149. löggjafarþing — 77. fundur
 7. mars 2019.
eftiráleiðréttingar launa.

[10:54]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Verkföllin byrja á morgun svo við skulum líta á það hvernig hæstv. fjármálaráðherra hefur haldið á kjaramálum síðustu ár.

Í umræðu um verkföll heilbrigðisstarfsfólks 2015 sagði hæstv. fjármálaráðherra, með leyfi forseta:

„Það er ekki hægt að gera leiðréttingar tíu ár aftur í tímann. Það geta ekki allir endalaust fengið leiðréttingar gagnvart einhverjum öðrum viðmiðunarhópum.“

Ári síðar, 2016, lagði fjármálaráðherra síðan til að viðmiðunarárið á eigin launum væri 2006, þ.e. tíu ár aftur tímann. Það var sem sagt alveg hægt að leiðrétta launin hans tíu ár aftur í tímann en ekki annarra.

Í dag krefst fjármálaráðherra þess að launahækkanir forstjóra ríkisfyrirtækja séu dregnar til baka og það er gott, en fyrir tæpu ári greiddi hann atkvæði á Alþingi gegn tillögu Pírata um að launahækkanir þingmanna og ráðherra væru dregnar til baka til að fylgja almennri launaþróun, til að fylgja almenningi frá 2013, sem launafólk sem núna er að fara í verkfall hefur þurft að fylgja.

Ég fann lýsingu á þess konar hegðun í orðabók á vef Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Lýsingin er svona, með leyfi forseta:

„Það að þykjast vera betri eða göfugri en maður í raun er, t.d. með því að fordæma eitthvað í fari annars sem maður gerir sjálfur.“

Þetta er lýsing á orðinu hræsni. Mig langar því að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort honum finnst hann vera hræsnari fyrir að krefjast þess að launahækkanir annarra séu dregnar til baka eftir að hafa greitt atkvæði gegn því að hans eigin laun væru leiðrétt í samræmi við launaþróun launafólks og fyrir að segja við heilbrigðisstarfsfólk í verkföllum að ekki væri hægt að leiðrétta laun tíu ár aftur í tímann en leggja svo til ári síðar að hans eigin laun yrðu leiðrétt tíu ár aftur í tímann.



[10:57]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Það verður ekki sagt annað um þingmenn Pírata en að þeir færi umræðuna á þingi á hærra og hærra plan. Þegar menn eru ekki bornir þeim sökum að hafa beinlínis stolið af almannafé eru þeir kallaðir hræsnarar. Hv. þingmaður var auðvitað ekki að gera neitt annað en að segja að fjármálaráðherrann væri hræsnari eftir að hafa kokkað upp þau ósannindi að ráðherrann hefði lagt eitthvað til varðandi eigin laun. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Þingið hefur ekki fjallað um laun þingmanna eða ráðherra. Um það gilda lög. Kjararáð starfaði samkvæmt lögum þar til það var lagt niður. Tillagan sem nú liggur fyrir þinginu er um að byggja á niðurstöðu kjararáðs frá árinu 2016 og í krónutölu gildir enn þá úrskurður kjararáðs frá 2016. Hann hefur ekki breyst um eina krónu frá þeim tíma.

Í frumvarpinu sem nú er í þinginu er lagt til að sú krónutala haldi sér fram á mitt þetta ár. Við höfum fengið umsagnir um að við ættum að lengja það tímabil. Ég tel það vel koma til greina.

Það er hins vegar rangt þegar hv. þingmaður segir að þingmenn hafi notið hækkana á launum sínum umfram aðra hópa, jafnvel þótt einungis sé horft aftur til ársins 2013, eins og lesa má um í skýrslu sem gefin var út eftir samstarf stjórnvalda við alla aðila vinnumarkaðarins snemma á síðasta ári. Þar kom fram að með því að láta launin haldast óbreytt út árið 2018 væru þingmenn almennt — og þeir hópar sem heyra undir kjararáð — komnir á sömu launaþróunarlínu og aðrir hópar með 2013 sem viðmiðunartímabil.

