiðréttinga á yfirstandandi ári, næsta ári o.s.frv. Auðvitað liggur það ekki fyrir fyrr en við getum tekið einstaka mál fyrir og við þurfum að safna þessum upplýsingum.

Við þurfum síðan að afla okkur fjárheimilda fyrir þeim eða vera viss um að það rúmist innan þess fjárramma sem ráðuneytið hefur. Þetta er bara sá rammi sem við höfum búið okkur í kringum fjárveitingavald og framkvæmdarvald og hvernig það starfar. Það er enginn að segja að ekki verði farið í þessa vinnu heldur þurfum við að gera þetta með réttum hætti, bæði varðandi leiðréttinguna og eins það að afla okkur fjárheimilda til þess.



[10:44]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin en fjármálaráðherra er búinn að segja að það eigi að borga þetta, að fólk hafi átt þennan rétt og það eigi bara að borga þetta. Það þarf engar heimildir. Við erum að tala um fólk sem ætti að vera með 200.000 kr. útborgaðar en er kannski með 18.000, 20.000, 80.000. Af hverju borgið þið það ekki strax í dag? Það er búið að svindla á þessu fólki áratug aftur í tímann og það á inni helling þannig að það er engin áhætta fólgin í því að borga núna strax. Þetta fólk er að svelta, það glímir við vannæringu, þunglyndi, kvíða. Hvað annað þarf að gera? Eftir hverju er verið að bíða? Þetta er fólk sem hefur það verst í samfélaginu og ég get ekki skilið hvers vegna í ósköpunum þið byrjið ekki að borga því núna. Þetta er engin rosaleg upphæð, þetta er 200.000-kall. Viljið þið lifa af 200.000 kr.? Vilduð þið segja: Heyrðu, við getum ekki borgað ykkur 200.000 kr., þið verðið af lifa af 18.000 kr.?

(Forseti (SJS): Forseti minnir á að þingmönnum ber að beina máli sínu til forseta.)



[10:45]
félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Það er alveg rétt að þegar ríkinu ber skylda til að greiða eitthvað samkvæmt lögum ber því að gera það. Enginn dregur í efa þá skyldu. Hins vegar þarf að afla til þess fjárheimilda og að því höfum við verið að vinna. Það þarf líka að vita nákvæmlega hvaða upphæð þarf að borga hverjum og einum af þeim einstaklingum til að geta vitað hversu há heildarupphæðin er. Sú vinna er í gangi. Tryggingastofnun hefur upplýst með hvaða hætti verður unnið.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður vitnar til, ef það er skylda á ríkinu að greiða eitthvað breytist það ekki, hún hverfur ekki. Þess vegna hefur verið sagt nákvæmlega hvernig þetta verður gert, hvernig það verður vaxtareiknað aftur í tímann o.s.frv. En það þarf samt að afla fjárheimilda til þess og til þess þurfum við að vita hver upphæðin er. Við erum að reyna að vinna þetta eins hratt og við mögulega getum og við verðum að eiga samskipti við systurstofnanir Tryggingastofnunar. Við viljum borga þetta eins hratt og mögulegt er, viljum geta gengið frá málinu eins hratt og mögulegt er og koma því í eðlilegan farveg. Þar erum við hv. þingmaður hjartanlega sammála.