Það er beinlínis rangt að kjör þingmanna og ráðherra og annarra sem heyra undir kjararáð hafi að meðaltali verið með (Forseti hringir.) allt öðrum hætti frá þeim tíma. Það er allt í lagi að horft sé lengra aftur í tímann, eins og til ársins 2006, sem ég hef bent á, og man ekki betur en að gert sé í þessari skýrslu, eða a.m.k. í þessari umræðu, og skoða hvernig þessir hópar hafa þróast yfir lengri tíma litið.



[10:59]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég átti einmitt samtal við hæstv. forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, um þetta. Hún segir: Jú, við fórum umfram almenna launaþróun, jafnvel þó að miðað væri við 2006. Allir formenn, m.a. Bjarni Benediktsson, hæstv. fjármálaráðherra, lögðu í forsætisnefnd fram tillögu um að kjörin yrðu lækkuð til að taka obbann af þessari hækkun. Það var bara ekki nóg, þetta var miðað við 2006. Þess vegna er ég að spyrja hæstv. fjármálaráðherra, af því að hann segir ári áður þegar hann er að setja lög á verkföll heilbrigðisstarfsmanna — ég er bara með þetta beint úr þinginu, ég mun setja þessa umræðu okkar upp í blogg með öllum linkum. Það er alveg ljóst að hæstv. fjármálaráðherra segir: Það er ekki hægt að gera leiðréttingar tíu ár aftur í tímann. Ári síðar leggur hann til að gerðar séu leiðréttingar tíu ár aftur í tímann þegar kemur að kjörunum. (Gripið fram í.) Jú, hæstv. fjármálaráðherra, þegar kemur að kjörunum. Þau voru lækkuð, við vorum að tala um þetta hérna í gær. Þessi umræða er öll til og þessi gögn eru öll til.

Akstursgreiðslurnar voru lækkaðar úr 90.000 kr. niður í 40.000 og starfskostnaður var lækkaður líka. Þetta var gert til að taka obbann af hækkuninni og þá var viðmiðunarárið 2006 (Forseti hringir.) þannig að það eru tíu ár. Það var hæstv. fjármálaráðherra ánægður með. Þegar við lögðum til að 2013 væri notað sem viðmið vildi hann það ekki. Þess vegna spyr ég af því að það er ekkert annað orð sem ég finn.



[11:00]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður verður að gera upp við sig hvað hann ætlar að tala um í þessari umræðu. Ætlar hann að tala um þau kjör þingmanna sem forsætisnefnd fjallar um, sem eru einkum starfstengdar greiðslur og endurgreiðslur á útlögðum kostnaði og aðrir slíkir þættir, eða ætlar hann að tala um heildarkjörin sem forsætisnefnd Alþingis er ekkert að fjalla um?

Þegar við spyrjum um hvernig kjörin hafa heilt yfir þróast held ég að langbesta gagnið til að byggja umræðuna á sé skýrslan sem var unnin í samstarfi við aðila vinnumarkaðar og kom út snemma á síðasta ári. Þar kemur fram að kjararáðshóparnir hafi að meðaltali, fái þeir enga hækkun það árið — (Gripið fram í: Þetta er …) sé sama þróun hjá þeim frá árinu 2013 og hjá almenna markaðnum og opinberum starfsmönnum.

Ég skal taka það fram að ákveðinn fyrirvari var gerður við þessa niðurstöðu af hálfu ASÍ en ég get bara ekki setið undir því að ég sem ráðherra eða aðrir þingmenn séum eitthvað að ráðskast með laun þingmanna vegna þess að það höfum við ekki verið að gera. (Gripið fram í.) Við erum ekki ákvörðunaraðili um eigin kjör. Við höfum útvistað því verkefni til kjararáðs og skapað lagagrundvöll fyrir það.

Nú liggur frumvarp (Forseti hringir.) fyrir þinginu um að byggja á niðurstöðunum frá 2016 og láta síðan framhaldið ráðast af meðalþróun opinberra starfsmanna.